Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2019

Til varnar einnota

Einnota vörur hafa marga kosti. Við eigum ekki að dæma þær úr leik - þvert á móti!

Í fyrsta lagi geta þær sparað okkur hreinsiefni. Það þarf ekki að þvo upp einnota vörur með sápu og heitu vatni sem endar í niðurfalli og að lokum í sjónum. Einnota vörur fara einfaldlega í ruslið og eru brenndar eða urðaðar eða jafnvel endurnýttar (þótt endurnýting sé oftar en ekki sóun á orku og felur í sér notkun á hættulegum efnum).

Í öðru lagi geta einnota vörur varið matvæli okkar og ýmsar vörur. Umbúðir koma í veg fyrir skemmdir. Matur endist betur undir plastfilmu. Einnota vörur af ýmsu tagi framlengja líf á ýmsum hlutum.

Í þriðja lagi eru einnota vörur oft handhægari en aðrar og auka sveigjanleika okkar í lífinu. Til dæmis er upplagt að fara með einnota glös og diska í göngutúr á ströndina frekar en að rogast með leirtauið sem um leið er viðkvæmara fyrir hnjaski. Einnota rör eru heppileg fyrir krakka sem sulla á sig þegar þau drekka úr glasi. Að halda barnaafmæli er leikur einn þegar það er einfaldlega hægt að henda öllum glösunum og diskunum að partýi loknu frekar en að þurfa bograst yfir vaskinum og þvo upp.

Í fjórða lagi geta einnota vörur sparað hráefni, orku og auðlindir. Magnið af plasti sem þarf til að búa til eitt plastglas er svo lítið að það er nánast ósýnilegt. Hinn möguleikinn er að nota sápu og heitt vatn til að þvo upp. Plastfilman kemur í veg fyrir matarsóun. Plasthanskinn hlífir okkur við óhreinindum og eiturefnum. Öndunargríman ver lungu okkar. 

Við heyrum reglulega að sjórinn sé að fyllast af plasti og rusli. Það er að hluta til rétt en er ekki okkur að kenna. Megnið af ruslinu sem rennur til sjávar rennur úr nokkrum stórfljótum í vanþróaðri ríkjum. Lausnin er sú að styrkja stoðir eignaréttsins þannig að sá sem mengar þurfi líka að sæta afleiðingum.


mbl.is Er einnota óþarfi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kröfuharðir viðskiptavinir!

Vín­búðin á Eiðis­torgi er að margra mati orðin nokkuð lúin í sam­an­b­urði við þær sem end­ur­nýjaðar hafa verið síðustu ár. Kröfu­h­arðir viðskipta­vin­ir hafa til að mynda kvartað und­an því að ekki er kæl­ir í versl­un­inni eins og víðast ann­ars staðar.

Já, þeir eru kröfuharðir þessir viðskiptavinir ríkiseinokunarverslunarinnar! En núna stendur til að setja upp kæli og það ratar í fyrirsagnir frétta. 

En slaka þá þessir kröfuhörðu viðskiptavinir á kröfum sínum? Eða geta þeir haldið áfram að krefjast? Hver er að hlusta? Hver bregst við, og hvenær? Ekki er um að ræða neitt markaðsaðhald svo hver ákveður hvað á að gera og hvar og hvenær?

Það er ekki hægt að kalla viðskiptavini ÁTVR kröfuharða því það þarf enginn að bregðast við kröfum þeirra og þeir hafa enga aðra valkosti. ÁTVR gerir bara það sem ÁTVR telur að nægi til að bæla niður óánægjuraddir með fyrirkomulag ríkiseinokunar. Sá sem hefur labbað í gegnum stórmarkað í Danmörku eða Þýskaland brosir að nægjusemi Íslendinga með sínar ÁTVR-verslanir - sumar með kæli og aðrar ekki. Kröfur viðskiptavina ÁTVR heyrast ekki nema vísbendingar séu að myndast um að Íslendingar hugleiði frjálsara fyrirkomulag áfengissölu. Og núna er sem sagt kominn kælir á Eiðistorgi, eins og Morgunblaðið hefur hér sagt svo vel frá. Kannski það fái þessa bevítans Seltirninga til að halda kjafti.


mbl.is Fá loks kæli í Vínbúðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forréttindakynið?

Ef marka má opinbera umræðu á Íslandi þá eru konur kúgaðar af karlmönnum. Karlmenn fá háu launin, fínu störfin, stjórnarsætin og tækifærin. Konur sitja eftir með lág laun, enga ábyrgð og færri tækifæri.

Sannleikurinn er nálægt því þveröfugur. Karlmenn vinna lengur og það færir þeim laun og ábyrgð en þeir eiga líka færri vini, minna félagsnet og búa við meiri pressu. Þeim er beinlínis ætlað að þéna vel. Konur líta annars ekki við þeim. Þeim er ætlað að komast í góða stöðu því annars er litið niður á þá. 

Margir karlmenn standa ekki undir þessari pressu. Þeir byrja að taka áhættu, t.d. fremja glæpi (karlmenn eru yfirgnæfandi meirihluti fanga). Þeir kikna undan álaginu og fremja sjálfsmorð (karlmenn eiga yfirgnæfandi meirihluta sjálfsmorða). Þeir bæla geðveilur sínar og forðast að leita sér hjálpar. 

En það er ekki nóg að benda á þetta því staðreyndir skipta ekki máli í opinberri umræðu. Þetta er álitið væl. Karlmenn eru einfaldlega forréttindakynið! Skítt með álagið, sjálfsmorðin, glæpatíðnina, heilsubrestina og félagslegu pressuna (frá konum aðallega). 

Hættið þessu væli, karlmenn!

Ekki satt?

En sem betur fer eru til úrræði sem fela ekki í sér einhvern skilning eða samúð frá kvenkyninu. Það er hægt að kynna sér boðskap Jordan Peterson. Það er hægt að vera hugrakkur og opna sig. Það er hægt að standast pressuna og vonast til að kvenkynið samþykki mann eins og maður er; í venjulegu starfi á venjulegum launum í venjulegu líkamlegu formi með venjulega brúnku á húðinni. Það er hægt að finna sér uppbyggileg áhugamál og taka ábyrgð á einhverju sem skiptir máli, t.d. vellíðan sinna nánustu. 

Femínistar tala eins og þeir séu að reyna bjarga heiminum en svo er ekki. Þeir eru að sækja í þægilegu innivinnuna á háu laununum, en án þess að þurfa vinna mikið og lengi og taka áhættu með andlega og líkamlega heilsu sína. Það er hægt að gera margt heimskulegra en að hunsa femínista.


mbl.is Veikindi „tabú“ hjá strákum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott framtak sem verður vonandi endurtekið

Kaffi­hús í áströlsku borg­inni Mel­bour­ne sem lét karl­menn greiða meira fyr­ir kaffi­boll­ann lok­ar fyr­ir fullt og allt í lok mánaðar­ins. Að sögn eigenda þá höfðu þeir einfaldlega misst áhugann á að reka kaffihús.

Hvað sem því líður þá var framtakið gott og minnir okkur á að í frjálsu samfélagi þá er engin kvöð á okkur að þóknast öllum, hvað sem líður hvimleiðum pólitískum rétttrúnaði. Kaffihús á að geta rukkað karlmenn meira en konur og veitt konum forgang í sæti. Karlmenn ættu raunar að styðja þetta og túlka sem svo að þeir séu ekki eins velkomnir og konur og finna sér annað kaffihús, eða stofna sitt eigið kaffihús sem rukkar konur meira en karlmenn.

Ekki eru karlmenn velkomnir á kvennaklósettið - eru þeir að kvarta yfir því?

Fyrir mörgum árum rak félagi minn lítið fyrirtæki og sagðist bara ráða karlmenn með ákveðnar stjórnmálaskoðanir til starfa í því. Það var að sjálfsögðu hans réttur.

Ég á hús og ég býð ekki hverjum sem er í heimsókn. Mér þarf helst að líka vel við fólk sem ég umgengst og hleypi inn í húsnæðið mitt. Mér líkar ekki jafnvel við alla (þótt mér líki þannig séð ágætlega við flesta). Það á enginn að geta sagt mér hverjum ég vil og vil ekki bjóða í heimsókn.

Ég hef valið að giftast kvenmanni og um leið valið að vera ekki í rómantísku sambandi við annað kvenfólk. Það á enginn að geta þvingað mig til að halda framhjá.

Að geta mismunað og valið eftir smekk og geðþótta er heilagur réttur hvers og eins okkar. Þvinguð sambúð er engum til góðs. Góðir nágrannar geta orðið að hræðilegum sambýlingum. 

Verjum hinn mikilvæga rétt allra til að mismuna. Það stuðlar að friðsælla og réttlátara samfélagi.


mbl.is Umdeilt kaffihús lokar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Báknið þarf meira pláss

Á meðan landsmönnum fjölgar hægt og rólega er hið opinbera af hverju tagi að sprengja utan af sér allt húsnæði. Það má gæla við þá hugsun að hið opinbera, t.d. borgarstjórn Reykjavíkur eða landsstjórnin, sé orðið það stórt að það þurfi ekki lengur nein verkefni utan frá til að halda sér uppteknu: Öll skjalavinnan innanhúss (skýrslur framleiddar og sendar í umferð, fundir, nefndir, ráð og svona mætti lengi telja) dugir til að halda hinu opinbera uppteknu.

Í stað þess að reisa í sífellu nýjar skrifstofur utan um alla opinberu starfsmennina ætti að staldra við og hugleiða hvort það sé þörf á allri þessari stjórnsýslu.

En það er víst lítil sem engin von til þess. 


mbl.is Gæti verið tilbúin árið 2023
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bönnum nagladekk vegna ryks frá Sahara

Stundum kemur náttúran okkur á óvart þrátt fyrir öll mælitækin, módelin og metnaðarfullu vísindamennina. Stundum reynist fyrirsögnin ekki vera rétt jafnvel þótt enginn hafi vísvitandi reynt að ljúga og hafi haft aðgang að fullkomnustu tækni til að leggja mat á tiltekið ástand. 

Við erum minnt á það aftur og aftur að oft er betra að staldra við og hugsa en grípa til róttækra aðgerða sem geta haft neikvæðar afleiðingar.

Umræðan um nagladekk í Reykjavík er gott dæmi. Menn sjá svifryk og nagladekk og álykta að nagladekkin valdi svifryki. Svifryk er slæmt og nagladekkin hljóta því að vera það líka, hvað sem líður ástandi vega og umferðaröryggi utan við miðbæ Reykjavíkur.

Síðan koma í ljós vísbendingar um að rykið eigi kannski uppruna sinn á hálendi Íslands og tengist miklu frekar vindátt en notkun nagladekkja. Kannski léleg þrif á götum séu því vandamálið en ekki nagladekkin?

Eða kemur rykið frá Sahara-eyðimörkinni? Þá eru nagladekkin kannski ekki svo slæm.

Það er í tísku núna að hrópa sem hæst að húsið sé að brenna og að við eigum að yfirgefa eigur okkar, lífsstíl og velmegun í hvínandi hvelli.

Hvað með að staldra við? Ísbjörnum fjölgar, eyjar eru ekki að sökkva og sólvirkni að minnka. Kannski höfum við ekki náð að grípa allt með módelunum fínu.


mbl.is Rykmökkur frá Sahara á leiðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markmið hryðjuverkamanna

Hryðjuverk eru ömurlegur hlutur og þeir sem framkvæma þau eru illmenni sem eiga ekkert gott skilið. En hvers vegna látum við hryðjuverkamenn þá stjórna gjörðum okkar?

Nýlega voru framin hryðjuverk í Nýja-Sjálandi. Þau hafa réttilega verið fordæmd, sem og hryðjuverkamaðurinn að baki þeim. En hvað gerðist í kjölfar hryðjuverkanna? 

Jú, réttindi voru tekin af venjulegu fólki. Takmörk voru sett á byssueign, meðal annars. Þeir sem vildu eignast byssu, til dæmis til að geta varið sig og sitt fólk gegn ógnum eins og hryðjuverkum, misstu borgaraleg réttindi. Af því að hryðjuverkamaður drap múslíma þá missti venjulegur borgari möguleikann til að kaupa sínar eigin varnir gegn hryðjuverkum. Er ekki nærtækt að halda að sá borgari muni senda neikvæðar hugsanir til ekki bara hryðjuverkamannsins og stjórnmálamanna heldur líka múslíma? Ef ekki hefði verið gerð árás á múslíma í landi hans gæti hann enn keypt sér varnir. En núna komu þessir múslímar og þá þarf að svipta venjulegt fólk réttindum sínum. Eða hvað?

Er það ekki nákvæmlega þetta sem hryðjuverkamaðurinn vildi? Að viðbrögðin við hryðjuverkunum yrðu takmarkanir á borgaralegum réttindum venjulegs fólks, sem fer þá að gremjast nærvera múslíma í landi sínu?

Eftir hryðjuverkaárásirnar í New York sendu Bandaríkjamenn hermenn til Miðausturlanda í bílförmum sem fóru að brytja niður bæði hermenn og venjulegt fólk og moka nýliðum inn í hryðjuverkasamtök á svæðinu. Það var markmið árásanna og við hlupum í fangið á áætlunum þeirra sem við köllum óvini okkar.

Við látum tilfinningar oft stjórna okkur en það er varhugavert. Hryðjuverkamenn notfæra sér þá löngun okkar til að bregðast við hryðjuverkum með sviptingu á réttindum fólks, hvort sem það er rétturinn til að tjá sig eða teikna, rétturinn til að verja sig, rétturinn til að fara með vatnsbrúsa í gegnum öryggisleitarhlið flugvalla eða eitthvað annað.

Hryðjuverkamenn vildu bandaríska hermenn í Miðausturlönd og hryðjuverkamaður vildi svipta íbúa Nýja-Sjálands réttindum til að kaupa sér byssu. Hvað kemur næst?


mbl.is Vissu af hættunni í 10 daga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt hjá þeim

Bölsýnisfólk ætti að sleppa því að mennta sig. Ég styð það. Aðrir ættu að halda áfram að gera batnandi heim enn betri, með eða án menntunar en alltaf með verðmætasköpun fyrir sig og aðra að leiðarljósi.


mbl.is „Erum við síðasta kynslóðin?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fræg fyrir að vera fræg

Er Michelle Obama ekki bara fræg fyrir að vera fræg?

Ég spyr af því ég vil vita svarið. Mín upplifun er sú að hún sé fræg fyrir að vera gift fyrrum Bandaríkjaforseta og kunna að klæða sig. Flest af því sem hún hefur sagt hefur verið þessi hefðbundna froða.

Hún er kannski svört kona eins og Oprah Winfrey (mikilvirk athafnakona) en kannski líkari Paris Hilton (fræg fyrir að vera fræg).

Fólk er kannski aðeins of duglegt við að lepja upp skoðanir fólks sem er frægt fyrir að framleiða afþreyingu í stað þess að hlusta á fólk sem hefur eitthvað að segja.


mbl.is Heillar Skandinava í norrænni hönnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmyndafræðilegur sársauki

Að ríkið vilji ekki semja við innlenda einkaaðila um að framkvæma læknisaðgerðir hefur eingöngu eina ástæðu: Hugmyndafræði.

Ekki er verið að spara fé með því að kæfa innlenda heilbrigðisþjónustu í höndum einkaaðila.

Ekki er verið að lina verki eða stytta biðlista. Þvert á móti.

Ekki er verið að verja hið ríkisrekna kerfi. Það getur bara batnað ef biðlistar styttast og langtímaþjáningar eru linaðar af öðrum.

Ekki er verið að verja faglega getu hins opinbera kerfis. Einkaaðilar laða ekki bara til sín starfsfólk Landspítalans heldur líka fagfólk sem hefði annars búið erlendis og unnið þar. Blómlegur einkarekstur laðar líka hæfileikaríkt fólk í nám - fólk sem hefði ekki getað hugsað sér að lokast inni á opinberri stofnun alla ævi. (Hvað væri mikið af yfirborðskenndum lögfræðingum dagsins í dag læknar og hjúkrunarfræðingar ef á Íslandi væri valkostur við hið opinbera heilbrigðiskerfi?)

Ekki er verið að tryggja einhvers konar fjarveru hagnaðar í heilbrigðisþjónustu (hagnaður af rekstri heilbrigðisþjónustu fer af einhverjum ástæðum meira fyrir brjóstið á sumum en hagnaður af skó- og brauðsölu). Sá hagnaður fer bara til söluaðila verkjalyfja og erlendra heilbrigðisstofnana, og alltaf á kostnað sárþjáðra og hálf-vinnufærra Íslendinga sem búa við skert lífsgæði án góðrar ástæðu.

Morgunblaðið á hrós skilið fyrir að benda á að Íslendingum er hér fórnað á bál sósíalískrar hugmyndafræði þjáninga og þvermóðsku.


mbl.is Ósáttur við kerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband