Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2019
Fimmtudagur, 31. janúar 2019
Áfengi og íþróttir - góð blanda
Áfengi og íþróttir eru góð blanda, þ.e. ef áfengis er ekki neytt af íþróttafólkinu sjálfu á meðan það keppir.
Það er nánast engin leið að horfa á íþróttir í sjónvarpinu eða úr stúku nema drekka bjór á meðan.
Þar sem slíkt er heimilt eyða áfengisframleiðendur stórfé í auglýsingar á íþróttaviðburðum sem rennur að stórum hluta í hirslur íþróttafélaganna og efla starf þeirra.
Í Kaupmannahöfn má finna fjölnota íþrótta- og ráðstefnuhúsið Royal Arena. Hvað er Royal? Það er auðvitað áfengisframleiðandi. Í þessu glæsilega húsi er fjölbreytt og flott aðstaða fyrir allskyns viðburðahald sem menningar- og íþróttalífið nýtur góðs af.
Í mörg ár hefur áfengisframleiðandinn Carlsberg verið einn af aðalstyrktaraðilum enska fótboltafélagsins Liverpool. Hefur það skaðað einhvern?
Áfengi og íþróttir eru góð blanda. Það er kominn tími til að hleypa áfenginu að íslensku íþróttalífi, ekki bara á þorrablótum á bak við luktar dyr, heldur líka í stúkurnar, á búningana og á veggspjöldin.
Þorrablótin góð búbót | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 30. janúar 2019
Styttu af borgarstjóra í öll hverfi
Ég er með hugmynd sem mun leysa mörg vandamál Reykjavíkur á einu bretti.
Hún gengur út á að reisa veglega styttu af borgarstjóra í öllum hverfum borgarinnar.
Borgarstjóri er klárlega mjög upptekinn af því að skilja eftir sig ýmsa minnisvarða, sama hvað það kostar.
Það kostar sennilega minna að reisa styttu en flytja inn pálmatré, og styttan endist örugglega lengur.
Einnig er líklegt að styttugerð sé fyrirsjáanlegri með tillit til kostnaðar en margar af framkvæmdum borgarinnar.
Það kostar sennilega minna að reisa margar styttur en gera upp einn bragga.
Borgarstjóri mætir alltaf sæll og glaður í allar opnanir og vígslur en er fljótur að fara í felur þegar óþægileg skítamál koma upp á. Með styttu í hverju hverfi þarf borgarstjóri ekki að gera meira og getur stigið til hliðar. Það eitt og sér mun spara borginni stórfé.
Borgarfulltrúar ættu að geta sammælst um þetta brýna málefni sem mun leysa mörg vandamál borgarinnar: Framúrkeyrslur á verkefnum, þörf borgarstjóra til að sýna sig í jákvæðu ljósi og peningaflæðið úr götóttum borgarsjóði.
Og hver veit, kannski myndast þá svigrúm til að létta aðeins á gríðarlegri skattheimtu á borgarbúa, bæði þeirri beinu (útsvar og fasteignaskattar) og þeirri óbeinu (himinháar gjaldskrár þjónustu- og veitufyrirtækja í borginni, og hækkandi fasteignaskattar vegna hækkandi fasteignamats)?
Dönsk strá og pálmatré | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 28. janúar 2019
Dýrt að geta ekkert gert
Nú er blásið til fyrirsagna um tímabundnar lokanir á örlitlum hluta bandaríska alríkisins: Þær hafa kostað fúlgur fjár!
Nema hvað?
Alríkið er eins og hver önnur opinber eining sem heldur úti ákveðinni þjónustu sem um leið fæst ekki annars staðar því það fær enginn að stunda samkeppni við hið opinbera.
Hið opinbera kostar okkur alltaf miklu, miklu meira en sem nemur skattfé sem rennur til þess. Hið opinbera heldur úti biðröðum sem enginn fær að keppa við. Það skyldar okkur til að útvega ákveðna pappíra sem við megum ekki vera án. Það lætur okkur uppfylla allskyns skilyrði fyrir hinu og þessu sem við gætum alveg lifað án.
Þegar hið opinbera lokar snemma þá kemst enginn í gegnum reglu- og pappírsmúrinn sem það skyldar okkur til að klífa því það er ekki boðið upp á aðrar leiðir.
Ef Bónus lokar er hægt að fara í Krónuna.
Ef penninn verður bleklaus er hægt að nota blýant.
Ef hið opinbera lokar er ekki hægt að snúa sér annað.
Einkaaðilar geta sett saman flókna bíla sem við setjumst inn í og þenjum upp í 100 km/klst, þess fullviss að beltin bjarga, dekkin snúast og loftpúðinn þenjist á réttum tíma ef illa fer.
En þegar kemur að því að fletja út blöndu af möl og tjöru sem sömu bílar keyra á þá þarf allt í einu opinbera stofnun til að fylgjast með öllu.
Einkavæðum allt.
11 milljarða dala tap vegna lokananna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 27. janúar 2019
Dagurinn þegar Sjálfstæðisflokkurinn missti 10% fylgi
Einu sinni sá ég línurit sem sýndi fylgi Sjálfstæðisflokksins yfir nokkur ár. Þar var bent á að flokkurinn missti 10% fylgi þegar formaður flokksins vildi borga Icesave-kröfur Breta og hefur ekki náð því fylgi aftur síðan.
Kannski er þetta dæmi um tilviljun en kannski er um orsakasamhengi að ræða.
Það er rétt sem margir segja að Sjálfstæðisflokkurinn er kominn langt frá grunnstefi sínu. Þetta birtist meðal annars í því að þegar sumir stjórnmálamenn flokksins tala á fullkomlega eðlilegum nótum Sjálfstæðisstefnunnar þá hljóma þeir eins og utangarðsmenn.
Hér má t.d. nefna Óla Björn Kárason þingmann og Katrínu Atladóttur borgarfulltrúa. Þetta er fólk sem skilur út á hvað grunnstef Sjálfstæðisflokksins gengur og vinnur samviskusamlega að því. Samt finnst mér þessi tvö, meðal annarra, stinga í stúf þegar horft er yfir breiða sviðsmynd flokksins.
Að mínu mati þarf Sjálfstæðisflokkurinn að losa sig við formann sinn. Honum fylgir einfaldlega of mikill farangur: Icesave-stuðningurinn, bankaumsýsla í tengslum við hrunið, andúð hans á frjálshyggju, ásókn hans í ráðherrastól og misræmi milli stefnuræðuhalda og framkvæmda.
Flokkurinn þarf að hætta ásókn í miðjuna og sækja til hægri þar sem tómarúm er í íslenskum stjórnmálum. Þetta þýðir: Boða sölu á öllum ríkisfyrirtækjum, opna stórkostlega á aðkomu einkaaðila þar sem þeim er í dag meinaður aðgangur, lækka skatta og skuldir - hvoru tveggja - á miklum hraða, losa ríkið við lífeyrisskuldbindingaklafann, t.d. með því að breyta stöðum opinberra starfsmanna í verktakastöður, og fækka verkefnum hins opinbera almennt eins og frekast er unnt (án þess að færa þau bara í hendur sveitarfélaga þar sem þau halda áfram að versna í gæðum og hækka í verði).
Þess má geta að ég er ekki Sjálfstæðismaður heldur frjálshyggjumaður. Einu sinni höfðu frjálshyggjumenn athvarf í Sjálfstæðisflokknum en mér finnst blasa við í dag að það athvarf er lokað, ef einstaka ungliðasamtök eru undanþegin.
Þykir alltaf vænt um Sjálfstæðisflokkinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 26. janúar 2019
Bretar gætu leyft bognar agúrkur
Aðild að ESB fylgja ýmis réttindi en líka töluvert af kvöðum.
ESB vill til dæmis að agúrkur séu beinar því það á að gera flutningsaðilum kleift að troða fleiri ágúrkum í sama kassa. Bretar gætu óskað eftir bognum agúrkum.
ESB heimilar Norðmönnum að gera hitt og þetta innan ESB í gegnum EES-samninginn. Bretar gætu hent þeim úr landi þegar þeir eru lausir við ESB.
En munu Bretar leggja það á sig að láta sveigja beinar ágúrkur og henda Norðmönnum úr landi?
Flest ríki heims standa utan við ESB. Er almenna reglan sú að Norðmönnum sé meinað að vinna þar?
Einu sinni var ekki til ESB. Þar til nýlega var bara til tiltölulega lítið ESB sem náði fyrst og fremst til Vestur-Evrópu. Af hverju á allt að fara til fjandans þegar stórt ESB verður aðeins minna?
Kannski missa Bretar vitið þegar taumurinn frá Brussel rofnar. Þeir henda Norðmönnum úr landi, setja upp viðskiptahindranir, hætta að kaupa þýska bíla og íslenskan fisk, heimila bognar agúrkur og tala bara við enskumælandi þjóðir.
Kannski ekki.
Kannski opna þeir á frjáls viðskipti og opna augun fyrir heiminum, leyfa Norðmönnum að vinna í landinu og borða bæði bognar og beinar agúrkur. Finnst engum það líklegt?
Gæti verið vísað úr landi eftir Brexit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 25. janúar 2019
Excel-skjöl án veruleikatengingar
"Hagsveiflunni sem staðið hefur yfir undanfarin ár mun ljúka á þessu ári, en ný uppsveifla mun hefjast árið 2020."
Ekki veit ég hvernig loftræstikerfi bankanna eru hönnuð en það er ljóst að þau hleypa ekki nægu súrefni inn í vinnurýmin.
Það sem er að gerast á heimsvísu er eitthvað allt annað en uppsveifla, og nei það er ekki Donald Trump að kenna. Sökudólgarnir eru seðlabankar heimsins sem hafa sprautað okkur með ódýru og nýprentuðu lánsfjármagni sem þröngvar vöxtum niður, hvetur til skuldsetningar, letur sparnað og lætur óarðbær fjárfestingaverkefni virka arðbær, á pappír.
Til að undirbúa sig sem best fyrir hrun þessarar spilaborgar á ríkisvaldið á að reyna skera sig sem lausast frá öllum fjárhagslegum skuldbindingum, þar með talið opinberum skuldum, skuldaábyrgðum, eignarhaldi á bönkum og ábyrgðum á innistæðum.
Einstaklingar sem eiga sparnað eiga að reyna koma honum í eitthvað haldbært, svo sem góðmálma eða niðurgreiðslu skulda.
Þeir sem skulda ættu að reyna hagræða skuldum sínum þannig að þær séu sem minnstar á neysluvarningi og kreditkortum þar sem þær bera vexti en veita enga ánægju, svo sem húsaskjól.
Það er ekkert blússandi góðæri framundan, hvorki árið 2019 né 2020, heldur er framundan massív leiðrétting á fjármálamörkuðum sem fær árið 2008 til að líta út eins og hiksta.
Spá nýrri uppsveiflu árið 2020 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 23. janúar 2019
Hinn mælanlegi unglingur
Allskonar sérfræðingar halda að það sé hægt að mæla árangur meðal fólks með því að búa til tölfræði og fylgjast með breytingum.
Er búið að finna upp hinn mælanlega einstakling?
Hinn mælanlega ungling?
Unglingar hafa aldrei verið hraustari og vímuefnalausari. Um leið hefur þeim aldrei liðið verr.
Eru þeir ekki bara komnir fyrir framan tölvuskjá og hættir að hitta hvern annan, fá sér í glas, gera tilraunir með óviðeigandi brandara og læra á félagsleg samskipti?
Það fer svolítið í taugarnar á mér að sjá fólk hreykja sér af hinni og þessari tölfræði sem hefur verið framleidd úr daglegu amstri fólks en um leið sópa raunveruleikanum til hliðar.
Unglingar eru að rotna lifandi og allir eru alsælir með það.
Ég get sagt fyrir mitt leyti að unglingsárin voru alveg rosalega lærdómsrík fyrir mig því ég fékk að prófa að gera allskonar vitleysu en um leið að vita að ég þurfti að bera ábyrgð á afleiðingum gjörða minna. Þetta heitir frelsi með ábyrgð. Það er ekki til betri uppskrift til að mannast. Er búið að þekja þá uppskrift með súluritum möppudýra?
Sjáum slaka í félagslegu taumhaldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 22. janúar 2019
Enginn skortur á jógúrti með bláberjabragði
Það ætti að vekja athygli sérhverrar manneskju að það er bara skortur á því sem er vafið inn í reglugerðir, niðurgreiðslur, úthlutunarreglur og kvóta.
Það er enginn skortur á jógúrti með bláberjabragði jafnvel þótt hópurinn sem kaupir svoleiðis jógúrt sé lítill.
Það er skortur á húsnæði. Það vantar fjölskylduvænt húsnæði, einstaklingsíbúðir og þjónustuíbúðir. Samt sitja kaupendur tilbúnir í röðum og vilja borga það sem mætti kalla markaðsverð, en ekki meira en það.
Núna á að leysa vandamál reglugerða, niðurgreiðslna, úthlutunarreglna og kvóta með:
- Reglugerðum
- Niðurgreiðslum
- Úthlutunarreglum
- Kvóta
Gangi ykkur vel, en vegferðin er dauðadæmd og mun framleiða fórnarlömb - oft ófyrirséð.
Risastórt skref í átt að lausn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 21. janúar 2019
Þetta með rekstur ríkissjóðs til framtíðar
Hugsum okkur hjón sem reka heimili. Þau afla tekna og taka á sig útgjöld af ýmsu tagi. Þau skiptast á að sjá um bókhaldið. Maðurinn sér um þau annað hvert ár, og konan hitt.
Þegar maðurinn sér um bókhaldið á hann það til að kaupa hluti, gjarnan á raðgreiðslum. Hann safnar yfirdrætti. Hann kaupir fjórhjól, vélsleða, nýjan bíl, húsvagn, heitan pott og endurnýjar öll gólf.
Konan sér ekki að neitt er í ólagi því manninum tekst alltaf að krækja í stærri yfirdrátt eða útvega sér nýtt kreditkort. Konan sér vissulega allt það sem er keypt en er bara ánægð með það. Það er gott að eiga nýjan bíl og allskonar hluti.
Svo kemur röðin að konunni. Hún fær bókhaldið í hendurnar. Hún sér að skuldirnar eru gríðarlegar og byrjar að borga þær niður. Tekjurnar duga til að borga af lánunum og reka heimilið en það er ekki ráðrúm til að kaupa neitt nýtt. Manninum leiðist þetta en þarf að sætta sig við að bókhaldið er í höndum konunnar.
Konan selur ekkert af því sem var keypt af manninum. Hún borgar veðið niður og allar skuldir.
Röðin kemur að manninum aftur.
Hann sér að allar skuldir eru farnar og hefst á ný handa við að eyða í allskonar umfram reksturinn.
Þegar röðin kemur að konunni næst þarf hún að byrja upp á nýtt.
Hvað gæti hún gert til að brjóta þennan vítahring?
Hún gæti auðvitað tekið möguleika manns síns til að eyða úr sambandi.
Hún gæti beint hluta tekna þeirra inn á fastan sparnað áður en launin lenda á launareikningi hjónanna. Hún gæti líka stofnað sérstakan reikning fyrir föst útgjöld sem er sjálfkrafa millifært inn á um hver mánaðarmót.
Hún gæti hringt í bankann og beðið hann um að loka kreditkortunum.
Hún getur beðið bankann um að núlla yfirdráttarheimildina.
Hún gæti selt hið stóra hús sem má veðsetja fyrir mikið fé og keypt litla íbúð sem leyfir miklu minni veðheimild.
Með breytingum á ytri aðstæðum getur konan takmarkað rými manns síns til að stofna heimilisbókhaldinu í voða.
Þetta er ríkisstjórnin ekki að gera. Hún er að þenja út báknið. Næsta ríkisstjórn getur blásið til gríðarlegrar skuldasöfnunar enda hefur hún til umráða himinháar skattprósentur og útblásið ríkisbákn.
Á þetta bendir enginn.
Einkavæðum allt.
Skuldir lækkað um 660 milljarða frá 2013 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 20. janúar 2019
Hvað er karlmennska?
Við lifum á tímum þar sem strákum er skolað ómenntuðum út úr skólakerfinu, menn reknir úr vinnu fyrir að tjá sínar persónulega skoðanir, sjálfsmorð karlmanna eru raunverulegt vandamál og ásökunin ein nóg til að sverta mannorð karlmanns til lífstíðar.
Það þarf að spyrna við þessari þróun.
Heimur án karlmanna er dapur. Það eru yfirleitt karlmenn sem hlaupa inn í brennandi byggingar og bjarga þar fólki, og yfirleitt karlmenn sem skemma á sér hné og bak í líkamlegra erfiðri vinnu. Karlmenn eru vinnuhestarnir sem draga hið þunga og skítuga og við það eru allir sáttir (femínistar vilja flestir bara þægilegu innivinnurnar, þó án löngu yfirvinnustundanna, en þiggja gjarnan yfirvinnukaupið).
Karlmenn eru yfir það heila ekkert betri eða verri en kvenfólk. Kvenfólk ræðir sín á milli um karlmenn, og oft á óvæginn hátt: Gerir grín að launum þeirra, typpastærð, úthaldi í rúminu, ástandi húðar og klæðaburði. Skólastrákar slást aðeins á skólalóðinni og vissulega leggja þeir í einelti en kvenfólk ræðst á sálina og brýtur niður sjálfstraust og jafnvel sjálfsmynd kynsystra sinna ef þannig liggur á því.
Eitruð karlmennska er ekki til frekar en eitruð kvenmennska. Það eru alltaf til þeir sem tala niður til annarra, hafa fordóma, fordæma og rægja. Bæði kyn eru hér alveg jafnvirk.
Kannski karlmenn liggi betur við höggi í opinberri fordæmingu því þeir verja sig ekki. Kona sem lemur karlmann veit yfirleitt að hún fær ekki einn á snúðinn. Karlmaður sem lemur konu veit að hann er að gera eitthvað rangt. Það er kannski þessi innræting sem gerir það að verkum að karlmenn leggjast flatir og afsakandi á jörðina þegar þeir eru ásakaðir um að vera eitraðir.
Að því sögðu er umræðan samt ágæt. Það er ýmislegt sem má betur fara í samskiptum fólks og í opinberri umræðu.
Ég bíð spenntur eftir því að eitthvert snyrtivörufyrirtækið hvetji konur til að verða besta útgáfan af sjálfum sér á meðan myndskeið eru sýnd af illkvittnum stelpum að hlægja að klæðaburði bekkjarsystur sinnar.
Gillette á hvers manns vörum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)