Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Volcker flýr Obama-hraðlestina til helvítis

Paul Volcker, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, segir nú skilið við Obama Bandaríkjaforseta og reynir að fjarlægja nafn sitt af þeim hörmungum sem Obama er að leiða yfir bandarísku þjóðina.

Obama verður sennilega minnst sem forsetans sem gerði dollarann að verðlausum pappír eða allt að því. Hann verður borinn saman á jafnréttisgrundvelli við GW Bush þegar kemur að gjafmildi í útgjöldum til "velferðar"mála, herútgjalda, skuldsetningar, peningaprentunar og reglugerðarvæðingar. Menn munu deila um það hvor keyrði bandaríska ríkið hraðar í átt að gjaldþroti og sennilega komast að þeirri niðurstöðu að Obama hafi haft vinninginn.


mbl.is Volcker sest aftur í helgan stein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkurnar hafa alltaf verið NÚLL

Þeir sem halda að það sé hægt að fá samþykki fyrir einhverri "stóriðju" (með tilheyrandi orkuframleiðslu) á Íslandi í dag lifa í besta falli í blekkingu. Eingöngu er hægt að halda áfram með verkefni sem er búið að afgreiða úr ráðherraskrifstofunum. Ekkert nýtt eða enn ósamþykkt sleppur úr "meðferð" núverandi stjórnvalda.

Ef "umhverfismat" er ekki nóg til að stöðva framkvæmd, þá er talað um lögmæti, eða friðlýsingu, eða málið sett í nefnd, aftur og aftur þar til nefnd kemst að þeirri niðurstöðu að ekki eigi að ráðast í framkvæmd. 

Þeir sem vilja eyða tíma sínum og peningum í að reyna sannfæra yfirvöld um ágæti einhverrar framkvæmdar eru að sóa tíma sínum og fé. Betra er að halda í aurana og bíða eftir stjórnarskiptum og reyna þá. 

Núverandi stjórnvöld eru (sennilega ómeðvitað) að reyna knésetja hinn almenna Íslending og benda honum svo á að það sé gott að betla á tröppum þinghússins í Brussel. En bara ef maður er meðlimur í ESB. 


mbl.is Líkur á að álverið rísi í Helguvík minnka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sameinaðir föllum vér

Svokölluð "Samtök atvinnulífsins" gera þá kröfu að ríkisstjórnin slaki á hótunum sínum um algjöra uppstokkun á stærsta gjaldeyrisaflanda Íslands, sjávarútveginum, áður en menn binda sig með samningum til þriggja ára. Ósanngjörn krafa? Varla.

Þetta hentar samt ríkisstjórninni mjög illa. Hún vill að menn semji um föst kaup og kjör (í krónum talið) til margra ára, en sé sjálf alveg óbundin. Ríkisstjórnin sér til dæmis fyrir sér að geta bundið alla launþega í launum en haft um leið frjálsar hendur til að rúlla vænum skattahækkunum yfir þá og á þann hátt dæma þá til opinberrar framfærslu. Sniðug aðferðafræði séð út frá sjónarhóli sósíalískra yfirherra, en launþegar og atvinnurekendur sjá vonandi í gegnum plottið.

Ef Íslendingar sameinast á bak við fána sósíalískrar landsstjórnar þá eru Íslendingar dæmdir til ánauðar. Sameinaðir föllum vér. Sundrunguna um sósíalismann þarf að auka.  


mbl.is „Alþýðusambandið hrökk frá“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrikalegir talsmenn Íslands

Eru Björk og Jóhanna Sigurðardóttir í keppni um hvor er verri talsmaður Íslands á alþjóðavettvangi?

Nýjasta afreki Jóhönnu er lýst hér:

Ein valdamesta kona heims, Jóhanna Sigurðardóttir, þáði í gær heimboð Davids Camerons, forsætisráðherra Bretlands. Cameron stendur fyrir einhvers konar fundi þjóðarleiðtoga á norðurslóðum og Jóhanna ákvað að mæta til Lundúna. Og ef marka má fréttir þá hefur hún þegar komið mikilvægu máli á framfæri við forsætisráðherra landsins sem setti hryðjuverkalög á Ísland og gerir nú stórfelldar löglausar kröfur á hendur landinu sem það sjálft beitti órétti: Jú herra Cameron, kona yðar eignaðist barn í fyrra. Ef Bretar hefðu hið frábæra fæðingarorlofskerfi og Íslendingar, þá gætuð þér nú verið á leið í frí.

Björk segir nú öllum sem reka hljóðnema framan í hana að íslenska ríkið geti og vilji blæða tugum milljarða af fé skattgreiðenda til að bæta nætursvefn sinn og ótta við vonda Kanadamenn.

Útlendingar hljóta að vera alveg undrandi á hugarfari Íslendinga. Vilja þeir ekki erlenda fjárfestingu? Er þeim illa við að leigja heitavatnsbólur neðanjarðar í skiptum fyrir væna þóknun? Eru skattgreiðendur á Íslandi með botnlausa vasa?

Ólafur Ragnar Grímsson, með öllum sínum kostum og göllum, virðist vera sá eini sem heldur uppi merki Íslendinga erlendis. Það finnst mér vera hættumerki. 


mbl.is Vilji til að láta sölu á HS Orku ganga til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lánsfé á eyðslubálið

Ríkisstjórnin hefur svo sannarlega verið iðin síðan hún tók við. Hún dustaði rykið af minnispunktum Ólafs Ragnars Grímssonar, "Skattmanns", úr fjármálaráðherratíð hans og fylgdi nákvæmlega eftir.

Ríkisstjórnin hefur forðast það eins og heitan eldinn að taka erfiðar ákvarðanir. Þegar bankakerfið hrundi á Íslandi, og krónan með, þá myndaðist risastórt gat á rekstri ríkisins. Í stað þess að færa útgjöld að tekjum, eins og venjuleg heimili gera þegar kreppir að, þá var kreditkortunum fjölgað og skattavöndurinn dreginn fram og hann látinn dynja á óvörðum skattgreiðendum. Þessi aðferð, "Hækkun skatta og skuldir", hefur stundum gefist vel til skemmri tíma, en hún eyðileggur allar langtímavonir hagkerfisins og þeirra sem knýja það áfram með svita síns erfiðis. 

Ríkisstjórnin er með einfalda dagskrá:

  • Koma Íslandi langleiðina inn í ESB áður en kjörtímabilinu lýkur
  • Ýta sem flestum gjalddögum risavaxinna gjaldeyrislána inn í næsta kjörtímabil, þar sem önnur ríkisstjórn þarf að takast á við þá
  • Koma sem flestum vinstrimönnum á ríkisspenann
  • Flýja frá öllum erfiðum ákvörðunum með lántökum

mbl.is Góð þátttaka í ríkisbréfaútboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsjáanlegt

Sáu ekki allir í gegnum brosandi andlitin í kosningabaráttu vinstriflokkanna, þar sem frambjóðendur viku sér undan að svara spurningum um hækkandi skatta og hert viðskiptahöft?

Sjálfur skrifaði ég strax í kjölfar stjórnarmyndunar:

Til hamingju, Ísland, með nýja vinstristjórn. Hún mun nú taka til hendinni við að skuldsetja ríkissjóð og skattgreiðendur á bólakaf og hækka skatta.

Einnig:

Frjálslyndir Íslendingar mega vitaskuld vera hræddir og áhyggjufullir, enda full ástæða til þess. Óþarfi er samt að eyða of miklu púðri í vangaveltur um hagstjórnarmistök vinstrimannanna. Þau eru sögulega vel þekkt og ættu ekki að koma neinum á óvart.

Allt er þetta að rætast og rúmlega það. 

Núna lítur út fyrir að Samtök atvinnulífsins séu loksins að vakna upp við vondan draum. "Nei heyrðu nú mig, er verið að loka á erlenda fjárfestingu og kæfa allt hagkerfið í skuldum og sköttum? Þetta er hræðilegt. Mótmælum!"

Mótmæli gegn dæmigerðri hagstjórn vinstrimanna í umhverfi vinstristjórnar er tímasóun. Menn ættu miklu frekar að setja sig í stellingar fyrir kosningar og undirbúa mikla pressu á frambjóðendur hinna flokkanna og þvinga þá til að lofa ríflegum skattalækkunum, miklum niðurskurði á útgjöldum hins opinbera, slitum á "samstarfi" við AGS, riftun aðlögunarumsóknar að ESB og aðskilnaði ríkis og hagkerfis


mbl.is Vögguvísur yfir atvinnulífinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þótt fyrr hefði verið

Ríkisstjórnin hefur það pólitíska markmið að stöðva alla uppbyggingu á orkufrekum iðnaði á Íslandi, og alla fjárfestingu útlendinga í einhverju sem er óljóst skilgreint sem "auðlindir".

Yfirlýst markmið er auðvitað eitthvað allt annað. Menn tala um "sjálfbærni" og "umhverfisvernd" og annað fínt til að breiða yfir þann einlæga ásetning að stöðva uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Íslandi.

Þarþarþarseinasta ríkisstjórn hafði það á dagskránni að stuðla að uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Íslandi. Þetta vissu allir, bæði kjósendur og þingmenn utan ríkisstjórnar.

Ríkisvaldið á ekkert erindi inn á markað orkuframleiðslu orkunotkunar. En þarþarþarseinasta ríkisstjórn var þó heiðarleg og sagði opinskátt frá þeim ásetningi sínum að beita sér fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Núverandi ríkisstjórn segist vera fylgjandi eða a.m.k. ekki andsnúin einhverju sem einkaaðilar reisa eða kaupa á Íslandi. En undir niðri er hún að róa öllum árum gegn frekari fjárfestingum útlendinga á Íslandi, sérstaklega í einhverju sem framleiðir eða nýtir orku eða aðrar "auðlindir" í sem breiðustum skilningi. 

Fjárfestar láta stundum plata sig en á endanum gefast þeir upp. Núna gefst Alcoa upp.


mbl.is Alcoa sagt ætla að draga sig í hlé á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugarfar sóunar

Í Reykjavík hafa menn sýnt það og sannað að þeim er engin alvara með tali um "niðurskurð" og "aðhald í rekstri". Holurnar á borgarsjóði eru margar og af öllum stærðum og gerðum og fé skattgreiðenda lekur úr þeim öllum.

Núna hefur svokallað "Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar" úthlutað einhverjum kjaftaklúbbinum í borginni heilli milljón svo meðlimir kjaftaklúbbsins (en ekki aðrir) geti borðað súpu á kostnað skattgreiðenda. Þessa milljón þarf að fá lánaða því hún er ekki til í borgarsjóði. Þessi milljón ber því vexti sem lenda á skattgreiðendum.

Ég veit að stjórnmálamönnum finnst fátt skemmtilegra að "úthluta" fé skattgreiðenda og gera það með sem flesta fjölmiðlamenn og blaðaljósmyndara í kringum sig. En er ekki nóg komið?


mbl.is Borgin styrkir súpufundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska vinstrið er spillt

Stundum kemur það fyrir að "kannanir" og "athuganir" hinna og þessara stofnana falli að almennri tilfinningu hins venjulega manns. Líklega er um eitthvað slíkt að ræða hér.

Hvað pólitísk inngrip varðar er Íslandi skipað á bekk með nokkrum löndum Mið- og Suður-Ameríku, Afríku, Asíu og Rússlandi. Þegar horft er til hættunnar á greiðslufalli hins opinbera breytist landslagið nokkuð, og fleiri lönd Evrópu bætast á kortið.

Þetta sér hvert mannsbarn sem þekkir til aðstæðna á Íslandi.

Menn hafa talað hátt og mikið um að "uppræta spillingu" á Íslandi. Hér hafi verið vinagreiðasamfélag þar sem viðskipti og stjórnmál hafi þrifast á hvort öðru á kostnað almennings.

Kannski var um eitthvað slíkt að ræða fyrir hrun. En lengi getur vont versnað. Ástandið er miklu verra nú en þá. Biðstofur ráðherra eru fullar af mönnum að biðja um undanþágur frá gjaldeyrishöftum, sértækar skattalækkanir og aðra greiða. Vinstristjórnin kann ágætlega við sig í slíku umhverfi. Vinstrimaðurinn vill að sem flestir þræðir samfélagsins liggi á einni hendi - þeirri opinberu. "Spilling" er vinstrimanninum því ágætlega að skapi, af hugmyndafræðilegum ástæðum.


mbl.is Pólitísk áhætta aukist á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignanám 'ekki útilokað'

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagðist á Alþingi í gær ekki útiloka að  til eignarnáms kæmi vega sölunnar á HS Orku ...

Ummæli af þessu tagi úr munni ráðherra ættu sennilega ekki að koma neinum á óvart, a.m.k. ekki þeim sem þekkja sósíalískan hjartslátt forsætisráðherra. Ríkisstjórn sem hækkar alla skatta og leggur á nýja ber enga virðingu fyrir eignaréttinum og lítur frekar á hann sem hindrun en rétt.

Núna eru ummælin komin í loftið. Það eru stór tíðindi. Erlendir fjárfestar sem heyra þau munu ekki láta sig dreyma um að flytja fé sitt til Íslands. Blaðamenn vita þetta og senda "mýkri" útgáfu af þeim til erlendra fjölmiðla - sjá til dæmis frétt Bloomber hérna. Talsmenn Magma reyna að halda ró sinni en þar á bæ hljóta menn samt að vera undirbúa lögsókn á íslenska ríkið ef stjórnaraðferðir í anda Sovétríkjanna og Zimbabwe verða teknar upp, í trássi við alla viðskiptasáttmála Íslands við umheiminn.

Pólitískt raunsæi ríkisstjórnarinnar segir henni að syngja í kór við þá sem hæst góla en gera eitthvað allt annað. Ég held þess vegna að ríkisstjórnin muni ekki aðhafast neitt í "málefnum" HS Orku og Magma. Ummæli forsætisráðherra munu hins vegar hræða alla erlenda fjárfestingu langt frá Íslandi. Eða hver kaupir land til ræktunar í Zimbabwe? Enginn. 


mbl.is Nokkrar leiðir færar í Magma málinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband