Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2016

Sósíalismi í framkvæmd

Ríkir Vesturlandabúar eiga það til að lesa yfir sig um dásemdir ímyndaðra samfélagskerfa. Eitt slíkt kerfi er sósíalismi. 

Þessa tilhneigingu til að lesa yfir sig má kannski rekja aftur til efnaðra menntamanna í upphafi iðnbyltingarinnar. Þeir sátu á dýrustu kaffihúsunum á dýrustu stöðum dýrustu borganna og skrifuðu bækur um ágæti einhvers allt annars en gekk á í kringum þá.

Karl Marx bjó t.d. í lúxusíbúð í London á kostnað vinar síns og skrifaði um kommúnisma fyrir aðra en hann.

Hvað sem því líður er ljóst að sósíalismi gengur ekki upp um leið og við yfirgefum fjölskyldueininguna. Tilraunirnar til að láta hann ganga upp hafa verið óteljandi margar við allar hugsanlegar aðstæður. Afleiðingin er og verður alltaf sú sama: Gjaldþrot, fátækt og lífsbarátta sem jafnast á við slagsmál dýranna í frumskóginum um seinasta bananann.

Yfirvöld í Venesúela ættu kannski að velta því fyrir sér hvernig Þýskalandi tókst á örskömmum tíma að breytast úr húsarústum í eitt auðugasta ríki veraldar að lokinni seinni heimstyrjöld. Hver veit, kannski verður þá hægt að kaupa klósettpappír í landinu aftur!


mbl.is Vinnuvikan aðeins tveir dagar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

One size fits all

Sem Íslendingur í Danmörku sem þekki marga íslenska námsmenn í Danmörku get ég sagt þetta:

Námslán LÍN koma fólki að mörgu leyti ansi langt, en að öðru ekki. Íslendingar þurfa að heimsækja landið sitt a.m.k. einu sinni á ári og það er dýrt. Þeir virðast líka allir þurfa að reka bíl og það er dýrt í Danmörku. 

Yfirleitt eiga þeir börn en leikskólaplássin kosta þá ekkert.

Yfirleitt leigja þeir húsnæði en húsaleigubætur fyrir námsmenn eru rausnarlegar.

Þeir þurfa auðvitað að borða, kaupa klósettpappír og annað, eins og aðrir.

Einn Íslendingur sem ég þekki kláraði námið sitt í Danmörku og gat á íslenskum námslánum haft barn á leikskóla og konuna heimavinnandi, leigt hús og rekið bíl og skroppið til Íslands einu sinni á ári. Mikið lengra náðu námslánin samt ekki. Með 20% lækkun hefði hann sennilega þurfa að losa sig við bílinn. Verra var það samt ekki.

Hann fékk vinnu í Danmörku að loknu námi og sagði að hann fyndi lítinn mun á ráðstöfunartekjunum, enda hurfu flestu niðurgreiddu fríðindin eins og dögg fyrir sólu.

Ég geri mér grein fyrir að margir námsmenn erlendis berjast í bökkum. Líklega gildir þá hið sama um sænska námsmenn. 

Kannski menn fari að endurskoða hlutverk LÍN alveg í kjölfarið. Það væri eitthvað!


mbl.is Erlend lán LÍN 20% umfram þörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsi í leiðinni um reðurlengd sína

Íslendingar eru komnir með blóðbragð í munninn. 

Hverjar eru eignir Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands og eiginkonu hans Dorritar Moussaieff og hvernig eru þær geymdar? Hafa þau fjárfest í einhverju sem gæti leitt til þess að þjóðin líti svo á að hagsmunir þeirra stangist á við hagsmuni þjóðarinnar? Að þessu spyr Kári Stefánsson.

Við þennan spurningalista mætti bæta:

  • Hver er reðurlengd forseta?
  • Hvað hefur hann sængað hjá mörgum konum?
  • Hefur hann einhvern tímann neytt eiturlyfja sem voru ólögleg þegar þeirra var neytt?
  • Drakk hann áfengi fyrir tvítugt?
  • Hefur hann einhvern tímann drepið ánamaðk? Hve marga?

Nei, ég segi svona. Auðvitað á hann ekki að þurfa upplýsa um einkamál sín. 

Hafi forseti gerst brotlegur við lög á ákæruvaldið vitaskuld að sjá um að reka mál fyrir dómstólum til að skera úr um refsingu. 

Hafi hann hagsmuna að gæta sem gætu haft áhrif á embættisverk hans þykir mér sjálfsögð kurteisi við kjósendur að hann upplýsi um þá.

Hann ræður því hins vegar sjálfur hvaða fyrirkomulag hann hefur á eignum sínum og fé, eða eignum maka síns, svo verðmæti fari ekki í súginn (sé allt löglegt).

Íslendingum er ekki gerður neinn greiði með því að fara í nornabrennur. Auðmenn geta nú geymt fé sitt löglega erlendis og haft á því margvíslegt fyrirkomulag. Ef þeir verða neyddir til að fara í felur með fé sitt verður enginn betur settur. 

Er ekki betra að vita af milljarði erlendis sem gæti komið löglega til landsins í formi fjárfestingar en vita af milljarði sem fær líklega aldrei að líta dagsins ljós á löglegan hátt?

Er ekki gott að einhvers staðar séu til digrir sjóðir sem sinna ákveðinni þjónustu? 

Víða um heim er hægt að finna ríki sem hamast í auðmönnum þar til þeir flýja með fótunum. Eru slík ríki eftirsóttar fyrirmyndir?


mbl.is Ólafur geri grein fyrir eignum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bland í poka og glötuð tækifæri

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar hefur verið birt. Hún er bland í poka. Sumt er gott og annað ekki eða svo sýnist mér í fljótu bragði. Sumt leiðir til hærri byrði á herðar skattgreiðenda en annað síður.

Mér sýnist ríkisstjórnin ætla að missa af tækifæri til að vindan endanlega ofan af brunarústum seinustu ríkisstjórnar. Stjórnarandstaðan er áköf að fá kosningar sem fyrst á meðan skoðanakannanir eru henni hagstæðar og áður en almenningur gerir sér grein fyrir því að hagur hans hefur vænkast töluvert undanfarin misseri. Örfá en veigamikil mál hafa fengið alla athyglina, t.d. staða hins sovéska heilbrigðiskerfis og götóttar götur Reykjavíkur sem enginn kennir borgarstjórn um. 

Ákafa stjórnarandstöðunnar hefði mátt nýta til að keyra góð mál hratt í gegn og veifa á meðan kosningadagsetningu eins og gulrót fyrir framan nefið á henni. Mér sýnist menn ætli að fara í keppni í óþarfakurteisi og bjóða upp á dagsetningu fyrir kosningar áður en nokkur mál hafa hlotið brautargengi. Þessu má líkja við að bjóða lötum 12 ára strák að vinna sér inn vasapening með heimilisverkum en borga þá fyrirfram. Eftir stendur að verkin eru aldrei unnin en peningarnir eru horfnir. 

Nú finnst mér sjálfum ólíklegt að 60% kjósenda ætli sér að kjósa núverandi stjórnarandstöðuflokka. Það á eftir að koma í ljós. Ríkisstjórnin virðist samt að vera að spila frá sér öllum trompunum og vona að spilastokkurinn breytist þegar líður á leikinn.


mbl.is Málaskrá ríkisstjórnarinnar birt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En fyrir hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn standa?

Vil­hjálm­ur Bjarna­son þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir:

Það eru und­ar­leg ör­lög sem þess­ari þjóð eru búin. Það er sama á hvern veg kosið er, alltaf fá menn Fram­sókn­ar­flokk­inn upp úr hatt­in­um.

Mikið rétt. Ástæðan er einföld: Framsóknarflokkurinn er tilbúinn að girða niðrum sig fyrir hvern sem er. Hann getur tekið þátt í að hækka skatta og koma á sósíalísku samfélagi með aðstoð vinstriflokkanna en einnig að greiða fyrir skattalækkunum og moka skuldum ofan af herðum skattgreiðenda. Það eina sem hann biður um í staðinn er að hinu sovéska landbúnaðarkerfi sé haldið á floti.

Spurningin er miklu frekar hvað Sjálfstæðisflokkurinn vill standa fyrir. Ég held að það dyljist mörgum og er meðal annarra ástæða fyrir því að margir sem tortryggja ríkisvaldið hafa leitað á náðir Pírata í von um áheyrn.

Er hún liðin sú tíð þegar forystumaður Sjálfstæðisflokksins hélt ástríðufullar ræður um ágæti einkaframtaksins? Það mætti halda. Að vísu virðast þingmenn hans gera það sem þeir geta til að hægja á skattahækkunum hins opinbera og greiða aðeins inn á þjóðarsjóð Íslendinga (1300 milljarða króna skuldina), en þetta eru hænuskref. Hin svokallaða hægristefna flokksins (í verki) jafnast í besta falli á við hina dönsku sósíaldemókrata ef mönnum vantar samanburð við hin Norðurlöndin. Íslensk stjórnmál eru miklu, miklu vinstrisinnaðri en stjórnmál hinna Norðurlandanna að mínu mati.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn vill verða stór aftur þarf hann að gera töluverðar breytingar hjá sér, og hér koma uppástungur:

  • Hann á að leita innblásturs í því efni sem Samtök atvinnulífsins hafa verið að gefa frá sér undanfarna mánuði (og þá sérstaklega eftir að sérstakt efnahagssvið var stofnað þar á bæ).
  • Hann þarf að byrja kíkja til hinna Norðurlandanna eftir fyrirmyndum í t.d. mennta- og heilbrigðismálum í stað þess að keppast við að láta hið sovéska módel virka á Íslandi.
  • Hann þarf að gera upp við sig hvort ríkisvaldið þurfi virkilega að hafa innan sinna vébanda um 20% af vinnuafli landsins. Ekki er langt síðan að ríkisstarfsmenn sáu einir um að veita símaþjónustu á Íslandi. Má ekki gera enn fleiri starfsmenn hins opinbera að starfsmönnum einkafyrirtækja? 
  • Flokkurinn þarf að gera upp við sig hvar hann vill draga mörk ríkisrekstrar og einkaframtaks - hvar hann vill að ríkiseinokun ráði ríkjum og hvar einkaaðilar fá að keppa í verðum og gæðum. 

Sóknin á miðjuna hefur bara þær afleiðingar að fólk sér ekki mun á Sjöllum, Samfó og Framsókn. Hvers vegna að kjósa Sjálfstæðisflokkinn til að berjast fyrir málefnum vinstriflokkanna þegar vinstriflokkarnir geta gert það sjálfir?


mbl.is „Smáflokkur með mikilmennskubrjálæði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er vandamálið virkilega fjárskortur?

Íslendingar eru ung þjóð á evrópskan mælikvarða og eyða svipuðu hlutfalli af verðmætum sínum í heilbrigðisþjónustu og aðrar evrópskar þjóðir (en ættu raunar að eyða minna). 

Dreifbýlið kostar vissulega sitt en kostnaður vegna sjúkraflutninga og reksturs smærri heilbrigðisstofnana ætti varla að hlaupa upp í neinu nálægt heilu prósentustigi af landsframleiðslu Íslendinga.

Ég held að Íslendingar séu að mörgu leyti bara eilífðarsjúklingar og að það kosti sitt. Það er mín tilfinning að vandamál séu oft löguð með pillum í stað meðferða (t.d. sálfræðimeðferða), að endurhæfing sé í lágmarki og valdi miklum endurkomum, að þjónustu sé sinnt á dýran hátt frekar en ódýran (t.d. því að aðhlynningu aldraðra sé sinnt á dýrum sjúkrahúsrúmum frekar en ódýrari hjúkrunarheimilisrúmum).

Einnig er það mín tilfinning að dýrir læknar séu að sinna mörgu sem ódýrari hjúkrunarfræðingar gætu hæglega sinnt. Hjúkrunarfræðingar eru í 90% tilvika þeir sem ég mæti í mínar heimsóknir á dönskum heilsugæslum og geta leyst úr flestum vandamálum. 

Ég held því líka fram að þetta sé ekki hægt að laga í umhverfi ríkiseinokunar. Hvatinn til að prófa sig áfram, leita hagstæðustu lausna, gera tilraunir og þreifa sig áfram er einfaldlega varla til staðar. Að því leyti sem hann er til staðar er hann kæfður af regluverki, forskriftum frá ráðuneytinu og hreinlega af kerfinu sjálfu.

Þar með er ekki sagt að Íslendingar verði að gefa alveg ást sína á ríkiseinokun heilbrigðisþjónustu upp á bátinn (um leið og þeir bölva yfir því að mjólkin í næturopinni verslun 10-11 sé dýrari en mjólkin í Bónus og kalla það okur).

Íslendingar gætu byrjað á að forgangsraða í heilbrigðiskerfinu. Til dæmis mætti athuga hvað gerir það að verkum að augnlæknar og sjóntækjaverslanir geta starfað í blússandi samkeppnisumhverfi þar sem allt er rækilega skattlagt en um leið veitt afbragðsþjónustu og hvort ekki megi koma fleiri afkimum heilbrigðisþjónustunnar í sama umhverfi.

Eins mætti athuga sænska líkanið víðar, þ.e. að hið opinbera verðleggi einfaldlega sjúkdóma og heilsukvilla og bjóði einkaaðilum að keppa um að taka heilbrigðisþjónustuna að sér.

Norræna líkanið í heild sinni ætti almennt að skoðast sem valkostur við hið sovéska á Íslandi, þ.e. að stuðla að því að markaður heilbrigðisþjónustu verði í auknum mæli blanda af opinberum aðilum og einkafyrirtækjum. 

Ég held að vandamálið sé ekki fjárskortur í sjálfu sér heldur alveg gegndarlaus sóun á fé í ranga hluti.


mbl.is Öryggi sjúklinga ógnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar - Steingrímur J: 20:33

Tveir frægustu vinstrimenn Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson og Steingrímur J. Sigfússon, heygja nú baráttu þar sem sá síðarnefndi er með gott forskot: Hvor situr lengur í stól sínum?

Þetta benda Þrestir Þjóðmála á (með tilvísun í Pál Vilhjálmsson). 

Markatalan í dag er 20:33, Steingrími J. í hag.

En þá segir kannski einhver: Það er munur á því að einn maður hafi ákveðin völd á sinni hendi og að deila völdum með 62 öðrum einstaklingum.

Jú mikið rétt, en stjórnarskráin er nú nokkuð skýr hvað þetta varðar: Öll völd forseta eru falin ráðherra að undanskildu því eina veigamikla atriði að forseti þarf að undirrita lög til að þau öðlist gildi. Það hefur Ólafur Ragnar samviskusamlega gert í 20 ár með örfáum (þremur eða fjórum?) undantekningum. Meiri eru völdin nú ekki. Í eitt skipti var það til að greiða fyrir Baugsfyrirtækinu en í hinum til að forða íslenskum almenningi frá skuldaklafa án hans beina samþykkis. 

En hvað um það - Steingrímur J. er með forystuna. Sjáum hvað setur. 


mbl.is Fjölbreyttur ferill forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleira má nefna

Ég fagna því að Morten Lange tali sem rödd skynseminnar í umræðu um boð og bönn.

Hann bendir réttilega á að meiðsli má forðast á marga vegu. 

Til dæmis mætti útrýma alveg slysum vegna hjólreiða með því að banna hjólreiðar. Væri það ráð? Ef ekki þá er engu skárra að minnka hjólreiðar með því að skylda fólk til að vera með hjálm.

Íslendingar sem tala fyrir hjólreiðum nota stundum Danmörk sem fyrirmynd. Í Danmörku hjóla alls ekki allir með hjálm. Eru Danir ennþá fyrirmynd?

Það sem Morten Lange hefði mátt nefna en gerði ekki er að sá sem hjólar með hjálm líður eins og hann sé öruggari en án hjálmsins og á það þá til að hjóla hraðar eða óvarlegar. Höfuðslysin verða kannski vægari en gangandi vegfarendur verða fyrir barðinu á slíkri breytingu í háttarlagi.

Svipað á raunar við um bílbelti. Menn hafa reynt að réttlæta bílbeltaskyldu út frá öryggissjónarmiðum en það er því miður ekki einhlítt mál. Ökumenn í bílbeltum keyra einfaldlega óhræddari en þeir án bílbelta. Bílbelti eru vitaskuld góð hugmynd en ávinningurinn af notkun þeirra en ekki einhliða.

Svona mætti svo lengi telja. Er ég öruggari ef ég neyti bara löglegs varnings? Jú, jú á meðan ég drekk ekki hreinan vodka frá morgni til kvölds. Er ég óöruggari ef ég neyti ólöglegs neysluvarnings? Það fer eftir því hvort er skaðlegra - ein feit jóna á dag eða peli af vodka á dag. Þetta er afstætt og boð og bönn geta ekki tekið tillit til þess.

Jæja, þetta var smá útúrdúr.

Íslendingar, hjólið með eða án hjálms, og löggjafi - haltu þig fjarri!


mbl.is Ekki nota hræðsluáróður á hjólafólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæti verið verra

Það má hugsa sér margt verra en að Ólafur Ragnar Grímsson sitji áfram sem forseti. Mjög margt. 

Frambjóðendalistinn er orðinn langur (tekið héðan):

Andri Snær Magnason
Aralíus (Ari) Gestur Jósepsson
Ástþór Magnússon
Benedikt Kristján Mewes
Bæring Ólafsson
Elísabet Jökulsdóttir
Guðmundur Franklín Jónsson
Guðrún Margrét Pálsdóttir
Halla Tómasdóttir
Heimir Örn Hólmarsson
Hildur Þórðardóttir
Hrannar Pétursson
Magnús Ingi Magnússon
Ólafur Ragnar Grímsson
Sturla Jónsson
Vigfús Bjarni Albertsson

Eflaust er hægt að finna margt gott fólk á þessum lista en sumir frambjóðenda eru - afsakið - bara að bjóða sig fram til að auglýsa önnur verk sín eða fyrirtæki eða hreinlega til að fá athygli.

Ég mun sennilega ekki lýsa opinberlega yfir stuðningi við neinn og ólíklega kjósa en ég get ómögulega sagt að ég sé mótfallinn ákvörðun Ólafs.

Að gamni mætti svo kannski leggja til, ef Ólafur verður endurkjörinn, að byrja að kalla hann Ólaf konung og taka upp færeyskan sið - Ólafsvaka (Ólavsvøka) - sem snýst í stuttu máli um að drekka frá morgni til kvölds og syngja miðaldarkvæði í kór. 


mbl.is Ólafur aftur í forsetaframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers að kjósa þegar skoðanakannanir stjórna öllu?

Nei ég segi svona. 


mbl.is Rúmur þriðjungur vill kosningar strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband