Bloggfærslur mánaðarins, september 2018

Síminn lækkar, sjúkrarúmið hækkar

Í skiptum fyrir færri og færri krónur í dag fæst núna meiri og fullkomnari fjarskiptaþjónusta en í gær.

Í skiptum fyrir fleiri og fleiri krónur í dag fæst núna miklu minni og rýrari heilbrigðisþjónusta en í gær, þ.e. ef maður er ekki á biðlista þar sem engin þjónusta er í boði.

Heldur því einhver fram að það sé tæknilegra flóknara að setja upp og reka nýjustu gerðir af fjarskiptatækni en að rúlla manni inn og út úr ómskanna?

Nei, svo er ekki. Það er eitthvað annað í gangi hérna sem heitir: Markaðsaðhald.

Vonandi sjá þingmenn að þeir hvatar sem gera fjarskiptaþjónustu þeirri bæði betri og ódýrari eiga líka heima í heilbrigðisþjónustunni.


mbl.is Fjarskiptakostnaður þingmanna helmingast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bragginn og Heiðarbær í Árbæjarhverfi

Í Árbæjarhverfi í Reykjavík er lítil og róleg gata sem heitir Heiðarbær. Í Heiðarbæ eru 17 einbýlishús og í hverju þeirra eru ein eða tvær fyrirvinnur. Meðallaun íbúanna eru nokkurn veginn meðallaun launþega á Íslandi í heild sinni. Í útsvar og fasteignaskatta greiða íbúar Heiðarbæjar nokkrar milljónir á mánuði. Þeim milljónum hefur undanfarið ekki verið eytt í skóla, gatnagerð, gæslu barna eða aðra svokallaða grunnþjónustu sveitarfélaga. Nei, bragginn tók þær.

Grípum aðeins niður í þá þakkarræðu sem aldrei verður flutt við vígslu braggans: „Sérstakar þakkir fá íbúar Heiðarbæjar í Árbæ fyrir framlag sitt til endurreisnar braggans. Hver einasta útsvarskróna þessa ágæta fólks hefur verið sett í að breyta gömlum bragga í nýjan. Íbúar Heiðarbæjar hafa ekki lagt krónu af mörkum til að fjármagna rekstur grunnskóla, leikskóla og vegakerfis. Nei, bragga  þurfti að gera upp og útsvar Heiðarbæjar fór í hann. Borgaryfirvöld þakka kærlega fyrir framlagið.“

Reyndar lögðu ekki allir íbúar Heiðarbæjar sitt af mörkum. Í einu húsinu neyddist móðir til að taka sér ótímabundið orlof frá vinnu til að vera heima með ungu barni sem fékk ekki leikskólapláss. Leikskólaplássið skorti því útsvarið fór í braggann en ekki til rekstur leikskóla. Kannski væri ráð að breyta bragganum í leikskóla?

Íbúar í nágrenni Heiðarbæjar vonast nú til að í Heiðarbæ geti íbúar á ný byrjað að leggja sitt af mörkum til reksturs opinberrar einokunarstarfsemi, svo sem grunnskóla og leikskóla. Í Heiðarbæ eru menn líka með blendnar tilfinningar yfir því að háir skattar hafi ekki geta runnið í annað en bragga svo mánuðum skiptir. Sjáum nú hvað setur. Þeir í ráðhúsinu hljóta að finna upp á einhverju sniðugu til að taka við af bragganum, til dæmis sporvagnakerfi.

Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu í dag og er aðgengilegur áskrifendum blaðsins hér.


Styðjum smækkun sveitarfélaga og samkeppni þeirra á milli

Stækkun sveitarfélaga er af mörgum ástæðum slæm hugmynd sem ber að forðast eins og heitan eldinn.

Það er meðal annars af eftirfarandi ástæðum:

Auðveldara fyrir ríkið að bæta við verkefnalista þeirra

Þegar sveitarfélög eru "stór og sterk" er auðveldara fyrir ríkið að setja lög sem bæta við verkefnalista þeirra. Sá listi er nú þegar orðinn alltof langur og um leið alltof dýr fyrir útsvarsgreiðendur. Ekki bætir svo úr skák að fyrir utan öll lögbundnu verkefnin hafa sum stærri sveitarfélaganna tekið upp á allskonar öðru líka, svo sem rekstri mannréttindaráða og braggavinafélaga. 

Erfiðara fyrir fólk að flýja með fótunum

Stór sveitarfélög, sérstaklega úti á landi, þekja gríðarleg landflæmi. Þetta lokar fólk að vissu leyti innan landamæra þeirra - það er erfiðara að flýja illa rekið sveitarfélag með fótunum nema skilja eftir vini og vandamenn. Sveitarfélög gera sér grein fyrir þessum samkeppnishamlandi eiginleika víðfeðmra sveitarfélaga og ganga á lagið og slaka enn frekar á aðhaldi í rekstri.

Það hefur verið styrkur höfuðborgarsvæðisins að vera klofið í mörg sveitarfélög sem veita aðhald. Nýlega flutti einn sem ég þekki úr Reykjavík í Garðabæ og hann sagði að þaðan flytji maður greinilega ekki.

Sá sem þénar mikið getur lánað mikið

Stór sveitarfélög eru með marga útsvarsgreiðendur sem er hægt að veðsetja og reisa fyrir lánsféð sundlaugar, tónleikahallir og íþróttavelli. Í smærri sveitarfélögum þurfa menn að eiga fyrir veislunni. Í þeim stærri er hægt að taka himinhá lán og binda útsvarsgreiðendur í skuldavafninga sem er erfitt að losna úr nema sameinast betur reknu nágrannasveitarfélagi (eins og í tilviki Álftaness).

Óþarfarekstur

Stór sveitarfélög stofna ekki bara mannréttindaráð og braggavinafélög. Þau ýta líka einkaaðilum til hliðar hvar sem þau geta. Í Reykjavík er til dæmis Sorpa að sóa fé skattgreiðenda með smærri og smærri tunnum og flóknari og flóknari endurvinnslureglum á meðan á Akureyri er ruslameðhöndlun boðin út til sérhæfðra einkaaðila sem taka að sér allt þetta leiðinlega. Stærri sveitarfélög telja sig geta meira en þau smærri, og það kostar útsvarsgreiðendur stórfé.

Niðurstaða

Það blasir við hvað þarf að gera til að gera sveitarstjórnarstigið í íslenskri stjórnsýslu bærilegra:

  • Afnema lög um lágmarksútsvar
  • Stytta listann yfir lögbundin verkefni sveitarfélaga um 90%
  • Breyta löggjöfinni svo það sé auðveldara að stofna til nýrra sveitarfélaga með klofningi frá stærri sveitarfélögum

Samband íslenskra sveitarfélaga talar út frá hagsmunum sveitarfélaga. Það er því góð þumalputtaregla að gera allt þveröfugt við þeirra meðmæli og verja þannig hagsmuni almennings og skattgreiðenda.


mbl.is Styðji stækkun og eflingu sveitarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin samstaða í kortunum

Það mun aldrei nást neins konar samstaða um íslenska sjávarútveg fyrr en er búið að gera allan hagnað hans upptækan og setja ofan í ríkissjóð.

Um leið verður sjávarútvegurinn lagður í rúst og hann gerður að ölmusaþega eins og á við um sjávarútveg víðast hvar í heiminum.

Sameign er ekki nothæft hugtak. Sameign er gangurinn í fjölbýlishúsinu sem íbúar skiptast á að ryksuga eða borga til að láta aðra ryksuga. Fiskur í sjó er allt annars eðlis. Hann er annað hvort veiddur eða ekki og hann er ekki veiddur nema einhver telji sig hagnast á því. Sá hagnaður getur verið ölmusa úr vösum skattgreiðenda eða arður af hagkvæmum veiðum, vinnslu, dreifingu, markaðssetningu og sölu.

Ríkið vill hirða allan þann hagnað sem það getur, hvar sem hann er að finna. Þökk sé kaffihúsaspekingum Reykjavíkur hefur tekist að gera skattheimtu af sjávarútvegi gríðarlega mikla og heilu fyrirtækin jafnvel komin í þrot vegna hennar. 

Kommúnistar vilja að allar tegundir af hagnaði sópist ofan í peningadreifikerfi ríkisins. Reynslan ætti að hafa kennt okkur að hunsa slíkar beiðnir. Svo er þó ekki.


mbl.is Frumvarp mun vonandi skapa samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óútfylltu tékkarnir

Hinar ýmsu opinberu einingar virðast vera að gefa út marga óútfyllta tékka þessa dagana.

Fyrst má nefna hátíðarfundinn á Alþingi þar sem það er beinlínis játað að tékkinn hafi verið óútfylltur.

Síðan er það auðvitað bragginn frægi í Reykjavík sem verður væntanlega orðinn að valkosti við Kolaportið áður en langt um líður (sem húsnæði fyrir sölu á notuðum hlutum og DVD-diskum).

Borgarlínan má ekki gleymast. Þá hugmynd er nú verið að selja fyrir um 70 milljarða en endanlegur verðmiði verður sennilega tvöfalt eða þrefalt hærri áður en fyrsti sporvagninn rúllar af stað (í samkeppni við litlar og sjálfkeyrandi rútur sem sækja fólk heim að dyrum og skutla að dyrum vinnustaðarins).

Allt gerist þetta á meðan skuldir og ábyrgðir á herðum skattgreiðenda eru enn gríðarlegar og stutt í næsta hrun á fjármálamörkuðum (sennilega verður það ekki bankahrun eins og það seinasta heldur ríkissjóða- og gjaldmiðlahrun, en almenningur fær að þjást sama hvað).

Ekki finnst mér íslenskir fjölmiðlar veita þessu fjáraustri mikið aðhald svona almennt séð (þótt þeir gramsi aðeins í hinum og þessum málum). Þeir hafa kannski bara gefist upp. Skattgreiðendur eru líka sofandi. Þeir óttast sennilega allir að ef skattar lækka þá hverfi niðurgreiðslan sem þeir sjálfir njóta góðs af. Sá skuldugi óttast að vaxtabæturnar lækki. Sá menningarlegi óttast að miðar á tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar hækki í verði. Verktakinn óttast að hið opinbera hætti að ausa fé yfir hann sjálfan. Sá lasni óttast að sjúkrarúmið hans lokist. Fæstir gera sér grein fyrir því að hið opinbera er ekki velunnari þeirra heldur er það mafíósi sem gerði alla samkeppnisaðila útlæga og snarhækkaði verðlagið á öllum sínum þjónustum.

En kannski mun opinber eining einhvern tímann ganga fram af skattgreiðendum og fjölmiðlafólki. Einu sinni var stungið upp á því að grafa göng til Vestmannaeyja og hlógu þá flestir. Nú er talað um að reisa sporvagnakerfi í veðurbarinni Reykjavíkurborg og enginn hlær. Einhvers staðar þarna á milli liggja mörk þess umborna og hins fáránlega.


mbl.is Engin kostnaðaráætlun lá fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klappstýran sem varð varnarjaxl

Ólafur Ragnar Grímsson var á tímabili klappstýra bankamannanna sem fóru of geyst. Síðan breytti hann um hlutverk. Hann fór út á völlinn og gerðist varnarjaxl. Hann varði hagsmuni Íslands erlendis þegar Íslendingar sjálfir skulfu á hnjánum og kiknuðu í þeim þegar þeir heyrðu erlent tungumál.

Kannski þorði Ólafur að standa í lappirnar af því hann vissi að hann væri ekki á leið í einhverja kosningabaráttu. Hann þorði að líta í hjarta sitt og finna þar réttlætið og hann þorði að mæta umheiminum og berjast fyrir því réttlæti.

Svipaða sögu má segja af öðrum ráðherra sem var að hætta í pólitík og ætlaði sér ekki í aðra kosningabaráttu: Friðrik Sophusson, fjármálaráðherra árin 1991-1998. Undir hans stjórn lækkuðu ekki bara skattar heldur einnig það hlutfall af landsframleiðslunni sem ríkisvaldið gleypti. Gleymum því ekki að þegar ríkið hættir að mergsjúga hagkerfið þá stækkar það og dafnar og það veldur því að lægri skattprósentur byrja að skila meira fé í ríkiskassann, fleiri fara að þéna meira og allskyns afslættir og undanþágur fara að vega minna svo skattheimtan vex sem hlutfall af landsframleiðslu. En ekki undir stjórn Friðriks, sem hefur sennilega fengið vænan skammt af gagnrýni fyrir að standa á sínu.

Við ættum e.t.v. að læra af þessu og setja bara hvíta karlmenn komna yfir miðjan aldur í öll helstu embætti. Nei ég segi svona.


mbl.is Dagbækur Ólafs varpa ljósi á Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sambúð með 100 manns

Ímyndaðu þér að þú værir í sambúð. Fyrir utan maka þinn og þín eigin börn væru á sama heimili 100 aðrar manneskjur. Þetta væri vissulega stórt heimili en fjöldinn líka mikill.

Þessi hópur þarf að ákveða hverjir þrífa klósettið, versla inn, taka til, þrífa gólf, þurrka af, þvo föt og ganga frá þeim, hjálpa börnum að bursta tennur og útbúa nesti, sækja, skutla og setja bensín á bílinn.

Í svona miklum fjölda er hætt við að einhverjir reyni að komast hjá því að vinna sín verk. Um leið ætlast þeir sömu til að aðrir vinni sín verk. Þetta fólk kemst stundum upp með það. Þetta eru þeir lötu sem uppskera meira en þeir sáðu. Þeir njóta sömu lífskjara og aðrir en í skiptum fyrir minni vinnu.

Um leið væru aðrir sem leggðu meira á sig en aðrir svo sambúðin gangi vel fyrir sig. Þeir týna upp rusl sem þeir sjá jafnóðum þótt slíkt eigi að vera í verkahring annarra. Þeir þrífa aðeins meira en verkskipulagið mælir fyrir. Þeir borga aðeins meira til sameiginlegu innkaupanna en aðrir. Þetta eru þeir sem uppskera minna en þeir sáðu. Þeir njóta sömu lífskjara og aðrir en í skiptum fyrir meiri vinnu.

Skyndilega dettur einhverjum í hug að sambúð með svona mörgu fólki gangi ekki upp. Það þurfi að setja upp milliveggi og innan þeirra búa smærri hópar sem þurfi að skipta verkum sínum upp á nýtt. Skyndilega blasir það betur við hverjir gera meira en ætlast er til og hverjir gera meira. Þeir duglegu heimta meiri umbun og að þeir lötu fái minna en aðrir. Það blasti síður við í 100 manna sambúðinni hverjir voru hinir duglegu og hverjir voru hinir lötu. Núna blasir það við öllum.

Verkalýðsfélögin eru að reyna steypa launþegum saman í 100 manna sambúðina. Það mun draga úr starfsorku þeirra duglegu en þeir lötu verða alsælir. Allir fá meðallaun hópsins í heild sinni. Þeir duglegu geta ekki unnið sig upp. Þeir lötu hafa minni ástæðu til að rífa sig upp af rassgatinu.

Væri ekki best ef fólk fengi bara að semja um sín eigin kaup og kjör?


mbl.is Reyna að ná breiðri samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já og nei

Það liggur fyrir að Laugavegur og raunar fleiri svæði miðbæjarins lokist fyrir bílaumferð. Göngugötur eru mjög í tísku og ferðamenn eru hrifnir af þeim, sem og mæður í fæðingarorlofi sem vilja rölta um á dögum þar sem veðrið heimilar slíkt. Í ráðhúsinu sitja menn ofan á sínum bílastæðakjallara og finnst voðalega notalegt að skjótast í pulsu í hádeginu án þess að þurfa rekast á bíl. 

Þetta þýðir að þeir sem reka fyrirtæki í miðbænum í dag þurfa að gera nýjar áætlanir. Mörg fyrirtæki hafa nú þegar flúið miðbæinn og á opnari svæði í nágrannasveitarfélögunum. Sú tilhneiging heldur áfram. Önnur hafa þrýst á yfirvöld að byggja bílastæðahús- eða kjallara fyrir sína skjólstæðinga, svo sem Harpan sem fær dýrustu bílastæði landsins til ráðstöfunar. Fyrirtæki sem liggja fjarri bílastæðahúsum og sjá ekki fram á að fá slík, og geta um leið ekki treyst á að þeirra viðskiptavinir geti gengið í hálku í mótvindi upp brekku, þurfa einfaldlega að fara.

Allt í þessum heimi er undirorpið breytingum. Stundum gýs eldfjall. Stundum er götu lokað. Stundum er skattur hækkaður. Stundum breytist smekkur neytenda. Eigendur fyrirtækja geta vonast til að hafa áhrif á sumt en ekki allt. Og ef tískan meðal stjórnmálamanna með bílastæði undir vinnustað sínum bendir á göngugötur þá eiga fyrirtæki ekki séns. Þau þurfa að flýja eða skipta út kúnnahóp sínum.


mbl.is Aldrei hlustað á okkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður sem hugsar í lausnum

Það er hressandi að lesa viðtöl við fólk sem hugsar í lausnum og notar jákvætt hugarfar til að vinna á erfiðleikum og mótlæti. Slíkt er ekki sjálfgefið. Oftar en ekki eru viðtöl fjölmiðla og tímarita við fólk sem virðist vera í fullri vinnu við að kvarta, kenna öðrum um, vorkenna sjálfu sér og heimta að aðrir lagi þeirra eigin vandamál (Auðvitað er til fólk sem hefur orðið fyrir mótlæti og getur lítið gert til að bæta aðstæður sínar, en það hlýtur að vera lítill minnihluti.)

Þröstur Leó Gunnarsson, leikari og kokkur, er góð fyrirmynd.


mbl.is Fékk símtal frá Guðlaugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru listamannabæturnar ekki nóg?

Alveg afbrigðilega mikil áhersla virðist vera hjá ríkinu að framleiða afþreyingu. Kvikmyndaframleiðendur fá vaskinn endurgreiddan. Listamenn fá framfærslubætur. Tónleikar óvinsællar tónlistar eru niðurgreiddir. Leikhúsin, sem tapa flest kvöld fyrir kvikmyndahúsunum, fá gríðarlega styrki. Heilum her listamanna sem geta ekki framfleytt sér er haldið uppi af skattgreiðendum. Og nú er talað um skattaívilnanir.

Af hverju er þessi brjálæðislega áhersla á að framleiða afþreyingu? Hefur ríkið áhyggjur af því að fólk hafi of mikinn frítíma? Er ekki nóg að gera þótt ríkið skipti sér ekki af? 

Er vinnuvikan orðin of stutt hjá mörgum? Svo stutt að það þarf að hjálpa fólki að finna sér eitthvað að gera, bæði með niðurgreiðslum og ríkisrekstri? 

Átti ríkisvaldið ekki upphaflega að verja réttindi okkar og eigur, greina úr ágreiningsmálum og ef til vill rétta einhverjum hjálparhönd? Hvaða stjórnmálaheimspekingur barðist fyrir því að ríkið færi út í framleiðslu og niðurgreiðslu á leiðum til að drepa tímann? Hvaðan kom þessi hugmynd?


mbl.is Rithöfundar hafa áhyggjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband