Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Skattlagning hefur áhrif, ótrúlegt en satt

Svo virðist sem margir skilji ekki að skattlagning hefur áhrif. Hún breytir aðstæðum, leiðir til breytinga á hegðun einstaklinga og veldur því að aðrar ákvarðanir eru teknar en ef skattlagningin hefði verið vægari eða ekki til staðar.

Svo virðist sem margir geti ekki gert greinarmun á tímabundnum hagnaði og langvarandi hagnaði. Fyrirtæki sem skila miklum hagnaði ár eftir ár laða að sér samkeppnisaðila. Þessir samkeppnisaðilar berjast um sömu viðskipti, laða þau til sín og lækka hagnað hvers fyrirtækis sem áður skilaði gríðarlegum hagnaði. Til lengri tíma litið minnkar hagnaðurinn. Ásókn samkeppnisaðila minnkar.

Mikill en tímabundinn hagnaður hefur önnur áhrif. Hann er gjarnan til staðar í sveiflukenndum iðnaði, t.d. í sjávarútvegi og olíuvinnslu. Þar nota fyrirtæki mikinn en tímabundinn hagnað til að endurnýja, útvíkka, bæta og breyta og búa sig undir aðra tíma þar sem hagnaður er minni og fjármagn til endurnýjunar og útvíkkunar er minna. Mikill en tímabundinn hagnaður er fyrirtækjunum nauðsynlegur til að langtímaáætlanir gangi upp.

Með því að skattleggja hagnað skyndilega og undir þeim formerkjum að ætla taka "toppinn" af miklum en tímabundnum hagnaði er verið að breyta langtímaáætlunum fyrirtækja sem treysta á hinn mikla en tímabundna hagnað. Þau þurfa að leggja niður þá hluta reksturs síns sem skila minnstum arði, og loka þeim starfsstöðvum sem borga sig bara ef hinn mikli en tímabundni hagnaður fær að leita í hirslur fyrirtækisins.

Hið nýja veiðigjald er nýr skattur og breytir áætlunum fyrirtækja og drepur niður þá anga útgerðanna á Íslandi sem skiluðu vissulega arði, en ekki nægjanlega miklum til að standa undir nýjum sköttum. Þeir þurfa því að fjúka, og starfsfólk í þeim að fara á bætur eða finna vinnu hjá ríkisvaldinu. 


mbl.is Vinnslustöðin segir upp 41
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er bara byrjunin

Mörg sveitarfélög, heilu borgirnar og auðvitað fjölmörg ríki eru í raun gjaldþrota. Þessum opinberu einingum er samt haldið á lífi, t.d. með ódýru lánsfé og ábyrgðum sem falla á skattgreiðendur.

Fréttir af gjaldþrotayfirlýsingum opinberra eininga eru enn fáar, en þeim mun fara fjölgandi. Opinberar einingar á Íslandi eru ekki ekki enn byrjaðar að gefa upp öndina, en það kemur að því. Hafnarfjörður er til dæmis á hvínandi kúpunni. Lífeyrisskuldbindingar hins opinbera á Íslandi eru miklu hærri en sem nemur blóði sem má kreista úr skattgreiðendum.

Þeir sem hafa lánað hinum gjaldþrota opinberu einingum munu margir hverjir fá áfall, enda hafi margir þeirra gert ráð fyrir að skattgreiðendur geti alltaf tekið við öllu. Í mjög fróðlegri bók um hinn bandaríska veruleika, Rollback: Repealing Big Government Before the Coming Fiscal Collapse, segir í (fríkeypis) fyrsta kaflanum:

 Detroit is in a class by itself. Here was the very model of subsidies, welfare programs, and regulation. And all of a sudden, it simply collapsed. Half the population has fled since 1950. One-quarter of the city’s schools are closing. The money is gone. The city’s budget deficit is approaching half a billion dollars. But home prices tell the real story. Median sales prices of homes in Detroit went from $41,000 in 1994 to $98,000 in 2003. By early 2009 the median price was $13,600. That was bottom, right? Wrong. By March 2010 it was at $7,000. In relation to the scale of the collapse, the story of Detroit went completely unreported.

Detroit er stór borg, og á dauðalistanum. Borginni er samt haldið á lífi. Hún fer á hausinn. Hvað gerist þá?  


mbl.is Borgin Stockton lýsir sig gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein 'landið tekur að rísa' grein SJS

Enn ein "landið tekur að rísa"-blaðagrein Steingríms J. Sigfússonar, ofurráðherra, birtist í Fréttablaðinu á föstudaginn. Þar er hagvísum, sem virðast ranglega benda til efnahagsbata, blandað saman við eitt og annað sem hefur komið íslenska hagkerfinu til góða þrátt fyrir efnahagsstjórn Steingríms og félaga. Rangfærslurnar eru margar og því vissara að taka þær skipulega fyrir.

Gögn Hagstofunnar sýna svo ekki verður um villst að atvinnuþátttakan fer nú vaxandi á ný. Þetta gefur góð fyrirheit fyrir komandi mánuði.

Atvinnuþátttaka fer vaxandi já, enda er varla annað hægt. Þeir sem geta skráð sig sem öryrkja eða ellilífseyrisþega hafa klárað þá skráningu og komnir út úr tölfræðinni.  Þeir sem geta flúið land hafa flúið land. Ýmis ytri skilyrði hafa verið "hentug" fyrir hið íslenska hagkerfið, svo sem hátt fiskverð, fjölgun ferðamanna í land hinnar verðlausu krónu í höftum, fjárfestingar í virkjunum og stækkun iðnfyrirtækja sem ríkisstjórnin hefur einfaldlega ekki náð að koma í veg fyrir, og svona mætti lengi telja. Ríkisstjórnin notaði 3 ár til að knýja hagkerfið alveg niður á hnén, og á 3 árum hefur tekist að botna alla hagvísa. Geta þeir annað en skánað núna? Varla.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í ferðaþjónustu og fjölmörg gistirými bæst við víða um land. Annatíminn í ferðaþjónustunni er byrjaður og kallar það á mörg störf í fjölmörgum þjónustugreinum. Líklegt er að aukinn fjöldi erlendra ferðamanna sé nú þegar byrjaður að hafa áhrif á gengi krónunnar.

Enn er íslensku krónunni haldið í höftum og höftin gefa svo stjórnmálamönnum tæki og völd til að þvinga niður kaupmátt launþega á Íslandi og gera þá að ódýru vinnuafli fyrir erlenda ferðamann. Hið afmyndaða hagkerfi gjaldeyrishaftanna er núna orðin að gróðrarstíu fyrir allskyns "bólur", t.d. í fjölgun gistirýma fyrir hina erlendu ferðamenn. Hinn rótgróni hluti ferðamannaiðnaðarins á Íslandi var kominn langt á leið með að tryggja góða nýtingu og bókun á aðstöðu sinni yfir allt árið. Núna á að offjárfesta í gistirýmum fyrir þá 2 mánuði á ári þegar launalágir Evrópubúar hafa efni á að skreppa með ódýrum flugmiðum til Íslands til að lifa þar á loftinu.

 Krónan hefur styrkst undanfarið – það mun hafa áhrif til lækkunar á verðbólgu. Auk þess hefur olíuverð einnig gefið eftir á erlendum mörkuðum og því ætti bensínverð að geta lækkað frekar á næstunni vegna þessa. Verðbólguhorfur hafa því batnað talsvert síðustu vikur.

Hérna þakkar Steingrímur sjálfum sér fyrir hluti sem hann getur hvorki gert betri né verri. Olíuverð hefur farið lækkandi já, en það er tímabundin niðursveifla. Steingrímur hefur skrúfað upp svo marga skatta, og sett á svo marga nýja, að hann á sennilega mestan heiðurinn af hinni íslensku verðbólgu. Að hún svo gefi eftir vegna utanaðkomandi þátta er þrátt fyrir Steingrím, en ekki vegna hans.  

Þetta gerir Steingrímur svo líka í næstu efnisgrein, þar sem hann þakkar sér fyrir að þorskunum er að fjölga og verð á þeim að hækka.

Steingrímur toppar svo sjálfan sig þegar hann skrifar:

 Fleiri skráningar í Kauphöllina eru fyrirhugaðar á næstunni sem fjölgar kostum lífeyrissjóða og annarra fjárfesta.

Já, eftir því sem Steingrímur J. losar fleiri fyrirtæki úr krumlum ríkisbankans, þeim mun meira er hægt að fjárfesta. Lífeyrissjóðir hafa varla haft aðra kosti til fjárfestingar en að lána ríkinu fyrir hallarekstri. Gjaldeyrishöftin hafa komið sér mjög illa fyrir íslenska lífeyrissjóði. Allt er þetta vegna Steingríms. Hann er ástæða þess að kostir lífeyrissjóða eru fáir og lélegir.  

 Fjölmargir hagvísar úr ólíkum áttum staðfesta að batinn og forsendur hans eru traustari en margir hafa talið allt til þessa. Þar með dregur úr óvissu. Aukinn stöðugleiki er því að mínu mati að færast yfir þjóðlífið. Tal um mikla óvissu nú er því sérkennilegt þegar hagtölur eru skoðaðar og sérstaklega þegar litið er til baka og haft í huga út úr hvaða aðstæðum við erum hægt og bítandi að vinna okkur. Óvissan um þróun mála í Evrópu og heimsbúskapnum er helsta áhyggjuefnið nú um stundir. Við það fáum við Íslendingar hins vegar litlu ráðið.

Sagði ég að Steingrímur hefði toppað sig? Mér skjátlaðist. Núna toppaði hann sig. Eftir að hafa þakkað sér fyrir fjölmargt sem er engan veginn honum að þakka bendir hann á að ýmislegt annað sé ekki undir hans stjórn. En það er það. Óvissan um þróun mála í Evrópu verður til dæmis nátengdari Íslandi ef Evrópusambandið fær að innlima okkur í sig. Það ferli er á ábyrgð margra, þar á meðal Steingríms.

Grein Steingríms virðist hafa fengið verðskuldað litla athygli, enda eru greinar hans farnir að líkjast hver annarri. Fyrst var landið "tekið að rísa", síðan var Ísland "komið í var" og núna "birtir til". En í raun og veru hefur hagkerfið orðið sjúkara og sjúkara og minnstu teikn um að einhver hafi fengið vinnu notuð til að mála rósrauða mynd af blóðrauðu svöðusári. 

Núna er bara einn vetur til kosninga. Guði sé lof! 


Segir Jóhanna af sér núna? Nei.

Hér eru rifjuð upp orð Jóhönnu Sigurðardóttur þegar Björn Bjarnason var á sínum tíma sakfelldur fyrir brot á hinum svokölluðu jafnréttislögum.

Orð Jóhönnu: "Hjá öðrum lýðræðisþjóðum hefði ráðherra sem brýtur svo gróflega lög og reglur verið látinn fjúka. En hér á landi er allt leyfilegt hjá ráðherrum og þeir komast upp með allt. Ef ráðherrar eru ósáttir við lög eiga lögin bara að víkja en ekki þeir að þeirra mati."

Segir Jóhanna af sér núna?

Nei.

Jóhanna Sigurðardóttir er eins konar hrúðurkarl á Alþingishúsinu. Ekkert virðist bíta á hana. Hún hefur líka svipuð áhrif á þingstörf og (mjög stór) hrúðurkarl fyrir siglingu skips; truflar flæðið framhjá skipsskrokknum og dregur úr nýtni skipsvélarinnar svo skipið tekur ranga stefnu og steytir á skeri.  

Segir Jóhanna Sigurðardóttir nokkurn tímann eitthvað sem heldur vatni? Nei. Hún er e.t.v. ekki alltaf að vísvitandi ljúga og veit kannski stundum bara ekki betur, en það virðist vera sama hvað hún segir - ekkert stenst. Stundum er alveg ótrúlegt hvað hún getur haft rangt fyrir sér.

Kjósendur gerðu mikil mistök með því að leiða Jóhönnu og Steingrím J. Sigfússon til valda. Það viðurkenna núna jafnvel þeir sem eru einlægir stuðningsmenn stjórnarflokkanna sem gætu einfaldlega aldrei hugsað sér að kjósa flokka sem hafa ekki það á stefnuskránni að sópa öllu í faðm ríkisins. 


mbl.is Bauð fram sátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarandstaða: Standið fast á ykkar!

Steingrímur J. Sigfússon segir ekki koma til greina að láta undan kröfum minnihlutans í lykilmálum, þ.m.t. sjávarútvegsmálinu, til að greiða fyrir samþykkt um þinglok.

Þetta eru skilaboð þess ráðherra sem hvað minnst er fyrir rökræður, en hvað mest skammar aðra fyrir að þora ekki í rökræður.

Nú er áríðandi að stjórnarandstaðan standi fast á sínu, sama hvað dagatalið segir. Hún má ekki gefa eftir og hleypa sósíalisma ríkisstjórnarinnar í gegn. Nóg er af honum þótt ekki bætist nú meira við.

Betra er að nokkrir þingmenn missi nokkrar vikur af sumarfríi en að þeir og allir aðrir þurfi að þola afleiðingar ríkisstjórnarsósíalismans í mörg misseri (eða þar til næsta ríkisstjórn fær kjark til að draga þann sósíalisma til baka).

Í minni vinnu er mér sagt að klára verkefnin mín áður en ég læt mig hverfa í langt frí. Stundum þýðir það yfirvinnu og mikið álag. Stundum tekst það ekki en þá þarf ég að færa góð rök fyrir því að það sé í lagi, og setja saman áætlun um hvernig verkefnin geta klárast, t.d. af öðrum. Þingmenn eiga að mæta að minnsta kosti sömu kröfum. Verkefni stjórnarandstöðunnar er að stöðva áform ríkisstjórnarinnar í nánast öllum málum. Hún á ekki að fara í sumarfrí fyrr en því verkefni er lokið. 


mbl.is Vill ekki þingfundi í júlí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra er langt þing en afkastamikið

Stundum hef ég sagt að eftir því sem þingmenn eru lengur í fríi, því betra er það fyrir alla aðra. Þingmenn í fríi geta ekki hækkað skatta, safnað skuldum á herðar skattgreiðenda og fjölgað boðum og bönnum. Íslendingum líður ágætlega þótt þingmenn séu fjarri vinnustað sínum, eða kannski vegna þess.

En núna snýst staðan svolítið við. Þingmenn komast ekki í langt og verðskuldað frí nema þeir verði sammála um að slíta þingi, og það virðast þeir ekki geta orðið. Meirihlutinn vill koma allskyns vitleysu í gegn áður en þingi er slitið, og stjórnarandstaðan vill bara komast í frí og gæti því freistast til að hleypa vitleysunni í gegn bara til að geta það.

Í þetta skipti er staðan því sú að eftir því sem tekst fyrr að "semja um þinglok", þeim mun meiri vitleysu verður hleypt í gegnum þingið til að þingmenn komist allir í sumarfrí.

Betra er langt og þrúgandi sumarþing sem fyllir alla fréttatíma fram að hausti en stutt þing sem endar á samþykkt allskyns vitleysu.

Megi þingmenn sitja sem lengst og fá sem styst sumarfrí. 


mbl.is Enn ekkert samkomulag á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sukkið heldur áfram

Hið opinbera á Íslandi er alveg gríðarlega illa rekið. Núna eru liðin nálægt 4 ár frá hruni fjármálakerfisins. Það dugir því ekki lengur sem afsökun fyrir stjórnlausu fjáraustri í skuldasöfnun og opinbera óráðsíu. Einhvern tímann kemur að því að stjórnmálamenn við völd beri líka ábyrgð. Sá tími er kominn fyrir löngu.

Hið íslenska ríki gerði sig mjög háð skatttekjum af fjármálastarfsemi. Þegar þær skatttekjur hurfu hélt ríkið því áfram að eyða eins og þær skatttekjur væru enn til staðar, og rúmlega það. Sá sem hefur setið í 3,5 ár í afvötnun og ekki náð að hrista af sér fíknina er annaðhvort veikgeðja eða sjúkur og ber að víkja úr bílstjórastólnum. 

Dæmi um hinn sýkta hugsunarhátt fíkilsins kemur fram í þessari frétt en þar segir meðal annars:

[E]ftir nokkra krísufundi, þar sem listamenn voru m.a. fengnir til að sannfæra embættismenn, stjórnmálamenn og bankamenn um þýðingu og hlutverk hússins fyrir menningarlíf þjóðarinnar, ákváðu ríki og borg að halda framkvæmdum áfram. Var það talið hagkvæmara en að stoppa verkið og láta verktaka fara í þrot.

Skattgreiðendur voru sendir í þrot og skuldahít til að bjarga nokkrum verktökum og erlendum farandverkamönnum, sem geta fært sig til eftir verkefnastöðu á hverjum stað, frá verkefnaskorti í Reykjavík. Er ekki í lagi? 

Annað dæmi (feitletrun mín):

Árið 2010 greiddu þeir sem þurfa að borga auðlegðarskatt 1,5% skatt sem lagður er á hreinar tekjur einhleypings sem á meira en 90 milljónir. Skatturinn hefur síðan verið hækkaður og tekjumörkin lækkuð. Hann er nú 1,50% og leggst á eign einhleypings yfir 75 milljónum.

Í grein Páls segir að þessar 59 fjölskyldur hafi á árinu 2010 greitt 399 milljónum meira í skatt en þær höfðu í árstekjur. Fjölskyldurnar hafi þurft að selja eignir til að geta greitt skattinn. Í greininni segir að eignir þessara 59 fjölskyldna hafi verið 30,5 milljarðar. Á móti þessum eignum standi skuldir upp á 829 milljónir. 

Hvað getur þetta kallast annað en hrein og bein eignaupptaka? Og bótalaus í þokkabót.

Þeir sem halda áfram að styðja þessi stjórnvöld gera sér sennilega grein fyrir því að verið er að eyðileggja hið íslenska hagkerfi, verðmætasköpun í því og drifkraft, en finnst það í lagi því betra sé að allir hafi það jafnskítt en að einhverjir hafi það meira skítt en aðrir. Siðferði þeirra sem hugsa svona er ekki hátt skrifað hjá mér. En sem betur fer er bara tæpt ár í kosningar. Verri stjórnvöld er ekki hægt að fá. 


mbl.is Tekjuafkoman hagstæðari en í fyrra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En...

Í plaggi ríkisstjórnarinnar um fyrirhugaða aukaofurskattlagningu á þá sem hagnast á því að draga fisk á þurrt land er mörgu haldið fram. Steingrímur J. Sigfússon, jarðfræðingur, skilur greinilega ekki margt í því plaggi, því annars mundi hann aldrei þora að endurtaka vitleysuna í eigin persónu fyrir framan fólk sem veit betur.

Stutt yfirferð á helstu atriðum hinnar ríkisprentuðu þvælu kemur núna. 

  • "... finna sanngjarnar leiðir takast á við það að skila í góðum árum viðbótarrentunni til eiganda auðlindarinnar, þjóðarinnar.": Skattlagning er aldrei tímabundin, og mikið og sjaldgæft pólitískt þrek virðist þurfa til að afnema "tímabundna" skatta. Hin "góðu ár" eru líka hluti af rekstraráætlunum fyrirtækja í sjávarútvegi til að endurnýja tæki og tól og búa sig undir "slæma tíma", en þeir koma alltaf í sveiflukenndum iðnaði eins og sjávarútvegi. Með því að blóðmjólka "góðu árin" (sem eru bara góð af því íslenska krónan er verðlaus og útvegurinn greiðir laun í henni) er verið að tryggja andlát fyrirtækja við minnstu röskun á rekstraraðstæðum og aflatökum.
  • "Auðlindin, fiskstofnarnir, villtir fiskstofnar, eru hvorki ríkiseign né einkaeign. En þeir tilheyra okkur sameiginlega og þeir eiga að gera það um aldur og ævi.": Gott og vel, ríkið hefur í raun slegið eign sinni á hafsvæðið í kringum Ísland og þannig er það. En þessar svokölluðu "auðlindir" eru verðlausar nema einhver leggi á sig fjárfestingar, tíma, orku, áhættu, útreikninga og áætlanagerð til að draga fiskinn í sjónum á land og koma á markað með hagkvæmum og arðbærum hætti. Ríkisvaldið hefur margsannað að í höndum þess er útgerð taprekstur og fiskurinn uppurinn á fáum árum. Núna ætlar ríkisvaldið því að stinga vígtönnunum inn í háls þeirra sem hefur, á ótrúlegan hátt, tekist að draga fiska á land með arðbærum hætti. Auðlindin getur alveg "tilheyrt" íslenska ríkinu eða hverjum sem er, rétt eins og Esjusýn og grasið á jörðinni, en þeir sem sitja á hrokafullu rassgatinu og ætla að heimta fé frá þeim sem hafa atvinnu af því að stunda útgerð - þeir skilja ekki gangverk heimsins.
  • "Við eigum að passa upp á þá og þá getur enginn nema ríkið fyrir hönd þjóðarinnar á hverjum tíma farið með málið, veitt leyfi, ráðstafað heimildunum og ákveðið rammann utan um það.": Loksins eitthvað satt og rétt. Hérna tekur ríkisvaldið pólitíska ákvörðun um að þjarma að þeim sem núna "í góðum árum" eru að borga niður skuldir, endurnýja tæki og tól og skapa störf við eitthvað sem í raun og veru er verðmætaskapandi. Steingrímur J. segir hérna hreinskilningslega að um pólitísk markmið sé að ræða, og á heiður skilið fyrir það. En þegar hann talar í nafni "arðsemi" og "hagsmuna fólksins" er hann um leið byrjaður að safna svörtum blettum á tunguna.
  • " Og það sem menn fá er ekki eignarréttur, hvorki beinn né óbeinn heldur afnotaréttur af þessari sameiginlegu auðlind og sá afnotaréttur myndar aldrei eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði yfir auðlindinni því þá væru hin markmiðin farin fyrir borð.": Hérna nefnir Steingrímur stærsta gallann við "kerfið" eins og það er: Það er í raun bara leyfiskerfi sem ríkisvaldið hefur undir sinni stjórn. En gott og vel, hvað gerðu menn við þennan "afnotarétt" þegar þeir fengu hann, ýmist í gegnum kaup eða úthlutunina svokölluðu á sínum tíma? Þeir gerðu rekstraráætlanir. Þeir tóku það sem gefið að hinn svokallaði afnotaréttur væri keyptur réttur sem ekki mætti þjóðnýta eða svipta bótalaust. Núna á að henda öllum þessum rekstraráætlunum út um gluggann. Þannig er það bara - það er grímulaus ásetningur ríkisvaldsins, í tilraun sinni til að brúa risastórt gat milli skattheimtu og skattfjáreyðslu.
  • "Hinsvegar er um að ræða sérstakt veiðigjald sem verði þannig útbúið að það fangi umfram fjármunamyndun í greininni í árum þegar hún er umtalsverð, en skilji að sjálfsögðu eftir hjá greininni nægjanlaga fjármunamyndun til þess að eiga fyrir góðri ávöxtun af öllu því fé sem bundið er í rekstrinum.": Enn og aftur setja opinberir starfsmenn og stjórnmálamenn sig hérna í stól þeirra sem gera rekstraráætlanir hjá útgerðarfyrirtækjunum, og reyna að hafa vit fyrir þeim. Hvað er "umfram fjármunamyndun"? Hún er tímabundinn hagnaður vegna tímabundinna breytinga á hlutföllum rekstrarkostnaðar og sölutekna. Slík tímabil má nota til að greiða niður skuldir, endurnýja tæki og tól, stækka við sig, herja á nýja markaði eða.... greiða meira í skatta. Og það er hið síðastnefnda sem stjórnmálamenn eru að ákveða að útgerðin geri núna, í stað alls hins.
  • " Því það er þannig að hver einasta króna sem er greidd í laun til sjómanna og fiskverkafólks er frádráttarbær rekstrarkostnaður áður en stofninn verður til sem er andlag auðlindagjaldsins.": Og bíddu nú við, hvað heldur Steingrímur að gerist þá? Rekstrarkostnaður útvegsfyrirtækja á eftir að hækka upp í... nákvæmlega það sem fyrirtækið hefur í tekjur. Núll hagnaður. Óteljandi dæmi eru til fyrir þessu. Hlutabréf fyrirtækjanna verða einsksins virði, og lífeyrissjóðirnir missa því enn eina leið til að ávaxta fé skjólstæðinga sinna. Stjórnendur fyrirtækjanna fjölga riturum og auka á yfirbygginguna og halda þannig hverri krónu í fyrirtækinu. Steingrímur J. ætti að vita betur. Hann veit hins vegar ekki betur.
  • "Heildarskuldirnar hafa lækkað að því er áætla má miðað við lokastöðu á þessu ári úr 564 í 390 milljarða króna. Það er stórkostlegt hvað sjávarútvegurinn hefur getað greitt niður af skuldum. Og bankarnir segjast lítið hafa afskrifað hjá sjávarútveginum.": Bíddu nú við, var ekki talað um "umfram" tekjur áðan? Hvað hefði orðið um bankana ef þeir hefðu líka þurft að éta skuldir útgerðarinnar, sem að miklu leyti eiga rætur sínar að tekja til tækjakaupa? Steingrímur J. er fljótur að gleyma eigin orðum, meira að segja þeim sem hann lét frá sér 60 sekúndum fyrr í sama viðtali við sjálfan sig.
  • "Við tökum 15 milljarða af því í veiðigjöld. Þá eru eftir 63 milljarðar í fjármunamyndun í greininni. Ef sjávarútvegurinn ræður ekki við það, hvernig lifði hann þá af  árið 2002, 2003, 2004, 2005, 2006, 2007 og 2008?": Aftur gleymir Steingrímur eigin orðum. Nokkrum setningum ofar talað hann um að nú væru "góðir tímar" sem mætti mjólka ofan í ríkissjóð. Núna talar hann um að færa tekjur útgerðarfyrirtækjanna niður í það sem mætti þá kalla "mögru árin", og sennilega þau ár þegar mikið var tekið að láni. Eiga öll fyrirtæki að upplifa mögur ár, alltaf, og sitja uppi með skuldir sínar, alltaf, og fá aldrei tækifæri til að rétta úr kútnum eða stækka og safna? Greinilega.

 Rauður þráðurinn í gegnum allt þetta tal er sá ásetningur að ætla sjúga milljarða úr verðmætaskapandi atvinnuvegi og dæla í annan mjög svo verðmætaétandi (þann sem mætti kalla hinn opinbera rekstur).


mbl.is Kemur ekki niður á launum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað næst? Fataþvottastefna?

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag nýja atvinnustefnu sem sett er fram undir yfirskriftinni Atvinnustefna Reykjavíkur – Skapandi borg. Er þetta í fyrsta sinn sem slík stefna er sett fram af hálfu Reykjavíkurborgar, að því er fram kemur í tilkynningu frá borgaryfirvöldum.

En gaman! Borgarstjórn, sem heldur opinberum álögum á allt og alla í Reykjavík í hæstu hæðum, hefur nú sett fram "atvinnustefnu". Það var nú gott. Markmið hennar er að vísu ekki að skapa atvinnu, heldur ákveðna tegund atvinnu á ákveðnum sviðum, á kostnað atvinnu á öðrum sviðum. Þá það.

Ef borgarstjórnar ætlar sér að skapa störf þarf hún bara að lækka opinberar álögur á það sem fer inn fyrir borgarmörkin og minnka flækjustigið fyrir þá sem neyðast til að eiga samskipti við borgaryfirvöld.

Stefnan segir samt allt nema það. Og hún mun því ekki leiða til sköpun neinnar atvinnu fyrir neinn, nema opinbera starfsmenn auðvitað.

Tíma-, peninga- og pappírssóun, í stuttu máli sagt. 


mbl.is Atvinnustefna sett fram í fyrsta sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband