Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Nú eða einkavæða... alveg!

Hugsum okkur eftirfarandi:

Ríkisvaldið á ekkert fyrirtæki sem dreifir bréfum. Ríkisvaldið setur ekki nein lög á meðhöndlun bréfa og pakka. Ríkisvaldið skiptir sér ekkert af því hver ber út bréf og pakka. Ríkisvaldið veit varla af póstdreifingu öðruvísi en að þar tekur fyrirtæki við varningi og kemur honum áleiðis, gegn greiðslu, og starfar samkvæmt sömu lögum og t.d. fatahreinsanir, pizzusendlar og jólasveinarnir þrettán.

Hvað er það versta sem hægt er að hugsa sér að gerist í slíku umhverfi? Að enginn geti sent bréf? Að allir pakkar komi rifnir og gegnblautir á áfangastað? Að fimm mismunandi póstkassar fylli alla stigaganga fjölbýlishúsa?

Ég er forvitinn.  


mbl.is Ríkisframlag eða aðhaldsaðgerðir framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðskiptalíkan ÍLS = viðskiptalíkan SÍ = gengur ekki upp

Aðþrengd staða Íbúðalánasjóðs [ÍLS] kom einnig til umræðu á fundi nefndarinnar. Að mati seðlabankastjóra er ljóst að viðskiptalíkan sjóðsins „gengur augljóslega ekki upp“ í núverandi efnahagsumhverfi – og því sé spurning hvort hann eigi starfa áfram til frambúðar með óbreyttum hætti. Þrátt fyrir að sjóðurinn sé langt undir þeim eiginfjármörkum sem reglur kveða á um þá telur Már að það sé hugsanlega tilgangslaust að leggja honum til meira eigið fé þegar haft er í huga að sjálft viðskiptalíkanið gengur ekki upp.

Athyglisverð ábending, ekki satt? Og kannski sérstaklega áhugaverð í ljósi þess að hana á bankastjóri Seðlabanka Íslands (SÍ). 

Nánar um ÍLS (feitletrun mín):

Íbúðalánasjóður er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins sem veitir einstaklingum, sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum húsnæðislán til íbúðarkaupa og byggingarframkvæmda. Íbúðalánasjóður er fjárhagslega sjálfstæður og stendur undir lánveitingum og rekstri með eigin tekjum.

Tilgangur sjóðsins er að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast og leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Nánar um  (feitletrun mín):

Seðlabanki Íslands (á ensku: The Central Bank of Iceland) er sjálfstæð stofnun, sem er eign íslenska ríkisins en lýtur sérstakri stjórn

Seðlabankinn fer með stjórn peningamála á Íslandi og hefur með höndum margþætta starfsemi í þeim tilgangi. Meginmarkmiðið með stjórn peningamála er stöðugleiki í verðlagsmálum. Seðlabankanum ber þó einnig að stuðla að framgangi meginmarkmiða efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að svo miklu leyti sem hann telur það ekki ganga gegn meginmarkmiði hans um verðstöðugleika. Seðlabankinn á ennfremur að sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd. Fleiri verkefni mætti upp telja, svo sem útgáfu seðla og myntar, framkvæmd gengismála og fleira, samanber það sem tilgreint er í lögum um bankann. 

Óneitanlega er margt sem ÍLS og SÍ eiga sameiginlegt. Báðar stofnanir eru "sjálfstæðir" ríkisbankar sem þjóna pólitísku hlutverki. Þeir eiga að stuðla að hinu og þessu, tryggja hitt og þetta og vera sjálfstæðir og óháðir en að vísu bara að því marki sem það þjónar hagsmunum hins opinbera.

Báðar stofnanir treysta á burðargetu skattgreiðenda og þeirra sem skapa verðmæti til að eiga inni einhvern snefil af trúverðugleika. Báðar stofnanir eru pólitísk sköpunarverk og með öllu óþarfar á hinum frjálsa markaði.

Viðskiptalíkan ÍLS og SÍ eiga það svo fyrst og fremst sameiginlegt að viðskiptalíkan þeirra (svokallað) „gengur augljóslega ekki upp“. 


mbl.is „Aðalatriðið“ að launahækkanir nái ekki yfir alla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-aðild ekki nógu ótvírætt slegin af borðinu

Úr drögum að ályktun utanríkisnefndar landsfundar Sjálfstæðisflokksins (héðan):

Áréttað er að gera skuli hlé á aðildarviðræðunum við Evrópusambandið og þær ekki hafnar að nýju nema það verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Er þetta ekki óþarflega veikt orðað? Af hverju er þetta "nema" þarna? Það virðist vera opið fyrir (rangri) túlkun sem þarf að aflífa sérstaklega. Er Sjálfstæðisflokkurinn fullveldisflokkur eða ESB-flokkur eða stundum eitt og stundum annað? Hann er "klofinn" í afstöðu sinni að vísu, en ekki meira en Samfylkingin þegar kemur að sama málaflokki.

Til landsfundar Sjálfstæðisflokksins: Skerpið orðalagið!


mbl.is Hlé þýði að ESB-viðræðum verði hætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einfaldari leið: Að bætur komi fyrir tjón

Tveir menn eru nágrannar, eiga sitthvort einbýlishúsið og aðliggjandi lóðir. Annar þeirra er hinn mesti unnandi gróðurs og gosbrunna og mikill snyrtipinni. Hann ræktar lóð sína og passar að þar þrífist allt líf.

Hinn er hinn mesti sóði. Hann vanrækir garðinn sinn og hellir jafnvel úrgangi í jörðina og hendir rusli út um allt.

Nú fer ruslið að fjúka frá garði þess sóðalega og yfir í garð þess hreinlega. Mengun í jarðvegi þess sóðalega fer að berast í garð þess snyrtilega. Mikil hrörnun á sér stað á garði þess snyrtilega vegna umgengni þess sóðalega.

Hvað getur sá snyrtilegi gert? Hann getur höfðað mál og bent á bein tengsl á milli sóðaskapar nágranna síns og rýrnandi loft- og jarðgæða í eigin garði. Sá sóðalegi fær reikning fyrir þeim skaða sem hann hefur valdið. Engin lög þurftu önnur en þau að ekki megi skemma eða stela eignum annarra.

Að dómstólar einfaldlega standi vörð um eigur eigenda er næg vörn og löggjöf fyrir allt sem heitir "umhverfisvernd" og "ábyrgð" vegna mengunar og slæmrar umgengni við eigur annarra.


mbl.is Hömlur á olíuleit á norðurslóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bætur og atvinnuleysi: Reynsla Dana er slæm

Danskir fjölmiðlar fjalla núna mikið um þá staðreynd að þeir sem þiggja starf á launum nálægt því sem mætti kalla lágmarkslaun eiga á hættu á að fá minna í atvinnuleysisbætur seinna en þeir fá í dag nema laun starfsins séu þeim mun hærri. Niðurstaða: Fyrir marga atvinnulausa Dani borgar sig miklu frekar að halda áfram að vera atvinnulaus þótt laun starfsins þýði hærri tekjur því þær hærri tekjur leiða til skerðingar á atvinnuleysisbótum seinna.

Þrátt fyrir þetta er pólitískt hik við að breyta kerfinu. Það er alltaf auðveldara að hækka bætur og gera fleiri að bótaþegum en það er að skera í bætur og fækka bótaþegum. Yfirleitt þarf gjaldþrot að blasa við ríkinu til að eitthvað sé hægt að gera við lamandi bótakerfi. Yfirleitt þarf sterkan leiðtoga til að knýja slíkar umbætur í gegnum þrjóskt kerfið.

Íslendingar hafa sem betur fer alltaf haft ákveðna fordóma gegn því að einhver sitji heima á bótum ef einhver möguleiki er á að finna launað starf. Þetta viðhorf er kannski að breytast, því miður. Það verður Íslendingum dýrt, bæði til skemmri og lengri tíma.


Smyglið orðið mjög ábatasamt

Smygl á áfengi og sígarettum til Íslands er orðið mjög ábatasamt. Mikil hagnaðarvon dregur að sér fleiri og fleiri sem eru tilbúnir að leggja ýmislegt á sig.

Neytendur taka vel í hið lægra verð og kaupa sín vímuefni af nánast hverjum sem er. Glæpamenn eru oft með annað á boðstólnum en hinn löglega og hátt skattlagða markað. Unglingar í leit að sígarettum finna meira úrval á hinum svarta markaði en í næstu sjoppu. Kannabis og amfetamín eru mjög algengar söluvörur á hinum svarta markaði. Þeir lengra komnu fá svo kannski smjörþefinn af ólöglegu fjárhættuspili og jafnvel boð um að kaupa þjónustu vændiskvenna sem hírast við slæm skilyrði í neðanjarðarhagkerfinu.

Það var pólitísk ákvörðun að gera tóbak og áfengi á Íslandi miklu dýrara en víðast hvar annars staðar. Það var pólitísk ákvörðun að leiða hjá sér allar fyrirframþekktar afleiðingar þess að þenja út svarta markaðinn og sópa fleirum inn á hinn hann í leit að löglegum en dýrum varningi, og finna þar í leiðinni allt annað sem er ólöglegt en aðgengilegt og falt.

Ég veit ekki hvað ríkisvaldið sér að sjálfsábyrgð og forræði fullorðinna einstaklinga. Eitthvað er það samt.


mbl.is Teknir með 20 þúsund vindlinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hún kann þetta, þessi ríkisstjórn

Ríkisstjórnin kann hinn pólitíska feluleik.

Þegar einhverju þarf að fresta er hægt að bera fyrir sig tungumálaörðugleikum. Allt þarf að vera á íslensku áður en það megi ræða.

Þegar gegnsæi þarf að fórna má kaupa sér frest með því að tala hátt og mikið og opinskátt um aukið gegnsæi. Sá sem kvartar yfir skorti á gegnsæi er varla að fela neitt sjálfur, er það? Þeir sem hneykslast yfir mataræði og áfengisdrykkju annarra hljóta að borða hollan mat og drekka lítið, ekki satt?

Hægt er að setja mál í nefnd, teygja lopann með því að óska eftir áliti óteljandi aðila, fela óþægileg sannindi með því að skrifa í kringum þau stóra skýrslu sem enginn les, og svona má lengi telja.

Hægt er að draga fram hvert umdeilda málið á fætur öðru til að tryggja að sem minnst umræða eigi sér stað og sem mestar líkur á að þingmenn samþykki allt bara til að komast heim eða í langþráð frí.

Þetta er ákveðin snilld satt að segja. Almenningur lætur blekkjast, blaðamenn hafa svo mikið að gera að þeir ná í mesta lagi að skrifa stuttar fréttir um það sem er í gangi, og stjórnarandstaðan gerir svörin hæfilega loðin til að ýta vandanum á undan sér.

Ég held að allir þeir þingmenn stjórnarflokkanna sem missa vinnuna í vor muni eiga auðvelt með að fá vinnu sem fjölmiðlafulltrúar umdeildra fyrirtækja og stofnana, t.d. mafíunnar, smyglara og klámsíðna.


mbl.is Tekur lengri tíma að þýða álitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækifæri til tiltektar

Næsta ríkisstjórn fær ómetanlegt tækifæri til að taka til eftir hrunið auðvitað ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms. Sú tiltekt á meira að segja möguleika á að komast í gegnum pólitískan ótta þingmanna við að missa atkvæði.
mbl.is Segir að stjórnin eigi að fara frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óáreiðanlegur varnagli

"Varnagli" í formi "neitunarvalds" forseta Íslands er óáreiðanlegur. Ef forsetinn ákveður að "virða ákvörðun Alþingis" í hvívetna er varnaglinn brotinn. Ef forsetinn lætur sannfærast um ágæti vonds málstaðar meirihluta Alþingis er varnaglinn brotinn. Ef forsetinn er erlendis og staðgengill hans ólmur í að skrifa undir er varnaglinn brotinn. Ef forsetinn telur að embætti forseta eigi bara að vera til skrauts er varnaglinn brotinn.

Á hinn bóginn getur varnaglinn líka orðið að bremsu eða stíflu. Ef forsetinn er ólmur í að fá athygli getur varnaglinn orðið að stíflu. Ef forsetinn er eindreginn stuðningsmaður stjórnarandstöðunnar og hafnar öllu sem henni er ekki þóknanleg er varnaglinn orðinn að stíflu. Ef forsetinn talar fyrir "beinu lýðræði" og "milliliðalausri ákvörðunartöku" og sendir öll stór mál í þjóðaratkvæðagreiðslu er varnaglinn orðinn að stíflu. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru ágætar en þær eru of dýrar og þunglamalegar í færibandalagasmíði nútímans.

Góður varnagli á ríkisvald í útþenslu er vandfundinn. Einn gæti samt verið viðhorf almennings. Ef almenningur hættir að umbera sívaxandi ríkisvald, byrjar að efast um ágæti núverandi ríkisvalds, og fer jafnvel að hallast að stórkostlega minnkandi ríkisvaldi, þá er hætt við að þrýstingur á stjórnmálamenn til að taka til í ríkisrekstrinum (þrífa, henda og skera niður) aukist.

Besti varnaglinn er fólginn í sterku og háværu aðhaldi almennings. Almenningur á að krefjast þess að stjórnmálamenn sjúgi loftið úr ríkisvaldinu. Almenningur á að hætta að líta á ríkisvaldið sem stóra fóstru sem elur upp fullorðið fólk. Almenningur á að hrifsa til sín það vald sem ríkisvaldið hefur tekið til sín með valdi. Til dæmis valdið til að borða sykrað og litarefnaríkt Cocoa Puffs eða sprauta sig með heróini ef þannig liggur á einhverjum.  

Þetta er besti varnaglinn. Um leið er hann líka sá versti, því almenningur lætur glepjast. Þannig er það bara. Vonandi er tilhneigingin að gleypa við áróðri ríkisvaldsins samt á undanhaldi.


mbl.is SUS vill halda í forsetann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers að svara?

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi í Reykjavík er sennilega einn af þremur til fjórum stjórnmálamönnum á Íslandi sem hafa raunverulegar áhyggjur af gríðarlegum þunga hins opinbera á herðar hins vinnandi manns.

Hann spyr og skrifar og rannsakar og ræðir.

En til hvers ætti einhver að svara honum? Lögin kveða auðvitað á um skyldur og allt það en hjá slíku er alltaf hægt að komast. Svör geta verið loðin. Þau geta borist seint. Þau geta svarað einhverju allt öðru en um var spurt og þá er hægt að hefja ferlið að nýju eða sleppa því.

Fyrir utan það veit Jón Gnarr ekki nokkurn skapaðan hlut um það sem er að gerast í því apparati sem formlega séð heyrir undir hann.

Ég vona samt að Kjartan og aðrir af hans tegund stjórnmálamanna gefist ekki upp. Dropinn holar steininn og málefnaleg, hvöss, ákveðin og aðgangshörð stjórnarandstaða hlýtur að skila einhverju, einhvern tímann.


mbl.is Fær ekki svör um kostnað við Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband