Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2019

Ekki gott að missa mjólkurbelju

Evrópusambandið gerir nú það sem það getur til að komast hjá því að missa eina af stóru mjólkurbeljum sínum. Sambandið þarf á peningum Bretlands að halda og hagkerfi sambandsins þarf á breskum kaupmætti að halda. 

Blaðamenn eru óspart notaðir hérna í áróðursstríðinu. Þeir taka ekki viðtöl við neinn nema sá hinn sami boði hörmungar fyrir Breta ef þeir ná ekki svokölluðum samningi. Enginn hefur samt útskýrt af hverju útganga ætti að vera verri fyrir Breta en þau ríki sem hafa aldrei tilheyrt sambandinu, svo sem Sviss og Noregur og Ísrael og Hong Kong. 

Kannski ætti að tala um að ESB hafi fengið frest, ekki Bretland.


mbl.is May samþykkir sex mánaða frest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarsátt er hvað?

Mikið hefur gengið á í íslensku atvinnulífi undanfarnar vikur og mánuði. Virðist markmiðið vera að reyna að koma á einhvers konar sátt. Forsendan virðist vera sú að það sé hægt að ákvarða laun allra þannig að allir verði sáttir. Auðvitað er það verkefni sem er dæmt til að mistakast. Jafnvel þótt hægt væri að skrifa einhvers konar launataxta sem litu vel út á blaðið blasir við að tveir einstaklingar, með sömu menntun og starfsreynslu og stöðu, eru misduglegir, og þá er þeim duglega refsað á kostnað hins ef þeir fylgja sömu launatöflu (eða hið andstæða: Sá lati er verðlaunaður á kostnað þess duglega). 

Þjóðarsátt næst bara ef allir þurfa og að semja um eigin kaup og kjör beint við atvinnurekanda sem hefur um leið umboð eigenda sinna til að umbuna fyrir góða vinnu og sleppa því að umbuna fyrir lélega vinnu.

Með öðrum orðum: Einkavæða allt.

Þetta gæti sumum þótt verða harðneskjulegt og óréttlátt en munum þá að á hinum frjálsa markaði erum við öll samstarfsaðilar. Við gerum eitthvað fyrir eitthvað. Fullkomið jafnvægi! Vantar þig brauð? Seldu þjónustu þína notaðu ágóðann til að kaupa brauð af sérhæfðum bakara sem seldi sína þjónustu til þín í formi brauðhleifs. Vantar þig skó? Seldu vinnu þína í nokkra tíma og færðu skósmiðnum afraksturinn í skiptum fyrir skó sem hann saumaði fyrir þig með sínum tíma og með notkun sinna hæfileika. Enginn þarf að líða skort því allir skipast á varningi og þjónustu í skiptum fyrir varning og þjónustu. Þetta er jafnvægið sem Bastiat lýsti í bók sinni Economic Harmonies, og er róandi lesefni fyrir þá sem vilja skilja samfélagið í kringum sig.

Svokölluð þjóðarsátt er söluræða verkalýðsfélaga sem reita hárið hvert á öðru í von um að fá sem mest á kostnað einhvers annars. Raunveruleg þjóðarsátt felst í því að þú, sem einstaklingur, fáir að taka þátt í samvinnu og samstarfi hins frjálsa markaðar. 


mbl.is Ekki nægur grundvöllur fyrir þjóðarsátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menning spillingar, ofbeldis og kúgunar

Saríalögin eru löggjöf spillingar, ofbeldis og kúgunar.

Það er hægt að vera friðsæll og umburðarlyndur múslími en sá sem styður við saríalöggjöfina vill hvorki frið né umburðarlyndi.

Þar sem saríalöggjöfin er við lýði, formlega eða bara í framkvæmd, þar er skipulega brotið á saklausu fólki á hrottalegan hátt. Þar eru konur meðhöndlaðar eins og búfé eða þrælar. Karlmenn mega allt og eiga allt. Mæður eru látnar fylgja fyrirmælum barnungra sona sinna. 

Á Vesturlöndum er í tísku að mótmæla allskonar vitleysu. Vestrænar konur barma sér yfir launakjörum sínum og nemendur skrópa í skólanum til að mótmæla veðurspánni eftir 30 ár. Á sama tíma er verið að grýta samkynhneigða og konur, höggvar hendur af fátækum vasaþjófum og dæla auðlindum heilu ríkjanna í vasa einhverja sóldána sem lifa eins og rómverskir keisarar.

"First world problems" eru ekki raunveruleg vandamál mannkyns. Það má auðvitað mótmæla hinu og þessu og kvarta og kveina yfir einhverju smávægilegu - það er í eðli okkar - en hin raunverulegu vandamál heimsins eru kúgun í nafni ríkistrúarbragða og sósíalisma.


mbl.is Að vera grýttur til bana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott fyrir garðeigendur?

Breski fjölmiðillinn Guardian hefur ákveðið að bæta koltvísýringsgildum inn í veðurspá sína. Þetta eru góðar fréttir fyrir alla sem hafa unun af garðrækt og plöntum. Núna geta menn tímasett gróðursetningu á matjurtum og áætlað uppskeru sína því ef koltvísýringur er mikill þá vaxa plöntur betur (og draga um leið til sín koltvísýringinn, svo rekstraraðilar gróðurhúsa þurfa í sífellu að dæla meira af koltvísýringi inn í þau).

Í nágrenni eldfjalla er kannski hægt að fá vísbendingar um jarðhræringar því eldfjöll losa gríðarlegt magn af koltvísýringi og væntanlega meira í aðdraganda eldgosa.

Einnig má nota upplýsingar um koltvísýring til að spá fyrir um mætingu nemenda í skóla. Eða skrópa þeir bara á föstudögum til að fá langa helgi?

Svo er kannski hægt að nýta koltvísýringsupplýsingar til að spá í veðrið eftir 30 ár, sýrustig sjávar, útrýmingu dýrategunda, flóttamenn frá hamförum í náttúrunni, sjávarstöðu við Maldíví-eyjar og ýmislegt fleira, en hingað til hafa slíkar tilraunir mistekist. Allar sem ein.


mbl.is CO2 í veðurspár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með að byrja á réttum enda?

Það er að sögn skortur á ódýru húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Framboð er miklu minna en eftirspurn. Hvað er til ráða?

Niðurgreiðslur!

Bætur!

Þak á húsaleigu!

Niðurgreidd lán!

Sérákvæði um niðurfellingu stimpilgjalda á suma en ekki aðra!

Hefur engum dottið í hug að byrja á réttum enda og skoða hvers vegna framboð af hentugu húsnæði er ekki nægjanlegt?

Gæti hugsast að fyrir því séu ástæður og að þær séu ekki þær að verktakar hafni vinnu?

Já, auðvitað.

Húsnæði þarf lóðir. Engar lóðir, ekkert húsnæði.

Söluverð þess þarf að duga fyrir kostnaði. Hár kostnaður þýðir hátt uppsett verð.

Hið opinbera er hinn stóri dragbítur. Niðurgreiðslur mismuna. Frjáls markaður þarf að fá að starfa. Stjórnmálamenn eiga að einbeita sér að einhverju öðru en húsnæði, t.d. því að lesa skýrslur hvers annars.


mbl.is Ríkið styðji við íbúðakaup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinar mörgu áskoranir hins norræna vinnumarkaðs

Vinnumarkaðslíkan Norðurlandanna - hvernig sem það er nú skilgreint - stendur frammi fyrir gríðarlega mörgum áskorunum. Sem dæmi má nefna:

  • Fleiri og fleiri mennta sig, en oft í einhverju alveg gagnslausu sem ríkið þarf svo að búa til þörf fyrir innan sinna ramma svo fólk komist af atvinnuleysisskrá eða í störf við hæfi. Gagnslaust háskólanám í einhverju kjaftafagi er álitið betra en raunverulega verðmætaskapandi þjálfun og menntun í iðngreinum, því miður.
  • Hlutfall þeirra sem framleiða verðmætin lækkar í sífellu. Opinberir starfsmenn, börn, námsmenn, sjúklingar, bótaþegar, öryrkjar og aldraðir þiggja fé sem aðrir útvega. Þannig er það. En þegar opinberum starfsmönnum, bótaþegum og öryrkjum fjölgar hratt þá skreppur fjöldi vinnandi handa saman. Hver á þá að borga brúsann?
  • Velferðarkerfið er ekki bara flókið og dýrt heldur líka letjandi. Það borgar sig ekki endilega að leggja á sig erfitt nám til að komast í verðmætaskapandi starf þegar það er hægt að fara í létt nám og þiggja laun. Þrepaskiptingar skattkerfisins kæfa líka hreyfanleika fólks. Fólk velur Netflix í staðinn fyrir vinnu. Hver á þá að borga brúsann?

Styrkleikar líkansins eru líka í uppnámi. Aðalstyrkleikinn er sá að fyrirtæki geta tiltölulega auðveldlega ráðið og rekið og þannig hagað seglum eftir vindi. Annar er sá að meðal almennings er að jafnaði mikill vilji til að leggja sitt af mörkum og standa sig vel í starfi - hugarfar sem er samt á undanhaldi í dag. Vinnusiðferði almennings er í uppnámi vegna aðdráttarafls velferðarkerfisins.

Borið saman við vinnumarkaðsaðstæður víða annars staðar standa Norðurlöndin engu að síður ágætlega. Þrátt fyrir háa skatta og þungt regluverk þá vilja fyrirtæki setja upp starfsstöðvar á Norðurlöndunum og krækja í gott vinnuafl í stöðugu pólitísku landslagi þar sem eignarétturinn er varinn af bæði lögum og hugarfari fólks.


mbl.is Norðurlöndin fyrirmynd í vinnumarkaðsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur þú matað ungabarn með gröfu?

Blessaður stöðugleikinn já.

Hvernig er hann nú tryggður?

Er það með því að breyta verði á fjármagni fyrir alla með einu pennastriki úr miðstjórnarskrifstofu í Reykjavík? Á sú breyting að endurspegla þarfi útgerðar, launþega, banka, ferðaþjónustu eða iðnfyrirtækja?

Er það með því að tugþúsundir launþega fari upp (eða niður) í launum eftir nokkra fundi í Reykjavík?

Er það með því að hræra í skatt- og bótakerfinu með tilheyrandi fjármagnsflutningum frá einum hópi til annars?

Menn gætu allt eins reynt að mata ungabarn með gröfu. Skammturinn er ákvarðaður í Excel og honum troðið á einu bretti ofan í ungabarnið. Sé hann of stór kafnar barnið. Sé hann of lítill er barnið ennþá svangt en fær ekki meira.

Það er verið að fínstilla úrverk með byggingakrana. Ein röng hreyfing eða ófyrirséð aðgerð og allt fer í klessu. Allt!

Það getur vel verið að hlutir fari ekki á hliðina þegar verðlagi á fjármagni eða launatöxtum tugþúsunda einstaklinga er breytt á einu bretti. Engu að síður hefur allt afleiðingar. Kannski skríður atvinnuleysi upp fyrir einhverja hópa sem eiga enga málpípu á fundum í Seðlabanka Íslands. Kannski hættir eitthvað fyrirtæki við að búa til nýja stöðu. Kannski vega jákvæðar afleiðingar upp þær neikvæðu þannig að fleiri einstaklingar hagnist en tapi. 

Risavaxnar miðstjórnaraðgerðir munu samt hafa afleiðingar - neikvæðar fyrir suma og jákvæðar fyrir aðra.

Það er ekki hægt að mata ungabarn með gröfu. Það er betra að nota skeið og gefa marga litla skammta þar til ungabarnið er mett. Að sama skapi er betra að hver og einn launþegi semji um eigin kaup og kjör og að ríkisvaldið hætti afskiptum af verði fjármagns.

Hvað sem því líður er gott að kjarasamningar eru að komast í höfn. Betri er slæmur raunveruleiki sem má aðlagast að en óvissa undir pilsfaldi verkalýðsfélaganna.


mbl.is Telur stöðugleikanum ólíklega ógnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingur í Danmörku

Íslendingar láta ýmislegt yfir sig ganga á meðan þeir eru á Íslandi. Þeir virðast líka vera hlynntir því. Þeir vilja láta stjórnmálamenn girða sig inni og skammta sér hitt og þetta. Íslendingar virðast vilja borga ofan í botnlausa hít sem ræður ekki við verkefni sín. Grunnskólar og heilbrigðisþjónusta Íslendinga eru meðal dýrustu slíkra stofnana í heimi en afköstin oftar en ekki vonbrigði. 

En svo kemur Íslendingurinn til útlanda og kemst tímabundið út fyrir girðingarnar á Íslandi. Það er oft kátleg sjón. Íslendingur sem stígur út úr flugvél á Kaupmannahafnarflugvelli er eins og krakki í nammibúð og æðir í næstu sjoppu til að kaupa sér bjór. 

"Vá, það má selja bjór í búðum! En þægilegt!"

Íslendingurinn drekkur sig fullan og klárar sitt frí, sest í flugvél, lendir á Íslandi, "kaupir tollinn" og gengur aftur inn í girðingar hins opinbera þar sem hann verður meðhöndlaður eins og ofvaxið smábarn, og er fullkomlega sáttur við það.

Það eru til trúarbrögð sem boða að lífið eigi að vera þjáningar. Sé það of auðvelt er það um leið orðið syndsamlegt en sé það erfitt þá bíði gott framhaldslíf eftir dauðann. Kannski hafa Íslendingar þróað með sér svipað hugarfar sem segir að ef lífið á Íslandi er kvöl og pína þá verði fríið í útlöndum þeim mun betra?


mbl.is Costco efnir til verðstríðs á bjórmarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott og blessað en ...

Svo virðist sem ríkisvaldið ætli að draga aðeins úr flækjustigi sínu og skattheimtu til að koma til móts við kjarasamningaviðræður. Það er allt saman gott og blessað. Að vísu er enginn að tala um almennar skattalækkanir heldur er miklu frekar verið að hræra í einstaka bótaliðum og opna aðeins á landrými svo fólk sem hefur ekki efni á lúxusíbúðum í miðbæ borgarstjóra geti líka keypt sér húsnæði. 

Allt er þetta svo metið á einhverja milljarða sem ríkisvaldið telur sig væntanlega sjá á eftir og mun þurfa að krækja í annars staðar. Enginn hefur a.m.k. talað fyrir minnkandi opinberum umsvifum.

Hver er svo lexían?

Jú, að ríkisvaldið er stærsta lífsgæðaskerðingarafl þjóðfélagsins. Lífskjör eru verri en þau gætu verið vegna ríkisvaldsins. Umsvif þess, svíðandi skattheimta, flókið bótakerfi og dekstur þess við hagsmuni sumra hópa en ekki annarra er hamlandi afl. 

Það að ríkisvaldið sé yfirleitt dregið inn í kjarasamningaviðræður er til merkis um að menn telji sig hafa eftir einhverju að slægjast þar. Hvað nú ef ríkið lækkar skattana mína, hækkar bæturnar og skaffar mér byggingalóð? Þá græði ég! Hvað ef ríkið sleppir mér við stimpilgjaldið en ekki öðrum? Ég græði á því! Hvað ef mínar barnabætur hækka á meðan bætur annarra lækka? Það hentar mér!

Það er löngu kominn tími til að draga úr afskiptum stjórnmálamanna af samfélaginu. Það er eins og það eitt að vera kosinn til að stjórna, frekar en að vera ráðinn til þess, feli í sér einhvern töframátt. Íslendingar þola ekki stjórnmálastéttina en eftirláta henni engu að síður að ráðskast með samfélagið að vild. Þetta er óskýranlegur geðklofi sem skaðar allt og alla.

Einkavæðum allt.


mbl.is „Lífskjarasamningar“ metnir á 100 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert að óttast

Okkur er sagt að svokallað "no-deal Brexit" sé alveg svakalega slæmt mál og muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér.

En hvers vegna?

Ætlar Evrópusambandið í alvöru að reisa tollamúra í kringum Bretland? Af hverju? Fyrir hvern? Bretar kaupa miklu meira frá sambandinu en sambandið kaupir frá Bretum. Bretar geta hæglega fært viðskipti sín annað.

Verður alveg ómögulegt að reka fyrirtæki í Bretlandi? Flest ríki heims standa utan við Evrópusambandið. Er ekki hægt að reka fyrirtæki þar?

Einu sinni voru stór ríki eins og Svíþjóð og Pólland utan Evrópusambandsins. Er hægt að segja að aðildin hafi haft nákvæmlega sömu - og eingöngu jákvæð - áhrif á þau ríki?

Nei, aðild að Evrópusambandinu er ekki eintómt partý. Hún hefur kosti fyrir sum ríki en önnur ekki. Hún getur aukið viðskipti en líka dregið úr þeim (í kringum sambandið eru viðskiptahindranir við afgang heimsins).

Auðvitað mun aðlögun þurfa að eiga sér stað en ég held að Bretar þurfi ekki að óttast neitt. Það er fyrst og fremst Evrópusambandið sem hefur eitthvað að óttast. Það verður veikara án Breta og vill heldur ekki að útgangan verði of auðveld og freisti þar með ríkja eins og Hollands og Danmörku. 

Þann 12. apríl endar vonandi þessi sirkus og lífið heldur áfram.


mbl.is Greiddu atkvæði gegn Brexit-tillögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband