Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2023
Sunnudagur, 30. apríl 2023
Sem framlag til nýju íslenskunnar
Mikið af nýyrðum er á sveimi núna og einskorðast ekki við tækninýjunar. Okkur er núna sagt að kyn fólks ráðist ekki af líkama fólks, fjölda tiltekinna litninga eða því sem blasti við í fæðingu. Nei, það er ekki víst að þú sért karlmaður ef þú ert með typpi og XY-litninga eða kona ef þú ert með leg og XX-litninga.
Í stað þess að tala um konur almennt sé því betra að tala um leghafa, eins og heilbrigðismálaráðherra er vissulega byrjaður að gera.
Gott og vel. Ég hef mjög gaman af því að smíða nýyrði og vil leggja mitt af mörkum í hinni nýju íslensku.
Einstaklingar með líffæri er stuðla að vexti barns innvortis og fóðrun þess eftir fæðingu með þar til gerðri mjólk
Leghafi. Leglegur. Brjóstabera. Snípuð manneskja. Breiðmjaðma. Innvortis þvagrásarútbúin. Eggjastokkaeinstaklingur.
Einstaklingur með líffæri er má nýta til að sæða einstakling og búa til barn og með útvortis líffæri til losunar á þvagi og hitastjórnunar á sæðisfrumum
Reðurhafi. Eistnasekkshafi. Að hluta útvortis þvagrásarútbúin. Brjóstaskertur. Ómjólkandi. Standpínuhæfur. Mjómjaðma. Andlitshársekkjatíður.
Verði ykkur að góðu, stelpur og strákar og stálp og kvár og öll ykkar hin af kynjunum áttatíu og einu!
Laugardagur, 29. apríl 2023
Skrýtið að seðlabankastjóri stami
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hváði þegar honum var tilkynnt á opnum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis um skýrslu peningastefnunefndar bankans um nýjustu mannfjöldatölur á Íslandi. Það er skrýtið. Eru þetta ekki gögn sem hann nýtir til ákvörðunartöku?
Ég henti í skyndi saman nokkrum línuritum með gögnum Hagstofunnar (skjal viðhengt) sem sýna vöxt í mannfjölda á Íslandi og skipti af nokkru handahófi upp seinustu 30 árum í u.þ.b. 10 ára tímabil. Það sem ég horfi á hérna er hallatalan, þ.e. talan sem stendur við x-ið á línuritunum. Hún svarar til meðaltalsfjölgunar á ári.
Eins og sjá má hefur hallatalan, þ.e. fólksfjölgunin á hverju ári, vaxið töluvert hratt seinustu áratugi (úr u.þ.b. 2300 á ári 1990-2000 í 5900 á ári 2010-2023).
Ég finn ekki í fljótu bragði gögn um fjölda fæðinga en það kemur kannski seinna. Þá er hægt að bera saman heildarfjölgun, fjölgun vegna fæðinga og fjölgun vegna einhvers annars, t.d. innstreymis Íslendinga frá útlöndum eða innflytjenda.
Óháð því hvaða ástæða (eða ástæður) liggur að baki mjög ört vaxandi fjölgun fólks á Íslandi þá er frekar einkennilegt að helstu ákvörðunarvaldar innan íslensku stjórnsýslunnar séu ekki með allt svona á hreinu. Þeirra ákvarðanir hafa mikil áhrif á það hvort nægt húsnæði sé til fyrir þetta fólk. Sé fjölgunin mikil á skattgreiðendum þá hefur það áhrif. Sé fjölgunin aðallega á bótaþegum þá hefur það áhrif og skattgreiðendur þurfa að fá hærri reikninga, hvort sem þeim líkar betur eða verr.
Ef stjórnlaust streymi innflytjenda er að eiga sér stað þá þurfa innfæddir á Íslandi að aðlagast þeim aðstæðum, t.d. í formi hærra húsnæðis- og leiguverðs.
Þetta skiptir máli og ef seðlabankastjóri er ekki að vinna út frá raunveruleikanum þá bitnar það á þeim sem þurfa að þola sársaukann af röngum ákvörðunum hans.
Mér er bara hálf brugðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 29. apríl 2023
Unga fólkið og ímynduð vandamál
Að vera ungur er yndislegt. Maður er að kynnast fólki sem verður vinir til lífstíðar, kynnast sjálfum sér, læra á lífið, læra að vinna, læra að skemmta sér, læra á tilfinningar, læra að setja sér markmið og ná þeim, finna mörkin, læra að takast á við vonbrigði, læra að læra og allt þetta á meðan hormónar æða um líkamann sem er um leið að taka breytingum.
En það er líka nokkuð annað sem ungt fólk þarf að læra: Að láta ekki heilaþvo sig. Því miður tekst fæstum það. Ég var svo heppinn að kynnast hugsandi fólki sem skoraði á mig og ögraði hugsunum mínum. Það tók tíma - jafnvel alveg til fullorðinsára - að læra að meta þetta til fulls. Á að ráðast inn í Írak? Er hægt að bæta lífskjör með því að hækka skatta? Á að taka orð stjórnmálamanna alvarlega? Hvað með öll þessi hagsmunasamtök sem berjast fyrir friði á jörðu og réttindum minnihlutahópa? Er að marka þau öll eða bara sum? Breytist það jafnvel með tímanum?
Ég held því ekki fram að ég sjái alltaf sannleikann en þökk sé góðu fólki sem kenndi mér gagnrýna hugsun þá er ég varfærinn.
Og sem betur fer. Sá sem tekur mark á öllu sem fjölmiðlar, stjórnmálamenn, prófessorar og aðrir slíkir hópar segja er hræddur, fullur af ranghugmyndum og styður hagsmuni þeirra sem er alveg skítsama um velferð venjulegs fólks.
Tökum sem dæmi baráttu fólks með kynama (e. gender dysphoria) (orð sem finnst ekki í íslenskri orðabók en er einhvern veginn útskýrt hér). Geðlæknar og sálfræðingar hafa rannsakað slíkan ama í langan tíma og komist að því að hann hrjái um 0,005-0,014% karla og 0,002-0,003% kvenna. Þetta eru örfáir einstaklingar. Miðað við þessa tölfræði eru í mesta lagi 28 karlmenn og 6 konur með kynama á Íslandi miðað við tölur Hagstofunnar um mannfjölda. Fæstir þekkja því slíka einstaklinga og hvað þá að margir séu í skóla eða bekk eða á vinnustað með slíkum. Samúð fólks fyrir þeim sem hafa ama af einhverju tagi er eflaust mikil og engin ástæða til að fylla kennslustundir með umræðu um þennan pínulitla hóp umfram aðra, t.d. þá sem sem eru samkynhneigðir (mun stærri hópur).
Unga fólkið þarf auðvitað fyrst og fremst að tileinka sér námsefni og félagsþroska á sínum uppvaxtarárum. Þess í stað eru hugar þess fylltir af allskyns ímynduðum vandamálum, hræðsluáróðri, lygum og gagnslausu þvaðri. Unga fólkinu er kennt að vera með endalaust samviskubit yfir hugsunum sínum, venjum, lífsstíl og vali. Það fer vel með líkamann sinn en rústar þess í stað huga sínum. Það er þanið út af göfugum gildum en um leið er því kennt að horfa á heiminn eins og vondan stað hnignandi umhverfis, fordóma og yfirgangs.
Ég vona að sem flestir af yngri kynslóðunum læri að spyrna við fótum og hugsa á eigin spýtur. Ég efast samt um að það sé hægt á meðan allir eru sammála um mikilvægi þess að heilaþvo það rækilega, úr öllum áttum.
Ungt fólk harmar neysluvenjur landsmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 27. apríl 2023
Eru fatlaðir dýrasti þjóðfélagshópurinn?
Í Reykjavík vill borgarstjórn meina að málaflokkur fatlaðra skýri skuldirnar og hallareksturinn, sé ástæða þess að ekki sé hægt að fjárfesta og halda gjaldskrám í hófi, tefji nauðsynlegar fjárfestingar og kalli á útþenslu stjórnsýslunnar, enda séu þá fleiri til að kasta heitu kartöflunni á milli sín. Þetta hefur vitaskuld bæði verið leiðrétt og fordæmt enda bæði rangt og siðlaust. En stóri lærdómurinn er auðvitað sá að borgarstjórn neitar jafnvel í fallinu að hún hafi klifrað of hátt á skuldafjallið.
En minnum okkur aðeins á hverjum er í raun um að kenna: Kjósendum. Þeir hafa látið selja sér sama ógeðsdrykkinn svo árum skiptir og trúað lygum og loforðum ítrekað.
Fyrir því geta verið margar ástæður: Starfsmenn borgarinnar, sem sífellt fer fjölgandi, kjósa vitaskuld þá sem lofa að varðveita störf þeirra, í borginni búa margir bótaþegar sem borga lítið í skatt en fá mikið í bætur og vilja auðvitað halda því áfram, fólkið í austustu hverfunum sem þarf bíla og vegi og kýs minnihlutaflokkana hefur tiltölulega lítið atkvæðavægi miðað við þéttari borgarhluta þar sem eru færri börn og þar sem fólk vill frekar bjór á kaffihúsi en bíl í innkeyrslu, og svo hefur skuldasöfnunin auðvitað tafið nauðsynlega hagræðingu og skattahækkanir og miklu skemmtilegra að lifa í blekkingu á meðan það er hægt en að láta tekjur mæta útgjöldum.
Ekki bætir úr skák að þegar allir lofa öllu þá er erfitt að sjá mun á flokkum.
Engin ein lausn blasir við. Mögulega þyrfti Alþingi að liðka fyrir uppskiptingu sveitarfélaga í fleiri og smærri sveitarfélög eða leyfa bæjar- og borgarhlutum að færast á milli sveitarfélaga. Mögulega þurfa borgarbúar vænan skell í formi skattahækkana og frekari skerðinga á þjónustu og innviðum til að átta sig. Mögulega þarf fólk sem þolir ekki meiri yfirgang að flytja í næsta bæ. Kannski þurfa seinustu stóru vinnustaðirnir að koma sér í burtu og starfsfólkið fylgir með.
Sumir eru bjartsýnni á lýðræðið. Núna hljóta kjósendur að átta sig! En það held ég ekki, eins og staðan er núna. Það er enginn að tala um róttækar aðgerðir, eins og þær að borgin haldi sig við lögbundin verkefni (hljómar ekki endilega róttækt en er það miðað við ástandið í dag) og stefni á að vera með lægsta útsvar höfuðborgarsvæðisins, án biðlista (hljómar ómögulegt en er einfaldlega staðan í sumum sveitarfélögum). Áhersla minnihlutans er á eitt og eitt mál sem er í umræðunni hverju sinni, auk almennra yfirlýsinga um að ástandið sé nú ekki nógu gott og að ekkert megi ræða í ráðhúsinu.
Sjálfur bý ég í sveitarfélagi í Danmörku þar sem sósíaldemókrataískur bæjarstjóri gefur út vikulegt fréttabréf þar sem hann fer yfir ástandið, bæði gott og skítt. Hann heldur opna fundi þar sem hann hlustar í eigin persónu á áhyggjur fólks og óskir. Hann lækkar stundum skatta eða hækkar og útskýrir af hverju. Ég hef aldrei hitt hann, ólíkt borgarstjóra Reykjavíkur, en kann mjög vel við hann. Kannski Reykvíkingar eigi ekki svona borgarstjóra skilið. Kannski sá sem klippir borða en hleypur í felur þegar skólpið og myglan fer á stjá og kennir svo fötluðum um vandræðin sé nákvæmlega það sem reykvískir kjósendur eigi skilið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 26. apríl 2023
Viltu ekki veikjast? Farðu í fimm sprautur!
Ég veit ekki af hverju en blaðamaður lætur eftirfarandi eftir sér:
Tólf einstaklingar sem dvelja á Dvalarheimilinu Stykkishólmi hafa smitast af kórónuveirunni á síðustu dögum en smit barst einnig til þeirra sem búa í þjónustuíbúðum við hliðina á heimilinu. Tilkynnt var á facebooksíðu dvalarheimilisins fyrir tæpum hálfum mánuði að smit hefði greinst á heimilinu. Samkvæmt upplýsingum frá dvalarheimilinu hefur enginn veikst alvarlega en allir íbúarnir höfðu fengið fimm skammta af bóluefni.
Vissulega eru smit aldrei góð tíðindi fyrir þá sem búa á dvalarheimilum. Þetta er hrumasta fólkið. Það má ekki við miklu. En enginn íbúi veiktist alvarlega. Allir hafa fengið FIMM skammta af bóluefni, svokölluðu, gegn COVID-19.
Þess vegna hefur enginn veikst alvarlega. Eða þannig má vissulega skilja blaðamann.
Trúir þú þessu? Ertu þá með fimm skammta af sprautunni í þér?
Eða trúir þú þessu og ert með færri skammta? Þá hljóta næstu skammtar að vera handan við hornið.
Eða trúir þú þessu alls ekki? Þú veist að mögulega er veira nokkur búin að stökkbreyta sér í kvef eins og hinar kórónuveirurnar sem ganga í sífellu á milli manna. Þú veist líka að það er hægt að verjast veiru með ýmsum hætti, öðrum en sprautum. Kannski.
Kannski veistu líka, eða grunar, að sprautan veitir alls enga vernd nema í því að þurrka út sumt fólk og skilja eftir þá sem lifa hana af, sem lifa þá af veiruna líka. Hver veit.
Annars blasir við að fréttin hefði verið öðruvísi skrifuð ef einn eða tveir af fimm-skammta íbúunum hefði veikst þó ekki væri nema svolítið alvarlega. Þá hefði ekki verið minnsta á skammtafjöldann. Sú tölfræði hefði verið þurrkuð út eins og sú á vegum landlæknisembættisins á sínum tíma.
Mögulega voru skammtarnir FIMM lykillinn að því að enginn veiktist alvarlega af svolitlu kvefi. Kannski alls ekki. En nefnum nú skammtana FIMM. Þeir með FJÓRA þurfa að vara sig!
Kórónuveirusmit á dvalarheimili í Stykkishólmi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 23. apríl 2023
Tilgangslaus markmið og óleysanleg vandamál
Í ársskýrslu Umhverfisstofnunar, sem gefin var út í vikunni, stendur svart á hvítu að Ísland sé ekki að standa sig þegar kemur að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra viðurkennir að stjórnvöld verði að gefa í.
Íslendingar hafa skrifað undir markmið sem er ekki hægt að ná og búið til vandamál sem er ekki hægt að leysa.
Á Íslandi hefur losun koltvísýrings verið í nálægð á bilinu 10-12 tonn á íbúa á ári seinustu 20 ár (datt aðeins undir 10 tonn á íbúa á veirutímum þegar fólk var að sprauta sig til dauða í stofufangelsinu). Megnið af þessari losun kemur úr framræstu landi, sjávarútvegur og samgöngur leggja til um 10%, iðnaður rúmlega 10% og framlag frá annarri starfssemi er hlutfallslega enn minna.
Yfirvöld hafa áttað sig á þessu og borga núna stórfé til að moka ofan í skurði og endurheimta votlendi. En hvað með allt hitt?
Samgöngur þarf auðvitað að minnka með skattlagningu. Venjulegt fólk fær ekki að skreppa til útlanda lengur. Slíkt verður aftur frátekið fyrir efnað fólk og opinbera starfsmenn.
Hagkvæma bíla þarf líka að taka af fólki. Áhrifin á heildarlosunina eru nánast engin en sterk skilaboð send um að þjáningar þeirra efnaminni séu nauðsynlegar til að ná markmiðum hinna efnameiri. Hljómar mögulega kunnuglega í sögulegu samhengi?
Nú þegar er búið að gera notkun plastpoka erfiða fyrir fólk. Plastumbúðirnar utan um kjötið, gúrkuna, salatið og sælgætið mega ekki fara í plastpoka út úr búðinni. Þegar heim er komið þarf að þrífa ruslið og flokka í óteljandi tunnur. Skref eru sífellt tekin í átt að því að sækja yfirleitt ekki rusl heim til fólks lengur. Í stað hagkvæmra ruslabíla sem sækja mikið magn eru minni einkabílar á rúntinum á milli móttökustöðva og gáma fyrir ruslið. Ruslið má ekki urða eða brenna. Þess í stað er það sett á skip og því siglt um heimsins höf.
Allt kostar þetta svimandi fjárhæðir sem koma í skiptum fyrir sífellt minni þjónustu. Í nafni umhverfisins, auðvitað. En það er mikilvægt að efnaminna fólk fái að borga til að ná markmiðum þeirra efnameiri.
Landbúnaður losar. Aðallega er því að kenna prumpandi beljum og vinnuvélunum sem slá grasið fyrir sömu beljur. Víða er búið að taka skref í átt að því að taka kjötið úr þessum beljum og öðrum dýrum af fólki með því að gera það dýrt og þannig ná markmiðum hinna efnameiri sem hafa vitaskuld áfram efni á kjötbitanum.
Einu sinni voru tollar taldir vera gott tæki til að vernda innlenda framleiðslu og útvega peninga í opinbera sjóði. Síðan fóru ríki að ræða sín á milli um að minnka tolla og hjálpa hverjum öðrum að sérhæfa sig á opnum og frjálsum markaði, sem er alveg ljómandi sniðugt svo því sé haldið til haga. Tollar snúa nú aftur en að þessu sinni í nafni loftslags. Ekki dugir að Kínverjar séu að fjöldaframleiða varning á kostnað eigin umhverfis svo venjulegt fólk á Vesturlöndum geti endurnýjað fataskáp sinn oftar en valdastéttinni þykir við hæfi. Föt þurfa á ný að verða dýr svo hinn óbreytti launþegi kaupi minna af þeim. Hinum efnaminni munar eftir sem áður ekkert um þær verðhækkanir.
Til að ná tilgangslausum markmiðum um losun þarf að leysa hið óleysanlega vandamál að svipta almenning lífskjörum hans án þess að hann steypi yfirvöldum af stóli. Hérna horfa stjórnmálamenn sennilega mjög til Hollands þar sem stjórnvöldum á vegferð íslenskra stjórnvalda var einfaldlega ýtt til hliðar af kjósendum, með bændur í broddi fylkingar.
Mun ganga betur á Íslandi að fá efnaminna fólk til að fórna sér fyrir markmið hinna efnameiri? Forsætisráðherra segir að það þurfi að gefa í. Sjáum hvað setur.
Laugardagur, 22. apríl 2023
Þegar báknið rekst á báknið
Sem alveg sérstök afþreying hjá mér er að lesa og jafnvel lesa ítrekað fréttir af málum þar sem ríkisvaldið er að rekast á sjálft sig með ýmsum hætti. Kælirinn á Eiðistorgi er auðvitað orðið frægt dæmi en mun fleiri, nýleg dæmi finnast. Þar má til dæmis nefna málið um pizzuostinn sem var ekki hægt að staðsetja rétt í tollflokk. Síðan er það urðun kindahræanna sem yfirvöld þrýstu á að færi fram ólöglega en óbreyttur borgari náði að spyrna við fótum.
Báknið er orðið svo stórt að það er byrjað að hrasa um sjálft sig og slíkt bitnar á almennum borgurum og fyrirtækjum. Það er því miður hin leiðinlega hlið á annars skoplegu ástandi.
Kannski mætti afnema tolla, láta bændur um að urða hræ á löglegan hátt og færa áfengissölu í aðeins vestrænna horf, eða hvað?
Geta loks keypt kaldan bjór | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 22. apríl 2023
Mikilvægara en áður að kynna sér málin
Ég á tvö börn sem eru sprautuð með öllum barnabóluefnunum í samræmi við áætlun danskra yfirvalda, með einni undantekningu sem ég ræði betur hér að neðan.
Þessi gömlu góðu bóluefni eru að vísu ekki þessi gömlu góðu lengur. Það er búið að sameina mörg efni í færri sprautur og lyfjafyrirtækin passa sig sjálfsagt vel á að ekkert detti úr einkaleyfi. En gott og vel, færri sprautur þýða líka minna álag á börn. Á Norðurlöndum er líka sprautað mun minna en í til dæmis Bandaríkjunum. Norræn börn fá upp undir 10 sprautur á aldursbilinu 0-14 ára (Danir hætta 12 ára eftir 7 sprautur og Íslendingar hætta 14 ára eftir 9 sprautur, svo dæmi sé tekið). Í Bandaríkjunum hlaupa sprauturnar á tugum, þar á meðal árleg sprauta gegn flensunni. Skelfing.
Önnur frávik finnast á milli dönsku og íslensku áætlunarinnar. Danir telja fjórar sprautur gegn kíghósta vera nóg, Íslendingar vilja hafa þær fimm. Danir sprauta ekki gegn mislingum en það gera Íslendingar.
Það má spyrja sig af hverju vísindin á veirutímum voru svona samstíga um að nýstárlegar mRNA-sprautur væru hollar og góðar fyrir alla á meðan Norðurlöndin geta ekki einu sinni verið sammála um mun eldri og betur rannsökuð efni, en það er önnur saga.
Ég nefndi áður að ég hafi gert undantekningu á dönsku áætluninni. Danir eru nýlega byrjaðir að sprauta 12 ára drengi gegn HPV-veirunni. Í upphafi voru bara stúlkur sprautaðar á þann hátt, og þá aðallega til að verjast leghálskrabbameini. En nú er búið að selja dönskum yfirvöldum - en ekki íslenskum - að drengir geti líka fengið krabbamein vegna HPV-veirunnar að því marki að áhættan af bólusetningunni sé minni en ávinningurinn (allar sprautur fela í sér einhverja áhættu).
Þessu hafna ég eftir að hafa kynnt mér aðeins málið og við foreldrarnir hlutum vitaskuld skammir fyrir en þær skella á daufum eyrum.
Heilbrigðisyfirvöld hafa misst töluvert af trúverðugleika sínum á veirutímum. Þau geta kennt sjálfum sér um. Þeim mistókst alveg stórkostlega og hafa ekki sýnt neina viðleitni til að biðjast afsökunar. Þessi rýrði trúverðugleiki mun vara í mörg ár - a.m.k. þar til þeir sem sáu ljósið og eru á barnseignaraldri eða að detta á hann eru komnir úr barneign. Framhaldsskólanemendur voru til dæmis sviptir að ástæðulausu árunum sem margir tala um sem bestu ár ævi sinnar og þeir fyrirgefa það vonandi ekki auðveldlega.
Slíkt vantraust kemur vonandi ekki fram í óábyrgum ákvörðunum þar sem öllu er hafnað - líka því sem virkar. En yfirvöld geta ekki lengur treyst á að eitt lúðrakall dugi til að smala fólki í sprautuhallir.
Vantraust til bólusetninga barna orðið áþreifanlegt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 21. apríl 2023
Lausn á heimatilbúnu vandamáli: Ekki búa til vandamálið
Ef Vesturlöndum tekst að koma á stríði við Rússlands ætla Rússar á gera árás til baka. Kemur sennilega einhverjum á óvart en svona virka stríð. Þau eru sjaldan þannig að innrásarher geti keyrt inn í höfuðborgina án mótspyrnu. Það ættu Rússar að kannast vel við og það ættu Vesturlönd líka að vita. Innrásir Hitlers í Pólland og Bandaríkjamanna í Írak eru undantekningarnar, ekki reglan.
En er ekki hægt að afstýra gagnárásum Rússa í stríði? Jú, með því að hætta við að reyna koma á stríði við Rússland.
Mögulega er það líka eina leiðin. Hvað þykjast Norðmenn og Íslendingar ætla að gera ef rússneskir kjarnorkukafbátar, svo er jafnvel ómögulegt að finna og hvað þá granda og geta verið í kafi svo mánuðum skiptir, byrja að klippa á strengi og rör á hafsbotni? Senda Landhelgisgæsluna? Kannski að teymi Bandaríkjamanna, Breta, Norðmanna og fleiri sem grönduðu gasleiðslum Rússa í Eystrasalti (án þess að því hafi verið svarað - ennþá) geti plantað sprengjum á þessa kafbáta eins og þeir gerðu í tilviki gasleiðslnanna en ég leyfi mér að efast.
Íslendingar taka nú þátt í að fóðra stríðsvélar í Úkraínu í stað þess að þrýsta á um samningaviðræður sem munu líklega enda með sjálfsstjórn nokkurra héraða eða breytingar á ríkisfangi einhverra íbúa eða blanda af báðu - lausnir sem hafa virkað ágætlega í öðrum heimshlutum þar sem íbúar vilja hvorki láta stráfella sig af einu stjórnvaldi né kúga sig af öðru eða sjá mögulega skjól í því að færa sig frá einum forseta til annars. Það er því við hæfi að hafa áhyggjur af gagnárásum í stríði. En kannski er betri lausn sú að búa ekki til vandamálið til að byrja með.
Raunverulegt áhyggjuefni fyrir Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 20. apríl 2023
Kæra foreldri: Þú berð enga ábyrgð lengur
Sem foreldri snýst dagskrá mín mikið til um börnin. Þau þurfa nærandi og saðsamar máltíðir, afþreyingu, tómstundir, nesti, félagsskap, nærveru, hrein föt sem passa og hæfa veðurfarinu, hlýju, nætursvefn, hvíld, klippingu, þrif og að neglurnar séu klipptar og snyrtar, svo fátt eitt sé nefnt.
Allt annað - vinnan, félagslíf og tómstundir sem fullorðinn, innkaup, útréttingar og fleira þarf einfaldlega að mæta afgangi. Einfalt, í raun.
Eða hvað?
Kannski er ég að ofhugsa þetta. Ég gef börnum mínum vítamín, svo dæmi sé tekið (og hugsa að jafnvel þótt bara brot af þeim lifi af magasýrurnar þá geri það þó það). Það er mótað í litla bangsa með jarðaberjabragði eða álíka. Þessir bangsar eru læstir inni í glasi með barnalæsingu og svolitla leikni þarf til að opna það. Yngra barn mitt elskar bragðið af þessum böngsum. Það er frábært.
En hvað ef barnið kemst í þessa bangsa? Fer að háma þá í sig? Þá er vissulega hætta á ferðum en hvað er til ráða?
Ríkisútvarp Útvaldra Viðhorfa (RÚV) er með svarið:
Helena [Líndal Baldvinsdóttir, sérfræðingur í eiturefnafræði hjá Eitrunarmiðstöð Landspítalans] segir alvarleg tilfelli hafa komið upp meðal annars þar sem börn hafa komist í melatónín í hlaupformi.
því miður er það að aukast að við erum að fá tilkynningar frá foreldrum að börnin þeirra hafa innbyrt töluvert magn af þessu. Eitranirnar geti verið sérstaklega alvarlegar ef járn er í blöndunni. Það verið mjög alvarlegar eitranir.
Þá segir Helena að fólk þurfi að hafa í huga að umbúðir utan um vörur sem þessar geti verið mjög ótraustar.
Þótt það sé barnalæsing á umbúðunum á lyfjunum þá er alltaf eitt og eitt barn sem getur opnað.
Því gildi um vítamín jafnt og önnur lyf að geyma þau þar sem börn hvorki ná til né sjá.
Auk þess myndi hún ráðleggja fólki að sleppa því að eiga bætiefni í sælgætisformi til á heimilum þar sem börn eru.
Já, ég myndi ekki mæla með því að gefa börnum þessi sykurhúðuðu vítamín. Það er ekki góð leið.
Hérna er á ferð bland í poka. Hið góða ráð að halda ýmsum efnum utan seilingar fyrir börn er sjálfsagt að minna á. En hitt - að einfaldlega hafa engin slík efni á heimilinu - er slæmt. Heimili okkar eru troðfull af efnum sem er hættuleg í of miklu magni eða jafnvel mjög litlu magni. Sem dæmi má nefna sápur, uppþvottatöflur og ýmis hreinsiefni.
Eigum við að sleppa því að hafa þessi efni á heimilinu því börn gætu komist í þau og gætu innbyrt þau?
Gott og vel, segjum að foreldrar fylgdu þeim ráðum. Geta þeir núna sleppt því að kenna börnum á hin ýmsu efni og hættur við þau? Geta börnin núna ráfað eftirlitslaus um heimilið og stungið hverju sem er upp í sig því allt er orðið svo öruggt?
Hvar eru foreldrarnir í þessari sviðsmynd? Í sófanum?
Afsakið mig en svona tal er algjör veruleikaflótti. Hættur heimsins eru endalausar og þótt foreldrar hætti að kaupa vítamínbangsa, uppþvottatöflur og hreinsiefni þá er lítið unnið til lengri tíma.
Best er að útskýra, ræða hluti og vera til staðar.
En til að skilja það er sennilega best að hætta að lesa fréttir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)