Bragginn og Heiðarbær í Árbæjarhverfi

Í Árbæjarhverfi í Reykjavík er lítil og róleg gata sem heitir Heiðarbær. Í Heiðarbæ eru 17 einbýlishús og í hverju þeirra eru ein eða tvær fyrirvinnur. Meðallaun íbúanna eru nokkurn veginn meðallaun launþega á Íslandi í heild sinni. Í útsvar og fasteignaskatta greiða íbúar Heiðarbæjar nokkrar milljónir á mánuði. Þeim milljónum hefur undanfarið ekki verið eytt í skóla, gatnagerð, gæslu barna eða aðra svokallaða grunnþjónustu sveitarfélaga. Nei, bragginn tók þær.

Grípum aðeins niður í þá þakkarræðu sem aldrei verður flutt við vígslu braggans: „Sérstakar þakkir fá íbúar Heiðarbæjar í Árbæ fyrir framlag sitt til endurreisnar braggans. Hver einasta útsvarskróna þessa ágæta fólks hefur verið sett í að breyta gömlum bragga í nýjan. Íbúar Heiðarbæjar hafa ekki lagt krónu af mörkum til að fjármagna rekstur grunnskóla, leikskóla og vegakerfis. Nei, bragga  þurfti að gera upp og útsvar Heiðarbæjar fór í hann. Borgaryfirvöld þakka kærlega fyrir framlagið.“

Reyndar lögðu ekki allir íbúar Heiðarbæjar sitt af mörkum. Í einu húsinu neyddist móðir til að taka sér ótímabundið orlof frá vinnu til að vera heima með ungu barni sem fékk ekki leikskólapláss. Leikskólaplássið skorti því útsvarið fór í braggann en ekki til rekstur leikskóla. Kannski væri ráð að breyta bragganum í leikskóla?

Íbúar í nágrenni Heiðarbæjar vonast nú til að í Heiðarbæ geti íbúar á ný byrjað að leggja sitt af mörkum til reksturs opinberrar einokunarstarfsemi, svo sem grunnskóla og leikskóla. Í Heiðarbæ eru menn líka með blendnar tilfinningar yfir því að háir skattar hafi ekki geta runnið í annað en bragga svo mánuðum skiptir. Sjáum nú hvað setur. Þeir í ráðhúsinu hljóta að finna upp á einhverju sniðugu til að taka við af bragganum, til dæmis sporvagnakerfi.

Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu í dag og er aðgengilegur áskrifendum blaðsins hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrir um 30. árum var byrjað að reisa Perluna í Öskjuhlíð. Byggingu sem frá fyrstu hugmynd var vitað að gæti aldrei staðið undir sér. Árið 2005 var talið að Orkuveitan þyrfti að greiða 67 milljónir á ári með Perlunni, sem gerir um 130. milljónir í dag. Hvaða gata í Reykjavík hefur það hlutverk að borga Perlu-reikninginn?

Sjá: http://www.visir.is/g/2007103040061

Hverjir voru aftur í stjórn í Reykjavík 1988, Voru það ekki Vinstri Grænir?

Eftirfarandi tilvitnun er úr pistli sem gáfaður fræðimaður skrifaði árið 1994.

„Ráðhúsið við Tjörnina og Perlan í Öskjuhlíð eru allt annars eðlis. Þau hús voru ekki hugsuð sem fjárfesting, þó að þau hafi vissulega notagildi. Þau voru gerð fyrir augað; þau voru munaður, sem menn leyfa sér, þegar vel árar, svipað og miðaldamenn reistu veglegar dómkirkjur til að prýða borgir sínar og íslenskir launamenn smíða sér snotur garðhýsi úr gleri. Það er vissulega rétt, að kostnaður við þessi mannvirki fór langt fram úr áætlunum. Þar er hins vegar verkfræðingum og tæknimönnum um að kenna, ekki stjórnmálamönnum, því að ákvarðanirnar um þessi hús lágu fyrir og voru bornar undir kjósendur á eðlilegan hátt (annars ættu engir að kunna betur að gera ráð fyrir smíðakostnaði húsa umfram áætlanir en íslenskir kjósendur). Raunar fór Ráðhúsið aðeins 35% fram úr þeirri áætlun, sem lá fyrir í borgarstjórnarkosningunum 1990. Þessi tvö mannvirki sýna því enga vangetu „stjórnkerfisins til að móta stefnu í málefnum þjóðfélagsins". Ef til vill gilda önnur sjónarmið um flugstöðina í Keflavík, því að hún var auðvitað hugsuð sem fjárfesting öðru fremur.“

Sjá: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=292764&pageId=4314346&lang=is&q=Perlan%20%D6skjuhl%ED%F0

Var endurbygging braggans ekki gerð fyrir augað?

Jonas Kr. (IP-tala skráð) 28.9.2018 kl. 13:43

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Borgin í dag safnar skuldum í blússandi góðæri með hæstu mögulegu skattheimtu.

Fyrri dómkirkjubyggingar réttlæta ekkert.

Geir Ágústsson, 28.9.2018 kl. 14:07

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Mér finnst athyglisvert í þeirri réttmætu gagnrýni á uppblásinn kostnað við endurgerð Reykjavíkurvegar 100, að enginn nennir að fara ofan í sjálfan reikninginn og gagnrýna kostnaðinn lið fyrir lið og sýnist ekki vanþörf á.  Þar virðist um svo ósvífna kostnaðarliði að ræða að flokkist undir svik! Þrátt fyrir að eftirlitsaðilar reikni sér sjálfum 42 milljónir fyrir verkið!

Eini eðlilegi reikningurinn í þessu kostnaðaruppgjöri er reikningur frá Límtré-Vírneti fyrir þakefnið. Allir aðrir kostnaðarliðir eru útúr korti og fengjust aldrei greiddir hjá neinum venjulegum húsbyggjanda. Ef svona er háttað um allar framkvæmdir hjá borginni þá er ekki vanþörf á að skipta út helstu stjórnendum og koma skikki á eyðsluna.

Hér er slóðin á reikninginn eins og hann var lagður fyrir borgarráð

https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/sea_nautholsvegur_100_umsogn.pdf

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.9.2018 kl. 14:25

4 identicon

Það er ósköp huggulegt að sitja inni í þessum bragga, en hann er ekkert fyrir augað og engin dómkirkja.

Því miður sé ég ekki 45 millj. kr. náðhúsið, það hlýtur að vera flott! 

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 28.9.2018 kl. 14:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband