Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2018

Skortur á áföllum geta markað alla ævina

Raunveruleg áföll hafa neikvæð áhrif á alla sem fyrir þeim verða, og sennilega þeim mun meiri sem viðkomandi er nær barnæsku og ekki í stakk búin(n) til að vinna úr áföllunum.

Þetta vita allir og hafa lengi. Það er líka mikið gert til að verja börn fyrir áföllum eins og ofbeldi, vanrækslu og vanlíðan. Og það er gott.

En ekki eru öll áföll hræðileg en um leið er líka margt gert til að forða börnum frá þeim. 

Sum börn fá áfall þegar þau fá lélegar einkunnir í skóla, eða lenda í neðsta sæti í einhverri keppni, eða fá engan verðlaunapening, eða fá skammir frá kennaranum, eða dragast aðeins aftur úr í verkefnabókinni, eða er sagt að taka til í herberginu sínu, eða detta á rassinn á leikvellinum.

Að slíkum börnum þjóta foreldrar þeirra með púða sem þau geta lent á, próf sem þau klára villulaust og hrós fyrir það eitt að vera ekki með vandræði frekar en hafa staðið sig vel í einhverju.

Danir kalla þessa foreldra "curling"-foreldra í höfuðið á íþrótt sem snýst um að sópa alla fyrirstöðu frá leirkrukkum á ferð svo þær komist sem lengst, eða hæfilega langt, með sem hæfilegri áreynslu.

Krakkar þessara foreldra sækja ekki um vinnu. Það gera foreldrar þeirra. Þeir finna sér ekki húsnæði. Það gera foreldrar þeirra. Þeir safna ekki fyrir bíl, tölvu eða utanlandsferð. Mamma og pabbi borga. Kennarar þessara krakka fá skammir frá foreldrunum ef einkunnirnar eru lágar. Þessir krakkar slíta sig í raun aldrei frá spenanum. 

Já, alvarleg áföll marka alla ævi barna sem verða fyrir þeim og börn ber að verja fyrir þeim. Skortur á léttvægum áföllum gerir það líka. Börn þurfa fleiri slík. 


mbl.is Áföll í æsku geta markað alla ævina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maðurinn sem segir það sem aðrir hugsa, kannski?

Það verður ekki tekið af Donald Trump að segir það sem hann er að hugsa, og kannski er það svo að hann segir það sem aðrir eru að hugsa en þora ekki að segja. Fyrir vikið þarf ekki að velkjast mikið í vafa um hvar Trump stendur, ólíkt sumum fyrirrennara hans. 

Sjálfur hef ég sagt, meðal annars á þessari síðu, að fátækt ríkja er yfirleitt þeim sjálfum að kenna (sérstaklega ef hún er langvarandi). Ef þú innleiðir stefnu sem viðheldur frátækt þá uppskerðu fátækt. Þegar auðlindalausar grjóthrúgur eins og Hong Kong og Singapore eða leirklessur eins og Danmörk og Holland efnast er það vegna frjálsra viðskipta - kapítalisma. Þeir sem spyrna við kapítalismanum halda fólki sínu í fátækt.

Fátæktin er hið náttúrulega ástand mannsins sem tekur ekki þátt í verkaskiptingu, sérhæfingu og frjálsum viðskiptum með öðru fólki. 

Kannski er það þetta sem Donald Trump er að meina en orðar svona klaufalega?

Kannski ekki. Ég hef fáar sannanir fyrir því að Donald Trump sér mjög vel að sér í hagfræði. Hann lærði sennilega ýmislegt í viðskiptalífinu, t.d. að margar reglugerðir eru verri en fáar reglugerðir og að háir skattar eru verri en lágir skattar, en hann ætlar að bæta enn í skuldir hins opinbera, gerir sig ekki líklegan til að auka viðskiptafrelsi landa sinna og ætlar að eyða fúlgum í að torvelda aðgengi að vinnumarkaði Bandaríkjanna. 

Trump er kannski og kannski ekki bara dónalegur fauti en ég er samt viss um að hann segir það sem margir hugsa en þora ekki að segja sjálfir. Það er í sjálfu sér lofsvert og mætti eiga við um fleiri en bara íþróttaþjálfara sem tjá sig um dómara.


mbl.is „Þetta fólk frá þessum skítalöndum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikur endurtekinna ítrana leiðir til þekktrar niðurstöðu

Ég vil hvetja alla, sem eru gjörsamlega í losti yfir því að 1000 manns á Íslandi eigi 98% eigin fjárs (ekki eigna), til að horfa á þetta litla myndskeið:

Hér er ekkert furðulegt á seyði.


mbl.is 1.000 efnamestu eiga nær allt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfinu fórnað fyrir mengandi iðnað

Laxeldi í kvíum er mengandi iðnaður. Það deilir vonandi enginn um það.

Mengunin bitnar ekki bara á eigendum laxeldiskvíanna. Sýktur lax getur blandast villtum laxi og rýrt verðmæti laxveiðirétta á jörðum bænda. Mengun á hafsbotni getur haft áhrif á villta fiskistofna og þar með rýrt veiðirétt sjómanna. Mengun vegna vinnslu eldislax getur líka verið mikil. 

Það á ekki að vera undir ríkisvaldinu komið að ákveða hvar megi setja upp mengandi iðnað. Það á að vera mál landeigenda og þeirra sem eiga verðmæti bundin í óspilltum sjó og lífríki. 

Laxeldi er ekki sú gullkista sem stjórnmálamenn telja hana vera. Viðbúið er að verð á laxi falli mikið á næstu árum, meðal annars vegna aukins eldis á laxi í fjölmörgum ríkjum, t.d. Chile. Vinsældir eldislaxins sem mengandi afurðar eru líka óvissar. 

Á upphafsárum iðnbyltingarinnar reyndu bændur og aðrir land- og húseigendur að verja sig gegn sótinu sem vall upp úr reykháfum verksmiðjanna og höfðu sumir erindi sem erfiði, iðnjöfrum til mikilla vonbrigða. Ríkisvaldið ákvað þá að iðnaður væri mikilvægur og lét eignaréttinn víkja með tilvísun í einhvers konar heildarhagsmuni. Iðnaðurinn þurfti ekki að taka sig taki og takmarka sótmengunina. Áhrifin voru víða skelfileg á heilsu fólks og fyrir eignir margra. 

Á núna að gera sömu mistök með iðnað í sjó?


mbl.is „Óforsvaranlegt með öllu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósjálfbjarga ungmennum smalað á kjörskrá til að kjósa vinstriflokkana

Einu sinni var gerð krafa um að til að fá að kjósa þurfti að reka eigið heimili, eða eiga eitthvað af eignum, en í það minnsta að vera sjálfbjarga.

Svipað fyrirkomulag er enn við lýði á flestum heimilum. Fyrirvinnurnar - mamma og pabbi - ákveða hvað skuli eytt í - hvort sjónvarpið skuli endurnýjast eða bíllinn, eða hvort fjölskyldan fari í frí til Thailands eða Tálknafjarðar.

Með þessu fyrirkomulagi er hugsunin sú að ákvarðanir séu í höndum "fullorðinna" ef svo má segja, en ekki barna sem vilja allt í dóta- eða nammibúðinni og hafa engan áhuga á að vita hvað neitt kostar eða hverjar afleiðingarnar eru til lengri tíma af neyslu og sukki.

Í dag þykir það nánast vera guðlast að tala um að kosningaréttur eigi að vera skilyrtur við eitthvað. Þó hafa menn sammælst um að sjálfráða og löglega fullorðnir einstaklingar eigi að fá að kjósa, en ekki aðrir, t.d. ósjálfbjarga börn.

Og svo leið tíminn, og niðurstöður kosninga fóru að verða fyrirsjáanlegar að einhverju leyti. Millistéttin kýs loforð um lægri skatta af launum en hærri bætur til húsnæðisreksturs og barnauppeldis. Fyrirtækjarekendur kjósa loforð um lægri skatta á fyrirtæki. Bótaþegar kjósa loforð um hærri bætur. Aldraðir kjósa loforð um færri innflytjendur, hærri framfærslu og niðurgreidda aðhlynningu. Og svona mætti lengi telja.

Unga fólkið kýs hins vegar enga því það er ekki með kosningarétt. Það fær samt að taka þátt í skoðanakönnunum. Í ljós kemur að ungt fólk er upp til hópa viljugt til að kjósa loforð um ókeypis allt, framfærslubætur og fjármögnun á mannúðarmálum í gegnum skattkerfið. Ungt fólk hefur minni áhuga en fyrri kynslóðir á að leggja fyrir, kaupa húsnæði, flytja að heiman og standa á eigin fótum. Það vill lífrænt ræktaðar kaffibaunir og ótakmarkaða nettengingu. Og að mamma sjái um þvottinn. 

Síðan þetta rann upp fyrir vinstriflokkunum hafa þeir barist fyrir lækkun kosningaréttarins. Nú skulu börn fá að kjósa. Þau mega ekki taka húsnæðislán og jafnvel ekki kaupa sér kippu af bjór. En að kjósa? Já, það á unga fólkið að fá að gera!

Þetta sérstaka áhugamál vinstriflokkanna er ekki bundið við þá íslensku. Í Danmörku er sama hugmynd oft til umræðu. Á yfirborðinu er talað um að breiða lýðræðið út til allra. Í raun eru vinstriflokkarnir bara að reyna fjölga ósjálfbjarga bótaþegum á kjörskrá sem er svo hægt að tæla með loforðum um ókeypis allt fyrir alla.

Ég vona að Íslendingum beri gæfa til að kæfa svona kjánaskap í fæðingu.


mbl.is 16 og 17 ára gætu fengið að kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tölvuteikning frá borg við Miðjarðarhafið

Þegar stjórnmálamenn vilja blása í risastór útgjöld á kostnað skattgreiðenda til að byggja varanlega minnisvarða um sjálfa sig er gjarnan látið gera tölvuteikningar.

Þessar tölvuteikningar sýna heiðskýran himinn, logn og sólskin. Maður fær yl um allan líkamann og ímyndar sér að með hinum risavöxnu útgjöldum muni jafnvel veðrið sjálft batna.

En höfum eitt á hreinu: Það er aldrei nein sæla að bíða í biðskýli á Íslandi. Veðráttan er einfaldlega of breytileg. Það er líka oft erfitt að komast að biðskýlunum - tugir og jafnvel hundruð metra af ísilögðum gangstéttum, söltuðum vegköntum og votum túnbreiðum bíða margra farþega almenningssamganga á Íslandi.

Ætli borgarstarfsmenn, með aðgang að bílakjallara undir vinnustað sínum, gleymi stundum raunveruleikanum?


mbl.is Kostar heimili 1-2 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar ekki auðlindagjald á Siggi's skyr?

Núna hefur einhverjum loksins tekist að græða almennilega á íslenskri landbúnaðarvöru sem skyr-uppskriftin er.

Það er því augljóst að Alþingi þarf að setja lög sem gera upptækan hinn mikla ofurhagnað, jafnvel þótt aðrir skyr-framleiðendur hagnist frekar lítið. Það má finna upp flóknar og síbreytilegar reiknireglur sem gera það að verkum að sumir borga meira í skatt en aðrir. Lögbundin mismunun með öðrum orðum - nokkuð sem er mjög í tísku í dag.

Það er ekki nóg að borga veltuskatta, skatta á hagnað, skatta á vexti, skatta á arðgreiðslur og skatta á laun, skatta á aðföng og skatta á aðkeypta vinnu.

Nei, takist einhverjum að hagnast þrátt fyrir alla skattana þarf að finna upp nýja skatta sem þjóðnýta þann hagnað.

Nasistarnir í Þriðja ríki Hitlers beittu svona ráðum til að fjármagna útþenslu ríkisvaldsins. Ríkið fékk allan hagnað "lánaðan" en í raun var hagnaðurinn bara gerður upptækur. Hagnaður var fyrirlitinn. Ríkisvaldið ákvað hvað væri rétt verð, svona svolítið eins og Seðlabanki Íslands ákveður hvað lán eigi að kosta og verðlagsráð bænda og ríkisvalds ákveða hvað mjólkin og lambalærið eiga að kosta.

Kannski mun Ísland einhvern tímann verða land frjálsrar verðlagningar, hófsamrar skattheimtu og skattkerfis sem mismunar ekki rekstraraðilum og einstaklingum. Kannski.

 


mbl.is Skyrið hans Sigga í franska eigu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er kraftaverk!

Þá var maður færður til Jesú haldinn illum anda, blindur og mállaus. Hann læknaði hann svo að hinn mállausi gat talað og séð. (Matteusarguðspjall 12, vers 22)

Það má segja að efnahagsuppsveiflur hafi svipuð áhrif og snerting frá Jesús. Það má svo segja að efnahagsniðursveiflur hafi svipuð áhrif og plágan. Þegar mikið er um vinnu hættir fólk að fá króníska bak- og höfuðverki. Hin ósýnilegu mein sem er erfitt að greina eða setja undir smásjá hörfa. Þegar vinnan hörfar er eins og hin ósýnilegu mein snúi aftur.

Hver segir svo að peningar geti ekki keypt hamingjuna? Þeir virðast jú geta keypt heilsu og forðað fólki frá örkumlun!

En að öllu gríni slepptu þá er eitthvað bogið við kerfi örorkubóta. Það er greinilega of auðvelt að komast á þessar bætur. Það er slæmt því kerfið hefur ekki aðgang að endalausum peningum og þeir sem þurfa virkilega á aðstoð að halda fá minna en ella. 


mbl.is Nýjum öryrkjum fækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlakkar í stóru útgerðunum

Veiðigjöldin eru landsbyggðaskattur sem er á góðri leið með að ryðja mörgum smáum útgerðum úr veginum og greiða leiðina fyrir þær stærri.

Jafnvel þótt stærri útgerðirnar greiði himinháar fjárhæðir í veiðigjöld geta þær aðlagast skattbyrðinni. Hver veit - kannski telja þær fram með þeim hætti, í gegnum erlend dótturfélög, að skattbyrðin er þolanlegri?

Háir skattar varðveita alltaf stöðu hinna stærri á kostnað þeirra smærri. Flókið skattkerfi hefur sömu áhrif. Menn tala um að með afnámi vörugjalda og flestra tolla hafi myndast svigrúm fyrir smærri aðila að koma inn, enda hafi háir skattar í flóknu skattkerfi fælt frá. Á sama tíma og skattar á innfluttan varning hafa einfaldast eru skattar á útgerðir flæktir. Það mætti jafnvel segja að skattkerfisbreytingar virki handahófskenndar og ekki byggðar á neinum samræmdum skilningi á áhrifum skatta á rekstur.

Á Íslandi er það af mörgum talið nánast glæpsamlegt að skila sómasamlegri afkomu. Hluthafar, sem eru meðal annars þúsundir einstaklinga og lífeyrissjóðir tugþúsunda einstaklinga, eiga ekki að fá að njóta ávöxtunar af arðbærum rekstri. Nei, þeirra ávöxtun má bara eiga sér stað í gegnum allskyns fjármálavafninga, gjaldeyrisbrask og bænir til almættisins. 

Er skrýtið að menn kvarti yfir vanmáttugum hlutabréfamarkaði á Íslandi?

Hættið að leggja sérstakan aukaskatt á útgerðina. Hún borgar alveg nóg í gegnum launaskatta, skatta á aðföng, skatta á aðkeypta vinnu, eldsneytisskatta, skatta á hagnað, skatta á arðgreiðslur og skatta á veltufé. 

Þeir sem tala um að það þurfi að skattleggja sérstaklega hina svokölluðu "auðlindarentu" hafa aldrei talað um að skattleggja Gullfoss sérstaklega fyrir fegurð og aðdráttarafl eða skattleggja berjamóa á löndum bænda. Það hefur enginn talað af samkvæmni um skatta á auðlindarentu á Íslandi - bara skatta á hagnað útgerða sem er nú óðum að þjappast saman á færri hendur, þökk sé skattlagningunni.


mbl.is „Stórblæðir um hver mánaðamót“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með dagatöl slökkviliðsmanna?

Dagatöl með nöktu eða hálfnöktu fólki hafa lengi prýtt ýmsa vinnustaði. Núna hafa riddarar rétttrúnaðarins ákveðið að þau séu ekki við hæfi og eru þau jafnvel tengd við kynbundna mismunun og umræðu um kynferðislega áreitni.

Þetta er auðvitað algjör þvæla. Nektarmyndir leiða ekki til kynferðislegrar áreitni. Ef eitthvað þá draga slíkar myndir úr áreitninni með því að nýtast sem myndefni fyrir karlmenn í einrúmi sem geta þá svalað löngunum sínum þar án þess að angra aðra.

Stóra spurningin er samt: Hvernig eiga slökkviliðsmenn núna að fjármagna ferðalag sitt á íþróttamót erlendis? 

Undanfarin ár hafa slökkviliðsmenn safnað peningum með myndum af sjálfum sér hálfnöktum, skítugum og olíuglansandi. Þessum myndum hefur verið safnað saman í dagatöl sem fólk hefur keypt í stórum stíl (netverslun). Meðal fyrirsæta er bróðir minn, Ómar Ómar, og öll fjölskyldan er mjög ánægð með hann, þar á meðal eiginkona hans.

Er bróðir minn núna orðinn uppspretta kynferðislegrar mismununar og áreitis? Nei.

Er hann kyntákn sem hlutgerir sjálfan sig fyrir smápeninga, og niðurlægir um leið sig og sitt kyn? Nei.

Er hann flottur strákur sem nýtir hæfileika sína og eiginleika til að styrkja gott málefni (að niðurgreiða eigin ferðakostnað á íþróttamót)? Já.

Látum hann í friði og um leið aðra sem hanga naktir og hálfnaktir á vinnustöðum landsins. Eigendur fyrirtækja ættu að leyfa starfsfólki sínu um að skreyta vinnuumhverfi sitt í stað þess að troða pólitískum rétttrúnaði ofan í kok þess. 

(Fyrirvari: Ég styð auðvitað vald atvinnurekenda til að setja allar þær reglur og kvaðir á starfsfólk sem þeir telja sig þurfa að setja til að reka fyrirtæki sín. Menn þurfa samt að gæta hófs. Næsta rökrétta skref er að skylda starfsmenn til að ganga í regnbogalitum eða bleikum klútum til að friða einhvern sértrúarsöfnuð innan pólitísku rétttrúnaðarkirkjunnar. Það þarf að spyrna við fótum.)


mbl.is Dagatölin „öll með tölu beint í ruslið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband