Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2018

Hestvagnasmiðir mótmæla bílaframleiðslu

Það er alltaf hjákátlegt að sjá staðnaðar starfsstéttir mótmæla nútímanum. Einu sinni var tréskóm (sabat) kastað á vélar verksmiðjanna í tilraun til að eyðileggja þær (sabotage). Núna stífla leigubílstjórar göturnar í stað þess að keyra um þær af því neytendur vilja kannski velja einhverja aðra til að keyra þá um sömu götur.

Það er ekki svo að þúsundir atvinnulausra hestvagnasmiða reika um göturnar af því bílarnir voru fundnir upp. Í staðinn fyrir að framleiða kerti úr hvalaspiki vinna hendur að því að framleiða rafala og ljósaperur. Í staðinn fyrir hestvagnasmíði vinna iðnar hendur að því að setja saman bíla. Þetta hefur verið kallað hin skapandi eyðilegging kapítalismans - hin holla og nauðsynlega endurnýjun í samfélagi sem vill bæta lífskjör almennings. 

Á Íslandi niðurgreiðir ríkisvaldið óteljandi tegundir rekstrar því stjórnmálamenn og skjólstæðingar þeirra í vernduðum greinum telja sig vita betur en neytendur. Kannski heldur það lífi í starfsstéttum en kannski veldur slíkt bara stöðnun þeirra og fátækt starfsmanna hennar. Kannski tryggja niðurgreiðslur framboð á íslensku lambakjöti í innlendum verslunum. Kannski valda sömu niðurgreiðslur því að hvatar til að koma sama kjöti á matseðil dýrustu veitingastaða heimsins eru drepnir. 


mbl.is Loka götum til að mótmæla Uber
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of mikið af háskólanámi?

Að fleiri og fleiri ljúki háskólanámi hefur verið hávær boðskapur undanfarin ár og jafnvel áratugi. Þetta er ekki heillavænleg stefna. Nú þegar afleiðingar hennar eru að koma betur og betur í ljós eru ýmsar raddir að gerast háværari sem segja að við séum með of mikið háskólanám

Fyrir slíku má færa mjög mörg rök.

Háskólanám er tímafrekt: Duglegu fólki er haldið frá atvinnumarkaðinum þar sem það gæti verið að framleiða verðmæti.

Margt háskólanám er útvatnað og óþarfi: Til að allir geti lokið háskólanámi hefur víða þurft að gera það léttara og innihaldssnauðara.

Eftirspurn eftir sumum gráðum er engin: Þegar mikið af háskólamenntuðu fólki er byrjað að raða sér á skrá yfir atvinnulausa, jafnvel í blússandi góðæri, þá er ljóst að það er engin eftirspurn eftir náminu. Hið opinbera hefur oft reynt að sjúga til sín offramboð háskólamenntaðra en það er eitruð skammtímalausn.

Margt annað nám er gert rýrara: Iðnmenntun og annað nám er oft talað niður til að gera háskólanámið heillandi. Háskólarnir sjúga til sín fé sem gæti nýst betur í annars konar námi (eða til skattalækkana).

Háskólanám er ekki fyrir alla: Þetta er viðkvæmur punktur en staðreyndin er sú að háskólanám er ekki fyrir alla. Hér geta margir þættir skipt máli: Greind, lesskilningur, áhugi á bóknámi eða geta til að halda einbeitingu.

Háskólagráða þýðir ekki endilega verðmætaskapandi þekking: Ýmsar stéttir hafa barist fyrir því að námi þeirra sé komið „á háskólastig“. Má þar nefna lögreglumenn og leikskólakennara. Þetta er bragð stéttarfélaga til að takmarka aðgengi að félagsskap sínum og vera þannig í betri stöðu til að knýja hið opinbera um launahækkanir. Hér má efast um að fjölgun námsára hafi bætt verðmætaskapandi þekkingu við námið. Hér þarf virkilega að spyrna við fótum. 

Kannski þessi áhersla á háskólanám sé óþarfi. Kannski smiðir, píparar, rafvirkjar og þúsundþjalasmiðir af náttúrunnar hendi megi þrátt fyrir allt una sáttir við sitt nám og hreykja sér af vinnu sinni þótt nám þeirra sé ekki „á háskólastigi“. Um leið geta þeir brosað af öllum sprenglærðu akademikurunum á atvinnuleysisskránni eða þeim sem standa bak við búðarborð og afgreiða cafe latté til hinna sem fengu vinnu - hjá hinu opinbera!


mbl.is Aðgengi háskólanáms stærsta spurningin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn stingur neinn fyrir vodkaflösku

Lögreglan telur fíkniefnaheiminn vera að harðna. Menn séu í auknum mæli vopnaðir. Er það skrýtið? Hver er munurinn í refsingu á að stinga og að vera tekinn með eitthvað magn af fíkniefnum á sér? Er ekki freistandi að stinga með hníf og stinga af þegar refsingin fyrir slíku er svipuð og að vera gómaður með fíkniefni á sér?

Það á að afnema bann við efnum af öllu tagi. Þar með verða viðskipti með þau lögleg, áhættan við að eiga viðskipti með þau hverfur, verðið hrapar og hvatarnir verða að öllu leyti heilbrigðari. 

Því fyrr því betra. 


mbl.is Lögreglan þurfi að huga að eigin öryggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of dýrt að taka leigubíl

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur engar skýringar á auknum akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Það er hressandi hreinskilni. Nokkrar mögulegar skýringar gætu samt verið:

  • Það er of dýrt að taka leigubíl: Menn freistast til að keyra heim til að spara sér tíuþúsundkallinn. Fyrir utan skutlarana á Facebook er enginn heppilegur valkostur við leigubílinn (t.d. Uber eða Lyft).
  • Það er of mikið vesen að taka strætó: Hann keyrir of sjaldan eða er of lengi á leiðinni. Einu sinni tók mig klukkutíma að komast frá Kringlunni í Hólahverfið í Breiðholti eftir að Kringlukráin lokaði. Ég hefði verið fljótari að labba. bb
  • Það er of langt á milli skemmtistaða: Þeim er þjappað saman á litla bletti og því langt fyrir djammarana að sækja þá með tilheyrandi ferðalögum.
  • Það er að verða auðveldara að verða sér úti um fíkniefnin: Þau eru jú ólögleg og því ekki bundin af allskyns leyfum, aldurstakmörkunum og sköttum sem hrjá löglegan neysluvarning. Það er ekki hægt að stöðva smygl eða koma í veg fyrir innlenda framleiðslu.

Ég vona að menn spari sér skýrsluskrifin og eyði frekar púðrinu í að líta í kringum sig og hugleiða hvernig lögin hvetja menn til að gera eitt frekar en annað - velja að keyra í annarlegu ástandi í stað þess að labba heim eða hoppa í bifreið sem farþegi.


mbl.is Engar skýringar á auknum fíkniefnaakstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldþrot: Hin friðsamlegu mótmæli markaðarins

Gjaldþrot fyrirtækis eru hin friðsamlegu mótmæli markaðarins. Neytendur geta sniðgengið fyrirtæki af hvaða ástæðu sem er. Kannski pyntar fyrirtækið saklausa kettlinga. Kannski eitrar það barnamat. Kannski starfa of margir hindúar hjá fyrirtækinu að mati kristinna neytenda eða of margir kristnir að mati múslíma. Kannski er eigandi fyrirtækisins of kjaftfor, ófríður eða leiðinlegur. Hver og einn neytandi getur sniðgengið hvaða fyrirtæki sem er af hvaða ástæðu sem er og það er allt í lagi.

Þess vegna er mikilvægt að einkavæða sem mest, minnka ríkisvaldið um 99% og koma sem flestu í hendur einkafyrirtækja.


mbl.is Tískufyrirtæki Ivönku leggur upp laupana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónuleg ábyrgð

Það er alltaf ánægjulegt að lesa fréttir af afreksfólki, og þurfa afrekin þá ekki alltaf að vera einhvers konar Íslandsmet. Stundum er afreksmanneskja einfaldlega sú manneskja sem hættir að kenna öllum öðrum um eigin vandamál, lærir að taka til hjá sjálfri sér og stendur upprétt í lífsins ólgusjó. 

Það er mjög í tísku að telja alla aðra bera ábyrgð á eigin vandræðum. Auðvitað á það stundum við, óneitanlega. Sá sem lendir í bílslysi og lamast af því ölvaður ökumaður keyrði á viðkomandi má alveg kenna öðrum um eigin hrakfarir. Viðkomandi þarf að aðlagast nýjum veruleika og reiða sig í meiri mæli á aðstoð annarra. Lífið er samt ekki búið þar með. Það er alltaf hægt að bæta aðstæður sínar með réttu hugarfari og með því að hugsa í lausnum frekar en vandamálum.

Persónuleg ábyrgð er gríðarlega vanmetin, sem er alveg skelfilegt. Alltof margir vilja einfaldlega fá alla heimsins aðstoð senda af himnum ofan, þar sem æðra máttarvald er ekki Guð heldur ríkisvaldið eða jafnvel mamma og pabbi. 

Er þetta foreldrum að kenna?

Eða velferðarkerfinu?

Eða sölumönnum snákaolíu?

Eða Hollywood?

Eða okkur sjálfum kannski, fyrst og fremst?


mbl.is Byrjar 17 ára í læknisfræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítir í Afríku

Hvíti maðurinn á ekki sjö dagana sæla í Afríku. Þar er hann pyntaður, rændur og jafnvel myrtur og enginn segir neitt, sérstaklega ekki alþjóðlegir fjölmiðlar.

Auðvitað var nýlendustefnan engin mannúðarstefna (þótt það að hafa verið undir stjórn Breta á sínum tíma hafi reynst frábært veganesti fyrir slík ríki). Þó er það svo að víða í Afríku hafa lífskjör svartra versnað eftir að yfirráð hvíta mannsins urðu minni. Í forsetatíð Nelson Mandela heitins í Suður-Afríku hrundu til dæmis lífskjör allra íbúa þökk sé sósíalískum stjórnarháttum. Þar má bókstaflega sýna fram á að það sem tók við af aðskilnaðarstefnunni hafi bitnað með neikvæðum hætti á lífskjörum svartra íbúa, og auðvitað hvítra líka.

Í Suður-Afríku í dag eru hvítir bændur myrtir, pyntaðir, rændir og drepnir og enginn segir neitt. Falli hins vegar einn sjaldgæfur nashyrningur logar allt á Vesturlöndum. Þetta er hræsni, svo vægt sé til orða tekið. 

Það er gott að hugarfarsbreyting sé að eiga sér stað í Simbabve, en hún kostaði ótal mannslíf. Er Suður-Afríka núna að fara í gegnum sama ferli? 


mbl.is Hætta að taka land af hvítum bændum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einokunargeðklofinn

Íslendingar elska einokun, hata hana og elska að hata hana um leið og þeir biðja um hana.

Þannig vilja Íslendingar að ljósmæður séu ríkisstarfsmenn en bara á meðan þær sætta sig við kjör sín og halda áfram að taka á móti börnum. Hins vegar hefur enginn beðið um ríkisvæðingu smiða, rafvirkja og pípara því allir vita að það er ávísun á biðraðakerfi og verkföll meðal þeirra.

Þannig vilja Íslendingar að ríkið eitt megi selja áfengi þótt það þýði dauða hverfiskaupmannanna á kostnað stórmarkaða með bílastæði nálægt næstu áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Um leið sakna margir hverfiskaupmannanna og kvarta yfir löngum bílferðum í næstu verslun.

Þannig vilja Íslendingar að ríkið eitt eigi vegina og haldi áfram að vanrækja þá en að flugsamgöngur í umsjón einkaaðila haldi áfram að kosta minna og þægindin í fluginu að aukast.

Þannig vilja Íslendingar að bankakerfið fái að starfa undir verndarvæng ríkisstofnunar sem hefur beinlínis það markmið að rýra kaupmátt peninga okkar og láta innistæður liggja undir skemmdum á bankareikningum. Fatahreinsanir, sem taka líka við verðmætum okkar, eiga hins vegar að passa óaðfinnanlega vel upp á flíkurnar sem þær fá inn og helst að skila þeim af sér í betra ástandi en áður.

Þannig sætta Íslendingar sig við rándýrar sjúkratryggingar sem bjóða upp á biðraðir, sumarlokanir, vinnutap, lélegan húsakost og stressað starfsfólk á tvöfaldri vakt. Um leið verða þeir brjálaðir ef bílatryggingin hækkar örlítið í verði og skipta hiklaust um tryggingafélag til að spara þúsundkall á mánuði.

Þessi geðklofi er að sumu leyti skiljanlegur. Stanslaus áróður um ágæti hins opinbera dynur á okkur frá stjórnmálamönnum, ríkisfjölmiðlum og klappstýrum ríkiseinokunar. Um leið er geðklofinn óskiljanlegur því einkaframtakið er svo áberandi miklu betra að mæta kröfum okkar um þjónustu, gæði og verðlag. Starfsmenn gleraugnaverslana, farsímafyrirtækja, bifreiðaverkstæða og stórmarkaða fara ekki í verkföll. Samt sækir fólk um vinnu hjá þessum fyrirtækjum og þiggur fyrir þau laun, og viðskiptavinir streyma að til að kaupa og gera verðsamanburð og kvarta hiklaust ef þeir rekast á útrunna skyrdós í kælinum.

Það er engin ástæða fyrir ríkið til að vasast í rekstri af neinu tagi. Það er hægt að tryggja aðstoð við fatlaða, umönnun sjúklinga og kennslu á krökkum með öðrum hætti en rekstri fjárfreks, miðstýrðs, þumbalegs og ósveigjanlegs opinbers kerfis. Öll fyrirtæki þurfa ræstingarþjónustu en flest bjóða þá þjónustu út til sérhæfðra aðila. Öll þurfum við lækna og kennara á lífsleiðinni og eigum að fá að kaupa þjónustu þessara fagstétta og annarra á frjálsum markaði.

Geðklofi veldur þeim sem þjást af honum miklum og alvarlegum óþægindum og það er erfitt að lifa eðlilegu lífi með þann geðsjúkdóm. Í samhengi stjórnmálanna er geðklofi hins vegar áunnið ástand sem má losa sig við með einfaldri hugarfarsbreytingu. Eigum við ekki að leyfa okkur þann lúxus?

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag og er aðgengileg áskrifendum blaðsins hér.


Hið opinbera og klósett

Spurt er:

Hvað þarf marga opinbera starfsmenn til að setja upp eitt salerni?

Svar óskast. Það má gjarnan vera í formi brandara sem segir frá raunveruleikanum á skondinn hátt.


mbl.is Fá að setja salerni við Grjótagjá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lög um meiðyrði slæva dómgreind okkar

Það er mikið að gera hjá dómstólunum við að taka á meiðyrðamálum. Samkvæmt lögum má ekki segja hitt og þetta, gefa sumt í skyn og fullyrða annað, án þess að eiga von á stefnu fyrir dómstólum. 

En eru lög um meiðyrði gagnleg?

Í svolítilli bók eru færð rök fyrir því að svo sé ekki.

Bókin heitir Defending the Undefendable, og er aðgengileg hér sem PDF-skjal, rafbók og hljóðbók endurgjaldslaust, og hér á pappír gegn vægu gjaldi.  

Þar er kafli um meiðyrði og rógburð þar sem slíkt er varið sem hluti af tjáningarfrelsinu og endað á þessum orðum:

With the present laws prohibiting libelous falsehoods, there is a natural tendency to believe any publicized slur on someone’s character. ... If libel and slander were allowed, however, the public would not be so easily deceived.... The public would soon learn to digest and evaluate the statements of libelers and slanderers—if the latter were allowed free rein. No longer would a libeler or slanderer have the automatic power to ruin a person’s reputation.

Með öðrum orðum: Almenningur færi að hugsa gagnrýnið í stað þess að trúa öllu sem sagt er og skrifað á þeim forsendum að væri eitthvað ósatt á ferðinni þá munu dómstólar kveða upp úrskurð um slíkt. 

Þannig yrðu þeir sem fullyrða að færa fram sannanir ella eiga á hættu að vera hunsaðir. 

Þessu er öfugt farið í dag. Maður sem er ranglega ásakaður um eitthvað þarf að berjast fyrir dómstólum fyrir máli sínu, oft með ærnum tilkostnaði og fjárfestingu í tíma. Sá sem fullyrðir bíður bara rólegur heima hjá sér eftir stefnunni og almenningur trúir öllu á meðan dómstólar þegja. 

Er ekki kominn tími til að almenningur fái að spreyta sig í gagnrýnu hugarfari?


mbl.is Egill tapaði máli sínu fyrir MDE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband