Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2017

Gott er óskilvirkt þing

Sem betur fer fáum við ekki allt það ríkisvald sem við borgum fyrir. Þessi orð eru eignuð Bandaríkjamanninum Will Rogers og ég er þeim hjartanlega sammála.

Í svipuðum dúr mætti segja: Sem betur fer verðum við ekki veik af öllum bakteríunum sem herja á okkur. 

Óskilvirkni ríkisvaldsins getur verið góð. Hún þarf ekki alltaf að leiða til biðlista, sóunar, gæluverkefna og skrifræðis. Stundum bitnar óskilvirkni hins opinbera á því sjálfu, og það er gott. Við fáum ekki eins mörg lög yfir okkur og annars. Þingmenn ná ekki að banna allt sem þeir vilja. Stjórnsýslan nær ekki að flækjast fyrir öllu sem hún vill. Fyrir vikið verður svigrúm okkar aðeins meira. 

Það þarf enginn að hafa áhyggjur af neikvæðum afleiðingum óskilvirkni á þingi. Hún er betri en hinn möguleikinn - að þingið nái að setja öll þau lög sem það vill. Fórnarkostnaðurinn er að góðum lagabreytingum er líka frestað en þær eru svo fátíðar að þann kostnað má sætta sig við.

Þingmenn, masið að vild! Takið langt sumarfrí, helst fram að jólum! Farið á ráðstefnur erlendis! Skiptið ykkur út fyrir varamenn ykkar í tíma og ótíma! Pantið þykkar skýrslur og nefndarálit sem þið þurfið að eyða löngum tíma í að lesa! Við hin getum þá haldið áfram með líf okkar á meðan. 


mbl.is Níu í fullri vinnu við málþóf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hótelgeirinn hefði átt að bregðast við fyrr

Á Íslandi ríkir mjög flókið skattaumhverfi fyrir fyrirtæki, svo flókið að ráðgjafar úti í bæ geta gert sér mat úr því að kortleggja hvað fyrirtæki borga í skatt. Þetta er greinilega svo flókið verk að til þess þarf sérstaka, sérmenntaða og sérþjálfaða starfsmenn.

Í grunninn er eitt virðisaukaskattsþrep en frá því eru fjölmargar undanþágur og undantekningar. Á meðan einn aðili getur stundað vátryggingastarfsemi án virðisaukaskattsálags þarf annar aðili að bæta 24% við gjaldskrá sína áður en viðskiptavinurinn fær reikninginn.

Ferðaþjónustan hefur vissulega notið góðs af þessu og geta byggt sig upp í skjóli lægri skattheimtu. En hélt hún í alvörunni að það gæti gengið endalaust? Greinilega, því ekki man ég eftir því að neinn ferðaþjónustuaðili hafi sagt neitt til að krefjast þess að aðrir gætu notið sömu góðu kjara. Hún kvartaði þegar gistináttagjaldið var sett á, en þagði þegar aðrir voru undir smásjá ríkisins á sama tímabili. 

Enginn úr ferðaþjónustunni hefur sagt eitthvað í þessum stíl:

"Stjórnmálamenn, sjáið hvað gengur vel í ferðaþjónustunni! Hún er samkeppnishæf við ferðaþjónustu í öðrum ríkjum! Að hluta má þakka því hinum lága virðisaukaskatti. Leyfið nú öðrum atvinnugreinum að njóta sömu kjara! Við skulum sitja við sama borð! Þá geta aðrar greinar líka vaxið og dafnað!"

Nei, ferðaþjónustan sagði ekki orð. Núna fær hún flengingu og mátturinn verður dreginn úr henni (sérstaklega úti á landi). 

En ferðaþjónustan er ekki ein um að misreikna íslenska pólitík, þar sem skattþrep eru alltaf samræmd upp á við, að hæsta mögulega skattþrepi. Nei, tímaritaútgefendur, íþróttahreyfingar, ökukennarar og fasteignaleigur, svo eitthvað sé nefnt, eru í sama leik. Þar njóta menn undanþága frá himinháum virðisaukaskatti en þegja þunnu hljóði á meðan ferðaþjónustan er sett í bás með öðrum sem greiða níðþungan virðisaukaskatt. 

Atvinnulífið heldur vissulega úti ýmsum samtökum eins og SA, SI og FA. Þaðan kemur oft ýmislegt gott. Forstjórar fyrirtækjanna þurfa samt að gera sig sýnilegri og tala út frá daglegum raunveruleika sínum, sem er sá að skattar kæfa, svæfa og flæma á brott á meðan efnahagslegt svigrúm laðar að sér viðskiptavini, viðskipti frá útlöndum og launahækkanir til starfsfólks.

Nú á að slátra ferðaþjónustubeljunni. Hver er næstur?


mbl.is Hótel verða rekin með tapi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki-frétt

Af hverju telst það til frétta að einhverjir einstaklingar séu að setja vökva í hylki, hita hann upp og anda að sér? Er verið að reyna hræra í tilfinningum fólks og biðla til ríkisins um að siga lögreglunni á enn fleiri ungmenni sem hafa ekki gert nokkrum manni mein?

Límtúpurnar hafa jú alltaf fundist í hillum allra verslana. Þær innihalda efni sem gufar upp og þá uppgufun má sjúga fast upp í nefið á sér til að fara í vímu. Á það þá að vera daglega í fréttunum?

Svo er líka hægt að kaupa handspritt og appelsín, blanda saman og drekka til að komast í ölvunarástand. Væri þá ekki skárra að hleypa fólki í venjulegt áfengi? Nei, það er helst í ekki-fréttum að afnám ríkiseinokunar á áfengissölu sé slæmt fyrir heilsu þjóðar!

Nú þegar hafa ákveðnir stjórnmálamenn lýst því yfir að rafretturnar eigi að gera svo gott sem óaðgengilegar og þannig að síðri kosti fyrir þá sem vilja hætta að reykja tjörublandaðan tóbaksreyk. Niðurstaðan verður líklega sú að tjörublandaði tóbaksreykurinn verður áfram fyrir valinu.

Stjórnmálamenn eru líka upp til hópa ákveðnir í að halda fíkniefnaframleiðslu, -sölu og -dreifingu í undirheimunum þar sem finnast hvorki innihaldslýsingar né aldurstakmörk. Um leið haldast öll fangelsi full af óhörðnuðum ungmennum sem komast í þjálfun hjá hörðustu glæpamönnum landsins í götuslagsmálum. 

Blaðamenn þurfa aðeins að temja sér sjálfstæða hugsun og hugleiða neikvæð áhrif af öllum þessum ríkisafskiptum af því sem fólk ákveður að setja í eigin líkama. 


mbl.is Kannabisvökvi á rafrettur í umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sukkið er byrjað

Stjórnmálamenn eru að drukkna í fé almennings og lánsfé og eyða því eins og vindurinn. Um leið hlusta þeir ekki í viðvörunarorð, jafnvel ekki frá öðrum afkimum hins opinbera. Um leið er varla hægt að búast við því að ríkisstjórnin geti verið lengra til hægri í hinu pólitíska landslagi á Íslandi. Ef hún væri lengra til vinstri væri eyðslugleðin sennilega miklu meiri. 

Hvað er þá til ráða?

Auðvitað er hægt að vona að stjórnmálamenn taki mark á viðvörunum sem dynja á þeim úr öllum áttum. Það má samt telja ólíklegt.

Það er líka hægt að vona að ríkisstjórnin taki rækilega til í ríkisrekstrinum og dragi hann kröftuglega saman enda langt í kosningar og hægt að vona að tímabundnar þjáningar vegna róttækrar aflimunar ríkisskepnunnar verði orðnar að mikilli gleði þegar kjósendur þurfa næst að fara í kjörklefana. Það tekur oft svolítinn tíma að jafna sig eftir skurðaðgerð, líka skurðaðgerð á opinberum rekstri. En hér þarf að vera hóflega bjartsýnn á aðgerðir. 

Kannski eru hænuskrefin í rétta átt allt í lagi og það besta sem hægt er að búast við. Hlutabréf í banka eru seld, einkaaðili fær að opna nokkur sjúkrarúm eða kennslustofur. Einhver skatturinn er lækkaður um nokkrar kommur. Gallinn er bara sá að vinstrimenn þenja ríkið alltaf hraðar út en svokallaðir hægrimenn draga það saman. Alltaf! Og þegar hægrimenn greiða niður skuldir hægt og bítandi eru þeir bara að búa til svigrúm fyrir vinstrimenn til að bæta í þær aftur. 

Það er því bara eitt í stöðunni: Að nota tímabundið góðæri til að búa sig undir óumflýjanlega niðursveiflu. Spara í sem fjölbreyttustu formi. Bæta við sig verðmætaskapandi þekkingu og þjálfun. Koma sér upp nokkrum mismunandi möguleikum til tekjuöflunar. Eignast erlendan gjaldeyri af ýmsu tagi. Borga niður skuldir. Gera áætlun sem gengur út á að niðursveifla sé framundan, en ekki áætlun sem gerir ráð fyrir stöðugleika til langs tíma. 

Og vona það besta. 


mbl.is Stíga laust á bensíngjöfina í stað þess að bremsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dimmi bletturinn á gervihnattarmyndinni

Norður-Kórea er ríki sem kitlar ímyndunarafl okkar. En höfum eitt á hreinu: Þarna er fólk brytjað niður ef það hegðar sér ekki að hætti stjórnvalda, og ef þú stendur og nýtur sólarinnar í stað þess að strita á ökrunum þá er það bara af því hermennirnir leyfa þér það, beint eða óbeint.

Mynd frá: https://www.quora.com/Why-if-a-North-Korean-defector-crosses-the-border-at-the-Joint-Security-Area-they-get-shot-but-if-they-go-through-China-theyll-be-welcome-in-S-KoreaNorður-Kórea gætir landamæra sinna með tveimur landamæravörðum sem horfa á hvorn annan. Ef annar þeirra reynir að stinga af yfir landamærin er það hlutverk hins að skjóta hann. Stundum eru landamæraverðirnir þrír. Sá þriðji hefur það hlutverk að koma í veg fyrir að fólk flýi frá Norður-Kóreu.

Í Norður-Kóreu sýkist fólk eða blindast vegna meina sem tekur 5 mínútur að lagfæra á Vesturlöndum. 

Í Norður-Kóreu eru fangabúðir sem þekja gríðarmikið landflæmi. Þangað eru sendir þeir sem af einhverjum ástæðum hafa móðgað yfirstjórnina. Til dæmis lenda fjölskyldur þeirra sem flýja land í slíkum fangabúðum.

Reglulega blossa upp hungursneyðir í Norður-Kóreu. Enginn í yfirstjórn ríkisins sveltur. Nei, það er almenningur sem tekur höggið á sig. 

Fólki er stjórnað með blöndu af ægilegum aga og gríðarlegum ótta. Lífið þarna er ekki gott fyrir neinn. Þótt bláeygðir ferðamenn sjái bændur standa í sólinni og brosa og veifa þá breytir það engu. Þetta er nákvæmlega sama fólk og býr í Suður-Kóreu en er fast á myrkum miðöldum. Norður-Kórea er dimmi bletturinn á gervihnattamyndunum, og svarti bletturinn á landakortinu á alla hugsanlega vegu.

Ég legg til að við hættum að draga úr því hvað almenningur í Norður-Kóreu hefur það skítt.


mbl.is Hlupu maraþon í Norður-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um leið má einkavæða starfsemi þjóðgarðsins

Fjölsóttir ferðamannastaðir verða að hafa fé til að byggja upp aðstöðu. Um leið eiga bara þeir að borga sem nota. Það er því augljóst að bein gjaldtaka fyrir þjónustu eða aðgengi er réttlátasta leiðin til að tryggja uppbyggingu ferðamannastaða.

Lögin virðast hins vegar standa í vegi fyrir þess konar fyrirkomulagi víða. Vonandi er verið að laga það.

Vatnajökulsþjóðgarður á auðvitað að geta rukkað fyrir aðgang ferðamanna. Hins vegar er það ekki nóg. Þjóðgarðurinn er á fjárlögum. Mér sýnist hann hafa fengið um 10 milljónir á seinasti ári til framkvæmda. Honum tengjast svo einhver starfsgildi sem falla undir aðra liði fjárlaga. Þetta fé má spara skattgreiðendum og láta þjóðgarðinn í staðinn standa undir sér sjálfur með ýmsum gjöldum á gesti hans og aðra nýtingu á landi hans. Helst ætti svo að stefna að sölu þjóðgarðsins eins og hann leggur sig og koma honum alveg út úr krumlum ríkisins. Þá þyrftu þingmenn ekki að eyða tíma sínum og fé annarra í að ræða rekstur hans.

Margir eru sammála um að ríkið eigi að reka löggæslu, heilbrigðisþjónustu og vegakerfi svo eitthvað sé nefnt. En síðan hvenær var það hlutverk ríkisins að sjá um landspildur eins og einhvers konar ríkisrekin garðyrkjuþjónusta? Stjórnarskráin er a.m.k. afskaplega þögul hvað það varðar.


mbl.is Rafræn rukkun í þjóðgarðinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvelt er fé annarra að eyða

Margir góðir málshættir eru til á íslenskri tungu, en eitthvað vantar þó upp á, sérstaklega í samhengi stjórnmála.

Hér er lítið framlag frá mér til að bæta upp fyrir þennan skort.

Auðvelt er fé annarra að eyða.

Þessi útskýrir sig væntanlega sjálfur. Stjórnmálamenn taka fé annarra og eyða því, gjarnan í einhverja vitleysu. Ríkisreksturinn er í eðli sínu óseðjandi og í hann má alltaf henda meira fé án þess að vandamálin leysist. Þetta reynist stjórnmálamönnum auðvelt.

Stundum skal samkeppni stunda, í öðru skal einokun iðka.

Margir stjórnmálamenn tala oft um að samkeppni sé góð og nauðsynleg. Ríkið rekur meira að segja heilu báknin sem eiga að tryggja aukna samkeppni. Í öðru er ríkiseinokun samt talin besta fyrirkomulagið. Þá gufa öll rökin fyrir samkeppninni upp eða þau eru heimfærð upp á einokunina í staðinn. Menn eiga að keppa í verði á dekkjaskiptum en þegar maður verður lasinn á bara einn aðili að sjá um meðhöndlunina, og verðmiðinn skiptir þá engu máli. 

Gerðu það sem ég segi, ekki það sem ég geri.

Þetta er sennilega eftirlætismálsháttur stjórnmálamanna, enda er hann ekki frumsaminn af mér. Stjórnmálamenn tala á þingi og í ráðhúsum fyrir eyðslu, útþenslu hins opinbera og því að taka lán til að greiða niður skuldir. Þegar heim er komið tekur samt við röggsamlegt heimilisbókhald þar sem útgjöldin eru stillt af, skuldir greiddar niður og verkefnum forgangsraðað. 

Loforð sem lokkar skal fyrir vinsældum víkja.

Þetta könnumst við vel við. Stjórnmálamenn lofa öllu fögru, tala út frá hugsjón og slá sér á bringu í kosningum. Svo birtist skoðanakönnun sem sýnir dalandi vinsældir. Þá er loforðunum hent út um gluggann og stefnunni breytt.

Úr smáum skinnum má smíða stóra trommu.

Hver kannast ekki við stjórnmálamanninn sem tekur eitthvert smámálið upp á arma sína og blæs sig til riddara? Nærtækt dæmi er áfengisfrumvarpið, þar sem færa á fyrirkomulag smásölu á áfengi í átt að vestrænum fyrirmyndum. Í stað þess að leyfa því máli að komast í atkvæðagreiðslu á þingi skal því slegið upp sem einhvers konar plága sem bíður þess að herja á sálir og líkama saklausra borgaranna. Þingmaðurinn kemst í fjölmiðlana og fær mikla athygli með miklum trommuslætti fyrir að tala gegn hinu vonda máli, sem er samt frekar smávægilegt og ætti að fá hraða meðferð svo kjósendur geti séð afstöðu kjörinna fulltrúa. 

Geta lesendur stungið upp á fleiri málsháttum fyrir okkar ágætu stjórnmálamenn?


mbl.is „Api er api þótt af sé halinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögbundin lágmarkslaun og vélmenni

Nú hafa menn þróað vélmenni sem á að afgreiða matarpantanir. Það kemur ekki á óvart að fyrsta slíka vélmennið keyri um götur San Francisco. Þar hafa lögbundin lágmarkslaun valdið miklum skaða og mörg fyrirtæki eru því opin fyrir lausnum sem gera þeim kleift að stunda arðbæran rekstur með sem minnstu mannafli.

Um leið missa auðvitað margir vinnuna, þá fyrst og fremst þeir sem framleiða minni verðmæti en svo að þeim sé hægt að borga hin lögbundnu lágmarkslaun. Gjarnan er það ungt og reynslulítið fólk sem fýkur fyrst þegar lögbundin lágmarkslaun eru hækkuð.

Fólk sem missir vinnuna vegna nýrrar tækni er samt ekki endilega dæmt í ævilangt atvinnuleysi. Kannski nær það að byggja upp starfsferilskrá sína með heppilegri menntun eða sjálfboðavinnu. Kannski flytur það til svæða þar sem lögbundin lágmarkslaun finnast ekki eða eru lægri, og getur byggt upp verðmætasköpun sína þannig. Til lengri tíma getur tæknin aukið framleiðni allra og bætt líf okkar (eins og gerðist þegar hestvagnasmiðir misstu vinnuna þegar bílar hófu innreið sína). En það er mjög sársaukafullt að henda stórum hópum fólks út af atvinnumarkaðinum með hækkun lögbundinna lágmarkslauna. 


mbl.is Vélmenni afhendir mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægristjórnin sem hækkaði skatta (blaðagrein)

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu í dag. 

Hægristjórnin sem hækkaði skatta

Menn segja að hægristjórn sé við völd á Íslandi. Stjórnin ætlar jú að lækka skatta, greiða niður skuldir og af mikilli náð og miskunn leyfa einkaaðilum að starfa á fleiri sviðum. Þótt sumt af þessu eigi við er samt óhætt að segja að skrefin í frelsisátt séu hænuskref á meðan skrefin í helsisátt séu stærri.

Nýleg dæmi má nefna. Tilkynnt hefur verið að sumir sem greiða lág þrep virðisaukaskatts eigi nú að greiða há þrep. Þetta er skattahækkun, og í mörgum tilvikum umtalsverð. Því er að vísu lofað að hið háa þrep verði lækkað, en bara eftir langan tíma og mjög lítið. Eftir stendur að lágt þrep varð hátt. Nær hefði verið að færa hin háu þrep að þeim lágu ef hægristjórnin ætlaði sér að standa undir nafni.

Annað dæmi snýr að þyngra og kostnaðarsama regluverki fyrir fyrirtæki, með tilheyrandi verðhækkunum, óhagræði og skrifræði. Nafn regluverksins er vissulega hljómfagurt í eyrum einhverra - „jafnlaunavottun“ - en allir vita að hér eru stjórnmálamenn að skreyta sig á kostnað almennings. Enginn verður betur settur nema embættismenn, en þeir fitna þegar aðrir horast.

Enn eitt dæmið er umræða um vegatolla á þjóðvegum sem liggja til höfuðborgarsvæðisins. Ofan á eldsneytis- og bifreiðagjöldin, sem renna ekki nema að hluta til vegaframkvæmda- og viðhalds, á að bæta tollum. Ríkisvaldinu væri nær að gefast upp og selja þjóðvegina til einkaaðila. Þeir munu stilla af framboð og eftirspurn í gegnum hæfilega verðlagningu og um leið tryggja að nýir viðskiptavinir geti notið góðra vega. Þess í stað ákveður ríkið að bæta tollum ofan á skatta. Eplið skal borgað þrisvar áður en neytandinn fær að taka bita.

Loks má nefna andstöðu yfirvalda við það að fleiri en hið opinbera heilbrigðiskerfi á Íslandi og þjónustuaðilar heilbrigðisþjónustu erlendis fái að hýsa og sjá um íslenska sjúklinga. Ríkið vill frekar senda sjúklinga út á gang myglaðra spítala eða út úr landi í flugvél en hleypa þeim í sjúkrarúm í eigu einkaaðila á Íslandi. Hugsjónin stendur í vegi fyrir velferð sjúklinga, og skattgreiðendur eru látnir fjármagna hana.

Hægristjórn segja menn. Dæmin segja aðra sögu. Ef ætlun stjórnarliða er að aðgreina sig frá stjórnarandstöðunni við næstu kosningar er ljóst að þeir þurfa að hugsa sinn gang. Hvers vegna ættu kjósendur að kjósa vinstrimenn í fötum hægrimanna þegar þeim stendur til boða að kjósa vinstrimenn í sínum eigin klæðum?


Svolítil bók fyrir verkefnastjóra

Í febrúar 2015 sagði ég frá því á þessari síðu að ég væri búinn að gefa út svolitla bók um bætta skilvirkni í starfi. Sú bók fékk alveg ljómandi undirtektir og var meðal annars gefin út í sérstakri útgáfu af CreditInfo. Ekki get ég heldur kvartað yfir umsögnunum sem sumir lesenda bókarinnar hafa verið svo vinsamlegir að skrifa. 

cover_PM-bookNúna er ég búinn að skrifa aðra bók sem tekur skilvirkni okkar sem starfsmanna skrefinu lengra og segir verkefnastjóranum frá því hvernig hann fær sem mest út úr verkefnahópi sínum (sérstaklega ef hann þarf að eiga við verkfræðinga). Hún er til sölu á Amazon, bæði sem rafbók og á pappír.

Hver veit, kannski er þetta einmitt eitthvað sem þig vantaði til að komast á næsta skref í ferli þínum?

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband