Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Hið opinbera ræður, og það er þér að kenna

Hið opinbera á Íslandi hefur alltof mikil völd, og þau völd sem það hefur ekki er alltof auðvelt fyrir það að hrifsa til sín.

Þetta lætur almenningur viðgangast. Það er því almenningi að kenna að ríkisvaldið getur ráðskast með allt og alla. Hinir fáu sem hafa völdin hjá hinu opinbera gætu aldrei stjórnað hinum mörgu ef hinir mörgu létu ekki stjórna sér mótmælalaust.

Nú hefur borgarstjórn ákveðið að hækka stórkostlega verð að bílastæðum í miðborg Reykjavíkur. Margir, sem höfðu þagað þunnu hljóði á meðan borgaryfirvöld beittu aðra ofbeldi, tjá sig núna. En núna er það orðið of seint. Þeir sem reka ekki verslun við Laugarveg þegja núna, en þegar borgin snýr sér að þeim verður ekki hægt að búast við stuðningi t.d. frá kaupmönnum við Laugarveg.

 Völd hins opinbera á Íslandi eru alltof, alltof mikil. Þau eru meiri í dag en fyrir 20 árum, og meiri í dag en í gær. Er það af því fólk í dag er vinstrisinnaðra og þar með síður fært um að stjórna sér sjálft? Er það af því þeir sem sækjast eftir opinberum völdum eru klárari en við hin sem sækjumst bara eftir því að stunda verðmætaskapandi vinnu?  


mbl.is Telur hækkun gjalda valda miklum skaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skatta'skjól' eru góð fyrir hagkerfi háskattalanda

Svo lengi sem skattar hafa verið til hafa menn setið sveittir yfir leiðum til að forðast þá. Hinn "venjulegi" skattgreiðandi passar sig til dæmis vel á því að telja ekki krónu meira fram en hann þarf samkvæmt lögum. Hinn "ríki" hefur í kringum sig her af lögfræðingum og endurskoðendum til að finna "holur" og koma tekjum sínum í skjól.

Skattheimta sóar verðmætum og tíma þeirra sem verðmætanna afla. Að menn vilji greiða eins lága skatta og þeir geta, mega og þurfa er einfaldlega eðlilegt, burtséð frá því hvort menn telji svo að skattheimtan sé nýtt í eitthvað uppbyggilegt eða ekki. Meira að segja skattheimtuprestur eins og prófessor Þorvaldur Gylfason telur ekki fram þær tekjur sem hann fær greiddar utan Íslands (t.d. frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum). Skiljanlega. 

En hvað sem því líður er hægt að spyrja sig að einu: Væri það gott fyrir hagkerfið að allir greiddu skatt af öllum tekjum sínum?

Svarið við því er einfaldlega nei.

Eftir því sem meira er eftir af tekjum í vasa þess sem teknanna aflar, þeim mun betra. Ríkisvaldið er einfaldlega skelfilegur notandi peninga, og sóar þeim í vitleysu. Allt sem ríkið gerir er bæði dýrara og verra en það sem gert er í opnu, frjálsu og óhindruðu samkeppnisumhverfi einkaaðila. 

(Nú gæti einhver spurt: Hvað er opið, frjálst og óhindrað samkeppnisumhverfi? Svarið er ekki fundið t.d. í "samkeppni" opinberra eða hálfopinberra fyrirtækja, t.d. rafveitna. Ríkisvaldið skiptir sér af nánast öllum mörkuðum og gerir aðgengi að þeim þannig dýrt og þunglamalegt. En ef ég ætti að taka dæmi þá væri til dæmis hægt að nefna markað klósettbursta. Um þá gilda fáar reglur, þeir eru hóflega tollaðir og skattlagning á þá er svipuð og á öllu öðru. Ímyndum okkur að ríkisvaldið sæi um að framleiða og selja klósettbursta. Sér einhver fyrir sér aukið úrval, lægra verð og betra aðgengi? Vonandi ekki.)

Boðskapurinn er sem sagt þessi: Eftir því sem launþegar og fjármagnseigendur geta haldið meira eftir af tekjum sínum, þeim mun meira er til ráðstöfunar í eitthvað uppbyggilegt, hvort sem það eru viðgerðir á húsum, fatakaup á börnin, fjárfesting í sprotafyrirtæki, ný tölva eða betri rúmdýna. 

Hvað er svo ráðið við flótta fjármagns í "skattaskjól"? Að gera þann flótta dýrari en sjálfa skattheimtuna, sem sagt að minnka skattheimtuna það mikið að flóttinn frá henni kostar meira en skatturinn sem er til innheimtu. 


mbl.is Nafngreina aðila í skattaskjólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallalaus ríkisstjóður - eftir næstu kosningar?

Stjórnmálamenn hafa gjarnan gott auga fyrir tímasetningum. Núna lofar ríkisstjórnin því að eftir 2 ár, eða þegar kosningar hafa verið haldnar og ný ríkisstjórn hefur verið mynduð, verði ríkissjóður orðinn hallalaus. Sennilega er það rétt því vinstriflokkarnir verða orðnir svo litlir á þingi að menn geta farið að taka á glóruleysinu í rekstri ríkisins í dag.

En mikið er ég annars orðinn þreyttur á því að stjórnmálamenn taki hagfræðina í gíslingu og noti sem afsökun fyrir pólitískri hugmyndafræði sinni. Hallarekstur ríkissjóðs á til dæmis að vera "nauðsynlegur" til að "koma hjólum atvinnulífsins af stað". Ekkert slíkt er satt. Ríkissjóður er rekinn með halla því stjórnmálamenn með takmarkaðan líftíma á þingi vilja eyða eins miklu og þeir geta á meðan þeir geta.


mbl.is 220 milljarðar í vexti á þrem árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalt vín í nýjum belgjum

Hagfræðingar eru skrýtin hjörð. Sumir skilja alveg gangverk hagkerfisins, og meðmæli þeirra stuðla að vexti hagkerfa (og eru því góð ef markmiðið er að stækka hagkerfið). Sumir skilja hins vegar ekkert, og vita ekkert hvað gerist í hagkerfum. Dæmi um ummæli frá slíkum hópi hagfræðinga:

 Ríkir einstaklingar á evrusvæðinu ættu að greiða hærri skatta eða vera neyddir til þess að lána ríkistjórnum í vanda fé í baráttunni við efnahagsvandann.

Hérna er lögð fram tillaga um að slátra mjólkurbeljunni til að eiga fyrir næstu máltíð, en því gleymt að á morgun þarf hvoru tveggja: Mjólk frá beljunni og kjöt af kálfi hennar.

Þessi tillaga sprettur af sama misskilda "skóla" hagfræðinnar og boðar þjóðnýtingar fyrirtækja, fjárhagslegar barsmíðar á þeim sem leggja fyrir, upphafningu á hegðun þeirra sem drekkja sér í skuldsettri neyslu, og stöðugar skattahækkanir til að brúa djúpa gjá milli eyðslu og skattheimtu hins opinbera.

Í stuttu máli sagt: Gamalt vín í nýjum belgjum.

Eða réttara sagt: Sama ónýta vínið og ríkisstjórn Íslands býður upp á, en pakkað inn í aðrar umbúðir. 

Morgunblaðið hefði gert vel með því að finna einn af góðu hagfræðingunum til að gera grín að þessari tillögu en á málefnalegan hátt, en það ætti að vera auðvelt. 


mbl.is Neyða ætti efnaða til að lána fé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bólan er að fæðast

Blaðamaður skrifar:

Ýmsir hafa spáð því að framundan sé verðbóla á fasteignamarkaði. Miðað við vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sem Þjóðskrá heldur utan um er ekki að sjá að mikil hækkun sé að eiga sér stað á fasteignaverði. Síðustu 12 mánuðina hefur vísitalan hækkað um 5,25%, en það er mjög svipað og verðbólgan. Það er því ekki að sjá að nein raunverðshækkun sé að eiga sér stað á húsnæði.

Með "ýmsum" er meðal annarra átt við Heiðar Guðjónsson, fjárfesti, og Viðskiptablaðið - sjá nánar hér.

Blaðamaður fer ekki nánar út í forsendur þess að ýmsir eru að spá hér nýrri bólu á fasteignamarkaðinum. Það eru trúverðugar forsendur sem ég sé ekki ástæðu til að draga í efa þótt tölfræðin sé e.t.v. ekki byrjuð að sýna miklar hækkanir á fasteignaverði.

Og það er oft kjarni málsins: Menn einblína oft of mikið á tölurnar og gleyma forsendunum, því sem liggur að baki og við hverju má búast. Blaðamaður gerir vel með því að nefna verðbólguspá "ýmissa" aðila, en hann ætti að vara sig á að drukkna í tölfræði. Forsendur bólu á fasteignamarkaði eru til staðar, fjölmargir aðilar (t.d. bankarnir) eru búnir að stofna deildir eða dótturfyrirtæki sem eiga að koma fé úr lausu formi og í fasteignir, gjaldeyrishöftin fara ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar og verðbólgubálið geysar áfram. 

Bólan er að fæðast. Hún er e.t.v. bara rauður blettur í bili, en fyllist af grefti á næstu vikum og mánuðum.


mbl.is 20% meiri velta á fasteignamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin 'svik', engin gisting

Fjöldi fyrirtækja, hvort sem þau bjóða upp á gistingu eða viðgerðarþjónustu, klippingu eða veitingar, "svíkja undan skatti". Það gera þau einfaldlega vegna þess að skatturinn er svo hár, að reksturinn í fullri skattheimtu borgar sig ekki.

Þetta er hægt að skýra betur.

Ímyndum okkur tvö fyrirtæki sem stunda tiltekna þjónustu, köllum þau Davíð og Golíat.

Golíat er með mikinn fjölda viðskiptavina, og mikinn fjölda endurskoðenda og lögfræðinga til að sjá um bókhaldið. Löggjöfin er flókin og gloppótt, en með réttri þekkingu er hægt að finna gloppurnar og þannig lágmarka útgjöld í ríkisreksturinn, löglega. Hægt er að meta eignir sem óefnislegar og þannig halda uppi hlutabréfaverði fyrir eigendur þess. Hægt er að skilgreina þjónustu sem verktakavinnu. Hægt er að bjóða út ýmis verkefni ef þau eru nægilega stór til að utanaðkomandi aðili fáist til að vinna þau. Sá aðili þarf svo að "díla" við skattinn á sinn hátt. 

Davíð er lítið fyrirtæki, enda tiltölulega nýtt á nálinni. Það hefur ekki efni á mörgum endurskoðendum. Viðskiptavinir koma e.t.v. inn í stórum hópum en þannig að langur tími líður á milli hópanna. Laun þarf að greiða þótt lítið sé að gera. Eigendur þessa fyrirtækis þurfa þar að auki að senda stóran hluta af veltu sinni til ríkisins í formi skatta. Geri þeir það þá fer fyrirtækið á hausinn. Golíat hirðir viðskiptavinina, og hækkar hjá þeim verðið.

Háir skattar hreinsa út samkeppni fyrir stóru aðilana, stuðla að fákeppni, fækka valkostum fyrir neytandann og drepa niður framtak einstaklinga.

Þökk sé hinum víðtæku "skattsvikum" er úr nægu að velja fyrir ferðamenn á Íslandi, og þeir láta það jafnvel berast til vina sinna og ættingja sem eru að ákveða hvert eigi að ferðast næst.

Skatt"svikin" eru því hagfræðilega jákvæð.

En þau senda "röng skilaboð", segir ríkisvaldið, sem þyrstir í hverja krónu í hverjum vasa.   


mbl.is Fjölmörg gistiheimili svíkja undan skatti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkalýðsfélög boða yfirleitt ranga hagfræði

Verkalýðsfélög eru yfirleitt sérhagsmunafélög og þau boða gjarnan hagfræði fátæktar og viðskiptahindrana. 

Íslenskar lopapeysur, sem eru prjónaðar af íslensku handverksfólki, eru dýrar og fyrir því eru góðar ástæður: Mikill framleiðslukostnaður enda um vandað handverk að ræða. Venjulegt fólk getur ekki leyft sér að eignast slíka gripi nema fórna miklu í staðinn. Einhverjum hefur því dottið í hug að flytja lopann út og lopapeysur inn sem má selja á miklu lægra verði. Lopapeysur úr íslenskri ull verða þannig aðgengilegar fyrir fleiri.

Kínverka framleiðslan er ekki íslenskt handverk. Sérstaða lopapeysa framleiddar á Íslandi með íslensku handverki er óbreytt frá því sem áður var. Þær peysur eru og verða dýrar. Kannski kemur einhver þrýstingur á álagninguna, sem var e.t.v. ekki mikil fyrir, en þetta er bara spurning um að láta framboð og eftirspurn ná saman með réttu verði. Ef það verð er ekki til, þá er einfaldlega ekki næg eftirspurn eftir íslensku handverki í formi lopapeysa. En ég efast um að það sé raunin.

Verkalýðsfélög grýttu vélar í upphafi iðnbyltingarinnar af ótta við að vélarnar gerðu verkamenn óþarfa og atvinnulausa. Sá ótti var byggður á skorti á hagfræðiþekkingu. Núna eru vélar út um allt, en skorturinn á hagfræðiþekkingunni hefur lítið breyst.  


mbl.is Vilja upplýsingar um innfluttar lopapeysur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband