Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Mótmælin voru skipulögð (að sögn Harðar Torfasonar)

Það er alveg greinilegt að þessu [atburðir við Alþingishúsið við þingsetningu í haust] er ekki stjórnað, andstætt búsáhaldabyltingunni, því henni var miklu meira stjórnað á bak við tjöldin.

...sagði Hörður Torfason "mótmælandi" um búsáhaldabyltinguna svokölluðu þann 6. október 2010 í viðtali við Morgunblaðið. Þessu tóku ekki margir eftir. Vonandi tekur saksóknari í þessu máli eftir. 


mbl.is Mótmælin í Alþingishúsinu skipulögð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er markmiðið? Að nýta eða ekki?

Stjórnmálamenn gleyma því stundum að úti í heimum stóra heimi er fólk sem tekur ákvarðanir byggðar á því hvaða lagaumhverfi er hægt að búast við í framtíðinni. Ef sífellt er verið að sópa öllum grundvelli undan fjárfestingum og framtíðaráætlunum þá er hætt við að fólk veigri sér við að leggja í fjárfestingar og gera áætlanir.

Núna eru stjórnmálamenn til dæmis að tala um að kippa öllum grundvelli undan fiskveiðikerfinu á Íslandi. Slíkt skapar rekstraráhættu, fjárfestingafælni og stöðnun. 

Iðnaðarráðuneytið er núna á fullu að vinna að því að kippa grundvellinum undan rekstri HS Orku í höndum nýrra eigenda fyrirtækisins. Hvað halda menn að slíkt geri fyrir fjárfestingu í orkuiðnaði á Íslandi?

Er mönnum kannski alveg sama? Vilja menn að allar ákvarðanir um fjárfestingu í orkuiðnaði á Íslandi séu í höndum opinberra fyrirtækja? Telja menn að það sé til bóta? Eða er markmiðið kannski að stöðva fjárfestingu í orkuiðnaði á Íslandi (t.d. í nafni umhverfis"verndar")?

Hafa sömu menn gleymt því að Orkuveita Reykjavíkur er opinbert fyrirtæki sem er þannig séð gjaldþrota?

Hafa sömu menn gleymt því að stjórnmálamenn hafa oft allskyns sjónarmið að leiðarljósi, eins og "byggðasjónarmið" og "atvinnusköpunarsjónarmið", og ýta því opinberum fyrirtækjum út í fjárfestingar með lélegri arðsemi og háum fórnarkostnaði, og jafnvel tapi? 

Það sem skiptir mestu máli fyrir rekstrarskilyrði allra fyrirtækja er að þau séu stöðug.  Að menn geti verið nokkuð vissir um að lagaumhverfið sé ekki á fleygiferð, að skattar séu nokkuð svipaðir frá ári til árs, og að afskipti af rekstrarumhverfi séu sem minnst. Þetta skiptir mestu máli. Í stöðugu laga- og skattaumhverfi er hægt að gera áætlanir. Á grundvelli þeirra er hægt að taka ákvarðanir um fjárfestingu.

Óvissan sem sumir stjórnmálaflokkar hella yfir hinar ýmsu atvinnugreinar er verra en flest, og með öllu óþolandi. Vonandi stendur Jóhanna Sigurðardóttir við áramótheit sín og vonandi fylgja aðrir ráðherrar hennar fordæmi ef og þegar hún uppfyllir sín heit. 


mbl.is Afnotaréttur verði til „hóflegs tíma“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dollarinn á niðurleið

Obama hefur ekki gert margt annað síðan hann komst til valda en að fyrirskipa peningaprentun og útgjöld. Þetta hefur áhrif á þau gæði sem eru verðlögð í dollar, og olían er þar á meðal. Fallandi kaupmáttur dollar veldur hækkandi verðlagi í dollar.
mbl.is Enn hækkar olían
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morgunblaðið í þágu sameignarsinna?

'Morgunblaðið sýnir sjónarmiðum sameignarsinna ótrúlegt aðhaldsleysi með langri "frétt" um sjónarmið Ólínu Þorvarðardóttur. Hún fær birta langa og samhengislausa skoðun sína mótþróalaust í hinu svokallaða "borgaralega" dagblaði sem sögulega séð hefur staðið vörð um grundvallarmannréttindi (t.d. eignaréttindi) Íslendinga.

Hvers vegna?

Uppfært (16/1/2011): Morgunblaðið stendur vaktina, sjá hér. Sem betur fer. 


mbl.is Afnemi kvótakerfið strax í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talnaleikfimi og blekkingar

Bandarískt efnahagslíf er ekki að styrkjast. Það er á hreinu. Tölur um "hagvöxt" eru talnaleikfimi. Hagvöxtur er mældur sem aukning á "neyslu" og skiptir þá litlu hvort sú neysla er fjármögnuð með tekjum, sparnaði, skuldsetningu eða preningaprentun. "Hagvöxtur" Bandaríkjanna er fjármagnaður með skuldsetningu og peningaprentun. Hann er því ekki raunverulegur. Hann er "bókhaldslegur" ef svo má að orði komast.

Obama er að kafsigla bandaríska hagkerfinu. Hans verður minnst sem forsetans sem gerði illt miklu verra. Forveri hans í starfi var eyðsluglaður og safnaði skuldum og prentaði peninga. Obama gerir allt þetta en í miklu meiri mæli. 


mbl.is Spá allt að 4% hagvexti í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pissað í skóinn

Þegar stjórnmálamenn halda að þeir geti lagt aukaskatta á heilu greinarnar í nafni "auðlindagjalds" án þess að það hafi (neikvæðar) afleiðingar, þá skjátlast þeim.

Lesendur geta velt eftirfarandi fyrir sér (sjá nánar hér):

1) Hvort skyldi arðurinn af auðlindinni vaxa hraðar til langs tíma litið í höndum 100–200 einstaklinga úti í atvinnulífinu eða 63 atvinnustjórnmálamanna á þingi?

2) Ef eigendur auðlinda fá ekki að njóta arðsins af auðlindinni, þá er numinn burt sá hagur, sem þeir hafa af því, að hún beri sem mestan ávöxt til sem lengst tíma.

Sú goðsögn að til sé skattheimta án afleiðinga lifir enn góðu lífi. Auðlindagjöld hvers konar eru talin til skattheimtu án neikvæðra afleiðinga (eða svo gott sem). Sú trú stenst enga skoðun. 


mbl.is Gjald verði tekið fyrir nýtingu orkuauðlinda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sparnaðarhugmynd: Ekki afgreiða 'málið'

Í fjárlögum sem samþykkt voru í desember er ekki gert ráð fyrir neinum greiðslum vegna Icesave. Fjármálaráðuneytið segir að ástæðan sé sú að Alþingi sé ekki búið að afgreiða málið. Verði Icesave-samningarnir samþykktir á Alþingi þurfi að leita heimildar Alþingis að greiða það sem fellur á ríkissjóð.

Þetta er magnað mál. Ef Alþingi ákveður að steypa íslenska ríkinu í skuldir, þá skuldar íslenska ríkið fúlgur fjár. Ef Alþingi ákveður að sleppa því, þá falla engar skuldir á íslenska ríkið.

Mér dettur því í hug sparnaðaraðgerð fyrir ríkissjóð: Að Alþingi afgreiði ekkert mál og sleppi því þannig að skuldsetja ríkissjóð um tugi milljarða. 

Bretar og Hollendingar: "Kæru Íslendingar, má bjóða ykkur að skulda tugi milljarða?"

Íslendingar: "Nei takk."

Case closed.


mbl.is Greiða þarf 26,1 milljarð vegna Icesave í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áróðurinn endurtekinn

Friðrik Már Baldursson, prófessor, sérfræðingur og dómsdagsspámaður, er óþreytandi í Icesave-áróðri sínum. Núna hefur hann að vísu dregið fyrri yfirlýsingar um "greiðslufall ríkisins" til baka en alltaf skal samt vitnað í hann og hans "rök" fyrir því að Íslendingar kyngi kröfum Breta og Hollendinga af því það skapar ESB-sinnum aukið pólitískt svigrúm.

Fjölmörg íslensk fyrirtæki hafa fengið stór lán á erlendum mörkuðum undanfarin misseri þótt "Icesave-deilan" svokallaða sé ennþá "óleyst" (lesist: Íslendingar ennþá ekki byrjaðir að greiða þótt þess sé krafist). Undantekningin er einna helst Landsvirkjun sem sækist eftir risastóru láni frá hápólitískum fjárfestingabanka Evrópusambandsins. Kemur á óvart að í stjórn þess banka sitji Bretar og Hollendingar sem beita pólitískum þrýstingi? Nei. Á það að vera nóg til að Íslendingar lyppist niður og greiði hvað sem hver segir? Nei.

Það er kominn tími til að hætta að endurbirta skrif Friðriks Þórs Baldurssonar þótt þau birtist stundum á erlendum vefsíðum.


mbl.is Ekki sami þrýstingur á lausn Icesave og áður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áætlun Íslands: Safna skuldum

Hin svokallaða "efnahagsáætlun Íslands" byggist fyrst og fremst á einu síður en svo fyrirmyndarframtaki: Skuldasöfnun.

Allt gengur út á að fá AGS til að sannfærast um að Ísland geti borið enn meiri skuldir. Þessir sérfræðingar AGS sjá auðvitað eintóm tækifæri í því að gera heilu þjóðirnar að skuldunautum sínum. Slíkt hefur í för með sér mikil völd fyrir þessa sömu sérfræðinga.

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. sjá ekkert nema tækifæri í skuldasöfnun. Þannig má skjóta öllum erfiðum ákvörðunum á frest, inn í næsta kjörtímabil, þar sem aðrir sitja uppi með innheimtuseðlana. 


mbl.is Fjórða endurskoðunin samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ónothæfur listi

Þessi undirskriftasöfnun getur ómögulega skilað sér í neinu handföstu. Hvað á stjórnmálamaður að gera við 44 þúsund undirskriftir þar sem skorað er á stjórnvöld að "láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum Íslands og nýtingu þeirra"? Hvaða valmöguleika á að setja á atkvæðaseðlana í slíkri atkvæðagreiðslu? Á að hrista stoðir stjórnarskráarinnar og skapa gríðarlega réttaróvissu á landinu í mörg ár? 

Þetta með að stöðva söluna á HS Orku er marklaus texti. Sú sala verður ekki "stöðvuð" eða látin ganga til baka nema stilla tómum ríkissjóði upp í skotlínu málsóknar og bótaskyldu. Kaupendur HS Orku eru í nákvæmlega sömu sporum og sá sem er að ganga frá kaupum á húsnæði og er tilbúinn að flytja inn, búinn að gera áætlanir um endurbætur á nýju heimili sínu og jafnvel leggja í mikil útgjöld vegna fyrirhugaðs innflutnings. 

Það er alltaf gaman að fylgjast með tónlistarmönnum með lögheimili erlendis heimsækja sitt föðurland og keyra stór átaksverkefni af stað og safna öllum fjölmiðlamönnum saman til að fá sem mesta umfjöllun. En hvað varðar innihald og nothæf plögg, þá er eitthvað minna af því. 

 


mbl.is Söfnunin heldur áfram í viku í viðbót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband