Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2018

Ekki endilega í höndum kjósenda, nei

Mikill er máttur lýðræðis!

Með lýðræði getur almenningur sópað óhæfum stjórnmálamönnum úr embættum!

Með lýðræði getur almenningur veitt stjórnvöldum aðhald!

Með lýðræði getur almenningur tryggt að yfir honum ríki hópur hæfra, ósérhlífinna og duglegra einstaklinga sem láta sér almannahag varða!

Með lýðræði má útrýma spillingu, hrossakaupum og misnotkun á fé skattgreiðenda!

Eða hvað?

Nei, svo er alls ekki, og ástæðan er einföld: Ríkisvaldið er alltof, alltof stórt til að lýðræði geti með nokkru móti bitið á óhæfum embættis- og stjórnmálamönnum.

Á fjórum árum gerist margt í lífi þingmanns: Hann kýs í óteljandi málum, kemur fram í mörgum umræðuþáttum og viðtölum, leggur margt til, reynir að stöðva annað og kemur víða við. 

Gefum okkur að á fjórum árum framkvæmi þingmaður um tvær embættisaðgerðir á viku sem koma fyrir sjónir almennings, eða um 100 ár ári. Það eru þá um 400 embættisverk á fjórum árum, og er þá varlega áætlað. Um helmingur má ætla að hafi fallið vel í meirihluta kjósenda, um fjórðungur illa, og um fjórðung lét engan varða sig.

Hlýtur þessi þingmaður endurkjör eða ekki?

Það er engin leið að spá fyrir um það. 

Það dettur engum í hug að versla í Bónus í fjögur ár og sjá svo til. Nei, því sama dag og neytandinn er ósáttur skiptir hann um verslun. Kannski fær búðin 2-3 tækifæri en þar við situr. Þetta er aðhald! Kosningar á fjögurra ára fresti eru frekar bitlausar þegar hver frambjóðandi þarf að hafa skoðanir á öllu milli himins og jarðar - ríkisvaldið er jú úti um allt! 

Nei, samtal nokkurra þingmanna verður ekki lagt fyrir dóm kjósenda. Fáir þeir reisupassann verður samtal þingmannanna lagt fyrir dóm hins frjálsa markaðar. Sitji þeir sem fastast er von til að samtalið gleymist og drukkni í einhverju öðru máli vikunnar.


mbl.is Framhaldið í þeirra höndum og kjósenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gáfað fólk að segja heimskulega hluti

Fólk segir ýmislegt þegar það er meðal trúnaðarvina, jafnvel ýmislegt sem enginn annar fær að heyra. Það er eðlilegt og skiljanlegt. 

Stundum eru þetta heimskulegir hlutir. Ég segi t.d. ekki sömu brandara við hvern sem er. Ég kann brandara sem virkar bara meðal verkfræðinga og annan sem virkar bara í hópi gagnkynhneigðra karlmanna og enn annan sem virkar best fyrir kvenkyns áheyrendur og svo kann ég nokkra brandara sem krökkum finnst fyndnir.

Það á enginn að hlera samræður trúnaðarvina viljandi. Það er ókurteisi. En í tilviki nokkra einstaklinga í íslenskum stjórnmálum var þetta samt gert og auðvitað er það fréttnæmt. Blaðamönnum hefur tekist vel upp að mínu mati að sía út það sem snýr að einstökum persónum og fjalla bara um það sem má telja að varði almenning. 

Og hvað er hægt að læra af samræðum þessara einstaklinga?

Í fyrsta lagi eru þarna á ferðinni nokkuð óheflaðir dónar. Þó get ég ekki lofað því að vera eitthvað skárri í ákveðnum félagsskap. 

Í öðru lagi virðast hrossakaupin fara fram með nákvæmlega sama hætti og ég hafði ímyndað mér, þvert á alla stjórnmálaflokka. (Ég mun seint skilja þá sem vilja að ríkisvaldið sé risastórt og hafi úr að spila miklum fjármunum og mörgum vel launuðum störfum sem stjórnmálamenn skipta sín á milli yfir bjórglasi.)

Í þriðja lagi virðist fólk ekki breytast í saklausa engla við það eitt að fara í stjórnmál. Þetta kemur kannski mörgum á óvart, sérstaklega þeim sem falla fyrir þeim glansmyndum sem fjölmiðlafulltrúar mála af hinu opinbera.

Í fjórða lagi hefur mönnum nú verið kennd lexía. Þeir sem ætla að tala opinskátt gera það núna í lokuðum bakherbergjum. Aldrei aftur munu upptökur af þessu tagi koma fram á sjónarsviðið. Allir sem sluppu að þessu sinni geta upphafið sjálfa sig á kostnað þeirra sem náðust á upptökuna.

Almenningur fékk þarna sjaldgæfa innsýn inn í það sem fer raunverulega fram þegar yfirherrar okkar hjá hinu opinbera hittast og ræða saman. Sjaldan hef ég séð betri rök fyrir því að ríkisvaldið þurfi að minnka mjög mikið, mjög hratt. Leyfum þessu liði að reyna spjara sig á frjálsum markaði þar sem orð hafa afleiðingar frá degi til dags, en ekki bara á fjögurra ára fresti!


mbl.is „Maður bara varð sér til skammar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið á sig lagt til að hunsa stóran hluta kjósenda

Í Svíþjóð hefur gengið mjög erfiðlega að mynda ríkisstjórn eftir seinustu kosningar. Ástæðan er sú að hinir svokölluðu Svíþjóðardemókratar fengu tæp 20% atkvæðanna og enginn segist vilja vinna með þeim.

Það er sem sagt mikið á sig lagt til að hunsa vilja 20% kjósenda.

Hvernig ætli fari eftir næstu kosningar í Svíþjóð, þegar Svíþjóðardemókratar fá yfir 25% atkvæðanna?

Ég er enginn stuðningsmaður Svíþjóðardemókrata en bendi á að þeir eru að segja nokkuð sem mikil eftirspurn er eftir og enginn annar þorir að segja. Sá boðskapur er: Sænskt þjóðfélag verður eyðilagt ef stjórnvöld halda áfram að leyfa stórum hópum af fólki frá fjarlægum heimshornum að setjast að í landinu, innleiða andvestræn gildi í samfélagið og tengja sig inn á velferðarkerfið.

Þetta er bæði afskaplega einfalt en um leið flókið. Það er flókið í Svíþjóð að vera raunsær.

Sama vandamál hrjáir ekki dönsk stjórnmál. Meirihluti flokka í Danmörku er búinn að átta sig á því að velferðarkerfi og opin landamæri eru ósamrýmanlegir hlutir. Annaðhvort viltu opna landamærin og um leið leggja niður velferðarkerfið, þannig að þeir komi bara sem vilji raunverulega taka þátt í samfélagi og atvinnumarkaði, eða þú vilt halda í velferðarkerfið en loka landamærunum. 

Sjáum hvað setur í Svíþjóð en það lítur út fyrir að þarlendir kjósendur þurfi að taka fyrir hendurnar á stjórnmálamönnum sínum með afgerandi hætti ef rödd þeirra á að heyrast.


mbl.is Ríkisstjórnarsamstarf í uppsiglingu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin stigmögnun, engin hætta, ekkert samhengi við koltvísýring

Segjum hlutina bara eins og þeir eru:

Þessi stanslausi hræðsluáróður, sem felst í því að kenna losun á koltvísýringi um breytingar í loftslagi Jarðar, er pólitísk vegferð með það markmið að styrkja hlutverk ríkisvaldsins og draga úr vægi hins frjálsa markaðar.

Koltvísýringur stjórnar ekki loftslagi Jarðar.

Kolabruni án síunar á reyknum er mengun. Losun á eiturefnum í land, loft og vatn er mengun.

Losun á koltvísýringi er ekki mengun. Koltvísýringur flæðir út úr öllum virkum eldfjöllum og opnum sprungum og hefur alltaf gert. Hann flæðir úr rassgötum landdýra og opnum mógröfum í íslensku landslagi. Smávegis hlutfall dælist svo úr púströrum bíla og vélum skipa og flugvéla. Ekkert af þessari losun er mengun.

Loftslag Jarðar er flóknara en svo að það sé búið að lýsa því með líkönum. Engin líkanaspá hefur ræst þótt tölvur séu nú orðnar svo fullkomnar að þær geti sigrað hvern sem er í skák. Menn hafa ofmetið hlutverk koltvísýrings ítrekað, markvisst og viljandi og niðurstaðan er hver ranga spáin á eftir annarri.

Almenningi er talin trú um að loftslag Jarðar hlýni eða kólni sem hlutfall af lofttegund sem er um 0,04% af samsetningu lofthjúpsins. Okkur er sagt að þegar þetta hlutfall var 0,02% var allt í lagi, en stígi það í 0,06% fari allt til fjandans. Þetta er beinlínis hlægileg nálgun en hefur það hlutverk að einfalda málið nægilega mikið til að stjórnmálamenn geti riðið út á hvítum hesti og bjargað deginum.

Parísarsáttmálinn svokallaði er innihaldslaust plagg. Þar lofa Indverjar að hætta að auka losun sína eftir 2-3 áratugi og Kínverjar eitthvað svipað. Með öðrum orðum: Þar er í fæstum tilvikum kveðið á um minnkun losunar. 

Það er kominn tími til að hætta þessari vegferð og brjóta upp melónurnar sem eru grænar að utan eins og laufblöð, en rauðar að innan eins og kommúnistar. 


mbl.is Gjáin eykst í baráttu gegn hlýnun jarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig féfletta skal almenning

Sumir stjórnmálamenn tala um kjósendur sína og almenning allan sem „skattstofn“. Séu skattar ekki í löglegu hámarki eða svíðandi og svimandi hæðum er talað um „ónýttan skattstofn“ sem má vitaskuld nýta, sé áhugi á því.

Svona tungutak kemur ekki á óvart því stjórnmálamenn hafa um annað og betra að hugsa en matarútgjöld þín og önnur forgangsatriði þegar kemur að eyðslu launatekna þinna.

Leiðirnar sem stjórnmálamenn nota til að féfletta almenning eru margar og blasa ekki allar við. Sjálfir skattarnir eru auðvitað augljósir. Þú vinnur þér inn 1000 krónur og hið opinbera - ríkið og sveitarfélagið - hirðir stóran bita í tekjuskatt og útsvar. Þú kaupir þér vöru eða þjónustu og ríkið fær hluta af kaupverðinu í gegnum virðisaukaskattinn og þú færð minna fyrir vikið. Þú stofnar fyrirtæki og ríkið hirðir hluta veltunnar í gegnum tryggingagjaldið og væna sneið af hagnaðinum í gegnum fjármagnstekjuskatt. Allir þessir skattar og fleiri blasa við og þá skilja flestir.

Það eru hins vegar hinar óbeinu leiðir til að mjólka almenning sem gagnast oft betur. Hinar óbeinu leiðir eru minna í umræðunni og sleppa jafnvel við allt umtal. Sem dæmi má nefna rekstur fyrirtækis í eigu hins opinbera. Hérna er Orkuveita Reykjavíkur gott dæmi. Þetta fyrirtæki er svo gott sem í einokunaraðstöðu og getur því hækkað gjaldskrár sínar ítrekað án þess að nokkur geti að því gert. Hagnaðinn má svo hirða í formi arðgreiðslna í borgarsjóð. Þannig borga viðskiptavinir Orkuveitu Reykjavíkur bæði hæstu mögulegu skatta og svimandi afnotagjöld og láta þannig mjólka sig tvisvar í borgarsjóð en telja sig bara hafa verið mjólkaða einu sinni.

Önnur óbein leið er að skattleggja eitthvað sem hlutfall af verðmati og knýja svo verðmatið í hæstu hæðir. Hér þekkja flestir til fasteignaskattanna. Með því að takmarka aðgengi að lóðum og nýbyggingum má þrýsta upp fasteignaverði en halda innheimtuhlutfalli fasteignaskatts óbreyttu. Með þessari aðferð má skófla inn meira og meira fé í gegnum fasteignaskattinn um leið og hægt er að segja að skattar hafi ekki verið hækkaðir, enda hlutfall þeirra óbreytt.

Enn ein vinsæl en óbein leið er að leggja gjaldskrár á opinbera þjónustu sem ætti í raun að vera margborguð í gegnum skattkerfið. Þannig má rukka sjúklinginn á sjúkrahúsinu um brauðsneiðina sína, í fyrstu með vægu gjaldi sem síðar er hækkað og hækkað. Sjúklinga má krefja um komugjöld þótt þeir geti ekki valið um að koma ekki, og byrja á lágri fjárhæð sem síðan má hækka um leið og heimsóknartíminn hjá lækninum er styttur. Hvernig ætli færi fyrir hárgreiðslustofu sem hegðaði sér á sama hátt? 

Ríkiseinokun á rekstri er óendanleg uppspretta af fé almennings. Sumir muna hvernig farsímagjöld hrundu þegar fyrirtækjum var leyft að keppa við Símann á fjarskiptamarkaði. Aðrir muna hvað var erfitt að fá heyrnatæki áður en einkaaðilum var leyft að koma inn á þann markað, í samkeppni við ríkisvaldið. Þar sem hið opinbera hefur sleppt takinu hefur orðið til val, samkeppni og markaðsaðhald. Þar sem hið opinbera rígheldur í eitthvað, t.d. sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu, þar rýrnar þjónustan um leið og hún hækkar í verði, og það er tekjulind fyrir hið opinbera sem fer fram hjá flestum í dægurþrasinu. 

Þú hugsar kannski ekki „ónýttur skattstofn“ þegar þú lítur á þig í spegli, en það gera flestir stjórnmálamenn. Það er því ráð að koma þeim út úr sem flestu svo þeir geti féflett þig sem minnst.

Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. nóv. 2018 og er aðgengileg áskrifendum blaðsins hér.


Já og nei og hvað með það?

Það er rétt að við erum fljót að henda nothæfum hlutum og kaupa nýja.

Það er rétt að kostnaður við ýmsa framleiðslu er orðinn svo lágur að það borgar sig oft frekar að kaupa nýtt en láta gera við.

Það er rétt að mikið af góðum hráefnum endar í ruslinu vegna óþreyju neytenda að kaupa sér nýtt.

Það er hins vegar ekki rétt að kenna Amazon um.

Brjótum þetta aðeins upp.

Vesturlönd eru að flæma mikið af framleiðslufyrirtækjum sínum í burtu með allskyns kvöðum á losun koltvísýrings, auk himinhárra skatta. Fyrirtækin flýja ríki þar sem almenningur gerir kröfur um hreint loft og hreint vatn og hefur fengið yfirvöld til að setja lög sem tryggja loft- og vatnsgæði.

Fyrirtækin flýja til ríkja þar sem kostnaður við að eitra loft og land er svo gott sem enginn. Mengun er einfaldlega talin vera forsenda iðnvæðingar og dómstólarnir geta lítið gert. Svona nálgun var einnig beitt á upphafsárum iðnvæðingar Vesturlanda: Eignarétturinn var tekinn úr sambandi og svörtum reyk leyft að leggjast yfir menn og búfénað. Fyrirtækin höfðu enga hvata til að finna upp hreinni tækni. Því fór sem fór. 

Þegar það kostar ekkert fyrir fyrirtækin að losa sig við úrgang og eiturefni lækkar það auðvitað framleiðslukostnaðinn sem vestrænir neytendur njóta svo í lægra vöruverði.

Það má því segja að Vesturlönd hafi gert neyslu sína ódýrari með því að ýta framleiðslunni í önnur heimshorn.

Neytendur gera líka annað: Þeir vilja að snjallsíminn verði snjallari, tölvan verði öflugri, bíllinn þægilegri, húsið betur einangrað og maturinn sé ferskur en ekki niðursoðinn. Við þessu kalli neytenda bregðast fyrirtæki. Það er ekki svo að fyrirtæki ráða því hvað er keypt. Ef svo væri þá gengi öllum fyrirtækjum vel því það væri nóg fyrir þau að framleiða til að einhver kaupi. Svo er ekki.

Það má finna jafnvægi sem heitir að það kosti að menga og þar með að versla framleiðslu sem mengar.

Ég er ekki að tala um koltvísýring. Hann er ekki mengun. Eftir örfá ár munu kynslóðir framtíðar hlægja sig máttlausa af ótta okkar við koltvísýring sem flæmir fyrirtæki til ríkja sem leyfa raunverulega mengun og geta þar með lækkað vöruverð til þeirra sem óttast koltvísýring.


mbl.is Ofneysla á kostnað endurvinnslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bótakerfið komið að þanmörkum

Það er ekki auðvelt að halda úti bótakerfi. Vandamálin eru nánast endalaus.

Ef bætur eru svo háar að þær duga til framfærslu munu þær laða að fólk sem vill frekar vera á bótum en vinna.

Sé auðvelt að komast á bætur laðar það að sér sama mannskap. Sé það erfitt verða einhverjir sem raunverulega þurfa aðstoð útundan. 

Séu bætur svo lágar að þær duga ekki til framfærslu eru þeir sem raunverulega þurfa bæturnar í vondum málum.

Sé ætlunin að halda úti mjög rausnarlegu bótakerfi fyrir alla sem þiggja bætur þarf að hækka skatta. Slíkt flæmir vinnandi fólk inn í bótakerfið því það er orðið erfiðara að afla nægra tekna til að fjármagna bæði bótakerfið og eigin framfærslu.

Það besta í stöðunni er auðvitað að fækka bótum, koma sem flestum út úr bótakerfinu og geta þá í staðinn greitt bætur sem duga til framfærslu eða sem uppbót fyrir þá með skerta starfsgetu.

Slíkt kemur sér hins vegar illa fyrir þá sem eru nú þegar á bótum og hafa vanist því að þiggja bætur í stað þess að vinna.

Það er auðvelt fyrir stjórnmálamann að bæta 100 manns við hóp bótaþega (hvort sem það eru örorkubætur eða listamannabætur) og uppskera fyrir það hrós og klapp á bakið fyrir að hafa slegið sig til riddara á kostnað skattgreiðenda. Það tekur ár og daga að koma einum manni út úr þeim hópi.

Það þarf að taka til en enginn hefur pólitískt þor til að segja það, og hvað þá leggja í það.


mbl.is „Sorglega lélegt svar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loðdýrabændur af ýmsu tagi

Það tekur andartak að koma á niðurgreiðslu, stuðningi, tollavernd, bótakerfi og skattahlunnindum.

Það tekur augnablik að búa til nýja stöðu opinbers starfsmanns og ráða í hana.

Þessi andartök og augnablik uppskera mikið hrós frá viðeigandi hagsmunasamtökum. Þau hafa hlotið vernd og sérstaka náð fyrir augum ríkisvaldsins. Störf verða til. 

Þegar kemur í ljós að það var óheppilegt að veðsetja skattfé ríkisins í áhættusaman rekstur eða veita sérstök hlunnindi til að halda dauðadæmdum fyrirtækjum á lífi blasir annar veruleiki við.

Það getur tekið mörg ár og jafnvel áratugi að afnema niðurgreiðslu, stuðning, tollavernd, bótakerfi og skattahlunnindi.

Það getur reynst nánast ómögulegt að leggja niður stöðu opinbers starfsmanns og koma verkefnum hans út á hinn frjálsa markað (sé yfirleitt þörf á að vinna þau).

Þessi ár fyllast af kröftugum mótmælum frá viðeigandi hagsmunasamtökum. Þau sjá fram á að gufa upp og lenda á öskuhaugum sögunnar. Mikið er gert úr því að störf hverfa og fólk verður atvinnulaust. Grísirnir svelta til dauða ef gyltan lokar á spenana.

Þessi tregða kerfisins til að minnka, skila aftur eða afnema ætti að vera víti til varnaðar.

Ég hef enga skoðun á loðdýrarækt í sjálfu sér. Ætli stjórnmálamenn sér hins vegar að ausa fé skattgreiðenda í hana óttast ég að það verði að varanlegu fyrirkomulagi, hvað sem líður heimsmarkaðsverði á skinnum. Er þá ekki betra að framleiðendur aðlagist einfaldlega breyttum markaðsaðstæðum strax?


mbl.is Tíminn er að hlaupa frá okkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar selji eigur sínar erlendis

Íslendingar geta auðvitað takmarkað og jafnvel bannað kaup útlendinga á eignum á Íslandi, hvort sem það eru jarðir, fyrirtæki, fasteignir, sumarbústaðir og ruslahaugar. 

Um leið þurfa Íslendingar að sætta sig við að þeir gætu mætt sömu takmörkunum erlendis. 

Þeir gætu þurft að sætta sig við að geta ekki keypt sumarhús á Spáni, íbúðir í Kaupmannahöfn, jarðnæði í Svíþjóð, fyrirtæki í Þýskalandi og veiðirétt í Ástralíu.

Íslenskir fjárfestar, eins og lífeyrissjóðirnir, gætu lent í því að fjárfestingar þeirra erlendis mættu takmörkunum. Áhættudreifing þeirra yrði því bundin við að kaupa skuldir hins opinbera og hlutabréfakaup í íslenskum fyrirtækjum sem sveiflast upp og niður með aðstæðum á hinum litla íslenska markaði. 

Menn þurfa bara að gera upp við sig hvað þeir vilja og sætta sig við að það sem Íslendingar gera að reglu á Íslandi gæti orðið að reglu á Íslendinga erlendis.


mbl.is „Ísland á að vera eign þjóðarinnar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurvinnsla (á glærum) í borginni

Hvenær ætla menn að gefast upp á þunglamalegum miðstýringarbatteríum?

Hvenær hætta menn að trúa þeirri haugalygi að það sé gott fyrir neytendur og notendur að hafa ekkert um það að segja hver veitir þeim þjónustu, og hvenær?

Hvenær byrja menn að krefja stjórnmálamenn um að skila einhverjum þeirra verkefna sem hið opinbera hrifsaði af frjálsri samvinnu?

Ég verð stundum alveg steinhissa á því hvað kjósendur eru auðkeyptir og láti hið opinbera endurtekið og ítrekað svíkja sig og pretta, afleiðingalaust.

Einkafyrirtæki sem svíkur og lofar upp í ermina á sér fer lóðbeint á hausinn og missir alla viðskiptavini í hendur samkeppnisaðila. 

Hið opinbera hækkar bara skatta og reynir að kenna öðrum um eigin klúður.

Og skólabörn, barnafjölskyldur, sjúklingar, aldraðir og fátækir raðast á biðlista og loforðalista og geta bara vonað það besta, en lítið gert nema bíða.


mbl.is Fimm nýir leikskólar og 750 fleiri pláss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband