Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009
Fimmtudagur, 27. ágúst 2009
Glórulaus sósíalismi
Það er alveg frámunalega fáránlegt stundum að hlusta á Íslendinga tala um auðlindirnar "sínar", sem þarf að verja með kjafti og klóm frá því að renna til útlendra fjárfesta, vitaskuld alltaf á "gjafaverði", svona eins og ónýttar, upphitaðar vatnsbólur á 500m dýpi undir yfirborði Jarðar, sem enginn Íslendingur hefur efni á því að bora niður til, séu svona rosalega verðmætar.
Hver man ekki eftir Össuri Skarphéðinssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir ekki svo löngu að fljúga heimshorna á milli og fylgjast með "íslenskri þekkingu" í jarðvarmavirkjun í verki? Geysir Green og ég veit ekki hvað, frá Afríku til Indónesíu. Íslensk eignaraðild að útlenskum orkuverum þótti ekkert sérstakt hneykslismál þá, og ekki man ég eftir Skúla Helgasyni hafa svo miklar áhyggjur af "arðráni" Íslendinga á indónesískum herstjórnaryfirvöldum. Þvert á móti - með íslenskri eignaraðild kom fé, þekking og reynsla, uppbygging átti sér stað fyrir fjármagn sem annars hefði ekki verið til ráðstöfunar, og arðgreiðslur koma vitaskuld í staðinn. Það veit hver sparibókareigandi.
En svo þegar nokkrir Kanada-menn vilja í raun og veru koma með pening inn til Íslands, hvað gerist þá? Því er í alvöru velt upp hvort ríkið geti stokkið fyrr til, með fé skattgreiðenda og tæknilega sérþekkingu Skúla Helgasonar og annarra pappírspésa, til að stöðva aðkomu erlends orkufyrirtækis að HS Orku!
Já gott og vel Steingrímur J. - ef þér tekst að kreista 12 milljarða af blóði úr nú þegar stirðnuðum líkum íslenskra skattgreiðenda, þá verði þér að góðu. Reyndu hins vegar ekki að gefa fyrir því aðrar ástæður en glórulausan sósíalisma.
Segir óraunhæft að ríkið kaupi hlut í HS Orku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Miðvikudagur, 26. ágúst 2009
ESB-dallur?
Af öllum innlendum fréttum mbl.is í dag þykir mér þessi sennilega ein sú athyglisverðasta. Nú skal það útskýrt.
Árni Helgason er sennilega mjög góður maður, og hann er svo sannarlega prýðilegur penni sem hefur margt gott til málanna að leggja. En hann er ekki frjálshyggjumaður, frekar en seinustu 2-3 formenn Heimdalls. Því til undirstrikunar má benda á að hann er opinn fyrir aðild Íslands að ESB.
En er eitthvað athyglisvert við að virkur einstaklingur í stjórnmálastarfi Sjálfstæðisflokksins vilji verða formaður Heimdallur? Já, það getur verið það. Heimdallar var lengi vel kallaður "samviska [Sjálfstæðis]flokksins" vegna harðrar gagnrýni frá hægri á stefnu og aðgerðir stjórnmálamanna flokksins. Þetta, fyrir utan að margir harðkjarnar Heimdalls risu á endanum í hæstu hæðir í stjórnmálum, hélt flokknum á mottunni - honum var haldið nógu langt til hægri til að skilja sig frá vinstri- og miðjumoðinu þar sem vindurinn einn gat breytt stefnu skipanna. Hann var eini raunverulegi valkostur frjálslyndra einstaklinga þegar kom að kosningum.
Nú er öldin önnur. Eftir að jafnaðarmannaarmur Flokksins gleypti Heimdall og SUS, þá hefur samviskan þagnað. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett upp vindhanann og lætur hann nú stjórna stefnu skipsins. Árni Helgason er góður penni og að mörgu leyti með hjartað á réttum stað, en hann er jafnaðarmaður og mun halda arfleið vindhanans á lofti, og á meðan þegir samviskan.
Það þykir mér vera tíðindi að velja slíkan mann til formannsembættis Heimdallar þegar tækifæri frjálshyggjumanna til að byggja upp sterkt mótvægi við núverandi vindátt á Alþingi er núna.
Árni Helgason vill stýra Heimdalli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. ágúst 2009
Skattgreiðendur og atvinnubótarvinna
Vitur maður sagði eitt sinn að munurinn á góðum og slæmum hagfræðingi væri sá að sá slæmi hugleiddi bara sýnilegar afleiðingar ákveðinna aðgerða, á meðan sá góði sér fyrir sér neikvæðar afleiðingar þess sýnilega og getur ímyndað sér allt hið góða sem varð ekkert úr, vegna tiltekinnar aðgerðar.
Dæmi: Ríkisvaldið byggir brú. Brúarsmíðin veitir mörgum vinnu þegar á henni stendur. Brúin rís tignarlega upp úr landslagi sínu og ráðamennirnir sem börðust fyrir smíði hennar geta bent á hana og sagt: "Núna getur fólk ferðast yfir þessa á, vegna aðgerða sem ég barðist fyrir."
En um leið og fé var tekið af skattgreiðendum og fyrirtækjum gerðist nokkuð annað: Ýmsar fjárfestingar og ýmiskonar neysla datt dautt til jarðar.
Störf, greidd af hinu opinbera, og fjármögnuð með skattheimtu eru annað dæmi um eitthvað sem hefur sýnilegan árangur strax, en neikvæðar og skaðlegar afleiðingar þegar skyggnst er undir yfirborðið. Fé er tekið úr vösum skattgreiðenda og fyrirtækja og sett í hendurnar á fólki sem þá fær störf, en á kostnað alls þess sem féð hefði annars verið notað til.
Nú getur vel verið að einhverjum finnist að hið opinbera eigi að ráðstafa fé fólks til að búa til flottar og áberandi fyrirsagnir. Ég er ekki einn af þeim.
Tæplega 140 störf í gegnum Starfsorku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 16. ágúst 2009
Hvað með mínar skuldir?
Þá varð Alþingi loks einhuga um að henda íslenskum skattgreiðendum ofan í hyldýpi skuldbindinga einkafyrirtækis í útlöndum. "Glæsileg niðurstaða" er enn og aftur hrópað. Enginn lögfræðingur fékk að reyna á málstað Íslendinga fyrir dómstólum. Sjálfum lagatexta Evrópusambandsins, sem kveður á um að ríki geti ekki ábyrgst skuldbindingar vegna innistæða hjá banka, er sópað til hliðar. Af hverju? Því það er metið sem svo að innlimun Íslands í Evrópusambandið gangi greiðar fyrir sig með þæga Breta og Hollendinga til að eiga við.
Gott og vel. En hvað með mínar skuldir og skuldbindingar? Nú er ég að vísu ekki vel tengdur í pólitík, og á fáa vini inni á Alþingi, en það sakar ekki að spyrja: Ætlar íslenska ríkið ekki að ábyrgjast mínar skuldbindingar líka? Ég er einstaklingur, með eigin kennitölu, og hef alveg nóg af skuldum sem ég get ekki bara ákveðið að vanrækja án afleiðinga. Með nýjasta útspili Alþingis er komið fordæmi fyrir því að ég geti
- safnað skuldum
- vanrækt afborganir
- fengið stóran bónus
- skipt um kennitölu og byrjað upp á nýtt
Eða hví ekki það?
Góð lending fyrir Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 12. ágúst 2009
Hvað með að lýsa Landsbankann gjaldþrota?
Hin bandbrjálaða hugmynd um að þjóðnýta skuldbindingar einkafyrirtækis í útlöndum, þvert á alla sáttmála sem Ísland er aðili að, virðist nú vera að missa vinsældir á Íslandi, eða það vona ég.
Nú tekur einn af málsvörum ESB-aðildar á Íslandi, Morgunblaðið, viðtal við mann sem með hóflegum hætti segir: Af hverju að skuldbinda Íslendinga til að greiða fyrir þrotabú einkafyrirtækis, án þess að svo mikið sem setja það þrotabú í verð? Hvort sem hann svo vill að íslenskir skattgreiðendur éti mismuninn eða ekki er önnur saga, en af hverju ekki að byrja á að leysa upp þrotabúið áður en skattgreiðendur eru kæfðir spriklandi í botnlaust skuldafen?
Skref í rétta átt, þótt smátt sé. En skref engu að síður.
Næsta skref er vonandi að átta sig á því að Landsbanki Íslands var einkafyrirtæki, að innistæður viðskiptavina þess fyrirtækis voru löglega tryggðar samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins um slík mál, og að ef sá tryggingasjóður er gjaldþrota þá þýði það ekki að skattgreiðendur eigi að éta afganginn. Meira að segja sagt mjög skýrum orðum í tilskipun Evrópusambandsins að svo sé ekki.
Það eru ekki lögfræðingarnir sem deila sem hæst. Það eru stjórnmálamennirnir, um lögfræðileg efni.
Skynsamlegt að semja að nýju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 11. ágúst 2009
Endurreisn Íslands krefst stjórnarskipta
Smá greinarkorn eftir mig í Morgunblaðinu í dag (stækkar í fulla stærð með tveimur músarsmellum á hana):
Ríkisstjórn á suðupunkti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)