Bloggfærslur mánaðarins, mars 2017

ESB grýtir sína eigin höfn

Evrópusambandið ætlar ekki að hefja viðræður um viðskiptasamband þess við Breta fyrr en Bretar eru búnir að rífa sig aðeins lausari frá sambandinu. Bretar vilja hefja slíkar viðræður strax. Þetta kemur ekki á óvart.

Evrópusambandið er með eindæmum lélegt og svifaseint og svo troðfullt af mótsagnarkenndum hagsmunum að það má líkja því við ósyndan mann að reyna synda yfir sundlaug. Allt buslið og hamagangurinn dugir kannski til að halda því á floti en því verður lítið ágengt, og lokaniðurstaðan er fyrirsjáanleg: Að sökkva til botns og drukkna.

Bretar taka á meðan við beiðnum um fríverslunarsamninga við ríki um víða veröld. Heimurinn er loksins að opnast fyrir Bretum á ný. Þeir voru heimsmeistarar í verslun á sínum tíma og kunna því leikinn. Efnahagslegur styrkur er mikilvægari en bein yfirráð og það hafa Bretar líka lært. Dyr eru því að opnast fyrir þeim á meðan Evrópusambandið heldur sínum læstum.

Það sem mun gerast er eftirfarandi:

- Bretar og Evrópusambandið fara í hægfara, varfærnar og ómarkvissar viðræður um viðskiptasamband sitt

- Bretar gera fríverslunarsamninga við fjölda ríkja, þar á meðal Ástralíu, Bandaríkin og EES-ríkin

- Evrópusambandið heldur áfram að molna að innan. Þess er ekki lengi að bíða þar til Hollendingar, Frakkar og jafnvel Írar fara í sínar eigin þjóðaratkvæðagreiðslur um mögulega úrsögn. Rússar byrja líka að kroppa í áhrif frá austustu hlutum Evrópusambandsins

- Bretland heldur áfram að styrkjast efnahagslega, og þótt einhver bankastörf og önnur pappírsvinna fari úr landi mun það litlu breyta fyrir þá

Evrópusambandið var tilraun með góðan ásetning sem fékk góða byrjun en hlýtur hörmulegan endi. 


mbl.is ESB verður ekki við ákalli May
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríð til að verjast stríði

Ástandið í Sýrlandi er skelfilegt. Þar berjast vígahópar, hermenn og jafnvel óbreyttir borgarar hvern við annan. Vopnin sem barist er með koma úr öllum heimshornum. Sum koma frá Rússum, önnur frá Bandaríkjamönnum, og sum eru keypt á svörtum markaði. Trúarbrögð, menningarheimar og ríkisstjórnir eru brædd í einum stórum suðupotti og allir vilja eitthvað.

Hvernig í ósköpunum á að vinda ofan af þessu?

Sumir telja að rétta lausnin sé að senda vopn eða hermenn eða bæði á svæðið til að taka afstöðu með sumum og gegn öðrum. Sumir vilja stjórnarskipti. Sumir vilja sjálfstæði. Sumir vilja ný trúarbrögð. Sumir vilja bara fá að ráða.

Það er því óljóst hvað er hægt að gera. 

Við vitum samt ýmislegt um það sem virkar ekki.

Það sem virkar ekki er að þröngva mismunandi hópum saman innan sömu landamæra. Kúrdar vilja hvorki tilheyra Tyrklandi, Sýrlandi, Íran eða Írak. Þeir vilja sín eigin landamæri. Margir íbúar Sýrlands vilja ekki tilheyra Sýrlandi. Þeir vilja sín eigin sjálfsstjórnarsvæði. Það væri því ráð að byrja setjast niður með viðeigandi ríkisstjórnum og fá þau til að gefa eftir eitthvað af yfirráðasvæðum sínum sem þær virðast ekki hafa nein yfirráð yfir samt sem áður.

Það sem virkar ekki er að gefa aðila A þungavopn til að berja á aðila B, sem fær sín eigin þungavopn annars staðar frá. Aðsend vopn úr öllum áttum knýja bara stríðið áfram. Miklu frekar ætti umheimurinn að verða sammála um að það sem vantar ekki til að stöðva átökin eru fleiri vopn.

Flóttamenn þurfa líka athvarf, og því nær heimaslóðunum því betra. Í stað þess að einblína á að bjarga siglandi flóttamönnum á að gefa þeim þann valkost að flýja á nálægari slóðir þar sem aðbúnaður er sómasamlegur. Fé til flóttamannahjálpar á að veita til að byggja upp athvarf sem næst átökunum sem flúið er frá sem er um leið á öruggu og vernduðu svæði. 

Ástandið í Sýrlandi er skelfilegt og flókið. Þótt við vitum kannski ekki hvernig á að laga það strax vitum við ýmislegt um það sem virkar ekki. Hvernig væri að hætta því og einbeita sér að því sem virkar? 


mbl.is Fimm milljóna múrinn rofinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn of langur dagur hjá skattinum

Í frétt segir:

Frá og með mánudeginum 3. apríl verður afgreiðslutíma Ríkisskattstjóra breytt og lokar skrifstofan klukkan tvö á föstudögum og hálffjögur aðra virka daga.

Þetta er ekki nógu mikil stytting. Ég legg til að afgreiðslutíminn verði styttur niður í 2 klst fyrir hádegi á mánudögum.

En bíða þá ekki margar fyrirspurnir eftir afgreiðslu og mörgum spurningum skattgreiðenda er ósvarað? Kannski, en þá þarf að einfalda skattkerfið og lækka skatta þar til 2 klst afgreiðslutími fyrir hádegi á mánudögum er nóg fyrir alla.

Allir starfsmennirnir mega halda fullum launum mín vegna. Það er ódýrara fyrir almenning að hafa einfalt og hófsamt skattkerfi en flókið og heimtufrekt skattkerfi, nánast sama hvað starfsmenn Ríkisskattstjóra eru margir. 

Nú er bara að hefjast handa!


mbl.is Styttri vinnuvika hjá skattinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tengdasonurinn sem vann Hvíta húsið

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur boðið tengdasyni sínum Jared Kushner að fara fyrir nýrri skrifstofu í Hvíta húsinu sem hefur það hlutverk að safna hugmyndir frá viðskiptalífinu um hvernig megi straumlínulaga ríkisstjórnina.

Það kemur ekki á óvart að Donald Trump hafi fundið ráð til að koma tengdasyni sínum inn fyrir dyrnar á Hvíta húsinu. Jared Kushner hefur verið kallaður maðurinn sem vann Hvíta húsið. 

Í alveg stórkostlega fróðlegri grein á Forbes er það rakið hvernig Jared breytti kosningabaráttu Trump úr litlum hópi fólks á einni skrifstofu í vel skipulagða kosningavél. Tilvitnun:

The traditional campaign is dead, another victim of the unfiltered democracy of the Web--and Kushner, more than anyone not named Donald Trump, killed it.

Og:

For fundraising they turned to machine learning, installing digital marketing companies on a trading floor to make them compete for business. Ineffective ads were killed in minutes, while successful ones scaled. The campaign was sending more than 100,000 uniquely tweaked ads to targeted voters each day. In the end, the richest person ever elected president, whose fundraising effort was rightly ridiculed at the beginning of the year, raised more than $250 million in four months--mostly from small donors.

Með öðrum orðum: Markaðssetning framtíðarinnar, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Greinin endar svo á þessum orðum:

"I assume he'll be in the White House throughout the entire presidency," says News Corp. billionaire Rupert Murdoch. "For the next four or eight years he'll be a strong voice, maybe even the strongest after the vice president."

Mikið rétt! 

Allir ættu að fagna því að rólegur, yfirvegaður, vinnusamur og vel tengdur maður sé svona nálægt eyrum Trump. Það óska þess vonandi allir að Trump hafi slíka menn nálægt sér. 


mbl.is Tengdasonur Trump ráðinn í Hvíta húsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forgangsmál að ríkið komi sér úr veginum

Ríkisvaldið tekur hlutverk sitt í uppbyggingu vegakerfis og innviða alvarlega. Þó yfirsést því að helsta framlag þess er að standa í veginum fyrir einkaaðilum. Það er gott og vel að áætlanir séu settar saman, þær settar á fjárlög og þeim síðan fylgt eftir. Öðrum er bara fórnað í staðinn og eina úrræði fórnarlambanna er að væla í fjölmiðlum.

Ef fyrirkomulag vegalagningar væri aðeins frjálsara þyrfti ekki að mjólka eldsneytis- og bílasölu til að standa undir risastóru einokunarbatteríi sem enginn er fyllilega sáttur við en allir eru skyldaðir til að vera aðilar að.

Þeir sem vildu leggja veg gætu gert það og á einfaldan hátt rukkað fyrir aðgengið, þar sem verðlagið væri e.t.v. breytilegt eftir árstíma, tíma sólarhrings eða tegund dekkja og þyngd bifreiðar og jafnvel fjölda farþega í ökutæki. Vegamál væru ekki pólitískt þrætuepli frekar en flísalagning á einkalóðum eða viðhald vega á sumarhúsasvæðum eða tröppusmíði við Kerið eða stækkun baðaðstöðu við Bláa lónið. Þar sem er eftirspurn eftir einhverju úrræði myndast framboð. Málið leyst.

Nú þegar búið er að setja upp einhverja tölvuskjái og skilti við fjörur hlýtur næsta verkefni hins opinbera að vera það að koma sér úr veginum. 


mbl.is Saxast heldur á forgangsverkefnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er samkeppni þá allt í einu .... slæm?

Íslendingar kvarta gjarnan undan skorti á samkeppni. Þeir segja t.d. að Bónus og Krónan séu ekki í samkeppni í raun - þarna séu bara tvö stór fyrirtæki búin að skipta markaðinum á milli sín. Eins er kvartað undan því að bensínverð sé svipað á öllum bensínstöðvum, að hjólbarðaverkstæði stundi okur, að MS stundi einræðistilburði gagnvart smærri keppinautum og svona má lengi telja. Þó er hægt að stofna til samkeppnisreksturs og reyna geta betur ef menn sjá fram á að það sé ábatasamt um leið og hægt er að bjóða betra verð.

En svo snýst talið að menntun og heilbrigðisþjónustu. Hérna má alls ekki tala um samkeppni. Þvert á móti telja flestir að ríkiseinokun sé hér eina fyrirkomulagið sem tryggi gæði og þjónustu og gott aðgengi (að sjúkrarúmum á göngum spítala). Verðmiðinn skiptir þá engu máli. Aukum framlögin til rekstursins, sama hvað! Læknar og hjúkrunarfræðingar kunna ekki að stunda samkeppnisrekstur. Þá fara þeir bara alveg í kleinu og hættan er svo auðvitað sú að þeir geti rekið starfsemi sína með hagnaði, "græði á eymd sjúklinga" og þar fram eftir götunum.

Svo já, íslenska þjóðarsálin er hér klofin á geði. 

Kannski væri ráð að innleiða svolitla hagfræðikennslu í skólakerfið? Því staðreyndin er jú sú að einokun er slæm alls staðar, og samkeppni eða möguleiki á samkeppni góð alls staðar. 


mbl.is Stefnir ekki að einkavæðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beint í atkvæðagreiðslu þings takk!

Svo virðist sem hið svokallaða áfengisfrumvarp standi mjög í samfélagsumræðunni og þingmönnum. Það er því brýnt að koma því sem fyrst í atkvæðagreiðslu í þinginu og fá úr því skorið hvar það stendur. Þannig má rýma dagskrá þingsins fyrir önnur og e.t.v. brýnni mál en hvort vestrænt fyrirkomulag áfengissölu eigi að ríkja á Íslandi eða ekki.

Mér sýnist því miður margir vilja fara aðra leið og þá að svæfa málið með pappírsflóði og nefndarvinnu. Með því móti er aldrei hægt að komast neitt áleiðis og þetta mál fer að taka óhóflega langan tíma.

Þingmenn hafa flestir ef ekki allir gert upp hug sinn, enda er þetta einfalt mál og auðvelt að skilja. Er eftir einhverju að bíða?

Þingmenn, er ekki ráð að rúlla þessu máli í gegn svo almenningur geti séð hvar þið standið?


mbl.is Opin fyrir því að laga frumvarpið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostar 0 kr. að sleppa því að skrá sig

Löggjöfin á það til að vera úr tengslum við raunveruleikann. Gott dæmi er þetta:

Það kostar alls 77.560 krónur að fá leyfi til að leigja út heimili sitt á síðum á borð við Airbnb í skemmri tíma en níutíu daga á ári. Sá sem ætlar að leigja út heimili sitt á löglegan hátt á meðan hann er til dæmis sjálfur erlendis þarf fyrst að greiða þetta gjald.

Enginn nennir að standa í þessu. Fyrir utan umstangið við að skrá sig og fá alla pappíra er víst engin leið að borga rétta skatta af leigutekjunum. Flestir sleppa þessu því og leigja bara út án pappírsvinnunnar.

Það er ekkert sjálfsagðara en að leigja út húsnæði sitt eða hluta af því og gera það eins mikið og lengi og hver og einn vill. Allar hindranir á slíku eru ólíðandi inngrip í líf fólks.

Airbnb er búið að gera stórkostlega hluti fyrir íslenskt hagkerfi. Ekki hefur þurft að byggja hótel til að mæta allri eftirspurninni eftir gistirými. Ferðamenn moka gjaldeyri til landsins. Aukaherbergi hafa verið tæmd og þeim komið í notkun. Húsnæði sem stendur tómt á meðan heimilisfólkið er á ferðalagi er betur nýtt og að auki varið fyrir innbrotsþjófum og vatnslekum og öðru sem getur átt sér stað fyrirvaralaust. 

Kæri löggjafi, dragðu krumlurnar á þér út úr þessum markaði. 


mbl.is Kostar 77.560 að skrá heimagistingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkissjóðahrunið er framundan

Síðan árið 2008 hafa menn ekki lært nokkurn skapaðan hlut og sama kerfið er nú við lýði og þá. Kerfið samanstendur af seðlabönkum með einokun á peningaútgáfu, og viðskiptabönkum sem sjá um að framleiða peningana. Bankarnir njóta um leið aðgangshindrana fyrir samkeppni (margar og íþyngjandi reglur), ætlaðrar eða raunverulegrar ríkisábyrgðar á starfsemi sinni og fá í raun að spenna á sig bæði axlabönd og setja á sig belti á kostnað viðskiptavina sinna.

Hið opinbera víða um heim hallar sér svo upp að þessu viðrini sem nútímaleg bankastarfsemi er og lánar eins og enginn sé morgundagurinn. Ríkissjóðir fjölmargra stórra hagkerfa eru í raun gjaldþrota en er haldið á floti með peningaprentun og fölsku trausti.

Það kemur að því að þetta traust hverfur og þá falla ríkissjóðir eins og dómínó-kubbar, hvern ofan á annan. Hið opinbera getur e.t.v. bjargað bönkum en hver getur bjargað ríkissjóðum Ítalíu, Frakklands, Brasilíu og Spánar frá gjaldþroti? Nú eða bandaríska alríkinu?

Það er e.t.v. ekkert skrýtið við að seðlabankamaður sjái ekkert að. En hvað með okkur hin?


mbl.is Annað hrun ekki á leiðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira svona!

Margir veðja á að Íslandi haldi áfram að vera vinsæll áfangastaður ferðamanna á næstu árum. Sumir trúa ekki á það og hafa sennilega mörg góð rök fyrir því. Aðrir trúa hins svo mikið á Ísland sem ferðamannastað að þeir eru tilbúnir að fjárfesta í þeirri trú.

Einkaaðilar reisa hótel, gistiheimili, veitingastaði og verslanir eins og enginn sé morgundagurinn. Þeir eru líka að kaupa land og byggja á því. Þetta er gott. Þeir sem óttast að um blöðru sé að ræða sem springi á næstu árum þurfa ekkert að óttast því hér eru einkaaðilar að hætta eigin fé en ekki annarra. Fari svo að fjárfestingar þeirra ganga ekki upp má alltaf selja eigur, rífa hús eða innrétta upp á nýtt.

Hugsið ykkur ef íslenska ríkið fengi allt í einu tröllatrú á hótelrekstri. Stjórnmálamenn með dollaramerki í augunum myndu heimta að ríkisvaldið ausi fé í ferðamannaiðnaðinn og búast við að það nái að græða fúlgur. Fé skattgreiðenda er lagt undir í stórum stíl, hús rísa, vegir eru lagðir og allir hafa trú á verkefninu. En svo kemur hikstri. Stjórnmálamenn sem eyddu fé annarra sleppa við allar afleiðingar. Skattgreiðendur sitja uppi með reikninginn.

Ríkisvaldið veitti ætlaða ábyrgð á innistæðum banka og sú ábyrgð lenti á skattgreiðendum. Ríkisvaldið ræðst á hagsmuni og verðmætar eignir bænda með því að heimila fiskeldi á iðnaðarmælikvarða við strendur landsins. Ríkisvaldið hefur prófað sig áfram í loðdýrarækt, fasteignarekstri og mörgu fleira. Yfirleitt hefur einhver kórinn hrópað að þetta sé gott - ríkisvaldið eigi og megi stunda atvinnurekstur. En látum ekki blekkjast. Þegar hið opinbera dælir fé annarra inn í einhverja framkvæmd, og lætur möppudýr frá hinu opinbera um að hafa umsjón með öllu, þá er verið að veðsetja hinn almenna skattgreiðenda sem getur sér enga björg veitt ef og þegar illa fer. Og yfirleitt fer illa. 

Ríkisvaldið á að selja allt land í sinni eigu til einkaaðila og hvorki skylda né banna mönnum að byggja, og hvað þá að skipta sér af því hvort menn vilji rukka inn eða halda úti og vernda. 


mbl.is Ferðaþjónustuþorp við Geysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband