Bloggfærslur mánaðarins, október 2017
Þriðjudagur, 31. október 2017
Óttarr út, Sigmundur inn
Kaldhæðni örlaganna getur verið mikil.
Óttarr Proppé og allur hans þingflokkur er fokinn út af þingi. Flokkurinn var fljótfær og missti kjarkinn þegar skoðanakannanir voru óhagstæðar og fann tylliástæðu til að stökkva út og vonaði að atkvæðin skiluðu sér aftur. Hið gagnstæða gerðist.
Inn á þing er kominn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er kominn á þing með heilan þingflokk undir sinni stjórn.
Maðurinn í Panama-skjölunum kom inn. Pönkarinn með hreina hjartað fauk út.
Óttarr er í augum kjósenda maður sem hleypur frá ábyrgð.
Sigmundur er talinn vera maður sem stendur við stóru orðin.
Björt framtíð er nú afmáð af yfirborði jarðar og getur ekki haft áhrif á nein mál á þingi.
Miðflokkurinn er kominn í oddaaðstöðu og getur gert miklar kröfur ef þörf er á þingmannafjölda hans.
Ég er að mörgu leyti hrifnari af Óttarri sem stjórnmálamanni en Sigmundi. Það blasir hins vegar við af hverju einn er á leið á biðlaun og hinn á leið á þingmannalaun.
Óttarr hættir sem formaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 31. október 2017
Allir fjölmiðlar eru litaðir af fólki
Fréttir eru ekki eitthvað sem sveimar um í loftinu og bíður þess að vera gripið og sett á blað eða lesið upp. Nei, fréttir eru skoðanir ákveðinna einstaklinga á því hvað sé þess virði að eyða tíma í að kynna sér, fjalla um og koma áleiðis og hvort einhver hafi áhuga á að heyra um málið.
Tökum dæmi: Einhver rifa opnast á íslensku hrauni og út úr henni vellur hraun. Í íslenskum fjölmiðlum birtist lítil frétt á forsíðu dagblaðs, eða á síðu 2, sem varar ferðalanga við að koma ekki of nálægt. Hins vegar bregðast ferðaskrifstofur öðruvísi við. Það er eldgos á Íslandi! Kaupið þjónustu okkar og fáið far á svæðið! Sjaldséður viðburður! Náttúruhamfarir! STÓRAR FYRIRSAGNIR!
Fréttir eru alltaf litaðar af fréttamönnum. Þannig er það bara.
En eru þá ekki til hlutlausir fréttamenn? Nei, þeir eru ekki til.
Hins vegar eru til sanngjarnir fréttamenn sem reyna að taka yfirvegaða afstöðu til umfjöllunarefnisins, sýna allar hliðar og keppast við að upplýsa frekar en dæma.
Meira að segja sanngjarnir fréttamenn geta samt ekki tekið persónuleika sinn eða skoðanir alveg út fyrir sviga. Sanngjarn fréttamaður leitar oft til álitsgjafa sem hann hefur mikið álit á en jafnvel þótt hann reyni að vera hlutlaus mun val hans á álitsgjöfum endurspeglast af skoðunum viðkomandi fréttamanns til hinna ýmsu manna og málefna.
Það sem heldur fréttamönnum á tánum er sala á vinnu þeirra. Lélegur fréttamaður sem er greinilega að halda á lofti ákveðnum skoðunum í gegnum fréttaflutning sinn á það á hættu að missa vinnunna eða fækka starfsmöguleikum sínum. Fólk hættir að lesa fréttir hans, tekjur atvinnurekanda hans dragast saman og honum er sagt upp.
Þetta markaðsaðhald er ekki til staðar hjá ríkisfjölmiðlum sem skattgreiðendur eru neyddir, með valdi, til að fjármagna.
RÚV ber að leggja niður. Það er eina leiðin til að tryggja sanngjarnari fréttaflutning.
Ólík afstaða kjósenda til RÚV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 30. október 2017
Tveir úlfar og sauðkind ræða matseðil dagsins
Lýðræði er ágætt. Það tryggir átakalaus skipti á valdhöfum. Almenningur getur losað sig við lélega landshöfðingja, forseta, forsætisráðherra, þingmenn og valdhafa almennt án þess að taka upp byssur eða sveðjur. Það er gott.
Lýðræði er samt ekki gallalaust. Því hefur verið líkt við viðræður tveggja úlfa og sauðkindar um hvað eigi að vera á matseðli dagsins. Með lýðræðislegri kosningu er sauðkindin valin í aðalrétt og er slátrað.
Það má ekki vanmeta ókosti lýðræðisins um leið og lýðræðinu sem slíku er ekki bölvað. Okkur er tamt að líta á ríkisvaldið sem hinn stóra bjargvætt sem veitir menntun og heilbrigðisþjónustu, leggur vegi, leysir úr ágreiningsmálum og kemur glæpamönnum í steininn. Ríkisvaldinu er gefið mikil völd til að framkvæma verkefni sem flestir (en ekki allir) eru sammála um að það eigi að hafa umsjón með. Um leið eru þau völd notuð í allskonar annað líka.
Víða í rótgrónum lýðræðisríkjum eru nú fleiri sem þiggja meira frá ríkisvaldinu en þeir framleiða af verðmætum sem ríkisvaldið hirðir. Þeir eru nettó-þiggjendur. Þeir kjósa því eðlilega til starfa stjórnmálamenn sem standa vörð um hlaðborðið sem ákveðnir kjósendur geta gengið að. Margir stjórnmálamenn leggja t.d. mikið upp úr því að hafa sem flesta á bótum eða við störf hjá hinu opinbera. Fólk sem er á þann hátt fjárhagslega upp á ríkisvaldið komið kýs stjórnmálamenn sem lofa því að skrúfað verði meira frá krananum.
Það er t.d. af þessari ástæðu að margir vinstrimenn í Evrópu vilja lækka kosningaaldurinn og koma þannig óbjargálna nemendum í kjörklefann.
Stjórnmálamenn sem treysta á nettó-þiggjendur fyrir atkvæði vilja ekki einfalt skattkerfi, magurt bótakerfi og mikið einkaframtak. Nei, þeir vilja að allir borgi himinháa skatta, en hafi um leið rétt á mikið af bótum, jafnvel þótt fínir útreikningar sýni að það fáist ekki meira í ríkishirslurnar með slíkum kúnstum né meira í vasa þeirra eigin kjósenda. Þeir tala um að vilja nota skattkerfið til að auka jöfnuð en vita alveg að of mikill jöfnuður er engu samfélagi hollt (það kemur t.d. í veg fyrir félagslegan hreyfanleika úr lægri tekjuþrepum í hærri vegna mikilla jaðaráhrifa ýmissa skattþrepa og bótagreiðslna). Raunverulegur ásetningur er að halda fólki föstu í neti hárra skatta og hárra bóta og tryggja þannig hollustu kjósenda sinna.
Núna hafa Íslendingar kosið og mér sýnist úlfarnir vera í örlitlum meirihluta, en sjáum hvað setur.
Tveir valkostir fyrir forsetann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 28. október 2017
Að afloknum kosningum
Þá ættu allir sem ætluðu sér að kjósa að vera búnir að kjósa.
Á þessari síðu hafa verið nóg af spádómum um afleiðingar þessara kosninga. Vonandi rætast engir þeirra enda flestir byggðir á frekar neikvæðri sýn á nánast hvaða ríkisstjórnarsamstarf sem er.
Allir flokkar eru t.d. sammála um að auka þurfi ríkisútgjöld um leið og núverandi uppbyggingu ríkisrekstursins er viðhaldið. Það eru slæmar fréttir.
Sumir vilja hækka skatta, sem er slæmt, en aðrir vilja lækka skatta og vona að það valdi aukni innflæði skatttekna, sem er líka slæmt (en þó minna slæmt).
Sumir vilja borga opinberir skuldir hratt niður, sem er gott, en flestir tala lítið um það.
Sumir vilja lækka skatta, jafnvel svo um muni, sem er gott, en flestir ekki. Flokkar sem tala um lægri skatta tala samt ekki um að vilja minnka ríkisvaldið, t.d. með einkavæðingum eða minna regluverki sem krefst minna eftirlitsbákns, sem er slæmt.
Enginn flokkur virðist hafa sérstakar áhyggjur af viðkvæmu ástandi alþjóðlegra fjármálamarkaða. Meira að segja dollarinn virðist vera í hættu. Mörg stór hagkerfi standa á brauðfótum. Vextir eru víðast hvar í núlli og hafa verið lengi og því lítið um sparnað að grípa í þegar áföllin banka upp á. Vextir þurfa að hækka og nóg af skuldum sem verða of miklar fyrir lántakendur þegar það gerist.
Það eru blikur á lofti, en allir eru með bundið fyrir augun.
Föstudagur, 27. október 2017
Manstu eftir seinustu vinstristjórn?
Á um 10-20 ára fresti kjósa Íslendingar yfir sig vinstristjórn. Yfirleitt springa slíkar stjórnir. Þeirri seinustu tókst þó að lifa af kjörtímabilið en þá voru atkvæðin líka alveg horfin af henni. Það rifjast upp fyrir Íslendingum hvað vinstristjórn er hræðileg og aðrir flokkar hlutu atkvæði hennar.
Yfirleitt muna Íslendingar í nokkur ár hvað vinstristjórn er hræðileg.
Nú er hins vegar eins og Íslendingar hafi þróað með sér gullfiskaminni og þurfi að láta minna sig á það aftur, á innan við áratug, hvað vinstristjórn er vond hugmynd.
Kannski er þetta ekki-vinstriflokkunum að kenna. Þeir eru jú líka flestir að lofa milljörðum í hitt og þetta og gera sig kannski óaðgreinanlega frá vinstrinu að því leyti. Miðjan er komin miklu lengra til vinstri en áður og menn ruglast því á vinstriflokkum og ekki-vinstriflokkum og láta því ekki minningarnar frá seinustu vinstristjórn hræða sig.
Það eru engar líkur á að frjálshyggja verði ríkjandi á Alþingi eftir kosningar frekar en í dag. Hins vegar er skömminni skárra að hafa stjórnvöld sem vilja greiða niður skuldir, einfalda skattkerfið og lækka skatta en stjórnvöld sem lofa því beinlínis að flækja skattkerfið, hækka skatta og svipta fólki eigum sínum og sparnaði.
En kannski þurfa Íslendingar bara upprifjun, hver veit?
Föstudagur, 27. október 2017
Ákall segja sumir, sundruð skilaboð segja aðrir
Það stefnir í að heill haugur af flokkum nái inn manni á þing við næstu kosningar. Enginn nær 25% fylgi. Meira ákall er ekki hægt að lesa úr niðurstöðum skoðanakannanna. Kjósendur eru sundraðir.
Það er því rangt að túlka skoðanakannanir sem svo að kjósendur séu að biðja um vinstristjórn sem yrði samansett af ógrynni flokka.
Kjósendur eru miklu frekar að biðja um frí frá stjórnmálum. Þeir ætla sér ekki að leiða neinn einn flokk fram með áberandi hætti.
Ég sé fyrir mér að þingheimurinn sleppi því hreinlega að mynda ríkisstjórn að loknum kosningum. Ráðherrar yrðu skipaðir af Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og fleiri slíkum og þeirra hlutverk yrði bara að skrifa undir reglugerðir. Þingmenn fengju nægan tíma til að ræða saman en fresta því alveg að samþykkja nokkuð (nema ef vera skyldi áfengis- og kannabis-frumvörp Pawel Bartoszek). Skuldir mætti greiða niður en skattkerfið yrði alveg látið í friði.
Ákall kjósenda er, að mínu mati, að fá frið frá stjórnmálum. Má ekki veita það?
Stefnir í viðræður til vinstri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 26. október 2017
Kosningar handan við hornið
Í borgarstjórn Reykjavíkur hefur það runnið upp fyrir fólki að kosningar eru á næsta leiti.
Þá þýðir auðvitað ekki að reyna koma reiðu á óreiðuna sem fjármál borgarinnar eru, greiða niður skuldir og sinna viðhaldi. Nei, óreiðan fær að halda sér, skuldirnar fá að vaxa og viðhaldið fær að sitja á hakanum.
Þess í stað eru leikskólagjöld lækkuð, fasteignaskattur færður niður í eðlilegra horf og allskyns undanþágur veittar fyrir útvalda hópa kjósenda.
Auðvitað fagna ég skattalækkunum hvar sem þær er að finna en þeim þarf líka að fylgja lækkun útgjalda. Stjórnmálamaður sem safnar skuldum er verri en enginn.
Vilja lækka fasteignaskatt í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 25. október 2017
Launþegar munu þurfa að standa undir skattahækkunum
Samtök skattgreiðenda benda réttilega á hið augljósa: Ef ríkið vill sópa fleiri milljörðum í hirslur sínar þá verður það ekki gert öðruvísi en með því að hækka skatta á venjulegt launafólk, og þá aðallega millistéttina (venjulegt fólk í venjulegum vinnum).
Þessir örfáu og moldríku geta ekki staðið undir nema nokkur hundruð milljónum. Það er upphæð sem skiptir ríkisreksturinn engu máli.
Nei, ef ætlunin er að sækja tugi milljarða í ríkissjóð þarf að ganga á venjulegt launafólk. Það er vissara að halda því til haga.
Hátekjuskattur á meðaltekjur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 24. október 2017
Ríkið felur ríkisstofnun að semja við einkaaðila um rekstur á ríkislóð
Ríkið hefur, með reglugerð, falið Landspítala að láta reisa sjúkrahótel á lóð sinni, sem Landspítali mun bjóða út.
Með öðrum orðum: Ríkið felur ríkisstofnun að semja við einkaaðila um rekstur á ríkislóð.
Hvað getur farið úrskeiðis?
Hér er hugmynd að snyrtilegri lausn: Ríkið býður út hýsingu á sjúklingum, og setur fyrir slíkri hýsingu nokkur skilyrði: Akstur til og frá spítala eftir þörfum, aðstaða, útkallsþjónusta og eitthvað fleira. Þeir sem bjóða best fá sjúklingana.
Og gerir svo ekki meira en það.
Þetta mætti e.t.v. kalla sænsku leiðina (ríkisvaldið verðleggur meðferðir og meðhöndlanir og einkaaðilar bjóða í þær).
Einkaaðilar munu reisa nauðsynlegt húsnæði ef þess gerist þörf. Kannski er besta húsnæðið ekki á lóð Landspítala heldur nær verslunarkjörnum eða afþreyingu, svo sem sundlaug eða líkamsræktarstöð.
Þegar skrifræðið og opinber stjórnsýsla er komin í þriðju eða fjórðu kynslóð (Ríkið > ráðuneyti > ríkisstofnun > rekstraraðili) er óhætt að gera ráð fyrir sóun, torveldum samskiptaleiðum, ruglingi á ábyrgðarsviðum og raunar firringu allra aðila á nokkurri ábyrgð.
Í Danmörku rekur ríkisvaldið húsnæði háskóla sinna með svipuðum hætti. Ríkið á, í gegnum ríkisstofnun, húsnæðið og ákveður hvað á að byggja og hvað skal endurnýja. Notendur húsanna segja að athugasemdir þeirra og óskir nái aldrei á leiðarenda í kerfinu. Á milli notenda og eigenda eru stofnanir háskóla, undirdeildir, yfirmenn og skrifstofur. Niðurstaðan er sú að framkvæmdir sprengja yfirleitt alla fjárlagaramma, notendur fá ekki það sem þeir vilja og eigendurnir firra sig allri ábyrgð og senda reikninginn á sjálfa háskólana.
Það er kannski ekki skrýtið að skattgreiðendur fái aldrei jafnmikið ríkisvald og þeir borga fyrir. Það er gott í sumum tilvikum (ríkið hefur ekki tíma til að fylgjast með öllum reglunum sínum) en slæmt í öðrum (peningar sem eiga að fara í meðferðir skila sér illa til sjúklinga).
Má ekki hugleiða aðrar lausnir en ríkiseinokun, einhvern tímann? Eða á leifrandi framþróun, endurnýjun og tilraunir með nýjar lausnir bara að tilheyra brjóstastækkunum, varafyllingum og sjónleiðréttingum?
Ber ábyrgð á rekstri sjúkrahótels | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 24. október 2017
Eintómir miðjuflokkar í boði
Kannanir á fylgi stjórnmálaflokka benda til þess að íslensk stjórnmál séu að breytast í eina stóra miðju.
Vinstri-grænir og Samfylkingin standa að vísu fyrir sínu sem vinstriflokkar og skipta á milli sín þessum 30-35% atkvæðanna sem vinstrið fær alltaf, sama hvað margir flokkar reyna að höfða til þess sérstaklega. Þar fela menn ekki þann ásetning að ætla hækka skatta þótt það sé ekki sagt berum orðum að þær skattahækkanir munu bitna á almenningi öllum. Það er ekki hægt að auka ríkisútgjöld um tugi milljarða án þess að seilast dýpra í vasa almennra launþega (ríka fólkið verður ekki mjólkað meira svo neinu skiptir fyrir ríkisreksturinn).
Píratar á þingi hafa að mestu leyti verið afstöðulausir nema í örfáum málum og hvorki staðið fyrir stórum breytingum né staðið í vegi fyrir stórum málum.
Framsóknarflokkarnir, Framsóknarflokkurinn og Miðflokkurinn, gæla við bæði ríkisútgjöld og skattalækkanir, en kannski engin ósköp af hvoru tveggja. Þar vilja menn halda í ríkisreksturinn eins og hann er í dag í aðalatriðum. Mér hefur þó sýnst Miðflokkurinn ætla að tala fyrir aðeins slakari tökum ríkisvaldsins á samfélaginu.
Flokkarnir sem flokka sig til hægri, Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn, virðast ætla að fara sitthvora leiðina. Sjallarnir eru greinilega að seilast lengra inn á miðjuna með sínum námsstyrkjum og bankasköttum á meðan Viðreisn tekur, að mínu mati, yfirvegaðri afstöðu. Viðreisn talar um hóflegar aukningar á ríkisútgjöldum og hraðari niðurgreiðslu á skuldum hins opinbera. Slíkt tal höfðar mjög til mín. Það er gríðarlega mikilvægt að hafa grannan og skuldlausan ríkissjóð því handan við hornið er sprungin hlutabréfabóla, hækkandi vextir og gjaldþrot allra sem ráða ekki við alltof lága vexti (á heimsvísu frekar en Íslandi).
Miðjan er orðin ansi fjölmenn, því miður, og ekki annað en miðjan og vinstrið í boði. Hvað gera frjálshyggjumenn þá? Sleppa því að kjósa og blása í stofnun frjálshyggjuflokks? Kannski Íslendingar séu tilbúnir í slíkan flokk. Sjálfstæðisflokkurinn getur þá hætt að reyna höfða til frjálshyggjumanna (sem er í dag frekar takmarkað) og einbeitt sér að miðjunni þar sem honum virðist líða svo vel.
Fylgi Samfylkingarinnar dalar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)