Bloggfærslur mánaðarins, september 2015
Miðvikudagur, 30. september 2015
Flúið frá fátækt
Margir flóttamenn eru ekki að flýja stríð heldur lélegt efnahagslegt ástand í heimalandinu. Stríð fara yfirleitt fram í fátækum ríkjum og mætti segja að fátækt sé því stór ástæða stríðsástands samhliða trúarlegu ofstæki.
Það er enginn vandi að lækna fátækt og gera það þar með ónauðsynlegt fyrir fólk að rífa sig og sína upp með rótum og leggja land undir fót. Það vill enginn gerast flóttamaður og því sjálfsagt mál að hugleiða leiðir til að bæta ástandið fyrir þá sem telja sig í dag þurfa að flýja.
Ég er hérna aðallega að vísa til efnahagslegu flóttamannanna en vil meina að með því að útrýma fátækt sé einnig hægt að ganga langt í að útrýma stríðum.
Til að útrýma fáækt þurfa fátæk ríki bara að apa upp vel prófaðar aðferðir hinna ríku landa (e.t.v. að undanskildum olíuauðugum ríkjum sem skekkja oft samanburðinn). Hvaða aðferðir eru það?
- Tryggja eignarétt
- Tryggja gegnsæja löggjöf og gera hana eins fyrir alla íbúa
- Tryggja aðgengi að stöðugum gjaldmiðli/gjaldmiðlum
- Minnka ríkisvaldið
- Tryggja rétt fólks til að tjá sig, hittast og skiptast á skoðunum
- Tryggja rétt fólks til að versla sín á milli og við umheiminn
Með öðrum orðum: Fylgja uppskriftinni sem lyfti Evrópu úr moldarkofunum, sem og stórum svæðum í Asíu og auðvitað Norður-Ameríku.
Þetta er í raun sáraeinfalt í framkvæmd en það sem allt strandar yfirleitt á eru stjórnmálamenn sem hugsa um það eitt að verja og tryggja völd sín og sinna og beita ríkisvaldinu eins og hálfgerðri kylfu á þá sem reyna að hrófla við stöðu þeirra.
Fátækt ríkja og allar afleiðingar fátæktar, t.d. flóttamannastraumur frá svæðum þar sem engin eru stríðin, er í raun heimatilbúið vandamál. Ríki sem eru fátæk svo áratugum skiptir eru það af rökréttum og auðskiljanlegum ástæðum. Á þetta má gjarnan benda.
4,5 milljónir barna á flótta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 29. september 2015
Hið opinbera hækkar matvælaverð um 6 milljarða + álagningu
Neytendastofa ákvað að sjúga 6 milljarða út úr nokkrum matvöruverslunum og þvinga þær til að sækja þessa 6 milljarða í vasa neytenda, sem verður vitaskuld gert með hærri álagningu.
Góðar fréttir?
Auðvitað er leiðinlegt að geta ekki gengið að réttum merkingum eða sakna merkinga en hérna hefur hið opinbera nákvæmlega ekkert hlutverk. Verslanir geta keppt í góðum og réttum verðmerkingum rétt eins og í úrvali, aðgengi, lýsingu, hitastigi og þjónustu almennt. Sumar kjósa að spara mannaflann sem fer í að verðmerkja og nýta hann í eitthvað annað, t.d. manna kassana. Aðrar verðmerkja allt í tætlur og manna hvern kassa en þurfa þá að mæta þeim kostnaði með hærri álagningu eða minna úrvali eða bæði. Hið opinbera á einfaldlega að láta þetta eiga sig. Hérna geta neytendur og söluaðilar einfaldlega þreifað sig áfram þar til lausn á meintum vandamálum er fundin.
Til hamingju, Íslendingar, með hin auknu útgjöld til verðmerkinga! Allir sáttir?
Sjö matvöruverslanir sektaðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 28. september 2015
Í átt að smærri stjórneiningum
Á meðan ríkisstjórnir og önnur yfirvöld leiðast stöðugt í átt til aukinnar miðstýringar og sókn í meiri völd þá hefur almenningur yfirleitt endað á því að spyrna við fótum og krefjast aukins forræðis yfir sjálfum sér. Rómarveldi hrundi þegar valdataumarnir voru orðnir of teygðir. Í Bandaríkjunum eru margir að hugleiða leiðir til að takmarka völd alríkisins, m.a. með sjálfstæðisyfirlýsingum. Sovétríkin og Júgóslavía brotnuðu í marga mola um leið og miðstjórnin missti máttinn að hluta. Tíbet vill út úr Kína, Baskar út úr Spáni, Skotar vilja margir hverjir út úr Bretlandi og núna er sjálfsstæðishreyfing Katalóníu komin á gott skrið.
Miðstjórnin, hver sem hún er, lítur auðvitað tortryggnum augum á svona tilhneigingu og prófar allt sem hún getur til að dempa hana: Hræðsluáróður, hótanir, mútur og sérmeðferðir. Hinir stóru undirliggjandi straumar verða samt ekki auðveldlega stöðvaðir þegar þeir eru komnir á skrið.
Lönd eins og Ísland þjóna hér hlutverki fordæmis fyrir margar sjálfstæðishreyfingar. Íslendingar eru mjög fámenn þjóð en engu að síður sjálfsstæð, með eigin utanríkisstefnu, fiskimið, auðlindir, fríverslunarsamninga og stjórnkerfi. Íslendingar hafa að vísu oft notað sjálfsstæði sitt til að apa upp vitleysuna frá öðrum, en sá möguleiki er a.m.k. til staðar að læra af reynslunni og gera eitthvað skynsamlegra næst. Sá möguleiki er varla til staðar þegar þarf að sannfæra fjarlæga miðstjórn um að gera róttækar breytingar.
Sjálfur hef ég talað fyrir því að á Íslandi verði það gert auðveldara að kljúfa upp sveitarfélög og færa þannig valdið úr miðlægum ráðhúsum og í nærumhverfið. Ef stjórnmálamenn geta gengið að skattgreiðendum sínum vísum er alltaf hætt við að þeir fái fáránlegar hugmyndir sem enda oftar en ekki á að kosta þegna þeirra stórfé.
Á miðöldum var Evrópa einn stór hrærigrautur af litlum borgríkjum, sjálfstjórnarsvæðum og stærri ríkjum. Fólk gat ferðast frjáls ferða sinna og kosið með fótunum. Þetta veitti pólitískt aðhald en líka góðar aðstæður fyrir tilraunastarfsemi. Þau ríki sem vörðu eignir þegna sinna og tryggðu friðinn blómstruðu. Þau sem gleyptu stór svæði undir sig og lögðu hömlur á ferðalög og viðskipti stóðu eftir, a.m.k. efnahagslega. Pólitísk sundurleitni Evrópu stuðlaði í raun að velgengni hennar. Kannski eru slíkir tímar aftur handan við hornið.
Sjálfstæðissinnar lýsa yfir sigri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 25. september 2015
End the SÍ!
Í Bandaríkjunum eru fleiri og fleiri að átta sig á því að seðlabankinn þar í landi, Federal Reserve, er ekki uppspretta velmegunar og stöðugleika heldur er miklu frekar hitt: Valdur að óstöðugleika og skerðingu lífskjara.
Þessir Bandaríkjamenn hrópa "End the Fed" og hafa lög að mæla.
Það er nákvæmlega engin nauðsyn sem rekur ríkisvaldið til að einoka peningaútgáfu heldur er þetta stjórntæki eins og hver önnur ríkisafskipti. Seðlabanki Íslands er ónauðsynleg ríkisstofnun og hana ættu yfirvöld að leggja niður.
Hvað kæmi í staðinn? Það kemur í ljós. Ef sagan kennir okkur eitthvað þá er betri tíð í vændum. Ef hagfræðin kennir okkur eitthvað þá er betri tíð í vændum. Það má því vænta þess að ef Seðlabanki Íslands heyrði sögunni til þá væri betri tíð í vændum (en að vísu ekki fyrir þá sem nærast á núverandi fyrirkomulagi, gjarnan á kostnað annarra).
Aldrei aftur haftalaus króna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 23. september 2015
Nokkur orð um viðskiptabönn
Viðskiptabönn eru gömul uppfinning. Þau hafa verið notuð í ýmsum tilgangi. Afleiðingar þeirra eru samt svipaðar í flestum tilvikum.
Oftar en ekki leiða viðskiptabönn til þess að fyrirtækjum eða verksmiðjum er lokað og þeir sem missa vinnuna eru yfirleitt almenningur viðkomandi svæðis.
Þau leiða líka til þess að ríkið sem setur á viðskiptabannið er að neyta sér um hagstæð kjör og það bitnar á almenningi sem þarf að finna sér lélegri valkosti eða borga meira fyrir eitthvað svipað.
Viðskiptabönn valda líka ruglingi á milli þess að stunda viðskipti og þess að vera ósáttur við eitthvað. Viðskipti eru í eðli sínu friðsamleg og gagnleg fyrir alla sem að þeim koma (annars væru þau ekki stunduð og menn væru að gera eitthvað annað og létu viðskiptin eiga sig). Með því að kæfa frjáls viðskipti er verið að takmarka möguleika fólks á að nýta þau tækifæri sem annars væru til staðar til að bæta kjör sín.
Viðskiptabönn geta ýtt undir ólgu og pólitískan og efnahagslegan óstöðugleika og framapotarar í röðum stjórnmálamanna eru fljótir að nýta slíkt til að styrkja völd sín. Viðskiptabönn styrkja því ósvífna og harðsvíraða stjórnmálamenn.
Viðskiptabann á Ísrael er ekki bara gagnslaust heldur hefur nú þegar leitt til mikils taps fyrir íslenskan efnahag. Ég vona að menn hafi lært sína lexíu og minnist orða Jóns Sigurðssonar sem sagði að Íslendingar ættu að rækta eigin garð og stunda frjáls viðskipti við alla.
Harmar ákvörðun borgarstjórnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 18. september 2015
Harmleikur á harmleik ofan
Flóttamannastraumurinn frá Sýrlandi er mannlegur harmleikur af mörgum ástæðum.
Fólk er að flýja bæði stríð og efnahagslegt ástand. Hvoru tveggja má að svo til öllu leyti skrifa á yfirvöld í Miðausturlöndum auk hinna ýmsu æðstupresta sem nota trúarbörgð sem tylliástæðu til að ná völdum yfir öðrum. Hin ýmsu yfirvöld skiptast á að senda peninga til hinna og þessara herskáu hópanna í von um að rétt blæbrigði íslam verði ofan á í vopnuðum átökum. Yfirvöld viðhalda einnig efnahagsstefnu sem skilar engu nema fátækt til almennings. Þegar þetta tvennt leggst saman - eilífur ófriður og ömurlegt efnahagslegt ástand - er ekki skrýtið að fólk flýi.
Meðal flóttamannanna eru heilu hóparnir af barnlausum karlmönnum sem eru sennilega ekki að flýja ófrið í sjálfu sér heldur fljóta með flóttamannastraumnum inn í Evrópu þar sem þeir sjá fram á betra eða auðveldara líf. Sumir vilja vinna en aðrir vilja komast á opinbera framfærslu. Þeir munu ekki leggja sig mikið fram til að aðlagast móttökulandi sínu nema síður sé.
Margir flóttamannanna eru vissulega barnafjölskyldur sem óttast um líf sitt. En af hverju að sigla yfir Miðjarðarhafið á leikum bátum? Það er sennilega af því Tyrkland hefur skellt í lás, og ríkin sunnan við Sýrland hafa engan áhuga á þessum harmleik þrátt fyrir að vera beinlínis hluti af ástæðum ófriðarins. Saudi-Arabía hlýtur að toppa hræsnina:
While European countries are being lectured about their failure to take in enough refugees, Saudi Arabia which has taken in precisely zero migrants has 100,000 air conditioned tents that can house over 3 million people sitting empty. (Heimild)
Nú veit ég ekki hversu lengi Evrópa á að taka við. Kannski hættir hún aldrei fyrr en óeirðir einkenna daglegt líf í mörgum borgum eða þar til kosningar sópa öllum núverandi stjórnmálamönnum út í atvinnuleysi, eða þegar almenningur fer að streyma á göturnar og byggja veggi í kringum hverfin sín. Það kemur í ljós.
Það er erfitt að horfa upp á þennan mannlega harmleik sem skekur nú Sýrland og íbúa landsins, og þá sérstaklega börnin sem eru stærstu fórnarlömbin í öllu þessu.
Annað barnslík rak á land | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 17. september 2015
En hvað með augljósustu lausnina?
Lagt er til að allir ferðamenn á Íslandi verðir ónáðaðir gríðarlega, veski þeirra tæmd og þeir á flæmdir frá landinu með slæma umsögn í farteskinu. Ég held að Íslendingar verði þá fljótir að leysa þau vandamál sem þeir telja fylgja komu margra ferðamanna, því fáir munu nenna að koma ef svona meðferð býður þeirra.
Hvað með að gefa landareigendum einfaldlega full yfirráð yfir eignum sínum í staðinn? Þeir gætu þá girt af, rukkað, byggt stíga og beint umferð frá sumum svæðum og á önnur?
Með öðrum orðum: Að leyfa landeigendum að stýra aðgangi að landi sínu á sama hátt og venjulegur maður stýrir aðgangi að veislusal í sinni eigu, eða eigin stofu á eigin heimili?
Er það of augljós lausn fyrir spekingaklúbba landsins?
Ferðamenn verði skyldaðir á námskeið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 15. september 2015
Það er gott að vinna hjá hinu opinbera
Þeir sem vinna hjá hinu opinbera hafa það náðugt. Þeir njóta lífeyrisréttinda sem fáir geta keppt við. Þeir búa við miklu meira starfsöryggi en aðrir. Þeir geta skammtað sér laun og fríðindi á kostnað annarra nánast endalaust án þess að einhver spyrni við fótum.
Hið opinbera framleiðir engin verðmæti. Það hirðir verðmæti af öðrum og dreifir til starfsmanna sinna og í ýmis verkefni. Ríkisvaldið framleiðir hvorki skó né fisk en hirðir þess í stað verðmæti af þeim sem gera það.
Margar tilraunir hafa verið gerðar í gegnum tíðina og úti um allan heim til að reyna temja hið opinbera. Til þess voru til dæmis stjórnarskrár fundnar upp, auk þess sem ríkisvaldið framkvæmir allskyns endurskoðun á sjálfu sér. Ekkert virkar samt til lengri tíma. Ríkisvald hefur alltaf tilhneigingu til að þenjast út og hirða meira og meira. Almenningur lætur glepjast og þróunin heldur áfram þar til lífskjör geta ekki lengur batnað þrátt fyrir aukna framleiðni einkaaðila.
Já, það er gott að vera opinber starfsmaður.
Laun opinberra starfsmanna hækka meira | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 10. september 2015
Eru skattalækkanir þensluhvetjandi?
Í frétt á Vísir.is segir:
Hins vegar telur Ásgeir Jónsson, dósent við hagfræðideild Háskóla Íslands, að skattalækkanir geti leitt til þenslu. Hann segir mikilvægt að sýna aðhald í rekstri ríkissjóðs, ef auknum tekjum í ríkissjóði verður eytt þegar ríkir meðbyr geti ríkissjóður lent í tómu tjóni þegar niðursveifla kemur aftur í hagkerfið.
Til að komast að þessari niðurstöðu þarf að svara já við báðum af eftirfarandi spurningum (sem ég lána frá kunningja án þess að geta heimilda):
- Eru peningar þá þensluhvetjandi þegar fólk eyðir þeim en ekki þegar ríkið eyðir þeim?
- Og er meiri þrýstingur á fólk að eyða sínum eigin peningum en á þingmenn að eyða annarra manna peningum?
Maður þarf virkilega að hafa lesið yfir sig til að svara þessum spurningum með já.
Fimmtudagur, 10. september 2015
Engar reglur, en mikil regla
Þegar flugfélög á Íslandi auglýsa flugsæti á tilboðsverði gilda engar reglur eða viðmiðanir um hversu mörg sæti þurfi að vera í boði á tilgreindu verði. Formaður Neytendasamtakanna segir það vera á ábyrgð neytenda að vera vakandi.
Er þetta frétt?
Auðvitað þurfa neytendur að vera vakandi. Sofandi neytendur eru neytendur sem borga mikið og fá lítið. Reglur svæfa neytendur. Nú gilda til dæmis hvergi fleiri reglur en um rekstur fjármálastofnana og neytendur ganga sennilega út frá því að þar með sé allt í lagi með rekstur þeirra. Bankarnir nýta svo tækifærið og rukka fyrir allt sem þeir geta á eins ógegnsæjan hátt og þeir komast upp með, og ekki veitir af því regluverkið kostar þá alveg ógrynni fjár.
Ákall margra eftir fleiri reglum er til merkis um algjört skilningsleysi á lögmálum markaðarins. Upplýsingafulltrú WOW air orðar þetta ágætlega: Þetta er svo síbreytilegt eftir áfangastöðum, árstíma, framboði og eftirspurn að ekki er hægt að skipta þessu í einhverja ákveðna prósentu.
Sömu orð gilda um allt frá verðlagi rjómaíss og svínakjöts til lopapeysa. Með því að stilla af framboð og eftirspurn í gegnum verðlagið er verið að koma takmörkuðum framleiðsluþáttum í hagkvæmasta farveginn. Ef stefnir í að rjómaís sé að verða uppseldur er upplagt að hækka verð á honum til að tryggja að þeim sem langar mest í ísinn fái hann á meðan þeir sem tíma ekki að borga meira geta fengið sér eitthvað annað. Hið hækkandi verðlag gefur um leið skilaboð til framleiðenda um að framleiða meira og svala þannig eftirspurninni miklu. Allir vinna til lengri tíma þótt sumir þurfi að sætta sig við gosdrykk tímabundið á meðan verðlagið er hátt og hin aukna framleiðsla er á leiðinni.
Regluverk ruglar neytendur, deyfir aðhald þeirra og fer strax út í verðlagið sem aukinn kostnaður við að stunda viðskipti. Ríkisvaldið nýtur hins vegar góðs af auknum umsvifum og getur haldið her eftirlitsmanna við vinnu og tryggt sér hollustu þeirra við ríkisvaldið, á kostnað allra annarra og sérstaklega hins frjálsa framtaks.
Engar reglur um fjölda tilboðssæta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |