Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
Föstudagur, 29. maí 2009
Lágtekjuskattar hækka
Vinstrimenn hækka núna lágtekjuskatta á Íslandi, þvert á öll loforð. Eða hvað eru áfengis- og tóbaksgjöld annað en lágtekjuskattar? Ekki lætur hátekjufólk sig muna um 15% hækkun á varningi sem vegur e.t.v. ekki meira en 1-5% af heimilisútgjöldum þess. Lágtekjufólk sem reykir (og hættir því alls ekki þegar kreppir að), fær sér áfengi inn á milli til að slaka á taugunum, og mun ekki geta fórnað þessum varningi, fær fullan skell hækkana á lágtekjusköttum í andlitið. Nema þá auðvitað að smyglarar og heimabruggarar komi til bjargar.
Þetta er nánast fjandsamleg skattahækkun. Fyrirlitning, hroki og yfirgangur. Ógeðfellt.
Steingrímur J. - konungur hræsninnar.
Mjög óvinsælar aðgerðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 26. maí 2009
Hvað með loforð #17?
Í 100 daga verkáætlun ríkisstjórnarinnar stendur, sem punktur nr. 17:
Dregið úr gjaldeyrishöftum.
Á "frumstigi" eru nú hugmyndir um að gera hið gagnstæða, og tæma gjaldeyrissjóði ríkisins til að viðhalda "föstu gengi".
Ef af verður, þá er þetta pólitísk ákvörðun sem hefur skelfilegar afleiðingar. Ríkisvaldið getur ekki staðið undir gríðarlega ofmetinni íslenskri krónu.
Áhugaverð lesning um fast gengi og fljótandi, eftir kollega og skoðanabróðir Gylfa Magnússonar, prófessors og ráðherra, má finna hér. Þar segir meðal annars:
Föstu gengi geta fylgt ýmsir aðrir annmarkar, bresti trú almennings eða einstakra stórtækra spákaupmanna á gengisfestuna. Hugsum okkur, að raungengið hafi hækkað umtalsvert að óbreyttu nafngengi, til dæmis vegna meiri verðbólgu heima fyrir en í helztu viðskiptalöndum. Takist spákaupmönnum við þessar kringumstæður að gera áhlaup á gjaldeyrisforðann, þá fellur gengið - oft með brauki og bramli - og seðlabankinn tapar iðulega miklum fúlgum fjár í hendur spákaupmanna, reyni hann að verja gjaldmiðilinn framan af, áður en hann gefst upp og leyfir genginu að fara á flot.
Þorvaldur nefnir fleira til, og einnig ýmislegt um kosti fastgengisstefnu, en mikilvægast er að menn átti sig á áhættunni sem fylgir fastgengisstefnu. Hún er engin "töfralausn" eins og að leggja niður Seðlabanka Íslands og draga hið íslenska ríki með öllu úr framleiðslu peninga.
Festa gengið í 160 - 170 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 26. maí 2009
Er Álfheiður Ingadóttir vanhæf?
Áhugavert að sjá Álfheiði Ingadóttur, formann viðskiptaráðs Alþingis, stíga í pontu og segja eftirfarandi:
- Hún þekkti ekki til matsins sem um var rætt
- Hún frestaði föstum nefndarfundi, af einhverjum ástæðum
- Hún eyddi megninu af ræðutíma sínum í að benda á alla aðra til þess að afsaka eigið athafnaleysi
Þegar nefndarformaður þekkir ekki til mála er viðkoma nefnd sinni, heldur ekki fundi, hefst ekkert að og eyðir púðrinu í að benda á aðra, þá liggur við að maður spyrji sig: Er hún starfi sínu vaxin?
Til gagns og gamans þá er hér ferilskrá formanns viðskiptaráðs Alþingis (feitletranir mínar):
Kenndi líffræði með námi í MH og MR. Blaðamaður, þingfréttamaður og um tíma fréttastjóri við Þjóðviljann 19771987. Framkvæmdastjóri laxeldisstöðvarinnar Hafeldis í Straumsvík 19871989. Vann við gerð einkaleyfisumsókna og skráningu vörumerkja 19891991. Blaðamaður í lausamennsku síðan 1991. Upplýsingafulltrúi Samtaka um kvennaathvarf 19941995 og framkvæmdastjóri ráðstefnu norrænna kvennaathvarfa á Íslandi í nóvember 1995. Útgáfustjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands 1996-2007 og ritstjóri Náttúrufræðingsins 1996-2006.
Umskiptingar á þingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriðjudagur, 26. maí 2009
Öllum boltum hent í loft upp
Hverju fyrirtæki og hverri stofnun er nauðsynlegt að endurskoða reglulega skipurit sín og endurskoða hlutverkaskiptingu innan veggja sinna til þess að ná sem mestu út úr mannauði sínum, reynslu starfsmanna, þekkingu osfrv. Yfirleitt er þetta tímafrekt ferli, enda dýrt að flytja fólk og verkefni frá einum stað til annars. Slíku fylgir alltaf ákveðin aðlögun að nýjum aðstæðum, hvort sem þau eru í formi nýrra verkefna eða samstarfsaðila, eða vegna breyttra áherslna.
Í miðri kröppustu niðursveiflu Íslandssögunnar, sem enn er verið að draga neðar og neðar í hyldýpið, ákveður ríkisstjórn Íslands að kasta svo gott sem öllum boltunum upp í loftið til að athuga hvar þeir lenda. Meira að segja sjálfri stjórn efnahagsmála er kastað úr valdamesta ráðuneytinu og í eitthvað nýtt ráðuneyti sem enn er að taka á sig mynd.
Nú má vera að hin nýja ríkisstjórn hafi hugsað þetta vel og vandlega, samtímis með að hún sturtar tugum lagafrumvarpa yfir Alþingi, en ég held samt ekki. Ekki er talað um að hagræða og skera niður, heldur eingöngu um að "gera ráðuneytin mun skilvirkari", það er - gera þeim kleift að gera enn meira fyrir sama fé. Miklu nær væri að fækka þeim verkefnum sem mjög svo upptekin yfirvöld hafa á sinni könnu, sem þau geti sinnt þeim verkefnum sem mest ríður á að leysa, og það sem fyrst.
Hvað sem því líður þá bíð ég ennþá spenntur eftir því að hin nýja ríkisstjórn hefjist handa við að leysa efnahagsvanda Íslendinga, og hætti að róta til í skipuritum.
Ráðuneyti skipta um nöfn og hlutverk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 18. maí 2009
Steingrímur J. duglegastur að mjólka spenann
Það vantar ekki sporslurnar og aukagreiðslurnar sem okkar aumingja þingmenn fá fyrir að þurfa vinna hið erfiða starf að rífast og skammast hvor í öðrum. Bankastarfsmaður árið 2007 þyrfti að hafa verið ansi hátt settur til að sjá eitthvað í líkingu við hinar ýmsu uppbætur, endurgreiðslur og aukagreiðslur sem Alþingismenn sjá í dag, í komandi dýpstu og verstu kreppu Íslandssögunnar sem á að gera enn verri en vonda.
Kóngurinn í þessu samhengi hlýtur að vera Steingrímur J., a.m.k. þegar tekið er tillit til eftirfarandi texta úr fréttinni:
Þeir þingmenn sem eru formenn stjórnmálaflokka sem hafa fengið a.m.k. þrjá þingmenn kjörna og eru ekki jafnframt ráðherrar fá greitt 50% álag á þingfararkaup, 780.000 krónur.
Skraddarasaumar, einhver?
Hér hefur Steingrími J. tekist að mjólka skattgreiðendur um yfir 15 milljónir á örfáum árum, eða síðan hið svokallaða "eftirlaunafrumvarp" var samþykkt og Steingrímur J. segir, án þess að blikna, að hann sé á móti.
Eftirlaunafrumvarpið tók gildi 30. desember 2003. Frá þeim tíma hafa verið 61 mánaðamót. Allan þann tíma var Steingrímur J. Sigfússon formaður vinstrigrænna. Hann hefur því 61 sinni fengið þingfararkaup með 50% álagi vegna eftirlaunafrumvarpsins. Sumir hafa hins vegar aldrei þegið þau eftirlaun sem þeim hafa boðist. Davíð Oddsson hefur til dæmis aldrei gert það, en hann hefur frá október 2005 átt rétt á eftirlaunum. Síðan hann öðlaðist þann rétt eru liðin 40 mánaðamót.
Steingrímur J. - sporslukóngur Alþingis. Engin samkeppni þar, að því er ég best veit.
Kostnaðargreiðslur bætast við kaupið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 15. maí 2009
Sparnaðarráð fyrir ríkisstjórn í þröng
Hinu íslenska ríki vantar niðurskurðarhugmyndir þessa dagana, og virðist eiga í einhverjum erfiðleikum með að láta sér detta þær í hug. Ég vil leggja mitt af mörkum, og skal meira að segja passa mig á að snerta ekki við hinum heilögu og að því er virðist ósnertanlegu "velferðarmálum", þótt vissulega sé hægt að hnýta í ýmislegt (allt?) þar.
- Einkavæða RÚV að fullu (ef enginn vill kaupa þá leggja niður RÚV), og leggja niður hin illræmdu og óvægu "afnotagjöld". Ef ríkið vill að eitthvað ákveðið sjónvarpsefni sé sýnt þá er mun hreinlegra og miklu ódýrara að bjóða slíkt sjónvarpsefni út (dæmi: táknmálsfréttir, heimildamyndir um íslenska torfbæi, Gettu betur, osfrv) heldur að reka heila sjónvarpsstöð sem sýnir það sama og allar hinar, fyrir utan þetta ákveðna sjónvarpsefni. Sparnaður: Einhver hundruð milljóna á ári.
- Hætta rekstri safna, leikhúsa og þess konar starfsemi og lækka skatta sem nemur rekstrarkostnaði þessara stofnana. Ef ríkið vill að eitthvað sé í boði fyrir almenning að sjá þá er mun hreinlegra og miklu ódýrara að bjóða þær sýningar út (dæmi: þjóðminjar, handrit, Kardimommubærinn) heldur en að reka heilu húsin með fullu starfsliði sem mjólka láglaunafólk af launum sínum til þess eins að laða alla aðra að því að góna á eitthvað ákveðið. Sparnaður: Einhver hundruð milljóna á ári.
- Hætta rekstri sendiráða með öllu, hvar sem þau er að finna. Ef ríkið vill bjóða íslenskum ríkisborgurum að kjósa þar sem þeir búa þá er hægt að bjóða slíkt út. Ef ríkið vill hafa "einhvern" til að mæta í fínar veislur fyrir hönd íslenska ríkisins að bjóða slíkt út líka. Þetta er mun hreinlegra og miklu ódýrara en að halda úti fullu starfsliði Íslendinga út um allan heim, sem gerir ekki annað en að lesa pappírsvinnu frá fólki í sömu stöðu í öðrum löndum. Sparnaður: Einhver hundruð milljóna á ári.
- Hætta niðurgreiðslu landbúnaðarvara með öllu. Ef ríkið vill bjóða upp á eitthvað ákveðið magn af íslenskri kjöt- eða grænmetisframleiðslu þá er hreinlega og miklu ódýrara að kaupa þá miklu eða litlu framleiðslu sem verður til staðar eftir afnám landbúnaðarstyrkja, t.d. í mötuneyti ríkisstofnana og skóla, en að neyða alla til að blæða úr tómu veski í nafni einhvers konar þjóðarstolts og "fæðuöryggis", en hafa svo ekki efni á íslenskri framleiðslu sem er markaður fyrir og fær því að deyja út vegna fjárskorts og skattpíningar í nafni hins íslenska lambs. Sparnaður: Einhverjir milljarðar á ári.
Fleiri hugmyndir boðnar hjartanlega velkomnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 14. maí 2009
Afstaða Svandísar liggur fyrir
Það skiptir engu máli þótt öllum íbúum Skeiða- og Gnúpverjahrepps yrði smalað saman í "endurmenntunarbúðir" og þeir þvingaðir til að lesa mörg hundruð blaðsíður um skipulagsbreytingar í hreppnum sínum - afstaða Svandísar liggur fyrir.
Næst mun hún sennilega finna upp á því að vefengja allt það umhverfismat sem hefur farið fram. Þar næst að tala um hagkvæmni fyrirhugaðra framkvæmda. Hún getur teygt lopann endalaust ef hún vill, og það vill hún.
Í stað þess bara að neita að skrifa undir af "hugsjóna"ástæðum þá vill hún sóa miklu fé og mörgum manntímum í pappírsvinnu sem mun ekki hagga við afstöðu hennar, sama hvað.
Af hverju að fela hugsjónir sínar undir fjalli af pappírsvinnu þegar það er svo miklu einfaldara - fyrir alla, og þá sérstaklega í þessu tilviki - að bara segja frá þeim og taka ákvarðanir út frá þeim?
Neitar að staðfesta breytingar á skipulagi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 13. maí 2009
Skilyrði Íslands hvað?
Með myndun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur 10. maí 2009 hefst nýr kafli í umræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Orðaleikurinn um aðildarviðræður verður lagður fyrir alþingi. Málið snýst ekki um neinar viðræður heldur hvaða umsóknarskilyrði Íslendingar ætla að setja af sinni hálfu, ef þeir leggja umsókn fyrir ráðherraráð Evrópusambandsins. Skilyrði ESB eru skýr, allur lagapakki þess og krafa um að eiga síðasta orðið um ráðstöfun íslenskra auðlinda. Þetta er hinn kaldi veruleiki málsins, engar viðræður þarf til að átta sig á honum.
Þessi orð mælir sá maður sem sennilega hefur grafið sig dýpst í samskipti Íslands og ESB, og hugsanlegar niðurstöður innlimunarviðræðna Íslands í ESB. Sá maður er Björn Bjarnarson.
Annar maður, líka vel að sér í málefnum ESB, tekur undir þetta:
Sjálfur veit hann [Björn Bjarnarson] frá því að við sátum nokkrir þingmenn í Evrópunefndinni að allar upplýsingar um kosti og galla aðildar liggja meira og minna fyrir í skýrslu þeirrar nefndar og þeir þættir þurfa ekki frekari rannsóknar við.
Sá sem þetta mælti heitir Össur Skarphéðinsson.
Sá sem heldur því fram að ESB sé að stefna frá miðstjórnarvaldi sem hyglir stóru ríkjunum, og í átt að einhvers konar smáríkjaræði þar sem hlustað er á rödd þeirra smáu ætti að hugsa sig a.m.k. tvisvar um. Ný aðildarríki í austri, Írland og meira að segja Spánn eru núna komin út í horn, og rödd þeirra heyrist ekki.
Þeir sem efast um efasemdir mínar, og þora að taka sénsinn og innlima Ísland í ESB, eru annaðhvort hugrakkar sálir, eða huglausar, allt eftir því hvort álitið er hærra á píslavottum almættisins, eða þeim sem fremja sjálfsmorð í gjaldþroti og færa skuldir yfir á ekkju sína og börn.
Persónulega líkar mér hvorugur hópurinn.
Mánudagur, 11. maí 2009
Vantar ekki eitthvað í þessa yfirlýsingu?
Jóhanna Sigurðardóttir er í fyrsta skipti, að mér vitandi, að segja eitthvað um innihald hins svarta kassa sem hin nýja ríkisstjórn er. Hún segir: "Við ætlum ekki að... [bla bla] auka hlutdeild skatttekna af vergri þjóðarframleiðslu."
Með þessu gæti hún alveg eins hafa sagt eitt af eftirfarandi:
- Við ætlum að sjúga seinustu krónurnar úr vösum þeir sem við köllum "ríka", og ekki auka skattsogið á þá sem við köllum "fátæka" (allir Íslendingar?)
- Við ætlum ekki að örva hagkerfið í núverandi eða lítið breyttu skattkerfi með því að lækkandi skatthlutföll skili meiri skatttekjum, eins og sú skattstefna sem seinasta ríkisstjórn Sjalla notaði til að þenja út hið opinbera gekk út á
- Við ætlum ekki að lækka skattbyrðina, heldur reyna að hliðra henni til, með fyrirséðum en hunsuðum afleiðingum
- Við lofum að skattbyrðin lækki ekki frá því sem var áður en Stefán Ólafsson Excel-reiknaði sig fram í að lækkandi skatthlutföll hækkuðu skattbyrðina, án þess að taka með í reikninginn mismunandi skattbyrði á mismunandi "tekjustofna" ríkisins
Jóhanna segir, með öðrum orðum, ekkert sem hönd er á festandi.
Tek gjarnan við leiðréttingum á túlkununum mínum á hennar orðum. Orðið er laust, nafngreint eða nafnlaust.
Skattar svipaðir og 2005-2007 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 4. maí 2009
Völvuspá Geirs: Annar hluti - VG kokgleypir
Um daginn skrifaði ég færslu þar sem ég reyndi að sjá fyrir um atburði komandi vikna og mánaða. Fyrsti punkturinn var:
- Flokkarnir sættast á að vera sammála um að verða að dæmigerðri vinstristjórn, og um að vera ósammála um ESB
Ekkert skrýtið eða óvænt við það miðað við ummæli þingmanna flokkanna fyrir kosningar, stefnuskrár þeirra, landsfundarályktanir þeirra og orð allra meðlima beggja flokka seinustu mörgu ár.
Annars punkturinn var svo:
- Þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin, fljótlega, um "aðildarviðræður að ESB" (með feitletrun á "viðræður" og að hvergi sé talað um "umsókn")
Hér virðist mér hafa skjátlast, og stórkostlega hafa ofmetið Vinstri-græna. Ég hélt að þeir gætu a.m.k. sveigt Samfylkinguna í átt að því að kjósa fyrst um að hefja aðildarviðræður, og fá þannig gálgafrest á aftöku skoðana sinna, og sækja svo um, en nei - VG lúffar algjörlega og hendir sér beint í að hefja aðildarviðræður (samrunaviðræður réttara sagt), og gefa svo færi á að kjósa um svokallaðar niðurstöður þeirra.
Vinstri-grænir hugsa sennilega með sér að slíkar viðræður muni varla hefjast fyrr en í haust, að þær muni taka langan tíma, að þegar niðurstöður þeirra eru orðnar ljósar þá sé komið góðæri á Íslandi á ný, og að gamalgróin andstaða landsmanna um inngöngu sé þá endurnýjuð.
Nú eða að Vefþjóðviljinn hafi hitt naglann beint á höfuðið þegar hann skrifaði: "Meðal vitlausra aðgerða í íslenskum stjórnmálum undanfarið, var þegar ungir vinstrigrænir fengu landsfund til að samþykkja að fara í vinstristjórn en ekki hægri. Það eina sem þeir fengu upp úr þessari snilld, var að hafa enga samningsstöðu gagnvart Samfylkingunni."
Er samt ekki í vafa um að þriðji punktur minn sé kórréttur með smá aðlögun að nýjustu atburðum:
- Öllu púðri verður eytt til að ýta niðurstöðu þeirrar kosningar yfir 50% markið. Sjóðir Samfylkingar tæmast, öll ESB-hlynnt samtök og allir fjölmiðlar virkjaðir. Andstæðingar ESB-aðildar reyna að koma sínum málstað að líka, auðvitað, en hafa ekki allar stóru fréttastofurnar á sínu bandi, svo það verður á brattann að sækja
Sjáum hvað setur.