Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Ný bóla þanin út

Margir fylgjast spenntir með þróun efnahagsins í Bandaríkjunum og telja hana vera vísbendingu um það sem koma skal fyrir allan heiminn. Bandaríkjamenn eru jú þeir sem kaupa mest af dóti og ef þeir kaupa mikið þá selja aðrir mikið og þannig vegnar öllum vel. Eða hvað?

Nei. En svo einfalt er það ekki.

Þegar netbólan sprakk árið 2000 voru peningaprentvélarnar í Bandaríkjunum settar á fullt. Hagvöxtur "mældist". Umheimurinn lánaði Bandaríkjamönnum með glöðu geði. Úr varð bóla. Hún sprakk.

Núna á að reyna að skapa samskonar "vöxt". Ný bóla verður til. Hún mun springa. 

Hvenær hættir maður, sem á götótt dekk, að blása í það lofti? Hvenær hætta þeir sem framleiða verðmæti að senda afrakstur erfiðis síns til Bandaríkjanna svo það geti breyst í neysluskuldir gjaldþrota einstaklinga og fyrirtækja og ríkissjóðs?

Hagfræðingarnir, sem háskólar heimsins framleiða á færibandi til að verja núverandi kerfi ríkisrekinna seðlabanka og ríkiseinokunar á peningaútgáfu, hafa ekki undan að réttlæta gjörðir peningaprentunarsinna. Þeirra tími er senn liðinn.


mbl.is Efnahagsbati í Bandaríkjunum hægur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÍLS á gjörgæslu og smitar út frá sér

Íbúðalánasjóður er á gjörgæslu á kostnað skattgreiðenda. Menn geta haft ýmsar skoðanir á því hvað þeim finnist um lánastarfsemi hins opinbera en geta samt ekki litið framhjá eftirfarandi:

  • Skattgreiðendum er gert að blæða milljörðum ofan í svarta hítina til að halda ÍLS á lífi
  • ÍLS situr á hundruðum íbúða sem hann vill ekki setja á sölu til að halda verðlagi húsnæðis uppi. Húsnæði verður því áfram of hátt verðlagt miðað við kaupmátt og eftirspurn í dag, og þeir sem kaupa sér húsnæði þurfa að skuldsetja sig á bólakaf til að fjármagna kaupin. Íbúðareigendur í dag njóta opinberrar niðurgreiðslu og verðlagsstýringar, en aðrir borga brúsann
  • ÍLS tók mjög virkan þátt í að kynda undir íslensku fasteignabóluna og att markaðinum út í vítahring hækkandi lána og minnkandi skilyrða fyrir lánum
  • ÍLS vann gegn aðhaldsstefnu Seðlabanka Íslands á lánamarkaði með lágvaxtastefnu sinni og greiðu aðgengi að ódýru lánsfé
  • ÍLS er starfræktur til að þjóna ákveðnum pólitískum markmiðum. Slík markmið fara ofar en ekki illa saman við önnur markmið, svo sem hagkvæmni- og hagnaðarmarkmið hins frjálsa markaðar (þar sem fyrirtæki keppast um að lágmarka kostnað til að halda keppinautum frá - hér er vert að bæta við að íslensk fjármálafyrirtæki halda keppinautum frá með stífum laga- og reglumúr hins opinbera og því síður berskjölduð fyrir samkeppni á grundvelli hagkvæmni í rekstri)
  • ÍLS fær ekki að fara á hausinn og hvatinn til að reka hann vel því minnkaður (og er enn frekar minnkaður því honum er gert að starfa eftir pólitískum markmiðum, ekki rekstrarlegum)

"Tap á rekstri" ÍLS er stórt og sennilega viðvarandi nema þegar árferði er með eindæmum gott. Svipaða sögu er að segja frá öðrum sjóðum sem eru reknir með pólitískum markmiðum (t.d. fyrir námsmenn, landbyggðina, nýsköpun og svona mætti lengi telja).

 


mbl.is Líklegt að ríkið þurfi að leggja Íbúðalánasjóði til fé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fuglahvísl AMX: Eitur í beinum margra

Óþol margra á Fuglahvísli AMX er rosalegt. Ég hef nánast aldrei séð annað eins. Það nær jafnvel langt út fyrir óþol margra á Agli Helgasyni og þá er mikið sagt.

  • Hérna lætur blaðamaður DV fuglahvíslið fara í taugarnar á sér í sömu andrá og hann kallar það "marklaust" (hvernig sem það fer saman veit ég ekki)
  • Hérna gerir einn það að aðalatriði hver skrifar fuglahvíslið og notar orð eins og "þráhyggja" og "hatur" og "lærisveinn" til að pipra mál sitt örlítið
  • Hér er fært í svipaðan stíl
  • Egill Helgason þolir ekki Fuglahvísl AMX: 1 2 3

Það er enginn skortur á þeim sem deila grunnhugmyndum pistlahöfunda AMX (en nota e.t.v. varfærnara orðalag), en sleppa við fyrirlitningu DV og Egils Helgasonar. Þeir eru hins vegar ekki jafnháværir eða víðlesnir og Fuglahvísl AMX. Kannski það sé málið. Kannski að skoðanir þeirra sem eru ósammála launuðum álitsgjöfum séu alveg í góðu lagi, en bara á meðan þær heyrast ekki of hátt.

Ég les Fuglahvísl AMX á hverjum degi og líður stundum eins og ég sé að lesa fréttir fram í tímann. Það er gaman. Sömuleiðis skemmtilegar eru tengingar fuglahvíslara við hina og þessa vildarvini Samfylkingar-ráðherrana, sem útskýra vissulega margar af furðuákvörðunum þeirra seinustu mánaða. 

Sumt fuglahvísl er langsótt, annað ekki. Stundum er orðalagið harkalegt og óvægið, stundum ekki. En ómissandi lesning. 


Gettu hvaða ár!

Ágæti lesandi, veistu hvaða ár eftirfarandi átti sér stað?

  • Skattar hækkaðir, nánast allir sem einn
  • Nýir skattar kynntir til leiks
  • "Áætlaðar tekjur" ríkisins af sköttum fara lækkandi
  • Atvinnulífið frosið
  • Ríkið skuldsett á bólakaf
  • Fjármálaráðherra talar um bætta tíð og blóm í haga um leið og hann tilkynnir næstu hrinu skattahækkana

Til hvaða árs er vísað? 2010? Nei. 1988, þegar Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi fjármálaráðherra, iðkaði sömu leikfimi með hagkerfið og Steingrímur J. iðkar í dag. Um það má lesa aðeins meira um hérna. Ekki voru blómin komin né bætta tíðin 3 árum seinna með Ólaf Ragnar í stól fjármálaráðherra. Þá var ennþá verið að hækka skatta og horfa upp á minni "áætlaðar tekjur" ríkissjóðs vegna þeirra. Um það má til dæmis lesa hér.  

Tilvitnun dagsins:

En að halda því fram að nú eigi að hækka skatta, kannski á næstu mánuðum eða svo, er fjarstæða. Það er fjarstæða að halda því fram.

Vel má vera að í áætlununum sem við þurfum að gera til næstu fjögurra ára þurfi kannski að fara bæði í niðurskurð og skattahækkanir.

- Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra svarar fyrirspurn á Alþingi 9. febrúar 2009 um hvort ríkisstjórnin hyggist hækka skatta


mbl.is Skattar hækka um tíu milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG lúffar - aftur

Jón Bjarnason gerði nokkuð sem Ungum jafnaðarmönnum og Samfylkingunni finnst alveg óþolandi: Talaði umbúðalaust!

Ríkisstjórnin reynir allt sem hún getur til að lauma Íslandi inn um hundalúguna hjá ESB. Samrunaviðræður hefjast bráðum, en undirbúningur er vel á veg kominn. Þessu gera sér ekki allir grein fyrir, og þannig á það að vera. Eða svo segja Ungir jafnaðarmenn.

Þeir sem eru einlæglega hlynntir því að Ísland renni inn í ESB ættu að skammast sín fyrir svona vinnubrögð. Er sannfæringarmáttur þeirra ekki meiri en svo að aðild að ESB þurfi að koma á með klækjabrögðum? 

Þeir eru samt ekki allir ESB-sinnarnir sem reyna að klóra yfir óþægilega hreinskilni landbúnaðarráðherra. Einn ESB-hlynntur kunningi minn skrifaði sem stöðu hjá sér á fjésbókinni í dag:

Ég hef einu sinni fylgst með ríki aðlagast kröfum Evrópusambandsins í aðdraganda aðildar. Það tókst frábærlega upp í það skiptið. Mun án efa verða eins í þetta skiptið. Það er nú ekki eins og við getum ekkert lært af öðrum.

Spurningin er svo bara: Vilja Íslendingar aðlagast fyrst, og taka afstöðu seinna, eða taka afstöðu fyrst og aðlagast svo ef vilji er fyrir því?


mbl.is Krefjast afsagnar Jóns Bjarnasonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausnarhugmyndir

Eitthvað virðist stjórn OR vanta hugmyndir til að koma til móts við skuldafjallið sem OR er undir. Það er því ekki úr vegi leggja nokkrar til:

Hugmynd #1: Selja eignir:

OR á nóg af eignum og með örlítilli pólitískri hægribeygju er örugglega hægt að koma mörgum þeirra í verð. Segjum til dæmis sem svo að HS Orka verði keypt af Magma Energy, en orkuver OR seld í hendur einhvers annars fyrirtækis. Er þá ekki kominn prýðilegur grundvöllur fyrir harða samkeppni? Þeir sem vilja að ríkið eigi orkufyrirtæki geta þá att Landsvirkjun á þann samkeppnismarkað og séð til hver sé betri til að reka hefðbundið fyrirtæki sem þarf aðföng og viðskiptavini og agað bókhald: Einkaaðilar eða hið opinbera (sem setti OR í þrot).

Hugmynd #2: Lýsa OR gjaldþrota:

Önnur prýðileg leið til að vinda ofan af skuldabagga OR. OR brotið upp í milljón mola sem ganga kaupum og sölum á markaði þar til hagstæðar rekstrareiningar mætast á ný, í nýju og "hreinsuðu" fyrirtæki. Nú eða að ríkið setji lög sem sópi brunarústum OR aftur í faðm hins opinbera, sem getur þá á ný byrjað að hlaða skuldum á fyrirtækið (ef einhver vill lána því eftir þjóðnýtingu á eigum fyrri lánadrottna OR).

Hugmynd #3: Stunda kennitöluflakk:

Draumur sósíalistanna í ríkisstjórn gæti ræst með einföldu kennitöluflakki. Reykjavík lýsir sína kennitölu gjaldþrota, og flytur OR yfir á kennitölu í nafni ríkisins sem þá eignast OR. OR og Landsvirkjun má svo sameina í eitt ofur-orkufyrirtæki þar sem verðtaxtar eru ákveðnir á skrifstofu umhverfisráðherra, án tillits til annars en pólitískra hagsmuna.

Hugmynd #4: Mergsjúga grandlausa borgara:

Sú hugmynd sem mér finnst síst er sú að beita OR eins og barefli á grandlausa borgara sem hafa ekki um aðra kosti en að kaupa sína orku af OR. Því miður virðist samt þessi hugmynd ætla verða ofan á.


mbl.is Engin ánægja að hækka gjaldskrár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Agi og aðhald borgar sig (bókstaflega!)

In a commentary about a month ago, I described how the economic world seemed to be drifting into two opposing camps: the Washington-based "Stimulators," who insist that more government debt is the best means to end the financial crisis, and the Berlin- and London-based "Austerians," who argue that debt is the crisis itself. If recent economic data and currency movements can be considered votes of confidence, then the Stimulators should be sweating. Moreover, these recent signals should provide economic analysts and investors with a road map for the future.

... segir Peter Schiff, maðurinn sem spáði fyrir hruninu á réttum forsendum, og ég trúi umfram marga þegar kemur að spádómum fram í tímann.

Svíar, Þjóðverjar og fleiri hafa mætt hinni alþjóðlegu niðursveiflu með aðhaldi og aga í ríkisfjármálunum, sem vonandi verða að skattalækkunum með tíð og tíma:

Swedish growth is underpinned by robust public finances, with its deficit forecast to be the lowest in the European Union this year at 2.1 per cent of gross domestic product. This has allowed the government to pledge increased spending and tax cuts if re-elected, in contrast to the wave of fiscal austerity sweeping much of the EU.

... segir hér. Bandaríkin, Ísland og fleiri ríki hafa stefnt í þveröfuga átt - þar á að eyða skuldsettu fé út í eitt og vona að þannig megi koma hjólum atvinnulífsins af stað. Kannski virkar það, en þá aldrei nema í skamman tíma í einu.


mbl.is Mikill hagvöxtur í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattar MUNU hækka

Heldur einhver að ríkisstjórnin muni ekki hækka skatta? Athugum orðalag AGS samkvæmt blaðamanni (feitletrun mín):

Gangi þetta eftir myndast slaki upp á 20 milljarða króna, sem dregur úr þörfinni á auknum tekjum ríkissjóðs gegnum skattheimtu.

 Orðalagið "dregur úr þörfinni" er hvorki "eyðir þörfinni" né "gerir þörfina enga". Það er því gefið í skyn að skattar þurfi að hækka, en bara ekki eins mikið og áður. Hér finnast heldur engin tilmæli um að ríkið eigi að draga útgjöld enn meira saman til að tryggja hallaleysi á ríkissjóði (að "frádregnum vaxtagreiðslum", sem er auðvitað hlægileg reikningskúnst því vextir eru útgjöld eins og önnur þótt þau gagnist engum nema lánadrottnum hins skuldsetta ríkissjóðs).

En það skiptir engu máli hvernig afkoma ríkissjóðs er. Fyrir skattahækkunum ríkisstjórnarinnar eru ekki bara efnahagsleg rök, og ekki einu sinni fyrst og fremst efnahagsleg rök. Skattahækkanirnar eru drifnar áfram af pólitískri hugsjón ríkisstjórnarinnar. Þeir "ríku" (sem eru nokkurn veginn allir sem eru ekki á lágmarkslaunum eða opinberri framfærslu eða eru háttsettir opinberir embættismenn) eiga að fá að blæða, og gildir þá einu hvort ríkissjóður er rekinn með 100 milljarða halla eða "afgangi". Skattahækkanir fá að standa.

Fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár, sem senn verður afhjúpað, mun innihalda langan lista af skattahækkunum. Þær verða "rökstuddar" með tilvísun í afkomu ríkissjóðs, en eru í raun drifnar áfram af pólitískum hugsjónum. Þær koma því, sama hvað.


mbl.is Skattahækkanir óþarfar ef svo fer fram sem horfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hærri skatthlutföll = minni skattheimta?

Þegar horft er framhjá tekjum vegna sölu eigna er afkoma ríkissjóðs á fyrri helmingi þessa árs 2,8 milljörðum undir tekjuáætlun fjárlaga. Tekjur vegna skatta og tryggingagjalda eru einnig undir markmiði fjárlaga.

 Það kann að koma einhverjum á óvart að hækkandi skatthlutföll leiði til minnkandi skattheimtu.

 Dæmi:

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá í október er nú spáð um 4 milljarða króna halla en það er tæpum milljarði meira en áætlað var fyrir nokkrum vikum.

Þetta stafar einkum af minnkandi tekjum af söluskatti, tollum og öðrum veltusköttum, jafnframt því sem innheimtan sjálf hefur gengið verr upp á síðkastið sem er ákveðin vísbending um vaxandi greiðsluerfiðleika fyrirtækja.

 Þessi lýsing er tekin úr Tímanum, 11. nóvember 1988, þegar linnulausar skattahækkandi þáverandi fjármálaráðherra (Ólafs Ragnars Grímssonar) í þáverandi vinstristjórn virtust engum árangri ætla skila. Ólafur réðist á hallarekstur ríkissjóðs í dalandi hagkerfi með skattheimtu á alla línuna, og viti menn: Vont varð verra!

Vinstrimenn í dag virðast ekki hafa lært neitt af þessu. Skattmann er mættur aftur!


mbl.is Eignasala heldur ríkissjóði uppi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunnugleg þula í munni vinstrimanna

Hver treystir íslenskum vinstrimönnum þegar þeir lofa bættri tíð með blóm í haga?

Athyglisvert er að lesa um fjármálaráðherratíð Ólafs Ragnars Grímssonar. Hér er sagt frá fjárlagafrumvarpi hans fyrir árið 1991. Skattar skrúfaðir upp og niðurskurður hér og þar en hvergi tekist á við stóru málin og skuldinni skellt á aðra vegna þeirra. 

Ekki batnar það þegar farið er lengra aftur, til dæmis til ársins 1988, þar sem Ólafur Ragnar sést í pontu Alþingis að afsaka "minni tekjur" ríkissjóðs þrátt fyrir stanslausar skattahækkanir og hallarekstur.

Hvernig gat Ólafur Ragnar lagt fram fjárlög bæði árið 1988 og 1990 þar sem hann fer með sömu þuluna um að nú sé betri tíð í vændum, ef hann bara fær að sitja á ráðherrastól aðeins lengur?

Það gæti verið fróðlegt að sjá aðeins skipulegri samanburð á tungutaki vinstrimanna í ríkisstjórn bæði þá og nú. Mig grunar að það sé svipað, og að árangurinn sé eftir því fyrirsjáanlegur. Núna eru skattar hækkaðir og ríkissjóður rekinn með bullandi tapi sem þó standi til að stoppa í með linnulausum skattahækkunum. Fyrirsjáanlegar afleiðingar? Ég held það.


mbl.is Sviptingar á fjárlögum 2011
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband