Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Ég er í vafa

Steingrímur J. talar í kross núna. Fyrst segir hann:

Nauðsynlegt væri að hækka skatta að einhverju leyti, þá með réttlátum hætti, og einnig að skera niður.

Síðan segir hann:

 Í mínum huga er alveg ljóst að fara þurfi í almennar aðhaldsaðgerðir en það þarf að skoða þessi mál vandlega og tryggja sem best að fjölskyldur í landinu lendi í sem minnstum vafa.

Í stuttu máli: "Kæru Íslendingar, ég lofa hér með skattahækkunum, og þær verða ekki almennar og ekki nánar útfærðar í bili. Vinsamlegast samt látið það eiga sig að lenda í vafa um hvað ég ætla mér að gera við laun ykkar eða verðlag á vörum og þjónustu sem þið kaupið."

Já, það er stundum meira sagt en hugsað.

 


mbl.is Verkefni nýrrar stjórnar að ákveða niðurskurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SJS: Of mikil eyðsla endar illa

Á nú að senda 16 milljarða af takmörkuðu fé landsmanna í malbik?

Hafa menn þá strax gleymt orðum fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, um að "of mikil eyðsla endar illa"?

„Ef menn eyða meira en þeir afla, ár eftir ár, þá endar það illa. Ég held að það skipti engu máli hvort menn eyða of miklu í krónum, dollurum eða evrum,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs Íslands og fastanefndar Evrópusambandsins í morgun.

Í grundvallaratriðum er enginn munur á lántökum ríkis og einstaklinga. Lán þarf að greiða til baka, hvort sem það er með skattgreiðslum eða beinum afborgunum til lánastofnunar. Þegar fjárhagsörðugleikar steðja að þá er ekki um annað að ræða en að herða beltið og hugleiða betur í hvað er eytt og hvar má skera niður.

Þetta er sú leið sem stjórnmálamenn mæla með fyrir einstaklinga í harmþrungnum ræðum. Um leið og þeir snúa sér við byrja þeir hins vegar að skrifa undir lántökur sem drekkja sárþjáðum skattgreiðendum í skuldafen um ókomna áratugi. Skuldafen ríkisins mun skerða möguleika allra til að spara, greiða niður skuldir og byggja upp eigin fjárhag á ný.

Stjórnmálamenn eru í mótsögn við sjálfan sig þegar þeir mæla með aðhaldi á heimilum og veisluhöldum á Alþingi.  Ráðgjafi ríkisvaldsins bendir á skuldsetningu og neyslu sem leið úr erfiðleikum á meðan ráðgjafi einstaklingsins mælir með aðhaldi og sparnaði. Er ekki eitthvað bogið við það?


mbl.is Breikkun kostar 15,9 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veldur hlýnun kuldahrollinum?

Hitastigið að færast... niður á við?Nú getur vel verið að ég "túlki" myndina sem hér er sýnd "vitlaust" (hún stækkar við að fá tvo músarsmelli), en mér sýnist eitthvað vera bogið við þá túlkun að hún sýni hækkandi hitastig. Þessi mynd og fleiri af sama tagi virðast þvert í móti sýna fram á annaðhvort stöðnun hlýnunar, eða kólnun. Dæmi hver fyrir sig.

Nú má vel vera að sérfræðingar Kaupmannahafnar-ráðstefnurnar hafi eitthvað annað í höndunum en gervihnattarmælingar og fleira fínerí, en þá væri upplagt fyrir fréttamann að grafa þær upplýsingar upp og sýna almenningi á mannamáli.

Ef fréttamenn bregðast þá er upplagt að biðja vel lesna lesendur sem sjá þessi orð um að aðstoða mig í túlkunar-vandræðum mínum. Hjálp!

Mín stóra freisting er sú að telja vísindamenn þessa sem eru samankomnir í Kaupmannahöfn vera verja opinber framlög til lífsviðurværis þeirra gegn hinni alþjóðlegu fjármálakreppu.  Ég er samt viss um að einhver geti bent mér á leiðina úr túlkunar-vandræðum mínum, og að engar slíkar fullyrðingar þurfi að hafa uppi.


mbl.is Jörðin hlýnar hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BB: Að taka upp evru þýðir ekki innganga í ESB

Það að Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, og Björn Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, deili um afstöðu til aðildar Íslands að Evrópusambandinu er sennilega stórfrétt fyrir marga.

Svo er hins vegar ekki, ef marka má þessa frétta. Þar segir:

Þorsteinn sagði m.a. brýnt að tekin verði afstaða til efnahagslegra sjónarmiða sem ráða muni miklu um afkomu okkar á næstu árum. Íslenska krónan sé ekki samkeppnishæf og við þurfum samkeppnishæfa mynt. 

 Af hverju vill Þorsteinn að Ísland gangi í Evrópusambandið? Ef það er eingöngu vegna frekari samruna við innri markað sambandsins (og þar með minni samruna við þá markaði sem Ísland á fríverslunarsamninga við, en ekki sambandið), þá er aðild vitaskuld málið (ef allt annað sem fylgir aðild er tekið hressilega út fyrir sviga). Hins vegar, ef það er evran sem heillar Þorstein, en fátt annað sem fylgir sambandi, þá er hann ekki að hlusta á Björn Bjarnason.

Hvað segir Björn svo, spyr hinn forvitni lesandi þessara orða? Björn bendir einfaldlega á að það er pólitísk ákvörðun (samkvæmt lagaumhverfi ESB) að taka upp viðræður við sambandið um myntsamstarf, rétt eins og með landamæragæslu (Schengen), EES-samninginn, samsköttunarákvæði, og ótal margt fleira. 

Það eru sem sagt stjórnmálamannanna (þú veist, þessir sem eru kosnir), en ekki kerfiskallanna (þú veist, þessir sem enginn kaus) að hefja umræður um myntsamstarf. 

Ef áhugi er á því að hefja slíkt samstarf við ESB, þá þarf frumkvæðið að koma frá stjórnmálamönnum, segir Björn.

Ég hef ekki séð neinn reyna vefengja þessa skoðun Björns, og sjálfur ætla ég hvorki að segja af né á um það, en mér sýnist Þorsteinn ekki hafa tekið á þessari nálgun Björns, ef marka má fréttina.


mbl.is Kapprætt um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærsta bóla sögunnar að fæðast?

Þá lítur allt út fyrir að stærsta bóla sögunnar sé að byrja fæðast, eins og útlit hefur verið fyrir síðan í haust:

Hlutabréf hækkuðu mikið í verði í viðskiptum í kauphöllinni á Wall Street í kvöld og er það rakið til ráðstafana, sem bandarísk stjórnvöld kynntu í morgun og eiga að auka lausafé og gera þarlendum bönkum kleift að lána fyrirtækjum og einstaklingum fé. 

 Hvaða fé er þetta sem á núna að lána út? Hafa bandarískir bankar fundið leynda sjóði innst í hirslum sínum? Hafa sparifjáreigendur nú fyllt alla banka af peningum sem fundust undir koddanum?

Nei. Þetta fé eru nýir peningar (sjá mynd - smella tvisvar á hana til að stækka), sem seðlabanki Bandaríkjanna bjó til í vetur þegar allt fór í fjandans, lagði inn á reikninga bankanna hjá sér en þar hefur hann svo setið síðan því enginn þorir að lána hann út. Enn sem komið er.

Bandarískir bankar sitja núna á yfir 200% "reserves" í lagaumhverfi þar sem 10% er bindiskyldan. Bankarnir vilja ólmir koma þessum peningum út í formi vaxtagefandi lána en hikað við það undanfarna mánuði. Þegar þessi nýi peningur byrjar að flæða út á markaðinn mun hann snúa við hlutabréfa- og húsnæðisverði og koma af stað keðjuverkun rangra fjárfestingarákvarðana sem munu, á endanum, sýna sitt rétta andlit.

Dollarinn er hinn nýi klósettpappír.


mbl.is Bandarísk hlutabréf þjóta upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seðlabanki Zimbabwe hrósar íslensku ríkisstjórninni (óbeint)

As Monetary Authorities, we have been humbled and have taken heart in the realization that some leading Central Banks, including those in the USA and the UK, are now not just talking of, but also actually implementing flexible and pragmatic central bank support programmes where these are deemed necessary in their National interests.

That is precisely the path that we began over 4 years ago in pursuit of our own national interest and we have not wavered on that critical path despite the untold misunderstanding, vilification and demonization we have endured from across the political divide.

Yet there are telling examples of the path we have...For instance, when the USA economy was recently confronted by the devastating effects of Hurricanes Katrina and Rita, as well as the Iraq war, their Central Bank stepped in and injected life-boat schemes in the form of billions of dollars that were printed and pumped into the American economy.

Heimild.

Er til betra hrós fyrir efnahagsstefnu en það sem Seðlabanki Zimbabwe veitir? Meira að segja Milton Friedman og Ben Bernanke til samans teljast sennilega smáir predikarar "læknandi" peningaprentunar við hlið þeirrar merku stofnunar!

(Ég sá heimild mína á einhverri bloggsíðunni en man því miður ekki hverri. Höfundi þeirrar síðu hér með þakkað fyrir hressandi ábendingu!)


Nokkur almenn orð um afskiptasemi ríkisins

Breytingarnar fela í sér að við sérstakar aðstæður getur ÁTVR samið beint við birgja um afhendingu vöru, sem ætluð er til dreifingar á nærsvæði framleiðenda, á öðrum dreifingarstað en í vöruhúsi ÁTVR á Stuðlahálsi.

 Ekki er öll vitleysan eins, en hér er a.m.k. verið að afnema eina slíka. Áfengisframleiðendur á Íslandi, hvort sem þeir finnast á Árskógarsendi eða Vestfjörðum, þurfa núna ekki lengur að senda alla framleiðslu sína alla leið til Reykjavíkur, með tilheyrandi kostnaði og pappírsvinnu og árás á endingartíma varningsins, heldur mega núna, ef ÁTVR nennir, keyra á næstu sölustað ÁTVR með varning sinn. 

Einokunarsala ríkisins á áfengi er slæm, ofurskattar á áfengi eru slæmir, pappírsflóðið sem framleiðendur áfengis þurfa að sinna er slæmt og allskyns höft og íþyngjandi reglugerðir á framleiðslu, sölu og neyslu á áfengi er slæmt. En það er samt ekki stóra lexían sem má draga af hinum "breyttu reglum".

Hin stóra lexía, að mér finnst, er sú að bak við hið ískalda bros hins ofurverndandi ríkisvalds leynist alveg gríðarlega mikil sóun á fé, tíma og frumkvæði fólks og fyrirtækja þess. Ímyndið ykkur alla vörubílana sem eru nú ekki að fara slíta malbiki þjóðveganna með því að keyra með sömu bjórflöskuna fram og til baka yfir íslenskt hálendi. Ímyndið ykkur störfin sem flytjast nú úr vernduðu umhverfi ÁTVR í Stuðlahálsi og út á land, þar sem þau munu bæði kosta neytandann minna og hlotnast fólki á atvinnusvæði sem fyrir löngu ætti  að hafa átt störfin frá upphafi, ef hagfræðin er einhver vegvísir. Ímynduð ykkur bensínsskattana sem ríkið verður af vegna hins ónauðsynlega flutnings á áfengi fram og til baka (já, það er jákvætt). 

Ímyndið ykkur svo hinn stóra hafsjó reglugerða sem er enn við lýði og gæti, með afnámi, haft nákvæmlega sömu jákvæðu áhrif, sem gætu sparað jafnmikið fé, fyrirhöfn og þvingaðan atvinnuflutning frá landsbyggð til þéttbýlis. Er erfitt að ímynda sér að slíkar reglugerðir skipti hundruðum? 

Gagnrýnisleysi á umfang, hlutverk, umsvif og svigrúm ríkisvaldsins er eitur í æðum alls verðmætaskapandi fólks, og vítamínsprauta í æðar allra auðsóandi bjúrókrata. 

Það er lexían sem af þessu má draga. Finnst mér.

Ein spurning til þeirra sem til þekkja: Mér sýnist hinar breyttu reglur ekki leyfa t.d. bjórnum Kalda að sendast beint frá Árskógarströnd og til Vopnafjarðar, enda eru þessi sveitarfélög varla flokkuð sem "nærsvæði". Þýðir það að bjórinn Kaldi sem selst á Vopnafirði fær alltaf hringferð í kringum landið? Að ef Skeiðarárhlaup verður, þá fáist enginn Kaldi á Vopnafirði? Ég spyr.


mbl.is Breyttar reglur leiða til sparnaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur Jónasson um 'málþóf'

Það eru umdeildu málin sem kalla á athygli. Langar umræður á Alþingi eru einmitt oftar en ekki tilraun til að ná eyrum þjóðarinnar í málum sem stjórnarandstaðan telur skaðleg og brjóta í berhögg við þjóðarvilja.

Annað veifið heyrast þær raddir að banna eigi þingmönnum að hafa langt mál um slík mál. Það væri mikið óráð. Eða vilja menn virkilega að kæfa stjórnmálaumræðu í landinu? Þöggun á þingi myndi vera skref í þá átt.

Texti héðan.

Er komið nýtt hljóð í skrokkinn? Hvað má tala í margar mínútur um mál til að geta talað um "málþóf"? Hvað töluðu VG-liðar lengi um Kárahnjúkavirkjun, RÚV ohf., vatnalögin og einkavæðingu bankanna, svo dæmi séu nefnd? Hvað hafa Sjálfstæðismenn talað lengi um breytingar á sjálfum stjórnskipunarlögunum? Fjölmiðlar mættu gjarnan grafast fyrir núna, svo hægt sé að leggja mat á orðaskak þingmanna. Án þessara upplýsinga er erfitt að gera upp hug sinn, enda finnst sitt hverjum um mikilvægi langra ræðuhalda yfir tómum þingsalnum.


mbl.is Fjórða stigs málþóf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óska hér með eftir fréttum um:

Er ekki eins og Sigríður [Á. Andersen] segir orðið alveg útséð um að fréttamenn sjái eitthvað athugavert við „samfylkingarlýðræði“ vinstriflokkanna.

Já og hvaða fjölmiðill ætlar að segja frá því hvaða þingmaður græddi mest á „eftirlaunafrumvarpinu“?

Og hvaða fjölmiðill ætlar að benda á falsrök Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir seðlabankastjórafrumvarpinu?

Og hvaða fjölmiðill ætlar að rifja upp verðlaunaveitingu Gylfa Magnússonar til Kaupþings, fyrir öran vöxt og öfluga útrás?

 Texti tekinn héðan. Fjölmiðlamönnum leiðist greinlega mikið þessa dagana miðað við fjöldann af prófkjörsframboðum sem eru settar á forsíður fréttamiðlanna. Hví þá ekki að nýta tímann og grafa aðeins í fyrri orðum og gjörðum ýmissa háttvirtra þingmanna og ráðherra, og bera saman við fagurgala og lofræður um sjálfa sig? Slíkt hefði a.m.k. mikið skemmtanagildi, fyrir utan að vera gott aðhald fyrir hóp manneskja sem þjáist af lélegu langtímaminni.


Þrepin eru óendanlega mörg

Á sama tíma og hugmyndafræðisystkini Samfylkingarinnar, danskir miðjumenn, eru að henda út þrepum í skattkerfinu, þá talar Samfylkingin um að koma þeim á. Á sama tíma og Danir eru að uppgötva að þrepaskipt skattkerfi dregur úr atvinnu og hægir á hjólum hagkerfisins, þá talar Samfylkingin um að koma á þrepaskiptu skattkerfi, í miðri kreppu!

Það sem er samt sjaldan nefnt er að á Íslandi eru óendanlega mörg þrep í skattkerfinu. Með hverri krónutölubreytingu á launum landsmanna þá breytist skatturinn. Á Íslandi er svokallaður persónuafsláttur sem gerir það að verkum að maður með 100.000 kr í laun borgar 0% í skatt en maður með 1000.000 kr í laun borgar nálægt 37% í skatt. "Stóru bökin" bera hina íslensku skattbyrði, hvort sem mönnum líkar betur eða verra, og gera það í skattkerfi sem er a.m.k. hægt að skilja með lítilli þjálfun (ólíkt hinu danska).

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Samfylkingarkona, er einn óhæfasti stjórnmálamaður Íslands. Það væri ódýrara fyrir Íslendinga að borga henni milljón á mánuði fyrir að liggja á sólarströnd á Spáni en að hleypa henni inn á Alþingi Íslendinga.


mbl.is Vill skattkerfið í mörgum þrepum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband