Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2019

Hagfræði boða og banna

Ég er að lesa svolitla bók þessa dagana sem mér finnst vera gríðarlega áhugaverð: The Economics of Prohibition.

Í henni reynir hagfræðingurinn, Mark Thornton, að útskýra hvað gerist þegar hið opinbera setur á bann (algjört eða að hluta til). Í stuttu máli má segja að boð og bönn geri það sama og allt annað sem hefur áhrif á framboð og eftirspurn: Hvatar verða til.

Hvað gerist til dæmis þegar hveitiuppskera bregst? Verð hækkar auðvitað en á sama tíma byrja markaðsaðilar að leita að lausnum, t.d. ódýrari valkostum. 

Þegar hið opinbera hóf herferð sína gegn kannabis hækkaði verðið auðvitað og áhættan jókst. Það myndaði hvata, meðal annars þann að fara út í kynræktun til að auka styrkleika virku vímuefnanna í kannabisplöntunni. Þegar kókaín lenti á bannlistanum urðu til hvatar til að finna aðra valkosti, gjarnan sterkari vímuefni til að minnka flutningskostnað og áhættu vegna framleiðslu, flutninga og sölu.

Nú þegar ég er kominn nokkuð áleiðis í bókinni eru ýmsar fréttir fjölmiðla farnar að blasa öðruvísi við mér. Ég sé fiska að synda á móti sterkum straum, og eftir því sem þeir synda ákveðnar eykst straumhraðinn. Áfangastað verður aldrei náð en fyrirhöfnin fer að taka meira og meira á og fer jafnvel að valda meiri skaða en ef fiskarnir hefðu sparað sér ferðalagið.

Það er hagfræði boða og banna.


Enn eitt trogið fyrir ríkisgrísina

Í stað þess að stuðla að hagstæðum rekstrarskilyrðum fyrir fjölmiðla (lægri skattar, færri reglur, afnám eftirlits, lokun RÚV, heimild til að auglýsa áfengi osfrv.) á að koma upp styrkjakerfi. Þar með verður til enn eitt trogið sem svangir grísir sækja í.

Þetta trog er nú þegar lokað land fyrir sérhæfða fjölmiðla, svo sem íþróttafjölmiðla (t.d. vefsíður). Þeir þurfa því að keppa við bæði ríkisfjölmiðil og ríkisstyrkta fjölmiðla og verða væntanlega undir í þeim slag. 

Það er líka viðbúið að ríkið fái aukinn áhuga á innihaldi fjölmiðla og takmarki aðgengi að troginu ef fjölmiðlar víkja of langt frá hinni samþykktu línu.

En það er allt gert til að forðast almennar og skynsamlegar aðgerðir, þ.e. minnka ríkisvaldið.


mbl.is Styrkir til fjölmiðla lækki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geisp

Enn einu sinni er gefin út skýrsla sem boðar hamfarir af því að mannkynið er að auka aðeins við magn koltvísýrings í andrúmsloftinu. 

Er þetta ekki orðið svolítið þreytt?

Það hefur engum tekist að sýna fram á að svolítil aukning á koltvísýringi í andrúmsloftinu hafi áhrif á hitastig lofthjúpsins. Reiknikúnstir líkana eru ekki sönnunargögn því ef svo væri þá væri hægt að gefa út áreiðanlega veðurspá fyrir morgundaginn, en sú er ekki raunin í dag. 

Vissulega er koltvísýringur svokölluð gróðurhúsalofttegund en það er vatnsgufa líka og það er töluvert meira af henni í andrúmsloftinu en koltvísýringi. Koltvísýringur skiptir raunar engu máli fyrir loftslagið. Hann skiptir miklu meira máli fyrir lífríkið: Því meira af honum, því betra, enda hefur Jörðin verið að grænka mikið undanfarin ár.

Í stað þess að tala endalaust um hitastig og loftslag og losun á koltvísýringi ættum við að tala um mengun! Við þurfum að hjálpa Kínverjum, Indverjum og Pólverjum að hreinsa ryk og sót úr útblæstri kolavera sinna. Við þurfum að stuðla að því að sem flestir hafi aðgang að ódýrri og áreiðanlegri orku, sem yfirleitt er heppilegast að afla með brennslu á olíu og gasi. Við þurfum að breiða út góðar aðferðir til að farga rusli áður en það fer út í hafið við strendur vanþróaðra ríkja. 

Mengun, kæra fólk, er vandamál víða um heiminn en ekki svolítil aukning koltvísýrings í andrúmsloftinu.


mbl.is Magn gróðurhúsalofttegunda aldrei meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í skugga drekans

Stundum er talað um Rússland sem björn og Kína sem dreka. Í Austur-Evrópu búa menn því í skugga bjarnarins en í Austur-Asíu búa menn í skugga drekans. Ekki öfunda ég þá sem búa í slíkum skuggum!

(En búa Íslendingar ekki í skugga Bandaríkjanna? Jú, sennilega, en ef ég mætti að velja á milli skugga þá tæki ég hiklaust þann bandaríska fram yfir þá rússnesku og kínversku!)

Hong Kong er staðsett í skugga drekans. Það voru sennilega mistök að afhenta Hong Kong til Kína frekar en að heimila svæðinu að gerast sjálfstætt ríki eins og Singapore. Það er bara spurning um tíma (og marga lítra af blóði saklausra borgara ef þeir ákveða að streitast á móti) þar til Kínverjar láta til skara skríða og sölsa svæðið undir sig. Vesturlönd þora ekki að styggja Kína og hafa lítið gert til að verja Hong Kong fyrir ásælni Kínverja. 

Á tímabili var mjög í tísku að tala um frelsun Tíbet. Tíbet er fátækt fjallasvæði og rækilega undir hæl Kínverja. En hvað með Taiwan? Hong Kong? Hér þegja Vesturlandabúar yfir ásælni Kínverja. Er það af því þar hefur duglegum íbúum Austur-Asíu tekist að skapa auð og velmegun? Þarf að vera fátækur fjallabóndi til að verðskulda samúð Vesturlandabúans? Maður spyr sig.


mbl.is Kjósendur flykkjast á kjörstaði í Hong Kong
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftslagsáróðurinn kominn í vörn

Þeir sem halda því fram að koltvísýringslosun manna hafi mikil áhrif á loftslag Jarðar og sé jafnvel að hita Jörðina meira en ef engin væri losunin eru komnir í vörn, loksins.

Í alltof langan tíma hafa boðberar þessarar tilgátu nánast átt opinbera umræðu, mótspyrnulaust. Þeir hafa setið einir að sjónvarpsútsendingum og eru jafnvel komnir inn í kennslustofur barnaskóla.

Núna eru teikn á lofti um að þessi einokun á opinberri umræðu sé að líða undir lok, sem betur fer.

Og hvaða teikn eru það? Þau eru nokkur:

97% talan

Í langan tíma hefur því verið haldið á lofti að 97% vísindamanna í loftslagfræðum telji að losun manna á koltvísýringi hafi einhver til mikil áhrif á hitastig lofthjúpsins. Til að mynda heldur DV þeirri tölu mjög á lofti hér og hafnar, án efnislegra raka, skýringum á því hvernig þessi tala var búin til á sínum tíma (henda út öllum rannsóknum sem taka ekki afstöðu til hlutar mannsins í þróun hitastigs og telja svo þá sem segja berum orðum að áhrif mannsins séu meiri en engin, án þess samt að allir hafi talið áhrif mannsins mjög mikil).

97%-talan eins og hún er notuð stenst enga skoðun og blaðamenn og trúboðar hamfaranna vita það. Ákveðin vandræði fylgja því fyrir trúboðana því 97%-talan er alveg einstaklega áhrifaríkt áróðursvopn. Ef talan er í raun 90% eða 80% eða 50% eða eitthvað fjær 100%-tölunni þá eru trúboðarnir komnir í vandræði því þeir hafa ríghaldið svo fast í 97%-töluna að það gæti haft hrikalegar afleiðingar fyrir boðskapinn að trúverðugleiki tölunnar er dreginn í efa. 

Opinberar aftökur

Loftslagstrúboðarnir eru hrifnir af ræðum, drottningaviðtölum og fyrirlestrum en síður af rökræðum og opnum umræðum. Þetta hafa ýmsir blaðamenn fengið að finna á eigin skinni. Þegar trúboðarnir komast að því að andspænis þeim eiga að sitja sprenglærðir prófessorar sem geta borað óteljandi göt í trúboðið þá mæta þeir einfaldlega ekki.

empty_seat

 Nei, það er miklu auðveldara að siga tveimur spyrlum og þremur trúboðum á eina manneskju og leyfa henni helst ekki að opna á sér munninn. Þannig er reynt að myrða mannorð þeirra sem efast um trúboðið, einn einstakling í einu, og vona að aðrir læri annaðhvort að þegja eða segja amen á viðeigandi tíma.

Um langa hríð gekk þessi aðferðafræði ágætlega. Vísindamenn voru sviptir styrkjum og öðrum miðlum ef þeir sungu úr takt við kórinn. Menn voru reknir frá stöðum sínum. En núna er að verða breyting á. Rökin gegn trúboðinu hlaðast upp, trúverðugleiki líkananna er að fjara út og fleiri og fleiri byrjaðir að andmæla trúboðinu og komast upp með það án þess að vera sviptir lífsviðurværinu eða ærunni. 

Opinberar aftökur verða samt áfram reyndar og jafnvel settur meiri kraftur í þær núna í örvæntingarskyni. Það mun samt ekki virka.

Vísindamenn eiga ekki að vera sammála

97%! Afneitunarsinni! Trúir ekki á vísndi! Svona upphrópanir hafa heyrst lengi. Ef allir vísindamenn eru sammála, af hverju ert þú það ekki? Þá má velta fyrir sér hvað þurfi til að vísindamenn verði í raun sammála um eitthvað. Í tilraunakenndum vísindum er það frekar undantekningin er reglan. Meira að segja tvær veðurstofur í nágrannaríkjum spá mismunandi fyrir um tímasetningu og magn úrkomu. Ef það er ekki hægt að verða sammála um hvenær rignir á morgun hvernig dettur þá einhverjum í hug að vísindamenn séu sammála um veðrið eftir 20 ár? Enda er það ekki svo. Vísindamenn eru ennþá að leika sér með líkönin, breyta grundvallarforsendum þeirra, innleiða nýja þætti og draga úr öðrum og hefur ekki ennþá tekist að búa til eitt einasta líkan sem hefur spáð einhverju rétt. 

Jú, vissulega eru þeir sammála í grófum dráttum að það eru til lofttegundir sem valda loftslagsáhrifum og að aukinn styrkur hefur væntanlega meiri áhrif en minni styrkur en mikið lengra nær það ekki. Menn eru ósammála um hvað gufar mikið út úr lofthjúpnum og út í geim, hvort koltvísýringur aukist vegna hækkandi hitastigs eða hvort hækkandi hitastig leiði til hækkandi styrks koltvísýrings, um áhrif skýjafars, um áhrif geimgeisla, sólbletta, losunar eldfjalla á bæði koltvísýringi og öðru og svona mætti lengi telja.

Það hefur hljómað einkennilega í langan tíma að allt í einu á sviði loftslagsvísinda sé kominn einhvers konar sameiginlegur skilningur á gríðarlega flóknu fyrirbæri, enda er það ekki svo. 

Niðurstaðan

Tími hins einhliða áróðurs er liðinn og trúboðarnir fá ekki lengur að kæfa andspyrnuna þegjandi og hljóðalaust.

Gott.


Hart sótt að efasemdamanneskju á borgarafundi

RÚV skrifar nánast með stolti í stórri fyrirsögn: 

Hart sótt að efasemdamanneskju á borgarafundi

Það má svo sannarlega segja það. Manneskja var boðuð í sjónvarpssal og á móti henni töluðu tveir spyrlar og þrír gestir. Gripið var fram í við hvert tækifæri svo viðkomandi fékk aldrei að ljúka setningu. Svo já, þarna sótti RÚV að svokallaðri efasemdamanneskju, sem er rangnefni því þessi manneskja var sú eina sem efaðist ekki um að vísindamenn séu að vinna við vísindi þar sem ný þekking er sífellt að skjóta upp kollinum. Aðrir - köllum þá hina trúuðu - telja ranglega að vísindin séu einfaldlega frágengin og komin inn í lokaskýrsluna sem þurfi ekki að bæta fleiru við.

En af hverju ákveður RÚV að sækja að efasemdamanneskju?

Frægur er viðtalsþáttur RÚV við Milton Friedman heitinn, einn frægasta hagfræðing sögunnar. Þar sátu á móti honum einn blaðamaður og þrír mótherjar. Þar sótti RÚV líka að manneskju. 

Í stað þess að sækja að fólki ætti RÚV að reyna - eftir þeirri sýnilega takmörkuðu getu sem stofnunin yfir að ráða - að bjóða upp á umræðu þar sem maður ræðir við mann eða menn ræða við menn. Að siga heilum hópi af sanntrúuðum á eina manneskju, og leyfa svo þessari manneskju aldrei að ljúka setningu, er léleg blaðamennska og skemmdarverk á opinberri og upplýstri umræðu.

Skamm, RÚV!


Kolefnisfótspor góða fólksins

Rannsóknir hafa sýnt að vel menntaða, heimsvana, áhyggjufulla góða fólkið leysir úr læðingi miklu meira kolefni en aðrir.

Það er allt í góðu lagi með það. Kolefni er plöntufóður og stuðlar að grænkun Jarðarinnar og þar með auknum lífmassa, meiri matvælauppskeru og hraustlegra lífríkis. 

Verst er samt áhugi góða fólksins á að skattleggja pöpulinn svo mikið að hann hefur ekki efni á ferðalögum góða fólksins. Pöpullinn vill gjarnan eina utanlandsferð á ári í sólina eða til að heimsækja vini eða ættingja. Góða fólkið fer í stórborgarferðir, menningarreisur og ráðstefnur - margar flugferðir á ári.

Það vantar ekki predikara í fílabeinsturnum en ég legg til að hunsa þá. Kolefni er ekki hættulegt fyrir loftslagið, það er allt í lagi að fljúga og góða fólkið á ekki að fá að ráða þótt það sé duglegt að blaðra.


mbl.is Guðbjörg og Ragnar Þór völdu brúðkaupsferð í stað veislu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að velja sinn ráðgjafa

Mörg okkar höfum vanið okkur á að skola diskana áður en þeir fara í uppþvottavélina. Það er einfaldlega rökrétt að maður hefði haldið en að mati sérfræðinganna áttu alls ekki að gera það. Eða svo segir í lítilli frétt.

Og hvaða sérfræðingar eru það? Hvaða forsendur hafa þeir fyrir ráðgjöf sinni? Hver kallar sig sérfræðing í notkun uppþvottavéla?

Svona lítil frétt um uppvask í vél er ágætt dæmi um að ráðgjöf er ekki alltaf góð ráðgjöf jafnvel þótt meintir sérfræðingar séu látnir tala til lesanda. Það þekkja allir sína uppþvottavél best og þótt fræðsla og upplýsingar séu góðir hlutir þá þurfa þeir ekki að leiða til breytinga í hegðun og ættu jafnvel ekki að gera það fyrirvaralaust.

Sem dæmi get ég tekið mína eigin uppþvottavél. Hún er öflug, stór, hljóðlát og afkastamikil en af ýmsum ástæðum er góð hugmynd fyrir mig að skola af diskunum áður en ég set þá inn þannig að fastar matarleifar fari af. Vélin á það til að hringsóla matarleifunum þannig að þær enda á að setjast á glös og annað og storkna. Af hverju fylgir uppþvottavélin mín ekki fyrirmælum sérfræðinganna? Það veit ég ekki.

Ráðgjöf sérfræðinga er engin trygging á neinu. Við höfum t.d. ítrekað séð ráðgjöf sérfræðinga setja fyrirtæki og jafnvel heilu hagkerfinu á hliðina, stofna heilsu fólks í voða, ýta börnum til hliðar í skólakerfinu og fylla fólk af áhyggjum þar sem slíkt er óþarfi. 

Að lokum þurfum við, sem einstaklingar, alltaf að vega og meta alla þá ráðgjöf sem okkur berst. Það er enda farsælasta leiðin til að byggja upp reynslu og þekkingu sem raunveruleg not eru af.


mbl.is Alls ekki skola diskana sem fara í uppþvottavélina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá sem snertir eldinn brennir puttann

Mikið hefur verið rætt um viðskipti Samherja í Afríku. Því er haldið fram að fyrirtækið hafi brotið allskyns lög með því að bera fé að embættismönnum og hafa í staðinn fengið allskyns atvinnuréttindi, þá aðallega kvóta.

Þetta mál er núna komið á borð yfirvalda og verður rannsakað eins og sakamál og fer væntanlega sína leið í gegnum dómskerfið. Ég ætla ekki að gefa mér neitt um niðurstöðuna en grunar samt að þar sem er reykur þar er eldur.

Fyrir þá sem ekki vita þá er engin leið að stunda heiðarleg og lögleg viðskipti í mörgum heimshlutum. Kerfið er einfaldlega þannig skrúfað saman að frumkvæðið er kæft í fæðingu. Í mörgum ríkjum er stór hluti hagkerfisins í einskonar svefngenglaástandi. Nóg er af viðskiptum en það kemur einfaldlega ekki fram í neinni tölfræði. Menn nota reiðufé, borga undir borðið, múta, láta vera að telja fram tekjur, starfa án leyfis og gera samninga sem enginn dómstóll getur staðfest.

Samherji ákvað að hefja viðskipti í Namibíu. Ef þar beið fyrirtækisins gegnsæ stjórnsýsla sem vildi einfaldlega sjá skriflega samninga og staðfestingar á lögskyldum greiðslum þá hefði fyrirtækið örugglega valið þann farveg. Kannski var það svo. En mig grunar að raunin hafi verið önnur. Til að komast í gjöful miðin hafi þurft að gera hitt og þetta sem fellur ekki að allskyns löggjöf. 

Þó er aldrei að vita. Kannski tókst Samherja fyrst allra fyrirtækja í heiminum að koma á koppinn arðvænlegum viðskiptum í Afríku án þess að gera nokkuð vafasamt. Ef slíkt kemur upp úr krafsinu á um leið að veita fyrirtækinu Nóbelsverðlaunin því þar með væru vandamál Afríku leyst. Þar hafa menn nefnilega skotið sig í fótinn og grýtt eigin höfn í áratugi með spillingu og handahófskenndri stjórnsýslu og flæmt öll heiðarleg fyrirtæki frá því að stíga þar inn fæti.

En hver veit - kannski tókst Samherja það. Og hluthafar fyrirtækisins, meðal annars lífeyrissjóðir, njóta þess ríkulega.

En kannski ekki. Kannski verður Samherji núna gómaður fyrir að stunda hefðbundin viðskipti á afrískan mælikvarða en ólögleg viðskipti á vestrænan mælikvarða. Kannski verður það til þess að yfirvöld í ríkinu sem um ræðir hugsa sinn gang og byrja að stunda heiðarleg samskipti við heiðarleg fyrirtæki og verða þannig ríkasta svæði heimsálfunnar á örfáum árum.

Mín spá er sú að upp muni komast um stórkostlegar mútugreiðslur sem veittu aðgang að atvinnutækifærum í heimsálfu þar sem slík eru yfirleitt kæfð í fæðingu. Kannski fer einhver í grjótið. Fyrirtækið tapar tekjur. Ríkið sem um ræðir tapar viðskiptum. Allt verður eins og það á að vera - á huldu, á bak við tjöldin, undir borðið og utan mælikvarða tölfræðinnar.

Sjáum hvað setur.

(Sem svolítinn fyrirvara vil ég að sjálfsögðu mæla með því að menn fari að lögum í einu og öllu og láti þá frekar eiga sig að hefja viðskipti en hitt ef í ljós kemur að mútubeiðnir berast. Í því ljósi mæli ég með því að enginn stundi viðskipti við marga heimshluta og haldi sig bara við nágranna sína og vel þekktar stærðir. Þetta gagnast fátækustu og spilltustu heimshlutunum ekki neitt en er sennilega skynsamlegasta aðferðafræðin í ljósi alls.)


mbl.is Umfjöllun Kveiks einhliða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að fagna alræðisríki

Veggspjöld sem áttu að fagna 70 ára af­mæli kín­verska alþýðulýðveld­is­ins og kín­verskri menn­ingu voru fjarlægðar af veggjum Háskóla Íslands eftir kvartanir frá nemendum.

Það var leitt. 

Þarna ákvað einhver að fagna stofnun alræðisríkis og eftir kvartanir var því hætt.

Auðvitað ætti að fá að fagna hverju sem er. Í þessu tilviki fékkst leyfi til að fagna stofnun alræðisríkis en svo var það leyfi dregið til baka. Þar með lauk þeirri umræðu. Umræðan hefði kannski borið fleiri ávexti en kvartanirnar. Kannski hefðu einhverjir byrjað að hugleiða fyrir alvöru hvað kommúnismi þýðir fyrir þá sem lenda undir oki hans. Núna eru minni líkur á því. Núna er athyglin öll komin á meinta skoðanakúgun.

Það ætti auðvitað að mega fagna stofnun alræðisríkis, hvort sem ríkið heitir Kína, Þýskaland nasismans, Sovétríkin eða Norður-Kórea. Þeir sem standa að slíkum fögnuði þurfa þá að svara fyrir þann fagnað. Er sá fögnuður innblásinn af aðdáun á hugmyndafræðinni? Eða bara af sögulegum ástæðum sem einskonar minnisvarði um samfélag manna sem var hlekkjað? Þeir sem fagna stofnun alræðisríkis eiga að fá að svara slíkum spurningum í opinni umræðu. Ef Háskóli Íslands vill nota veggi sína til slíks þá er það bara hans mál. Kannski er sá háskóli á villigötum með því að hýsa fögnuði á alræðisríkjum (með notkun á almannafé og allt það) en hann er að minnsta kosti að veita opinni umræðu vettvang. Og hefði boðið nasista velkomna næst til að gæta jafnræðis.

Það er alltof lítið gert af því að fagna alræðisríkjum, útrýmingar- og vinnubúðum, þjóðhreinsunum og þrælahaldi. Ef þeir sem vilja fagna slíku fá engan vettvang til að fagna þessum hlutum þá er engin leið að gagnrýna boðskap þeirra í opinberri umræðu. Þeir loka sig inni í lokuðum hópum og efla hvern annan í aðdáun sinni á óskapnaðinum. Það er ekki hægt að kæfa sýkingu sem er aldrei afhjúpuð fyrir sýklalyfjum.

Upp með veggspjöldin!


mbl.is „Enginn glæpur, held ég“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband