Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2018

Valið milli tveggja slæmra valkosta

Lífið stillir oft upp valkostum fyrir okkur. Stundum eru báðir slæmir. Þá þarf að vega og meta. Stundum hentar sumt betur en annað, og stundum öfugt. 

En mætir þá á svæðið góðhjartaði stjórnmálamaðurinn. Hvað gerir hann? Hann fjarlægir annan valkostinn. Málið leyst!

Það sem var áður val á milli erfiðisvinnu og hungurdauða er einfaldað: Hungurdauðinn einn er í boði.

Það sem áður var val á milli verksmiðjuvinnu og vændis er einfaldað: Verksmiðjuvinnan er gerð útlæg eða ólögleg og vændið eitt stendur eftir sem val.

Auðvitað fer margt fram í heiminum sem mér misbýður mér persónulega. Auðvitað má alltaf fordæma ofbeldi og þjófnað. En hverjum er verið að hjálpa með því að fækka valkostum í lífinu? Nætursvefni þeirra ríku sem þurfa varla að velja á milli annars en kavíars og kampavíns?


mbl.is „Hann dó eins og vígamaður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frumkvöðull tekst á við risa

Vivaldi-vafrinn er að mörgu leyti ágætur. Það er hægt að aðlaga hann að eigin þörfum, hann er röskur að birta heimasíður og ég hef ekki rekist á neitt hingað til sem vafrinn ræður ekki við.

En til hvers að byggja enn einn vafrann? Er ekki vonlaust að keppa við risa eins og Microsoft, Google og Apple?

Það er öðru nær. Nýir aðilar koma með nýjar nálganir. Ef neytendur eru ánægðir þá skipta þeir um vöru. Annars ekki. Saga netvafranna er ekki löng en þar hafa átt sér stað miklar og hraðar breytingar og sér ekki fyrir endann á því. Eða man einhver eftir Netscape lengur?

En nóg um hinn frjálsa markað skapandi eyðileggingar.

Einkavæðum allt. Það frelsar staðnaðar rekstrareiningar úr frosnum höndum ríkisins. Frumkvöðlar gætu látið til sín taka í umönnun aldraðra, sjúklinga og ungabarna. Þeir gætu endurhugsað rekstrarumhverfi spítalanna. Þeir gætu innleitt tækninýjungar sem bjarga mannslífum mun hraðar en opinberar nefndir gera. Þeir gætu endurheimt raunverulega menntun í skólakerfinu. Krakkar gætu á ný lesið sér til gagns og reiknað þegar þess er þörf.

Stöðnun er dauði. Ríkisrekstur er stöðnun.


mbl.is Vivaldi smíðar tölvupóst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem þeir vilja sjá

Borgarstjóri lætur hafa eftirfarandi eftir sér:

„Eitt af því sem ein­kenn­ir upp­bygg­ing­una er að hún er ekki fyr­ir ein­hvern einn hóp. Stærst­ur hluti upp­bygg­ing­ar­inn­ar eru al­menn­ar sölu­íbúðir en svo eru fjöl­mörg verk­efni með verka­lýðshreyf­ing­unni, stúd­ent­um, fé­lög­um sem eru að byggja upp fyr­ir eldri borg­ara og öðrum sem eru að koma upp og tryggja þessa nauðsyn­legu blöndu sem við vilj­um sjá.“

Það er sem sagt þetta sem borgarstjóri vill sjá.

En hvað með það sem aðrir vilja sjá? 

Margir vilja sjá framboð á lóðum í úthverfum aukast og að þær séu veittar eða seldar á raunhæfum kjörum (en ekki með útboðum þar sem borgin reynir að kreista sem mest út úr lóðaveitingunni). 

Margir vilja sjá litlar og ódýrar íbúðir úti um allan bæ en sérstaklega nálægt þjónustukjörnum.

Margir vilja sjá rúmgott húsnæði fyrir fjölskyldur á bærilegum kjörum og sætta sig alveg við að búa í útjaðrinum á meðan það er nóg pláss fyrir alla á heimilinu.

Margir vilja sjá einföld fjölbýlishús sem eru jafnvel án geymslupláss, lyftu og tiltekinnar lágmarksstærðar af gluggum í svefnherberginu, en með sitt eigið bílastæði. 

Margir hefðu viljað sjá uppbyggingu áður en verð húsnæðis rauk upp úr öllu valdi með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu og þar með verðtryggð lán og áhrifum á kaupverð með tilheyrandi þörf á skuldsetningu. Fjölskylda á Akureyri þarf núna að borga af hærra láni en ella af því Reykjavík lokaði á lóðaframboð. 

Af hverju má þetta fólk ekki sjá sínum þörfum mætt líka? Af hverju er það bara það sem borgarstjóri vill sjá sem fær að rætast? Sýn sem má í stuttu máli kalla: Of lítið, of seint. 


mbl.is Metár í byggingu nýrra íbúða í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það skal niðurgreitt sem er í tísku

Stjórnmálamenn elska að skreyta sig með stolnum fjöðrum. Þeir finna lyktina af því sem er í tísku og drífa sig svo að eyða fé skattgreiðenda í það. Þannig má uppskera atkvæði og vinsældir á kostnað annarra.

Stundum þýðir þetta að hið opinbera dælir skattfé í samkeppnisrekstur við einkaaðila sem þurfa bæði að borga alla skatta og kaupa aðföng og þjónustu á markaðsverði. 

Ef fé skattgreiðenda tapast gengur stjórnmálamaðurinn óskaddaður frá því og sendir öðrum reikninginn. Fyrir einkaaðila þýðir tap gjaldþrot og fé leitar í eitthvað annað og arðbærara.

Það má vel vera að á Íslandi sé stjórnarskrá og almenn stemming fyrir því að lögin gangi jafnt yfir alla, en í raun er það svo að fyrir hið opinbera gilda ein lög og það innheimtir skatta eins og því sýnist á meðan önnur lög gilda fyrir aðra.

Sú forréttindastaða sem hið opinbera nýtur gleður þá sem styðja stjórnvöld hverju sinni og eru hlynntir því hvernig það togar í alla spotta og stjórnar samfélaginu. Komi hins vegar til stjórnarskipta súrnar aðdáun þeirra sem studdu fráfarandi stjórnvöld og allt í einu er hið opinbera að traðka á samfélaginu í stað þess að stýra því í rétta átt.

Væri ekki einfaldlega best fyrir alla að minnka ríkisvaldið og færa stjórn samfélagsins í auknum mæli til borgaranna, sem geta kosið daglega hvern þeir styðja og hvern ekki?


mbl.is Klasar skekkja samkeppnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndislega miðstýring á fávitum

Svo virðist sem hið opinbera menntakerfi geri ráð fyrir að skólastjórar, rektorar og aðrir yfirmenn skólanna séu fávitar.

Þeir kunna ekki að velja starfsfólk eða úthluta starfsfólki verkefni við hæfi.

Þeir eiga á hættu að ráða stórhættulega og rangt menntaða einstaklinga sem brengla hausinn á krökkunum með röngu kennsluefni.

Þeir velja ranga umsækjendur um stöður og úthluta þeim of mikilli ábyrgð.

Hættan er sú að þessir skólastjórnendur sendi nemendur á veg glötunar og tapaðra tækifæra.

Þess vegna þarf að gefa út allskyns leyfisbréf sem kveða á um allskyns menntun og námskeið.

Það er ekki nóg að hafa skilning á námsefninu og viljann til að kenna það. Nei. Þú þarft að hafa leyfisbréf, sem bendir á ákveðið skólastig, og hananú.

Skólastjórnendur, af hverju þurfið þið að vera svona miklir fávitar?


mbl.is Skiptar skoðanir um eitt leyfisbréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

OR sem tékkhefti

Það hefur réttilega verið bent á að OR er notað eins og mjólkurbelja til að útvega peninga í tóman borgarsjóðinn. Umræddan hagnað OR má skýra með því að öll gjöld OR til neytenda eru í hæstu hæðum og hafa verið síðan OR þurfti að klóra sig upp úr holu sem áhættufjárfestingar þess fyrir hrunið 2008 höfðu dregið fyrirtækið ofan í.

Fasteignagjöldin eru sömuleiðis mjólkurbelja. Skattheimta vegna þeirra eykst og eykst með hækkandi fasteignamati um leið og kostnaður við þá þjónustu sem þau eiga að fjármagna gerir það ekki.

Þetta blasir við og menn geta ekki skýlt sér á bak við hagnaðartölur, sem að hluta má skýra með yfirgengilegri gjaldtöku og að hluta með pappírshagnaði vegna hækkandi verðmats á hinu og þessu.

Borgin er skelfilega illa rekin og fer að verða að athlægi á höfuðborgarsvæðinu þegar hún er borin saman við nágrannasveitarfélögin, t.d. Hafnarfjörð þar sem menn eru enn á fullu að taka til eftir seinustu stjórnartíð vinstrimanna. Það verkefni tekur við í Reykjavík dag einn og verður mjög erfitt viðureignar.


mbl.is Kallar á „einbeittan vilja til útúrsnúnings“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er í lagi að vera samkynhneigður

Ímyndum okkur að einhver tæki upp á því að hengja upp miða sem á stæði: Það er allt í lagi að vera samkynhneigður.

Nú eða: Það er allt í lagi að vera fatlaður.

Nú eða: Það er allt í lagi að vera múslími.

Nú eða: Það er allt í lagi að vera kona.

Nú eða: Það er allt í lagi að vera rauðhærður.

Nú eða: Það er allt í lagi að vera með athyglisbrest.

Nú eða: Það er allt í lagi að vera sá sem maður fæddist.

Yrðu miðar af þessu tagi tilefni fréttaskrifa? Færi rektor í málið? Yrðu slíkir miðar dæmdir sem fordómar? Í andstöðu við jafnréttisáætlun háskóla?

Nei, auðvitað ekki, því það er allt í lagi að vera sá sem maður fæddist.

Nema hvítur. Þá er maður fordómafullur. Það er ekki í lagi að vera hvítur. Af hverju ekki? Jú, af því einhver pólitísk hreyfing í Bandaríkjunum segir að það sé í lagi.

Jafnréttisbarátta ýmissa hópa undanfarinna áratuga er komin af sporinu og byrjuð að éta sín eigin börn.


mbl.is Fordómafull skilaboð á háskólasvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markaðurinn hreinsar til

Icelandair hefur keypt WOW air. Þetta mun hafa breytingar í för með sér fyrr eða síðar. Kannski hækka flugfargjöld og hagnaður Icelandair eykst og laðar þannig að sér keppinauta. Kannski ekki og reksturinn verður ásættanlegur en ekki nógu glæsilegur til að draga fjárfesta frá öðrum tækifærum.

Kannski sjá félög eins og EasyJet og RyanAir tækifæri í kaupum WOW air. Kannski ekki.

Kannski sjá flugfélög eins og KLM og BA tækifæri nú þegar það er viðbúið að samruni sé að eiga sér stað með tilheyrandi hagræðingu sem leiðir kannski til svigrúms.

Við vitum það ekki en eitt er víst: Neytendum verður þjónað. Kannski fækkar hræódýrum miðum en þá ferðast þeir minna sem vilja borga minnst. 

Svona sveigjanleiki hefði verið drepinn ef ríkið hefði troðið sér að borðinu og byrjað að niðurgreiða, veita ríkisábyrgðir eða beinlínis taka rekstrarlega stöðu. Þá hefði lífi verið haldið í sofandi risum rétt eins og gildir um svo margt annað á Íslandi. Heilbrigðiskerfið og landbúnaður eru sofandi risar á spenanum sem fá ekki að aðlagast, vakna, breyta um ásýnd eða leita nýrra leiða. Þeir fitna og fitna og verða sífellt svifaseinni. Sem betur fer urðu það ekki örlög flugsamgangna til og frá Íslandi.


mbl.is Skúli ávarpaði starfsfólk WOW air
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgin leigir því dýrt en leigir út ódýrt

DV segir frá athyglisverðu máli í kringum svokallaðar mathallar Reykjavíkur. Lykilsetning í frétt þeirra er, að mínu mati:

Borgin leigir því dýrt en leigir út ódýrt.

Þetta er vitaskuld hægt að skýra með því að benda á að þeir sem vasast með fjármuni skattgreiðenda eru ekki að vasast með eigið fé. Menn nota skattfé til að ná pólitískum markmiðum og þau skipta oft meira en að fá sem mest fyrir takmarkað fé. Ekki hætta menn að borga skatta, er það nokkuð?

Borgin er kannski slæmt dæmi, en ekki einsdæmi. Um allt land, og raunar allan heim, brenna stjórnmálamenn fé skattgreiðenda í glæsihallir og bruðl og tískubólur og vonast til að fá endurkjör út á það eða klapp á axlirnar frá uppáhaldshagsmunagæsluhópunum. 

Reykjavík er kannski með verst reknu sveitarfélögum landsins, en það mega fleiri taka til sín í þeirri gagnrýni sem borgarstjórn þarf að sæta, með réttu.

En kannski er hið jákvæða í þessu máli að miðbæjarbúar og ferðamann geta nú heimsótt matsölustaði í rándýru leiguhúsnæði og fjármagnað þannig hagnað einhvers vildarvinar borgarstjóra. Gleður það ekki alla?


Sem betur fer er miðbærinn að deyja

Það hefur verið ákveðið, á einn eða annan hátt, að byggja við og endurnýja spítalann við Hringbraut.

Nú þegar er erfitt fyrir alla að komast þarna að og komast þaðan í burtu. Sjúkrabílar eru engin undantekning.

Það má með réttu óttast að staðsetning þessa sjúkrahúss sé stórhættuleg fyrir sjúklinga.

Huggum okkur þá við eitt:

Með örfáum undantekningum eru fyrirtæki að flýja miðbæinn. Fyrir venjulegan Íslending fer ástæðunum til að leggja leið sína í miðbæinn fækkandi. Megnið af umferðinni þarna er fólk að troðast til og frá fyrirtækjum í kringum miðbæinn - vandamál sem sumar borgir leysa með hringvegum í kringum þrengslin, en ekki í Reykjavík.

Það er því kannski sjúklingum til happs að miðbærinn er að deyja og fyrirtæki miklu frekar að flýja hann en sækjast í hann. Já, vissulega opnaði H&M verslun þarna, og Harpan er þarna og Kolaportið og Landsbankinn, en hvað fleira? Búðir sem sérhæfa sig í ferðamönnum? Deyjandi verslanir því það er verið að skera á aðgengið með lokun á bílaumferð?

Kannski Hringbraut sé alveg réttur staður, vegna nálægðar við flugvöllinn og sjúkraflugin og vegna hægfara dauða miðbæjarins. Sjáum hvað setur.


mbl.is Ekki hjá óþægindum komist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband