Bloggfærslur mánaðarins, júní 2018

Þessir blessuðu flóttamenn

Evrópa er aðlaðandi í augum margra. Þar eru jú gjafmild velferðarkerfi, fangelsi sem minna á hótel í mörgum ríkjum og engar líkur á að lögreglan beinlínis drepi þig fyrir það eitt að væflast um.

Það þýðir samt ekki að Evrópa laði bara að sér flóttamenn - konur og börn og örkumla menn í leit að skjóli frá stríðsátökum. Öðru nær. Mikið af flóttamannastrauminum frá Afríku og jafnvel Miðausturlöndum eru ungir karlmenn sem hafa sagt bless við konu og börn til að freista gæfunnar á eigin vegum. Sumir eru jafnvel með fyrirmæli um að stofna litlar hryðjuverkaeiningar og valda óskunda. 

Það er alveg sjálfsagt að gera allt sem hægt er að gera til að koma flóttamönnum frá stríðsátökum og ofsóknum í skjól. 

Helst ættu þessi skjól að vera sem næst heimalandinu svo það sé auðveldara að snúa heim þegar ástandið skánar. Miðaldra kona með þrjú börn sem er send til Ísafjarðar til að vinna við fisk á aldrei raunverulegan möguleika á að tilheyra samfélaginu á neinn innihaldsríkan hátt.

Helst ættu þessi skjól að vísa þeim frá sem eru bara í leit að ölmusa.

Helst ættu þessi skjól að koma til móts við fólk á þeirra eigin forsendum en ekki að reyna troða einhverri lýðræðisást, jafnréttishugsun og virðingu fyrir eignarrétti ofan í kokið á því, og fordæma það svo þegar það heldur enn í sínar eigin venjur. Auðvitað má reyna að tala um ágæti þess að konan eigi sig sjálf í stað þess að vera undir stjórn eiginmannsins eða elsta sonarins, en það þarf að vera án mikilla væntinga um árangur.

Helst ættu þessi skjól að bjóða upp á menntun og heilbrigðisgæslu og reyna þá frekar að huga að gæðum frekar en magni með því að vísa ungum, íslömskum hermönnum frá. 

En allt krefst þetta þess að fólk hætti að kokgleypa áróður meginstefsins í fjölmiðlum og þrói með sér gagnrýna og lausnamiðaða hugsun.


mbl.is Samkomulag eftir átakafund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafrettan er að bjarga lífum

Þetta hafa margir vitað lengi en núna eru gögnin að koma í ljós: Rafrettur, sem eru a.m.k. 95% skaðminni en sígarettur, eru að bjarga lífum.

Einhverjir malda samt í móinn og vilja gera rafrettuna dýrari eða óaðgengilegri eða bæði. Þeir beita fyrir sér allskyns rökum, svo sem að í gufu rafrettunnar geti leynst þungmálmar og önnur snefilefni. En hvað með útblástur bíla? Hvað gufar upp úr sterkum hreinsiefnum? Hvað lendir á fingrum okkar í daglegu amstri og endar í munninum? Manneskjur þola alveg litla skammta af allskonar efnum. Eða á að banna bíla næst?

Rafrettur eiga að vera eins löglegar, ódýrar og aðgengilegar og hægt er ef ætlunin er í raun og veru sú að draga úr notkun tóbaks. 

Rafrettur eiga að fá að leysa það verkefni sem yfirvöldum hefur mistekist að leysa. 


mbl.is Gríðarleg aukning í notkun rafretta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Best að segja ekkert

Ég velti því stundum fyrir mér hvernig listamönnum og hönnuðum líður í umhverfi þrúgandi pólitískrar rétthugsunar. Hafa margir ekki hreinlega gefist upp á að gera eitthvað með innihaldi? Eru ekki allir farnir að gera einhver óskiljanleg tákn og merki sem þýða ekkert, standa ekki fyrir neitt og misskiljast ekki af neinum? 

Því hvað í ósköpunum er að því að segja að stúlkur hrópi ekki? Það má túlka þetta sem beitta pólitíska gagnrýni á feðraveldið svokallaða. Þá má túlka þetta sem áskorun að vera kurteis og reyna frekar að vanda mál sitt en hækka róminn. Það má túlka þetta sem skot á karlkynið - að karlar hrópi eins og apar á meðan kvenfólk talar saman.

En nei, þess í stað er þetta túlkað sem: Kvenfólk má ekki tjá skoðun sína.

Ég vissi ekki að Danir væru svona viðkvæmir. Í sömu búð og tekur núna boli úr umferð eru seldir karlmannssokkar þar sem er skrifað, undir iljunum, að konan eigi að færa manni sínum bjór (texti sem sést ekki nema maðurinn liggi afslappaður uppi í sófa með tærnar út í loftið). Er mótmælabylgja væntanleg vegna þess?

Kannski hafa foreldrar gleymt því að þótt eitthvað sé til sölu fyrir börn þá þurfi ekki að kaupa það. Kannski hafa þeir gleymt því að það er þeirra hlutverk að tala við börn sín um það sem gengur á úti í hinum stóra heimili. Kannski nenna foreldrar ekki að kenna börnum sínum gagnrýnið hugarfar. 

Eða hvað?


mbl.is Hætta sölu á umdeildum stuttermabol
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða mismunun er best?

Dæmi eru um að útsendir starfsmenn séu á allt að 50% lægri launum í gistiríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu en staðbundnir starfsmenn. Þetta kemur fram í einhverri ritgerðinni.

Það hefði mátt spara sér ritgerðarskrifin því þetta blasir við. Erlendir starfsmenn fá lægri laun af mörgum ástæðum, og allar eru góðar og gildar.

Í fyrsta lagi er oft erfiðara að eiga við þá samskipti til að fá þá til að sinna flóknari verkefnum, og það dregur úr verðmætasköpun þeirra. Þeir eru að þessu leyti takmarkaðir þótt þeir séu frábærir iðnaðarmenn og duglegir.

Í öðru lagi væru þeir ekki með vinnuna til að byrja með ef þeir krefðust sömu launa og innlendir starfsmenn. Þeirra lágu laun eru einfaldlega þeirra samkeppnisforskot. Kaupmáttur þessara launa í heimalandinu er líka að jafnaði töluvert meiri svo fyrir þeim eru þeir kannski á háum launum sem gera þeim kleift að spara mikið og hratt og kaupa hús og bíl í heimalandinu.

Í þriðja lagi geta laun þeirra verið lægri af því þau þurfa ekki að fjármagna rándýran rekstur verkalýðsfélaga með sínum sumarbústöðum og gleraugnastyrkjum, svo dæmi sé tekið. 

Í fjórða lagi eru laun þeirra lægri svo laun innlendra og sérhæfðari starfsmanna geti verið hærri og samkeppnishæf. Með því að ráða 5 útlendinga á lágum launum er hægt að ráða einn innlendan sérfræðing á háum launum. Hinn valkosturinn er kannski sá að ráða 3 innlenda starfsmenn sem kunna eitthvað í mörgu en ekki mikið í neinu. Þessir 3 starfsmenn þurfa að keppa við verkefni þar sem eru 5 útlendingar og 1 sérfræðingur. Svoleiðis verkefni daga uppi.

Sé ætlunin sú að gera erlenda starfsmenn atvinnulausa þá gera menn það bara, en það er ekkert víst að það gagnist innlendu starfsfólki, verkefnunum sem þarf að vinna og nætursvefni þeirra sem nota allskyns afsakanir til að setja upp viðskiptahindranir til verndar innlendum sérhagsmunum.


mbl.is Helmingi lægri laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfisvænt en heilsuspillandi

Okkur er sagt að gera hitt og þetta til að vernda umhverfið. Margt af því verndar samt alls ekki umhverfið og sumt er beinlínis heilsuspillandi fyrir fólk.

Fjölnota pokar eru núna mjög í tísku. Þeir eiga samt helst ekki að vera of fjölnota því þeir safna í sig matarleifum sem verða að næringu fyrir gerla. Það er engum hollt. Menn geta auðvitað þvegið þá með allskyns efnum en eru þau endilega betri í niðurfallinu en framleiðsla á góðum, einnota plastpokum?

Það þykir í tísku að hafna umbúðum. Um leið þýðir það að matvæli hafa skemmri tíma til að komast frá framleiðenda til neytenda og endast mun skemur í geymslu. Umbúðalausum mat er hent fyrr en öðrum og það mætti kalla matarsóun. Fyrir hana þarf svo að bæta með því að framleiða enn meiri matvæli. Bændum finnst það kannski fínt en ég efast um að umhverfið verði betra.

Okkur er sagt að nota minna plast. Það leysist jú upp í sjónum og skjalbökur flækjast í því. Hins vegar gleymist oft að nefna að langmest af ruslinu í sjónum er skolað í hann úr örfáum stórfljótum í fátækjum ríkjum. Kannski það væri nærtækara að auðvelda ríkjum að verða rík en að setja allskyns reglur á þau sem þau fylgja hvort eð er ekki (hafa einfaldlega ekki efni á því). Ríkt fólk er pjattaðra en fátækt og krefst hreins umhverfis en ekki bara næstu máltíðar.

Strætó á víst að vera rosalega umhverfisvænn. Það gildir þó bara ef vagnarnir hafa marga farþega um leið og fólk er rukkað um nógu mikið í aðgangseyri til að takmarka ferðalög við nauðsynleg ferðalög. Ókeypis strætó fær fólk bara til að hætta að labba og nota strætó að óþörfu. Of dýr strætó er of fámennur til að draga úr sótmengun miðað við að allir færu um í bíl. Strætó er bara sparnaður á útblæstri og eldsneyti ef hann er vinsæll, en ekki of vinsæll. Og yfirleitt er hann hvorugt.

Jarðeldseldsneyti er víst voðalega slæmt fyrir umhverfið, þ.e. þegar því er brennt. Því ber að takmarka leyfilega brennslu á því. Hvað gerist þá? Jú, brennslan fer úr ríku ríkjunum, þar sem pjattaða fólkið vill hreint loft og lítið af sótskýjum, og til þeirra fátæku þar sem áherslan er öll á að afla næstu máltíðar. Mengunin færist til og oftar en ekki eykst hún. Kol eru skítug og sótið frá brennslu þeirra á helst ekki að lenda á landareignum annarra en þeirra sem brenna þau, en allt annað jarðefnaeldsneyti á að vera heimilað eins og mönnum hentar, og vera gert eins hagkvæmt og hægt er svo það sé notað eins mikið og menn vilja og geta (á markaðsverði, auðvitað). 

Maður þarf alltaf að vera á varðbergi þegar einhver segir eitthvað í nafni umhverfisverndar. Greyið skólabörnin eiga enga möguleika í stanslausum heilaþvottinum en við hin ættum að temja með okkur gagnrýnna hugarfar.


mbl.is Hvað áttu að gera ef kjúklingur lekur í fjölnota pokann?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkasta sundlaug landsins

Bláa lónið er ríkasta sundlaug landsins. Það getur hún þakkað gríðarlegu markaðsátaki, framsýnum framkvæmdum og mikilli þjónustulund sem hefur leitt til góðs orðspors (t.d. á TripAdvisor). 

Bláa lónið hefur sýnt og sannað að hægt að reka arðbæra sundlaug. Nú er Bláa lónið auðvitað ekki staður sem maður heimsækir oft enda dýrt að kaupa aðgang. En menn keyra heldur ekki um í Ferrari á hverjum degi. Til daglegs brúks nota menn Skoda, Kia, Toyota og Ford. Bláa lónið er Ferrari sundlauganna. Árbæjarlaug í Reykjavík er Toyota sundlaugann. Á sama hátt og Ferrari hagnast á sínum rándýru bílum hagnast Toyota á sínum hagkvæmari bílum. Á sama hátt og Bláa lónið skilar hagnaði með sölu á dýrum miðum á Árbæjarlaug að geta skilað hagnaði með sölu á ódýrum miðum.

Menn halda oft að allt sem er vafið inn í ríkisafskipti og niðurgreiðslur í dag gæti ekki spjarað sig á frjálsum markaði. Það gleymist um leið að ríkið hefur rukkað skattgreiðendur um allt sem það gerir áður en það byrjar að selja miða, t.d. í hin opinberu leikhús. Með því að lækka skatta og fækka ríkisverkefnunum er neytendum á ný gefinn kostur á að velja, og einkaaðilar fá um leið svigrúm til að bjóða í athygli neytenda.

Einu sinni framleiddi ríkið sement. Sá rekstur var seldur til einkaaðila. Hefur einhver orðið var við sementsskort í landinu?


mbl.is Bláa lónið hagnast vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

5 uppeldisráð Geirs

Það virðist vera vinsælt að gefa uppeldisráð og hér koma mín.

1. Það var allt betra í gamla daga: Börn þurfa að vita að það var allt betra í gamla daga. Krakkar léku sér meira, voru nægjusamari, með betra ímyndunarafl, meiri orku, fleiri vini, með meira nám í skólanum og gátu meira heima. Þau fóru sjálf að sofa á kvöldin og vöknuðu sjálf, eldsnemma, við vekjaraklukku og náðu í Moggann í bréfalúgunni, sem var auðlesinn enda betri lestrarkennsla í gamla daga. Börn horfðu varla á skjá, og það var þeirra val en ekki bara afleiðing af lélegu úrvali. Í staðinn var teiknað og krossgátur leystar. Veðrið var meira að segja betra í gamla daga.

2. Það er töff að fá sár og sérstaklega ör, svo hættu þessu væli: Þegar krakkar meiðast og fá sár er óþarfi að aðhafast nokkuð. Það er töff að vera með sár. Það er merki um að maður hafi verið að gera eitthvað sem vit er í (klifra, hlaupa eða ærslast). Læknar og hjúkrunarfræðingar þurfa ekki að koma nálægt skrámum og rispum. Nema bein séu brotin er óþarfi að gráta út af smá skeinu.

3. Ef þú ert sjálfala ræður þú þér meira sjálf(ur): Börn sem kunna ekki að hafa ofan af fyrir sjálfum sér eru stanslaust áreiti á fullorðna og fullorðnir bregðast við slíku með allskyns reglum: Tölvutími, afskipti af klæðaburði, afskipti af mætingartíma í hitt og þetta, og auðvitað strangari háttatími. Börn sem eru sjálfala við leik (sérstaklega úti) eru minna áreiti og lenda því ekki í mörgum reglum (þótt auðvitað þurfi alltaf að fylgjast með mataræði og svefntíma). Krakki sem kvartar yfir reglu þarf að átta sig á því að reglan er að hluta afleiðing eigin hegðunar. 

4. Þú átt líkama þinn og aðrir eiga sinn: Börn þurfa að læra að líkami manns er manns eigin eign sem enginn má misnota eða eiga við án leyfis, og sama gildir um líkama annarra. Þetta er þeim oft kennt í samhengi kynferðislegs áreitis en lögmálið gildir líka um ofbeldi. Ef þú lemur annan einstakling er það ígildi þess að eyðileggja hlut í eigu hans. Það að kýla í maga svarar til þess að einhver taki uppáhaldshlut manns sjálfs og grýti í jörðina. Hegðun manns sjálfs er fordæmi fyrir aðra. Ef þú ert sá sem skemmir, eyðileggur og meiðir ertu sá sem um leið heimilar að aðrir skemmi þína hluti og meiði þig. Börn skilja þetta ágætlega. Það er annað mál með unglingana sem halda að það gildi aðrar reglur um þá sjálfa en afgang mannkyns. 

5. Ef þú vilt að eitthvað gerist er best að gera það sjálfur: Foreldrar geta oft verið ótrúlega latir. Þeir nenna ekki að færa manni mat í sófann, þrífa matarleifarnar af gólfinu og vaska upp uppáhaldsglasið. Hvað er þá til ráða? Jú, gera hlutina sjálfur! Latt foreldri er oft betri uppalandi en ofvirkt foreldri. 

Núna bíð ég í ofvæni eftir að einhver lífsstílssíðan biðji um leyfi til að endurbirta þessi heilræði. Góðar stundir. 


mbl.is 5 uppeldisráð Mörtu Maríu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómögulegir stjórnmálamenn sem ráða alltof miklu, eða hvað?

Íslendingar hafa þurft að kjósa oft undanfarin misseri. Þeir hafa fengið mörg tækifæri til að skipta um valdhafa. Um leið virðast Íslendingar ekki vera alltof hrifnir af stjórnmálamönnum sínum. Þeir eru ýmist of gamlir og íhaldssamir eða of ungir og óvitandi. Er ekki kominn tími til að minnka það vægi sem lélegir stjórnmálamenn hafa í lífum okkar, og um leið þau völd sem þeir hafa yfir bæði hagkerfinu og samfélaginu?

Er ekki kominn tími til að leyfa almenningi að kjósa, með greiðslukortum sínum, beint og milliliðalaust hverjir sjá honum fyrir vörum og þjónustu?

Hvað gerist ef hið opinbera minnkar skattheimtu sína úr því að éta 50% af verðmætasköpun samfélagsins og niður í 10%? Hvað gerist ef reglugerðafrumskógurinn er skorinn niður um 90%? Hvað gerist ef ríkisvaldið hættir að gefa út peninga og halda hlífiskildi yfir brothættum bönkum? Mun þá fátækt fólk svelta á götunum og fyrirtæki selja rottueitur í umbúðum barnamatar? Mun heill her af atvinnulausum opinberum starfsmönnum reika um göturnar og valda óeirðum? Mun óðaverðbólga keyra lífskjör aftur til myrkra miðalda?

Svörin í öllum tilfellum eru þau sömu: Eftir stutt tímabil aðlögunar tekur við tímabil svigrúms. Launafólk fær meira svigrúm til að eyða, spara, gefa og fjárfesta. Fyrirtæki fá meira svigrúm til að bæta við sig starfsmönnum, herja á nýja markaði, fjárfesta og hækka laun og arðgreiðslur. Góðgerðarsamtök fá glaðari velunnara sem vita að góðverk eru bara góðverk þegar þau eru fjármögnuð af fúsum og frjálsum vilja en ekki í gegnum kúgunartæki skattheimtunnar. Sveigjanlegir og drífandi einkaaðilar taka við af stöðnuðum opinberum stofnunum í aðhlynningu sjúklinga, umönnun leikskólabarna, kennslu grunnskólabarna og aðstoð við aldraða.

Samkeppni á frjálsum markaði er nefnilega ekki bara eitthvað sem gagnast neytendum í leit að strigaskóm, gleraugum, bílum og tölvum. Rekstraraðili sem óttast samkeppni stendur sig betur en hinn sem þarf ekki að óttast neitt slíkt, eins og hið opinbera. Rekstraraðili sem fær að græða á rekstri sínum leggur mikið á sig til að svo megi verða. Græði hann meira en gengur og gerist laðar slíkt að sér samkeppnisaðila í leit að vænum bita. Sömu lögmál hagfræðinnar gilda alls staðar og knýja áfram hugmyndaauðgi, frumkvæði, hagræðingu og útsjónarsemi hjá einkaaðilum, en doða, stöðnun og sóun hjá opinberum aðilum.

Núna eru Alþingismenn komnir í sumarfrí og sveitastjórnarfulltrúar uppteknir við að raða sér í nefndir og meirihluta. Nýtum tækifærið og ímyndum okkur lífið án þeirra allt árið.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag, fimmtudaginn 21. júní.


Mun gervigreind segja að Manhattan sé sokkin í sæ?

Gervigrein er mögnuð. Hún mun leysa af hólmi rándýra lögfræðinga í náinni framtíð. Hún mun gera störf lækna mun auðveldari. Hún mun hjálpa okkur í daglegu lífi.

En hún mun líka segja einhverja vitleysu.

Hvernig mun fullkomnasta gervigreind dagsins í dag lýsa landslagi Manhattan í New York? Þessi gervigreind mun lesa tugþúsundir af blaðagreinum, ritrýndum vísindagreinum og bókum. Hún mun kynna sér niðurstöður líkana og spádóma helstu sérfræðinga. Og gervigreindin mun segja að Manhattan sé sokkin í sæ - hlýnun Jarðar hefur brætt jöklana, hækkað sjávarborð og kaffært mörgum strandlengjum Jarðar.

Gervigreind er tæki sem er bara jafnfullkomið og það efni sem það hefur til að vinna úr. Nú er að koma betur og betur í ljós að svokölluð loftslagsvísindi eru fálm í myrkri, ágiskanir byggðar á pólitískum ásetningi og líkanasmíði sem nær ekki utan um nema brot af raunveruleikanum. Gervigreindin gleypir slíkt í sig gagnrýnislaust og gefur þau ráð til stjórnmálamanna að kaupa árabáta fyrir íbúa Manhattan.

En sjáum hvað setur.


mbl.is IBM þróar vélmenni sem rökræðir við fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forritun eða hangs í tölvum?

Það er allt gott um það að segja að fleiri læri að forrita og tileinka sér forritun á einn eða annan hátt. 

Forritun er samt ekki galdraseyði sem feykir nemendum inn í framtíðina. Þvert á móti getur áhersla á forritun stundum bara þýtt að nemendur eru settir enn lengur fyrir framan tölvuskjá þar sem þeir missa einbeitinguna og detta inn á youtube.com.

Einu sinni reyndi ég að kenna menntaskólanemendum grunnatriði Word og Excel. Mikilvægari forrit er erfitt að hugsa sér (í þeim skilningi að sá sem kann á Word og Excel er líklega að fara spjara sig betur en ella á hvaða vinnustað sem er, sem og í einkalífinu).

Þetta reyndist sumum nemendum hin hreinasta kvöl og pína. Í stað þess að rembast og reyna og prófa og mistakast og reyna aftur og heppnast var höndin á mörgum fljót á loft og uppgjafartónn í röddinni. Það var vitaskuld mín vinna að greiða úr þeim vandræðum og gleðja ungar sálir en hvernig ætli forritunarkennsla hefði lagst í mannskapinn? Ég hefði þurft að fella 70% bekkjarins þótt hann væri samansettur úr einhverjum klárustu nemendum landsins (sem var raunin í mínu tilviki). 

Sá sem á að læra forritun þarf að nenna að læra forritun. Forritun getur verið gríðarlega verðlaunandi en um leið uppspretta gremju sem reynir til hins ýtrasta á þolinmæðina. Viðkomandi þarf annaðhvort að vilja læra forritun af mikilli einlægni eða sjá alveg rosalega stór verðlaun framundan.

Svo já, kennum krökkum að forrita. Munum samt að forritunarkennsla er ekki fyrir alla og youtube.com er fyrir mörgum mun augljósari nýting á tölvutíma.


mbl.is 30 skólar fá styrk til forritunarkennslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband