Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Ákaflega ánægjuleg mótun á hegðun (áður) frjálsra einstaklinga

Ég þoli ekki vindverki í lyftum. Þeir eru e.t.v. ekki lífshættulegir en þeir valda mér óþægindum.

Ég þoli ekki ofát á fitu annars fólks. Það veldur mér e.t.v. ekki líkamlegum skaða en það ónáðar heilsusamlega geðheilsu mína að vita af öðru fólki stífla kransæðar sínar.

Umferðarmengun fer rosalega í taugarnar á mér. Hún veldur mér líkamlegum skaða en kemur ekki í veg fyrir að ég hætti mér út í umferðina á hverjum degi.

Box er mjög hættuleg íþrótt og skaðleg fyrir þá sem stunda hana. Höfuðmeiðsli og annað eins er ekki gott mál. Ég hef sterkar skoðanir á því sem annað fólk gerir til að hreyfa sig og virkja keppnisandann sér í.

Reykingar á skemmtistöðum fara mikið í taugarnar á mér. Ég þoli ekki lyktina og veit að þær valda mér líkamlegum skaða (þótt erfitt hafi reynst að fá það staðfest með rannsóknum). Mér þætti vænt um að losna við persónulegan pirring minn og þann líkamlega skaða sem felst í skemmtistaða- og iðjuvali mínu um helgar.

Er lausnin á öllum þessum óþægindum og allri þessari frjálsu eyðileggingu eigin heilsu að setja lög um hinar pirrandi og frjálslega skaðlegu athafnir?

Eru þá mörk þess sem ríkið "má" (þrátt fyrir stjórnarskrá) setja lög um ekki stórkostlega opnuð? Eða hvað kemur næst? Bann á áti á feitum mat? Bann á blóti? Bann á ekki-kristinlegri hegðun?

Ég held að bann-sinnum væri hollt að setjast niður og hugleiða það takmarkalausa stjórnlyndi sem ríkinu opnast með því að afnema einkaeignarrétt og athafnafrelsi á Íslandi. Það "virkaði" eflaust í Írlandi og Svíþjóð, en ef það er kallað "rök" þá er rökhugsun á undanhaldi, og í staðinn kominn pólitískur rétttrúnaður óbeislaður. 


mbl.is Reykingabann á skemmtistöðum gæti skilið milli feigs og ófeigs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilvitnun dagsins

Vefþjóðviljinn kveður gamla og góða vísu í dag (#):

Lækingin á meinsemdinni sem ríkisstyrkirnir valda er auðvitað meiri ríkisstyrkir.

Bændum á líka að bjarga frá hinu hörmulega landbúnaðarkerfi með auknu fjáraustri í það. Sjúkrahúsunum "fjársveltu" á að bjarga frá biðlistamenningu og fólki sofandi út á göngunum með meira fjáraustri úr ríkissjóði. Meinsemdir ríkisstyrkjanna hljóta bara eitt læknisráð: Fleiri ríkisstyrki. Er þetta ekki form af sturlun?


Ríkisafskipti og ekkert annað

Hvað gerist þegar ríkinu er "leyft" að skipta sér af ofbeldislausum athöfnum einstaklinga? 

Svarið: Ríkið treður puttunum í allskonar frjáls samskipti á milli óþvingaðra einstaklinga!

Íslendingar þekkja þetta vel. Á Íslandi getur ekki hver sem er selt hverjum sem er áfenga drykki. Á Íslandi er eigendum húseigna ekki leyft að ráða reykingahegðun gesta sinna án afskipta hins opinbera. Á Íslandi þarf að greiða ríkinu gjöld og skatta ef vara er seld frá einum aðila til annars. Á Íslandi má ekki lækna sjúka menn án viðurkenndra pappíra og leyfa, og ekki hægt að greiða fyrir hvaða lækningu sem er á hvaða hátt sem er.

Á Íslandi taka bráðum í gildi lög sem banna með lögum fólki að hleypa öðru fólki inn á húseign sína til að reykja. Í Póllandi eru barnamyndir undir rannsókn yfirvalda (og gætu átt á hættu að vera bannaðar) af því ríkið ákvað að það væri athyglisvert - jafnvel "nauðsynlegt". 

Sem betur fer hef ég hugsað, lesið og heyrt það sem dugir til til að sannfæra mig um að ríkisvaldið er ekki réttlætanlegt með gildum rökum sama hvað. Heildarmyndin er ljós fyrir mér. Því miður gildir það ekki almennt um alla. Þess vegna hneykslast menn á hegðun pólskra stjórnvalda. Það geri ég ekki. Fyrir mér er hún rökrétt og eðlileg afleiðing þess að menn umbera ríkisvaldið.


mbl.is Pólsk yfirvöld rannsaka hvort Stubbarnir séu samkynhneigðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á Ísland að sækja um aðild að Bandaríkjunum?

Af mörgum slæmum hugmyndum sem heyrst hafa í íslenskri dægurmálaumræðu er möguleg innganga Íslands í Bandaríkin Norður-Ameríku líklega ekki sú versta. Röksemdir fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu má til dæmis auðveldlega heimfæra á aðild að Bandaríkjunum. Tökum nokkur dæmi.

Innri markaður Bandaríkjanna er gríðarstór og mun stærri, ríkari og fjölbreyttari en sá í Evrópusambandinu. Bandaríkin eru ríkasta land í heimi og innan þeirra eru fáar hömlur á verslun, viðskipti og fólks- og fjármagnsflutninga.

Ríki Bandaríkjanna njóta mikillar sjálfsstjórnar á mörgum sviðum, svo sem í skattamálum, og mikil og virk samkeppni er um íbúa, fjármagn og fyrirtæki milli a.m.k. flestra þeirra.

Flest ríki Bandaríkjanna eru mun ríkari en ríki Vestur-Evrópu (langflest Evrópuríki eru fátæk miðað við langflest þeirra bandarísku) og því freistandi að ætla að Ísland gæti fengið mjög mikið út úr þéttum og óhindruðum viðskiptatengslum við þau.

Auður Bandaríkjamanna ýtir undir mikla lyst þeirra á dýrum hágæðavarningi. Íslendingar eru að niðurgreiða framleiðslu á bragðgóðu kjöti af dýrum sem hlaupa frjáls um villtar lendur og hafa varla nýtt hina stóru, bragðgóðu og villtu fuglastofna sína að neinu ráði, ef innanlandsneysla er undanskilin. Afurðir af þessu tagi seljast fyrir stórfé í bandarískum lúxusverslunum. Ef viðskiptahömlur við Bandaríkin væru úr sögunni er ljóst að gríðarleg sóknarfæri muni myndast fyrir hinar hreinu náttúruafurðir Íslendinga.

Smáríkjum innan Bandaríkjanna vegnar almennt mjög vel, og oft mun betur en hinum víðfeðmu ríkjum þar sem sundurleitni samfélaga og togstreita bæja og sveita skapar þversagnir sem stjórnmálamenn ráða illa við. Smáríki Bandaríkjanna geta auðveldlega aðlagast breyttum kröfum og þörfum og halda sér þannig vel með í samkeppni um vinnuafl, fjárfestingar og fyrirtæki.

Í Bandaríkjunum er minnihlutahópum veitt mikið svigrúm frá afskiptasemi stjórnvalda. Indíánar hafa í seinni tíð náð að lögsækja stór landsvæði af ríkinu og njóta mikillar sjálfsstjórnar á þeim (t.d. hafa þeir leyfi til að reka spilavíti og græða þannig vel á því að öðrum er bannað að gera hið sama). Hvalveiðar indíaána eru umbornar í svo miklum mæli að Bandaríkin eru stærsta hvalveiðiþjóð heims á sama tíma og þeir berjast hart gegn því að aðrir en þeirra eigið fólk fái að veiða hvali. Sterkari sérhagsmunahyggja er vandfundin innan Evrópusambandsins þrátt fyrir mikinn vilja þess til að hygla minnihlutahópum.

Bandaríkjamenn eyða stórfé í að styrkja landbúnað sinn og stunda offramleiðslu á korni, kjöti og fjölmörgum öðrum afurðum. Þeir sem hafa mikinn áhuga á stórum styrkjakerfum með greiðum aðgangi geta því litið hýrum augum til Bandaríkjanna.

Dollarinn er sterkur og alþjóðlegur gjaldmiðill og viðmiðunargjaldmiðill í fjölmörgum viðskiptum. Verðbólga hefur verið með lægsta móti í Bandaríkjunum undanfarin ár og hagvöxtur töluvert meiri en í Evrópusambandinu og því ekki fyrir neinu að kvíða að renna inn í hagkerfi landsins.

Í stuttu máli, ef boðið væri upp á aðildarumræður við Bandaríkin er ljóst að mörg kunnugleg rök eru fyrir því að sækja um inngöngu. Ég veit samt ekki hvað það skiptir miklu máli. Er spennandi tilhugsun að gera Ísland að fylki í stórríki? Hvaða ávinning er úr því að hafa? Er samkeppni um evrópskt skattfé okkur mikilvæg eða er betra að leggja áherslu á að opna og frelsa eigið hagkerfi og þéna pening á hinum frjálsa markaði án alþjóðlegs yfirstjórnunarvalds?

Íslendingar hafa aðgang að innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn. Íslendingar þurfa sennilega ekki að útiloka möguleikann á NAFTA-aðild. Fríverslunarsamningar eru gerðir sem aldrei fyrr. Látum því aðildarviðræður Íslands að Bandaríkjunum eða Evrópusambandinu eiga sig. Í rígbundinni aðild liggja hagsmunir Íslendinga ekki.


Dæmisögur

Ég held að mér sé ekki að ganga mjög vel að lýsa skoðunum mínum um gildi einkaeignarréttar vs. sameignar (ríkiseignar) og ætla því að reyna nýja nálgun í formi dæmisaga. Ég veit fyrirfram að það verður mjög auðvelt að plokka einstakar setningar út og gera þær að aðalmálinu, en ég vona samt að allar sögurnar í einu samhengi skiljist rétt. Njótið! 

Saga 1

Í bæ einum var matvöruverslun sem seldi ekki skinku. Íbúar bæjarins voru ósáttir við þetta og kvörtuðu í eiganda matvöruverslunarinnar yfir skinkuleysinu. Þegar næsti flutningabíll yfirgaf bæinn var kælivörudeild matvöruverslunarinnar full af skinku og fólk keypti hana í stórum stíl. Var ekki kvartað aftur yfir skinkuleysi.

Saga 2 

Tveir menn, Siggi og Palli, bjuggu í aðliggjandi húsum og höfðu sinn garðinn hvor. Dag einn ákvað Siggi að hann væri orðinn þreyttur á því að slá grasið í sínum garði og ákvað að malbika yfir það allt saman, þótt slíkt mundi hafa umtalsverð áhrif á söluverð húss og lóðar. Palli var ekki alveg nógu sáttur við þetta og kvartaði. Siggi hunsaði kvartanir Palla. Varð ekki meira úr deilum þessara tveggja manna og með tíð og tíma lærðist Palla að meta körfuboltagrindina sem Siggi setti við malbikaðan garðinn sinn sem á hafði verið máluð þriggja-stiga-lína og vítapunktur.

Saga 3 

Bóndi nokkur átti landareign og í gegnum hana rann á sem féll á einum stað niður í fallegum fossi. Bóndinn seldi ferðamönnum jafnan aðgang að gönguleið sem lá að fossinum og borguðu margir vel fyrir að fá að berja dýrðina augum.

Dag einn kemur viðskiptamaður að bónda og býður honum fé fyrir að fá að reisa virkjun í fossinum og þekja nokkra hektara af landi hans með lóni - gegn ákveðnu gjaldi. Bónda leist ekkert illa á þetta tilboð en fannst upphæðin sem var í boði ekkert sérstök. Raforkuverð var ekki það hátt að hægt væri að leggja í mikil útgjöld vegna landleigu ofan á sjálfar virkjunarframkvæmdirnar og hann ákvað því að leita að betra tilboði.

Hann hafði samband við Félag íslenskra óbyggðarunnenda (FÍÓ). Félagsmenn þessa félags voru margir hverjir ríkir menntamenn á höfuðborgarsvæðinu sem mátu það mikils að komast undir beran himinn og skoða fallegan foss. Þeir vildu kaupa landið og gátu boðið umtalsvert betur í landareignina því auðvelt væri fyrir þá að láta landkaupin borga sig - eingöngu þyrfti að viðhalda einum göngustíg og selja aðgang að honum gegn hóflegu gjaldi. Sumir félagsmenn gáfu meira að segja eftir ávöxtunarkröfu sína - vildu bara fá það skriflegt að ekki yrði virkjað í honum. Einnig var auðvelt fyrir félagsmennina af afla fjár í ríku borgarsamfélagi náttúruunnenda.

Bóndi tók tilboði þeirra umsvifalaust og fossinn stóð óhreyfður um ókomin ár, enda fallegt útsýni mikil verðmæti í samfélagi þar sem efnisleg gæði eru mikil og ósnert náttúra talin verðmætur lúxusvarningur út af fyrir sig af mjög mörgum.

Saga 4 

Ríkisvald nokkuð átti miklar landareignir og fjársterkt orkufyrirtæki. Ríkjandi ríkisstjórn sá hvernig "byggðastefna" hennar var ekki að bera árangur - fólk fluttist í auknum mæli til stærri þéttbýlisstaða vegna vaxandi krafa um meiri þjónustu, auðugra mannlíf og fjölbreyttari atvinnutækifæri. Atkvæðin hrundu af ríkisstjórninni á landsbyggðinni og eitthvað varð að gera. Var ákveðið að leita tilboða í kaup á ódýrri raforku og láta orkufyrirtækið reisa gríðarstóra virkjun sem skilaði nánast engri ávöxtun þótt ríkisvald þetta gæfi fyrirtæki sínu landið undir lónsstæðið og ábyrgðist allar lántökur með skattfé. Þetta átti að skila atkvæðum og stuðla að vinsældum ríkisstjórnarinnar á landsbyggðinni. 

Einhver mótmælu heyrðust í ríku menntafólki af höfuðborgarsvæðinu en þau voru lítið virt viðlits enda engin ástæða til. Pólitískum markmiðum tókst að ná og þótt stjórnarandstaðan hafi reynt að spila á ósætti ríka menntafólksins þá hélt ríkisstjórnin velli því þrátt fyrir allt var kosið um annað og meira en ráðstöfun ríkisins á eigin landi og fyrirtækjum.


Eru vinstrimenn frjálslyndir?

Á öðrum stað á netinu lét ég eftirfarandi orð falla:

"Hvernig getur sósíalisti - aðdáandi hins almáttuga og allt-um-faðmandi ríkisvalds - kvartað yfir því að ríkið leggi undir sig hin svokölluðu "fríríki" innan síns umráðasvæðis? Mér skildist að það væri venja sósíalista að breiða úr ríkisvaldinu þegar tækifærin gefast."

Félagi minn, sem er að því er mér virðist einlægur andstæðingur Sjálfstæðisflokksins, lét í kjölfarið eftirfarandi orð falla:

"Vinstri menn hafa löngum verið frjálslyndari en hægri menn í ýmsum atriðum. Undantekningarnar eru kommúnistar og fasistar, sem tilheyra stjórnmálafræði liðinna tíma ef við einskorðum okkur við hina vestræna heima." 

Mér komu þessi ummæli á óvart og játa að ég skil þau ekki og þætti mjög vænt um að fá þau dýpkuð. Ég skora því á menn og konur að láta ljós sitt skína í athugasemdaforminu við þessa færslu. Menn mega gjarnan skrifa nafnlaust ef það hjálpar til við að losa um fingurnar!

Í leiðinni þykir mér ekki úr vegi að benda á grein sem fjallar meðal annars um meint frjálslyndi vinstrimanna (liberals) í bandarísku samhengi:  How Prosperity Made Us More Libertarian, eftir Brink Lindsey hjá Cato-stofnunni.

Látið nú allt flakka!

Viðbót: Áhugavert lesefni fyrir bæði frjálshyggjumenn og frjálslynda hægri-krata (eða hvað það nú kallast):

Frjálshyggjan og stjórnmál nútímans 

Gæti hjálpað til við að aðgreina íslenska umræðu hægri-vinstri frá hinni bandarísku sem margir hafa á heilanum en samt ekki nægilega mikið til að lesa hina vísun mína í lesefni í þessari færslu. 


Ein leið af mörgum til að velja í stöðu

Ónefndur kunningi minn er í þeirri stöðu hjá ónefndu fyrirtæki að sjá um mannaráðningar (auk þess að bera stóra ábyrgð á rekstri fyrirtækisins). Hann hefur mjög ákveðnar skoðanir á því hvaða fólk hentar fyrirtækinu (byggðar m.a. menntun, kyni og stjórnmálaskoðunum umsækjenda). Ákveðnir einstaklingar eiga einfaldlega engan möguleika á að vera ráðnir og það af ástæðum sem sumar hverjar eru algjörlega ótengdar menntun og reynslu. Um hreina og klára mismunun er að ræða, byggða á áliti og skoðunum eins manns.

En er eitthvað út á það að setja? Hver ætlar að amast við því hvernig hann ræður starfsfólk sem getur haft mikil áhrif á afkomu fyrirtækisins, sem hann aftur ber mikla rekstrarlega ábyrgð á? Ég sé ekki að það komi nokkrum manni við.

Samfylkingin er enda núna að beita svipaðri aðferðarfræði. Ingibjörg Sólún er búin að ákveða að þrjár af sex lausum ráðherrastöðum verði skipaðar kvenmanni. Þegar hinar þrjár stöðurnar hafa verið mannaðar (karlmanni) verður því ekki lengur mögulegt fyrir karlmann í Samfylkingunni að hljóta stöðu sem ráðherra. Ingibjörg Sólrún er búin að ákveða hvers konar umsækjanda hún ætlar að ráða í starfið og útilokar alla aðra frá - fyrirfram og samviskulaust.

Aftur er ekkert út á þetta að setja. Ingibjörg Sólrún mun bera mikla ábyrgð á störfum þeirra sem hún velur í ráðherrastóla. Hún fær skellinn ef þeir gera á sig. Hún fær hrósið ef þeir standa sig vel. Ef hún telur að störf ráðherrateymis síns verði betur unnin þegar kynjahlutföllin innan þess eru jöfn þá hún um það. Ég spyr hana ekki út í grundvöll hennar eða ástæður. Ábyrgðin er hennar.

Margir hægrimenn munu gagnrýna Ingibjörgu fyrir að einblína á kynferði. Þeir um það. Margir vinstrimenn munu gagnrýna Geir H. Haarde fyrir að einblína á eitthvað annað en kynferði. Þeir um það. Ábyrgð flokksformannanna er mikil, en hún er fyrst og fremst sú að standa sig vel og velja til starfa fólk sem skilar af sér góðum verkum. Persónulega efast ég um ágæti þess að ráða út á tegund kynfæra, en það er bara mín skoðun og gaspur út í loftið því á endanum eru það aðrir sem fá skellinn ef óhæft fólk var valið í ráðherrastóla, á grundvelli kynferðis eða hvers sem er.


mbl.is Ingibjörg Sólrún: Skipting kynja í ráðherraembættum jöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stækkun sveitarfélaga er vont markmið

Hvað gerist á frjálsum markaði þegar samkeppni minnkar og engin ógn stafar af innkomu nýrra samkeppnisaðila? Verð leitar upp á við.

"Markaður" sveitarfélaga á Íslandi hefur farið rýrnandi seinustu ár með miklum fjölda sameininga þeirra. Kostnaður við rekstur þeirra hefur vaxið stórkoslega. Skuldir þeirra hafa aukist. Útsvar er víðast hvar í löglegu hámarki. Meint stærðarhagkvæmni hefur sýnt sig að vera stærðaróhagkvæmni!

Hvað halda menn að yrði um Kópavog og Garðabæ ef þau mundu sameinast Reykjavík? Samkeppni um útsvarsgreiðendur mundi gufa upp. Samkeppni um barnafjölskyldur með börn á leikskólaaldri væri ekki til staðar. Biðlistar R-listans sáluga væru líklega líka veruleiki foreldra í Kópavogi og Garðabæ. 

Sveitarfélög þurfa ekki að vera með umsvifamikla stjórnsýslu. Þau geta t.d. boðið út stóran hluta af rekstri sínum til einkaaðila (e.t.v. haldið áfram að fjármagna sum þeirra tímabundið með sköttum) og þar með skorið niður yfirbyggingu sína. Ríkið ætti að slaka á kröfum sínum til reksturs sveitarfélaga - t.d. heimila þeim að fækka eitthvað í nefndafrumskóginum sem þeim er gert að halda uppi. Engin sérstök ástæða kallar á að opinberir starfsmenn sæki, flokki og urði rusl. Einfaldir þjónustusamningar duga fyrir flest ef ekki öll verkefni sveitarfélaganna.

Ef eitthvað þá ætti að stefna að minnkun sveitarfélaga. Reykjavík yrði t.d. öðruvísi umhorfs ef Árbær og Grafarvogur væru í harðri samkeppni um útsvarsgreiðendur. Aðhald í rekstri sveitarfélaga væri ekki einskorða við meirihlutastjórn Sjálfstæðismanna í þeim. Og þó.


mbl.is Vilja sameina Árborg og Flóahrepp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Watson fyrirlítur mannslíf

Orðaval Paul Watson, leiðtoga Sea Shepherd samtakanna, í bréfi hans til hins íslenska sjávarútvegsráðherra, kemur ekki á óvart. Þessi maður fyrirlítur mannkynið (virðist samt meta eigið líf) og sparar ekki stóru orðin þegar hann lýsir yfir vandlæti sínu á öllu þessu fólki sem dirfist að reika um plánetuna sem ætti í raun að tilheyra plöntum og vitlausum skepnum. Dæmi:

"We should not be living in human communities that enclose tiny preserved ecosystems within them. Human communities should be maintained in small population enclaves within linked wilderness ecosystems. No human community should be larger than 20,000 people and separated from other communities by wilderness areas. Communication systems can link the communities."

Einnig (feitletrun mín):

"We need to radically and intelligently reduce human populations to fewer than one billion. We need to eliminate nationalism and tribalism and become Earthlings. And as Earthlings, we need to recognize that all the other species that live on this planet are also fellow citizens and also Earthlings. This is a planet of incredible diversity of life-forms; it is not a planet of one species as many of us believe."

Sjálfur á ég erfitt með að sjá hvers vegna auðugur maður eins og Paul Watson kaupir sér ekki bara stórar landareignir, t.d. í Austur-Evrópu þar sem þær kosta sennilega ekki mjög mikið, og hrindir áætlun sinni í framkvæmd. Af hverju þurfa 5 milljarðar manna að týna lífi sínu til að þóknast draumórum óðs manns? Af hverju tekur fólk mark á þessum manni og öðrum sem boða svipaðan boðskap (margir samt undir rós)?

Eins og vitur og rökhugsandi maður sagði eitt sinn:  Eitur Jarðarbúa er ekki losun þeirra á hinu og þessu út í náttúru og andrúmsloft sem afleiðing iðnaðar og annarra lífskjarabætandi athafna. Hið raunverulega eitur eru umhverfisverndarsinnarnir, sem í fjarveru rökhugsunar og með ásókn þeirra í yfirráð yfir frjálsu samfélagi manna, eru mesta eiturógnin sem okkur stafar hætta af.


mbl.is Við erum tilbúnir til að hætta lífinu til að stöðva hvalveiðar Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingvallastjórnin?

Eru GHH og ISG viljandi að funda á Þingvöllum til að reyna hafa áhrif á "nafn" stjórnarinnar (ef eitthvað verður)? Ef svo er þá er auðvitað snjall leikur að velja Þingvelli. Orðið "Þingvallastjórnin" er nokkurn veginn eins hlutlaust og hægt er að hugsa sér, og mun jafnvel eitt og út af fyrir sig gefa stjórninni ákveðinn velvilja í upphafi.

Annars er það kannski helst í fréttum af íslenskum stjórnmálum að sumarleyfi þingmanna taka nú við með tilheyrandi stoppi í nýjum reglugerðum og ríkisafskiptum í rúma þrjá mánuði. Ánægjulegur tími það. Sumarleyfi þingmanna mætti gjarnan framlengja til jóla og láta jólafríið taka við eftir það. Ég efast um að 300.000 manna samfélag geti verið uppspretta svo mikilla "verkefna" og afskipta fyrir 63 einstaklinga (plús ráðuneyta og ógrynni opinberra stofnana) að þeir hafi um eitthvað að ræða í meira en 2-3 mánuði á ári. 


mbl.is Fundur stendur enn yfir á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband