Bloggfærslur mánaðarins, október 2018
Þriðjudagur, 30. október 2018
Skiptir nákvæmlega engu máli
Losun Íslendinga og íslenskra fyrirtækja á koltvísýring skiptir ekki nokkru einasta máli af óteljandi ástæðum.
Látum það ótalið að koltvísýringur stjórnar ekki veðurfari né loftslagi Jarðar. Menn geta haft sína skoðun á því fyrir mér, og jafnvel látið plata sig til að trúa á línulegt samhengi einnar lofttegundar og hitastigsins eins og það leggur sig.
Nei, losun Íslendinga skiptir engu máli af því hún er svo gott sem engin.
Kínverjar auka losun sína á hverju ári um jafnmikið og heildarlosun Bretlands er í dag. Bretar geta því lamið sig til dauða og skattlagt sig í örbirgð til að forðast losun koltvísýrings án árangurs Kínverjar verða búnir að bæta upp fyrir missinn á einu ári.
Losun Íslendinga er líka lítil því þeir nota tiltölulega lítið af jarðefnaeldsneyti og losa helst koltvísýring með því að opna jarðveginn fyrir mó og öðrum rotnandi plöntuleifum í jörðu.
Og losunin fer minnkandi með nýrri og sparneytnari tækni, sem menn kaupa ekki til að minnka losun heldur til að lækka eldsneytiskostnað. Útgerðin er nálægt því búin að helminga sína losun undanfarin 30 ár með því að fjárfesta í nýrri tækni og skipuleggja siglingar sínar betur.
Það kostar orku að lifa, og því meiri orku sem við höfum aðgang að því betra. Jarðefnaeldsneyti er hagkvæmt eldsneyti, og olía og gas hreint eldsneyti. Notum það og njótum.
Losun CO2 frá flugi eykst mikið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 29. október 2018
Næst fá Svíþjóðardemókratar 25%
Fordæmalaus staða er nú komin upp í sænskum stjórnmálum sem í gegnum tíðina hafa einkennst af fyrirsjáanleika.
Það sem gerðist var að hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar dönsuðu við pólitískan rétttrúnað án þess að fylgjast með afleiðingunum fyrir venjulegt fólk. Þegar fólkið ákvað að setja atkvæði sín annað urðu allir steinhissa.
Dönsk stjórnmál eru að þessu leyti öðruvísi. Vissulega er rekinn pólitískur rétttrúnaður í Danmörku en hann er frekar vægur miðað við þann sænska og vitaskuld hinn íslenska (þann skæðasta í allri Vestur-Evrópu að mínu mati). Dönsk yfirvöld fá að heyra það þegar heilu hverfin eru orðin hættuleg svæði fyrir venjulegt fólk, og full af atvinnulausum og ótalandi innflytjendum sem hafa engan áhuga á að taka þátt í samfélaginu í kringum sig.
Hinir dönsku sósíaldemókratar eru nú orðnir meðal hörðustu gagnrýnenda innflytjendastraumsins og gera sér grein fyrir að það er ekki hægt að halda úti bæði gjafmildu velferðarkerfi fyrir innfædda og um leið öðru eins hliðarkerfi fyrir aðflutta. Með því að berjast fyrir strangari innflytjendalöggjöf eru hinir dönsku sósíaldemókratar að reyna verja velferðarkerfið. Svíar hafa ekki komist svo langt í orsakagreiningu sinni.
Eða með þeirra eigin orðum:
Vi vil gerne hjælpe mennesker, der er på flugt. Det er en medmenneskelig pligt. Samtidig er vi også enige om, at der er en grænse for, hvor mange flygtninge og udlændinge der kan integreres i vores samfund. Og det er altafgørende, at integrationen kommer til at fungere bedre.
(Nálgun frjálshyggjumannsins er aðeins öðruvísi. Hún er sú að velferðarkerfið býr til innflytjendavandamál, og laði að sér fólk sem er bara á höttunum eftir bótagreiðslum. Miklu heilbrigðara samfélag er það sem hvetur fólk til að sjá fyrir sér sjálft og rétta þá hjálparhönd með frjálsum framlögum til þeirra sem eiga erfitt með það.)
Svíar eru að brenna á eigin báli. Í næstu kosningum fá Svíþjóðardemókratar 25% atkvæðanna og komast í algjöra lykilstöðu í sænskum stjórnmálum. Menn munu þá skammast út í almenna kjósendur og kalla þá pópulista og ýmislegt annað og jafnvel siga Evrópusambandinu á sænska lýðræðið.
Fordæmalaus staða í Svíþjóð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 27. október 2018
Áminning til skattgreiðenda
Nú hefur myndastytta af typpi verið afhjúpuð í Tjörninni í Reykjavík. Hún minnir skattgreiðendur vonandi á að með því að láta féfletta sig í hítina er verið að styðja við ákveðna hluti á kostnað annarra. Þeir sem vilja ekki láta reisa styttu af typpi mega halda kjafti og borga. Hinir ánægðu geta brosað yfir því að hafa fengið typpið sitt og aðra til að borga fyrir það.
Typpið er vonandi góð áminning um það að allt sem hið opinbera sér um er gert á kostnað allra en vekur bara ánægju sumra. Það má vel vera að almenn sátt ríki um að hið opinbera einoki lagningu vega. Sértu óánægð(ur) með holurnar í þeim skaltu hins vegar halda kjafti. Þú færð ekki að ráða aðra til verksins eða hafa áhrif á vegalagninguna.
Þökkum bara fyrir að við höfum þrátt fyrir allt ekki fangelsisvist hangandi yfir okkur ef við skiptum sjálf um ljósaperu, sem við keyptum sjálf. Væri hið opinbera hér við völd er hætt við að flöktandi og hálfdauðar ljósaperur tækju af okkur kvöldstundirnar í miklum mæli.
Einkavæðum allt.
Ekki typpi heldur lítil hafpulsa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 24. október 2018
Segja þeir sem sáu ekkert fyrir
Það vantar ekki spekingana til að tjá sig um ástand efnahagsmála á Íslandi og erlendis. Gallinn er sá að þetta eru spekingarnir sem sáu ekkert fyrir árið 2008, hvorki á Íslandi né erlendis.
Ekki ætla ég að þykjast vita neitt en ætla samt að fara varlega í vali mínu á spámönnum. Í það minnsta ætla ég ekki að leita í smiðjur spámanna innan kerfisins, ef svo mætti kalla: Opinberra stofnana og bankafólks.
Kannski Heiðar Guðjónsson, fjárfestirinn sem kom fé sínu í skjól fyrir hrunið, sé málið.
Áhættan í kerfinu hófleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 23. október 2018
Verkalýðshreyfingin og sjálfvirknivæðingin
Sjálfvirknivæðingin er á fullri ferð. Hún verður ekki stöðvuð. Í stað afgreiðslumanns kemur snertiskjár. Í stað kokksins kemur hamborgaravélin. Í stað ritarans kemur símsvari. Í stað þjónustufulltrúans kemur háþróaður hugbúnaður sem greinir vandamál þín.
Margir hafa áhyggjur af þessari þróun og tala um að sumir hópar geti bráðum ekki fundið sér vinnu. Það þarf ekki að óttast. Fólk getur sótt sér endurmenntun. Ungt fólk undirbýr sig fyrir framtíðina þar sem hinir mannlegu hæfileikar verða ekki sjálfvæddir. Hér má nefna útsjónarsemi og nýsköpun. Vélar eru hannaðar með ákveðin hlutverk í huga. Um leið og þarf að endurhugsa það hlutverk þarf mannshugurinn að koma til sögunnar. Enn sem komið er að minnsta kosti.
Þessi sjálfvirkniþróun verður ekki stöðvuð, en það má flýta henni.
Í Bandaríkjunum hafa sum ríki sett á lögbundin lágmarkslaun sem eru svo há að fyrirtæki hafa annaðhvort þurft að tæknivæðast í hvelli eða loka rekstri sínum. Á einum stað segir t.d. svo frá:
These added costs give employers with already slim profit margins a strong incentive to automate or embrace self-service. In an interview with Forbes, the founder of a delivery robot company linked his products value proposition to a rising minimum wage: At something like $10 per delivery, the majority of citizens will not use [human delivery]. Its too expensive.
Það er gott mál að sjálfvirkni er að breiðast út. Það losar um hendur sem geta gert eitthvað annað og meira verðmætaskapandi. Það er hins vegar slæmt ef verkalýðshreyfingin er að flýta þessari þróun svo mikið að fólk nær ekki að aðlagast breyttum veruleika og sér fram á atvinnuleysi til lífstíðar.
Hærri laun fækka störfum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 22. október 2018
Enginn píndur til að skrifa
Sumir virðast hafa miklar áhyggjur af kjörum rithöfunda. Þó er enginn að pína neinn til að starfa sem rithöfundur, og nóg er framboðið miðað við eftirspurnina (ólíkt því sem á við um t.d. smiði og rafvirkja um þessar mundir). Fólk virðist vilja skrifa bækur, söngva og texta almennt án þess að skattgreiðendur þurfi að blæða fyrir uppihaldið og efniskostnaðinn. Sumir hafa samt fengið þá einkennilegu hugmynd að vilja lifa af ritstörfum einum saman án þess að geta selt nægilega margar bækur, og það sem er enn ótrúlegra: Hafa sannfært aðra um að það sé góð hugmynd.
Ritstörf þeirra sem geta ekki lifað af þeim eiga að flokkast sem áhugamál sömu rithöfunda. Rithöfundar eins og Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson, sem selja bílfarma af bókum á hverju ári, eru í hefðbundnum launavinnum samhliða ritstörfum. Ekki man ég eftir að hafa heyrt þau heimta fé skattgreiðenda til að fjármagna áhugamál sín. Þau eru til fyrirmyndar. Betlandi rithöfundar á opinberri framfærslu eru það ekki.
Ef einhver vill skrifa bók er bara hægt að setjast niður í frítíma sínum og byrja skrifa. Það á ekki að vera vandamál annarra. Bókina má svo gefa út hjá forlagi eða á eigin spýtur með aðstoð ýmiss konar fyrirtækja, t.d. Amazon.
Menn ættu kannski frekar að hafa áhyggjur af framfærslu þeirra skattgreiðenda sem þurfa að borga fyrir heimtufrekjuna og listamannabæturnar.
60 þúsund á mánuði fyrir bókaskrif | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 21. október 2018
Meðvirkir stjórnmálamenn ala upp meðvirka kjósendur
Af hverju er harðskeyttur og jafnvel illa innrættur femínismi svona áhrifamikill á Íslandi?
Af því stjórnmálamenn beygja sig fyrir honum.
Meðvirkir foreldrar ala upp meðvirk börn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 20. október 2018
Grænmeti hækkar í verði
Íslenskir garðyrkjumenn eru í niðurgreiddri samkeppni við sólina í suðlægari löndum. Menn rembast við að rækta gúrkur og tómata innandyra sem vaxa utandyra um víða veröld á veðursælli svæðum. Þessir bændur eru bókstaflega í samkeppni við sólina, á kostnað skattgreiðenda.
Núna á að hækka enn þann reikning sem skattgreiðendur fá með því að kolefnisjafna. Sú jöfnun er innblásin af ótta við lofttegund sem er um 0,04% af andrúmsloftinu og eykst í styrkleika með hækkandi hitastigi í sveiflum sem ná yfir mörg hundruð ár. Almenningi hefur hins vegar verið seld sú lygi að hitastig Jarðar fylgi línulegu samhengi við styrk kolefnis í andrúmsloftinu, og í öfugu orsakasamhengi við raunveruleikann.
En gott og vel, gerið samkeppnina við sólina bara enn erfiðari. Skattgreiðendur borga brúsann eins og fyrri daginn.
Flutningur á grænmeti kolefnisjafnaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 18. október 2018
Opið hlaðborð fyrir vini og bandamenn
Bragginn var og er opið hlaðborð fyrir vini og bandamenn meirihluta borgarstjórnar.
Það er ýmislegt svona sem veldur því að stærsta sveitarfélag landsins safnar skuldum í blússandi góðæri í mestu mögulegu skattheimtu, og íbúarnir eru meðal þeirra óánægðustu í landinu með þjónustu sveitarfélags síns.
Bragginn er sennilega bara toppurinn á ísjakanum sem mun aldrei verða afhjúpaður. Menn skýla sér á bak við það að engar reglur segi þetta eða hitt í stað þess að stunda bara heiðarlega stjórnsýslu og hætta að einblína á hvað má eða ekki skv. lögum.
Hluti af ísjakanum er stofnun allskyns embætta og ráða sem veita vinum og bandamönnum öruggar tekjur djúpt í stjórnkerfi borgarinnar. Það verður ekki auðvelt að sópa því út.
Hluti af ísjakanum eru líka allskyns skýrslur um hitt og þetta, svo sem svona eða hinseginn strætó, á sérakreinum eða ekki.
Hluti af ísjakanum eru líka allskyns ferðalög útvaldra einstaklinga til útlanda þar sem menn skoða allskyns framkvæmdir í stað þess að lesa sér bara til um þær á netinu.
Kjósendum ætlar ekki að ganga vel að losa sig við þessa innræktuðu vitleysu. Er það því að kenna að aðrir valkostir eru ekki eins líkamlega aðlaðandi og borgarstjóri að mati kjósenda eða luma margir kjósendur á gamalli andúð á tónlist Todmobile? Eða halda menn að Sjálfstæðisflokkurinn geti gert enn verr, og ef svo er, á hvaða raunverulegu dæmum er sú skoðun byggð?
Brotið gegn innkaupareglum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 17. október 2018
Hvar sæki ég um?
Ég hef gefið út tvö lítil rit og er með fleiri í maganum en hef alltaf fundist vera leiðinlegt að þurfa treysta á sölu á ritunum til að þau afli mér tekna.
Íslenska ríkið ætlar nú að eyða þeirri leiðinlegu kvöð að þurfa selja til að þéna.
Hvar sæki ég um?
Mælti fyrir frumvarpi til stuðnings bókaútgáfu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |