Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Sjálfstæðisflokkurinn að drukkna á miðjunni

Sem frjálshyggjumanni finnst mér erfitt að horfa upp á ástandið í íslenskum stjórnmálum. Enginn flokkur er til hægri. Þannig er það. Í Sjálfstæðisflokknum og á framboðslistum flokksins finnast vissulega frjálshyggjumenn, en þeir virðast vera í miklum minnihluta. Flokkurinn er kominn í slaginn um "miðjuna", þar sem yfirboð ráða ríkjum. Framsóknarflokkurinn nýtur þess. Hann getur alltaf boðið meira en allir aðrir og uppsker oftar en ekki því, sbr. 90% leiðina svokölluðu sem kynti undir húsnæðisbóluna á sínum tíma.

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur þess ekki einu sinni að ríkisstjórnin er sú óvinsælasta í manna minnum og kannski frá sjálfstæði landsins. Hún er óvinsælli en George W. Bush eftir hrunið haustið 2008 og geri aðrir betur!

Sjálfstæðisflokkurinn yfirgaf hægrið í íslenskum stjórnmálum, þar sem hann stóð áður einn á palli, og fór inn á miðjuna, og þar drukknar hann ef hann dvelur þar lengur.  

Leiðtogar Sjálfstæðisflokksins ættu að íhuga að henda þessu plaggi og taka þess í stað upp gamalt og gott "loforð" Sjálfstæðisflokksins, sem hann gaf út fyrir kosningar til Alþingis árið 1995 (sjá t.d. hér og viðhengda skrá): "Betra Ísland." Þeir sem þekktu til formanns flokksins á þeim tíma vissu að það þýddi bara eitt: Að hið opinbera yrði áfram rekið af ábyrgð og festu og ekki sogið inn í allskyns loforðaflaum, þar sem hver lofar ofan í annan.

Það er gott að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að lækka skatta. Hann þarf að lofa því að lækka þá hratt, og lofa því að skera ríkisútgjöldin (og regluverkið) enn hraðar niður svo afgangur verði til að greiða niður skuldir.

Ég fullyrði að a.m.k. 50% Íslendinga gætu hugsað sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef hann væri hreinni í hugsjón sinni og fastari á sínu.  25% fylgið er því um 5,0 í einkunn af 10 fyrir þetta kjörtímabil. 


mbl.is Framsóknarflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Því fyrr, því betra

Því fyrr sem þingi lýkur, því betra. Mörg slæm mál bíða afgreiðslu og ef ég þekki stjórnarandstöðuna rétt er hún með veik hné sem gefa oftar en ekki upp á endasprettum. Þingi má því ljúka sem fyrst svo sem fæst mál nái að atkvæðagreiðslu.

Hitt má samt ekki gleymast að í komandi kosningabaráttu munu ríkisstjórnarflokkarnir segja eitthvað á þessa leið:

Kæru landsmenn. Við lögðum fram mörg frumvörp á þingi (að vísu á lokadögum þess en samt) sem náðu því miður ekki fram að ganga vegna stjórnarandstöðunnar. Hefðu þau hins vegar náð fram að ganga er ljóst að smjör drypi nú af hverju strái. Þetta kom stjórnarandstaðan samt í veg fyrir. Það er því henni að kenna að landið er enn í klóm gjaldeyrishafta, skattahlekkja og skuldasöfnunar, þótt tæp 5 ár séu nú liðin frá hruni nokkurra banka, bæði á Íslandi og um allan heim.

Tali af þessu tagi á að búast við og það á að tækla af hörku. Ábyrgðina á ástandinu á dag ber ríkisstjórn dagsins í dag og seinustu fjögurra ára. 

Að þingi ljúki sem fyrst er það besta sem kemur fyrir Íslendinga í dag.  


mbl.is Reynt að semja um þinglok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn veiti þingmönnum aðhald

„Er engin leið til að fyrir þingið að verja gesti sína fyrir rógburði og haugalygi þingmanna,“ spurði Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, á Alþingi í dag ...

Svarið er jú. Það er í hans eigin verkahring sem þingmanns að veita öðrum þingmönnum aðhald og leiðrétta það sem hann telur að þurfi að leiðrétta í málflutningi þeirra. 

Kannski gerir Björn Valur sér ekki grein fyrir þessu því á meðan hann hefur haft sæti á Alþingi hefur stjórnarandstaðan lítið haft fyrir því að leiðrétta vitleysuna sem vellur oft úr munni stjórnarþingmanna. Björn Valur hefur vonandi lært eitthvað nýtt í dag.

Hitt er annað að þingmenn eiga að vanda sig í endursögnum. Það sem Guðlaugur sagði að aðrir hafi sagt getur verið hans túlkun eða orðalagsbreytingar en hvað sem því líður á hann og aðrir að vanda sig. Endursagnir eiga að vera réttar.

Enn annað mál er svo skattkerfið á Íslandi. Að mínu mati er gott að það sé flókið því það eykur líkurnar á því að einhverjum takist að forða verðmætum sínum frá klóm hins opinbera. Á móti kemur að venjulegt fólk getur flækst í kerfinu og hlotið dóm fyrir skattaundanskot og skattsvik sem það ætlaði sér bara alls ekki að stunda.

Vandamálið er samt alltaf fjárþorsti hins opinbera. Hann er of mikill. Auðvitað á að einfalda skattkerfið til að lágmarka fjölda friðsamra borgara sem lenda í fangelsi vegna flæknanna í skattkerfinu.

Skatta á samt fyrst og fremst að afnema, helst þá alla með tölu, en til vara að afnema þá flesta og stórkostlega lækka þá sem eftir eru. Annars er hætt við að íslenskir skattgreiðendur þurfi ítrekað að svara að hætti skattgreiðandans (vínframleiðanda) í sögu 19. aldar hagfræðingsins Frederic Bastiat, sem sagði við skattheimtumanninn:

Þú mátt alveg hlægja að mér, herra skattheimtumaður, því ég á það svo sannarlega skilið. En sýndu sanngirni. Leyfðu mér að minnsta kosti að halda eftir sjöttu víntunnunni. Þú hefur nú þegar tryggt þér fé til greiðslu skulda, og séð fyrir landvörnum og almannaþjónustu, fyrir utan að fjármagna stríð í Afríku. Hvað gætir þú viljað meira? 

Þess má geta að sjötta víntunnan í þessari dæmisögu fór í að niðurgreiða rekstur klæðaframleiðandans sem var að verða undir í samkeppni við erlendan fataiðnað. 


mbl.is „Rógburður og haugalygi“ þingmanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkiseinokun er ósk margra

Lögbundin ríkiseinokun er af mörgum talin besta rekstrarformið. Að eitthvað sé fullkomlega varið fyrir samkeppni er af mörgum talið vera æskilegt ástand. Að stjórnmálamenn megi einir taka afstöðu til hinna ýmsu nýjunga og tilrauna er draumaaðstaða margra. Að enginn greiði beint fyrir notkun eða þjónustu, heldur óbeint í gegnum skattkerfi og ríkistryggingar, er af mörgum talið vera hið besta kerfi af öllum mögulegum.

Nú þarf ekki að lesa margar og þykkar bækur í hagfræði til að sjá að lögbundin ríkiseinokun er óhagkvæm. Það má sjá nánast með tilfinninguna eina að vopni.

Nú þarf heldur ekki að lesa margar og þykkar sögubækur til að sjá afleiðingar lögbundinnar ríkiseinokunar, t.d. fyrir fátæka og þá sem lenda undir í lífsins ólgusjó. Afleiðingarnar eru iðulega skammtanir, biðlistar og "flokkanir" á sjúklingum í þá sem á að bjarga og þá sem eiga að deyja. Hagfræðin segir okkur að gríðarleg sóun muni eiga sér stað í umhverfi lögbundinnar ríkiseinokunar, og stjórnmálamenn eiga engra kosta völ en að skammta sífellt minnkandi þjónustuna til færri og færri. 

Á ríkið að selja kokkteilsósu og kex? Nei. Nóg er samt til af báðu, í öllum verðflokkum, hvar sem er.

Á ríkið að sjá um innflutning, sölu og viðgerðir á bílum? Nei. Nóg er samt til af bílum af öllum stærðum og gerðum og í öllum verðflokkum.

Á ríkið að skylda alla til að sækja alla sína heilbrigðisþjónustu til sprenglærðra lækna sem þurfa milljónir í laun til þess eins að geta greitt af námslánum sínum? Nei. Þannig er það nú samt. Það er talið réttlætismál að ríkisvaldið traðki á frjálsu framtaki í heilbrigðisþjónustu. Greyið fórnarlömb þess fyrirkomulags: Við öll. 


mbl.is Einkavæðingardans Bjartrar framtíðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heitt loft?

Eignir lífeyrissjóðanna jukustu um 40 milljarða í janúar, eða sem nemur um 1,3 milljarði á hverjum degi. Góð ávöxtun á innlendum sem erlendum hlutabréfamörkuðum ásamt lækkun á neikvæðri afleiðustöðu eru helstu skýringar þessarar aukningar. Þetta kemur fram í morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka, en hrein eign sjóðanna nam í lok mánaðarins um 2434 milljörðum.

Í greiningunni segir að innlend hlutabréfaeign hafi aukist um 12,4 milljarða og eign í innlendum hlutabréfasjóðum um 5,2 milljarða. Verð hlutabréfa hefur hækkað mikið hér á landi, en OMXI6 hlutabréfavísitalan hérlendis hækkaði um 11% í mánuðinum. 
 
 Athyglisvert. Ef ég ætti mikið fé í íslenska lífeyrissjóðakerfinu og ætlaði mér að treysta á það til framfærslu í ellinni þá væri ég smeykur núna.
 
Hlutabréfaverð á Íslandi er afsprengi gjaldeyrishaftanna. Lífeyrissjóðirnir geta valið um að fjármagna hallarekstur ríkisins eða kaupa hlutabréf innanlands, hver í kapp við annan.
 
Íslensk fyrirtæki eru smátt og smátt að drepast. Hagkerfinu hefur verið haldið í líflínu skuldsetningar og ríkisafskipta síðan það hrundi haustið 2008. Stjórnvöld hafa ekki þorað að leyfa markaðinum að taka til. Næsta ríkisstjórn hefur vonandi pólitískt hugrekki til að leyfa óumflýjanlegri aðlögun hagkerfisins að eiga sér stað. Í leiðinni þurrkast meint aukning á verðmæti eigna lífeyrissjóðanna út og mun ekki ná sér á strik fyrr en að nokkrum árum liðnum, ef hagkerfinu verður leyft að vaxa á eðlilegum forsendum.
 
Ég vil hvetja þá sem starfa í íslenska fjármálakerfinu til að vera á varðbergi gagnvart heitu lofti sem streymir úr götóttri blöðrunni sem stjórnmálamennirnir hafa búið til.  
 

mbl.is Sjóðirnir stækkuðu um 1,3 milljarð á dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef einhver bannar þá banna Íslendingar

Heilbrigðisstefna hins opinbera hjá Íslandi er einföld: Ef eitthvað er bannað einhvers staðar, þá er það bannað á Íslandi.

Norðurlöndin eru alveg sérstök fyrirmynd Íslendinga hvað þetta varðar. Í Svíþjóð er bannað að selja áfengi í matvöruverslunum, og á Íslandi er það bannað. Hvorki Noregur né Danmörk búa við slíkt bann. Í Danmörku er eitthvað lauslegt bann við munntóbaki að hætti Svía. Íslendingar búa við svipað bann, nema miklu harðara. Í Noregi og Svíþjóð er hægt að troða tugum tegunda af tóbaki í vörina, sem fæst út um allt.

Dæmin eru miklu fleiri en almenna reglan er í stuttu máli þessi: Ef einhver bannar eitthvað, þá banna Íslendingar það líka.

Niðurstaðan er forræðishyggja að hætti heittrúaðra múslíma (sem leyfa sér samt að reykja vatnspípur innandyra) frekar en norrænt umburðarlyndi með undantekningum.  


mbl.is Innkalla munnpúða með koffíni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband