Styðjum smækkun sveitarfélaga og samkeppni þeirra á milli

Stækkun sveitarfélaga er af mörgum ástæðum slæm hugmynd sem ber að forðast eins og heitan eldinn.

Það er meðal annars af eftirfarandi ástæðum:

Auðveldara fyrir ríkið að bæta við verkefnalista þeirra

Þegar sveitarfélög eru "stór og sterk" er auðveldara fyrir ríkið að setja lög sem bæta við verkefnalista þeirra. Sá listi er nú þegar orðinn alltof langur og um leið alltof dýr fyrir útsvarsgreiðendur. Ekki bætir svo úr skák að fyrir utan öll lögbundnu verkefnin hafa sum stærri sveitarfélaganna tekið upp á allskonar öðru líka, svo sem rekstri mannréttindaráða og braggavinafélaga. 

Erfiðara fyrir fólk að flýja með fótunum

Stór sveitarfélög, sérstaklega úti á landi, þekja gríðarleg landflæmi. Þetta lokar fólk að vissu leyti innan landamæra þeirra - það er erfiðara að flýja illa rekið sveitarfélag með fótunum nema skilja eftir vini og vandamenn. Sveitarfélög gera sér grein fyrir þessum samkeppnishamlandi eiginleika víðfeðmra sveitarfélaga og ganga á lagið og slaka enn frekar á aðhaldi í rekstri.

Það hefur verið styrkur höfuðborgarsvæðisins að vera klofið í mörg sveitarfélög sem veita aðhald. Nýlega flutti einn sem ég þekki úr Reykjavík í Garðabæ og hann sagði að þaðan flytji maður greinilega ekki.

Sá sem þénar mikið getur lánað mikið

Stór sveitarfélög eru með marga útsvarsgreiðendur sem er hægt að veðsetja og reisa fyrir lánsféð sundlaugar, tónleikahallir og íþróttavelli. Í smærri sveitarfélögum þurfa menn að eiga fyrir veislunni. Í þeim stærri er hægt að taka himinhá lán og binda útsvarsgreiðendur í skuldavafninga sem er erfitt að losna úr nema sameinast betur reknu nágrannasveitarfélagi (eins og í tilviki Álftaness).

Óþarfarekstur

Stór sveitarfélög stofna ekki bara mannréttindaráð og braggavinafélög. Þau ýta líka einkaaðilum til hliðar hvar sem þau geta. Í Reykjavík er til dæmis Sorpa að sóa fé skattgreiðenda með smærri og smærri tunnum og flóknari og flóknari endurvinnslureglum á meðan á Akureyri er ruslameðhöndlun boðin út til sérhæfðra einkaaðila sem taka að sér allt þetta leiðinlega. Stærri sveitarfélög telja sig geta meira en þau smærri, og það kostar útsvarsgreiðendur stórfé.

Niðurstaða

Það blasir við hvað þarf að gera til að gera sveitarstjórnarstigið í íslenskri stjórnsýslu bærilegra:

  • Afnema lög um lágmarksútsvar
  • Stytta listann yfir lögbundin verkefni sveitarfélaga um 90%
  • Breyta löggjöfinni svo það sé auðveldara að stofna til nýrra sveitarfélaga með klofningi frá stærri sveitarfélögum

Samband íslenskra sveitarfélaga talar út frá hagsmunum sveitarfélaga. Það er því góð þumalputtaregla að gera allt þveröfugt við þeirra meðmæli og verja þannig hagsmuni almennings og skattgreiðenda.


mbl.is Styðji stækkun og eflingu sveitarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Geir, þú ert með þetta. Eins má hafa í huga að skuldir sveitarfélaga hafa margfaldast eftir að "hagkvæmni stærðarinnar" tröllreið þeim. Þjónustan við íbúana er, ef eitthvað er, minni og dýrari. Fasteignagjöld sem áttu að vera til að dekka útlagðan kostnað eru orðin að skatti sem notaðir er eins og ótæmandi tekjustofn við að reka umsýslu báknið.

Magnús Sigurðsson, 27.9.2018 kl. 13:27

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Mæltu manna heilastur.

En já, stanslaus straumur af lögbundnum verkefnum hefur virkað eins og stanslaus þrýstingur á að sameina sveitarfélög sem hafa um leið burði til að taka á sig enn fleiri verkefni (eða finna upp á þeim sjálf) sem hefur þyngt reksturinn og þrýst enn frekar á sameiningu sveitarfélaga.

En um leið fást víða ekki pláss fyrir leikskólabörn, grunnskólakrakkar halda áfram að dragast aftur úr í alþjóðlegum samanburði, ruslatunnurnar minnka og innihald þeirra sífellt takmarkaðra, og holurnar götóttar. Allt sem er ætlast til af sveitarfélögum er svikið um leið og skattheimtan hækkar og báknið þenst út. 

Það þarf að kippa þessari brunavél á skattfé úr sambandi.

Geir Ágústsson, 27.9.2018 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband