Bloggfærslur mánaðarins, september 2017

Af hverju ekki fækka um 10 eða fjölga um 300?

Fjöldi atvinnuleyfa fyrir leigubíla á höfuðborgarsvæðinu er 580. Þetta er handahófskennd tala sem varð til á fundum opinberra starfsmanna eftir að hafa hlustað á ýmsa aðila tjá sig.

Hver er hin rétta tala? 20? 1000? Er einhver leið til að komast að því?

Já, og sú aðferð heitir frjáls markaður.

Tökum hliðstætt dæmi: Hvað þarf að reka margar ísbúðir á höfuðborgarsvæðinu til að mæta eftirspurn borgarbúa? Það veit enginn, en stanslausar þreifingar veitenda og kaupenda verða til þess að á sérhverjum tíma - dag og nótt, sumar og vetur - er nálægt því passlegur fjöldi ísbúða til að anna eftirspurninni.

Hvað þarf margar rútur til að keyra farþega til og frá Keflavíkurflugvelli? Það getur engin nefnd ákveðið en fjöldinn er á sérhverjum tíma nálægt því passlegur til að sinna öllum sem vilja komast til og frá flugvellinum.

Opinberar nefndir sem giska út í loftið valda í besta falli skorti eða offramboði en í versta falli ringulreið.

Gefum leigubílaakstur frjálsan, takk.


mbl.is Leigubílaleyfum fjölgað um 20
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun fylgið þjappast eða dreifast?

Skoðanakannanir sýna fylgi margra flokka á fleygiferð. Það hlýtur samt að fara koma í ljós hvort fylgið ætli að dreifa sér á marga flokka eða þjappast saman á stærri flokka.

Ekkert lát er á stofnun nýrra flokka sem dansa á bilinu 5-10% í könnunum. Litlu vinstriflokkarnir, Björt framtíð og Samfylkingin, eru á þessi reiki líka. Píratar eru við það að lenda í þessum hópi flokka. Ekki munu allir þessir flokkar lifa af kosningar og komast yfir 5% fylgið. Kjósendur mega alveg óttast að atkvæði greidd þeim verði töpuð atkvæði.

Fari svo að fólk forðist smáflokkana mun það ósjálfrátt skoða stærri flokkana betur og ljá þeim atkvæði sitt. Ég sé fyrir mér tvo turna: Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri-græna. Sjálfstæðisflokkurinn á sér mun færri bandamenn en Vinstri-grænir. Má þar helst nefna hina gömlu og nýju Framsókn, hvernig svo sem fer fyrir þeim í kosningunum. Til vinstri eru margir flokkar ólmir í að komast í ríkisstjórn. Allir sem komast yfir 5% eru tilbúnir að hoppa í sæng með Vinstri-grænum.

Ég held að samþjöppun muni eiga sér stað. Flokkunum sem ná fólki inn á þing mun fækka. Kjósendur munu vantreysta örflokkum sem hlaupa frá samstarfi um leið og baklandið ókyrrist (jafnvel án þess að segja eigin formanni frá því). 

En sjáum hvað setur. 


mbl.is Kjósendur virðast óöruggir segir Óttarr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nóg af njóla fyrir alla!

Borgarstjóri skríður nú fram í dagsljósið því kosningar til sveitarstjórna nálgast. Venjulega forðast hann óþægilegar spurningar (er þeim mun duglegri að klippa á borða) en núna neyðist hann til að takast á við þær.

Borgarstjóri er mjög greindur maður og myndarlegur. Hann hefur þokka og kann á hinn pólitíska leik. Hann sá t.d. fyrir vandræði Samfylkingarinnar í landsmálunum fyrir ári síðan og kom ekki við þau með priki. 

Hann er hins vegar arfaslakur stjórnandi. Hvert eitt og einasta einkafyrirtæki með svona stjórnanda væri búið að láta hann taka pokann sinn fyrir löngu. 

Vonandi ber Reykvíkingum gæfa til að koma honum frá við næstu kosningar. Það krefst þess samt að eitthvað betra sé í boði. 


mbl.is Fleiri ábendingar um lyktarmengun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Börn notuð eins og skiptimynt

Það eru til margar leiðir til að hvetja fólk beinlínis til að nota börn eins og skiptimynt.

Ég sá þátt um daginn sem fjallaði um ættleiðingar frá Afríku. Vel stæðir Evrópubúar eru tilbúnir að borga vel til að fá barn til ættleiðingar. Þetta fé hvetur menn til að fara á stjá í Afríku og lokka foreldra til að afsala sér börnum sínum. Stundum er það gert með svikum og prettum - foreldrar halda að börn þeirra séu að fara í góða skóla í Evrópu og snúa svo aftur heim. Það skrifar undir pappíra sem duga til að koma börnunum úr landi með alla réttu pappírana. 

Þetta er mansal í nafni misskilinnar góðmennsku.

Það er rétt sem dómsmálaráðherra segir að það er varasamt að gefa þau skilaboð út til alheimsins að löggjafinn á Íslandi sé tilbúinn að framleiða landvistarleyfi fyrir barnafjölskyldur án formlegrar meðferðar. Menn afneita samt slíkri hættu og reyna þess í stað að mála sig sem engla í mannsmynd sem bjarga fátækum börnum frá því að vera snúið aftur til sinna heimalanda.

Í sumum menningarsamfélögum eru fullorðnir menn giftir smástúlkum. Þeir flakka með barnungar konur sínar um heiminn og veifa þeim eins og brothættum börnum og fá út á það landvistarleyfi, ókeypis húsnæði og bætur.

Í sumum menningarsamfélögum þykir engin skömm að vera upp á aðra kominn og jafnvel talinn ákveðinn réttur að geta það. Fólk með svoleiðis hugarfar hlýtur nú að líta til Íslands í auknum mæli (frekar en Svíþjóðar og Þýskalands þar sem allt félagslegt húsnæði er uppurið).

Ef það má ekki einu sinni ræða að taka upp lög og reglur þar sem sanngjörn og almenn málsmeðferð er höfð að leiðarljósi er illt í efni. 


mbl.is Skapi hættu á mansali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara eitt kosningamál: Skuldastaða ríkisins

Mikilvægasta málefni þingmanna næstu misseri er að finna leiðir til að lækka skuldir ríkisins. Um leið þarf að lækka skatta. Þetta hljómar kannski mótsagnarkennt en svo er ekki. Ríkissjóður skuldar of mikið og á honum hvíla að auki of miklar skuldbindingar. Skattgreiðendur og fyrirtæki þurfa líka að bæta lausafjárstöðu sína og fá aukið svigrúm til að athafna sig. 

Af hverju?

Jú, af því að það er eitthvað stórt að fara gerast í fjármálakerfi heimsins á næstu mánuðum.

Það er að fara renna upp fyrir heimsbyggðinni að Bandaríkin geta ekki staðið undir sínum skuldum. 

Það er að fara renna upp fyrir heimsbyggðinni að ríki eins og Ítalía, Spánn og fleiri eru tæknilega gjaldþrota. Þar eru skattar í hæstu hæðum og peningaprentvélarnar hætta bráðum að geta fóðrað skuldafíkn þeirra, og pólitískt ómögulegt er að gera nokkuð við útgjaldahliðina. Allt ber að sama brunni: Greiðslufall.

Þá fer af stað hrun. Það hrun verður ekki bara bankahrun heldur ríkissjóðahrun.

Auðvitað er allt gert til að fresta þessum keðjuverkandi viðburðum en það er hætt við að þegar einn dómínó-kubburinn fellur þá falli hinir líka.

Besta leiðin til að búa sig undir þessa viðburði er að skulda lítið og geta treyst því að í hagkerfinu séu fólk og fyrirtæki með góða skuldastöðu og svigrúm til að þefa uppi tækifæri í ólgusjónum, fjárfesta þar sem þess er þörf og taka bara þau lán sem stuðla að verðmætaskapandi framleiðslu.

Ekki dugir að hafa á bakinu níðþungan opinberan geira sem framfylgir þykku reglugerðabókasafni. Það þarf því að einkavæða, smækka ríkið og einfalda regluverkið.

Ekki dugir að stórir hlutar samfélagsins séu bundnir í heftandi ríkiseinokun. Það þarf því að einkavæða og smækka ríkið og auka sveigjanleika fólks og fyrirtækja til að aðlagast breyttum aðstæðum.

Umfram allt þarf ríkið svo að greiða niður skuldir sem hraðast og lækka alla þá skatta sem hægt er að lækka í gefnu stjórnmálaumhverfi.

Kjósendur þurfa að hafa varann á hérna. Það má ekki falla fyrir gylliboðum um að auka ríkisútgjöld. Sá sem skuldar mikið á háum vöxtum á ekki að auka neyslu sína eða reyna safna í sjóði á lágum vöxtum. Þetta er fyrsta regla heimilisbókhaldsins sem meira að segja hörðustu vinstrimenn virðast skilja heima hjá sér

Frambjóðendur sem tala fyrir minna ríkisvaldi sem skuldar ekkert eiga að njóta áheyrnar okkar.


mbl.is „Hótaði að taka þingið í gíslingu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snyrtileg lausn: Afnema tekjuskatt á launatekjur

Það er til góð leið til að auka kaupmátt launþega: Afnema tekjuskatt á laun þeirra.

Til að gæta jafnræðis þarf svo vitaskuld að afnema skatt á fjármagnstekjur (leigutekjur, hagnað fyrirtækja, útgreiddan arð osfrv.).

Ríkið þarf svo vitaskuld bara að einkavæða í ríkisrekstrinum til að lækka ríkisútgjöld samhliða afnámi tekjuskattsins.

Um leið þarf að klippa á hringrás tekna og bóta. Vinnandi fólk á ekki að þurfa bætur af neinu tagi - ekki vaxtabætur (sem renna í vasa útleigjenda), barnabætur (framfærsla barna á að vera á ábyrgð foreldra) eða neitt slíkt sem skerðist þegar laun hækka og dregur úr ávinningi þess að bæta við sig tekjum.

Svo þarf vitaskuld að fjarlægja aðgangshindranir að hinum ýmsu mörkuðum. Það er of dýrt að byggja og húsnæði er því dýrara en það þyrfti að vera. Það er of mikil vinna að stofna heilsugæslu og skóla og kostnaður við heilsugæslu og menntun er því of hár. Það er hægt að kaupa sér gleraugu og stærri brjóst og kvöldnám í forritun á samkeppnismarkaði frjálsra fyrirtækja. Hið sama ætti að gilda um allt annað, hvort sem það heitir læknisaðstoð eða menntun.

Svo þarf auðvitað að draga máttinn úr verkalýðsfélögunum sem geta sum hver hagað sér eins og mafían - lokað vinnustöðum, þvingað fólk til að sitja heima eða mergsjúga launþega til að kaupa glæsihallir undir yfirstjórn sína eða sumarbústaði sem bara sumir en ekki allir meðlimir kæra sig um.

Það er hægt að gera margt til að auka kaupmátt launa. Að auka flækjustig skattkerfisins er sennilega versta leiðin. 


mbl.is Lægstu launin duga ekki til framfærslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rökrétt afleiðing óskynsamlegrar stefnu

Svokallaðir þjóðernissinnar styrkja nú stöðu sína í fjölmörgum Evrópuríkjum. Þeir eru gagnrýnir á mikinn fjölda innflytjenda frá öðrum menningarheimum. Það má alveg vera án þess að fá á sig stimpilinn öfgamaður eða álíka.

Hugsum okkur bara venjulegt heimili. Húsráðandi heldur partý. Hann býður þar inn fólki sem hann veit að skilur hvaða húsreglur eru í gildi. Ekki pissa á gólfið. Ekki skeina þér í handklæðin. Ekki hrækja á aðra gesti. Og svo framvegis. 

Skyndilega mæta í partýið einstaklingar sem kunna ekki þessar húsreglur. Þeir skipa konunum að hylja hár sitt og andlit - jafnvel konum sem þeir eru ekki tengdir á neinn hátt. Þeir ætlast til að konur og börn þjóni þeim. Þeir hóta þeim sem gagnrýna þá lífláti eða aflimun. 

Þetta fær aðra gesti til að líða illa. Margir kjósa að yfirgefa partýið. Sumir þrauka og segja að það verði að sýna öllum siðum og venjum tillitssemi og gefa jafnvel hinum nýju gestum peninga. Smátt og smátt fá hinir nýju gestir að ráða öllu og aðrir gestir hlýða þeim í einu og öllu. Nú er partýið ekki lengur eins og upphaflega var áætlað. 

Þetta er e.t.v. ófullkomin samlíking en svona líður einfaldlega mörgu venjulegu fólki. Víða í Evrópu eru heilu hverfin og jafnvel borgirnar sem eru ekki taldar óhultar lengur - fyrir innfædda! Lögreglan veigrar sér við að skipta sér af málefnum þessara svæða. Börnin fá aðra menntun en innfæddir og læra aðra siði. Konurnar hika við að fá sér bílpróf eða sækja sér menntun. 

Kemur þá einhverjum á óvart að svokallaðir þjóðernissinnar skófli nú inn atkvæðum? 

Það ætla ég rétt að vona að sé ekki raunin.

Sjálfur gæti ég aldrei kosið þessa flokka þjóðernissinna af þeirri einföldu ástæðu að þeir eru oft sósíalistar að flestu ef ekki öllu leyti, og auðvitað rasistar. Þeir vilja ekki minnka ríkisvaldið heldur nota það til að níðast á ákveðnum hópum og borga undir aðra. 

Miklu frekar ætti að leggja niður velferðarkerfið og lækka skatta og búa til hvata fyrir duglegt fólk að byggja upp eigið líf í sátt og samstarfi við aðra, óháð uppruna, húðlit, kynhneigð, trú og allt það. Bandaríkin eru til dæmis land innflytjenda og það var aldrei neitt vandamál enda var þeim aldrei safnað saman í gettó þar sem þeir gátu lifað á kostnað annarra. Þýskaland er nú að verða land innflytjenda með mörg stór og alvarleg vandamál.


mbl.is Fylgi flokks þýskra þjóðernissinna eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gerð ábyrg fyrir lögum sem hún vill breyta og embættisverkum annarra

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, vill láta breyta lögum um uppreist æru og raun afnema þau með öllu. Þetta hefur hún ítrekað sagt undanfarnar vikur.

Sigríður Á. Andersen hefur ekki skrifað undir neina pappíra sem veita uppreist æru.

Sigríður Á. Andersen sýndi engin gögn til neins sem hafði ekki aðgang að þeim, ýmist núna eða í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Sigríður Á. Andersen hefur ekki lekið neinum upplýsingum um einkamál neins né brotið lög um upplýsingaskyldu yfirvalda. 

Allt þetta kemur fram í grein eftir hana og enginn hefur gert sig líklegan til að véfengja. Eða jú, einhvers staðar sá ég skrifað að ráðuneyti Sigríðar hefði sjálft átt að ákveða hvað mátti upplýsa og hvað ekki í stað þess að leita eftir úrskurði. Mikið er þá vald ráðuneyta sem meðhöndla persónuupplýsingar orðið! 

Um hvað snýst allt þetta mál þá? Jú, að einn stjórnarflokkanna vantaði afsökun til að segja sig úr ríkisstjórn!

Smáflokkur í útrýmingarhættu hleypti af blysi og allir keppast nú við að hlaupa á eftir blossanum. 

Dýpra ristir íslensk pólitík ekki alltaf, því miður.


mbl.is Sigríður aftur á fund þingnefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ringulreiðin heldur áfram, eða hvað?

Skoðanakannanir benda nú til að á þingi verði hafsjór af smáflokkum sem fá menn kjörna á þing auk tveggja "turna" - Vinstri-grænna og Sjálfstæðisflokks.

Er líklegt að kosningar fari með þeim hætti? Ég held ekki.

Ég held að Viðreisn, Björt framtíð og jafnvel Samfylkingin svo gott sem þurrkist út. Píratar munu standa í stað. Fylgið hleðst enn frekar utan á turnana tvo. Flokk fólksins veit ég lítið um en margir tala illa um hann sem bendir til þess að hann fái mikið óánægjufylgi og stækki eitthvað. Framsóknarflokkurinn hefur ekki gert neitt að ráði undanfarna mánuði en er samt með 10% fylgi og stendur því kannski í stað (nema Lilja Alfreðsdóttir verði leidd fram á vígvöllinn, en hún höfðar sennilega vel til margra).

Hvernig á svo að púsla saman stjórn?

Píratar eru að breytast. Þar er Helgi Hrafn nú leiddur fram sem forystumaður í stað Birgittu. Kannski þýðir það að það verður hægt að ræða við Pírata, og að hann geti því myndað stjórn með öðrum hvorum turninum.

Framsóknarflokkurinn verður líklega viðræðuhæfur líka hvort sem þær viðræður eru við Vinstri-græna eða Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur alltaf sínar kröfur en fái hann þær uppfylltar er hann yfirleitt til í tuskið.

Sennilega mun enginn vilja snerta Flokk fólksins með priki svo hann fær að vera hávær óánægjuflokkur og jafnvel vaxa og dafna í þeirri stöðu. 

Vonandi tala flokkarnir skýrt fyrir kosningar. Vilja þeir stærra ríkisvald eða minna? Vilja þeir hærri skatta eða lægri? Vilja þeir færa völd til einstaklinga eða ríkis og fyrirtækja? Kjósendur sem heyra svokallaðan hægriflokk tala um stærra ríkisvald verða bara ringlaðir og enda á að kjósa vinstriflokk. Kjósendur sem heyra vinstriflokk tala um samkeppnishæfni og atvinnusköpun verða líka bara ringlaðir. 

Það er rangt sem sumir segja að hugtökin "hægri" og "vinstri" séu úrelt. Þú ert annaðhvort á því að ríkið eigi að ráða meira en í dag eða minna. Og flokkarnir eiga að tala skýrt en ekki reyna að fela sig á bak við orðagljáfur.


mbl.is Með jafnt fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppreist æru og ríkisstjórnarsamstarfið: Óskyldir hlutir

Ekkert af því sem hefur verið rætt um uppreist æru, bréf, barnaníðinga, foreldra ráðherra, trúnað og upplýsingaskyldu kemur ríkisstjórnarsamstarfinu við. Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfinu því hún þoldi ekki niðurstöður skoðanakannanna. Aðrar ástæður sem gefnar hafa verið upp eru einfaldlega málinu óviðkomandi og bara notaðar sem afsökun.

En er hægt að áfellast Bjarta framtíð fyrir að slíta samstarfi sem virðist ekki gagnast fylgi flokksins? Kannski og kannski ekki. Kannski eru þar innanborðs einstaklingar sem þola mótlæti illa eða hafa lítið úthald. Kannski eru þar einstaklingar sem hafa alist upp við að geta alltaf kennt öðrum um eigin gjörðir. Kannski var einfaldlega óþolandi að sitja fundi með öðrum flokkum. Kannski langar Bjartri framtíð frekar að vera í sæng með Vinstri-grænum. Það má velta ýmsu fyrir sér.

Úr því Björt framtíð var hvort eð er að leita að afsökun til að slíta stjórnarsamstarfinu hefði verið ábyrgast að bíða þar til einhvern tímann eftir áramót og finna þá aðra átyllu. Þá væri hægt að kjósa að vori til og rétta af kjörtímabilið svo það byrji ekki í miðri fjárlagavinnu. 

Hvað sem því líður hverfur nú Björt framtíð í ruslatunnu sögunnar. Aðrir flokkar hirða upp atkvæðin. Það á eftir að koma í ljós hvort Viðreisn fari sömu leið. 

Næstu kosningar verða spennandi. 


mbl.is Ráðherrum heimilt að kynna sér gögnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband