Bloggfærslur mánaðarins, september 2014

Þegar tölur segja ekki alla söguna

Öll viðskipti við allra einstaklinga og fyrirtækja á Íslandi fyrstu átta mánuði ársins enduðu á því að 12 milljörðum var eytt í eitthvað aðkeypt umfram það sem var selt. 

Ég las til dæmis nýlega frétt um að nýtt fiskveiðiskip hefði verið keypt af einhverri útgerðinni á Íslandi, og að vinna við breytingar og endurnýjun á öðru slíku hafi verið framkvæmd erlendis. Slík útgjöld rjúka beint á mínushlið hins mikla uppgjörs á "vöruskiptum við útlönd" á meðan tekjuaukning kemur inn miklu seinna.

Ég heyrði líka frétt fyrir nokkru síðan um að Mosfellsbær hefði stöðvað áratugalanga vinnu við grjótnám á umráðasvæði sínu og vafið inn í pappírsvinnuferli sem heitir "umhverfismat". Til að fá slitsterka vegi sem endast lengur þarf því að flytja inn grjót frá hinum ónáttúruvæna Noregi. Slíkt kostar auðvitað sitt og kemur fram sem mínus á hinu mikla uppgjöri.

Ég sé svo í umræðunni á Íslandi að mjólkurframleiðsla á Íslandi er bundin inn í "kvóta". Ekki má framleiða meira en svo og svo marga lítra. Á sama tíma er erfitt að framleiða nóg skyr á Norðurlandamarkað. Þótt útflutningur á íslenskum mjólkurafurðum sé vissulega jákvæður í hinu mikla uppgjöri þá er honum haldið rækilega í skefjum, eða svo sýnist mér.

Hvað segir talan "12 milljarða halli í vöruskiptum við útlönd"? Ekki mjög mikið, og nánast ekki neitt, eða miklu meira en hún ætti að segja. Fyrir sumum þýðir hún neysla umfram framleiðslu, en fyrir öðrum fjárfesting sem er ekki byrjuð að skila sér. Sumir stjórnmálamenn túlka töluna eflaust sem merki um að þeir eigi að aðhafast eitthvað. Aðrir túlka töluna sem merki um að góðu verki sé lokið og kominn tími til að fara í frí. 

Bless, gagnslausa tölfræði. 


mbl.is Hallinn nálgast 12 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seðlunum bjargað

Eigendur séreignarsparnaðar á Íslandi forða nú fé sínu úr lífeyriskerfinu og margir jafnvel úr hinni íslensku krónu. Hluti peninganna leitar í verðmæti sem má búast við að sé alltaf auðvelt að selja, t.d. lúxusvarning ýmis konar (Rolex-úr, listaverk sem má selja erlendis) eða fasteignir á góðum stað. Aðrir skipta íslenskum krónum yfir í einhvern erlendan gjaldeyrin og halda svo sparnaði sínum í lausafé. 

Á íslenskan almenning herja þrír draugar:

  • Verðbólgan sem étur upp sparnað og minnkar lánamarkaðinn.
  • Löggjafinn sem er sífellt að hræra í öllu til að tryggja sitjandi stjórnvöldum atkvæði.
  • Vitleysan sem streymir úr mönnum sprenglærðra hagfræðinga og misviturra stjórnmálamanna. 

Allt ofangreint má í einu nafni kalla opinber afskipti af hagkerfinu. Þeirra yrði ekki saknað af öðrum en stjórnmálamönnum og opinberum embættismönnum ef þau gufuðu upp á morgun. 


mbl.is 12,5 milljarðar teknir út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona eins og í Danmörku?

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segist vera reiðubúin að skoða aðkomu annarra en hins opinbera að rekstri flugvalla.

Jahérna! Ekki vissi ég að á Íslandi væri ríkisstjórn sem leitaði fordæma til hinna Norðurlandanna! Ég hélt einmitt að þannig ríkisstjórn hefði farið frá völdum við seinustu kosningar!

Einn besti alþjóðaflugvöllur heims, sá í Kaupmannahöfn, var seldur að miklu leyti til einkaaðila á 9. áratug 20. aldar. Ríkisvaldið á tæp 40% í honum. Heimild: Wikipedia hér og hér.

Flugvöllurinn hefur batnað mikið á seinustu árum (og var þó góður fyrir). Látið mig sem mjög tíðan farþega í gegnum hann þekkja það. Þar er til dæmis nánast aldrei meira en 2 mínútna bið í öryggisleitarhliðin.  

Íslendingar ætla núna, kannski, að hleypa einkaaðilum meira að rekstri flugvalla á Íslandi. Það heitir í stuttu máli að færa hið íslenska lagaumhverfi nær því danska.

Væri það ekki góð tilbreyting ef eitthvað í frjálsræðisátt væri apað upp eftir hinum Norðurlöndunum, í stað þess að apa bara eftir ströngustu boðum og bönnun Norðurlandanna


mbl.is Fjárfestar reki hafnir og flugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kolefnislosunarsparnaðarhugmynd: Ekki mæta

Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur boðað þjóðarleiðtoga til fundar í New York til að ræða loftslagsbreytingar á morgun. Þar eru leiðtogarnir hvattir til þess að taka ábyrgð á og frumkvæði að aðgerðum til að draga úr losun á gróðurhúsalofttegund­um.

Ég er með hugmynd: Sleppa því að senda svo mikið sem einn rass á þessa ráðstefnu! Mikið af þessari hræðilegu losun (að Holuhrauni undanskildu) er vegna ýmissa ferðalaga. Ferðalög fer fólk yfirleitt ekki í nema af einhverri ástæðu. Sé ástæðan slæm er um að gera og sleppa ferðalaginu. Hérna er upplagt dæmi og jafnvel gott fordæmi fyrir þá sem hafa í raun og veru áhyggjur af því að grænt lífríki jarðar fái of mikið af kolvetni frá fyrra lífríki jarðar (sem er núna orðið að kolum og olíu).

Skattgreiðendur spara jafnvel eitthvað í leiðinni.

Tvær flugur í einu höggi? 

Ráðherrann þarf að vísu að leita annarra leiða til að útvega sér ódýrara áfengi löglega, t.d. berjast fyrir afnámi ríkiseinokunar á sölu áfengis. Það væri gott málefni. 

Þrjár flugur í einu höggi? 


mbl.is Telur sátt um olíuvinnsluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Holuhraun fari í umhverfismat

Ljóst er að Íslendingar verða að taka á sig gríðarlega skerðingu í lífskjörum til að bæta upp fyrir losun gróðurhúsalofttegunda við Holuhraun. Heimurinn má ekki við meiri losun. Núna verðum við að senda börnin okkar labbandi í rigningu og snjókomu í myrkrinu á leik- og grunnskóla og látum bílinn standa heima. Matarinnkaup fjölskyldunnar verða að breytast í langa göngutúra sem taka alla helgina á meðan bíllinn stendur heima. Matinn á að geyma í vösum yfirhafna því umbúðir flæða yfir alla náttúruna. 

Holuhraun þarf að auki að fara í umhverfismat. Gríðarlega mörg refagreni liggja undir skemmdum. Hreindýramosi fer undir hraun. Þetta þarf að kortleggja og vega og meta, helst áður en hrauninu er hleypt yfir meira svæði.

Að lokum er ljóst að rannasaka þarf áhrif eldgossins á stöðu kynjanna. Eru fleiri karlmenn en konur að njóta góðs af eldgosinu? Eldfjallafræðingar eru yfirleitt karlmenn. Þeir eru að fá yfirvinnutíma og athygli. Mótvægisaðgerða er þörf. 


mbl.is Ísland axli ábyrgð í loftslagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur það á óvart?

Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) dró úr hagvaxtarspá sinni fyrir flest þróuð ríki í morgun. Hægur efnahagsbati á evrusvæðinu hefur slæm áhrif á alþjóðaefnahaginn að sögn OECD.

Kemur það á óvart? Kemur á óvart að spámaður sem veit ekkert, sér ekkert og skilur ekkert spái rangt fyrir um framtíðina?

Látum okkur sjá.

Hjá OECD ríkir sú trú að peningaprentun leiði til hagvaxtar (sem er væntanlega skilinn sem raunverulegur vöxtur á hagkerfi en ekki bara einver tálsýn í Excel). Tilvitnun úr þeirra eigin fréttatilkynningu: "Under the continuing influence of monetary stimulation, Japan is projected to grow by 0.9 percent in 2014 and 1.1 percent in 2015."

Hjá OECD ríkir sú trú að eilíf aukning á magni peninga í umferð sé nauðsynleg til að halda neytendum kaupglöðum. Tilvitnun (ibid): "Given the low-growth outlook and the risk that demand could be further sapped if inflation remains near zero,or even turns negative, the OECD recommends more monetary support for the euro area."

Til að kóróna vitleysuna eru hér lokaorðin úr sömu fréttatilkynningu:

 With countries facing such diverging outlooks, macroeconomic policy needs are becoming increasingly diverse. “The euro area needs more vigorous monetary stimulus, while the US and the UK are rightly winding down their unconventional monetary easing,” Mr Tamaki said. “Japan still needs more quantitative easing to secure a lasting break with deflation, but must make more progress on fiscal consolidation than most other countries.”

Sem sagt: Úr því eitrið drap okkur ekki í litlum skömmtun þá skulum við taka það í stærri skömmtun. Frábært! 

Spekingarnir skilja ekki hvernig endalaus peningaprentun er ekki að leiða til meiri verðbólgu eða "hagvaxtar". Þeir vita ekkert hvað er að gerast. Þeir eru fastir í Excel. Þeir sjá ekki að hinir nýju peningar eru að leita í hlutabréfabólgur, skuldabréfabólur og aðrar bólur sem sjást illa í tölfræði yfir þróun matarverðs og verðs á skóm og dömubindum. Þeir hamast og hamast við peningaprentvélarnar en sjá aldrei tilætluð áhrif.

Sömu spekingar skilja heldur ekki hvernig alltaf lækkandi verð á t.d. tölvum og símum er ekki að senda neytendur í eilífa frestun á kaupum á þessum tækjum. Þeir skilja ekki hvernig "verðhjöðnun" á tölvum og símum er engu að síður fylgt eftir af blússandi samkeppni fyrirtækja sem skila myndarlegum hagnaði á hverju einasta ári. 

Það sem er að gerast allt í kringum OECD er aðdragandi hrinu ríkisgjaldþrota. Það sér OECD ekki. 

Íslendingar ættu að segja skilið við OECD. Þetta er greinilega kjaftaklúbbur sem skilur sig bara frá röflinu í ölvuðum unglingum að því leyti að hann kostar skattgreiðendur mikið fé.  


mbl.is OECD dregur úr hagvaxtarspá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjar umbúðir á gamalli vöru

Ríkisstjórnin ætlar að einfalda skattkerfið eitthvað. Það er gott.

Ríkisstjórnin ætlar ekki að lækka skatta að neinu ráði. Ríkisstjórnin ætlar ekki að leggja niður eina einustu skrifstofu í hinum opinbera rekstri. Skattheimta ríkisvaldsins verður svipuð og áður þótt eitthvað færist til í skattprósentum. 

Í stuttu máli: Nýjar umbúðir á gamalli vöru.

Þetta er algjört kjarkleysi. Ég tek undir hvert einasta orð í þessum pistli Vefþjóðviljans. Hin svokallaða hægri-miðjustjórn er litlu skárri en hin hreina vinstristjórn. Eftir allan þennan tíma við völd hefur ekkert sem skiptir máli breyst.

Ég hef orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum með ríkisstjórnina og í þau vonbrigði hefur bara bæst meira undanfarna daga.

Af hverju er meirihlutastjórn til dæmis að taka mark á fyrirsjáanlegu veini og væli og nýyrðasmíði frá vinstrimönnum í stjórnarandstöðu?  

Af hverju eru þingmenn hræddir við að taka almennilega til í dag þegar svo langt er til næstu kosninga? Það tekur bara 2-3 misseri fyrir hagkerfi að lifna við eftir að kaldur skrokkur ríkisvaldsins hefur verið fjarlægður af því. Það er nægur tími til að tryggja endurkjör! 

Íslendingar ætla sér að keyra sig í gjaldþrot og sjá lífskjör sín, athafnafrelsi og svigrúm til að dafna á eigin forsendum mygla niður. Svei. 


mbl.is Gríðarleg einföldun að afnema heilt gjaldakerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað kom fyrir Bandaríkin?

Bandaríkin, "draumaríki frjálshyggjumanna" og "vagga frelsins" - ekki lengur.

Hvað kom fyrir Bandaríkin? Margt hefur breyst þar á seinustu 100 árum eða svo. Eftir að Kreppan mikla skall á árið 1929 hafa Bandaríkin verið á hraðferð í átt að bjargbrúnni. Á 3. áratug 20. aldar voru bækur byrjaðar að birtast sem lýstu breytingunum og hvert þær mundu leiða landið. Má segja að margir hafi spáð hárrétt fyrir um þróun aðstæðna en sérstaklega þeir sem höfðu þjálfun í rökhugsun og vopnaðir hagfræði sem útskýrir meira en hún ruglar.  

Sem dæmi um slíkan höfund er John T. Flynn, sem fæstir hafa sennilega heyrt um. Honum ofbauð þann fasisma sem F.D. Roosevelt innleiddi til að tækla Kreppuna miklu. Margar af bókum hans eru aðgengilegar hér. Ég hef bara lesið eina þeirra en önnur er á leið á leslistann minn núna. Flynn lýsir því, í samtíma, hvað er að gerast og hvert stefnubreytingin mun leiða bandarísku þjóðina. Má segja að hann hafi reynst sannspár. 

En þetta var þá. Núna er árið 2014. Hvað er að gerast? Í stuttu máli þetta: Ríkisvaldið hefur þanist út um allt, bæði í nafni velferðar og stríðsreksturs. Bæði "neyð" almennings og "þörfin" til að senda hermenn og aðstoð út um allan heim hefur blásið ríkisvald Bandaríkjanna svo mikið út að hagkerfið er að kafna. Hið frjálsa framtak á undir högg að sækja. Obama er að reynast meðal verstu forseta Bandaríkjanna og í harðri samkeppni við Abraham Lincoln og FDR um þann titil, að mati sumra. Þessir meintu dýrðlingar í bandarískum stjórnmálum hafa markað stefnu sem leiðir á endanum til gjaldþrots þjóðar, nema borgarastyrjöld eða bylting komi fyrst.

Vestrænir vinstrimenn sjá þetta ekki. Þeir saka frjálshyggjumenn til dæmis um að líta á Bandaríkin sem einhvers konar fyrirmyndarríki. Vissulega er margt gott að finna í Bandaríkjunum eins og allstaðar, en fyrirmyndunum fer fækkandi. Frjálshyggjumenn vita betur. Meira að segja í Bandaríkjunum mæla sumir frjálshyggjumenn með utanríkisstefnu Sviss í stað þeirra sem nú er rekin þar í landi og skal það kallast hugrekki enda ekki vinsælt í Bandaríkjunum að líta til fyrirmynda annars staðar. 

Kæfandi faðmur ríkisvaldsins er fyrir löngu byrjaður að aflífa markaðinn þar í landi og þar með möguleika fólks til að vinna sig upp úr fátækt. Land tækifæranna er orðið að landi tækifærismennsku. Og ástandið fer versnandi á meðan klappstýrukór evrópskra vinstrimanna er með bundið fyrir bæði augu og eyru.  


mbl.is Hungur í ríkasta landi heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar vörur fara ekki yfir landamæri þá gera hermenn það

Nú á enn að herða að Rússum. Gott og vel, þeir eru vondi kallinn í þetta skipti og enginn þarf að efast um hernaðarmátt Rússa eða áhuga Rússa á því sem þeir kalla hagsmuni sína, svo ekki sé talað um vilja þeirra til að berjast fyrir þeim hagsmunum.

Friðsælar lausnir eru samt til í Úkraníu eins og annars staðar. Eitt stærsta vandamálið er að líta á landamæri ríkja sem einhvers konar fastar línur á kortinu. Landamæri hafa í gegnum sögu mannkyns alltaf verið að breytast.

Hvað gerist t.d. ef Austur-Úkranía fær að lýsa yfir sjálfstæði? Er það virkilega svo slæmur kostur? Aðskilnaður hóps frá því sem hópurinn vill sjálfur meina að er kúgandi og þrúgandi ríkisvald á að vera réttur allra. Á Vesturlöndum berjast menn fyrir sjálfstæði Tíbet frá Kína. Hví ekki sjálfstæði rússneskumælandi Úkraníumanna frá Úkraníu?

Mörg stríð hafa brotist út af því landamæri eru álitin einhvers konar föst stærð og að ríkisvaldið megi ekki missa neina skika úr umráðasvæði sínu. Borgarastyrjöld Bandaríkjanna er meðal þeirra (en flestir trúa því að sú styrjöld hafi snúist um þrælahald Suðurríkjanna, sem er í besta falli bara hluti skýringarinnar og í versta falli blekking).  

Aðskilnaður er systkini friðarins. Ef maður og kona geta ekki búið saman en þurfa samt að eiga samskipti (t.d. vegna sameiginlegra barna) þá er friðsæl lausn fólgin í aðskilnaði frá borði og sæng. Ef tveir menn í viðskiptum geta ekki unnið saman lengur er friðsælast að annar selji hlut sinn og fari í annan rekstur. Ef minnihlutahópur getur ekki unað sér innan landamæra einhvers meirihlutahópsins þá á að vera sjálfsagt mál að teikna ný landamæri á kortið. Það sem kemur í veg fyrir þá lausn er oftar en ekki sært stolt þeirra sem eru við völd. Þessu særða stolti sínum við á Vesturlöndum alveg ótrúlegan skilning. Nú er mál að linni.

Frelsum Austur-Úkraníu, sendum hermenn allra heim og stundum óhefluð og frjáls viðskipti og samskipti við alla! 


mbl.is Undirbúa frekari aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með það?

Forstjórar einkafyrirtækja sem gengur vel fá yfirleitt góð laun miðað við launafólk. Er það ekki skiljanlegt? Ef ekki þá má kannski reyna að útskýra það.

(Þess má geta að ég er ekki einhver yfirlýstur stuðningsmaður þess að forstjórar einkafyrirtækja fái há laun. Fyrir mér eru stjórnendur eins og verktakar og eiga að fá greiðslur sem endurspegla hvernig þeim gengur að reka fyrirtæki en ekki há laun af því bara - af því það er einhver náttúrulegur réttur. Eigendur fyrirtækja eiga að borga forstjóra eins mikið og þeir vilja, forstjóri á að heimta eins mikið og hann getur, og á endanum næst einhver málamiðlun.)

Ákvarðanir forstjóra skipta fyrirtæki meira máli en ákvarðanir launamanns. Ef ég ákveð til dæmis að eyða 10% af mínum vinnudegi í að þróa forrit sem endar á að spara fyrirtækinu hundruð vinnustunda þá væri gaman að fá hrós og jafnvel vera í góðri stöðu til að biðja um launahækkun. Ef ég sóa 10% tíma míns í einhverja vitleysu þá dregst ég aðeins aftur úr og fæ kannski tiltal, en fyrirtækið fer ekki á hausinn.

Ef forstjóri ákveður að eyða 10% af vinnustundum fyrirtækis í þróun á nýju forriti og það endar á að auka afköst allra um 5% þá er hægt að nýta sama mannafla, sem kostar jafnmikið og áður í laun, í að framleiða enn meiri verðmæti. Hagnaður eykst, ráðrúm til launahækkana vex og allir njóta góðs af viturlegri ákvörðun forstjórans.  

Ef forstjóri ákveður að eyða 10% af vinnustundum fyrirtækisins í að þróa forrit og forritið reynist gagnslaust þá er raunveruleg hætta á að fyrirtækið verði gjaldþrota og öll störfin í því gufi upp. Starfsmenn rúlla út á atvinnumarkaðinn, auka þar framboð af vinnuafli, þrýsta launum niður og enda á að fá minna í vasann en áður. 

Góðir forstjórar eiga að fá góð laun. 


mbl.is ASÍ: Tími ofurlauna runninn upp á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband