Bloggfærslur mánaðarins, september 2016

Bananaverð reiknað rangt

Svo virðist sem ótakmörkuð geta til að safna að sér gögnum sé ekki nóg til að hægt sé að reikna út bananaverð á Íslandi. Sérstakir fulltrúar yfirvalda hafa vissulega og samviskusamlega þrætt allar verslanir og skráð hjá sér bananaverðið en gögnin hafi engu að síður ekki dugað til. Ýmsar reiknikúnstir hafi ekki tekið á öllum þáttum.

Sömu fulltrúar hafa vissulega ætlað sér að reikna út áhrif peningaprentunar á áhrif alls annars en hafi ekki átt erindi sem erfiði.

En gott og vel, höldum áfram að treysta einum aðila, Seðlabanka Íslands, og skjólstæðingum hans, viðskiptabönkunum, til að stilla af kaupmátt heils gjaldmiðils með notkun tölfræði. Og leyfum sama seðlabanka að vera í einokunarstöðu í framleiðslu peninga. 

Þetta getur bara endað illa. 


mbl.is Mistökin „óheppileg“ að mati SÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta skref: Leigumatvæli

"Reist verða allt að 2.300 svokölluð Leiguheimili á næstu fjórum árum í nýju almennu íbúðakerfi sem nú er verið að taka upp hér á landi og byggir á danskri fyrirmynd."

Þeir mega eiga það Íslendingar að þeir eru duglegir að apa upp vitleysuna á öðrum Norðurlöndum en láta það sem vel er gert á þeim alveg eiga sig. Eða sér einhver fyrir sér að lögum um sölu áfengis verði breytt "að danskri fyrirmynd" á Íslandi? Eða að hámarkshraði á þjóðvegum verði hækkaður upp í 110 km/klst "að danskri fyrirmynd"? Nei, ætli það.

Ríkisvaldið ætlar í stuttu máli að ausa fé skattgreiðenda í fasteignamarkaðinn. Sveitarfélögin, sem væri nær að úthluta lóðum, og ríkinu, sem ætti að sjá sóma sinn í að rýmka byggingarreglugerðir svo það borgi sig að byggja ódýrt húsnæði, vinna hér saman. Hið opinbera flækist fyrir einkafyrirtækjum sem vilja byggja og einstaklingum sem vilja kaupa. Gott og vel, það er ekkert nýtt. En nú á að endurvekja gamlan draug í íslensku samfélagi: Félagslegt húsnæði, þar sem eina skilyrðið fyrir búsetu er að passa að tekjurnar hækki ekki of mikið. Því annars skerðast húsaleigubæturnar og leigusamningnum er sagt upp, sjáið til.

Það er hættulegt að hafa eyðsluklær í ríkisstjórn þegar vel árar hjá ríkissjóði því þá er auðveldara að greiða - með fé skattgreiðenda - leiðina að svolitlum sósíalisma hér og þar sem breiðir úr sér eins og krabbamein. 


mbl.is Bylting fyrir fólk undir meðaltekjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fiskeldi sem byggðastefna

Svo virðist sem fiskeldi sé aftur komið í tísku. Nú vilja öll þorp með aðgang að sjó sjá risastór fiskeldisker fyrir utan hafnir sínar og trúa því að þeim muni fylgja mikill auður.

Stjórnmálamenn og hið opinbera taka þátt í kapphlaupinu og veita eldisleyfi á veikum grundvelli. Á meðan Landsvirkjun þarf að eyða mörgum árum í að fá leyfi fyrir hverju einasta mastri virðist vera auðvelt að fá að fleygja þúsundum tonna af lifandi fiskum út í sjó - fiskum sem framleiða úrgang og sleppa út í náttúruna. 

Þeir sem eiga hagsmuna að gæta af stangveiði eru varla virtir viðlits. Þeirra aðvörunarorð eru að engu höfð. Nú skal fiskeldi komið á!

Svona viðhorf hins opinbera er ekki nýtt á nálinni. Þegar iðnbyltingin var að hefjast á Bretlandi á sínum tíma risu strompar sem spúðu kolaryki yfir nærliggjandi svæði, hús og dýr. Bændur reyndu að mótmæla og draga þá sem menguðu fyrir dómstóla og krefja þá um miskabætur fyrir skemmdarverk á eignum sínum. Þetta þótti stjórnmálamönnunum vera ómögulegt ástand. Iðnaður var jú það sem koma skal og of strangar kröfur á mengun yrðu hamlandi fyrir hann. Í stað þess að finna gott jafnvægi á milli mengunar og skaðabóta var ákveðið að mengandi iðnaður væri samfélagsleg nauðsyn. Mengunin varð því gríðarleg og fór algjörlega úr böndunum á sumum svæðum.

(Stjórnmálamenn sáu svo að sér seinna og komu á lögum sem áttu að takmarka mengun. Þeim datt ekki í hug að gefa bara landeigendum aftur lagatæki til að sækja til saka þá sem eyðilögðu eignir þeirra.)

Sagan endurtekur sig þótt hún taki vissulega á sig mismunandi myndir. Nú skal mengandi fiskeldi leyft. Þeir sem reyna að gæta eigna sinna og hagsmuna eru hunsaðir. Þegar allt er komið í klessu verða sett lög sem eiga að lágmarka skaðann af fiskeldinu. Þá verður það of seint. 


mbl.is Nýjar frekar en rótgrónar stofnanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækkun í staðinn fyrir ekkert

Þeir sem vilja að hið opinbera sjái um fjármögnun á hinu og þessu eru um leið að boða háa skatta. Krafan er svo að sjálfsögðu sú að skattarnir dugi til að fjármagna hitt og þetta.

Síðan kemur í ljós að skattarnir duga ekki til. Þá kemur hið opinbera á greiðsluþátttöku umfram skattheimtuna. Í stað þess að losna við gíróseðlana eftir að skattheimtumaðurinn er farinn fá skattgreiðendur bæði skattheimtuna og greiðsluþátttökuna.

Síðan kemur í ljós að greiðsluþátttakan dugir ekki til. Þá eru skattar hækkaðir eða greiðsluþátttakan en yfirleitt hvoru tveggja.

Nú sitja skattgreiðendur uppi með háa skatta og háa greiðsluþátttöku og geta ekkert gert því hið opinbera situr þungt á verkefninu og neitar að sleppa. 

Miklu hreinlegra væri að lækka skattana og gera greiðsluþátttökuna að einu fjármögnuninni. Það veitir ákveðið aðhald. Markaðurinn opnast skyndilega. Fyrirtæki eru í sífellu að skipta um mötuneytisþjónustu og leika sér að því að láta einkaaðila bítast um viðskipti þeirra. Skólabörn hafa ekkert slíkt val enda látin eiga við einokunarfyrirtæki. Kannski væri ráð að breyta því í stað þess að horfa upp á bæði skattana og greiðsluþátttökuna aukast og aukast. 


mbl.is Fæðisgjald hækkar um 31%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framboðslistar og frjálshyggja

Nú eru listar flokkanna óðum að líta dagsins ljós. Ég ætla að renna stuttlega yfir nokkra þeirra til að sjá hvar atkvæði frjálshyggjumannsins er best borgið. Ég læt duga að fjalla um Sjálfstæðisflokk, Pírata og Viðreisn enda engin von til þess að frjálshyggjumenn finnist í öðrum flokkum. Ég held mig við topp 7 á listunum. 

Þessi upptalning gæti breyst ef ég fæ nýjar upplýsingar.

Reykjavík suður

Sjálfstæðisflokkur

Hér er að finna eftirfarandi frjálshyggjumenn: Sigríði Andersen og Hildi Sverrisdóttur og Katrínu Atladóttur. Katrín, sem er vinkona mín, er hér að spreyta sig í pólitík í fyrsta skipti og ég vil eindregið hvetja alla til að fylgjast með henni á næstu vikum. Hún er með hjartað á réttum stað og öflug í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur.

Píratar

Hér er bara einn einstaklingur sem gæti flokkast sem frjálshyggjumaður, Hákon Helgi Leifsson. Þessi gamli skólabróðir minn úr grunnskóla er sífellt að spá í hlutunum og spyrja gagnrýninna spurninga. Ég held að Alþingi hefði gott af því að fá hann. Gallinn er að kjósa þarf 6 ekki-frjálshyggjumenn inn á þing áður en hann kemst að.

Viðreisn

Hér er bara einn frjálshyggjumaður að því er best ég veit - Pawel Bartoszek stærðfræðingur og skólabróðir minn úr MR. Allir þekkja Pawel og hvernig hann dregur fram eitrið í ríkisafskiptunum. Hann vill að vísu að Ísland gangi í ESB en sem betur fer eru engar líkur á að það gangi eftir og hann ætti því að geta einbeitt sér að frjálshyggju sinni. Vonandi.

Reykjavík norður

Sjálfstæðisflokkur

Hér eru tveir frjálshyggjumenn meðal efstu sætanna - Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Jón Ragnar Ríkharðsson. Það yrði fengur fyrir Alþingi að fá Áslaugu á þing. Einhvern veginn nær hún að hrífa mann með sér. Jón Ragnar er nýr á opinberum vettvangi stjórnmálanna en ég held að frjálshyggjan hans sé í góðu lagi.

Píratar

Hér er ekki að finna einn einasta frjálshyggjumann. Listinn er jafnvel baneitraður fyrir frjálshyggjumanninn. 

Viðreisn

Hér er ekki að finna einn einasta frjálshyggjumann. Raunar ætti fyrsti maður á listanum miklu frekar heima í Framsóknarflokknum eða Samfylkingunni. 

Suðurkjördæmi

Sjálfstæðisflokkur

Hér er ekki að finna einn einasta frjálshyggjumann. Fyrsti maður, Páll Magnússon, gæti þó hrist upp í hlutunum enda maður sem hefur engu að tapa og hefur sannað að hann þorir að leggja allt undir.

Píratar

Hér er ekki að finna einn einasta frjálshyggjumann. Listinn er jafnvel baneitraður fyrir frjálshyggjumanninn.

Viðreisn

Hér er ekki að finna einn einasta frjálshyggjumann.

Suðvesturkjördæmi

Sjálfstæðisflokkur

Ég get ekki séð að endanlegur listi sé tilbúinn ennþá en ef marka má niðurstöður prófkjörsins (sem er varhugavert, enda niðurstöður lýðræðislegra prófkjöra óvinsælar um þessar mundir) þá er þarna að finna Óla Björn Kárason sem er næg ástæða í sjálfu sér til að hugleiða flokkinn í þessu kjördæmi. Óli Björn er öflugur stjórnmálamaður sem hefur alltaf átt góða spretti þegar hann hefur komið á þing sem varaþingmaður, nú fyrir utan öll hans góðu framlög til þjóðmálaumræðunnar í gegnum ræðu og rit.

Píratar

Hér er bara einn maður sem gæti komist nálægt því að kallast frjálshyggjumaður - efsti maður á lista, Jón Þór Ólafsson. Hann á ekki eftir að berjast fyrir einkavæðingu og skattalækkunum en hann á eftir að berjast fyrir gegnsæi og opinni stjórnsýslu. 

Viðreisn

Hér er ekki að finna einn einasta frjálshyggjumann í efstu sjö sætunum. Maðurinn í áttunda sæti, Tómas Möller, gæti kannski flokkast sem slíkur. Kannski. 

Tíminn hleypur nú frá mér svo ég næ ekki að fjalla um önnur kjördæmi en ég er opinn fyrir athugasemdum og hugleiðingum um þessar vangaveltur mínar. 


Velferðarkerfið og innflytjendur

Þeir sem vilja ekki fleiri innflytjendur til Íslands heldur vilja að velferðarkerfið sé notað til að styðja við þá sem þurfa á aðstoð að halda og eru nú þegar búsettir á Íslandi eru sjálfir sér samkvæmir.

Þeir sem vilja fleiri innflytendur - í raun alla sem vilja flytja til Íslands og taka upp löglega hætti - en eru á móti því að ríkisvaldið sjái um að borga uppihald undir þá og aðra með fé skattgreiðenda eru sjálfir sér samkvæmir.

Þeir sem vilja bæði fleiri innflytendur og vilja að velferðarkerfið taki þá að sér - þeir þurfa að hugsa sinn gang. Þeir halda að til að baka köku sé nóg að borða köku. Það gengur ekki upp. 

Það er fullkomlega óboðlegt að skattgreiðendur séu látnir standa undir uppihaldi stórra hópa af fólki sem getur ekki séð fyrir sér sjálft og er jafnvel meinað að sjá um sig sjálft. Norðurlöndin kljást við stóra hópa fólks sem er jafnvel af 3. kynslóð innflytjenda eða meira og virðist ekki geta sér neina björg veitt. Forfeður þeirra fengu leyfi til að setjast að og fara á spena velferðar og var markvisst haldið utan við atvinnumarkaðinn til að varðveita há laun innfæddra. Ekki flykktust börn þeirra í skóla og á atvinnumarkaðinn né barnabörn. 

Ég tilheyri þeim hópi sem vill ekki siga lögreglunni á þá sem flytjast á milli landa til að hefja nýtt líf en um leið er ég andstæðingur ríkisrekins velferðarkerfis sem tekur fé úr vösum skattgreiðenda og deilir út eftir pólitískum vindum. Sjálfur er ég innflytjandi í Danmörku og mér var á sínum tíma sagt að gjöra svo vel að halda mér sjálfum uppi ella flytja aftur til Íslands (og á þeim tíma talaði ég ekki dönsku vel á minnst, og fyrsta starf mitt í Danmörku var ósköp venjuleg hreingerningarvinna sem krafðist ekki verkfræðigráðu minnar né þekkingar minnar á dönskum bjór).

Mér fannst það ekki ósanngjörn krafa, hvorki á mig né aðra. 


mbl.is „Skammastu þín!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar um skilvirkni

Í dag birtist grein eftir mig í Viðskiptablaðinu og er fyrsta greinin af vonandi mörgum um nokkuð sem er mér mjög hugleikið - skilvirkni.

Hugleidingar um skilvirkni - I

Þetta er fyrsta blaðagrein mín sem snýst ekki að neinu leyti um pólitík eða samfélagsmálefni Vonandi verður hún einhverjum til gagns og jafnvel gamans. 

Bókin mín um skilvirkni er til sölu á heimasíðu Amazon


Heimanám, já eða nei?

Einhver umræða á sér nú stað á Íslandi um ágæti heimanáms. Menn virðast strax vera komnir í tvær skotgrafir sem er miður.

Sjálfur ólst ég upp við heimanám og stundum svolítið mikið af því, bæði í grunnskóla og menntaskóla (háskólinn er eiginlega bara eitt stórt heimanám). 

Það gerði mér gott að þurfa fylgjast með því sem var sett fyrir og taka vinnu heim sem var unnin á mína ábyrgð og ég þurfti að standa skil á í skólanum. Þessa æfingu fékk ég í grunnskóla og hún nýttist mér mjög vel í áframhaldandi námi. 

Stundum þurfti ég að biðja um aðstoð heima og þannig ómeðvitað upplýsti ég foreldra mína (aðallega mömmu) um stöðu mála og hvað ég væri að eiga við í skólanum.

Á þessum tíma var hins vegar engin geymsla sem tók við mér eftir frekar stutta skóladaga. Ég fékk mikið svigrúm en  ábyrgðin var líka meiri. Ég var lengi vel í tvísetnum grunnskóla svo ég þurfti stundum að vakna snemma og stundum ekki en það kenndi mér líka bara að taka ábyrgð á því sjálfur - fylgjast með stundatöflunni og haga aðstæðum eftir því. 

Þetta eru kostir heimanáms. 

Í dag er krökkum haldið í skóla í 7-8 klst á dag. Minn 12 ára skólastrákur hérna í Danmörku er í skólanum frá kl. 8 til 15 flesta daga. Þetta eru langir dagar. Hann þarf lítið að spá í því hvenær hann eigi að vakna - við förum öll á fætur á sama tíma hér og komum okkur út. Hann tekur sjaldan svo mikið sem eitt blað með heim því ekkert er heimanámið. Komi það hins vegar upp að hann þurfi að gera eitthvað heima þá er það hið mesta áfall fyrir hann. Heimatími er frítími í hans höfði og undantekningar eru varla leyfðar í hans höfði. 

Ég veit voðalega lítið hvað hann er að eiga við í skólanum. Seinasta haust kom upp úr dúrnum að honum hefði hrakað mjög mikið í stærðfræði eftir heimanámslausan veturinn á undan. Þá varð ég að gera átak hérna heima og kynna heimatilbúið heimanám til leiks. Staðan er ekkert sérstök í mörgum fögum en ég fæ ekki kennarana til að hjálpa mér. Þeir eru bundnir við verkefni og stundatöflu frá morgni til síðdegis og hafa engan tíma til að gera eitthvað auka. 

Strákurinn veit sjaldnast hvenær hann er með heimanám. Hann fylgist ekkert með því. Komi heimanám fáum við hérna heima skilaboð um það. Ég veit ekki hvort næsti vetur verði öðruvísi (þegar hann fer í elstu deildina) en mig grunar að svo verði ekki. Danir vilja klára alla vinnu á skrifstofutíma og allt nám í skólatíma, gjarnan með aðstoð kennara sem gefur upp svörin ef maður réttir um hendi.

Þetta eru ókostir við fjarveru heimanáms eins og ég sé það.

Lengri skóladagar gera skólana í raun að einum stórum leikskóla þar sem er skipulögð dagskrá fyrir krakkana og eftir að skóla lýkur er ekkert á könnu þeirra sem tengist náminu. Það er ekki hægt að verja börn svona endalaust fyrir ábyrgð. Ef ekkert er frelsið er ekki hægt að ætlast til þess að fólk taki ábyrgð.

Persónulega finnst mér því að allir skólakrakkar eigi að fá heimanám en að það þurfi um leið að vera mátulega erfitt og mátulega tímafrekt og ekki endilega daglegt brauð. Það er mikið uppeldisgildi í heimanámi en mér finnst líka að krakkar eigi sem fyrst að læra að stundum þarf bara að leggja svolítið á sig til að öðlast skilning, án aðstoðar kennara. Sé þeirri lexíu frestað verður áfallið bara mun meira seinna þegar út í lífið er komið og enginn sér að maður rétti upp hendi. 


Stuðningur eða söluræða?

Össur Skarphéðinsson bendir á að íslenska ríkið hafi framselt töluvert af fullveldi Íslands til yfirþjóðlegra stofnana og telur jafnvel að allt þetta framsal jaðri nú við brot á stjórnarskránni.

Maður spyr sig: Er hann að verja stjórnarskránna og fullveldi Íslands eða að tala fyrir breytingum á stjórnarskránni sem auðvelda frekara framsal af fullveldi Íslands?

Ég ætla að leyfa mér að vona að hið fyrrnefnda eigi við og að hann sé að tala fyrir því að Íslendingar hætti frekara framsali.

Sérstaklega má hafa varann á þegar kemur að fjármálaeftirliti. Blautur draumur Evrópusambandsins er að verða að sambandsríki þar sem fullveldi einstakra aðildarríkja verður meira að nafninu til. Að sópa til sín umsjón og eftirliti með bankastarfsemi er góð leið til þess. Karl Marx talaði um að eitt skrefið til að koma á kommúnisma væri "[c]entralisation of credit in the hands of the state, by means of a national bank with State capital and an exclusive monopoly."

Evrópusambandið fylgir uppskrift hans hvað þetta varðar og fleira.

Íslendingar geta alveg verið fullgildir meðlimir í því stjórnleysi sem heimur án yfirheimsvalds er. Ég vona að Össur sé að tala fyrir því en ekki hinu að Íslendingar eigi að henda fullveldi sínu í hendur andlitslausra stofnana. 


mbl.is Stenst ekki stjórnarskrána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerist næst?

Á Íslandi og víðar eru sterk hagsmunaöfl að reyna að koma í veg fyrir að fólk deili svokölluðu höfundarvörðu efni gjaldfrjálst á netinu og að aðrir sæki sér það.

Þessu má líkja við að menn reyni að koma í veg fyrir að vatn renni í gegnum sigti með því að stoppa í götin, eitt í einu. Á meðan eitthvað gat er opið mun vatnið komast í gegn.

Þetta er varhugaverð þróun. Það er eitt að til séu lög sem verja höfundarrétt og að menn brjóti þau lög. Ég get alveg sýnt því skilning að menn reyni hér að framfylgja lögunum. Sumir telja að slík lögbrot dragi úr tekjum listamanna og höfunda að höfundarvörðu efni og skal ég jafnvel samþykkja það hér, röksemdarfærslunnar vegna, þótt ég sé ekki sannfærður.

Hættan er hins vegar sú að þegar yfirvöld eru fyrst byrjuð að leggja hindranir á netumferð, sía út ákveðnar síður og þvinga fyrirtæki til að loka ákveðnum síðum þá sé engin leið að segja til um það hvar slík ritskoðun staðnæmist. 

Til að vita hverju á að loka eða hvað á að sía út eða hverja á að sækja til saka fyrir lögbrot þarf að vita hvaða síður fólk er að heimsækja. Þetta er eftirlit sem yfirvöld hafa með höndum. Sá sem vill fylgjast með hvort maður borði epli eða banana fylgist um leið með því við hverja hann talar, hvað hann er lengi á klósettinu og hvaða bílum hann keyrir, svo dæmi séu tekin. Yfirvöld eru hér að troða sér inn á netið til að fylgjast með borgurunum. 

Í dag berjast yfirvöld gegn barnaklámi, ólöglegu niðurhali og hryðjuverkasamtökum á netinu. Stundum þarf að loka síðum og það er þá rækilega rökstutt með tilvísun í lögin og almennt siðferði í samfélaginu. Á morgun getur tíðarandinn hins vegar breyst og hvað verður þá talið óæskilegt? Heimasíður eins og sú sem þessi orð eru skrifuð á? Málefnaleg barátta gegn hinu sívaxandi ríkisvaldi? Stuðningsyfirlýsingar við ákveðna stjórnmálamenn? Þeir sem vilja giska á það hvert opinbert eftirlit færir út anga sína geta ekki staðnæmst við neitt í raun.

Síður eins og Deildu.net munu alltaf finna farveg á meðan einhver netumferð er leyfð. Í stað þess að beita afli væri e.t.v. ráð að auðvelda löglegum veituaðilum lífið, t.d. með því að afnema skyldu á textun efnis og afnema alla skatta af rekstri fyrirtækja. Ég held að Netflix, Apple og Spotify hafi gert meira fyrir baráttuna gegn ólöglegri deilingu efnis en öll stjórnvöld lögð til samans.


mbl.is Engar aðrar leiðir en DNS-fölsun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband