Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Er sú DANSKA í öðru sæti?

Það að danska heilbrigðisþjónustan lendi í 2. sæti í þessari könnun gerir hana algjörlega ómarktæka í mínum augum. Til að útskýra af hverju þá læt ég eftirfarandi ummæli Dana um heilbrigðiskerfið þarna nægja: "Ef þú greinist með krabbamein, þá getur þú alveg eins byrjað að undirbúa útförina."

Ýkjukennt ef til vill, en lýsandi engu að síður. Félagi minn fékk að bíða í marga klukkutíma eftir lækni eina nóttina, og einn vinnufélagi beið í 4 tíma eftir lækni eftir að hafa fengið alvarlegan áverka á viðkvæmt svæði á líkamanum. 

Er þetta annað besta heilbrigðiskerfi í heimi? Jæja þá. Hvað ætli gefi plúsa í þessari könnun? Athugasemd er gerð við "greiðsluþátttöku ríkisins" við tannlækningar á Íslandi. Hvað kemur það gæðum tannlæknaþjónustu við? Er kannski ekki verið að mæla gæði heilbrigðisþjónustunnar, heldur hversu ríkisvætt heilbrigðiskerfið sé? Nei varla þar sem Hollendingar eru einkatryggðir fyrir heilbrigðisþjónustu meira en víðast hvar annars staðar í heiminum. Væntanlega margar athugasemdir verið gerðar við það.

En að það danska sé það annað besta? Eitthvað er bogið við það.


mbl.is Íslenska heilbrigðisþjónustan sú þriðja besta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu skattgreiðendur sjá einhvern mun?

Það er alveg ágætt að ríkisreksturinn sé tekinn til endurskoðunar og að reynt sé að finna hvar er hægt að finna fitu til að skera af. Mig grunar samt að engin slík fituskerðing sé að eiga sér stað hér, enda ekki eitt orð að finna um uppsagnir hjá hinu opinbera í kjölfar endurskipulagningar. Launakostnaður er langstærsti útgjaldaliður hins opinbera, og nema gripið sé til uppsagna þá mun enginn sparnaður nást fram. Svo einfalt er það, að því ég best get séð.

Enn á að færa verkefni til sveitarfélaga. Sveitarfélög hafa notað aukið verkefnaálag sem afsökun fyrir óráðsíu og útþenslu og síðan ásakað ríkið fyrir að hafa hellt yfir sig fyrirmælum og verkefnum án þess að láta "tekjustofna" fylgja. 

Stórar ríkisstofnanir hafa einnig útþensluáráttu. Samkeppnis- og Fjármálaeftirlitið eru dæmi um opinberar stofnanir sem heimta sífellt meira fé og starfsfólk og enginn þorir að mæla í mót kröfum þeirra. Þó má setja stór spurningamerki við að verk þessara stofnana skili einhverjum árangri umfram það sem frjáls samkeppni og markaðsaðhald gætu veitt í fjarveru reglugerðafargans og opinberra afskipta og eftirlits.

Það er gott og blessað að endurskipulagning eigi sér stað. Ég efast hins vegar um að þessi sem nú er ráðist í muni gagnast skattgreiðendum mikið, nema uppsagnir hjá hinu opinbera verði raunin, og það í stórum stíl.


mbl.is Viðamiklar breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

(Obama + Bernanke) = (Bush + Greenspan)^2 ?

Þeir sem höfðu eitthvað á móti efnahagsstjórn George W. Bush og Greenspan á sínum tíma ættu að vera mjög áhyggjufullir í dag. En sumar klappstýrur Obama velja þess í stað að skipta alveg um skoðun. Áhyggjuefnin þá eru fagnaðarefni í dag. Það sem var gagnrýnt þá fær hrós í dag.

Dæmi um klappstýru Obama sem hefur hent skipt um hagfræðistefnu síðan 2003 er Paul Krugman, nýjasti Nóbels-verðlaunahafinn í hagfræði, og hagfræðingur í anda Keynes. Segir á einum stað:

The problem is that everything Mr. Krugman now writes entirely contradicts his 2003 article, despite the fact that every fundamental problem the economy faced six years ago is now much worse. Mr. Krugman has no issues with Barack Obama and Ben Bernanke committing the same atrocities the previous administration committed. President Obama has ramped up every budget, including the military budget, while Bernanke runs the presses faster than Greenspan ever did.

Þetta er athyglisverð lexía fyrir þá sem skipta um skoðun á aðgerðum eftir því hver framkvæmir. Lexía fyrir þá sem hafa ekki gert upp við sig hvort í ríkið eigi að vera stórt eða lítið, skuldsett eða skuldlaust, krefjast hárra skatta eða lágra. Í fjarveru hugmyndafræði er hætt við að leiðin til ánauðar verði hröð - að miðstýrt ráðstjórnarríki verði umborið því forsætisráðherra þess er vinsæl, gráhærð lesbía, svo einhver handahófskennd lýsing á engri sérstakri manneskju sé tekin sem dæmi.


mbl.is Obama styður umsókn Chicago
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirlits-Ísland stækkar

Netlögregla SJSEnn eflist Eftirlits-Ísland. Nú eru netmiðlar eins og amx.is, eyjan.is og pressan.is orðnir þyrnir í augum yfirvalda þegar fréttastofur útvarps- og sjónvarpsstöðvanna, auk dagblaðanna, voru loksins orðnar að einum halelúja-kór fyrir Eftirlits- og ESB-Íslandssinnana. Hina óþægu netmiðla þarf því að setja undir sérstakt eftirlit.

Ég tel að enginn eigi að láta þetta útspil koma sér á óvart. Bönnum er að fjölga, eftirlit er að aukast, skattar eru að hækka, ríkið er að sjúga að sér fleiri og fleiri verkefni og fyrirtæki og fjölga höftum og reglum á það fáa sem enn þrífst utan hins opinbera. Þetta er einfaldlega leiðin til ánauðar sem Hayek skrifaði um á tímum seinni heimstyrjaldar. Á þeim tíma var ástæða útþenslu ríkisvaldsins stríð við vopnaða óvini. Núna er það stríð við hinn frjálsa markað sem mjög ranglega fengið stöðu blórabögguls fyrir efnahagsástandinu í dag.


mbl.is Fjölmiðlastofa hafi eftirlit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðið við loforðin

Til hamingju, Ísland, með nýja vinstristjórn. Hún mun nú taka til hendinni við að skuldsetja ríkissjóð og skattgreiðendur á bólakaf og hækka skatta. Þessu hefur verið lofað og við það verður staðið.

 Þetta skrifaði ég um miðjan maí og sé að hið viðbúna verður bráðum raunin. Öllu nýlegri ummæli mín eru svo á þennan veg:

Er Ísland eitthvað nær því að komast út úr erfiðleikum sínum? Nú er hafinn landflótti, skattar eru hækkaðir, ekki er skorið niður í ríkisrekstrinum, gjaldmiðlahöft halda áfram að lama útflutningsgreinarnar og skuldabyrði landsmanna aukin með þjóðnýtingum á skuldbindingum fyrrverandi einkafyrirtækja. Hvenær á að segja stopp?

Stoppið virðist ætla að láta standa á sér. Stjórnarandstaðan er klofin og hrædd. Stjórnarliðar að vísu klofnir, en hafa engan áhuga á að missa völdin og standa því saman gegn öllum öðrum, þá sérstaklega skattgreiðendum. Þetta er einkennilegt ástand. 

Ríkisstjórnin hefur lofað að hækka skatta og herða tökin á bæði hagkerfi og samfélagi. Við þessi loforð verður staðið. Öll önnur loforð verða sett á hliðarlínuna. Þetta er mjög fyrirsjáanleg ríkisstjórn, og enginn þarf að láta sér bregða við eitt né neitt sem hún tekur sér fyrir hendur.

Hvenær á að segja stopp?


mbl.is Miklar skattahækkanir í farvatninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vík frá, þú óhæfa vinstristjórn!

Grein mín úr Morgunblaðinu 19. september 2009:

Furðulegt er að fylgjast með því algjörlega aðhaldsleysi stjórnarandstöðu og fjölmiðla sem sitjandi ríkisstjórn er veitt. Er Ísland eitthvað nær því að komast út úr erfiðleikum sínum? Nú er hafinn landflótti, skattar eru hækkaðir, ekki er skorið niður í ríkisrekstrinum, gjaldmiðlahöft halda áfram að lama útflutningsgreinarnar og skuldabyrði landsmanna aukin með þjóðnýtingum á skuldbindingum fyrrverandi einkafyrirtækja. Hvenær á að segja stopp?

Það dylst vonandi fáum að bæði forsætis- og fjármálaráðherra landsins hafa beðið mjög lengi eftir því að fá að vera við stjórnvölinn. Til þess var fjölmiðlum, forseta Íslands og æstum múg beitt með aðferðum sem verður mjög athyglisvert að lesa um í sögubókum framtíðar. Tækifærismennskan var einstök þegar pólitískum óstöðugleika var bætt ofan á þann efnahagslega. En gott og vel. Breytinga var krafist af stórum hluta þjóðarinnar. Hver var uppskeran? Hún var ein óhæfasta ríkisstjórn Íslandssögunnar, og hún situr enn.

Þeir eru til sem segja að ríkisábyrgð á skuldbindingum banka í einkaeigu, stjórnlaus vöxtur hins opinbera seinustu árin og aukið eftirlits- og reglugerðafargan hafi verið eins konar afsprengi aukins frelsis, eða frjálshyggju, á Íslandi. Þeir hafa rangt fyrir sér. Frá Brussel streymdu fyrirmæli sem skylduðu ríkið út í stórkostlega útþenslu á eftirlitsstarfsemi sem hefur reynst vera marklaust fjáraustur. Markaðsaðhaldi var skipt út fyrir ríkiseftirlit. Áhættan var verðlaunuð þegar hún bar árangur, en þjóðnýtt þegar henni skeikaði. Þetta er andstæða kapítalismans, sem menn hallmæla nú sem aldrei fyrr.

Leiðin úr ánauð er vörðuð hugarfari sem fagnar framtakssemi einstaklinga, notkun eigin fjár til að skapa auð og gjaldþrotum þeirra sem veðja á vitlausan hest á hinum frjálsa markaði. Til að koma á slíku fyrirkomulagi þarf að afnema ríkisábyrgðir, afnema höft á viðskiptum við útlönd, minnka hið opinbera lóð á hálsi hins frjálsa markaðar og snarlækka skatta. Hafa núverandi stjórnvöld skilning á þessu? Nei. Þau eru á leið í hina áttina – þá sem afnemur ábyrgð einstaklinga með öllu og dregur sífellt meira af auði og orku landsmanna í átt að ráðuneytunum.

Ísland þarf nýja ríkisstjórn. Sú óhæfa, og vinstrisinnaða, sem núna situr, þarf að víkja. Verði það ekki raunin, þá mun Ísland ekki eiga sér viðreisnar von um langa hríð.

Svona á að bregðast við þrengingum

Hvernig bregðast einstaklingar við þegar tekjur minnka? Þeir forgangsraða útgjöldunum, losa sig við sum, skera niður þar sem það er hægt, og reyna þannig að láta enda ná saman.

Hvernig mæla stjórnmálamenn með að einstaklingar bregðist við tekjuskerðingu? Þeir boða að fólk sýni aðhald og forgangsraði útgjöldum sínum með minna sukki og auknu aðhaldi.

En hvernig bregðast stjórnmálamenn svo við tekjuskerðingu hins opinbera? Þegar litið er til Alþingis þá er það með mjög takmörkuðum niðurskurði á sumum sviðum, en glórulausri eyðslu á sumum, og þess töfraráðs að sækja sífellt meira og meira og meira í tóma vasa sárþjáðra skattgreiðenda.

Reykjavíkurborg virðist ætla sýna gott fordæmi hér, með forgangsröðun, aðhaldi og niðurskurði í rekstri. Að vísu um bara lítil 6%, en ágætt engu að síður.


mbl.is Skatttekjur dragist saman um 2,5 milljarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrst er það tóbakið, svo er það fitan, svo er það ...

Nú virðist allir sem vilja láta banna eitthvað vera komnir í stríðsbúninginn enda er mjög stjórnlynt fólk við völd á Íslandi í dag, og því freistandi að láta reyna á sitt uppáhaldsbann.

Læknar álykta nú um allskyns boð og bönn á tóbaki. Margir taka vel í slíkan boðskap því tóbak er óhollt ekki satt? Það drepur, ekki satt? Og ekki bara þá sem reykja heldur alla í kringum reykingafólkið hreinlega! Djöfulsins viðbjóður!

En heldur fólk virkilega að þar verði látið staðar numið? Ónei. Þeir sem hafa atvinnu af því að setja reglur og framfylgja þeim, þeir þurfa meira. Þær stofnanir sem fá aukin verkefni og völd vegna einhvers bannsins vilja meira og meira af boðum og bönnum til að viðhalda fjárframlögum til sín og geta haldið áfram að vaxa.

Í Danmörku, þar sem ég bý, er banngleðin aðeins öðruvísi og kannski komin aðeins "lengra" í einhverjum hræðilegum skilningi. Hér er talað um að litamerkja matvæli eftir fituinnihaldi. Ákveðnar tegundir fitu eru hreinlega bannaðar. Alls kyns efni í matvælum, sem foreldrar okkar innbyrtu í stórum stíl og varð ekkert meint af, eru á bannlistanum. Hér er meira að segja rætt um hvað ákveðnar tegundir af skóm eru hættulegar okkur og umhverfinu, og skal þá engan undra að einhver tali um að herða reglurnar. 

Þið þarna sem viljið endilega að löggjafinn ýti tóbaki úr (löglegri) sölu - leiðin til ánauðar er vörðuð mörgum smáum skrefum! Viljið þið taka það fyrsta?


mbl.is Heimdallur andvígur sölubanni á tóbaki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutverk seðlabanka er þá hvað?

Athyglisverð staðhæfing:

Talsmaður ráðgjafastofunnar segir að kreppan hafi dregið verulega úr trausti manna á fjármálastofnunum, og slíkt vantraust hafi ekki sést í langan tíma.

 Nú þykist ég vita að afar fáir hafa kynnt sér sögu og uppruna seðlabanka víða um heim, enda ekki kenndur stafkrókur um slíkt á neinum stað í hinu almenna skólakerfi, og menn þurfa að grafa slíkar frásagnir upp. Okkur er einfaldlega sagt að það séu seðlabankar reknir í öllum þróuðum ríkjum, að hlutverk þeirra sé að skapa "stöðugleika" (bæði í rekstri fjármálakerfa og verðlagi til neytenda) með stjórnun peningamagns í umferð, auk þess sem margir þeirra framleiða reglur og hafa með höndum einhvers konar eftirlit. Svona er þetta í dag, svona hefur þetta verið lengi, og svona eigi þetta að vera í framtíðinni.

Nú skall á okkur fjármálakreppa. Sú stærsta í sögunni. Með mjög sterkum rökum hefur kreppan verið rakin til, já bíddu nú við, tilvist seðlabanka og aðgerða þeirra! Kreppur fyrir tíð seðlabanka, t.d. í Bandaríkjunum, voru skarpar og oftar en ekki afleiðing mikillar peningaprentunar ríkisvaldsins til að fjármagna stríð. En þær tóku fljótt af.

Hver getur giskað á hvaða kreppa á 2. áratug 20. aldar í Bandaríkjunum hófst með skelli á hlutabréfamarkaði, miklu atvinnuleysi og allsherjar hruni hlutabréfa? Kreppan 1921-23 er svarið. Þú hefur sennilega aldrei heyrt um hana. Seðlabankinn var passífur, forsetinn fékk heilablóðfall og gat ekki gert neitt, og kreppan rann út í sandinn á 2 árum. 

Hver getur giskað á hvaða kreppa á 2. áratug 20. aldar í Bandaríkjunum hófst með skelli á hlutabréfamarkaði, miklu atvinnuleysi og allsherjar hruni hlutabréfa? Kreppan mikla 1929 er svarið, þar sem Seðlabankinn hófst strax handa við að prenta peninga, og forsetinn sópaði ríkisvaldinu og skattgreiðendum undir hrúgu skulda og bjó til allskyns atvinnubótarverkefni. Sú kreppa endaði formlega með heimsstyrjöld, en efnahagurinn jafnaði sig aldrei fyrr en aðhaldssamari stefna tók við eftir stríðið.

Seðlabankastarfsemi er slæm hugmynd og hana ber nú að grafa djúpt á ruslahaug sögunnar. Þeir valda óstöðugleika frekar en að koma í veg fyrir hann. Þeir vernda bankakerfið fyrir eðlilegri tortryggni neytenda. Þeir þynna út peninga fólks. Þeir ríkistryggja óábyrga og glæfralega hegðun og auka þar með á hana allt þar til skattgreiðendum er gert að taka skellinn. 

Tilraunin hefur nú varað í um 100 ár. Hvenær á að segja nóg komið, og aðskilja á ný ríkisvald og hagkerfi?


mbl.is Auðæfi skruppu saman og milljarðamæringum fækkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græðgi vs. áhætta - bæði þarf til

Hér vantar ekki stóru orðin. Hin svokallaða "nýfrjálshyggja" (sem enginn veit hvað er) sögð ástæðan fyrir hruni hins alþjóðlega fjármálakerfis. Fjármálafyrirtækin sögð hafa eyðilagt kapítalismann. Þegar stóru orðin eru ekki spöruð, þá er oftar en ekki góður tími til að anda rólega og grafa höfuðið úr sandinum.

Nú er til eitthvað sem heitir græðgi og annað sem heitir áhætta í viðskiptum. Oftar en ekki er drifkraftur græðginnar að reyna auka hagnað og bæta afkomu sína eða fyrirtækis síns. Við það er nákvæmlega ekkert að athuga. Menn mega kaupa hvaða lottómiða eða hlutabréf sem er fyrir eigið fé, og gíra sig upp svo lengi sem einhver er tilbúinn að fjármagna slíkt, þá einnig með eigin fé. Við tökum öll áhættu af einhverju tagi í von um að bæta hag okkar, en stærð áhættunar er svo vitaskuld fólgin í því hversu miklu við erum tilbúin að leggja undir.

Græðgi og áhættusækni eru, í stuttu máli, tvö lóð sem vega upp á móti hvort öðru. Þeir sem vilja græða mikið eru "stilltir af" af óttanum við að tapa vegna of mikillar áhættu. 

Snúum okkur nú að bankakerfinu. Það er baðað í því versta sem hægt er að baða nokkurn rekstur í: Ríkisábyrgð. Ríkisábyrgðin virkar þannig að gróði vegna áhættu er einkavæddur, en tapið þjóðnýtt. Það er ekki erfitt að gera sér í hugarlund hvaða áhrif slíkt hefur á áhættusækni. Þessu átta sig ekki allir á, að því er virðist. 

Hvers vegna er ríkisábyrgð á bankastarfsemi? Fyrir því eru sögulegar ástæður, sem hvorki eru hagfræðilegar né skynsamlegar. Þessa ríkisábyrgð þarf að afnema hið fyrsta, og um leið seðlabankastarfsemi, einokun ríkisins á peningaútgáfu og opinbera blástimplun á fjármálafyrirtækjum (í skjóli ríkisábyrgðar). 


mbl.is Þeir eyðilögðu kapítalismann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband