Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2018
Þriðjudagur, 23. janúar 2018
Heimilislausir frjálshyggjumenn í stjórnmálum
Stundum segja menn að Sjálfstæðisflokkurinn sé hægriflokkur. Þar eru frjálshyggjumennirnir! Þarna eru þessir óþekku krakkar sem vilja setja höndina í nammikrukkuna en neita að borga.
Frjálshyggjumenn mótmæla þessu yfirleitt og af góðum ástæðum. Formaður flokksins hefur sjálfur tekið af öll tvímæli og sagt að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki frjálshyggjuflokkur. Sami formaður hefur að auki tekið upp hagfræði vinstriflokkanna sem boðar að aldrei sé réttur tími fyrir skattalækkanir. Flokkurinn lofar allskonar fyrir alla og tekur þar fullan þátt í loforðakapphlaupi annarra stjórnmálaflokka.
En jú vissulega finnast frjálshyggjumenn innan flokksins. Dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, er til dæmis frjálshyggjumaður og meira að segja í harðari kantinum. Þingmaðurinn Óli Björn Kárason er frjálshyggjumaður að mínu mati. Forysta ungliðahreyfinganna í flokknum talar stundum á þeim nótum að þar sé að finna frjálshyggjumenn. Flestir Sjálfstæðismenn eru samt ekki frjálshyggjumenn og meira að segja hvergi nærri.
Frjálshyggjumenn eru óvinsæll hópur heimilisleysingja í íslenskum stjórnmálum. Skiljanlega. Ekki stofna þeir sinn eigin flokk. Hugsjón sem beinlínis lítur á ríkisvaldið sem andstæðing hins frjálsa framtaks þýðir að vinna hjá ríkisvaldinu er ekki alltaf fyrsta val (nema menn séu læknar eða kennarar og eiga ekki um aðra vinnustaði að velja). Frjálshyggjumenn geta heldur ekki lofað allskonar fyrir alla. Þeir mundu þvert á móti neyðast til að lofa að taka ýmislegt frá flestum og biðla til kjósenda um að gefa frelsinu tækifæri - að hugsa til lengri tíma frekar en skemmri. Frjálshyggjumenn sem hafa áhuga á þátttöku í stjórnmálum hafa því valið að starfa innan annarra stjórnmálahreyfinga (t.d. Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar) og fleyta sér til valda á breiðari grundvelli.
Eftir stendur að frjálshyggjumenn eru heimilislausir í stjórnmálum. Þeir eru trúleysingjar í samfélagi ríkisvaldstilbeiðslu. Þeir eru útlagar. En það gerir ekkert til.
Þeir sem börðust gegn þrælahaldi á sínum tíma voru hæddir og spottaðir. Þeim var sagt að kröfur þeirra væru óraunhæfar. Þeir voru beðnir um að lýsa samfélaginu án þræla, sem þeir gátu auðvitað ekki enda sér enginn inn í framtíðina í raun og veru. Hugsjónir þeirra voru kallaðar útópíur. Jú vissulega væri krúttlegt að ímynda sér samfélag án þræla, en fullkomlega óraunhæft. Andstæðingar þrælahalds héldu samt baráttu sinni áfram því þeir trúðu á réttlætið og sáu óréttlætið í því að sumir mættu kúga aðra með blessun laganna.
Frjálshyggjumenn dagsins í dag trúa líka á réttlætið. Þeir vita ekki hvernig er best að leysa af óréttlæti ríkisvaldsins. Þeir vita ekki hver mun leggja vegina eða hlúa að öldruðum og fátækjum öryrkjum. Baráttan fyrir réttlæti mun samt halda áfram.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Mánudagur, 22. janúar 2018
Tilraun sem mætti endurtaka víðar
Starfsmenn bandaríska alríkisins mæta ekki til vinnu í dag. Sennilega seinkar þessi fjarvera einhverjum umsóknum um lán, styrki eða undanþágu frá einhverju, einhverjum ákvörðunum þarf að fresta og einhver fær ekki leyfið sitt.
En ætla menn að nota tækifærið og hugleiða hvar bandaríska alríkið stendur víða í vegi fyrir borgurum sínum? Kannski Trump geri það sem Obama gerði ekki í svipaðri aðstöðu: Endurskoði hlutverk alríkisins og reyni að minnka vægi þess í samfélaginu og hagkerfinu svo það megi fækka eitthvað af þessum alltof mörgu starfsmönnum.
En það að alríkið, miðstjórnin eða ríkisstjórnin leggist í dvala er ekki endilega neinn dauðadómur. Í Belgíu komumst menn af án ríkisstjórnar í nálægt því 600 daga. Almenningur tók varla eftir neinum breytingum enda er belgíska ríkinu skipt upp í þrjú svæði sem hvert hefur sína svæðisstjórn. Bandaríkin hafa sín ríki. Ísland hefur sín sveitarfélög. Er hugsanlegt að það sé hægt að minnka vinnutíma ríkisstjórnarinnar töluvert án afleiðinga (annarra en að lækka kostnað við rekstur ríkisins)?
Við höfum tilhneigingu til að ofmeta mikilvægi og ágæti ríkisvaldsins. 99% af tíma okkar fer í að eiga samskipti við vini, fjölskyldu, vinnufélaga og einn og einn opinberan starfsmann nálægustu stjórnsýslueiningarinnar (t.d. sveitarfélagsins). Ekkert land fer á hliðina þótt þingmenn fari í löng (en ekki nógu löng) sumar-, jóla- og páskafrí. Ekkert land fer á hliðina þótt alríkið, miðstjórnin eða ríkisstjórnin gufi upp í nokkra mánuði. Fólk heldur áfram að eiga viðskipti og samskipti og þræða reglugerðafrumskóginn sem verður einfaldlega greiðfærari og fyrirsjáanlegri þegar yfirstjórnin lætur hann eiga sig.
Til hamingju Bandaríkjamenn með að fá svolítið hlé frá alríkinu. Það er þá ekki hægt að lýsa yfir fleiri stríðum á meðan.
Mæta ekki til vinnu í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 20. janúar 2018
Sumir eru jafnari en aðrir
Leit fyrirtækisins Amazon að borg fyrir aðrar höfuðstöðvar sínar er eins og samþjöppuð saga af ástandi vestræns viðskiptaumhverfis.
Þegar litið er á magn reglugerða, álagningarstuðla hinna ýmsu skatta og ýmsan kostnað sem leggst á fyrirtæki sem starfa löglega gæti manni virst sem svo að það geti enginn rekið fyrirtæki af neinu tagi.
Þá þarf að kafa dýpra og finna ýmsar undanþágur frá reglum og sköttum sem fyrirtæki geta nýtt sér. Lítil fyrirtæki á Íslandi þurfa t.d. ekki að hafa jafnréttisáætlun og það lækkar aðeins kostnað þess.
Sum fyrirtæki geta svo krækt sér í undanþágur sem aðrir fá ekki: Ódýrari lóð, lægri skatta eða hreinlega beina ríkisstyrki.
Auðvitað ætti ekki að þurfa að hafa svona flókið kerfi. Miklu frekar ætti viðskiptaumhverfi fyrirtækja - allra fyrirtækja! - að vera einfalt, gagnsætt og ekki íþyngt með hafsjó af sköttum og gjöldum. Ríkið gæti þá mjólkað fyrirtæki á jafnræðisgrundvelli og um svipaðar fjárhæðir og flækjufrumskógurinn í dag sýgur í hirslur hins opinbera.
Þetta vilja stjórnmálamenn hins vegar ekki. Þeir fá engin atkvæði út á slíkt. Nei, þeir komast í fréttir þegar þeir veita undanþágur eða rýmka fyrir ákveðnum tegundum af fyrirtækjum sem eru í tísku þá stundina. Embættismennirnir missa líka störfin sín ef kerfið er of einfalt og skilvirkt. Atvinnulausir embættismenn geta fljótlega orðið að fjölmennum hópi kjósenda og þá óttast stjórnmálamenn.
En af hverju rífa atvinnurekendur ekki oftar kjaft? Sumir gera það vissulega. Samtök atvinnulífsins af ýmsu tagi rífa líka oft kjaft. Það virðist bara ekki vera nóg. Það þarf að ná eyrum kjósenda svo þeir kjósi stjórnmálamenn sem vilja gera sig óþarfa. Slíkir stjórnmálamenn eru því miður í miklum minnihluta en þeir finnast samt.
Vonum að íslenska ríkið vilji ekki lokka til sín skrifstofur Amazon. Það gæti orðið íslenskum skattgreiðendum dýrkeypt, svona eins og niðurgreiðslur á framleiðslukostnaði kvikmynda, rekstur RÚV og ívilnanir fyrir mengandi verksmiðjur og erlendar matarolíur ætlaðar bílvélum.
20 borgir í skoðun hjá Amazon | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 19. janúar 2018
Hvernig kæmist þetta fólk annars í vinnuna?
Meirihluti borgarfulltrúa býr á svipuðu svæði í göngufjarlægð frá ráðhúsinu. Þurfi þeir á annað borð að keyra er vegalengdin ekki löng og bílastæðaaðstaða undir vinnustað þeirra. Það væri agalegt að fá slabb og saltdrullu á fínu jakkafötin eða hætta á að þung umferðin haldi þeim frá vinnunni. Nú eða bið í vindblásnu biðskýli.
Borgarfulltrúar eru mikilvægara fólk en aðrir. Almenningur á að þakka fyrir góð störf þeirra á meðan hann situr fastur í umferð eða blotnar í gegn í láréttri rigningu á meðan beðið er eftir strætisvagni.
Borgarfulltrúar vilja að allir taki strætó eða taki hjólið eða labbi. Það er bæði gott fyrir heilsuna og umhverfið. Ég man vel þegar ég bjó á tímabili á Eggertsgötu og sótti vinnustað í miðbænum. Það var ekkert mál að plægja sig í gegnum snjóinn á gagnstéttunum og standast þá freistingu að hjóla á auðum götunum. Ég þurfti mjög sjaldan að reiða hjólið vegna aðstæðna. Allt sem borgarfulltrúar hafa sagt um bíllausan lífsstíl, hreyfingu og umhverfisvernd er satt og rétt.
Borgarbúar eiga að hætta að kvarta. Hvað með það þótt viðhald í borginni sé ekki upp á sitt besta, framkvæmdir við vegakerfið snúast um að herða að fjölskyldubílum (einkabílum), skattar eru í hæstu hæðum og foreldrar ungra barna eru fastir heima vegna skorts á dagvistun? Sýnum skilning. Borgarfulltrúar vinna erfitt starf og óþakklátt. Þeim ber að hrósa.
Meirihluti borgarfulltrúa býr í 101 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 18. janúar 2018
Svíþjóð: Ríki þversagna
Svíþjóð er svolítið eins og Japan: Það er sama hvað er sagt um ríkið (eða landið), það er nokkurn veginn satt.
Svíar eru sósíalistar - þeir niðurgreiða allt og hjálpa öllum! Já, segjum það.
Svíar eru kapítalistar - þeir framleiða bíla og vopn og hrávörur og iðnaðarvarning! Já, vissulega.
Svíar eru duglegir Skandínavar - þeir leggja mikið á sig en uppskera líka ríkulega. Já, margt styður við það.
Svíar vilja fjölmenningu sem auðgar samfélagið og gerir alla hamingjusamari - já, að einhverju leyti.
En gott og vel, hvað er satt og rétt? Hvað er rétt og rangt um Svíþjóð?
Kannski er hægt að læra margt á 6 mínútum. Ég hvet alla til að prófa.
Sænski herinn gegn glæpagengjum? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 17. janúar 2018
Tímabært að ljúka hrun-málum fyrir næsta hrun
Enn eru í gangi dómsmál vegna viðburða og gjörninga í tengslum við bankahrunin 2008. Það fer að verða tímabært að ljúka þeim og búa til pláss í dagskrá dómstólanna fyrir ákærur í tengslum við næsta hrun.
Næsta hrun? Já. Það verður að sumu leyti ólíkt því seinasta en að sumu leyti svipað.
Meginástæða næsta hruns verður nákvæmlega sú sama og hins fyrra: Gríðarleg aukning á peningamagni í umferð, í viðleitni til að halda vöxtum lágum, hefur leitt til offjárfestinga og of mikillar skuldsetningar. Heilu hagkerfunum er nánast haldið á lofti með ódýrum lánum. Þau hagkerfi munu ekki þola nema örfáar kommur af vaxtahækkunum áður en skuldirnar verða óbærilegar.
Vaxtahækkanir eru um leið óumflýjanlegar. Til að halda vöxtum niðri þarf í sífellu að auka peningamagn í umferð. Þetta setur gríðarlegan þrýsting á kaupmátt gjaldmiðla - meira og meira magn peninga er að elta svipað magn af vörum og þjónustu sem þýðir að kaupmátturinn gefur eftir. Minnkun kaupmáttar getur verið vægari til skemmri tíma ef megnið af hinum nýju peningum leitar á svipaðar slóðir, svo sem í hlutabréf, húsnæði og opinberar skuldir. Til lengri tíma er samt ekki hægt að fela verðbólguna sem er afleiðinga peningaprentunarinnar. Þá fer almenningur að kvarta undan dýrtíð, bankar hætta að veita lán nema gegn verðtryggingu af einhverju tagi (ýmist sjálfvirkri eða í gegnum breytilega vexti, sem taka flugið).
Næsta hrun kemur líklega fram í kjölfar greiðslufalls einhvers af stóru ríkissjóðunum, t.d. Ítalíu eða Spánar eða jafnvel Bandaríkjanna. Þó getur verið að stór banki fari á hliðina og hrindi hruni af stað eins og seinast.
En sama hvar næsta hrun hefst verða afleiðingarnar kunnuglegar fyrir Íslendinga: Útflutningsmarkaðir kólna, íslenska krónan tekur dýfu með tilheyrandi útblæstri á skuldum landsmanna, ferðamenn hætta að koma og formanni Sjálfstæðisflokksins verður kennt um allt saman.
Mál Glitnismanna til aðalmeðferðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 16. janúar 2018
Útreikningar blinda menn fyrir raunveruleikanum
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar hefur í mörg ár verið á villigötum. Þar viðurkenna menn samt ekkert slíkt. Alltaf er vísað í útreikninga og því lofað að framtíðin sé björt. Skattgreiðendur þurfa bara að borga aðeins meira og þá verður allt gott!
Valið á ekki að standa á milli þess að bæta almenningssamgöngur annars vegar eða vegina hins vegar. Borginni hefur mistekist í báðu. Valið er á milli þess að halda áfram úti miðstýringu sem kostar morðfjár og skilar engu eða brjóta upp miðstýringuna og leyfa öðrum að prófa sig áfram með nýjar lausnir.
Og hvaða lausnir eru það?
Það veit ég ekki.
Ég sá heldur ekki fyrir þróun snjallsíma, þráðlausra háhraðatenginga, snjallúr, pappírsþunnar spjaldtölvur, leigubíla án leigubílastöðva, leiguhúsnæði án leigumiðlana eða 35 dollara tölvur.
Skoðum aðeins núverandi ástand samgangna.
Skattgreiðendur eru mjólkaðir um mikið fé þegar þeir kaupa bíl og bensín. Þetta fé á að renna til viðhalds og uppbyggingar vegakerfisins en gerir ekki.
Skattgreiðendur eru að auki mjólkaðir um mikið fé til að reka almenningssamgöngur.
Skattgreiðendur sjá svo enn á eftir peningum sem fer í að halda úti stórum hópum manna sem þrífa, taka til, halda fundi og sækja ruslið. Þó fer eitthvað minna í þrif og viðhald nú en áður og sennilega meira í fundarhöld.
Og fyrir utan útsvarið greiða skattgreiðendur ýmis gjöld, t.d. sorphirðugjald og fasteignagjöld.
Það blasir við að barnafólk og fjölmargir aðrir hópar munu aldrei fórna bílnum. Börnum þarf að skutla í skóla og á æfingar, það þarf að versla inn í Bónus og skjótast svo í aðra búð eftir áfenginu, sækja vini og vandamenn á flugvöllinn, skreppa til tannlæknis í hádegishléinu og svona má mjög lengi telja.
Það blasir við að núverandi leið til að rukka fyrir aðgang að vegakerfinu felur í sér ranga hvata. Allir vilja nota vegina á sama tíma: Á morgnana og síðdegis. Flestir vilja keyra í sínum eigin bíl fyrir hámarkssveigjanleika.
Verðlagning bíómiða, leikhúsmiða, flugmiða og jafnvel nuddtíma er með öðrum hætti. Þar er rukkað eftir eftirspurn. Þannig komast allir í bíó og í flug þótt sumir þurfi að fljúga á óheppilegum tímum eða fara í bíó á öðrum tíma en föstudagskvöldi.
Álögur á skattgreiðendur þarf að lækka, vegakerfið þarf að frelsa úr höndum hins opinbera, akstur á hvers kyns bifreiðum - stórum og smáum með mörgum eða fáum farþegum - þarf að gefa frjálsan og markaðurinn þarf að fá að spreyta sig. Það er alveg nóg af vegum og alveg nóg af ökutækjum. Að hinu opinbera mistakist að reikna út hvað þarf til að koma öllum þangað sem þeir vilja fara á ekki að koma á óvart. Og tilraunir til slíks á að stöðva.
Farþegum fjölgar en ferðavenjur eins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 15. janúar 2018
Vísitölur og vísindi
Þeir eru margir sem bæði í alvöru og að gamni sínu setja saman hinar ýmsu vísitölur til að gera þurr og leiðinleg vísindi svolítið meira kynæsandi.
Í hagfræðinni reyna til dæmis margir að gerast spámenn. Sumir spá hruni á hverju ári í mörg ár - jafnvel áratug - og þegar það skellur á segjast þeir hafa séð það fyrir (dæmi: Þorvaldur Gylfason). Aðrir benda á merki um hrun án þess að spá fyrir um tímasetningu þess. Enn aðrir fljótandi sofandi um á feigðarósi og sjá ekkert fyrir.
Hvað um það. Vísitala pilslengdar er voðalega krúttleg en um leið gagnslaus.
Vilji menn einfaldaðar vísitölur ættu menn að líta á hina svokölluðu vísitölu háhýsa. Í örstuttu og einfölduðu máli gengur hún út á að fylgjast með smíði háhýsa - gjarnan hæstu háhýsa heims. Til að reisa slík háhýsi þarf oft mikið lánsfé á lágum vöxtum. Það bendir svo til að mikið framboð sé á ódýru lánsfé. Yfirleitt er það svo til merkis um mikla peningaframleiðslu í nafni hagkerfisörvunar. Peningaprentun er eins og blástur á lofti í blöðru - gangi hún of lengi fyrir sig kemur hvellur. Og háhýsi rís.
Hagfræði þarf ekki að vera hundleiðinleg og um leið getur hún hjálpað manni að skilja heiminn aðeins betur og sérstaklega gallið sem vellur úr munni stjórnmálamanna og bankamanna.
Er að koma kreppa? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 15. janúar 2018
Hvað með allskonar aðrar lausnir?
Umræðan um samgöngur í Reykjavík er komin í tvær skotgrafir: Breiðari vegi og fleiri fyrir einkabíla (fjölskyldubíla), eða gríðarlega aukningu á allskyns almenningssamgöngum svokölluðum (sá hluti almennings sem á ekki lítil börn eða á heima rétt hjá Bónus-verslun).
En það eru til svo margar aðrar aðferðir til að greiða fyrir umferðinni svo fólk komist leiðar sinnar, og það án þess að eiga rándýra lúxusíbúð í miðbænum.
Ein er sú að hrinda úr veginum aðgangshindrunum á markað hópferðabifreiða. Meðal annars á að hætta að niðurgreiða opinberan hópferðaakstur. Menn halda að eina leiðin til að koma fólki í hópferðabifreið sé að láta það plægja vind og regn og koma sér í biðskýli og bíða þar. Nei, bílar geta alveg sótt fólk upp að dyrum. Þannig fór stjúpsonur minn í skólann fyrsta árið hans í Danmörku: Var sóttur heim að dyrum.
En er ekki flókið og tímafrekt að sækja fólk heim að dyrum? Kannski, en snjallir einkaaðilar hafa nú leyst flóknari verkefni en það!
Önnur er sú að opna á hvers kyns leigubílaakstur, t.d. Uber og Lyft. Kannski getur það orðið blandaður leigubíla- og hópbifreiðaakstur. Litlar og knáar rútur af nýrri gerðum eru með innbyggðri nettengingu, þægilegum sætum og loftræstingu sem ræður við öll skilyrði. Af hverju eru þær fráteknar fyrir ferðamenn í lopapeysum?
Síðan mætti hugleiða að selja vegakerfið og koma borginni út úr rekstri sem það ræður ekki við. Einkaaðilar verðleggja þá umferðina eftir eftirspurn. Slíkt yrði hvati í sjálfu sér að fjölmenna í færri bíla og minnka þannig umferðina.
Ég veit að það er örugglega gaman fyrir stjórnmálamenn að skipuleggja tugmilljarða verkefni og fá þannig athygli og þá tilfinningu að þeir séu rosalega mikilvægir. Þeir gætu samt kannski hugleitt að láta það eiga sig og kaupa sér í staðinn SimCity til að spila á daginn.
Dagur: Við Sigmundur greinilega sammála | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 14. janúar 2018
Læknar án landamæra: Frábær samtök
Læknar án landamæra eru frábær samtök að mínu mati.
Í gegnum þau geta ríkari íbúar heims sent sína færstu sérfræðinga til fátækari íbúa heims. Hinn kapítalíski hluti heims getur þannig linað aðeins þjáningar þeirra sem lifa í sósíalískum kerfum.
Önnur frábær samtök eru Amnesty International.
Hvorug eru á spena skattgreiðenda eða undir hæl stjórnvalda. Bæði samtök gera sér grein fyrir því að sá sem verður háður ákveðnu stjórnvaldi um fé er um leið að beygja sig undir vald þess. Markmið samtaka eða rekstrar sveigjast smátt og smátt af leið.
Þetta skilja íslenskir bændur ekki. Þetta skilja skjólstæðingar velferðarkerfisins ekki. Þetta skilja ýmsir hópar listamanna á Íslandi ekki.
Besta sem hefur komið fyrir mig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |