Bloggfærslur mánaðarins, júní 2019

Kona tekur að sér skítastarf - frábært!

Mikil tímamót verða á Alþingi 1. september nk. þegar Helgi Bernódusson lætur af starfi skrifstofustjóra Alþingis og við þessu starfi æðsta embættismanns þingsins tekur Ragna Árnadóttir, fyrst kvenna, og má segja að 426 ára vígi karla sé að líða und­ir lok með komu Rögnu.

Já, það er þetta með vígi karla.

Karlar eru uppistaða námuverkamanna, byggingaverkamanna, slökkviliðsmanna, lögreglumanna, björgunarsveitamanna og hermanna. Þeir eru drepnir og limlestir miklu oftar í starfi en kvenmenn. Störf sem kvenfólk kærir sig ekki um eru skítug, hættuleg og ekki endilega sérstaklega vel launuð.

Nú er starf skrifstofustjóra Alþingis vissulega þægileg innivinna sem borgar vel og því skiljanlegt að kvenmaður hafi sóst eftir því, en þetta er samt erfitt starf sem krefst þess að manneskjan standi í lappirnar, eins og þegar fólk reyndi að brjótast inn í Alþingishúsið í kjölfar bankahrunsins. Það er heldur ekki víst að þetta starf henti þeim sem vilja eiga mikið félagslíf á öllum tímum ársins, og sé heldur ekki fyrir þá sem hugsa mikið um svokallað jafnvægi milli vinnu og heimilis og allt það. Starfið snýst um að þjóna Alþingi og það getur á köflum verið skítastarf. Og nú mannað af konu. Gott mál!


mbl.is Ragna rýfur karlavígi til 426 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýndarmennska auðmannanna

Hluti af ríkasta fólki Bandaríkjanna hvetur þá sem sækjast eftir embætti forseta Bandaríkjanna til að leggja til hækkun skatta á ofurríka. Með því verði hægt að draga úr ójöfnuði og berjast gegn loftslagsvánni.

Með öðrum orðum: Bandarískir auðmenn reyna hér að afvegaleiða stjórnmálamenn með einhverri vitleysu í von um að hljóta náð fyrir augum hins opinbera, t.d. þegar á að bjóða út stórar opinberar framkvæmdir.

Hærri skattar á þá ríku eru ekki góð leið til að fjármagna hið opinbera. Skattstofninn skreppur saman eða hverfur. Hins vegar er hægt að hækka skatta á þá ríku til að líta út fyrir að styðja við litla manninn á lágu laununum. Skattar verða alltaf að megninu til borgaðir af venjulegu launafólki. Of háir skattar eru afleiðing of umfangsmikils ríkisvalds. Sé ætlunin að lækka skatta á venjulegt launafólk þarf að létta hinn opinbera rekstur.

Hærri skattar á þá ríku hjálpa heldur ekki loftslaginu, sem er alls ekki í neinni hættu. Eða ætlar einhver að halda því fram að fólk vilji frekar niðurgreiða vindmyllur en bæta vegina, skólana og sjúkrahúsin? Ég held ekki. 

Nú fyrir utan að bandaríska alríkið skuldar svimandi fjárhæðir. Stærri skattstofn myndi bara þýða meira lánstraust og fleiri lántökur.

Auðmenn eru hérna komnir á þunnan ís sem krefst þess að þeir skilja við rökhugsun og hagfræði til að taka upp sýndarmennsku og pólitískan leikaraskap.


mbl.is Hærri skattar á ritara en milljarðamæring
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sleppið því bara að fara á fætur

Á Íslandi er skólaskylda. Börn eru skylduð til að mæta í skóla til 15-16 ára aldurs. Þar eiga þau að læra að lesa og reikna og jafnvel tileinka sér einhverja hæfileika sem hjálpa þeim í lífinu. 

Þetta gengur stundum vel en yfirleitt ekki. Rannsókn eftir rannsókn sýnir fallandi gæði grunnskólanna á Íslandi að því marki að sum sveitarfélög þora ekki lengur að birta sundurliðaðar niðurstöður slíkra rannsókna. Kennarar tala um aukningu á agavandamálum. Skólinn virðist líka vera hundleiðinlegur því allt í einu er orðið svo erfitt að drullast á fætur á morgnana og komast í skólann. Ætli Netflix-gláp fram á nótt, þar sem bláu ljósi er dælt í heilann og hann plataður til að halda sér vakandi, komi eitthvað við sögu?

Um leið er greiningafaraldur í gangi. Í stað þess að leyfa krökkunum að hreyfa sig aðeins eða pína þá út í frímínútur þá sitja þeir eins og draugar á rassgatinu og horfa á Youtube í símanum. Er skrýtið að krakkar þjáist af einbeitingarskorti?

Má ekki bara sleppa því að þvinga þessi unglingagrey til að mæta í skólann? Grunnskólinn er oftar en ekki bara orðinn að geymslu fyrir lata og metnaðarlausa unglinga en það á að vera óþarfi. Þeir ættu bara að fá að vera heima hjá sér og sofa til hádegis og spila tölvuleiki fram á nótt ef það er það sem þeir vilja. Kennararnir gætu þá losnað við þessa hauga úr kennslustofunni og einbeitt sér að því að kenna þeim sem eftir eru og vilja læra. Það gæti orðið til þess að kennarar endist lengur í starfi og geti boðið námsfúsum krökkum upp á meiri stöðugleika. 

Eða eru grunnskólakennarar kannski farnir að gera það sama og margir samstarfsfélagar mínir í menntaskóla á sínum tíma og skrá mætingu á alla hvort sem þeir mæta eða ekki?


mbl.is Skólar byrji ekki fyrr en kl. 10
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flott framtak, málfrelsið á greinilega að kosta sitt

Tæplega 1,5 milljón hefur safnast í netsöfnun sem stofnað var til í kjölfar þess að Hildi Lilliendahl og Oddnýju Arnarsdóttur var gert að greiða miskabætur vegna ummæla þeirra um kynferðisofbeldi. 

Þetta er gott mál. Það þarf að verja málfrelsið og greinilegt að kerfið sér ekki um það lengur. Nýlega rak til dæmis Háskólinn í Reykjavík starfsmann fyrir að tjá sig sem einstaklingur um eigin persónulegar skoðanir sem komu starfi hans ekkert við, og sakir lognar upp á hann eftir á um allskyns eitthvað sem eru og verður ósannaðar. Sá maður þarf líka að borga fyrir lögfræðing og mig grunar að hann þurfi ekki að gera það einn.

En af hverju er verið að sakfella fólk og dæma til sektargreiðslna fyrir að tjá sig? 

Þú, kæri lesandi, ert til dæmis hugsanlega brennuvargur, ofbeldismaður, nauðgari, þjófur eða svindlari. Hvað ef ég ásaka þig um eitthvað af þessu á opinberum vettvangi? Má enginn taka afstöðu til þess á eigin grundvelli? Á dómari ríkisvaldsins að skera úr um réttmæti ásakana minna? Hvað ef fólk fær bara að nota eigið hyggjuvit og hafna innantómum ásökunum og taka aðrar alvarlega? Í dag virðist vera nóg að ásaka og það er tekið gott og gilt, og gert ráð fyrir að margra mánaða dómsmeðferð skeri svo úr um sannleikann. Þetta er óhollt. Þetta er viðhorfið sem við ætlumst við að börn sýni þegar við segjum þeim frá jólasveinunum.

Einkaframtakið virðist þurfa að taka málfrelsið undir sinn verndarvæng þrátt fyrir háfleygar yfirlýsingar um réttarríkið. Þá það.


mbl.is Miskabætur í Hlíðamáli hópfjármagnaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn einkavæddi spítali

Margt er sagt og ritað um heilbrigðiskerfið enda nokkuð sem flestir hafa skoðun á, af mjög persónulegum ástæðum.

Hið íslenska heilbrigðiskerfi er að mörgu leyti ólíkt heilbrigðiskerfum hinna Norðurlandanna. Á Íslandi er miðstýring ríkisins mun meiri. Í Danmörku og Svíþjóð (og sennilega Noregi líka) er heilbrigðiskerfið brotið upp í svæði eða landshluta. Sem dæmi má nefna að í Stokkhólmi er nokkur munur á heilbrigðiskerfinu miðað við sum önnur svæði Svíþjóðar. Í Stokkhólmi er til dæmis hægt að finna 100% einkavæddan spítala með bráðamóttöku, sem er rekinn af hagnaðarsjónarmiðum. Vissulega þiggur hann fé fyrir vinnu sína úr opinberum sjóðum fyrir meðhöndlanir sem hið opinbera tryggir aðgang að, en það í engu ólíkt hefðbundinni verktakavinnu sem hið opinbera kaupir í mörgu samhengi.

Í Danmörku er engin opinber umræða um aðkomu einkaaðila að meðhöndlun sjúklinga. Hún er talin sjálfsögð. Vinnuveitendur kaupa margir sjúkratryggingar fyrir starfsmenn sína til að tryggja hraða meðferð fyrir þá ef eitthvað kemur upp á. Læknar, sjúkraþjálfarar, augnlæknar, nuddarar, sálfræðingar og margir fleiri vinna verktakavinnu fyrir bæði hið opinbera og tryggingafélög og auðvitað þá sem borga beint úr eigin vasa. Það vita allir að sjúklingur sem fer á einkaspítala léttir um leið á álaginu á ríkisspítalanum. 

En á Íslandi eru farlama gigtarsjúklingar sendir í sjúkraflugi til útlanda, þar sem erlendir verktakar íslenska ríkisins taka við þeim, frekar en að innlendum aðilum sé leyft að vinna verktakavinnu. Íslendingar eru hér orðnir norrænni en Norðurlöndin - kaþólskari en páfinn.


mbl.is Vilja bæði éta kökuna og halda henni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar boginn er spenntur í botn - alltaf!

Margir treysta á ríkisvaldið til að aðstoða sig, lækna sig og grípa sig ef eitthvað kemur upp á.

Það traust er ekki verðskuldað.

Í góðu árferði þenur ríkisvaldið sig út, sópar að sér dýrum gæluverkefnum og fjölgar starfsmönnum sínum. Röðin hjá Tryggingastofnun og Vinnumálastofnun heldur vissulega áfram að vera löng en allskyns annað fær nóg fjármagn.

Í verra árferði þarf svo að draga saman seglin. Gæluverkefnin standa óhreyfð, að sjálfsögðu, enda búið að blása í blaðamannafundi og búa til háværa og skipulagða hagsmunahópa sem láta ekki valta yfir sig.

Hefur engum dottið í hug að miðstýrð ríkiseinokun er ónæm fyrir raunverulegri þörf og því að þurfa verðskulda traust?


mbl.is Milljarðalækkun framlags til öryrkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Siggi frændi kemur í heimsókn

Fólk virðist almennt heltekið af þeirri ranghugsun að það eigi heimili sín.

Viltu fá Sigga frænda í heimsókn og bjóða honum gistingu? Hættu nú alveg! Ertu með leyfi? Eru salernisaðstaða þín boðleg? Hvernig er hreinlætisástandið í eldhúsi þínu? Þú þarft að fá opinberan starfsmann til að taka þetta út.

Eða hvað? Nei, Siggi frændi má kannski alveg gista hjá þér. Hann borgar jú bara í bjór og grillkjöti. 

Hvað með Tolla túrista? Má hann gista hjá þér? Þú hefur engan áhuga á að skemmta honum eða borða grillkjötið hans en Tolli vill borga í reiðufé fyrir greiðann. Hættu nú alveg! Ertu með leyfi? Eru salernisaðstaða þín boðleg? Hvernig er hreinlætisástandið í eldhúsi þínu? Þú þarft að fá opinberan starfsmann til að taka þetta út.

Þá kemur einhver og segir að hliðartekjur af útleigu húsnæðis eigi að vera skattskyldar og að hótel standi í ósanngjarnri samkeppni við heimagistingu. Gott og vel, segjum fólki að telja fram tekjur og samræmum kröfur til hótelreksturs að venjulegu heimilishaldi. 

Er málið þá ekki dautt? Eða er ríkisvaldið hérna að láta hagsmunaaðila ráðskast með sig til að minnka við sig samkeppnina? Svona eins og það gerir í tilviki leigubíla og banka?

Skamm, ríkisvald!


mbl.is Eftirlit með heimagistingu hert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Passar þú ekki í mótið? Láttu þig hverfa!

Athyglisbrestur er svo sannarlega eitthvað sem þarf að taka alvarlega. Um leið er það rétt að athyglisbrestur gefur haft jákvæðar verkanir. Krakka með athyglisbrest þarf að gefa ró til að þau geti einbeitt sér og svigrúm til að fá útrás þess á milli. Slíkir krakkar eiga erfitt með að sitja lengi í einu að einbeita sér en þeir hafa mikið úthald í allskyns hreyfingu og oft mjög skapandi ef aðstæður eru réttar.

Fullorðnir með athyglisbrest hafa lært að höndla styrkleika sína og takmarkanir. Þeir hafa fundið starf sem veitir mátulega blöndu af kyrrsetu og hreyfingu. Þeir hafa lært hvernig á að umgangast aðra. Ég þekki nokkra einstaklinga sem hefðu verið greindir með athyglisbrest sem krakkar ef slíkt hefði á annað borð verið í boði, áttu frekar rysjótta skólagöngu en spjara sig vel í dag.

En núna er krafan um formlega menntun orðin töluvert sterkari. Það fær enginn aðgang að neinu án réttu pappíranna. Og því miður krakkar, skólakerfið hefur ekki pláss fyrir ykkur. Þar eiga að vera 25 nemendur í bekk, einn kennari og allt nám fer fram með bóklestri eða skjáglápi. Frímínútur eru á 35-40 mínútna fresti þegar bjallan hringir. Þess á milli er setið á rassinum. Ef þetta hentar ykkur ekki þá er boðið upp á greiningu sem endar í lyfjagjöf. Gerðu svo vel!

Það þarf að einkavæða skólakerfið sem fyrst sem foreldrar geti aðstoðað börn sín og fundið fyrir þau rétta umgjörð skólagöngu á frjálsum markaði skóla. Til vara má taka upp ávísanakerfi Svía. Það er ekki hægt að þröngva öllum krökkum í sama mót sama hvað líður texta aðalnámskrár og annarra yfirlýsinga ráðuneytisins.


mbl.is ADHD-röskun eða ofurkraftur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um að líða vel á vinnustað

Rektor HR rak starfsmann og ber því við að ástæða brottrekstursins hafi verið að fólki hafi ekki liðið nógu vel í skólanum, og því hafi þurft að "tryggja það að bæði starfs­mönn­um og nem­end­um líði vel í skól­an­um".

Er það gert með því að reka þá sem opna á sér kjaftinn til að segja annað en viðtekin ritningarvers pólitísku rétttrúnaðarkirkjunnar?

Sumir halda það já, og trúa því af mikilli einlægni.

Þú sagðir dónalegan brandara - þú ert rekinn!

Þú hefur skoðun á því hvernig andrúmsloft vinnustaðar þíns er að breytast - þú ert rekinn!

Þú hefur aðra skoðun en þá sem þér er sagt að hafa - þú ert rekinn!

Takið eftir að hér er alltaf notað karlkynsform sagnorðsins "að reka", því enginn kvenmaður er rekinn fyrir það að tjá sig - aldrei nokkurn tímann og sama hvað viðkomandi sagði.

Rektor HR ætti að íhuga eitthvað annað starf en stöðu stjórnanda því ef hans leið til að tryggja vellíða er sú að reka alla sem tjá sig á hátt sem stuðar háværa netverja þá er hann á villigötum.

Íslendingar ættu í leiðinni að hugsa sinn gang mjög alvarlega. Er ekki pláss fyrir persónulegar skoðanir lengur? Fyrir brandara? Fyrir að vera maður sjálfur? Fyrir að tjá sig? Fyrir að hræra aðeins í því viðtekna?

Og er það jákvætt, fyrir einhvern?


mbl.is Ummælin höfðu „veruleg áhrif“ innan HR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið varanlega neyðarástand

Einu sinni var kalt stríð. Þá stofnuðu menn NATO. Á hinni hliðinni stofnuðu menn Varsjárbandalagið. Svo endaði kalda stríðið og þar með Varsjárbandalagið. En NATO stóð eftir. Rússarnir gátu jú ennþá gert eitthvað! Svo þurfti að stilla til friðar í fyrrum Júgóslavíu. Síðan hefur verkefnum NATO bara fjölgað. Og núna senda Rússar flugvélar inn í lofthelgi annarra ríkja til að hrista upp í hlutunum. NATO fer ekkert og það gera Rússar heldur ekki.

Hið varanlega neyðarástand heldur lífi í allskyns stofnunum, lögum og skerðingum sem áttu bara að vera tímabundin fyrirbæri. Með tíð og tíma verða hin tímabundnu fyrirværi varanleg og hluti af kerfinu. Eftir það má smyrja fleiri stofnunum, lögum og skerðingum ofan á það sem fyrir er. Þannig vindur kerfið upp á sig og enginn tekur eftir neinu.

Í mjög áhugaverðri bók, Against Leviathan: Government Power and a Free Society, rekur sagn- og hagfræðingurinn Robert Higgs nákvæmlega þróun af þessu tagi: Þá sem hefur átt sér stað í Bandaríkjunum síðan við upphaf fyrri heimstyrjaldar. Þetta er drungaleg lesning á köflum og sýnir hvernig við, sem einstaklingar, erum í sífellu látin standa frammi fyrir enn einu tímabundnu neyðarástandinu sem tekur varanlega af okkur réttindi og frelsi. Gildir þá einu hvort einhver stjórnarskrá segi eitt eða annað. Við erum allt að því varnarlaus þegar neyðarástand er annars vegar!

Það besta í stöðunni er kannski bara að vera á varðbergi og helst að gerast frjálshyggjumaður og hafna réttmæti ríkisvaldsins eins og það leggur sig. Væri það ekki fínt aðhald ef nógu margir tækju þátt?


mbl.is NATO breytist með heiminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband