Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Svarið er einfalt

Spurt er: Hvers virði er leikskólakennari?

Svarið er: Jafnmikils virði (í peningum) og þarf til að manna stöður leikskólakennara, miðað við kröfur þess sem ræður.

Ég veit ekki hvað er mikið atvinnuleysi meðal leikskólakennara. Mín tilfinning er samt sú að ef starfsfólk vantar á leikskóla þá sé hægt að finna það. Hvort það starfsfólk sé allt með 5 ára háskólanám eða ekki veit ég ekki. Ég á strák á leikskóla hérna í Danmörku. Ég hef ekki hugmynd um menntun neins af starfsfólkinu. Ég sé samt að það nennir yfirleitt að sinna börnunum og kann örugglega skyndihjálp. Það er nóg fyrir mig.

En þótt starfsfólk sé jafnmikils virði og þarf í peningum til að fá það í vinnu fyrir hvert gefið starf (miðað við kröfur og þjálfun sem starfið krefst) er ekki þar með sagt að laun leikskólakennara skv. kjarasamningi segi einhverja sögu. Þau eru handahófskenndar tölur sem eru ákveðnar á fundum einhverra sérfræðinga. Hver og einn starfsmaður á leikskóla getur verið meira eða minna virði í raun og veru, en það kemur ekki í ljós nema að henda öllu kjarasamningum í ruslið og semja upp á nýtt við hvern og einn. Verðminni starfsmenn fá í dag hærri laun en þeir gætu fengið, á kostnað launakjara verðmeiri starfsmanna, sem þurfa að sætta sig við minna en ella.

Hið opinbera flækir svo myndina enn frekar með kröfum um ákveðna lágmarksmenntun og -þekkingu.

Svo svarið, fyrir þá sem voru að leita að því, má finna. Fyrst þarf samt að henda öllum kjarasamningum í ruslið, afnema öll lög um þjálfun og menntun leikaskólakennara, og einkavæða barnagæsluna eins og hún leggur sig (um leið og skattar sem fara í fjármögnun hennar eru afnumdir, auðvitað).


mbl.is Hvers virði er leikskólakennari?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kína og fríverslunarsamningurinn

Í frétt á vefsíðu Viðskiptablaðsins segir:

Alþingi samþykkti í gær þingsályktun um fríverslunarsamning við Kína. Samkvæmt þingsályktunartillögunni er ríkisstjórninni veitt heimild til þess að fullgilda samninginn sem var undirritaður i apríl.

Þetta hljóta að vera góðar fréttir, ekki satt? Hann opnar á stóran markað fyrir íslenskan útflutning, ekki satt? 

Samningurinn kveður á um niðurfellingu tolla á öllum helstu útflutningsafurðum Íslendinga, í flestum tilvikum frá gildistöku samnings. Allar sjávarafurðir verða tollfrjálsar en algengir tollar á þeim eru á bilinu 10-12%. Tollar á fáeinum vörum falla niður í áföngum, á 5 eða 10 árum. 90% útflutnings til Kína eru sjávarafurðir.

..segir á sérstakri heimasíðu um þennan samning.  

Einnig:

Í tilefni af undirritun fríverslunarsamningins gáfu forsætisráðherrar Íslands og Kína út sameiginlega sérstaka yfirlýsingu, um reglubundið pólitískt samráð sem tekur meðal annars til mannréttinda. Yfirlýsingin tryggir vettvang til að taka upp hver þau mál sem stjórnvöld telja mikilvægt að ræða. 

Frábært, ekki satt?

Ekki eru allir sannfærðir um það. Vefþjóðviljinn, af öllum, maldar í móinn og leggst allt að því gegn því að þessi samningur sé gerður. Þingmenn Pírata hafa mótmælt þessum samningi og gefa margar ástæður fyrir þeim mótmælum.

En er þá fríverslun, eða frjálsari verslun en hún var áður, bara verkfæri til að ná ákveðnum öðrum markmiðum?

Það finnst mér ekki að eigi að vera hugsunin. Fríverslun sé ég sem góða í sjálfu sér. Skilin rétt er hún einfaldlega verslun sem er einfaldlega látin í friði. Á hana eru ekki lagðir skattar eða tollar, en til vara mjög hóflega. Á hana eru ekki lagðar þungar byrðar af lögum og reglum og skilyrðum. Hún snýst einfaldlega um það að tveir einstaklingar verða sammála um kaup og kjör og geta stundað viðskipti, ýmist þvert á bæjarmörk eða þvert á landamæri. 

Það að stjórnmálamenn njóti aukinnar fríverslunar með þeirri stækkun á hagkerfi (og þar með "skattstofnum") sem slík verslun hefur yfirleitt í för með sér er svo allt annar handleggur.  

Almenningur á Íslandi og almenningur í Kína eiga núna aðeins auðveldar með að stunda verslun og viðskipti sín á milli en áður. Það er gott í sjálfu sér. Allt hitt - það er allt hitt.  


Kreppan er rétt að byrja

Útgáfa bóka um þjóðmál eru alltaf góðir fréttir að mínu mati. Í bók er rými til að fara djúpt í hlutina, ræða þá fram og til baka og byggja upp röksemdarfærslu í lengra máli en rými er fyrir í greinum og jafnvel ritgerðum.

Íslendingar eru ennþá að reyna komast til botns í því hvað gerðist árið 2008 og finna leiðir til að reisa hagkerfi sitt og sjálfsímynd upp á ný.

Mín spá er sú að þetta muni ekki takast áður en næsta kreppa skellur á. Sú kreppa mun láta þá sem hófst árið 2008 til að líkjast litlum fílapensli á bólugröfnu andliti.

Á einum stað segir til dæmis:

Ultimately the power of monetary policy to engineer a real economy will be proven to be just as ridiculous as the claims that housing prices must always go up. 

Næsta kreppa verður ríkisfjármála- og gjaldmiðlakreppa. Ríkissjóðir sem tóku á sig gjaldþrota banka eru skuldsettir upp í rjáfur (og sá íslenski því hann hélt áfram að eyða þótt skattstofnarnir hafi þornað upp eða horfið). Til að fjármagna þá skuldsetningu hafa þeir flestir tekið upp á að prenta peninga í stórum stíl (þeir sem hafa aðgang að seðlabanka). Kaupmáttur gjaldmiðlanna rýrnar í kjölfarið, og víða er sú rýrnun bara að hluta komin fram. Sú rýrnun neyðir yfirvöld til að hægja á peningaprentuninni, og þá taka vextir stökk upp á við og senda skuldsetta ríkissjóði í greiðsluþrot.

En hvað kemur þetta okkur við? Þetta hefur margvísleg áhrif. Skuldir munu rjúka upp með vaxtahækkununum (og í tilviki Íslandendinga með verðtryggð lán, vegna verðtryggingar). Sparnaður verður að engu. Laun munu hækka mun hægar en skuldir og rýrnun á kaupmætti peninga. Lífskjör almennings taka með öðrum orðum stóran skell. 

Þetta er viðbúið og þetta er fyrirsjáanlegt en stjórnmálamenn láta svona tal sem vind um eyru þjóta. Það verður á þeirra ábyrgð að hafa lifað í núinu og hunsað allar viðvaranir. 


mbl.is Ný kenning um íslensk stjórnmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upprennandi smyglarnar bíða átekta

Svartur markaður fyrir tóbak á Íslandi er óðum að skjóta djúpum rótum. Það ætti að flytja eitthvað af fjármagni úr skattlagningu og beint í vasa framtakssamra smyglara, sem geta svo eytt fé sínu á verðmætaskapandi hátt frekar en að sjá á eftir því í ríkishítina.

Ekki svo að skilja að ég sé að mæla ólöglegri smygl- og sölustarfsemi bót. Hún er samt að einhverju leyti leið út úr krumlum hins opinbera. Sovétríkin hefðu hrunið miklu fyrr ef svarti markaðurinn hefði ekki séð almenningi fyrir lífsnauðsynjum og ýmis konar þjónustu í áratugi. 

Hið versta við að svarti markaðurinn taki við hluta af tóbakssölu á Íslandi er að sölumenn svarta markaðarins eru með ýmislegt annað á boðstólunum sem er mun verra fyrir heilsuna en tóbak. Þeir geta boðið upp á kannabis, hass, spítt og óhreint áfengi. Áhrifagjörn ungmenni, sem fyrir löngu eru hætt að hlusta á foreldra sína, gætu freistast til að prófa ýmislegt sem er bæði ávanabindandi og lífshættulegt. Óhrein fíkniefni og skítugt áfengi er þar á meðal.

En ætli þeim sé ekki sama þeim þarna í fílabeinsturnum lýðheilsunnar? Þeir sofa ekki rólegir á nóttunni nema vita til þess að foreldrar séu farnir að fórna mat barnanna fyrir tóbakskorn og áfengissopa. Það er e.t.v. það ógeðfelldasta við þetta allt saman. 


mbl.is Reykingamönnum fækkaði í fyrra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstarf er alltaf góð hugmynd

Hvort sem veðrið fer kólnandi eða hlýnandi er ljóst að aukið samstarf er alltaf betra en óbreytt samstarf. Fleiri hendur vinna létt verk, stærri markaður býður upp á meiri sérhæfingu, og fleiri heilar leysa fleiri vandamál. Veðrið er aukaatriði í þessu samhengi.

Ís og klaki hindra ekki aukið samstarf, ekki einu sinni þegar kemur að því að sækja auðlindir í hafið. Sé verð á auðlind nógu hátt mun ágóðavonin réttlæta fjárfestingar í nauðsynlegri tækni til að sækja hana. Stjórnmálamenn eru hins vegar hindrun. Þeir skattleggja, setja á reglur, halda uppi tollamúrum, veita rekstrarleyfi eða sleppa því, boða stefnur, skapa óvissuástand, þjóðnýta, friða, sliga og svona mætti lengi telja.

Tækifæri eru alltaf óendanlega mörg. Stjórnmálamenn eiga að hætta að flækjast fyrir að einhver grípi þau.  


mbl.is Samskiptin verið frekar lítil hingað til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtileg og bráðholl hugleiðing, en ýmsu er gleymt

Það er gott að einhverjir innan bankakerfisins geri sér ennþá grein fyrir skaðlegum afleiðingum af ríkisvörðum, seðlabankastuddum og peningaprentandi rekstri banka í dag.

Allt sem sagt er í fréttinni svo langt sem það nær. Mikið innstreymi nýrra peninga í eitthvert hagkerfið rýrir kaupmátt þeirra peninga. Séu peningarnir gull rýrnar kaupmáttur þess. Séu peningarnir pappírsseðlar með andlitsmyndum rýrnar kaupmáttur þeirra. Fyrstu viðtakendur peninganna geta keypt á gamla verðlaginu, en aukin eftirspurn þeirra þrýstir á verð og þeir sem seinna koma hafa því hvorki fengið nýja peninginn né gamla verðlagið, heldur nýtt og hærra verðlag með sömu ráðstöfunartekjur.

Sem sagt, tilflutningur á verðmætum frá þeim sem eru á föstum tekjum til þeirra sem fá fyrstir hina nýju peninga í hendurnar.

Svona lagað er samt fljótt að jafna sig, gefið að fiktið við peningamagn í umferð hættir. Í tilviki Miðgarðs í sögu J.R.R. Tolkien má ætla að sú aðgerð að koma auðævum Smeygins í umferð sé bara möguleg einu sinni. Verðlag tekur kipp, sérstaklega í kringum fjallið sem hann bjó í. Markaðurinn mun hins vegar jafna sig, gefið að fleiri drekaauðævi sé ekki að finna eða að langur tími líði á milli þess sem þau eru opnuð fyrir neyslu.

Boðskapurinn er þessi: Hvaða magn peninga sem er í umferð í dag er nægjanlegt til að öll viðskipti geti átt sér stað. Breyting á því magni leiðir til aðlögunar á verði og tilflutnings á verðmætum. Þegar sú aðlögun er yfirstaðin er hið nýja peningamagn í umferð einnig nægjanlegt til að öll viðskipti geti átt sér stað.

Seðlabankar eru sífellt og endalaust að fikta við peningamagnið í umferð. Þess vegna eru þeir slæmir. Drekinn Smeyginn er slæmur, og auðævi hans munu valda miklu uppnámi á mörkuðum, en bara í eitt skipti. Hann er því minna slæmur en seðlabankar heimsins fyrir frjáls samskipti og viðskipti. 


mbl.is Smeyginsgull leiðir til óðaverðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrundi, miðað við hvað?

Spurning: Hvernig er hægt að mæla gæði viðskiptablaðamennsku?

Svar: Skoðaðu hversu misvísandi fréttir um gull eru. Séu þær ekki mjög misvísandi er blaðamennskan sennilega á heildina litið góð. Annars léleg.

Bandaríski dollarinn hefur misst 99,9% af kaupmætti sínum miðað við gull á seinustu 300 árum. Um það má lesa nánar hérna (og mun víðar).

Að sögn er gull ekki lengur mikilvægt til að verja kaupmátt auðæva eða peninga. Það er rangt. Meira að segja peningaprentarar eins og seðlabankastjóri ECB geta fært ágæt rök fyrir því (sjá hér).

Það er heldur ekki alveg rétt að fjárfestirinn George Soros hafi gefist upp á gulli. Hann er þekktur fyrir að segja eitt og gera annað til að rugla markaðsaðila. Nánar um það hérna.

Það eina sem kemur í veg fyrir gríðarlega hækkun á gulli þessi misserin (mæld í dollurum og öðrum pappírsgjaldmiðlum) er bláþráður af trausti á seðlabönkum heimsins. Þegar hann slitnar verður slegist um gullið, og þar hafa m.a. Kínverjar, Indverjar og Rússar búið sig undir. 

Fyrir betri umfjöllun um gull og framtíð þess má benda á þessa grein.


mbl.is Gullverð hrundi árið 2013
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og það er farið

Fyrir þá sem vilja vita hvað verður um peninga sem lagðir eru inn á bankareikning eða í lífeyrissjóð er eftirfarandi myndband mjög gagnlegt (titill þess á ensku er "And it's gone"):

 


mbl.is Heimild til útborgunar séreignar framlengd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmál hlýðninnar

Hvernig stendur á því að mikill meirihluti tiltekins ríkis sættir sig við kúgun fárra sem verma valdastólana? Hvernig getur konungur komist upp með að stjórna þúsundum og jafnvel milljónum einstaklinga eins og harðstjóri? Hvernig stendur á því að lítil valdaelíta getur mokað rjómann af brauðstriti margfalt fleiri þegna?

Þessum spurningum reynir höfundur bókarinnar The Politics of Obedience: The Discourse of Voluntary Servitude, Etienne de la Boetie, að svara. Bókin, eða ritgerðin (80 bls. frá kápu til kápu), var skrifuð fyrir nálægt 500 árum síðan en á ennþá mjög vel við (jafnvel meira en nokkurn tímann), og er aðgengileg á hvaða formi sem hver kýs (prent, PDF, rafbók).

Höfundur kemst að þeirri niðurstöðu að margt stuðli að því að fáir geti stjórnað mörgum, og jafnvel með harðræði:

 

  • Konungurinn og valdaklíka hans stuðla að því að ákveðinn leyndardómur umleiki þá sem stjórna, þannig að almenningur líti á þá sem stjórna sem einhvers konar öðruvísi manneskjur en sauðsvartan almúgann. Um þá sem stjórna gilda aðrar reglur og önnur siðferðislögmál. Ríkisvaldið er eining sem er allt í senn nauðsynleg og ósnertanleg.
  • Valdaklíkan sér til þess að undir sér sé enn stærri hópur sem þrífst á því sem ríkisvaldið nær að draga til sín af verðmætum. Undir þeim hóp er svo enn stærri hópur sem þakkar lífsviðurværi sínu að eiga hópinn fyrir ofan að. Svona sé sem flestum talið í trú um að allt hið góða komi að ofan, þegar raunin er auðvitað sú að verðmætin eru sköpuð af almenningi og síðan dregin til hins opinbera.
  • Almenningur lifir í núinu. Í núinu er honum stjórnað, og verðmætin hirt af honum í núinu, og þannig hefur það verið lengi, og þess vegna er erfitt að ímynda sér að eitthvað annað gæti tekið við en arðrán ríkisvaldsins.

 

Höfundur leggur til mjög friðsama leið til að koma þrúgandi stjórnvöldum frá: Að hætta að hlýða. Þannig hættir almenningur að vökva hið opinbera, eins og jarðvegur sem hættir að gefa af sér steinefni og vatn til róta plöntunnar. Ríkisvaldið getur ekki þrifist öðruvísi en að meirihlutinn beygi sig undir kúgun minnihlutans.

Við það má bæta því við hér að í lýðræði er það ekki þannig að "við ráðum okkur sjálf". Þeir sem ráða, þeir ráða. Hinir - ekki. 

Í annarri bók, sem ég las einnig nýlega, er fjallað um það hvernig ríkisvaldið klippir í sífellu í burtu hluta af frelsi okkar, og gerir það í svo litlum bitum að við tökum ekki einu sinni eftir því. Þetta er bókin It's a Jetsons World: Private Miracles and Public Crimes, eftir Jeffrey A. Tucker.  Í sumum köflum bókarinnar bendir höfundur á að margt af því sem mátti fyrir bara 5 eða 10 árum síðan er bannað í dag, en enginn tekur eftir því. Góð og ódýr hreinsiefni eru orðin léleg og við kennum uppþvottavélinni eða þvottavélinni um, en raunveruleg ástæða er sú að eitthvert virka efnið var sett á bannlista (t.d. því það má nota til að framleiða eiturlyf eða hvað það nú er) án þess að nokkur hafi hátt um það (af ýmsum ástæðum sem höfundur nefnir einnig). 

Og hvað gerir almenningur við þessum litlu skrefum sem hafa beinlínis það markmið að senda okkur aftur í hellana þar sem við getum ræktað okkar eigin mat, handþvegið úr vatni og dáið fyrir fertugt? 

Ekkert.

Við tökum ekki einu sinni eftir því að það sem mátti fyrir 10 árum má ekki í dag, án þess að nokkur haldbær rök hafi verið færð fyrir átroðningum á athafnafrelsi okkar og frelsi til að eiga friðsöm og ofbeldislaus viðskipti og samskipti við aðra.

Við ættum öll að hugleiða stjórnmál hlýðninnar meira.  Við erum þrátt fyrir allt ekki bara rollur sem hlaupa í áttina að næsta gati á girðingunni, sem fer sífellt minnkandi. Við eigum að gera meiri kröfur til okkar sjálfra en það. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband