Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Lægri laun fyrir lítið menntaða!

Úr Vefþjóðviljanum, 25. mars sl.:

Menn halda ýmsu fram í kjarabaráttu. Ekki er það allt jafn skemmtilegt.

Það var til dæmis ekki skemmtilegt að sjá þátttakendur í kröfugöngum 1. maí síðastliðinn halda á skiltum þar sem stóð „Lægri laun fyrir lítið menntaða!“

Reyndar var textinn ekki nákvæmlega svona. Hann var víst frekar „Menntun verði metin til launa“, en það er auðvitað einungis annað orðalag yfir sömu kröfu. Ef „menntun“ starfsmanna á að ráða úrslitum um laun þeirra, þá hlýtur menntunarleysi að skipta sama máli. Sá sem telur sanngjarnt að „meiri menntun“ starfsmanns skili sér í hærri launum, telur einnig sanngjarnt að lítil menntun skili sér í lægri launum.

Sá grófi misskilningur ríkir nú meðal margra háskólamenntaðra að menntun þeirra í sjálfu sér kalli á há laun. Svo er ekki. Menntun getur veitt verðmætaskapandi þjálfun sem vissulega leiðir til hærri launa en ef sú verðmætaskapandi þjálfun væri ekki til staðar. Menntun getur líka verið hlutlaus eða einskonar áhugamál sem skilar nemendanum fyrst og fremst ánægju af því að læra um eitthvað nýtt. Menntun getur svo, í verstu tilvikum, leitt til þess að fólk nýtist í minna - verður ofmenntað og ónothæft - fyllt nemendur hroka og yfirlæti og lokað dyrum fyrir þeim þegar út í raunveruleikann er komið.

Lægri laun fyrir lítið menntaða segir kannski enginn beint, en óbeint eru margir að þylja þessa þulu með því að krefjast hærri launa eingöngu af því einhver menntun kom við sögu. 


mbl.is „Háskólahugtakið útþynnt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið taki skrefið alla leið: Afnemi tekjuskatt

Ég legg til að ríkisvaldið haldi áfram að skoða breytingar á innheimtu tekjuskatts í þágu launþega á Íslandi og taki sem fyrst það skref að afnema tekjuskatta með öllu, og í leiðinni tolla, vörugjöld og megnið af launatengdum gjöldum á fyrirtæki.

Það liggur í hlutarins eðli að ef lítil lækkun á tekjuskatti eykur kaupmátt lítið þá leiði mikil lækkun til mikillar aukningar á kaupmætti. 

Ríkisvaldið ætti í leiðinni að koma sér úr ýmsum rekstri sem kostar ríkissjóð stórfé. Aukinn kaupmáttur launþega mun auka getu þeirra til að fjármagna eigin neyslu og þjónustu sem er nú innheimt í gegnum tekjuskatta. Um leið verður til samkeppni þar sem í dag ríkir ríkiseinokun.

(Það er athyglisvert að fylgjast með sumum tala um alltof litla samkeppni á t.d. markaði matvörusölu sem allir geta þó spreytt sig á, en vilja svo í engu hrófla við ríkiseinokunni sem enginn fær staðist.)

Upplagt væri t.d. að draga ríkisvaldið úr rekstri sem verður oftast fyrir áföllum vegna verkfalla opinberra starfsmanna, og koma þeim starfsmönnum á hinn frjálsa markað og þjónustu þeirra í samkeppnisumhverfi.

Þetta tvennt - að lækka skatta um heilan helling og draga ríkisvaldið út úr einhverju af alltof umsvifamiklum rekstri þess - slær því tvær flugur í einu höggi: Eykur kaupmátt neytenda, og bindur enda á verkföll opinberra starfsmanna.

Er eftir einhverju að bíða?


mbl.is Kynna breytingar á tekjuskatti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljúka já, varanlega

Ríkisvaldið getur lokið verkfallsaðgerðum endanlega með því að fleyta verkfallsstéttunum inn á sama svæði lagarammans og þeim stéttum sem fara ekki í verkfall. Og hvaða stéttir fara ekki í verkfall?

  • Þær sem geta ekki sigað verkalýðsfélögum með hótunum og jafnvel ofbeldi á atvinnurekendur.
  • Þær sem geta ekki hætt að vinna og geta samt vonast til að halda vinnunni sinni.
  • Þær sem semja, hver einstaklingur fyrir sig, við atvinnurekendur sína um kaup og kjör.

Raunar eru fjölmargar stéttir, ef stéttir skyldi kalla, sem búa við svona skilyrði. Og þótt þeim finnist kannski súrt að horfa upp á suma geta lagt niður störf án þess að missa vinnuna sína þá hef ég ekki heyrt þær kvarta mikið. Sjálfur get ég t.d. vísað til verkfræðinga. Þeir eru ráðnir og reknir eins og hendi sé veifað. Hið sama gildir um iðnaðarmenn af mörgu tagi sem eru oft þeir fyrstu sem missa vinnuna þegar kreppir að en oft ótrúlega duglegir að halda sér á floti þrátt fyrir það. 

Það er í raun gróf mismunun að leyfa sumum, í krafti ríkisvaldsins, að lama fyrirtæki og hreinlega standa í vegi fyrir fólk sem vill fara í vinnuna og jaðrar við að geta kallast ofbeldi. Og því færri sem ríkisvaldið leyfir að beita ofbeldi, því minna verður ofbeldið, ekki satt?


mbl.is „Við verðum að fara að ljúka þessu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Augljóst, eða hvað?

Ég get ekki mælt nógu sterkt með þessum pistli fyrir þá sem vilja vita aðeins meira um sögu verkfalla á Íslandi en það sem blasir við frá degi til dags núna. Pistillinn setur líka verkfallaumræðuna á Íslandi í dag í aðeins stærra samhengi. 

Þar segir meðal annars:

Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms beið afhroð í síðustu kosningum. Síðan þá hafa margir úr fyrrum stjórnarliðinu dúkkað upp í verkalýðsfélögunum. Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi alþingismað­ur og ráðherra Samfylkingarinnar, í BHM, Ólafía B. Rafnsdóttir, kosningastjóri Árna Páls Árnasonar í formannskjöri Samfylkingarinnar árið 2012, í VR, Drífa Snædal, fyrrum varaþingmað­ur og framkvæmdastjóri Vinstri grænna, í Starfsgreinasambandinu. Óðinn veltir fyrir sér hvort þetta ágæta fólk ætli að særa ríkisstjórnina í pólitískum leik á kostnað launþega.

Á öðrum stað segir, í svipuðum dúr:

Það fer ekki framhjá neinum að vinsældir ríkisstjórnarinnar eru í algerri lægð og er jafnvel talað um að lögð verði fram vantrauststillaga. Með því að keyra fram verkföll og illindi á vinnumarkaði má ganga langt til að þurrka út þann bata sem þó hefur orðið í íslensku efnahagslífi og grafa þar með enn frekar undan ríkisstjórninni.

Ég hef ekki séð neitt svar við hugleiðingum af þessu tagi og ætla að leyfa mér að túlka þögnina sem vandræðalegt samþykki. Kannski verður forsætisráðherra svarað, en miðað við reynsluna fær hann líklega ekki neitt málefnalegt til að moða úr (og getur stundum verið ómálefnalegur sjálfur og skal þá kannski ekki undra að honum sé svarað með upphrópunum frekar en andsvörum). 

Verkalýðshreyfingin á Íslandi ætlar að sópa allri reynslu og sögu og jafnvel skilningi á gangverki hagkerfis undir teppið og endurtaka grimman leik þar sem launafólk er notað eins og peð í baráttu stjórnmálamanna um völd. Blasir þetta ekki við?


mbl.is Nýtt stöðu sína í pólitískum tilgangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein tölva eða tíu lögfræðingar?

Hvernig stendur á því að ríkisvaldinu tekst oftar en ekki verr að hagræða en einkaaðilum? Fyrir því eru auðvitað margar ástæður. Það er erfitt að reka ríkisstarfsmenn, þeir verða að vinna innan fyrirfram skilgreindra regluramma (af góðum ástæðum), og stjórnendur eru að eyða annarra manna fé, svo dæmi séu tekin.

Ríkisvaldið sóar því gríðarlegu fé og það er engum í hag nema þeim sem sitja við spenann á ríkisgyltunni og drekka þar úr vösum skattgreiðenda.

Á einum stað er sagt:

Ein tölva myndi leysa af hólmi tugi ríkisstarfsmanna.

Ef rétt er þá er ekki eftir neinu að bíða, eða hvað?

Jú, það er eftir mörgu að bíða.

Í fyrsta lagi mun enginn stjórnmálamaður þora að pota í það býflugnabú sem hagsmunasamtök opinberra starfsmanna er.

Í öðru lagi verður svona hugmyndum fundið allt til foráttu. Það verður fullyrt að allt fari til fjandans, að heilsu og öryggi fólks verði ógnað, að mikil óvissa skapist, og svona mætti lengi telja.

Í þriðja lagi mun kerfið sjálft bregðast við með ýmsum hætti: Framkvæmdir dragast á langinn, málið svæft í nefndum og starfshópum, innleiðingarferlum klúðrað með miklum kostnaði, uppsagnir tafðar, og svona mætti lengi telja.

Hugmyndin er góð, en hún er því miður dauðadæmd. 


Lausn á verkfallsdeilu BHM: Einkavæða störf BHM-meðlima

BHM er í kjaradeilu við ríkið. Lítið þokast. Verkföll BHM bitna á fjöldamörgum fyrirtækjum. Ríkissjóður er tómur. Málið er erfitt.

Lausnin blasir samt við. Ríkisstjórnin ætti að setja sér það markmið að koma öllum rekstri sem meðlimir BHM sjá um út á hinn frjálsa markað (eða leggja hann niður ef hann reynist óþarfur).

Ég tek hér af handahófi eitt dæmi af lista yfir aðildarfélög BHM:

Dýralæknafélag Íslands inniheldur dýralækna sem sjá m.a. um að taka út aðbúnað dýra og votta slátrun dýra eða svo skilst mér. Þetta er rekstur sem líkist um margt skoðun bifreiða, sem er nokkuð sem var einkavætt á Íslandi fyrir mörgum árum. Þessa starfsemi mætti hæglega einkavæða í snatri. Við tækju einkarekin vottunarfyrirtæki eins og tíðkast á ótalmörgum sviðum.

Kjaradeilur dýralækna yrðu þar með úr sögunni sem hápólitískt mál, og afkoma heilu fyrirtækjanna yrði ekki lengur háð einhverri sátt um hina einu réttu launaskrá. 


mbl.is Verið að ræða efnisatriði málsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbrögð við fylgishruni

Ríkisstjórnin mælist með alveg svakalega lítinn stuðning í skoðanakönnunum. Gott og vel - það gerði fráfarandi ríkisstjórn líka, meira og minna allt kjörtímabil hennar.

Það er samt athyglisvert að bera saman viðbrögð þessara tveggja ríkisstjórna við fylgishruni sínu.

Sú sem yfirleitt er kennd við vinstri keyrði harðar á stefnumál sín og það sem mætti kalla hugsjónir ríkisstjórnarflokkana. Skattar voru hækkaðir. Sköttum var fjölgað. Icesave-málum var rúllað í gegnum Alþingi til að liðka fyrir ESB-umsókn. Seðlabankastjóri var skipaður úr hópi vinstrimanna. Þrotabú banka voru seld á spottprís til sérvalinna kröfuhafa til að friðþægja ESB. Flokksmenn voru skipaðir hingað og þangað, í embætti og nefndir og hvaðeina. Ríkisvaldið var þanið út með skattahækkunum, boðum, bönnum og nýjum stofnunum, auk skuldsetningar.

Ríkisstjórnin herti í stuttu máli róðurinn að markmiðum sínum.

Hvað gerir núverandi ríkisstjórn? 

Hún hendir stefnumálum sínum með auknum hraða út. Engir skattar eru lækkaðir svo neinu nemur. Ekkert er dregið til baka af skemmdarverkum fráfarandi ríkisstjórnar. Ráðherrar hlaupa í felur þegar hljóðnemar blaðamanna nálgast. Ekkert sem er umdeilt er gert. Engan má styggja, og engan skal styggja. Meira að segja RÚV heldur sínu, og verkalýðsfélög og önnur handbendi vinstriflokkanna fá að leika lausum hala. 

Þetta eru gjörólík viðbrögð við svipaðri aðstöðu.

Eitt eiga þessar ríkisstjórnir samt sameiginlegt, og það er að þær fengu og fá bara eitt kjörtímabil.

Arfleið hvorrar ætli endist lengur?


Ríkiseinokunin sýnir klærnar

Verkfall meðal starfsmanna í einhverri ríkiseinokuninni sýnir vel hvað ríkiseinokun er óheppilegt fyrirkomulag á rekstri. Ekki þarf að taka úr sambandi nema lítið tannhjól til að öll vélin fari að hiksta og í sumum tilvikum jafnvel brotna niður.

Nú er það svo að fólk er alltaf að stunda verkföll. Það gera flestir með því að segja upp starfi sínu og finna annað. Yfirleitt er þetta átakalaust ferli og niðurstaðan betri fyrir alla. Sá óánægði flytur sig í yfir í annað starf sem veitir honum meiri ánægju eða hærri laun (eða bæði), og einhver annar fær tækifæri til að láta ljós sitt skína. 

Verkfallsstéttirnar, eða a.m.k. þeir sem telja sig tala fyrir hönd annarra, stunda því miður grófari aðferðir og reyna að valda sem mestum sársauka til að vekja athygli á máli sínu. 

Nú er lag fyrir yfirvöld og brjóta niður veggi ríkiseinokunar sem umlykja margs konar rekstur á Íslandi. 


mbl.is Annars flokks læknisfræði stunduð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálamenn og sjóðir

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, vill stofna sérstakan orkuauðlindasjóð sem allar arðgreiðslur frá Landsvirkjun og öðrum orkufyrirtækjum eiga að renna í. Hann á að vera varasjóður til þess að tryggja stöðugleika og jafna út efnahagssveiflur

Trúir einhver svona fyrirheitum?

Ef svona sjóður verður stofnaður mun eftirfarandi gerast:

  • Honum verður eytt jafnóðum (alltaf)
  • Honum verður eytt í hitt og þetta sem hentar stjórnmálamönnum hverju sinni
  • Framtíðarinnstreymi í sjóðinn verður veðsett gegn lántökum
  • Sjóðurinn endar á að verða að skuld
  • Landsvirkjun verður þvinguð til að greiða háar fjárhæðir í sjóðinn á hverju og þarf að byrja aðlaga rekstur sinn að þörfum sjóðsins frekar en eigin rekstrarþörfum
  • Skattgreiðendur axla á endanum ábyrgðina

Eins konar Orkuveitu-Reykjavíkur-ævintýri, nema stærra og dýrara fyrir skattgreiðendur og jafnvel raforkukaupendur. 

Ég vona að ríkið selji hlut sinn í Landsvirkjun, noti söluandvirðið til að greiða upp skuldir, rýmki regluverkið í kringum rekstur raforkuframleiðslu og -sölu töluvert og komi á samkeppnismarkaði á þessu sviði. 


mbl.is Bjarni vill stofna varasjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækifæri til að skera heilbrigðisstarfsmenn úr snörunni

Þeir sem mennta sig markvisst til að verða starfsmenn hjá rekstri sem ríkisvaldið einokar (beint eða óbeint) eru geðklofa hópur einstaklinga.

Að hluta til stefnir það auðvitað, meðvitað eða ómeðvitað, á öruggt starf með góðum lífeyrisréttindum og miklum réttindum þegar kemur að ráðningum og uppsögnum. 

Að hluta til vill það bara láta gott af sér leiða og gildir þá einu hvort við þeim taki ríkisvald eða einkafyrirtæki að loknu námi. Sá sem brennur fyrir kennslu á grunnskólabörnum eða aðhlynningu sjúklinga lætur ekki rekstrarformið flækjast fyrir sér.

Síðan eru það þeir sem halda að öllu sé best borgið innan hins kæfandi faðmlags ríkisvaldsins. Þetta mætti jafnvel heimfæra á flesta lækna og hjúkrunarfræðinga því fáir lýsa þeir yfir ókostum ríkisrekstursins, og meira að segja ekki þegar stefnir í harða kjarabaráttu og hættuástand vegna niðurnídds húsnæðis og tækjabúnaðar. Samt vita þeir alveg af augnlæknunum, lýtalæknunum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum sem starfa í bullandi samkeppnisrekstri en geta engu að síður boðið upp á aðgang að og meðhöndlun með notkun bestu fáanlegu tækni á viðráðanlegu verði.

En núna blasir við mikið tækifæri. Vinsældir ríkisstjórnarinnar eru í botni en það gerir ekkert til því enn eru 2 ár í kosningar og fyrirsjáanlegt að ríkisstjórnarflokkarnir missi meirihluta sinn ef fer sem horfir. Kjarabarátta verkalýðsstéttanna virðist ætla að lama samfélagið að stóru leyti. Það er engu að tapa!

Ríkisstjórnin ætti að keyra á gríðarlega umfangsmiklar einkavæðingaraðgerðir og festa þær í lög, fjárlög og hvaðeina og koma stórum bitum ríkisrekstrarins út á hinn frjálsa markað. Sé þetta gert hratt og vel mun einkareksturinn vera búinn að ná sér vel á strik fyrir næstu kosningar. Um leið mætti lækka alla skatta gríðarlega. Þá verður næstu ríkisstjórn - hugsanlega vinstristjórn - mikill vandi á höndum að ætla sér að sópa öllu til baka með tilheyrandi skattahækkunum og þjóðnýtingu á einkafyrirtækjum. 

Núna er tækifæri. Verður það nýtt?


mbl.is Mun ekki kasta eldivið á bálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband