Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Straumurinn að ókeypis hlaðborðinu

Tugþúsundir flóttamanna streyma nú í ókeypis hlaðborðið sem Evrópa er fyrir þá sem komast þar inn. Þetta þarf ekki að koma neinum á óvart.

Löndunum sem flóttafólkið kemur frá er stjórnað af fólki sem hefur engan áhuga á að bæta lífskjör íbúanna eða auka svigrúm þeirra til að byggja upp eigið líf og ná hamingjunni á sinni eigin forsendum. Það er staðreynd. Þetta eru lönd sem banna flest og sníða fólki mjög þröngan skatt. Oft blossa upp átök þegar einn hópur stríðsmanna reynir að hrifsa völdin af öðrum hópi stríðsmanna. Almennir borgarar verða þá fallbyssufóður.

Til að sporna við þessu ástandi hefur eftirfarandi oftast verið nefnt:

  • Að auka kostnað smyglaranna við starfsemi sína og þvinga þá þannig til að taka enn meiri áhættu í skiptum fyrir enn meiri ágóða. Um þetta er m.a. fjallað hér.
  • Að reyna undanskilja suma frá gjafaborði Evrópuríkjanna með mismunun.
  • Að reyna dreifa fjöldanum víðar, sem endar nú samt oft á því að heilu borgirnar þarf að byggja undir flóttafólk og innflytjendur.

Það sem þyrfti samt að gerast er:

  • Að Evrópuríkin hverfi af braut velferðarríkisins og geri hvern og einn, e.t.v. í samvinnu og samstarfi við aðra, ábyrgan fyrir eigin framfærslu, menntun, börnum, atvinnuleysistryggingum og elli, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta fyrirkomulag dregur að sér duglega einstaklinga sem átta sig um leið á því að sumir þurfa á aðstoð að halda og veita hana með frjálsum framlögum eða einhvers konar rekstri sem höfðar til þeirra sem þurfa á aðstoð að halda.
  • Að Evrópuríkin hætti að gera málefni flóttamann og innflytjenda að einhverju pólitísku máli þar sem eitt gengur yfir alla, og veiti eigendum lands og vinnustaða þess í stað réttinn á ný til að ákveða sjálfir hverjir komast inn og hverjir ekki. 
  • Að stjórnendum fátækra og stríðshrjáðra landa sé sagt fullum fetum að það sé þeirra eigin yfirlýsta og meðvitaða stefna sem er að valda öðrum miklum vandræðum, og að viðkomandi eigi að gera úrbætur í stað þess að rétta í sífellu út lófann og biðja um ölmusa frá þeim betur stöddu.

Sagan kennir okkur að flóttamanna- og innflytjendastraumur er alltaf frá fátækum, sósíalískum ríkjum og í átt að þeim frjálsari og kapítalískari. Besta leiðin til að hægja á þessum straumi er að gera meira af plánetu okkar frjálsa og kapítalíska. Þá getur fólk á ný fundið von um að geta náð markmiðum sínum í lífinu án þess að yfirgefa heimalandið, fjölskylduna og vinina og troða sér á lekan dall í Miðjarðarhafinu. 

Samúð mín er mikil fyrir örvæntingarfullu flóttafólki. Hún er engin fyrir harðstjórum og þeim sem verðlauna harðstjórana með ölmusa og misskildri vorkunn. Hún er líka lítil fyrir svokölluðum mannvinum sem halda að með niðurgreiðslu á fátækt fáist eitthvað annað en meiri fátækt. 


mbl.is 3.700 flóttamönnum bjargað á Miðjarðarhafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækifæri fyrir uppstokkun?

Stundum er hægt að líta á alvarlegt og snúið ástand sem tækifæri. Á Nýja-Sjálandi var landbúnaðarkerfið á sínum tíma til dæmis orðið að þungu lóði um háls íbúanna. Það krafðist mikilla styrkja, sem voru að hluta framleiddir með peningaprentun og þar með verðbólgu. Ríkisstjórnin á þeim tíma reiddi sig aðallega á atkvæði borgarbúa (vinstristjórn) og sá því upplagt tækifæri til uppstokkunar, og landbúnaðarkerfið var á stuttum tíma skorið úr snöru hins opinbera og er og hefur síðan verið eitt það frjálsasta í heiminum. Landbúnaður blómstrar á Nýja-Sjálandi í dag. Smjör þaðan fæst stundum á samkeppnishæfu verði í Danmörku, svo dæmi sé tekið. 

Mér sýnist mörg tækifæri blasa nú við stjórnvöldum á Íslandi til að einkavæða ríkisreksturinn í stórum stíl. Verkfallsstéttirnar, ef svo má kalla, eru upp til hópa kjósendur vinstriflokkanna. Þeim mætti moka í stórum hópum út úr ríkisrekstrinum. Heilbrigðis- og menntakerfið mætti einkavæða. Matvælaeftirlit mætti einkavæða (þar eru dýralæknar nú að leggja niður störf og valda stjórtjóni). Götuhreinsanir, sorphirða og ótal margt er í höndum einkaaðila víða um heim og því fjarri daglegu þrasi stjórnmálanna. 

Ríkisstjórnin ætti að líta á verkföllin og komandi verkföll sem tækifæri til að létta á ríkisrekstrinum og koma heilu afkimum hans út á hinn frjálsa markað. Því fyrr því betra, og því hraðar því betra (því ef plásturinn er rifinn hratt af mun stingurinn ganga fyrr yfir, t.d. fyrir þá sem í dag geta rétt út höndina til að fá borgað en þurfa bráðum að finna sér vinnu). 

(Verst að á Íslandi er í öllum aðalatriðunum vinstristjórn þótt hún beiti aðeins öðruvísi aðferðum en fráfarandi ríkisstjórn til að auka umsvif hins opinbera. Ég leyfi mér samt að vona.)


mbl.is Ástandið fer úr böndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband