Allir eru glæpamenn nema þeir sem standast rannsókn

Svolítil tilvitnun sem Helgi Vilhjálmsson, betur þekktur sem Helgi í Góu, lét eftir sér í stuttu viðtali fyrir mörgum árum síðan situr oft í mér. Hann hafði þá nýlega fengið alla pappírana samþykkta hjá hinu opinbera eftirliti og gat byrjað að steikja kjúkling fyrir viðskiptavini á nýjum stað, en var (og er) með marga aðra slíka staði í fullum rekstri, og vissi væntanlega hvað hann var að fara út í.

Orð hans, í viðtali:

„Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekk­ert gera fyrr en öll leyfi eru komin.“

Ég velti því fyrir mér hvort þessi róttæka breyting í nálgun hins opinbera hafi nokkru skilað. En eitt er víst: Hún hefur drepið mörg fyrirtæki í fæðingu, eða dregið verulega úr þeim þróttinn, enda hafa ekki allir efni á því að bíða með stórar fjárfestingar svo mánuðum skiptir í von um að hið opinbera mæti og sinni pappírsvinnunni. Tvö nýleg dæmi má kynna sér hér og hér. Í báðum tilvikum draga yfirvöld lappirnar án afleiðinga á kostnað óbreyttra borgara.

Væri ekki nær að snúa aftur til fyrri tíma og heimila einstaklingum og fyrirtækjum að hefja starfsemi og þurfa svo að sæta úttekt? Sú úttekt gæti fylgt alveg nákvæmlega sömu lögum og gilda í dag, en í stað þess að setja úttektina fyrir framan stjórnarskrárvarinn rétt til að stunda atvinnu mætti setja hana - réttilega - fyrir aftan slíkan rétt. Framfylgni laga yrði nákvæmlega sú sama og í dag, og enginn munur á því hvernig kjúklingurinn er steiktur. Ekki þyrfti að bíða eftir því að tvö eftirlit verði sammála um hvar eigi að setja ræsi, eða hvort það megi leyfa handþvott á skurðstofu (bls. 12):

„Þannig var eitt skiptið gerð athugasemd við það að ekki væri vaskur inni á skurðstofunni, en það er einmitt óheimilt vegna hættu á að bakteríur geti þrifist í niðurfallinu.“

Okkur er sagt að allir séu saklausir nema sekt sé sönnuð. Ekki er það rétt, og sérstaklega ekki í þeim tilvikum þegar fólk vill opna fyrirtæki og bjóða neytendum, sjúklingum, fyrirtækjum og öðrum upp á nýjar nálganir. Við erum í dag glæpamenn nema sérstök rannsókn sýni fram á annað og opni á réttindi stjórnarskrár.

Þessu má auðvitað breyta, en þá þurfa kjósendur að velja aðra en hryggleysingja inn á löggjafarþingið og fylgja eftir með ýmsum aðferðum.

Sem gerist væntanlega ekki á meðan samfélag okkar hangir saman á málningunni.


Kynfræðslurnar

Ég rakst á svolítið innlegg á samfélagsmiðlum þar sem höfundur notaði orðið kynfræðslurnar, þ.e. kynfræðsla í fleirtölumynd. 

Mér finnst það eitt að setja orðið kynfræðsla í fleirtölumynd skýra svolítið þá skautun sem er hlaupin í umræðu um kynfræðslu á Íslandi. 

Menn eru að ræða bók sem Menntamálastofnun gaf út og enginn annar, en er víða kennd við Samtökin 78 eða hugmyndafræði samtakanna. Þetta er þýðing á erlendri bók og stendur kennurum til boða í einni tegund kynfræðslu, og áherslan þar á 7-10 ára börn. Sumir kalla þetta ekki kynfræðslu - bara svör við spurningum ungra barna. Ég hafna slíku sem útúrsnúning og segi að þarna sé ein kynfræðslan.

Menn eru að ræða veggspjöld sem sum eru merkt Reykjavík og Samtökunum 78, og svo eru önnur sem eingöngu eru merkt Reykjavík, og sennilega enn önnur eingöngu merkt Samtökunum 78. Efni þessara veggspjalda er meira og minna það sama en sum brydda upp á einhverju sem leggst einstaklega illa í fólk og þá er kannski nafn aðila sem ekki kemur fram á því veggspjaldi nefnt. En í grunninn er þetta sama efnið, mismunandi merkt.

Síðan eru það verktakar Samtakanna 78 með sína kynfræðslu í ýmsum sveitarfélögum sem vísa í einhverja heimasíðu með öllum heimsins fyrirvörum um að þar séu engin fræði á ferðinni.

Seinast en ekki síst er það svo hin hefðbundna kynfræðsla, þar sem ungmenni að detta í kynþroska læra um ágæti smokka, marka og gagnkvæms samþykkis, en um hana deilir enginn enda er hún óumdeild.

Kannski væri ráð að kynfræðslurnar“ yrðu aftur að einni kynfræðslu, með réttan markhóp, rétt innihald og engar tilraunir til að grilla hausinn á ungum börnum. Þannig sé meirihlutinn fræddur á réttum forsendum og frávik frá honum geta svo notið sértækra úrræða, í umsjón sérfræðinga en ekki trúboða.

Bara hugmynd.


Fyrir þá sem vilja berja miðaldra homma og blinda unga lesbíu

Um daginn birtist á samfélagsmiðlum hvatning til fólks um að berja einn tiltekinn miðaldra íslenskan homma og unga, blinda, íslenska lesbíu. Ég nefni ekki nöfn því á þessari hvatningu um að ganga í skrokk á hommanum og lesbíunni er víst höfundaréttur, og búið að hóta því að kæra suma sem endurtaka þessa hvatningu til ofbeldis fyrir brot á höfundarétti. 

Já, fyrir brot á höfundarétti!

Um þetta er fjallað í hæfilegum smáatriðum á rúmlega 8 mínútum á jútjúb-síðu Brotkasts. Þessar 8 mínútur líða hratt, því fátt fangar betur en sönn saga sem hljómar eins og lygasaga því hún er fáránleg. 

Ég vil því vara þá við sem vilja boða að það þurfi að berja þennan tiltekna homma og þessa tilteknu lesbíu um að gera það ekki á þann hátt að það brjóti gegn höfundarétti þeirrar manneskju sem stakk fyrst upp á því voðaverki.

Hvort hin höfundaréttarvarða hvatning sé lögleg, siðleg og annað er auðvitað ekki til umræðu. Hvatningin kom jú frá manneskju sem allir vorkenna svo mikið fyrir skort á veruleikatengingu að hún er talin hafa rétt fyrir sér í hverju orði. En það er önnur saga.


Þessar þreytandi kosningar

Loftslagsskattar og óstöðug og dýr orka.

Efnahagslegt jafnræði (sósíalismi).

Verðbólga.

Þungt regluverk (báknið).

Hrörnandi innviðir.

Afnám kvennaklefans.

Skattlagning á hefðbundið og hollt mataræði.

Endalaus stríð við ímyndaða óvini.

Flutningur valds frá kjörnum þingum til yfirþjóðlegra stofnana.

Óstöðvandi flæði innflytjenda inn í sífellt daprara velferðarkerfi.

Allt eru þetta dæmi um áberandi stefnumál stjórnmálaflokka í dag. Nýir flokkar koma fram sem bjóða upp á valkosti við þetta. Uppnefnin fyrir slíka flokka eru mörg og þeim fer jafnvel fjölgandi. Þannig reyna unnendur núverandi fyrirkomulags að hræða kjósendur frá því að kjósa annað en ofannefnd stefnumál.

Kjósendur virðist ekki ætla að taka mark á stjórnmálamönnum og blaðamannafulltrúum þeirra hjá helstu fjölmiðlum. Þar með er ekki sagt að valkostirnir séu allir góðir, en það á sér stað mikil skautun í mörgum ríkjum í boði yfirvalda og erfitt að segja hvar hún endar. Með byltingum? Með friðsamlegum stefnubreytingum? Með því að taka kosningar úr sambandi með neyðarástandi af ýmsu tagi? Með því að reyna flækja pólitíska andstæðinga inn í upplogin sakamál? Með því að ráðast á málfrelsið? Allt að ofan?

Eitt er samt að verða augljóst: Þetta lýðræði er orðið þreytandi í hugum margra.


mbl.is Grefur undan meginstraumsflokkum í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pissufría hornið í sundlauginni

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, segir að Bretar muni ná markmiðum sínum varðandi kolefnishlutleysi þrátt fyrir að hans eigin loftslagsráðgjafi saki hann um óskhyggju í þeim efnum. Þetta viðhorf er ekkert einsdæmi. Um þetta viðhorf ríkir breið og mikil sátt á Vesturlöndum.

En hvað þýðir kolefnishlutleysi á Vesturlöndum í raun?

Jú, að bíllinn verði tekinn af venjulegu fólki.

Að orka verði bæði dýrari og óstöðugri en áður. Nú þegar eru sum svæði að upplifa slíkt ástand.

Að fólk þurfi í auknum mæli að velja á milli þess að borða eða hlýja sér.

Að allskyns orkufrekur varningur, sem ennþá er framleiddur á Vesturlöndum, verður dýrari. Er hérna stál mögulega mikilvægast alls varnings sem við þurfum á að halda í miklum mæli en fáum minna af.

Nú er heimurinn utan Vesturlanda auðvitað ekki að hugsa á þessum nótum. Indverjar og Kínverjar lofuðu í París á sínum tíma að ná hámarki útblásturs síns árið 2030, þ.e. að auka hann fram að því. Þeir búast við að eftir það verði þeir orðnir nógu ríkir til að fjárfesta í hagkvæmari og hreinni orkuframleiðslu, svo sem að skipta úr kolum yfir í jarðgas. Ríkari almenningur heimtar betri loftgæði og þetta gerist svo að segja af sjálfu sér.

Ég velti því fyrir mér hvað verður um háleit markmið um svokallað kolefnishlutleysi þegar Indverjar, Kínverjar, Brasilíumenn, stór Afríkuríki, Indónesía og fleiri hafa bætt gríðarlegu magni af koltvísýringi í andrúmsloftið og óperuhúsið í Sidney stendur ennþá upp úr sjónum. Stundum þurfa kjósendur ekki langan tíma til að fleygja lélegum hugmyndum stjórnmálamanna í ruslið, eins og dæmið um innflytjendastefnu danskra stjórnmálamanna er gott og nýlegt dæmi um (fyrir 20 árum voru hugmyndir um takmörkun innflytjenda kallaðar öfga-hægristefna en eru núna í áherslum flestra flokka og allra þeirra stóru).

En sjáum hvað setur. Eins og veirutímar sýndu er líka hægt að viðhalda blekkingu í gangi löngu eftir að hún er útrunnin.


mbl.is Markmið um kolefnishlutleysi engin óskhyggja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafeldsneyti án rafmagns

Orkusjóður styrkir verkefni Samherja sem felst í því að hanna lausn og breyta ísfisktogara félagsins þannig að skipið geti nýtt grænt rafeldsneyti um 100 milljónir króna. 

Gott og vel. Rafeldsneyti er ekki endilega galin hugmynd. Hugmyndin er góð ef:

  • Meira rafmagn er framleitt en þörf er á, þ.e. verðið sem fæst fyrir rafmagnið er orðið lægra en borgar sig til að framleiða það
  • Rafmagnið er framleitt þegar eftirspurnin er lítil, svo sem á nóttunni
  • Valkosturinn við rafeldsneytið er dýrari en rafeldsneytið

Ekkert af þessu á við um Ísland. Kannski Norður-Noreg eða Norður-Svíþjóð (þar sem dreifikerfin geta ekki komið rafmagni frá framleiðslustað til neytenda), en ekki Ísland. Á Íslandi hefur stærsti raforkuframleiðandinn sagt að nú þegar sé skortur á rafmagni á Íslandi og talað um að allar mögulegar hindranir séu lagðir í vegi fyrir því að framleiða meira.

Ríkt fyrirtæki getur auðvitað farið út í einhvers konar rándýra markaðsherferð með því að henda tveimur milljörðum (mínus framlag skattgreiðenda, sem fá ekkert í staðinn) í að breyta einu skipi svo það geti notað rafeldsneyti sem er ekki til, verður ekki til og ef það verður til: Verður svo dýrt að engin leið er að kaupa það. Nema auðvitað með því að vera ríkur.

Þessi orkuskipti eru dásamleg. Nema fyrir þá sem þurfa orku.


mbl.is Samherji hlaut 100 milljónir til orkuskipta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ber kennurum að sýna virðingu fyrir fjölbreytileika?

Í gegnum minn námsferil upplifði ég kennslustundir hjá mörgum mismunandi kennurum. Umsjónarkennari minn flest mín grunnskólaár var vingjarnleg kona komin yfir miðjan aldur sem fékk nánast stöðu ömmu í huga margra okkar í bekknum. Í menntaskóla voru margir kennarar með viðurnefni í daglegu tali nemenda sem lýstu svolítið nálgun kennaranna í kennslustofu. Var eitt viðurnefnið eftirnafn frægs fjöldamorðingja og einræðisherra. Annar - karlmaður - var kallaður frænka, enda var hann með eindæmum mjúkur í máli þegar hann benti á það sem betur mætti fara. Á mínu fyrsta menntaskólaári var þáverandi rektor á sínu seinasta starfsári. Hann var frægur fyrir margt, svo sem að þéra nemendur á meðan hann kallaði þá vitlausa.

Hvað um það.

Fjölbreytileikinn var alltaf mikill í nemendahópnum, sama hvort það var í grunnskóla, menntaskóla eða háskóla. Það spáðu svo sem fáir í það. Sumir nemendur voru augljóslega á leið út úr skápnum og það blasti við áður en það gerðist. Sumir hófu farsælan feril sem afbrotamenn. Flestir fundu sína fjöl, á einn eða annan hátt, eftir stundum brokkgenga æsku þar sem fólk lærir á líkama sinn og tilfinningar með tilraunastarfsemi og árekstrum á fyrirstöður lífsins en einnig opnanir á tækifærum.

Ekki varð ég var við að kennarar hafi tæklað þessar flækjur í líkama og sál nemenda sinna að öðru leyti en að reyna kenna, og sumir kennarar voru betri en aðrir til að ná til þeirra sem vildu ekki láta ná til sín. Eins og gengur og gerist auðvitað, líkt og í tilviki yfirmanna eða samstarfsfélaga í kringum mig í dag.

Hvað þýðir það þá að sýna virðingu fyrir fjölbreytileikanum? Jú, það að vera fagmaður. Sinna starfi sínu. Stærðfræðikennarinn kennir stærðfræði. Íslenskukennarinn kennir íslensku. Nemendur eru hans skjólstæðingar, rétt eins og viðskiptavinur í fiskbúð. Um leið er hægt að segja að slökkviliðsmaðurinn eigi að vera góður að slökkva eld, og að lögreglan eigi að vera góð í að upplýsa glæpi, og skipti þá skoðun þeirra á leðurgrímum og fjólubláu hári minna máli, a.m.k. á meðan þeir eru í vinnunni.

Kennari getur haft sínar skoðanir á einstaklingsbundnum einkennum einstaklings án þess að það bitni á frammistöðu hans í starfi. Að sjálfsögðu. Varla er ætlast til þess að allir hafi sömu skoðanir á öllu. Eiga slökkviliðsmenn að sýna virðingu fyrir fjölbreytileikanum? Á að rukka þá um skoðanir þeirra á fjölbreytileikanum? Eða eiga þeir að fá að einbeita sér að því að slökkva elda?

Hér að ofan eru mörg spurningamerki því ég er ekki alveg viss um það hvað það þýði að einhver starfsstétt þurfi að bera virðingu fyrir fjölbreytileikanum, sem er vel á minnst ekki opin yfirlýsing um kærleika heldur nákvæm tilvísun í ákveðna hugmyndafræði sem keyrð er áfram af slíku offorsi núna að hætt er við að fæstir viti í raun hvað er rétt skoðun í dag. Er það sú skoðun að kynlífsfræðsla eigi að fara fram á 7-10 ára börnum? Að hún eigi að fjalla um örvun á endaþarmi? Að börn megi setja á lyf til að stöðva kynþroska þeirra og þéttingu á beinvexti? Að ungar stelpur í búningsklefa sundlauga eigi að hætta á að vera viðstaddar fullvaxinn reður líkama með loðna bringu á einstakling sem skilgreinir sig sem konu, einhyrning eða eitthvað annað? Að rými kvenna séu skyndilega orðin að almannaeign? 

Ég er ekki viss um að nokkur kennari hafi spáð í því hvað hrærðist um í hausnum á mér eða samnemendum mínum fyrir utan námsefnið og leiðir til að koma því til skila. Var það ekki bara fínt á meðan þeir ræktu starf sitt eftir bestu getu, sem kennarar?


mbl.is Kennurum beri að sýna virðingu fyrir fjölbreytileika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umframdauðföll: Óvæntur hvalreki ríkisins

Við getum nú lesið í fréttum að milljarðarnir streyma óvænt inn í ríkissjóð í gegnum dauðaskattinn, þegar lík eru rænd á meðan þau eru að kólna án þess að erfingjar geti nokkuð að gert, stundum kallaður erfðafjárskattur. Við erum ekki að tala um einhverjar smáupphæðir:

Gert er ráð fyrir miklu meiri tekjum ríkisins af erfðafjárskatti á næsta ári en var áætlað í fjárlögum þessa árs. Upphæðin fer úr 8,8 milljörðum í 14,5 milljarða króna. Það segir þó ekki alla söguna því erfðafjárskatturinn sem hefur skilað sér í ríkissjóð í ár er langt umfram væntingar, hann verður líklega orðinn um 13,5 milljarðar áður en gamlársdagur rennur upp.

Menn hafa í sjálfu sér ekki aðrar skýringar en þær að fólk sé í auknum mæli að tæma sjóði sína í vasa erfingja með fyrirframgreiddum erfðagreiðslum, og þar lætur blaðamaður staðar numið, að sjálfsögðu.

En þeir eru fleiri sem upplifa ávinning af því að líkin hrannist upp - sannkallaðir hvalrekar sem næra þá sem að þeim koma. Útfararstofur og líkkistusmiðir hljóta að vera upplifa svipað góðæri enda deyr fólk nú meira en venjulega, svo nemur tugum prósenta, og þá gjarnan nokkrum mánuðum í kjölfar umfangsmikilla sprautuherferða ríkisvaldsins. 

Nú grisja menn oft skóga og ýmsar ríkisstjórnir grisja gjarnan í ákveðnum (og fjölgandi) þjóðfélagshópum. Grisjun leiðir til aukins svigrúm fyrir þá sem lifa hana af. Núna baðar ríkisvaldið sig í dauðasköttum og virðist alsælt. Mögulega eru biðlistar á hjúkrunarheimili fyrir aldraða líka að styttast samhliða vaxandi álagi á hjartadeildir spítalanna vegna ungmenna. Erfitt að segja, enda gegnsæið lítið, og það af ásetningi.

Ríkisvaldið á Íslandi telur að ástandið muni vara lengur og áætlar að enn meira muni skila sér af dauðasköttum á næsta ári en árinu sem er að líða, jafnvel þótt stofnanir sem fylgjast með umframdauðsföllum telji að þau séu nú komin í eðlilegt horf á ný. Það er auðvitað vitað að skattar á þá lifandi hafa ekki dugað hinu opinbera í langan tíma og að þeir dauðu þurfi því að leggja sitt af mörkum, svo sjáum hvað setur nú þegar fólk er hætt að láta plata sig í fleiri sprautur.


Þegar skólastjóri gerist ritstjóri

Skólastjóri nokkur á Íslandi hefur ákveðið að stíga skref í átt að stöðu ritstjóra þar sem sérstakar reglur eru látnar gilda um kennara skólans eftir því hvaða persónulegu skoðanir þeir viðra í frítíma sínum (ekki hefur komið fram að kennarar séu að endurtaka þær skoðanir í skólastofu, enda sé þá íslenskukennarinn ekki að fjalla um loftslagsvá eða stærðfræðikennari að tala um kynhneigð og örvun á endaþarmi).

Þetta er athyglisverð þróun. 

Þessi skólastjóri fylgist væntanlega vel með opinberri tjáningu starfsfólks síns og fer svo á skrifstofu sína og ákveður hvar nemendur þurfi að mæta til kennslu og hvar slíkt sé valfrjálst (almenn mætingaskylda í framhaldsskóla er að ég tel þvæla, en það er önnur saga).

Það er jafnvel líklegt að skólastjóri sé búinn að kortleggja hvar fólk stendur í stjórnmálum, hversu hrætt það er við svokallaða loftslagsvá, hvort það aki um á bensínbíl eða sé komið á einhvers konar rafmagnsbíl og svona mætti lengi telja.

Kennararnir auðvitað alsælir með þetta á meðan þeir eru með réttar skoðanir.

Og nemendur eru í kjölfarið upplýstir um það og þeim sagt hvar þeir þurfi að mæta og hvar þeir megi ráða því.

Ráðherra menntamála hlýtur að vera vakandi fyrir þessari þróun.

Kannski verður hið góða að mætingaskylda í framhaldsskólum verði afnumin með öllu svo hún sé ekki nothæf sem tæki skólastjóra til að þjarma að starfsfólki sínu í fjölmiðlum og drottningaviðtölum. Kannski heimta nemendur að fá að skrópa hjá öðrum kennurum en þeim sem heita Páll eða Helga. 

Spennandi tímar, vægast sagt.


mbl.is Þurfa ekki að mæta í tíma til Páls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningaprentunin hafði fyrirsjáanleg áhrif

Árið er 2020. Ríkissjóður er að sökkva sér í skuldir til að borga fyrirtækjum fyrir að hafa lokað, fólki fyrir að mæta ekki í vinnuna og lyfjafyrirtækjum fyrir að framleiða gagnslaust glundur. Ekki er innistæða fyrir þessari vegferð og ríkissjóðir þarf að taka lán. Stór og mikil lán.

Seðlabanki Íslands ákveður að hlaupa undir bagga:

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að peningaprentun af hálfu Seðlabanka Íslands muni hefjast að ráði á næsta ári. Ásgeir sagði að „það liggur fyrir að peningaprentunin hjá okkur [Seðlabanka Íslands] verður í að kaupa ríkisskuldabréf“. Þetta kom fram í ávarpi Ásgeirs á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem fór fram áðan með stafrænum hætti.

Þetta var vinsælt. Núna höfðu yfirvöld úr nægu að moða og þau eyddu eins og fullur unglingur með greiðslukort foreldra sinna. Það var hægt að borga fyrir allar skerðingarnar og halda úti stjórnarfari sem ég vil kalla nýfasisma, þar sem einstaklingurinn er til fyrir ríkið en ekki öfugt.

En hvað kemur þetta verðbólgu við? Jú, þegar magn peninga í umferð er aukið þá rýrnar kaupmáttur hverrar og einnar krónu því magn varnings og þjónustu er ekki að aukast í sama mæli. Þetta er auðvelt að skilja í smærra samhengi: Segjum að 100 manns búi á eyju og eigi samanlagt eina milljón krónur sem færist í sífellu á milli handa í viðskiptum og lántökum. Dag einn ákveður höfðinginn að auka magnið í milljarð króna. Eru þá allir orðnir ríkir? Nei, því þeir sem fái hið nýja fé fyrst í hendurnar byrja að bjóða hærra og hærra í það sem er til sölu og smátt og smátt hækkar verðlag á öllu. Ójafnt mögulega í byrjun, en að lokum á öllu.

Seðlabankastjóri skilur þetta auðvitað en hann ætlaði að fara fínt í þetta og stilla af peningaprentunina eftir þróun verðbólgunnar. Það mistókst auðvitað, bæði hjá honum og öðrum erlendum seðlabankastjórum sem gerðu það sama. Núna þarf að taka á afleiðingunum. Það er allt svo auðvelt þegar peningamagnið er að aukast, en það er um leið allt svo erfitt þegar því er neitað að halda áfram að aukast jafnhratt.

Ég veit ekki hvenær sá dagur kemur að skattgreiðendur uppgötva að þeir eru ekki bara rúnir inni að skinni með sköttum heldur líka í gegnum verðbólguna. Kannski fyrr en ég þorði að vona.


mbl.is Verðbólgan hafi verið vanmetin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband