Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2023

Innviðir og orka

Íslendingum virðist ganga eitthvað illa þessa mánuðina að halda innviðum sínum gangandi. Gildir þetta um vegi, heitt vatn og rafmagn. Auðvitað hefur veðrið verið slæmt og allt það en menn ættu nú að hafa áætlanir, eða hvað? Er ekki einn heitavatnstankur Reykjavíkur eingöngu til staðar til að tryggja að allir komist í sturtu á aðfangadag? Það er áætlanagerð í lagi!

En gott og vel, menn geta alltaf verið óheppnir. Þá skiptir máli að hafa eitthvað til vara. Varaafl. Vestmannaeyjar ganga nú á Dísil-olíu. Dalvík varð eitt sinn orkulaus og þurfti varðskip til að stinga bænum í samband. Af hverju var ekki Dísil-rafstöð til taks þar? 

Kannski hafa menn trúað falsspám um hlýnandi veður og brotthvarf snjókomu.

Kannski hafa menn vanrækt fjárfestingar og eytt í gæluverkefni í staðinn.

Kannski hefur mikil reynsla og þekking tapast.

Kannski eru innviðirnir undir of miklu álagi vegna fólksfjölgunar og menn ekki að bregðast við.

Ekki veit ég af hverju. Og kannski er ekkert óvenjulegt á seyði en fréttaflutningur einfaldlega þeim mun meiri - nokkuð sem gefur okkur skakka mynd af stöðu mála. En eitt er víst: Dísil-rafstöðin þarf alltaf að vera í lagi. Það vita eyjaskeggjar í Vestmannaeyjum og vonandi íbúar Dalvíkur líka.


mbl.is „Halda allri forgangsorku í Vestmannaeyjum gangandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hughreystingarorð fyrir sunnlenska rafbílaeigendur

Raf­magns­laust er frá Hvols­velli og aust­ur fyr­ir Vík í átt­ina að Klaustri og Vest­manna­eyj­ar með því. Þetta staðfest­ir bil­ana­vakt Rarik í sam­tali við mbl.is. Ekki er vitað hvenær raf­magn kemst aft­ur á.

Þetta skiptir auðvitað litlu máli fyrir flesta. Það er hægt að borða rúgbrauð og kveikja á kerti eða vasaljósi. Kannski eru einhver batterí hlaðin sem má nota fyrir símana. Stundum hefur rafmagnsleysi þýtt auknar barneignir 9 mánuðum síðar. Þegar innviðafyrirtækjum mistekst að takast á við náttúruöflin hefur fólk aðlagast til skemmri tíma. 

En í þetta skipti eru afleiðingarnar mögulega verri fyrir svolítinn hóp fólks sem hefur fjárfest i rafmagnsbílum. Hvað gera rafmagnsbílar án rafmagns? Ekkert. Vonandi eru þetta ríkir einstaklingar sem eiga bensín- eða Dísil-bíl fyrir utan rafmagnsbílinn. Gott mál, það kemst þá leiðar sinnar. Vonandi er enginn að treysta eingöngu á innstunguna til að komast í vinnuna, í búðina eða með börnin í félagsskap, félagslíf og nám. 

Stærri flutningabílar eru sem betur fer ónæmir fyrir þessu rafmagnsleysi og halda áfram að sækja mjólk, keyra varning og eldsneyti og bera póst, knúnir áfram á fljótandi jarðefnaeldsneyti. 

Skipin eru líka óhult og geta jafnvel siglt að rafmagnslausum bæjum og stungið þeim í samband við Dísil-vélar sínar.

En ég vil hérna hughreysta rafmagnsbílaeigendur. Það getur vel verið að það kvikni í bílum ykkar þar sem þeir standa kyrrstæðir í bílskúrum sínum. Þeir eru komnir á hrakvirði eftir 5 ár. Þeir svíkja þig ef hitastigið úti lækkar aðeins. Hráefnin eru grafin upp af börnum í ánauð. En vitið til - þið eruð að bjarga loftslaginu! 

Sérstaklega þegar bíllinn stendur kyrr, í rafmagnsleysi.

Það er því engin ástæða til að sjá á eftir fjárfestingunni. Hún er ljómandi góð. Eins og stytta. Listaverk. Klósettbursti. 

Verði ykkur að góðu.


Faraldur umframdauðsfalla ríkir núna

Í dag eru þrjú liðin frá því að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lýsti yfir hæsta mögulega neyðarstigi á alþjóðavísu vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Þar á bæ eru menn ennþá á því að mikil hætta stafi af mannkyninu vegna veirunnar.

Það er auðvitað ekki rétt þótt stofnun í peningaleit segi það. Hins vegar er mögulega annar faraldur í gangi: Faraldur umframdauðsfalla.

Fjölmiðlum er að sjálfsögðu ekki treystandi til að segja okkur frá því frekar en lífshættulegum aukaverkunum í ýmsum líffærum í kjölfar sprautu. Slíkt á ekki að koma á óvart. Það gefur þeim sem vilja láta hið opinbera draga sig eins vagna í gegnum lífið möguleika á að segja: Ekkert að sjá hér! 

En svona aðferðafræði dugir ekki lengur. Fjölmiðlar hafa verið afhjúpaðir sem ólaunaðir blaðamannafulltrúar hins opinbera og stórfyrirtækja. Þeir þora ekki að kafa undir yfirborðið af ótta við að vera uppnefndir og sætta sig við allskyns yfirklór úr kjafti embættismanna. Hugsjón blaðamennskunnar er horfin. Núna vilja blaðamenn allir enda í þægilegri innivinnu sem blaðamannafulltrúar stórra fyrirtækja, ráðuneyta og opinberra stofnana. Þá dugir ekki að vera með einhvern stimpil á sér, er það? 

Þessa dagana er fólk að láta sprauta sig enn einu sinni gegn veiru sem er orðin landlæg og búin að stökkbreyta sér til að veikja minna og smitast meira. Ég óttast að umframdauðsföll fari af stað í kjölfarið en vona auðvitað að mér skjátlist. En hvað sem því líður þá ríkir nú víða í hinum vestræna heimi faraldur umframdauðsfalla, og það er fréttnæmt en ekki í fréttum.


mbl.is WHO: Alþjóðlegt neyðarástand ríkir enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útkljáð vísindi

Eins og allir sem hafa fylgst nægilega lítið með fréttum undanfarin 2-3 ár þá komast vísindin nánast aldrei að einhverri endanlegri niðurstöðu þar sem menn pakka saman og hætta frekari rannsóknum. Meira að segja niðurstöður sem allir eru nokkuð sammála um, svo sem að langvarandi tóbaksreykingar auki töluvert líkurnar á krabbameini í lungum, eru sífellt undir smásjá vísindamanna. Menn geta alltaf fundið nýjar nálganir, skoðað fleiri hliðar máls eða einfaldlega staðfest fyrri niðurstöður.

Þeir sem reyna að kæfa málefnalegt aðhald á fullyrðingum þeirra sem telja sig tala í nafni vísindanna eru þannig að starfa gegn anda vísindanna.

Okkur er oft sagt að vísindin séu einfaldlega útkljáð og af einhverjum furðulegum ástæðum eru það oft nýjustu vísindagreinarnar sem menn telja að séu einfaldlega komnar að endanlegri niðurstöðu á meðan þær eldri halda aldrei neinu slíku fram. Sem dæmi má auðvitað taka loftslagsvísindin þar sem flókin tölvulíkön eru mötuð af hugdettum líkanasmiða og niðurstaða útreikninganna auðvitað sú sem líkanið var hannað til að komast að. Og vísindin eru þar með sögð útkljáð.

Annað dæmi um glæný en um leið útkljáð vísindi eru vísindi mRNA-bóluefnanna svokölluðu. Þau fóru frá því að vera hátæknileg en lítið prófuð uppfinning til að geta leyst öll heimsins vandamál á augabragði (auk þess að vera örugg, líka fyrir ungabörn), og allir sem efast um slíkt eru álhattar sem vilja drepa ömmu sína.

En hvað með eitthvað eins og næringarfræði? Mannkynið hefur alla tíð borðað og drukkið og ýmis samfélög búin að komast að því hvað í umhverfi þeirra stuðlar að góðri heilsu, ekki satt? Eru þessi vísindi ekki útkljáð? Sykur er vondur. Koffín er slæmt. Eða svo mætti ætla þegar þessi fræðslusíða Landlæknis er skoðuð. Það er því betra að drekka Pepsi Max en Pepsi: Minni sykur og svipað magn af koffíni. Augljóst.

Nei, fjarri því. Hvað kemur í stað sykurs í gosdrykkjum? Jú, sætuefni. Þau eru mun minna rannsökuð en gamli góði sykurinn. Ég á góðan vin sem finnur um leið til í maganum ef hann drekkur óvart lítinn sopa af sykurlausum gosdrykk (sjálfur finn ég ekkert fyrir því en viðbrögð hans eru umhugsunarverð). 

Hvaða vísindi er Landlæknir þá að boða hérna? Hvaða leiðbeiningar er hann að reyna að koma á framfæri með því að bera bara saman magn sykurs og koffíns í drykkjum?

Að það sé kannski bara best að drekka vatn? Já, ágætt ef manni vantar engin steinefni eða ákveðin næringarefni sem fást úr sumum drykkjum.

Að sykurlaust gos sé hollara en það með sykri? Ég leyfi mér að vefengja slík meðmæli.

Næringarfræði eru sennilega elsta vísindagrein heims og samt er okkur ennþá sögð einhver vitleysa. Hvernig er þá komið fyrir öllum þessum útkljáðu nýmóðins vísindagreinum?


Majónes-neytendur hólpnir!

Samkeppniseftirlitið hefur ógilt kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Gunnars ehf., sem áður hét Gunnars majónes. Að mati eftirlitsins hefði samruninn haft alvarlegar afleiðingar fyrir samkeppni, viðskiptavinum og neytendum til tjóns. Markaðsráðandi staða hefði orðið til á nán­ar til­greind­um mörkuðum fyr­ir hreint maj­ónes og aðrar til­bún­ar kald­ar sós­ur sem skil­greind­ir eru nán­ar í ákvörðun­inni.

Mikilli ógæfu afstýrt og majónes-neytendur og neytendur annarra kaldra sósa eru hólpnir. Áfram munu litlir framleiðendur keppa á markaði fámennis og dreifðrar byggðar, en auðvitað í blússandi samkeppni. Það er ekki eins og verðlag óhagkvæmasta framleiðandans leiði verðþróunina eða neitt slíkt. Halda þarf uppi mannauðsdeildum, innkaupadeildum, lager, dreifikerfi og framleiðslulínum til að tryggja Íslendingum majónes.

Framsæknir frumkvöðlar með frumlegar uppskriftir að majónesi (eitthvað krydd eða bragðefni fyrir utan eggin og olíuna) fá svigrúm til að spreyta sig, ólíkt því sem annars hefði verið.

En sú vitleysa.

Eru skattgreiðendur virkilega að borga fólki í þægilegri innivinnu há laun til að standa í aðskilnaði sósuframleiðenda á örsmáum markaði sem að auki er opinn fyrir innflutningi frá erlendum sósuframleiðendum?

Já.

Hvaða fleiri botnlausu hítir geymir hið opinbera fyrir skattgreiðendur?

Margar.

Ætlar einhver að mótmæla vitleysunni?

Nei.


mbl.is Ógilda kaupin á Gunnars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Plaströrin og platrörin

Í dag birtist grein eftir mig á Krossgotur.is sem fjallar svolítið um samhengi og notar sem dæmi plaströrin og umfjöllun um bann á þeim. Eða réttara sagt: Skort á umfjöllun. Plaströrin voru þannig séð tekin af okkur með valdboði, án umræðu. Til að bæta gráu ofan á svart hættu margir að bjóða upp á plaströr og í staðinn bjóða upp á rör úr pappír til að þykjast vera umhverfisvæn. 

Þetta er óþolandi þróun, rekin áfram af valdboði og studd með heilaþvotti, því plaströrin hafa marga og stóra kosti en fáa og litla ókosti, eins og ég rek í grein minni. Pappírsrörin eru léleg og duga illa til verksins, gefið að þau séu ekki hreinlega ónýt eftir misheppnaðar tilraunir til að troða þeim í gegnum plastfilmu á fernu. Tilraunir til að drekka mjólkurhristing í gegnum pappírsrör eru líka dæmdar til að mistakast. Eftir nokkra sopa er rörið orðið blautt í gegn og endarnir að falla saman.

Hvernig tókst að selja okkur þessa þvælu? Er ein ástæðan mögulega sú að blaðamenn hafi einfaldlega matreitt yfirlýsingar yfirvalda fyrir okkur í stað þess að spyrja spurninga? Að gagnrýni hafi fengið lítið pláss? Að við séum auðtrúa og aldrei ánægðari en þegar við skerðum lífsgæði okkar í nafni umhverfisverndar? Jafnvel þótt umhverfið sé ekki að þjást vegna notkunar á plaströrum. Á engan hátt.

Eða mögulega blöndu af öllu þessu? Ætli það ekki.


Brotkast

Þá hafa þeir sem hafa orðið fyrir brottkasti loksins fundið sér samastað: Brotkast. Þetta er ný íslensk hlaðvarpsveita sem ég hlakka mjög til að prófa. Byrjunin lofar góðu sem sést á því að ákveðnir einstaklingar eru strax orðnir brjálaðir út í eitthvað sem var sagt. Kynningartextinn á heimasíðunni er athyglisverður:

Brotkast er efnisveita þar sem dagskrárgerðarmenn eru óháðir auglýsendum og svara eingöngu til áskrifenda sinna. Þannig bjóðum við upp á heilbrigðari umræðu sem verður ekki nauðbeygð undir háværan hóp róttæklinga á Twitter.

Ekki treyst á fyrirtæki sem þora ekki að ná til allra neytenda. Engir opinberir styrkir. Bara ég og þú, venjulegt fólk, sem kaupir eða segir upp áskrift algjörlega eftir okkar hentisemi, smekk og áhuga.

Ég óska aðstandendum og þáttagerðarmönnum Brotkasts mikillar velgengni og vona að málfrelsið hafi þarna fundið sér öruggt skjól.


Lærðu nú að óttast, litla manneskja

„Dómsdagsklukkan“ hefur aldrei verið nær miðnætti eftir að fræðimenn vísindaritsins Bull­et­in of the Atomic Scient­ists (BPA), færðu vísana úr 100 sekúndum í miðnætti og yfir í 90 sekúndur í miðnætti.

Þetta má umorða: Lítill hópur manna telur að heimurinn hafi aldrei verið nær endalokum sínum.

Þessi litli hópur á margar klappstýrur. Heimsendaspár eru töluvert fleiri en heimsendarnir. Heimsendarnir eru raunar núll talsins og ekki erfitt að slá þá tölu. En það er um að gera að bæta við enn einni spá. Við erum jú að eiga við loftslagvá! Yfirvofandi kjarnorkustyrjöld! Það eru átök í Úkraínu, sem ég merki á kortið hér að neðan.

heimsendir

Það er jú aldrei að vita. Dag einn rætist heimsendaspáin. Kannski tekur það nokkra tugi þúsunda ára, kannski nokkra daga. Þetta er spurning um tímasetningu. Að lokum hefur einhver heimsendaspámaður rétt fyrir sér.

Það er auðvitað hægt að auka líkurnar töluvert, t.d. þjarma að kjarnorkuveldi með því að tæma vopnabúr vestrænna ríkja þar til stóru flugvélarnar með stóru sprengjurnar eru ræstar. Hægfara landhernaður þar sem skotið er af varfærni breytist þá í að heilu svæðin verða teppalögð með sprengjum. Slíkt gæti mögulega flýtt heimsendi.

Það er líka hægt að rækta fleiri veirur á rannsóknarstofum og sleppa út í andrúmsloftið, og sannfæra svo almenning í kjölfarið að láta sprauta sig með nýstárlegu glundri. Kannski ekki heimsendir, en greinilega skilvirk leið til að fækka aðeins mannkyninu (viljandi eða óviljandi - við skulum ekkert spá í því).

Þetta með loftslagið er snúnari leikur. Loftslagi er jú að breytast í sífellu. Einn daginn á kuldinn að drepa okkur og þann næsta á snjór að vera fjarlæg minning. En svo breytist allt bara einhvern veginn á annan hátt en líkönin spá fyrir um. Pirrandi.

En eitt bregst ekki: Hræðsluáróðurinn. Hann virkar. Hann hrífur. Hann dugir, í bili.


mbl.is „Dómsdagsklukkan“ aldrei verið nær miðnætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skriðdrekar í vöruhúsum

Úkraína á í vök að verjast gegn rússneskum hersveitum og málaliðum og ekki skrýtið að þeir leiti nú logandi ljósi að styrkingu á her sínum. Eðlilega leita þeir á náðir Þjóðverja sem hafa verið duglegir að dæla vopnum til átaka í Miðausturlöndum með tilheyrandi kostnaði í mannslífum. Svo af hverju ekki Úkraínu?

Ég meina, allir þessir fínu skriðdrekar standa jú bara í vöruhúsum!

Nei, hættu nú alveg.

Ríki eiga ekki herafla sem stendur og rykfellur í vöruhúsum. Þau kaupa vopn dýrum dómum til að þjóna hlutverki. Þetta eru varnir ríkja sem eru keyptar eftir að hafa skoðað kosti og galla þess að eyða fé í vopn frekar en lyf og lækna. Mörg þúsund skriðdrekar í vöruhúsum eru eins og mörg þúsund tonn af korni í vöruhúsum, eða mörg þúsund kíló af lyfjum. Birgðir vissulega, en einnig undirbúningur fyrir óvissa framtíð.

Danski varnarmálaráðherrann sagði nú bara hreint út - sem á líka við um önnur ríki - að skriðdrekar þeirra hefðu hlutverk í hernum og gætu ekki bara si svona yfirgefið það hlutverk og farið að þjóna einhverju öðru hlutverki. Auðvitað ekki!

Úkraína er búin að fá svimandi fjölda milljarða gefins til að mæta áskorunum sínum. Geta þeir ekki bara keypt sína eigin skriðdreka í stað þess að laumast í vöruhús annarra ríkja? Til dæmis bandaríska skriðdreka? Af hverju þessi ásókn í vopnabúr Vestur-Evrópu? Liggur eitthvað að baki? Maður spyr sig, enda ekkert samhengi í þessum endalausu fréttum um annars vegar hvað gengur vel hjá úkraínska hernum (fjöldi Rússa fallinn, hver sigurinn á fætur öðrum) og hins vegar fréttum um hvað gengur illa hjá úkraínska hernum (innviðirnir farnir, Rússar með miklu betri vopn).

Best væri nú samt að setja allt kapp á að koma Rússum og Úkraínumönnum að samningaborðinu þótt fyrri samningar ríkjanna í málefnum Austur-Úkraínu hafi allir runnið út í sandinn, á kostnað fólksins á svæðinu. Þú slekkur ekki eld með olíu.


mbl.is Banvæn ákvarðanafælni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er brennuvargurinn líka besti slökkviliðsmaðurinn?

Hatursumræða hefur verið mikið til umfjöllunar og hafa yfirvöld meðal annars gefið út að opinberir starfsmenn þurfi að sitja námskeið í slíkri umræðu.

Já, hver er betri en brennuvargurinn til að kenna okkur um brunavarnir? Hann ætti að vita hvar er auðveldast að kveikja í og þar með hvernig er best að verjast íkveikju!

Því höfum eitt á hreinu: Yfirvöld hafa beint og óbeint staðið að hatursumræðu undanfarin misseri. 

Þessu er held ég hvergi betur lýst en í grein á Krossgötum, Orðin sem geyma hatrið. Tilvitnun:

Ég, fullorðin kona og tveggja barna móðir, háskólagengin og lífsreynd, með blaðamannataugina tifandi í mér öllum stundum. Ég var uppnefnd „álhattur“ og „flatearther“ án þess að hafa hugmynd um hvað fólk var að meina með því. Uppnefnd „trumpisti“ og „pútínisti“ þegar ég kom með aðra sýn á meginstraums-narratífið, án þess að ég hafi nokkurn tíma lýst neinum stuðningi við þessa menn.

Af hverju helltist yfir mig hatur fyrir tveimur árum?

Allt í einu var ákveðin lyfjagjöf orðin ástæða til að fordæma fólk, lýsa yfir dauða þess eða einangrun frá samfélagi manna. Trúartáknin nýju - grímurnar, sprittbrúsarnir og fjarlægðamælingar - fengu slíkan dýrðarljóma að allir sem báru þau ekki rétt voru úthrópaðir og kallaðir nöfnum. Venjulegt fólk dansaði í takt við fiðlu yfirvalda og þeir sem dönsuðu ekki í takt flokkaðir í hóp óvina samfélagsins.

Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá hvernig fólk á fyrri tímum fylltist af heilagri reiði og studdi við myrkar áætlanir yfirvalda. Einræðisherrar hafa lengi kunnað þennan leik og stjórnvöld í lýðræðisríkjum eru að læra hann hratt.

Munurinn er samt sá að það hefur ekki tekist að þagga niður í mótmælaröddum. Almenningur hefur aðgang að upplýstri umræðu ef hann lítur aðeins lengra en til fréttatíma sjónvarpsstöðvanna. Það er aldrei of seint að snúast hugur og skera sig úr snöru áróðurs, mannhaturs og fordæminga. Sé hægri höndin nú þegar á lofti, bein og vísar í átt að foringjanum er hægt að setja hana niður og labba út úr samkomunni. 

Stjórnvöld geta ekki kennt okkur að forðast hatursumræðu. Þau eru fremst meðal jafningja í að boða hana. Þau eru brennuvargurinn og kunna ekki brunavarnir. En það kunnum við, ef við hugsum aðeins út fyrir rammann.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband