Bloggfærslur mánaðarins, mars 2017

Næsta skref: Koma ríkinu alveg út úr framleiðslu peninga

Nú eru fjármagnshöftin loksins liðin tíð. Þessu má nánast líkja við kraftaverk enda endast fáir hlutir jafnlengi og tímabundin höft (og tímabundnir skattar). Fögnum þessu!

Næsta skref er svo að koma ríkisvaldinu alveg út úr framleiðslu peninga. Þá meina ég að ríkið leggi niður seðlabankann og leyfi einkaaðilum að nota hvaða gjaldmiðla sem þeir vilja og jafnvel stofna til nýrra. Markaðslögmálin eiga að fá að ráða hérna. Frjálsir peningar geta ekki keppt í ríkisábyrgð heldur þurfa þeir að keppa í trausti. Líklega munu nýjir gjaldmiðlar því vera með einhvers konar akkeri eins og gull eða silfur til að auka traust á þá. 

Nú er búið að stofna einhverja nefnd sem á að vinna að því "að draga úr þeim miklu sveifl­um sem verið hafa á gengi krón­unn­ar". Ekki hljómar þetta mjög lofandi en hver veit, kannski dettur nefndarmönnum í hug að setja íslensku krónuna á gullfót og gera hana að traustasta gjaldmiðli í heimi. Næsta skref er svo að koma ríkisvaldinu úr myndinni. Það má vona!


mbl.is Auðvelt að vera vitur eftir á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn íslenski 'dauða'dómur

Bandarísk-íranskur maður og eiginkona hans hafa verið formlega ákærð fyrir að halda samkvæmi í Teheran en önnur hjón hafa verið dæmd til dauða fyrir að standa að siðspilltum samkomum. 

Fáránlegt, ekki satt? Jú vissulega, en lítum okkur nær.

Íslenskur einstaklingur heldur partý. Hann er í vinnu, á vini og stundar íþróttir. Hann er hins vegar óhræddur við að prófa nýja hluti og hafði eytt mánuðum saman í að rækta ákveðna plöntu og týna af henni laufblöðin, þurrka, mylja og vefja í pappír. Hann býður partýgestum upp á efnið, gjaldfrjálst. Flestir afþakka en einn og einn tekur boðinu. Allir eru glaðir, enginn beitir ofbeldi og enginn rænir eða er rændur. 

Nú mætir lögreglan á staðinn. Maðurinn er handtekinn. Hann játar. Hann iðrast. Honum er varpað í fangelsi og sakaskráin hans er uppfærð með mörgum svörtum blettum. 

Eftir mörg ár í fangelsi er manninum hleypt út. Hann fær hvergi vinnu. Hver vill ráða mann með flekkað sakarvottorð? Hann neyðist til að stela til að eiga í sig og á. Lífi hans sem venjulegs borgara er lokið. 

Vissulega heldur hann lífi en ríkisvaldið svipti hans lífsviðurværinu, ærunni og jafnvel vinunum. 

Lítum okkur nær. 


mbl.is Ákærð fyrir veisluhöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk áhrif til sölu

Bankar kunna leikinn, hinn pólitíska leik. Þeir hafa tryggt sér þægilega stöðu með því að fá yfirvöld víða um heim til að takmarka mjög aðgengi að markaði þeirra. Bankarnir njóta ýmiss konar forréttinda sem öðrum fyrirtækjum bjóðast ekki. Yfirvöld starfrækja seðlabanka til að framleiða fyrir þá peninga og verja þá fyrir áföllum. 

Bankarnir vita að pólitísk áhrif eru mikilvæg til að verja þægilega aðstöðu sína. Þess vegna fékk Hillary Clinton svimandi fjárhæðir fyrir nokkrar ræður á fundum banka. Fyrrverandi ráðherrar og þingmenn fá svimandi fjárhæðir fyrir svolitla ráðgjafavinnu sem felst sennilega aðallega í að hringja í vini sína innan ráðuneyta og fá aðgang að leynilegum skýrslum.

En þeir eru fleiri en bankarnir sem stunda svona leiki. Á Íslandi fá fyrrverandi þingmenn stöður framkvæmdastjóra eða talsmanna fyrir ákveðin hagsmunasamtök. Þannig er hægt að fá pólitísk áhrif.

Allt er þetta merki um of stórt ríkisvald sem ræður of miklu. Þar sem ríkisvaldið setur reglur svara fyrirtæki fyrir sig með því að kaupa sér pólitísk áhrif. Markaðslögmálin eru sett ofan í skúffu. Neytendur hafa lítið um málið að segja. Allt er ákveðið á fundum hjá hinu opinbera. 

Vernd ríkisvaldsins er oftar en ekki bara yfirskyn fyrir hnífsstungu í bakið seinna. 


mbl.is Fær 1,8 milljónir á dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilja Íslendingar ekki gefa norrænu leiðinni tækifæri?

Í ríkjum eins og Danmörku eru fjölmargir aðilar í heilbrigðisþjónustu, frá sjálfstætt starfandi læknum til heilu sjúkrahúsanna í einkaeigu. Allir eru vissulega með einhvers konar samninga við hið opinbera og tryggingafélög en neytendur njóta þess að eiga val. Heilbrigðisþjónusta er samkeppnisrekstur.  

Atvinnurekandi minn býður mér t.d. upp á heilbrigðistryggingu sem gerir það að verkum að ég kemst í alla nauðsynlega meðhöndlun um leið og hennar gerist þörf. Sé biðin hjá hinu opinbera of löng er mér hjálpað til að komast í meðhöndlun hjá einkareknum aðila í heilbrigðisþjónustu. Álagið á hið opinbera minnkar og ég fæ nauðsynlega þjónustu strax.

Fyrir svolítinn aukapening get ég látið þessa heilbrigðistryggingu ná til allra á heimili mínu. 

Þetta er hið norræna fyrirkomulag í heilbrigðisþjónustu.

Á Íslandi er talið nauðsynlegra að allir fái jafnlélega þjónustu en talið mikilvægara að svo sé en að meiri þjónusta sé í boði. Það er hið sovéska fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu.

Er ekki kominn tími til að skoða hið norræna fyrirkomulag á Íslandi? 


mbl.is Þúsundir sjúklinga eru enn á biðlistum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríksvald í frétta- og afþreyingarframleiðslu

Hjá RÚV framleiða menn fréttir og afþreyingu.

Fréttirnar endurspegla að miklu leyti skoðanir starfsmanna RÚV, eins og gengur og gerist. Fólk er fólk og viðhorf fólks, skoðanir þess og persónuleiki smitast yfir á vinnu þess. Það verður ekki umflúið.

Þess vegna á að selja RÚV og dreifa fréttamönnum RÚV á frjálsa fjölmiðla, sem keppast sín á milli um að framleiða fréttir frá ýmsum sjónarhornum sem neytendur frétta geta tekið afstöðu til. Enginn getur tekið afstöðu til frétta RÚV því þær eru fluttar hvort sem menn vilja það eða ekki. RÚV er gjallarhorn starfsmanna RÚV og enginn getur flúið, frekar en fréttir yfirvalda í Norður-Kóreu. 

Afþreyingin sem er framleidd á RÚV er eins og hver önnur afþreying sem reynir að laða til sín viðskiptavini og auglýsendur. Ef 10 manns horfa á þátt þarf RÚV að leggja hann niður, rétt eins og Stöð 2 og aðrir miðlar. Markaðslögmálin ráða því algjörlega hvaða afþreying er framleidd á RÚV. Skattfé á ekki að nota til að framleiða afþreyingu. Miklu nær væri að nýta það í annan ríkisrekstur, en helst ætti auðvitað að lækka skatta. 

Þess vegna á að selja RÚV. 

RÚV skilaði ekki hagnaði. RÚV tapaði bara minna af fé skattgreiðenda en áætlað var. 


mbl.is RÚV hagnast um 1.429 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig á að móðgast yfir öllu

Í þessu myndbandi eru gagnlegar leiðbeiningar fyrir þá sem vilja móðgast yfir öllu. Smellið á tengilinn til að læra allt um það. 

https://www.facebook.com/awakenwithjp/videos/1623024294380093/


mbl.is Hildur Lilliendahl lætur Sindra heyra það
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru menn að ruglast á orsökum og afleiðingum?

Nú á að kenna Airbnb um hækkun húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu. Kannski er það rétt. Kannski leiðir útleiga á íbúðum til ferðamanna til hækkunar á húsnæðisverði. En kannski eru menn að ruglast á orsökum og afleiðingum.

Það er ljóst að eftirspurn eftir gistirými í Reykjavík er meiri en framboð á hótelherbergjum.

Ferðamenn hafa því tvo kosti: Að sleppa því að koma til Reykjavíkur, eða leigja út íbúðir/herbergi í einkaeigu. Tíma menn að því að missa af tekjunum vegna ferðamannanna? Hvað segja litlir verslunareigendur í miðbænum við því?

Það er ljóst að ef hótelin ættu að anna eftirspurn þyrftu þau að byggja miklu, miklu meira. Slíkt gæti endað í offjárfestingm. Útleiga á íbúðum og herbergjum er því að draga úr þrýstingi á aukna hóteluppbyggingu. Því fagna sjálfsagt margir.

Það er líka ljóst að eftirspurn eftir húsnæði almennt í Reykjavík er meiri en framboðið. Borgaryfirvöld hafa rekið markvissa stefnu í þessa áttina. Þau stunda stórkostlegt lóðabrask, meðal annars á kostnað flugsamgangna á Íslandi. Er engin sök þar?

Það ætti líka að vera svo að á meðan menn mega kaupa húsnæði og eiga húsnæði þá eiga menn að fá að leigja út húsnæði. Það á ekki að vera hægt að leyfa sumt en banna annað í þessu samhengi.

Margir sem leigja út til Airbnb eru sennilega með athvarf annars staðar. Varla búa þeir á götunni. Menn fá því bæði ferðamenn til Reykjavíkur þar sem þeir eyða fé og neytendur sem búa annars staðar og eyða fé. Tvöfaldur ávinningur?

Menn gleyma því svo stundum að hækkandi verðlag sendir skilaboð: Skilaboð um að byggja eða flytja eða fjárfesta. 

Ísland er orðinn vinsæll áfangastaður fyrir ferðamann. Það tekur tíma að búa í haginn fyrir þá. Með því að leyfa einkaaðilum að stunda frjáls viðskipti er verið að senda skilaboð eins hratt og hægt er til viðeigandi aðila. Ef menn ætla sér að fikta við skilaboð verðlagsins búa menn bara til vandræði fyrir alla til lengri tíma. 


mbl.is Airbnb hækkar íbúðaverð í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessir helvítís neytendur

Eftirfarandi grein mín birtist í Morgunblaðinu í dag. Vonandi fær hún einhvern til að hugsa hlutverk stjórnmálamanna upp á nýtt!

Þessir helvítis neytendur

Íslenskir stjórnmálamenn eru talsmenn kjósenda á þingi (a.m.k. að nafninu til). Því miður eru þeir um leið andstæðingar neytenda. Hvernig stendur á þessu?

Það ætlar til dæmis að standa mjög í þingmönnum að koma á vestrænu fyrirkomulagi í áfengisverslun á Íslandi. Fyrirkomulagið skal þess í stað vera það strangasta sem finnst í okkar heimshluta. Hvers vegna? Af því að þessir helvítis neytendur kunna sér víst ekki hóf.

Nú eru viðraðar hugmyndir um að koma öflugustu leiðinni til að hætta að reykja – rafsígarettunum – í felur og bak við skattabrynju. Tiltölulega skaðlaus gufa leysir af eiturefnamettaðan tóbaksreykinn en það dugir þingmönnum ekki. Geta þeir sem vilja hætta að reykja ekki bara hætt því eða þakið líkama sinn með plástrum og troðið tyggjói í munninn á sér? Þurfa þessir helvítis neytendur endilega að blása frá sér vatnsgufu sem allar rannsóknir sýna að mörg hundruð sinnum skaðminni en tóbaksreykurinn? Nei takk, segja sumir þingmenn, og halda áfram að gera illt verra.

Síðan eru það þessir ökumenn sem þurfa að fylla vegina á leið inn og út af höfuðborgarsvæðinu. Ofan á eldsneytis- og bílaskattana á að bæta við tollahliðum til að fjármagna vegauppbyggingu. Geta þessir helvítis ökumen – neytendur gatnakerfisins – ekki bara dreift sér skynsamlega á vegina á öllum tímum sólarhrings þótt í því felist enginn hvati fyrir þá sjálfa? Nei, hér þarf að rukka nýja skatta ofan á þá gömlu. Er þá ekki snyrtilegra að selja vegina og leyfa einkaaðilum að finna leiðir til að dreifa álaginu og byggja upp flutningsgetu vegakerfisins? Einkaaðilar geta byggt farsíma- og vöruflutningakerfi. Þeir geta líka byggt vegakerfi. Þá geta neytendur hætt að vera helvítis neytendur og orðið venjulegir neytendur.

Svo er það blessað heilbrigðiskerfið. Neytendur þess geta ekki látið sig veikjast nægilega lítið til að skattgreiðslur þeirra sem skattgreiðenda dugi til að lækna þá. Þeir þurfa að sofa á göngum og bíða á biðlistum. Helvítis neytendur heilbrigðisþjónustu, látið heilbrigðiskerfið í friði! Nú eða dreifið ykkur í gleraugnaverslanirnar, frjálsasta afkima heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Þar er tekið við ykkur með bros á vör.

Svo eru það neytendur heitavatnsins og rafmagnsins. Hellisheiðarvirkjum var reist fyrir ykkur en stefnir nú í að verða risavaxið umhverfisslys og töpuð fjárfesting fyrir eigendur sína sem um leið eru skattgreiðendur sem um leið eru neytendur. Þurfið þið nokkuð allt þetta heita vatn og rafmagna? Farið í kalda sturtu og slökkvið ljósin! Helvítis neytendur.

Þingmenn eru e.t.v. talsmenn kjósenda en þeir kæra sig lítið um þessa helvítis neytendur. Kannski væri ráð að einkavæða svolítið í ríkisrekstrinum svo neytendur hætti að vera svona mikill höfuðverkur fyrir upptekna þingmenn?


Ríkið ætti að gefast upp

Mannkynssagan er full af dæmum þar sem hið opinbera reynir að standa í einhverjum rekstri með notkun miðstýrðs einokunarfyrirkomulags. Sú saga er full af mistökum, sóun, reiði, fjársvelti, offjárfestingum og vanrækslu. Sem dæmi má nefna íslenska heilbrigðiskerfið, íslenska menntakerfið og íslenska vegakerfið.

Hagfræðin kennir okkur að ef verðlag er ekki látið ráðast af framboði og eftirspurn á frjálsum markaði þá verði til sóun. Auðvitað er alveg hægt að láta ríkiseinokunarfyrirtæki reisa byggingu eða leggja vegi. Menn sjá byggingu og veg og hugsa með sér að vel hafi verið að verki staðið. Þetta er hins vegar tálsýn. Ríkið tók fé úr vösum einhverra og setti í tiltekna framkvæmd. Það fé hefði að öðrum kosti farið í eitthvað annað. Ef einkaaðili hefði lagt veginn hefði hann kannski gert það á skemmri tíma eða lengri, á öðrum árstíma, með öðrum hráefnum, öðru vinnuafli, eigin fé eða lánsfé, og rukkað háa tolla í stuttan tíma eða lága tolla í langan tíma, og allan tímann haft í huga áhuga neytenda á framkvæmdinni og vilja þeirra til að borga fyrir afnot af henni.

Nei, ríkið ákveður bara að leggja veg. Nú eða sleppa því.

Það er kominn tími til að ríkisvaldið gefist upp, hætti að innheimta skatta af eldsneyti og bifreiðum, hætti að skipta sér af því hvaða vegur er lagður á hvaða landi og komi vegakerfinu í hendur einkaaðila. 


mbl.is Vegtollar geti flýtt framkvæmdum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið gefi íbúum veginn

Ríkisvaldið getur gert hvað sem það vill við það sem það á. Það getur ákveðið að dæla fé í eitthvað eða loka á alla fjármögnun. Það getur sinnt viðhaldi eða sleppt því. Ákvarðanir um slíkt eru teknar í Reykjavík, með notkun Excel-skjala og minnisblaða. 

Íbúar í Berufirði finna núna fyrir þessu. 

Ríkisvaldið ætti hreinlega að játa uppgjöf, gefa íbúum svæðisins veginn í gegnum einhvers konar hlutafélag og hætta síðan afskiptum af honum alveg, vitaskuld gegn skattalækkunum á bíla og eldsneyti. Ríkisvaldið gæti svo haldið uppteknum hætti fyrir aðra vegspotta og hratt og örugglega komið þeim öllum úr eigu sinni og þar með verkefnalista.

Ákvarðanir um vegauppbyggingu færast þannig frá stjórnmálamönnum með hugann við næstu kosningar (hvað eru mörg atkvæði í Berufirði?) og til aðila sem hafa hagsmuna að gæta, raunverulegra hagsmuna.

Friðsæl lausn með marga kosti! Er eftir einhverju að bíða? 


mbl.is „Það eru allir sótbrjálaðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband