Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2018

Listi hugsjónafólks eða tískulisti pólitísks rétttrúnaðar?

Sjálfstæðisflokknum er vandi á höndum, sérstaklega í Reykjavík sem lengi vel var höfuðvígi hans. Vandinn er sá að þar á bæ eru menn hættir að styðja við hugsjónafólk og þess í stað orðnir of uppteknir af skoðanakönnunum. Þetta er ekki nýr vandi. Hann er kannski 20 ára gamall eða meira. Hann er engu að síður raunverulegur.

Dæmi: Það tók örugglega tvö eða þrjú prófkjör meðal flokksmanna til að koma hugsjónamanninum Óla Birni Kárasyni inn sem fyrsta þingmanni (þ.e. ekki sem varamanni). 

Dæmi: Það eru til flokkar sem lofa meiri lækkun á ákveðnum sköttum en Sjálfstæðisflokkurinn.

Dæmi: Það eru til útgjaldaliðir hjá ríkissjóði sem Sjálfstæðisflokkurinn styður en ekki allir aðrir flokkar.

Einhvern tímann hefði þetta þótt fáheyrt. Einhvern tímann var Sjálfstæðisflokkurinn alltaf sá flokkur sem lofaði mestum skattalækkunum og tilheyrandi einkavæðingum sem koma ríkisvaldinu út úr ákveðnum rekstri. Einhvern tímann fannstu aldrei - nema kannski í örfáum undantekningatilvikum sem ég kann ekki skil á - fólk í öðrum flokkum sem talaði opinskátt um mikilvægi hins frjálsa framtaks og hliðstæðu þess: Magurs ríkisvalds sem skattlagði í hófi. 

En nú er öldin önnur. Frjálshyggjumönnum gremst þetta því þeir hafa aldrei verið landlausari. Miðjuflokkunum gremst hin aukna samkeppni um atkvæði hinna óákveðnu. Vinstriflokkarnir hafa kannski helst tilefni til að fagna.


mbl.is Margir vilja vera á listanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er hinn kosturinn?

Vestræn fyrirtækja sem koma sér fyrir í vanþróuðum ríkjum uppskera oft hylli íbúa sömu ríkja. Íbúarnir flykkjast inn í verksmiðjur fyrirtækjanna og uppskera þar betri laun, betri aðbúnað og meira starfsöryggi en annars væri í boði. 

Þessi ríki eru oftar en ekki óstöðug ríki. Styrjaldir, spilling og valdatogstreita plagar þau. Heimatilbúin viðskiptahöft umlykja þau gjarnan. Það er ekkert sjálfgefið að halda úti rekstri í slíkum ríkjum. Oft þarf lítið að gerast til að reksturinn sé ekki fýsilegur lengur.

Fyrirtæki eins og H&M og Nike uppskera oft mikið lof vestrænna góðgerðarsamtaka sem sjá að þörfin fyrir þau minnkar um leið og störf og framleiðni leysir af örbirgð og fátækt. Eða hvað? Nei, svo er ekki. Menn atast í fyrirtækjunum, og reyna jafnvel að hvetja fólk til að hætta að stunda við þau viðskipti. Stundum hefur sá þrýstingur leitt til að fyrirtækin loka verksmiðjum sínum og starfsmenn þeirra snúa aftur á ruslahaugana í leit að seljanlegu rusli.

Auðvitað eru vestræn fyrirtæki sem stunda viðskipti í vanþróuðum ríkjum ekki heilög. Það er sjálfsagt að fylgjast með þeim og passa upp á að þau beiti ekki starfsmenn sína ofbeldi eða helli eiturefnum ofan í jörðina og spilli landi nágranna sinna. Það þarf hins vegar að breyta viðhorfinu til þeirra almennt. Þau eru auðvitað að leita uppi hæft starfsfólk á góðum kjörum en hin hliðin er sú að þau finna þetta starfsfólk því íbúarnir flykkjast inn í verksmiðjurnar og bæta hag sinn margfalt miðað við aðra valkosti sem standa í boði.


mbl.is Sauma fyrir H&M með 128 kr. á dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sveigjanleiki nauðsynlegur

Engin tvö fyrirtæki eru eins. Af hverju semja þá starfsmenn margra fyrirtækja sameiginlega um kjör sín? 

Fyrirtækjum er bannað með lögum að eiga svokallað samráð sín á milli. Launafólk er hins vegar hvatt til að eiga samráð sín á milli. Fyrirtæki geta ekki samið við eigin starfsmenn um laun. Nei, hagsmunasamtök fyrirtækja semja við hagsmunasamtök launþega. Fyrir vikið á hvert og eitt fyrirtæki erfiðara með að aðlaga launakostnað að rekstri sínum.

Fyrirtæki sem sjá ekki fram á að geta greitt laun og skilað hagnaði leita annarra leiða. Sum senda starfsemi erlendis. Önnur leggja hreinlega niður óarðbæra starfsemi. Leiðirnar eru margar þegar sú leið að semja beint við starfsmenn sína lokast.

Eftir hrunið 2008 gripu margar verkfræðistofur til þess ráðs að semja við starfsmenn sína um lækkað starfshlutfall. Það var gert til að geta forðað starfsmönnum frá uppsögnum og týna þannig reynslu þeirra. Þegar árferðið batnaði var lítill vandi að auka starfshlutfallið aftur. Þetta var hægt því hægt var að semja milliliðalaust. Þetta er svigrúm sem mörg fyrirtæki hafa ekki. Þá er eina úrræðið að koma starfsmönnunum út úr fyrirtækinu.

Norræn hagkerfi hafa lengið geta aðlagast breyttum aðstæðum með miklum sveigjanleika á atvinnumarkaði - það er bæði létt að ráða og reka. Eru Íslendingar að missa þessa aðlögunarhæfni?


mbl.is Iðnaður að fara í harða lendingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarlína eða bíll - röng uppstilling

Auðvitað mun Borgarlínan ekki minnka umferð að ráði. Þeir sem nota bíl gera það af mörgum ástæðum, ekki bara til að drepa stóran hluta tíma síns í umferðinni. Margar þessara ástæða koma því ekkert við að strætóar, lestir og hjólastígar geta komið manni sjálfum líkamlega frá einum stað til annars (verslunarferðir, skutl með krakkana, leiðangur í ÁTVR).

(Í framhjáhlaupi má kannski nefna að það gæti minnkað umferð um einhver brot af prósenti að heimila sölu áfengis í matvöruverslunum. Þá þyrfti fólk síður að fara í sérstakan bíltúr til að krækja í bjórkippu.)

Sé raunverulegur ásetningur að liðka til fyrir umferðinni án þess að þekja borgina í malbiki eru til margar aðrar leiðir en rándýrar línur sem ryðja bara annarri umferð inn á færri akreinar. 

Sumar þessara leiða blasa við (heimila Uber og aðrar leigubílaþjónustur eða svokallaðar farveitureinkavæðing strætó og opnun á frekari aðkomu einkaaðila að skutli, lækkun skatta á bifreiðar og eldsneyti og upptaka vegatolla í staðinn sem yrðu verðlagðir eftir eftirspurn). Aðrar þurfa að koma í ljós með samspili fyrirtækja og fólks á frjálsum markaði. 

Ferðalangar í vegakerfinu hafa gríðarlega greiðslugetu eins og sést á hárri skattlagningu á bifreiðar og eldsneyti og háum rekstrarkostnaði bíla. Um leið hafa þeir mikla þolinmæði eins og sést á því að þeir skafa frekar bíl og moka innkeyrslu en hoppa í strætó, og þola frekar umferðarteppur en rólegheitin í strætó. Þetta er milljarðamarkaður sem mörg fyrirtæki yrðu ólm að koma inn á. Reykjavík gæti kennt heiminum í eitt skipti fyrir öll hvernig má sameina dreifða byggð af ódýru húsnæði og sveigjanlegar samgöngur á takmörkuðu vegakerfi. Hvernig? Það mun markaðurinn leiða í ljós.

Það mistókst að miðstýra iðnaðarframleiðslu í Sovétríkjunum. Miðstýring umferðar hefur ekki gengið betur, mun ekki ganga betur og á að gefast upp á að reyna fjarstýra frá ráðhúsinu.


mbl.is Segir áhrif borgarlínu ofmetin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessir greyið unglingar geta aldrei gert neitt rétt

Það er greinilega alltaf erfitt að vera unglingur. Maður getur aldrei gert neitt rétt!

Einu sinni þótti sennilega slæmt að hanga of mikið með vinum sínum. Unglingar létu sig hverfa að heiman svo tímunum skiptir og komu jafnvel ekki í kvöldmat. Í staðinn voru þeir að brasa langt fram á kvöld, jafnvel að prófa landadrykkju, eiturlyf og kynlíf á vel völdum leynistöðum. Þetta var auðvitað hræðilegt.

Einu sinni voru þeir of mikið í herbergjum sínum að horfa á sjónvarp eða hlusta á tónlist og einangra sig frá umheiminum.

Núna eru þeir of mikið heima í símanum. Þeir eru hættir að upplifa lífið og hittast til að prófa sig áfram í íþróttum og félagsstarfi (eða áfengisneyslu). 

Ég ætla alls ekki að gera lítið úr þeirri vanlíðan sem samfélagsmiðlar geta valdið mörgum. Þar á sér stað hörð keppni um athygli og velvilja annarra, jafnvel á fölskum forsendum. Foreldrar eiga að vera vakandi og reyna eftir fremsta megnið að halda uppi opnum samræðum við ungmenni sín. 

En mikið er samt erfitt að vera unglingur að því er virðist.


mbl.is „Þurfum við „læk“ til að líða vel?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband