Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2018

Öllu veðjað á blússandi góðæri um alla framtíð

Hagkerfið er tekið að kólna segja sumir. 

Það er samt ekkert við því að gera. Hið opinbera er búið að veðja á blússandi góðæri um alla framtíð. Það eru engar áætlanir um niðurgreiðslu opinberra skulda aðrar en þær að skatttekjur haldi áfram að vaxa og vaxa svo hið opinbera geti haldið áfram að þenjast út á meðan skuldir eru hægt og rólega greiddar niður.

Í fjármálaráðuneytinu hafa menn ákveðið að eyða launahækkunum framtíðarinnar áður en þær verða að raunveruleika.

Ef eitthvað kemur upp á - bara eitthvað - dettur botninn úr öllum áætlunum. Menn munu þá ekki fara út í sársaukafullan niðurskurð. Nei, skuldum verður hlaðið upp á nýjan leik.

Þetta er það sem blasir við íslensku hagkerfi og samfélagi. Almenningur þarf að gera viðeigandi ráðstafanir ef hann ætlar ekki að láta stjórnmálamennina sökkva sér - aftur. Til dæmis ættu allir að forðast að safna skuldum sem komandi verðbólguskot mun sprauta sterum í. Menn þurfa að aðlaga lífsstíl sinn að lækkun ráðstöfunartekna og eiga varasjóð, helst í erlendri mynt sem getur staðið af sér aðra fjármálakrísu (t.d. hrun Bandaríkjadollars eða gjaldþrot einhvers af stóru ríkissjóðum Evrópu).

Næsta hrun verður verra en hið seinasta. Kólnun er væntanleg - jafnvel snöggkæling.


mbl.is Hagkerfið tekið að kólna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efasemdir eru ekki rasismi

Rasismi fer vaxandi í Evrópu. Kemur það einhverjum á óvart?

Efasemdir um ágæti þess að hleypa tugþúsundum af innflytjendum inn í ríki Evrópu fer vaxandi. Kemur það á óvart?

Efasemdir um ágæti innflytjendastraumsins eru samt ekki rasismi í sjálfu sér. 

Í Englandi eru starfræktir tugir dómstóla sem framfylgja ströngum múslímskum lögum og kennisetningum. Þessir dómstólar starfa algjörlega til hliðar við dómskerfi innfæddra. Þetta er ekki öllum að skapi. Kemur það einhverjum á óvart?

Mörg hverfi í mörgum borgum Evrópu eru í raun lokað land fyrir innlenda lögreglu. Þetta er ekki öllum að skapi. Kemur það einhverjum á óvart?

Innan Evrópu er hægt að finna stóra hópa fólks sem hefur búið í tilteknu ríki í áratug eða áratugi en kann ekki stakt orð í tungumáli innfæddra og finnur enga vinnu nema hjá nánustu ættingjum eða vinum, eða bara alls ekki en kann að þefa uppi bætur. Kemur einhverjum á óvart að það sé ekki að skapi allra kjósenda?

Ruglum ekki saman rasisma - hatur á ákveðnum kynþáttum af ýmsum ástæðum - og efasemdum gagnvart stórstreymi fólks í leit að ölmusa og öryggi án áhuga á því samfélagi sem réttir því framfærsluna.

Ekki flytja til Danmerkur ef þú hatar beikon og bjór.

Ekki flytja til Íslands ef þú hatar "þetta reddast" hugarfarið, fermingarfræðslu og lárétta rigningu.

Ekki flytja til Sómalíu ef þú ert andsnúinn múslímskum siðum og líður illa í hita.

Ekki flytja til ríkis sem þú þolir ekki en vilt samt að framfæri þér.


mbl.is Mótmæltu rasisma á Ítalíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vindorkuver rísi ekki. Punktur.

Vindorka er ekki ókeypis þegar hún gefur sig. Til að fanga hana þarf gríðarleg mannvirki og engu minna af köplum og vélbúnaði en fyrir annars konar orkuframleiðslu. Vindmyllurnar verða heldur ekki stórar nema verða dýrar, flóknar, viðhaldskrefjandi og stingur í augu þeirra sem horfa á landslagið.

En af hverju þessi gríðarlegi áhugi á vindorku?

Sum ríki, eins og Danmörk, eru auðlindasnauð. Fyrir þau eru freistandi að auka sjálfsþurftarbúskap sinn í orkuframleiðslu til að verða ekki eins háð pólitískum vindum, t.d. samskiptum við gasríkt Rússland. Eltingaleikur þessara ríkja við vindorku hefur samt ekki reynst nein gullnáma. Sveiflurnar í orkuframboðinu eru miklar og menn þurfa að setja sig inn í flókna spákaupmennsku á varaafli annars staðar frá til að tryggja nægt rafmagn. Norðmenn kaupa t.d. ódýra vindorku frá Danmörku þegar vel blæs og selja í staðinn dýra vatnsorku til Danmerkur þegar lognið herjar á aumingja Danina.

Önnur ríki eða fyrirtæki hafa fallið fyrir þeirri kenningu að koltvísýringur sé að tortíma loftslaginu. Slíkur ótti er ástæðulaus eins og menn eru kannski byrjaðir að sjá eftir veturinn á norðurhveli Jarðar undanfarna mánuði.

Enn önnur ríki eða fyrirtæki stunda hreina veðmálsstarfsemi - telja að eftirspurn eftir vindmyllum sé að fara springa út og vilja græða þegar það gerist. Það mun ekki gerast. Enginn setur upp vindmyllugarð nema á ríkisstyrkjum eða til að tapa fé en græða græna ímynd.

Vindmyllur eru hentugar til margra hluta en aðstæður þurfa að vera frekar sérstakar til að þær standi undir sér sem fjárfesting. 

Hættum þessum eltingaleik við vindmyllur. Ef menn vilja bæta loftgæðin á að auka framboð af olíu og gasi og láta það keppa við bruna skítugra kola.


mbl.is Vindorkuver rísi ekki á verndarsvæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geta þingmenn ekki tekið strætó?

Skattgreiðendur á Íslandi eru látnir borga fyrir margt en það er ekkert nýtt. Þeir borga þingmönnum fyrir að keyra, leigja og predika yfir sér. Þeir borga fyrir ráðherrabíla þótt handfrjáls búnaður sé tiltölulega gömul uppfinning og ódýr. Þeir borga fyrir innanlandsflug þingmanna þótt ríkið niðurgreiði strætóleiðir á milli landshluta. Þeir borga fyrir leiguhúsnæði þingmanna þótt það sé enginn vandi að setja eigið húsnæði í útleigu til að borga fyrir annað. 

Kannski væri ódýrast fyrir skattgreiðendur að afnema kosningarétt landsbyggðarinnar. 

Kannski væri heppilegast fyrir skattgreiðendur að hafa færri þingmenn.

Kannski ættu skattgreiðendur að krefjast þess að þingmenn noti sams konar lausnir og ferðamáta og þeir sjálfir nota. 

Kannski ættu áhugamenn um fjölmiðla að kynna sér betur hina svokölluðu slúðurpressu Danmerkur og Bretlands, þar sem skattétandi þingmenn eru reglulega settir á forsíðuna og kallaðir afætur.


mbl.is Þingið borgar bíla fyrir tólf þingmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt er að bráðna saman

Hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá er fjölmiðlun af ýmsu tagi að bráðna saman. Skemmtiefni inniheldur auglýsingar og öfugt. Fréttir eru styrktar. Frásagnir af einkalífi fólks innihalda kynningarefni. 

Eldra fólki gremst þetta kannski enda vant því að fá að vita þegar auglýsingatímar hefjast og þeir enda. Unga fólkið nennir ekki að horfa á auglýsingar nema til að komast að einhverri afþreyingu. Auglýsendur leita því leiða til að lauma auglýsingum inn í afþreyinguna. 

Það er ekkert við þessu að segja. Það sem fólk þarf fyrst og fremst að virkja hjá sér er heilbrigt, gagnrýnið hugarfar. 

En það dugir ekki til segja sumir. Neytendur eru flón! Það þarf að vernda þá! Sjáið bara hvernig þeir rífa út varning raunveruleikastjarnanna þótt þær vörur séu jafnvel síðri öðrum vörum! Sjáið bara börnin sem suða í foreldrum sínum og gera þá máttlausa! 

Sumum stendur líka beinlínis ógn af gagnrýnu hugarfari. Forræðishyggja stjórnvalda má sín lítils þegar fólk vogar sér að hugsa gagnrýnið. Píramídaspil bankakerfisins má ekki við of mikilli gagnrýninni hugsun. Stórfyrirtæki sem skrifa lagafrumvörp og segja þau vernda neytendur og stuðla að stöðugleika vilja ekki of gagnrýnið hugarfar. 

Eftir því sem auglýsinga- og afþreyingaheimurinn bráðnar meira og meira saman er samt hætta á því að gagnrýnið hugarfar aukist. Þá er voðinn vís fyrir þá sem treysta á ræðuhöld úr fílabeinsturnum.


mbl.is Hafna uppfærslu á Snapchat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villandi fyrirsögn og hræðsluáróður

Nú á að hræða fólk með smálánunum. Fyrirsögn er skrifuð: Smálán fara yfir fasteignalán sem hlutfall skulda.

Þetta má auðveldlega skilja sem svo að fólk skuldar meira í smálán en fasteignalán. Auðvitað er það ekki rétt og kemur fram þegar fréttin er lesin. Fyrirsögnin er villandi.

Síðan kemur í ljós að vandamálið er ungt fólk sem skuldar nokkur hundruð þúsund krónur í neysluskuldir. Það þarf nú að leita sér hjálpar og sennilega þarf það að taka að sér aukavaktir og vinna mikið í sumar til að komast yfir hjallann en það er alveg geranlegt.

Er til betri lexía fyrir þetta unga fólk? Margt fullorðið fólk sem kemur hvergi nærri smálánum er oft ekki komið í þrot fyrr en það hefur safnað mörgum milljónum í skuldir sem er öllu erfiðara að eiga við.

Smálán eru auðvitað ekki sniðug. Þau bera háa vexti - gjarnan himinháa - og eru gerð eins freistandi og hægt er. Um leið má spyrja sig að því hvort þau veiti ekki rækilega lexíu. Það mætti líka velta fyrir sér hver hinn valmöguleiki smálánaþeganna er. Götulán frá næsta fíkniefnasala sem notar frekar handrukkara en innheimtuþjónustur til að rukka?

Fjármálalæsi fæst með tvennum hætti: Skipulegri hugsun og aga annars vegar, og reynslu hins vegar. Sviptum ekki ungt fólk möguleika á að afla sér reynslu með nokkur hundruð þúsunda króna skuldasöfnun núna frekar en nokkur milljón króna skuldasöfnun seinna.


mbl.is Smálán fara yfir fasteignalán sem hlutfall skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisvaldið skaffi klósettpappír og útsýnispalla

Ferðamannastaðir á Íslandi eru margir á því sem mætti kalla gráu svæði þegar kemur að rekstri, ábyrgð og uppbyggingu.

Margir þeirra eru undir verndarvæng ríkisvaldsins sem hefur hingað til þýtt að þeir eru á engan hátt í stakk búnir til að anna eftirspurn ferðamanna. Uppbyggingu þeirra er stjórnað frá Reykjavík þar sem menn setja saman áætlanir og japla svo á þeim svo mánuðum skiptir. Á meðan sjá ferðamenn sér fáa aðra kosti en að skíta úti á túnum og lauma sér framhjá hindrunum.

Í nágrenni ferðamannastaðanna eru sveitabæirnir. Yfir þeim ráða bændur. Þeir sjá sjálfir um að slá grasið, mála byggingarnar og dytta að girðingunum. Vissulega eru þeir háðir ríkisvaldinu um styrki eins og fyrirkomulag landbúnaðar er á Íslandi í dag en þeir eru herrar yfir eigin garði.

Þannig er hugsanlegt að finna marga staði þar sem standa hlið við hlið ferðamannastaðir undir átroðningi og bóndabæir í blóma. 

Ég veit ekki af hverju bændum og öðrum landeigendum er vantreyst til að byggja upp ferðamannastaði á Íslandi og rækta þá eins og eigin jörð. Af hverju þarf að ákveða frá Reykjavík hvar eigi að reisa salerni en ekki girðingar? Af hverju þarf verktaka á vegum ríkisins til að leggja malarstíga en ekki til að slá tún?

Hvatinn til að byggja upp aðstöðu fyrir ferðamenn er svo lítill að ríkið getur ekki einu sinni veitt styrki til þess. Það sækir hreinlega enginn um þessa styrki því hver er ágóðinn til lengri tíma þegar allt erfiðið er að baki?

Það er enginn vandi að sameina vernd náttúrunnar og uppbyggingu ferðamannastaða. Skriffinnar í Reykjavík eru e.t.v. síst til þess fallnir að leysa það verkefni.


mbl.is Innviðir ferðamannastaða bættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgin þrifin fyrir kosningar

Reykvíkingar hafa tekið eftir því að víða er pottur brotinn í viðhaldi og þrifum í borginni. Núna eru hins vegar að koma kosningar. Þá er loksins hafist handa við að laga götóttar götur og núna á að þrífa borgina aðeins. Það má gera ráð fyrir að áður en kjördagur rennur upp verði búið að hreinsa upp njólana, reita arfann, slá grasið og týna ruslið.

Kosningar eru að þessu leyti ágætar. Þá muna stjórnmálamenn aftur eftir kjósendum sínum. Um leið kemur ókostur kosninga í ljós: Fjögur ár eru langur tími. Á frjálsum markaði kjósa menn á hverjum einasta degi og jafnvel oft á dag. Menn kjósa Dominos einn daginn og Serrano þann næsta. Menn fara í Kringluna eða í Smáralindina. Menn forðast skítugar sorabúllur og sækja í hreinar verslanir með góðri lýsingu. Fiskbúðin þarf bara að bjóða upp á skítugt fiskborð í einn dag til að missa viðskiptavini. Kjósendur þurfa að sætta sig við skítinn í mörg misseri áður en nokkuð er lagað.

Þetta er ekki einkenni Reykjavíkurborgar eða meirihlutans þar sérstaklega. Þetta er almennt einkenni á þjónustu sem nýtur bara aðhalds á fjögurra ára fresti. 

Það er af þessari ástæðu meðal annars að það er mikilvægt að fækka verkefnum hins opinbera svo fólk geti kosið oft á dag en ekki bara á 48 mánaða fresti. Rekstur án aðhalds er sofandi, latur og svifasveinn. Hann heldur samt áfram að kosta fullt verð. Svona fá fyrirtæki ekki að haga sér.


mbl.is 15 milljónir til að borga yfirvinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ringulreið í ráðhúsinu

Það er sama hvernig stjórnmálin í Reykjavíkurborg eru skoðuð: Niðurstaðan er ein stór ringulreið.

Borgarstjórnarfulltrúum á að fjölga og búa þannig til pláss fyrir enn fleiri smáflokka. Það er út af fyrir sig ekki slæmt en þegar allir standa fast á einhverju einu gæluverkefni eða sérmáli er erfitt að ræða stóru málin.

Meirihluti fjögurra flokka virðist ekki geta orðið sammála um neitt nema aukin útgjöld og fleiri gæluverkefni á meðan stjórnarandstaða fjögurra flokka virðist ekki hafa neitt annað til málanna að leggja en einhver önnur gæluverkefni. Vissulega benda sumir flokkar á að borgin er að keyra sig í þrot en slíkar ábendingar drukkna í umræðum um samgöngumannvirki og mæður sem eru fastar heima því útsvarið dugir ekki til að útvega þeim dagvistarpláss.

Það er ekki skrýtið að íbúum nágrannasveitarfélagana er að fjölga mun hraðar en í höfuðborginni. Það heitir að kjósa með fótunum og er mikilvægt aðhaldstæki borgaranna gagnvart yfirvöldum. Það sýnir líka hvað er hættulegt að sameina sveitarfélög of mikið og yfir of stór svæði því þá er erfiðara að kjósa með fótunum og veita þannig yfirvöldum aðhald.

Og af sömu ástæðu er mikilvægt að byrja af alvöru að ræða leiðir sem auðvelda uppskiptingu sveitarfélaga í önnur og minni sveitarfélög eins og ég ræði í þessari grein frá 2014.

Ég vona að sem flestir frambjóðendur í Reykjavík átti sig á því að vandamál borgarinnar er röng forgangsröðun. Það á að vera hægt að sinna allri lögbundinni grunnþjónustu mjög vel fyrir mun lægri skatta og á sama tíma greiða niður skuldir og minnka fjölda opinberra starfsmanna. Skattgreiðendur eru ekki rollur sem má rýja inn að skinni og leyfa þeim svo að frjósa úti. Þeir eiga betur skilið. 


mbl.is Borgarstjórnarmeirihlutinn heldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

And-réttrúnaðurinn sparkar frá sér

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, er að mörgu leyti holdgervingur hins pólitíska rétttrúnaðar. Hann er að tegund fólks sem telur sig hafa fundið upp uppskriftina að umburðarlyndi, sátt og samlyndi, virðingu fyrir öllum og velferð mannkyns... fólkskyns.

Hinn pólitíski rétttrúnaður mætir samt andspyrnu af mörgum toga.

Góð kynning á þeirri andspyrnu er hér:

Dr. Jordan Peterson — Political Correctness & Young People

https://youtu.be/-PI5JGTA1WI

Ég get skrifað meira um þetta áríðandi umræðuefni fljótlega.


mbl.is Trudeau bjó til orðið „fólkskyn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband