Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Kaupmannahafnarborg gæti gefið bin Laden hús

Norðmenn og Svisslendingar sem vilja "viðræður" við hryðjuverkasamtök Osama bin Laden (ef hann er þá ennþá á lífi) ættu að læra af reynslu Kaupmannahafnarborgar. Hér í borg eyddu hin svokölluðu "ungmenni" mörgum mánuðum í að eyðileggja götur og eignir borgarbúa og verslunareigenda með íkveikjum, veggjakroti og götustríðum við lögregluna til að sannfæra Kaupmannahafnarborg um að "gefa" þeim eins og eitt hús, án þess samt að vilja að borgin eða borgarbúar gætu haft eitthvað um starfsemi í slíku húsi að segja.

Borgaryfirvöld gáfu eftir og brenndu væna hrúgu af fé skattgreiðenda til að verða við kröfum skemmdarvarganna. Ekki að "ungmennin" hafi skort fé - þeir sem sýndu málstað þeirra samúð voru fyrir löngu búnir að safna saman mörgum milljónum danskra króna til að kaupa eins og eitt stykki hús, en það vildu "ungmennin" ekki. Húsið varð að vera greitt af skattgreiðendum af algjörum hugsjónaástæðum, og á endanum beygðu veikgeðja sveitastjórnarmenn sig í duftið og neyddu alla til að greiða fyrir áhugamál og vistarverur fárra.

Norðmenn og Svisslendingar geta e.t.v. boðið bin Laden aðstöðu í nágrenni hins nýja ungmennahúss í Norð-vestur hverfi Kaupmannahafnar, íbúum svæðisins til ama og ótta, en skítt með þá (þeir mótmæla bara friðsamlega og slíkt telst ekki með lengur). 


mbl.is Norðmenn reiðubúnir til viðræðna við bin Laden
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fóstruríkið Ísland

Sá dagur hlýtur bráðum að fara renna upp að foreldrar afhenta börn sín til ríkisstofnana um leið og þau fæðast og fá þau svo aftur 18 ára gömul þegar þau eru löglega orðin nógu gömul til að mega yfirgefa foreldrahús af fúsum og frjálsum vilja. Að vera "lyklabarn" er núna orðið að skammaryrði sem hljómar furðulega í mínum eyrum. Ég var svokallað "lyklabarn", og þegar ég gleymdi lyklinum þá gat ég yfirleitt bankað uppá hjá góðum nágranna sem þá var með varalykil. Engar yfirheyrslur um hvað ég væri nú að fara gera einn heima eða efasemdir um að ég væri traustsins verður.

Eða hvernig er það - fylgir því ekki ábyrgðartilfinning að vera sýnt traust?

Nú er öldin önnur. Leikskólinn skal vara allan daginn. Grunnskóladagurinn endar á byrjun frístundaheimilisdags sem endar við kvöldverðarborðið heima. "Lyklabörn" eru útnárahópur sem ríkinu, samfélaginu, yfirvöldum og hinu opinbera er alveg sama um og vanrækir með fjársvelti og ábyrgðarleysi.

Fóstruríkið Ísland (þar sem börn fá ekki pláss á opinberum stofnunum sem aðrar opinberar stofnanir þrengja að með tilmælum) - ríkið þar sem uppeldi er eyðublað í uppeldisbók fóstru með 3ja ára háskólamenntun og eilífa óánægju með launakjör sín. 


mbl.is Lyklabörn vegna manneklunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðskiptatækifæri eða væl?

Nú tilheyri ég því miður þeim afgerandi meirihluta mannkyns sem er ekki að vinna á innkaupadeild íslensks olíufélags og gæti því haft rangt fyrir mér, en eru ekki gríðarlegar gengissveiflur í innkaupum á bensíni og olíu? Sveiflur sem gera það að verkum að bensínlíter seldur í dag var e.t.v. keyptur fyrir 3 mánuðum á heimsmarkaði, og bensínlíter keyptur í dag e.t.v. seldur eftir 3 mánuði eða meira.

Ég efast hreinlega um að ég sé hæfur í starf af þessu tagi.

Þýðir aukin álagning ekki að freisting nýrra aðila til að koma inn á markaðinn eykst, og þrýstir þar með á álagninguna niður á við? Er Landssamband kúabænda að íhuga stofnun samkeppnisaðila sem kaupir díselolíu í tunnum til stórnotenda? Eða einhver annar sem hefur náð að hrista af sér hugsunina um "samkeppniseftirlit"? Er stórgróðatækifæri hér á ferðinni, eða bara eðlileg afleiðing gríðarlegra verðsveiflna á hálum markaði? Viðskiptatækifæri eða væl?

 


mbl.is Álagning olíufélaganna aukist mikið á árinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðlisti neytenda langt YFIR væntingum

Þeir eru ekki öfundsverðir, íslenskir bændur, svona læstir inn í kerfi sem einfaldlega getur ekki, hefur aldrei og mun aldrei skila þeim neinu nema þjáningum og lélegum kjörum. Verndaðir fyrir markaðsöflunum en um leið svona háðir þeim. Á ríkisspenanum sem um leið tekur úr þeim blóð. Háðir verðlagi sem er ákveðið af örfáum fyrirtækjum sem halla sér þétt upp að bændasamtökum sem ráða öllu öðru.

En er bændum ekki pínulítið um að kenna líka hvernig fyrir þeim er statt? Eru það ekki þeir sjálfir sem neita að sleppa munninum af ríkisspenanum og sjá heiminn handan tollamúranna og viðskiptahindraninna? Þótt vissulega sé gaman að ákveða sjálfur hvaða verð eigi að fást fyrir afurðir sínar þá hefur það mikla vankanta í för með sér. 

Fyrir vinstrimanninn er það hinn æðsti draumur að skrúfa upp og niður á verðlagi eftir því sem hann telur vera "réttlátt". Í Sovétríkjunum var ákveðið að barnamatur væri góður og ætti því að vera ódýr, en að vodki væri slæmur og ætti því að vera dýr. Fyrir vikið fylltist allt af vodka, en hvergi var barnamat að fá. Á Íslandi hefur verið ákveðið að kindakjöt eigi að niðurgreiðast á eitthvað sem kallast viðráðanlegt verð, en að grísakjöt geti átt sig á hinum frjálsa markaði. Sögukennsla, einhver? 


mbl.is Verðlisti Norðlenska er langt undir væntingum bænda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er lögregluákæran?

Ég sakna þess mikið að meðlimir "Saving Iceland" fái á sig ákæru vegna eignaspjalla, árásir á vinnustaði og önnur hrein og klár lögbrot. Ég er ekki af þeirri gerð manna að álíta öll lög góð en að vera löghlýðinn er yfirleitt eitthvað sem ég geng út frá að sé skynsamleg hegðun, og geri einnig ráð fyrir að ef lögreglan stendur mig að lögbrotum þá grípi hún til aðgerða.

Hér er að sjálfsögðu um lögreglumál að ræða - lögbrot fara fram og eru tekin upp af lögbrjótunum sjálfum og fjölmiðlum og því lítið mál að afla nægra sannanna. Skaðabótakröfur mættu einnig byrja að trítla inn í réttarkerfið - skaðabætur upp á hundruð þúsunda og jafnvel milljóna sem lögbrjótarnir eiga að reiða fram.

Mismunandi mótmæli láta greinilega lögregluna bregðast mismunandi við.


mbl.is Saving Iceland tekur niður búðir sínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig ætlar Þórunn að stjórna blessaðri sólinni?

Þegar næsta skýrsla IPCC kemur út þá verður það dregið til baka að CO2 sé drifkraftur loftslagsbreytinganna sífelldu og í staðinn sagt að sveiflur í CO2-magni andrúmsloftsins séu afleiðingar hitasveiflna (auk þess sem maðurinn hefur lagt til eitthvað brot af CO2-sameindum andrúmsloftsins), en ekki ástæða þeirra.

Mælingar "nýjustu" IPCC skýrslunnar eru 6-7 ára gamlar í besta falli. Síðan þá hefur víðast hvar verið að kólna og hitastig t.d. Íslandi er ekki nándar nærri því jafnhátt og á t.d. landnámsöld.

Hér er lesefni sem Þórunn ætti að kíkja á (ef hún les þá yfirleitt eitthvað annað en textann við kvikmyndir Al Gore). Eitthvað sem að minnsta kosti vekur til umhugsunar, og skilur mann eftir með spurninguna: Hvað ætlar Þórunn að gera varðandi sólblettina óþekku?

Annars er veðurfræði ekki uppáhalds hugðarefni mitt. Ég vil miklu frekar ylja mér við þá staðreynd að gríðarleg orkuframleiðsla leiðir af sér gríðarlega lífskjarabætingu mannkyns sem gerir því kleift að aðlagast hratt að síbreytilegri náttúrunni þökk sé auði og tækniþekkingu sinni. Fátækt fólk er verst statt þegar veður og loftslag breytist og því nær að einbeita sér að því að gera það ríkt (kapítalismi, einhver?) frekar en að brenna auðævi Vesturlanda á bál í viðleitni til að reyna temja náttúruöflin.


mbl.is Þarf að auka náttúruvöktun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægjuleg ummæli gamla kommans

Kannski að ég eigi að skipta um skoðun á Ólafi Ragnari Grímssyni - sú skoðun að hann sé, að mínu áliti, einn ósvífnasti pópúlisti landsins, mann sem veður í mótsögnum og talar í kross við sjálfan sig án þess að depla auga. Nú eða að álíta hin nýju ummæli hans um auðlindir Íslands vera enn eitt merkið um að hann skiptir um skoðun frá degi til dags.

Hvað sem því líður þá finnst mér ummæli Ólafs um auðlindir Íslands vera ánægjuleg tilbreyting nú þegar fiskinn má varla veiða lengur, enga orku má virkja, enga verksmiðju reisa og landbúnaður er kæfður í ríkisafskiptum og viðskiptahindrunum.

Að sjálfsögðu eiga Íslendingar að nýta auðlindir sínar - koma þeim í hendur athafnamanna sem nýta þær til að skila hámarksarði og gera þær þannig að styrkum stoðum íslensks hagkerfis. Ég vona að ýmsir stjórnmálamenn (t.d. þeir sem sitja í ríkisstjórn) hugleiði orð hins gamla sósíalista sem virðist vera kominn í ný og betri klæði (gefið vitaskuld að ég skilji þau rétt, sem er ekkert öruggt).  


mbl.is Fáar þjóðir eiga slíkan auð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband