Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2018

Hver á að ráða?

Ekki ætla ég að tjá mig mikið um lagatæknileg atriði í ráðningarferlinu í kringum Landsdóm.

Ég spyr hins vegar: Vilja menn að kjörnir fulltrúar, eða aðilar ríkisstjórnar sem starfar fyrir þingmeirihluta, ráði, eða einhver annar?

Það voru einhverjir sem kusu þingmennina og þingmenn velja ráðherra (sem yfirleitt eru þingmenn líka). Um embættismennina, nefndirnar, sérfræðingana og skýrsluhöfundana gildir önnur saga. 

Þeir sem kusu þingmennina vildu hafa áhrif á það hvernig landinu er stjórnað.

Mér finnst eins og sífellt sé gert minna úr umboði þingmanna til að hafa áhrif á mál ríkisins. Hvernig stendur á því? Vantreysta menn þingmönnum? Falla menn kylliflatir fyrir því þegar einhver kallar sig sérfræðing?

Persónulega vona ég að dómsmálaráðherra standi af sér storminn sem er búið að þyrla upp í vatnsglasinu því hún er einn af mínum eftirlætisþingmönnum. Það kemur því þó ekki við að almennt finnst mér sífellt verið að taka fyrir hendurnar á kjörnum fulltrúum og þeir oft settir til hliðar þegar einhver er búinn að semja skýrslu eða álitsgerð. Það er slæmt og dregur úr vægi lýðræðisins.

Eða til hvers voru menn þá að kjósa? Svo pappírana frá Brussel megi stimpla?


mbl.is „Ég tek auðvitað ábyrgðina“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig á að gera eitthvað dýrt ódýrt?

Það hefur lengi vafist fyrir stjórnmálamönnum og ákveðnum tegundum hagfræðinga hvernig á að gera eitthvað dýrt ódýrt. 

Sumir hafa lagt til að koma á algjörri ríkiseinokun. Það tryggi stærðarhagkvæmni sem skili sér í lægra verði. 

Sumir hafa lagt til að veita niðurgreiðslum til rekstursins og þá venjulega til ákveðinna útvalinna aðila. Vonin er sú að það leiði til lækkunar á verðlagi.

Sumir hafa lagt til beinan ríkisrekstur sem er fjármagnaður með blöndu af skattfé og sértekjum svokölluðum, eða eingöngu með skattfé. Þannig megi tryggja ákveðið aðhald. Ekki sé endilega fjárfest í rándýrri tækni af nýjustu gerð en það tryggt að einhvers konar rekstur sé í boði fyrir þá sem þurfa á honum að halda á mjög hóflegu verði og með notkun biðraða til að stilla af eftirspurn.

En þá segja sumir: Hvað með að koma ríkisvaldinu algjörlega út úr rekstrinum - bæði afskiptum af honum og fjármögnun - og lækka frekar skatta og fækka aðgangshindrandi reglum og búa til algjörlega frjálsan markað? 

Fáránlegt! hrópa þá sumir. Hvernig á mýgrútur einkaaðila að sinna svona litlum markaði? Það er einfaldlega of dýrt að koma sér upp nauðsynlegum búnaði. Einkaaðilar hugsa bara til skemmri tíma og blóðmjólka markaðinn áður en þeir leggja upp laupana. Einkaaðilar kunna ekki að lesa öryggisleiðbeiningar, tengja fjarskiptabúnað, grafa leiðslur í jörðu og hella malbiki á jörðina.

En ég spyr á móti: Hafa menn ekki lært neitt af reynslunni?


mbl.is Innanlandsflugið allt að tvöfalt dýrara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með að afnema tekjuskatta?

Nýlega voru vörugjöld afnumin og nánast allir tollar. Þetta hefur skilað sér í lægra vöruverði. Hvað með að afnema tekjuskatta og lækka stórkostlega veltutengda skatta á rekstur fyrirtækja næst? Það yrði fljótt að skila sér í vasa launþega, sérstaklega þeirra lægst launuðu.

Sé ekki pólitísk stemming fyrir því mætti í staðinn tvöfalda persónuafsláttinn og gera þannig stóra hluta launþega skattfrjálsa. Í staðinn ætti ríkið ekki að hækka aðra skatta heldur minnka útgjöld sín. Þar með færðist eyðsla á launum launþega frá ríki til launþeganna sjálfra. Er það ekki notaleg tilhugsun?

Það er ekki hægt að knýja á um hærri laun með einhverjum töfrastaf. Ráðstöfunartekjur hækka þegar fyrirtæki hafa meira til ráðstöfunar, skattar á laun lækka eða kaupmáttur gjaldmiðilsins hækkar, svo dæmi séu tekin. Séu fyrirtæki knúin til að borga meira í laun en þau ráða við bregðast þau við með því að segja upp fólki. Það er vonandi ekki ósk annarra en stjórnmálamanna í fílabeinsturnum

Íslensk verkalýðsbarátta miðar byssunni að röngum blóraböggli. Það er ríkisvaldið sem gleypir helming landsframleiðslunnar og megnið af því ofáti er fjármagnað af venjulegu launafólki með skerðingu á launum þeirra.


mbl.is Skammist sín ekki fyrir léleg kjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stoð hagkerfis fellur frá

Sparsamir milljarðamæringar sem fjárfesta fyrir peninga sína eða koma þeim í skjól frá skattayfirvöldum eru stoðir hagkerfisins. Í stað þess að moka milljörðum sínum ofan í botnlausar hítir yfirvalda eiga milljarðamæringar að reyna verja auð sinn svo þeir geti dregið af honum þegar heppileg og arðbær fjárfestingatækifæri skjóta upp kollinum. 

Auðvitað eiga allir að fylgja lögum (nema e.t.v. stundum) en þegar því er við komið á að reyna fylgja lögum þannig að maður komi sem hagstæðast út úr því sjálfur (og auðvitað þannig að enginn tapi á því nema ríkisvaldið).

Þannig taka allir fegins hendi við ódýrari klippingu því menn halda virðisaukaskattinum utan við verðlagninguna.

Þannig taka allir fegins hendi við aðstoð frændans sem er löggiltur rafvirki en skrifar ekki reikninga á blað fyrir fjölskyldumeðlimi. 

Það eru líka til lög sem menn fylgja með ánægju jafnvel þótt lögin séu alls ekki hönnuð fyrir viðkomandi.

Þannig taka allir fegins hendi við hvers kyns bótum - vaxtabótum, barnabótum og slíku - jafnvel þótt viðkomandi sé ekki bláfátækur og þarf strangt til tekið ekki að vera löggiltur bótaþegi.

Þannig nýta menn allan persónuafslátt sinn af tekjuskattinum jafnvel þótt menn komist af án hans.

Þannig setja menn milljarða í hirslur í Liechten­stein ef lögfræðingarnir sjá ekki neina hættu á því að lögreglan heimsæki mann og svipti frelsi.

Blaðamaður sem fjallar um Ingvar Kamprad hefur mikinn áhuga á peningum hans og fjármálaumsýslu en frekar lítinn áhuga á því mikla kraftaverki sem IKEA hefur verið mörgum og er enn. Það er synd og skömm.


mbl.is Sparsamur milljarðamæringur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir hlynntastir sem munu líklega nota möguleikann minnst?

70 milljarða Borgarlínan virðist njóta stuðnings hjá mörgum hópum.

Konur virðast hlynntari en karlar.

Háskólamenntaði virðast hlynntari en ekki-háskólamenntaðir.

Yngri eru hlynntari en eldri.

Vinstrisinnaðir eru hlynntari en aðrir.

Fljótt á litið virðist munstrið vera það að þeir sem eru líklegir til að nota Borgarlínuna minnst eru hlynntastir henni.

Konur bruna um bæinn á bílum til að komast til og frá vinnu, sækja og keyra krakka og versla inn fyrir fjölskylduna. Það mun áfram nota bílinn.

Háskólamenntaðir eru að jafnaði tekjuhærri en aðrir og á bíl. Stórir strætóar eru ekki líklegri til að soga til sín jakkafataklædda skrifstofustarfsmenn en litlir strætóar.

Yngri munu vissulega nota allar þær samgöngur sem í boði eru, hvort sem það eru löglegir strætóar eða ólöglegir skutlarar, og þegar fram í sækir Uber, Lyft og aðrar eins þjónustur. 

Vinstrisinnaðir segjast nota strætó mikið en það er ekkert víst að það sé raunin. Ég hef einu sinni séð vinstrisinnaðan borgarfulltrúa á hjóli - það var á einhverjum sérstökum degi hjólsins á sínum tíma. Ég sá hann hvorki fyrr né síðar.

Strætó er mest notaður af unglingum, útlendingum og fólki sem býr stutt frá biðskýli, vinnur stutt frá biðskýli og þarf ekki að skipta um vagn á leiðinni til og frá vinnu. 

Borgarlínan mun ekki breyta því. Meira þarf til. Það þarf að herða miklu meira að barnafjölskyldum, vinnandi fólki og fólki að flýta sér. 

(Þess má geta að ég nota strætóa við hvert tækifæri. Í slíku farartæki má lesa, dotta, drekka áfengi eða spila leiki í símanum. Strætó fylgja mjög margir kostir en það má ekki gleyma því að strætó fylgja líka ókostir.)


mbl.is Borgarlínan hápólitískt álitaefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað!

Þingmenn úr röðum Pírata, Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar leggja fram frumvarp um afnám banns við heimabruggun til einkaneyslu.

Gott mál! Því fyrr því betra! Ég vona að enginn reyni að svæfa þetta mál í nefnd eins og hafa verið örlög allra annarra lagafrumvarpa undanfarin ár er snúa að því að liðka til löggjöfina í kringum áfengi á Íslandi.

Næsta skref er svo að leggja niður ÁTVR og heimila sölu á hvaða áfengi sem er í hvaða verslun sem er til allra sem hafa náð 18 ára aldri.

Lögreglan getur þá farið að gera eitthvað annað en plaga fólk sem langar að kaupa áfengi og hitt sem langar að selja það.

Maður spyr sig samt að því hvort ákveðin gúrkutíð sé komin í íslenskum stjórnmálum. Alltaf þegar eitthvað áfengisfrumvarp stingur upp kollinum er sagt að það sé ótímabært og eigi ekki að vera forgangsatriði. Á sama tíma fara menn í málþóf og endalaus nefndarstörf í stað þess að leyfa þingmönnum bara að kjósa af eða á.


mbl.is Vilja leyfa heimabrugg til einkaneyslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fortíðin heillar

Samband íslenskra auglýsingastofa (SÍA) lýsir yfir áhyggjum af því að geta ekki lengur keypt ódýrar auglýsingar sem eru sendar til skylduáskrifenda.

Það mætti halda að þar sem RÚV er ekki með dreifikerfi þá sé alveg ómögulegt að auglýsa! Sem sagt, öll önnur lönd heims nema Ísland.

Kvabbið í SÍA ber ekki að taka alvarlega. Hvað með það þótt fólk sé hætt að nenna línulegri dagskrá troðfullri af auglýsingum og kjósi frekar Netflix og Youtube? Hugsið í lausnum!

Þetta viðhorf er dæmigert fyrir risaeðlur sem skilja ekki gangverk hins frjálsa markaðar. Á hverjum degi eru fyrirtæki að fara á hausinn og önnur eru stofnuð. Margar vörur eru að verða úreltar og aðrar að koma í þeirra stað. Margar tegundir starfa eru að leggjast af og aðrar að verða til. 

Fyrirtæki á Íslandi borga ekki fólki til að standa úti á götu með auglýsingaskilti. Þess í stað ráða þau sérfræðinga í samfélagsmiðlum í markaðsdeildir sínar. Fyrirtæki senda sjaldnast gíróseðla með pósti og kjósa í staðinn að senda innheimtubeiðnir beint í heimabanka fólks. 

Íslenskar auglýsingastofur hafa sýnt og sannað að þær geta náð til fólks, með og án RÚV. RÚV er risaeðla og tími hennar er liðinn. 

Mun eldra fólk ekki lengur hafa neitt til að hlusta á eða horfa á þegar RÚV leggst af? Sjáum hvað setur. Eldra fólk er með nægan frítíma og oft ágæta greiðslugetu. Ég er viss um að það megi seðja þörf þess fyrir upplýsingar og afþreyingu.

Mun miðaldra fólk stara tómum augum á svarta sjónvarpsskjái þegar RÚV leggst af? Nei, ætli það sé nú ekki þegar hætt að horfa á RÚV.

Munu forvitnir krakkar missa af möguleikanum til að læra um lífið og tilveruna í gegnum dýralífsþætti og Stundina okkar? Ég held nú síður. Dóra landkönnuður er hundrað sinnum betra barnaefni en nokkuð sem er í boði á RÚV. Á Netflix eru fleiri heimildaþættir en RÚV hefur nokkurn tímann geta boðið upp á.

Munu tilkynningar um neyðarástand ekki ná til almennings án RÚV? Þá hafa menn gleymt því þegar einhver jarðskjálftinn dundi yfir Ísland og RÚV hélt áfram að sýna fótboltaleik (eða var það formúlukappakstur?) á meðan fréttamenn Stöðvar 2 voru komnir á vettvang. 

Munu allar gamlar upptökur sem sýna fyrstu ár íslensks sjónvarps eyðileggjast og gleymast? Nú veit ég ekki betur en að það sé tilfellið nú þegar. Miklu frekar er þörf á að koma verðmætum upptökum á stafrænt form og hætta að eyða plássi í að geyma visnaðar segulræmur sem ekkert tæki getur spilað hvort eð er. 

Nei og aftur nei, RÚV er óþarfi. Leggjum það niður. 


mbl.is Slæmt ef RÚV færi af auglýsingamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan um brúna bréfpokann

Frétt þess efnis að Landseinokun Allra Notalegra Drykkjarvara Innandyra (LANDI) sé hætt að gefa brúna bréfpoka minnir mig á lítið atriði í frægri þáttaröð sem ég mæli eindregið með að allir kynni sér með því að smella á myndbandið hér fyrir neðan.

Stundum er besta löggæslan sú sem getur einbeitt sér að raunverulegum glæpum frekar en saklausum lögbrotum.


mbl.is Hætta að gefa brúna bréfpoka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárlög miðast við að ekkert eldfjall gjósi

Sprengigos undir jökli gæti stöðvað flutninga á gjaldeyri ferðamanna til Íslands. Það gæti haft keðjuverkandi áhrif á íslenskt hagkerfi. Samdráttur gæti orðið fljótur að breiðast út. Ríkisvaldið yrði af skatttekjum. Nú þegar er það rekið nánast á núllinu þótt skattar séu í hæstu hæðum, og skuldar um leið næstum því 1000 milljarða auk þess sem hundruðir milljarða hvíla á því í formi lífeyrisskuldbindinga. 

Það má því segja að öll fjárlagavinna stjórnvalda og allar áætlanir næstu ár byggist á því að ekkert eldfjall gjósi. 

Vonum það besta!


mbl.is Eldgos hefði víðtæk áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, en!

Skattheimta á Íslandi - bæði á vegum ríkisvaldsins og sveitarfélaganna - er í svimandi hæðum, og skuldir hins opinbera líka þótt þær séu víðast hvar undir svokölluðum viðmiðunarmörkum í tilviki sveitarfélaga, sem segja bara hálfa söguna. Það er ekkert svigrúm til að hækka skatta meira nema eitthvað gefi mjög alvarlega eftir: Gjaldþrot fyrirtækja og heimila, flótti fjármagns og fyrirtækja frá landinu, aukin skuldsetning allra og rýrnandi sparnaður með tilheyrandi lánsfjárkreppu.

Sem stendur virðist þó sem svo að hin svimandi skattheimta hafi ekki öll hin neikvæðu áhrif, eða að hin neikvæðu áhrif eru að mestu leyti vegin upp af jákvæðum áhrifum efnahagsuppsveiflunnar. Það getur samt breyst hratt. Það þarf bara að hægja á ferðamannastrauminum í stutta stund (eldgos í Kötlu?) eða sjá nokkra fiska synda hinum megin við landhelgina (kólnun Jarðar?) og þá fara veikleikamerkin fljótlega að koma í ljós.

Já, en! segja stjórnmálamennirnir þá. Við viljum reisa stærri hallir! Já, stofnið þá einkahlutafélag á eigin vegum og án ábyrgðar skattgreiðenda og leyfið fólki að borga í gæluverkefni ykkar af fúsum og frjálsum vilja.

Kjósendur eru ábyrgir. Þeir kjósa ítrekað yfir sig loforðaglaða eyðslugosa sem þenja út hið opinbera eins hratt og þeir geta. Þetta sendir þau skilaboð til frambjóðenda að þeir eigi að lofa enn meiri útgjöldum.

Kjósendur, vinsamlegast hættið að grafa eigin gröf.

Frambjóðendur, hættið að lofa eins og eiturlyfjasalar og byrjið að lofa eins og ábyrgir foreldrar.


mbl.is Skattarnir aldrei meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband