Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014

Hvert er hlutverk foreldra?

Þeir sem vilja loka nammibörum, halda aldri sem heimilar áfengiskaup háum, háa neysluskatta og tóbak í felum eiga gjarnan eitt sameiginlegt: Að vilja hafa vit fyrir öðru fólki, og sérstaklega foreldrum.

Er hlutverk foreldra ekki að stilla af sælgætisneyslu barna sinna? Sem foreldri finnst mér það. Ég labba oft á viku í gegnum heilu hillusamstæðurnar troðfullar af sælgæti með tveimur strákum sem vilja nammi ef það er í boði, en fá það ekki nema á ákveðnum dögum. Það hefur ekki alltaf verið létt að drepa suðið í þeim en í dag finnst það varla. Það er líka mitt hlutverk að skammta ofan í þá óhollustu. Ég ræð.

Að loka nammibörum til að "takmarka sælgætisneyslu barna" er jafngildi þess að svipta foreldra ábyrgð á uppeldi barna sinna að hluta. Það er gríðarlega neikvætt. Hvað gerist seinna meir fyrir sömu krakka þegar þeir eru orðnir nógu gamlir til að fjármagna eigin neyslu á óhollustu? Æða þeir ekki í þetta af því þetta hefur verið svo forboðið og spennandi en í felum og óaðgengilegt? Er ekki betra að kenna krökkum að umgangast óhollustu?

Hvað gerist þegar sömu krakkar eru orðnir unglingar sem geta alveg útvegað sér áfengi, gjarnan ólöglega? Í Danmörku getur 16 ára unglingur keypt sér áfengi upp að ákveðnum styrkleika (18% minnir mig) alveg löglega, í hverri einustu matvöruverslun og sjoppu í öllu landinu. Á Íslandi kaupa unglingar landa og annað heimabrugg - jafnvel með heimsendingu. Þeir bjarga sér. Þeim hefur ekki verið kennt annað en að ÁTVR sé þeim lokað land. Það er "bannað" að kaupa áfengi fyrir tvítugt. Einmitt. Ætli það sé fyrsta löggjöfin sem unglingar læra að bera enga virðingu fyrir?

Nammibörum mætti gjarnan fjölga og verðlag á þeim mætti gjarnan lækka. Það myndi setja aukna pressu á foreldra að rækta hlutverk sitt sem foreldrar betur, í stað þess að fela sig á bak við "þetta er bannað" eða "sælgætið er í felum".  


mbl.is Jákvætt að loka nammibörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta stefnan, eða óviljandi?

Íslendingar halda áfram að flýja Ísland en erlendir ríkisborgarar halda áfram að streyma til landsins. Hvað veldur? 

Ef marka má tungutak íslenskra stjórnmálamanna þá er þetta varla ætlun þeirra.

En látum okkur sjá: Á Íslandi eru skattar búnir að hækka mjög mikið. Vel menntað og reynslumikið fólk sem hefur tök á því að flýja land gerir það. Þetta veikir vitaskuld "skattstofn" ríkisvaldsins. Fjármálaráðherra hlýtur að vera með óráði þegar hann segir að vandamál ríkissjóðs sé ekki útgjaldahliðin heldur tekjuhliðin. Ríkisvaldið hefur haldið stærð sinni í grófum dráttum síðan fyrir hrun. Hvernig veit ég það? Því ríkissjóður er rekinn með halla. Það sem vantar er ekki niðurskurður heldur uppskurður (eins og hér er bent á). 

Hvað um það. Skattar eru himinháir og það flæmir Íslendingana úr landi. Hið opinbera er áfram stórt, með öllum sínum niðurgreiðslum, styrkjum, bótum og "úrræðum", auk þess sem láglaunastörfum (fiskvinnsla, ferðaþjónusta) fjölgar. Það hlýtur að draga að útlendinga - bæði duglega og vinnusama, en einnig þá sem vilja leggjast á spenann.

Ef Ísland á að vera land verðmætasköpunar vegna vinnu duglegs fólks (bæði Íslendinga og útlendinga) þarf margt að breytast. Ríkisvaldið þarf að minnka mikið og svigrúmið sem það skilur eftir sig þarf að fyllast af blómstrandi einkaframtaki. 


mbl.is Þúsundir flytja til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allar ákvarðanir um flugvöllinn eru handahófskenndar

Í Reykjavík stendur flugvöllur á opinberu landi. Á honum starfa ýmis fyrirtæki og sum njóta ríkisstyrkja en önnur ekki. Væri landið autt væri verð á því ákveðið af handahófi af opinberum aðilum. Væri rekstur flugvalla á Íslandi án ríkisafskipta gætu þeir miðað þörfina fyrir þjónustu sína og verðlag á henni við markaðsaðstæður. 

Þegar ríkisvaldið er svona umsvifamikið og markaðskerfið svona fjarverandi og raun ber vitni verða allar ákvarðanir handahófskenndar. Þær geta ekki miðast við frjálsa aðlögun á framboð og eftirspurn í gegnum óhindraða verðmyndun.

Fyrir forvitna bendi ég á þetta lesefni fyrir aðeins ítarlegri skýringu á handahófseðli hagstjórnar í sósíalísku hagkerfi.  

Ef hið opinbera vill að í Reykjavík sé starfræktur flugvöllur á besta stað í borginni þá verður það svo. Ef hið opinbera vill eitthvað annað þá verður það svo. Blekkingar um "íbúakosningar" og annað getur fólk alveg leitt hjá sér. 


mbl.is 71,2% Reykvíkinga vilja völlinn áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan endurtekur sig

Í fróðlegri bók, Back Door to War: The Roosevelt Foreign Policy 1933-1941, er fjallað um aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar. Í henni kemur margt fram sem ekki er kennt í skólum. Roosevelt sagði til dæmis:

... the question is how we should maneuver them [the Japanese] into the position of firing the first shot without allowing too much danger to ourselves.

Í bókinni koma fram vangaveltur um það hvers vegna hermenn á Hawaii voru ekki varaðir við þegar japanski flotinn var næstum því alveg örugglega að nálgast eyjurnar. Var það viljandi svo að Japanir gætu valdið nægjanlegum skaða til að réttlæta stríðsyfirlýsingu? 

Í bókinni er mikið rætt um útbreiðslu Hitlers í Evrópu á meðan Bretar og Bandaríkjamenn horfðu á (eða mótmæltu með innantómum hótunum). Rök Þjóðverja minna mikið á rök Rússa í dag: Verið er að "sameina" þjóðina innan einna landamæra. Tékkar misstu landamærahéröð sín til nasista eftir að Bretar féllust á slík rök. Oft var verðandi innlimum réttlætt með þjóðaratkvæðagreiðslum. Öryggissjónarmið voru einnig notuð. Það eina sem Rússa vantar í dag til að hafa tekið allt tungutak nasista upp er að tala um "Lebensraum". Líklega sleppa því þeir samt.

Hvað Úkraínu varðar minnir mig að ég hafi séð frétt þess eðlis um daginn að Evrópusambandið og Rússar væru að ræða hugsanlega "skiptingu" Úkraínu sem gæti leitt til friðar. Þetta minnir á viðræður nasista við Breta og fleiri um "skiptingu" hinna ýmsu landa á sínum tíma. Enginn sérstakur friður kom út úr því til lengri tíma.

Hvernig væri í staðinn að berjast fyrir því að hvert eitt og einasta hérað geti lýst yfir sjálfstæði og þannig ráðið því sjálft við hvern það hefur mest samskipti og viðskipti? Feneyjar eru að reyna að losna frá Ítalíu. Baskar á Spáni og Tíbetar í Kína telja sig betur borgið í sjálfstæðu ríki en innan landamæra stærra ríkisvalds. Stundum er samúð okkar á Vesturlöndum með þeim sem vilja sjálfstæði (í tilviki Tíbeta), en stundum ekki (í tilviki Baska). Eigum við ekki alltaf að styðja þá sem vilja kljúfa sig frá stjórneiningu sem viðkomandi telur sjálfur valda sér meiri skaða en gagni? Ef ekki, hvernig eigum við að gera upp á milli fyrir hönd þeirra sem vilja kljúfa sig frá (en gegn vilja þeirra)? 

Bandaríkjamenn, Evrópusambandið, Rússar og Úkraínumenn ætla að setjast við einhvers konar samningaborð og ræða ný landamæri Úkraínu. Það tryggir að enginn verði sáttur og að fleiri bandarískir hermenn flytji bækistöðvar sínar að landamærum Rússlands.

Á maður að verða hræddur núna? 


mbl.is Varar við frekari refsiaðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig væri að segja þeim öllum upp?

Ég þekki mann sem rekur fyrirtæki sem selur ákveðna tegund þjálfunar. Hann er eini fasti starfsmaður þess. Allir kennarar fyrir utan hann eru verktakar. Þeir koma og fara en kennsla fer alltaf fram. Umgjörð kennslunnar er sífellt í mótun til að koma til móts við kröfuharða og borgandi viðskiptavinina. Kostnaður hleypur sjaldan fram úr tekjum því fjöldi kennara og tegund kennara endurspeglar að meðaltali þörfina fyrir þá. 

Nú spyr ég: Væri ekki hægt að bæta menntakerfið mikið með því að segja upp öllum kennurum þess og ráða kennara sem verktaka eftir þörfum?

Væri það svo miklu verra en að hafa heilan her af gríðarlega sundurleitinni hjörð kennara á föstum launum, sem semja allir í gegnum tvö félög óháð því hvað þeir eru góðir eða lélegur starfskraftur? 

Hverjir eru það nákvæmlega sem verja núverandi kerfi, fyrir utan kennarana sjálfa sem vita að þeir eru óhultir fyrir samkeppni og uppsögnum innan þess? 


mbl.is Atkvæðagreiðslu lýkur á hádegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nútímabankar eru svikamyllur

Bankar eru umluktir dulúð og margar ranghugmyndir um þá lifa góðu lífi. 

Ein ranghugmynd er sú að þegar við leggjum fé inn á bankabók þá séu þeir fjármunir öruggir í hirslu bankans og bíði þess eins að verða sóttir, auk vaxta, seinna. Ekkert slíkt á sér stað. Um leið og peningur er lagður inn á bankabók drífur viðkomandi banki sig út á markaðinn og lánar þá fjárhæð 9 sinnum út (miðað við 10% bindiskyldu; þú leggur 1000 kr. inn, og bankinn lánar 9000 kr. út, þannig að efnahagsreikningur bankans sýnir samtals 10.000 kr.). Ef meira en 10% viðskiptavina bankans vilja sækja fé sitt í hann á sama degi þá tæmast hirslur hans og hann er þannig séð gjaldþrota (ef ekki kæmu til afskipti hins opinbera).

Önnur ranghugmynd er sú að bankar séu "traustir", eða a.m.k. innistæður okkar í þeim. Þær eru jú "tryggðar". Ekkert slíkt á sér stað. Ríkisvaldið getur auðvitað borgað út innistæður gjaldþrota banka með notkun skattfjár, og kannski eru einhverjar krónur til í sjóði sem ná yfir innistæður einhvers lítils banka eða tveggja. Betra er ástandið samt ekki. Þú, kæri skattgreiðandi, ert innistæðutrygging þíns gjaldþrota banka.

Ónefnd er svo sú ranghugmynd að bankar taki við innistæðum og láni út til arðbærra verkefna, græði á vaxtamismuninum og að þess vegna skila bankar svona miklum hagnaði. Bankar hafa fyrir löngu hætt að byggja hagnað sinn á vaxtamismuni innistæða almennings og útlána til arðbærra framkvæmda. Uppistaðan í hagnaði banka eru hækkanir og lækkanir á hinum ýmsu vísitölum, "eignasöfnum" og hlutabréfum og gjaldmiðlum, útlán á fé sem er ekki til (fé umfram bindiskylduna), vextir á lánum til einstaklinga (sem fæstir eiga innistæður), þjónustugjöld á viðskiptavini, og fleira af þessu tagi. Ég segi ekki að bankar þjóni ekki hlutverki milliliðs fyrir þá sem spara og þá sem lána, en sú starfsemi hefur lítið vægi miðað við allt hitt. Bankar leika sér með stórar fjárhæðir sem eru ekki til - innistæður á bankabókum sinnum tíu. 

Almenningur var á sínum tíma mjög tortrygginn á banka og peningaseðla almennt. Sú tíð er liðin. Tortryggni okkar er lítil sem engin. Við höldum að bankar séu traustir geymslustaðir fyrir fé en þeir eru í besta falli svokallaðar Ponzi-prettir eins og lífeyrissjóðir okkar og atvinnuleysistryggingar hins opinbera, svo fátt eitt sé nefnt.


mbl.is Gagnrýnir hertar eiginfjárkröfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar 'hækkun' er orðin að 'lækkun'

Stundum er talað um að eitthvað sé "Orwellian" á enskri tungu. Er þá verið að vísa í skáldsögu George Orwell Orwell, 1984, en um hana segir á einum stað:

The Book explains the concept of perpetual war, the true meanings of the slogans WAR IS PEACE, FREEDOM IS SLAVERY, and IGNORANCE IS STRENGTH, and how the régime of the Party can be overthrown by means of the political awareness of the Proles.

Yfirvöld í bókinni 1984 segja þegnum sínum að friður sé stríð og að frelsi sé helsi. Á Íslandi í dag eru hækkanir orðnar að lækkunum. Skattahækkun um 3% er endurskoðuð og á að enda í 2%, en tafir eru að verða á því. Fyrirsögn fréttar er sú að "lækkun gjaldanna" sé að tefjast.

Er metnaður okkar skattgreiðenda, borgara og almennings ekki meiri en þetta? Er krafa okkar til hófsemi yfirvaldsins ekki meiri en þetta? Fengi hið opinbera að breyta áætlun um algjöra fangelsun okkar yfir í stofufangelsi og komast upp með að kalla það frelsun okkar?

Er aðhald okkar svona aumt?

Hver á að gæta gæslumannanna? Það er hin aldagamla spurning (í lélegri þýðingu minni) sem Íslendingar virðast hafa ákveðið að svara með því að leggjast flatir niður á jörðina og láta traðka á sér eins og mottu. 


mbl.is Dráttur gæti orðið á lækkun gjaldanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í sumum löndum er refsivert að klippa hár sitt á ákveðinn hátt

Allt tal um fangelsisvist fyrir fórnalambalausa glæpi verður óneitanlega svolítið skrýtið sé það sett í alþjóðlegt samhengi.

Á Íslandi er hægt að stinga fólki í steininn fyrir að framleiða, selja og ganga um með fíkniefni. Enginn annar "glæpur" þarf að koma til sögunnar. Viðkomandi hefur gerst sekur um lögbrot og gæti átt yfir höfði sér frelsissviptingu fyrir það eitt að viðra hundinn sinn með 1 kg af heróíni í jakkavasanum.  

Í Norður-Kóreu er bannað að klippa hár sitt á annan hátt en yfirvöldum þóknast. Viðkomandi hefur gerst sekur um lögbrot og gæti átt yfir höfði sér frelsissviptingu fyrir það eitt að viðra hundinn sinn (sé ekki búið að borða hann) með ranga hárgreiðslu á höfðinu.

Í Saudi-Arabíu er kvenfólki bannað að ganga um eftirlitslaust (án eiginmannsins). Kvenmaður hefur gerst sekur um lögbrot og gæti átt yfir höfði sér frelsissviptingu fyrir það eitt að vilja viðra sig án eiginmannsins. 

Allt eru þetta fórnalambalausir glæpir en engu að síður lögbrot og ástæða sem yfirvöld nota til að varpa fólki í fangelsi.

Refsistefnan er óréttlát. Hún dreifir kröftum lögreglunnar frá ofbeldisglæpum og þjófnuðum. Hún sóar fé skattgreiðenda. Hún eykur áhættu fíkniefnasala og hækkar þar með verð þeirra og hugsanlegan ágóða. Hún laðar að sér einstaklinga sem þrífast í myrkum undirheimum og láta ekkert stöðva sig.

Hún gerir frjálsa menn að þrælum, eins og bent er á hér (bls. 204):

Those who cling to the myth that the Civil War ended slavery should consider this fact: there are more black men trapped in this prisons-for-profit racket today than were enslaved on plantations in 1850.

Magnað, ekki satt? Viljum við að fangar á Íslandi verði bráðum fleiri en voru þrælar á Íslandi á landsnámsöld, sé það ekki staðan nú þegar?


mbl.is Leiðir lögleiðing til færri glæpa?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heppilegt að lækka skatta

Ferðamenn sem koma til Íslands borga lægri skatta af sömu þjónustu og Íslendingar. Þetta er m.a. rakið hérna (Vefþjóðviljinn): 

  • Íslendingurinn greiðir 25,5% virðisaukaskatt af rúminu sínu og sænginni en ferðamaðurinn 7% af hótelgistingu.
  • Landinn greiðir 20% vörugjöld af smábíl til ríkisins en ferðamaðurinn leigir sama bíl án vörugjalda.
  • Landsmenn greiða 25,5% virðisaukaskatt af kaupum á flíspeysu en ferðamenn geta keypt hana „tax free“ og fengið skattinn endurgreiddan að verulegu leyti.
  • Hingað til hafa ferðamenn svo getað valsað um helstu náttúruperlur landsins og sent skattgreiðendum árlega mörg hundruð milljóna króna reikning fyrir rekstri og viðhaldi sem af rápinu hlýst. 

Hvað er til ráða? Íslenska ríkið vill vitaskuld sjúga meira ofan í vasa sína. Skatta á ferðamenn væri því hægt að hækka upp í þá sem Íslendingar greiða fyrir sambærilega þjónustu og varning og ferðamenn nýta mest.

Önnur leið væri sú að minnka ríkisvaldið. Ríkið gæti selt lönd sín og notað ágóðann til að lækka skuldir sínar. Einkaaðilar tækju við þeim og myndu rukka fyrir aðgang að viðkvæmum svæðum, bæði til að fjármagna viðhald þeirra og vernd en einnig til að stilla af framboð og eftirspurn. Fái einkaaðilar að græða vel á ferðamönnum, innlendum sem erlendum, er viðbúið að fjöldi ferðamannastaði aukist verulega. Samkeppni milli þeirra yrði til þess að stilla af verð en um leið halda uppi gæðum (aðgengi, aðstöðu og þjónustu). 

Hver veit nema einhverjum einkaaðilum takist að sameina það tvennt sem kemur svo mörgum til góða: Tekjur af ferðamönnum og tekjum af nýtingu náttúruauðlinda! Hérna er lítil dæmisaga um sameiningu gasvinnslu og fuglavarps. Sniðugt, ekki satt?

Ríkið gæti í leiðinni lækkað virðisaukaskattinn (gjarnan niður í 0%) og afnumið ýmis gjöld og tolla á innfluttan varning. Þar með endar mismunun á Íslendingum og útlendingum og allir geta byrjað að lifa í sátt og samlyndi. 

Ríkisvald sem hefur minna að gera klúðrar minna.

Í leiðinni væri svo hægt að lengja jólafrí þingmanna fram að sumarfríi þeirra. Nóg er af trjám sem þarf að gróðursetja og verslunarkjörnum til að vígja. Þeir gætu staðið í þess konar iðju í 9 mánaða fríi sínu. 


mbl.is Heppilegt að auka skattlagningu núna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftir hverju er beðið?

Á hverju einasta ári setjast Alþingismenn niður og ræða og kjósa um það hvað ríkisvaldið á að sjúga til sín mikið af verðmætum samfélagsins og endurúthluta. Á hverju einasta ári getur meirihluti Alþingismanna ákveðið að gera eitthvað allt annað en fráfarandi meirihluti. Á hverju einasta ári getur meirihluti Alþingismanna ákveðið að lækka ríkisútgjöld um 75% og lækka skatta um að minnsta kosti það. 

Ég geri mér grein fyrir að enginn meirihluti er á Alþingi fyrir því að sleppa kæfandi taki hins opinbera á hinum íslenska skattgreiðenda. Eðli málsins samkvæmt dregur hið opinbera inn í sínar raðir einstaklinga sem vilja völd og skattalækkanir minnka völd stjórnmálamanna.

Ég geri mér líka grein fyrir að enginn sérstakur stuðningur er hjá almenningi fyrir róttækum niðurskurði á hinu opinbera. "Ríkisvaldið er sú mikla goðsögn að allir reyni að lifa á kostnað allra annarra" sagði Bastiat á sínum tíma (í lélegri þýðingu minni). Almenningur trúir meira og minna á þessa goðsögn. Flestir telja sig vera að fá eitthvað fyrir skattpeninginn sinn - eitthvað sem fengist ekki án skattheimtu og opinberrar íhlutunar. Sumir trúa því t.d. að menntun, listir og heilbrigðisgæsla eigi allt sitt undir ríkisafskiptunum. Flestir trúa því að án ríkisafskiptanna væri engin heilbrigðisgæsla, menntun og afþreying í boði fyrir þá sem þéna minnst. 

Ég geri mér hins vegar líka grein fyrir að hið íslenska ríkisvald er rekið á það sem mætti kalla ósjálfbæran hátt. Það er rekið á sama hátt og fíkillinn kemst í gegnum daginn: Með neyslu eiturefna sem smátt og smátt draga líkamann til dauða þótt hver og einn dagur sé svipaður og sá á undan.

Það sem vantar hjá bæði stjórnmálamönnum og almenningi er "áfallið" - sú skelfilega uppgötvun að bjargbrúnin er skammt framundan og nálgast óðfluga og að nú verði að stíga á bremsurnar og spóla til baka. Því lengur sem þessi uppgötvun lætur bíða eftir sér, því verra verður áfallið. 

Er beðið eftir því?


mbl.is Vill fækka tekjuskattsþrepum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband