Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2022

Báknið

Hið opinbera að hlaupa í hringi

Mér fannst ég vera voðalega fyndinn hérna og deili því sem víðast.


Hjálp til að skilja hvað er á seyði í Úkraínu

Í svolítilli frétt um átök í Úkraínu rekst ég á umfjöllun sem mér finnst ekki alveg hanga saman. Blaðamaður segir til dæmis:

Fyrr í mánuðinum greindu rúss­nesk yfir­völd frá því að þeir myndu draga úr sókn á höfuð­borg Úkraínu, Kænu­garð, og ein­beita sér að því að ná völdum í sjálf­skipuðu lýð­veldunum Do­netsk og Lúhansk. Hé­röðin tvö hafa verið undir stjórn að­skilnaðar­sinna sem að­hyllast Rúss­land frá árinu 2014.

Héraðs­stjóri Do­netsk, Pavlo Kyry­len­ko, segir rúss­neska her­menn skjóta vís­vitandi á al­menna borgara og eyði­leggja inn­viði af á­settu ráði.

Hérna er sem sagt rússneski herinn fyrir hönd rússneskra yfirvalda að reyna ná völdum í tveimur héröðum, jafnvel til lengri tíma. Og gerir hvað til að styrkja stöðu sína? Skýtur vísvitandi á almenna borgara og eyðileggur innviði!

Af hverju? 

Til að búa til andspyrnuhreyfingar meðal almennra borgara? Til að æsa upp óbreytta borgara? Til að eyðileggja orðspor sitt enn meira? 

Ef Rússar hafa náð völdum á tilteknum svæðum, eins og blaðamaður segir, þá er nákvæmlega engin ástæða til að eyða byssukúlum í almenna, óbreytta borgara. 

Blaðamaður heldur áfram:

Enn er barist í Maríu­pol en fjöldi al­mennra borgara og her­manna hafa leitað skjóls í Azovs­tal stál­smiðjunni. Rúss­neski herinn hefur gert nokkrar at­lögur að smiðjunni en hefur fengið leið­beiningar um að passa að enginn komist út.

Þetta held ég að sé haugalygi og jafnvel áróðursbragð sem að auki stangast á við aðrar fréttir í vestrænum fjölmiðlum. Ef rússneska hernum væri alveg sama um óbreytta borgara þá væri hann búinn að teppaleggja þessa verksmiðju og raunar Úkraína alla með sprengjum úr einhverjum fullkomnustu og stærstu sprengjuflugvélum heims sem Rússar ráða yfir. Raunar er rússneska frásögnin - sú að verið sé að reyna hvetja óbreytta borgara til að yfirgefa svæðið - mun trúverðugri. 

Þessi áhersla úkraínskra yfirvalda og herdeildarinnar á svæðinu á að verja til dauða nákvæmlega þetta svæði á miðju áhrifasvæði Rússa er stórfurðuleg. 

Og að lokum:

Tæp­lega 5,3 milljón manns hafa flúið Úkraínu frá því stríðið hófst, sam­kvæmt flótta­manna­ráði Sam­einuðu þjóðanna.

Þessu má alveg trúa. Það er samt ánægjulegt að lesa í dönskum fjölmiðlum að það séu miklu færri flóttamenn að koma til Danmerkur en búist var við og var búið að undirbúa og að konur og börn séu að snúa aftur til Úkraínu svo börnin komist í skóla og geti umgengist feður sína. 

Kannski það versta sé bráðum gengið yfir. Vonandi. Og Rússar að fara hypja sér heim.


Ódýrir skór á verðbólgutímum

Danska skófyrirtækið Ecco hefur ekki lýst því yfir að það ætli að hætta allri starfsemi í Rússlandi.

Og hvað með það? Er ekki í lagi að senda skó til Rússlands og fá svolítið af rússneska gjaldeyrisforðanum fyrir greiðann?

Nei, aldeilis ekki. Fjöldi söluaðila hefur tilkynnt að þeir ætli ekki að selja Ecco-skó í ljósi afstöðu fyrirtækisins. 

Mögulega dettur einhverjum einstaklingum líka í hug að sniðganga fyrirtækið og kaupa sér Adidas eða Sketchers í staðinn.

Allt þýðir þetta minnkandi eftirspurn og ef framboðið er óbreytt þýðir það lækkandi verð.

Það má sem sagt búast við verðlækkun á Ecco-skóm.

Þessu fagna ég því ég kann mjög vel við Ecco-skó en þykir þeir vera aðeins of hátt verðlagðir miðað við endingartíma. Engir skór endast lengur en 6-9 mánuði á mínum fótum og fjárfestingin því valin í slíku ljósi.

Á meðan Evrópubúar neita sér um rússneskt gull og gera sig gjaldþrota með háum orkukostnaði eru Kínverjar og Indverjar að gera hið gagnstæða: Þiggja rússneska olíu á töluverðum afslætti. Þeir skora væntanlega ekki hátt á mælikvarða vestræns rétttrúnaðar.

En nú er að bíða eftir að Ecco blási í heimsins stærstu útsölu og birgja sig upp af skóm.


Froðustjórnmál

Er ekki seinna vænna að ráðast í nafla­skoðun inn­an flokk­anna, blása í burtu froðunni, og í staðinn stunda al­vöru­gefn­ari póli­tík. Í mörg­um lönd­um eru und­ir­stöður hag­kerf­is og hag­sæld­ar hreint ekki í lagi og fólk sem ótt­ast at­vinnum­issi og þorir varla að opna raf­magns­reikn­ing­inn hef­ur sára­lít­inn áhuga á stjórn­mál­um sem snú­ast um að minnka út­blást­ur eða ákveða hvort al­menn­ings­sal­erni eigi að vera kynja­skipt.

En það þarf líka að sýna aðgát, því aðfram­komn­ir kjós­end­ur geta verið mót­tæki­leg­ir fyr­ir alls kyns vit­leysu, og lík­leg­ir til að trúa kosn­ingalof­orðum sem ná­kvæm­lega eng­in inni­stæða er fyr­ir. Hef­ur jarðveg­ur­inn fyr­ir po­púl­isma sjald­an verið frjórri og gæt­um við verið að sigla inn í mjög for­vitni­legt tíma­bil í stjórn­mála­sög­unni.

Svona kemst blaðamaður að orði í skoðanapistli sínum (á bak við innskráningarvegg, ekki áskriftarvegg) og ég er hjartanlega sammála.

Ekki veit ég hvort froðan fari að myndast í höfði kjörinna fulltrúa eftir að þeir ná kjöri eða hvort froðan sé það sem þarf til að fólk sækist eftir kjöri. Eitthvað er það. Hið opinbera þröngvar sér inn í líf okkar langt umfram það sem nokkur kærir sig um. Ekki misskilja - sennilega er meirihluti almennings hlynntur risavöxnu opinberu batteríi með fingurna í öllu en hver og einn einstaklingur vill að þetta þrútna ríkisvald hafi afskipti af öðrum og láti sjálfa sig að mestu í friði.

Að minnsta kosti þekki ég engan sem hugsar: Guði sé lof að ríkisvaldið hefur sett lög sem takmarka sölu áfengis við örfáa sölustaði með takmarkað úrval! Annars er hættan sú að allir dagar hjá mér yrðu eins og í fríinu til Köben um daginn þar sem flæddi áfengi úr sérhverri sjoppu!

Eða hvað?

Eða: Guði sé lof að það er dýrt, tímafrekt, erfitt og flókið að reisa svolítið hús! Annars myndi ég búa í einhverri spilaborg sem gæti hrunið í næstu vindkviðu!

Nei, ætli flestir séu ekki að óska eftir opinberum afskiptum af öðrum. Þessu helvítis bankafólki og þessum svikulu verktökum og þessum óheiðarlegu tryggingafélögum sem þarf að halda í skefjum.

Síðan er það froðan. Loftslagsstjórnmálin, kynjastjórnmálin, umhverfisstjórnmálin, rétttrúnaðarstjórnmálin. Það myndi enginn venjulegur kjósandi sakna þeirra ef þau hyrfu á morgun. Þetta eru áhugamál fólks með hausinn fullan af froðu og skilar fólki ekki auknum kaupmætti, mat á borðið og flugmiða í fríið, nema síður sé.

Froðan er um leið aðgöngumiði Trumpanna og Le Pennanna, í boði elítunnar sem segist vilja ráða öllu en er hætt að kunna tala við almenning.


Þú mátt frjósa eða svelta, segja sumir

Úr fréttabréfi sem ég er áskrifandi að (ósköp venjulegt fréttabréf sem fjallar um iðnað og tölfræði):

The Dutch activist group Friends of the Earth has stepped up pressure against oil major Shell (LON:SHEL), claiming that if the firm fails to comply with a 2019 Dutch court order to deepen emission cuts, the company’s board will be held personally responsible. 

Hvað er verið að tala um hérna? Jú, nýlega úrskurðaði hollenskur dómstóll að hollenska orkufyrirtækið (aðallega olíu- og gasfyrirtæki en dundar sér við ýmislegt) Shell þyrfti að draga úr losun á koltvísýringi. 

Þyrfti!

Síðan þá hefur margt gerst. Núna er orkukreppa í Evrópu og víðar. Venjulegt fólk er að drukkna í orkureikningum. Það að halda á sér hita og elda mat og hlaða fínu rafbílana er orðið töluvert dýrara en áður, jafnvel um margfeldi af fyrri verðum á sumum svæðum. 

Hvað gera svokallaðir umhverfisverndarsinnar þá? Svokallaðir talsmenn baráttunnar gegn loftslagsbreytingum? Svokallaðir vinir Jarðar? 

Jú, hóta fyrirtækinu.

Ég skil vel að margir séu hræddir eftir að hafa látið hræða sig lengi. Ég skil vel að sumir óttist hið versta eftir að hafa verið sagt að óttast hið versta. Ég skil vel að flestir hafi lítinn tíma til að kynna sér aðrar hliðar máls en viðhorf svokallaðra fréttamanna.

En núna erum við að tala um eitthvað sem nálgast mannhatur. Að í miðri orkukreppu sé orkufyrirtækjum hótað ef þau hætta að einbeita sér að því að útvega orku.

Sumir vilja hreinlega að þú króknir úr kulda eða hafir ekki efni á að hlaða símann þinn.

Það er kannski ekki meðvituð hugsun þessa fólks. Það hugsar sem svo að þú getir bæði étið kökuna og átt hana. En það er ekki verri ástæða en önnur til að hunsa það.


Fær málfrelsið aftur séns?

Nú er verið að ganga frá kaupum Elon Musk á Twitter og vinstrið er að pissa í sig af gremju. Af hverju? Jú, því núna verður sennilega dregið úr ritskoðuninni. Twitter snýr kannski aftur til uppruna síns, sem var nokkurn veginn á þessa leið:

Twitter gamlir skilmálar

Sem sagt: Samfélagsmiðill, ekki fjölmiðill með ritstjórnarstefnu.

Ég fylgist svolítið með verkum blaðamannsins Alex Berenson sem var bannaður á Twitter fyrir að fjalla á óásættanlegan hátt um Covid-sprauturnar á sínum tíma. Hann vonast til að endurheimta aðgang sinn en heldur í bili áfram málaferlum sínum gegn Twitter og skemmtir sér mjög yfir málsvörn miðilsins.

Vinstrið er að hóta því að yfirgefa miðil vegna skorts á ritskoðun. Hvert fer það þá? Hvar finnur það vettvang sem ritskoðar nægilega mikið að mati þess? Kannski kínverskir eða rússneskir fjölmiðlar og samfélagsmiðlar geti veitt vestræna vinstrinu kærkomið skjól frá öllu þessu málfrelsi. 


Er ekki komið nóg af veirutali?

Einn lesandi þessarar síðu lýsti yfir ósætti sínu með að ég sé hérna ennþá að fjalla um veiru og veirutíma.

Svona eins og það sé eitthvað blaður um fjarlægja fortíð.

En er það svo?

Það held ég ekki.

Ég held að veirutímar hafi búið til stórhættulegt fordæmi sem verður auðvelt að tína upp úr skúffunni og nota aftur. Valdhafar eru á fullu að semja löggjöf byggða á veirutímum. Fyrirtækjum má loka, jafnvel bótalaust. Upplýsingum má halda frá fólki. Leynilegir samningar gerðir fyrir hönd skattgreiðenda og borgara. Grímuskylda. Aldrað fólk lokað inni til að deyja úr andlegri hrörnun og einveru. Krökkum meinað að mæta í skólann og hitta vini sína. Landamærum í raun lokað. Samfélagið gert að bótaþega og látið safna skuldum í leiðinni. Lyfjum hraðað í fólk með ófyrirséðum afleiðingum sem munu jafnvel ekki koma fram fyrr en eftir mörg ár. Vegabréf sem segja hvað þú ert búinn að láta troða í líkamann á þér. Fjölmiðlar sem telja hlutverk sitt vera að vélrita orð opinberra embættismanna og birta án gagnrýni og samhengis sem hinn heilaga sannleika. 

Ekkert af þessu fordæmalaust lengur. Nei, þvert á móti talað um velheppnaðar aðgerðir! Ljómandi gott fordæmi það, ekki satt? Og sjáið nú bara hvað útblásturinn af koltvísýringi minnkaði mikið þegar fólk var læst inni hjá sér! Frábært!

Veirutímar mega alls ekki gleymast. Meira að segja enn þann dag í dag finnast yfirvöld sem eru að svelta íbúa sína til dauða í nafni veiruvarna. Þetta er ekki búið og má ekki gleymast. Og raunar hefur aldrei verið meiri þörf á að vera á varðbergi því yfirvöld láta aldrei góða krísu fara í súginn. Og þau vita núna að þau komast upp með hvað sem er og að almenningur fer í keppni um hver er hlýðnastur.

En það er aldrei of seint að ranka við sér. Þar til það verður of seint.


Drápum við gamla fólkið okkar með sprautum? Eða það unga?

760 ein­stak­ling­ar lét­ust á Íslandi á fyrsta árs­fjórðungi sam­kvæmt Hag­stofu Íslands en 1.110 börn komu í heim­inn hér­lend­is. Fleiri hafa ekki lát­ist á ein­um árs­fjórðungi frá því að Hag­stofa Íslands byrjaði að birta töl­ur um and­lát eft­ir árs­fjórðung­um, seg­ir í um­fjöll­un Hag­stof­unn­ar

Dauðsfjöll 1. ársfjórðungur

Ef allir ársfjórðungar eru skoðaðir lítur myndin svona út:

Dauðsföll, allir ársfjórðungar

Hvernig stendur á þessu? Var veturinn harður? Nei, það er hnattræn hamfarahlýnun í gangi, eða svo er mér sagt. Voru öll bóluefnin svokölluðu þiggjendum þess banvæn? Auðvitað freistandi spurning sem ég er viss um að einhver úthúðar mér fyrir að spyrja (og hvað þá fyrir að spyrja svona ögrandi í fyrirsögn). Tölur hagstofunnar eru ekki sundurliðaðar eftir aldurshópum en sumir telja að ungt fólk og sérstaklega íþróttafólk sé að deyja meira en áður því bóluefnin hafa eyðilagt í því hjartavöðvann. Kannast samt ekki við slíkar fréttir um skyndileg dauðsföll frá Íslandi, enda úrtakið agnarsmátt (óskiljanlegu hjartaáföllin hafa engu að síður átt sér stað á Íslandi). Enn er verið að rannsaka slíkt erlendis. Hið íslenska landlæknisembætti mun sennilega reynast verra en ekkert miðað við hvernig það klúðraði í málefnum kvenna með truflanir á tíðarhringnum í kjölfar sprautu (og vegna sprautu). 

Nema dauðsföllin komi sprautuherferðum ekkert við og megi skrifa á sjálfsvíg vegna vonleysis eftir að hafa fallið úr skóla eða misst vinnuna þegar hið opinbera þvingaði fyrirtæki til að loka.

Það er auðvitað fréttnæmt þegar dauðsföll taka stökk og yfir 100 einstaklingar látast umfram hið venjulega en maður vonar að þetta sé frávik sem leiðréttir sig strax á næsta ársfjórðungi. Þá verður líka vonandi hætt að spila rússneska sprauturúllettu með líf almennings sem trúir öllu sem birtist í RÚV. Og fólk búið að ferðast aðeins og lifa lífinu í stað þess að einblína á það eitt að halda lífi með tilheyrandi eyðileggingu á ónæmiskerfinu.


mbl.is Óvenju margir hafa látist á árinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar samfélagsmiðlar hætta að vera samfélagsmiðlar

Evrópusambandið hefur lagt lokahönd á nýja lagasetningu sem miðar að því stór tæknifyrirtæki verði að fjarlægja skaðlegt efni á vefsíðum sínum.

Eða með öðrum orðum: Nú verður innleidd ritskoðun á samfélagsmiðlum af slíkri stærðargráðu að þeir hætta að vera samfélagsmiðlar. Þess í stað verða þeir málpípur valdsins og strengjabrúða þess.

Þetta er þróun sem hefur átt sér stað í töluverðan tíma og margir hafa áttað sig á. Valkostir við fjésið og tvítin hafa fæðst og á meðan krúttleg myndbönd af kettlingum munu sennilega áfram vera leyfð á jútjúp og gramminu þá flýr hin raunverulega umræða annað.

En af hverju að blása til stórsóknar í ritskoðun núna?

Til að undirbúa næstu veirutíma?

Eða forða okkur á Vesturlöndum frá því að líta í spegil þegar við hugleiðum ástandið í Úkraínu?

Evrópusambandið telur sig vita hvaða skoðanir eru réttar og hverjar eru rangar. Það telur sig standa vörð um lýðræðislega umræðu og leitina að sannleikanum. 

Fáránlegt, auðvitað.

Við lítum til austurs og sjáum þar harðstjóra sem bæla niður óvinsælar skoðanir, ritskoða tjáningu og útiloka fólk með einum eða öðrum hætti ef það fylgir ekki meginstefinu.

Lítum okkur nær. Og gerum það áður en orð okkar verða talin ástæða til að varpa okkur í steininn eða stofufangelsi. Og val á lyfjagjöf. Við erum á vegferð og þú vilt ekki að hún nái endapunkti sínum.


mbl.is Vilja temja hið „villta vestur“ netheima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta veira takk, eða hvað?

Við í Norður-Evrópu og sérstaklega á Norðurlöndunum höfum að mestu leyti sagt bless við þessa einu veiru sem átti að vera næsta spænska veiki en var miklu nær því að vera skæð flensa en stráfellandi farsótt. Hérna í Danmörku þarf maður að finna ferðamenn frá Asíu eða eldri konur til að finna grímur og raðirnar í sprauturnar að styttast í nánast ekkert.

En víða er enn verið að berja í trommur og halda á lofti fána heimsfaraldurs. Grímurnar eru víða fastar á fólki og jafnvel ungum börnum. Lyfjafyrirtækin halda uppi miklum áróðri fyrir ónauðsynlegum og lífshættulegum lyfjum sínum. 

Og löggjafar víða halda áfram að reyna koma á aðskilnaðarstefnu í samfélaginu. Ekki á grundvelli kynþáttar, húðlits, trúarbragða eða kyns heldur í nafni fjölda sprauta sem fólk hefur þegið gegn pestinni.

Gagnslausra (fyrir flesta), ónauðsynlegra (fyrir flesta) og lífshættulegra (fyrir suma) sprauta.

Sem dæmi: Á löggjafarsamkomu bandaríska ríkisins Rhode Island er nú búið að leggja fram frumvarp um að rukka þá ósprautuðu um tvöfaldan tekjuskatt og annað gott.

Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum og ég ætti kannski að passa mig á að gefa ekki löggjafarsamkomum í ríkjum sem ég kem við í hugmyndir. Og þá sérstaklega ekki eftir að blaðamenn eru aftur byrjaðir að rétta hljóðnemann að embættismanni með marga spádóma. Mögulega völvuspádóma en til vara stjörnuspádóma. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband