Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014

Íslendingar eiga að selja fiskiskipin sín

Íslendingar eiga alltof mörg fiskiskip. Fiskiskip geta veitt miklu meira á hvern áhafnarmeðlim en smábátar. Smábátar eru því atvinnuskapandi miðað við fiskiskipin. Ef Íslendingar seldu öll fiskiskip sín og tækju upp smábátaútgerð í staðinn væri hægt að útrýma atvinnuleysi á Íslandi.

Íslendingar geta líka smíðað bíla og saumað föt úr leðri og fiskiroði. Innflutningur á bílum og fatnaði er sóun á dýrmætum gjaldeyri og ber að torvelda. Íslendingar geta fært sig nær sjálfsþurftarbúskap með því að beita tollum og sköttum og hreinlega boðum og bönnum.

Gallinn við að spara gjaldeyrinn og koma öllum Íslendingum í vinnu við að gera hlutina á frumstæðan en þjóðlegan hátt er samt sá að lífskjör Íslendinga tækju dýfu niður á við. Íslendingar tækju ekki lengur þátt í verkaskiptingu heimsins þar sem hver og einn einstaklingur finnur eitthvað til að sérhæfa sig í að gera á samkeppnishæfan hátt, og skipta svo á þeirri vinnu við aðra sem gera hið sama einhvers staðar annars staðar í heiminum. Íslenskur forritari tæki ekki þátt í verkaskiptingu við fataframleiðanda í Asíu, svo dæmi sé tekið. Báðir sætu í sitthvoru horninu á heimskortinu, ynnu með lélegri forrit en ella og yrðu að eyða meira fé í verri klæði en ella, og draga þar með úr lífsgæðum sínum miðað við það sem áður var. Hvorugur hefði efni á að leggja fé til hliðar og fjárfesta í arðsömum framkvæmdum og endurbótum þar sem meira fjármagn kæmi í stað meiri vinnu og gerði vinnustundina um leið verðmætari. 

En á Íslandi væri nóg af vinnu og innlendri og þjóðlegri framleiðslu. Það finnst mörgum svo mikilvægt. Þess vegna grýta Íslendingar höfnina sína með viðskiptahindrunum og annarri eins gapandi vitleysu. 


mbl.is Neikvætt viðhorf til alþjóðavæðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skatt'svik' hafa marga kosti

(Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að ég vil ekki hvetja neinn til að fremja lögbrot né lýsa yfir stuðningi við lögbrot í sjálfu sér. Minn punktur verður sá að það sem er í dag kallað lögbrot, t.d. skattsvik, hafa ýmsa kosti í för með sér.)

"Skattsvik" eru framin innan ferðaþjónustunnar. Kemur það á óvart?

Ferðaþjónustan er sá atvinnuvegur sem vex hvað mest þessi misserin á Íslandi. Hvernig stendur á því?

Íslensk ferðaþjónusta er af fullum krafti að aðlaga sig að þörfum ferðamanna til að laða þá að sér. Boðið er upp á allskonar þjónustu og ferðir og allskyns tegundir "upplifunar". Gistihús eru reist, aðstaða er byggð og úrval af öllu aukið.

Þetta er mjög lifandi iðnaður og fyrir vikið hefur verið hægt að bjóða upp á meira og meira fyrir fleiri og fleiri, að því marki að mörgum finnst nú nóg um alla ferðamennina.

Þetta er hægt meðal annars af því að fólk tekur áhættu. Það leggur fé sitt undir og vonar að fjárfestingin skili arði. Hrós til þeirra sem fjárfesta og taka áhættu!

Þetta er líka hægt af því að margir taka áhættu gagnvart yfirvöldum. Fólk opnar gistiheimili en á meðan reksturinn er að komast á laggirnar er e.t.v. tekið meira við reiðufé en kortum og virðisaukaskattur kannski látinn eiga sig. Ég er viss um að margur reksturinn í kringum íslenska ferðaþjónustu væri dauðadæmdur ef skattþunginn legðist á hann af fullum þunga.

Ferðaþjónustan á Íslandi er að draga að sér fleiri og fleiri ferðamenn sem taka með sér meira og meira fé og á því græða flestir á Íslandi, þar á meðal stjórnmálamenn. Væri það raunin ef ferðaþjónustan greiddi alla skatta af öllu í topp?  

Ég spyr mig. 

Kannski er lausnin svo ekki að senda fleiri og fleiri jakkafataklædda embættismenn frá höfuðborginni útá land til að opna hverja hirslu og leita að "ótöldum tekjum". Kannski eru skattar bara of háir og kæfandi! Kannski er ferðaþjónustubóndinn duglegur að bjóða upp á þjónustu og kann að byggja flotta aðstöðu en drukknar fljótlega þegar pappírsflóðinu er hellt yfir hann. Kannski þarf hann hjálp. Kannski er besta hjálpin sú að einfalda kerfið og lágmarka skaðann af skattheimtunni með minnkun hennar.  


mbl.is Umtalsverð skattsvik í ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirfram afskrifuð lán

Lán til Spánar er hægt óhætt hægt að afskrifa um leið og búið er að veita það. Það mun aldrei verða greitt til baka. Hið sama gildir um lán til fjölmargra annarra ríkja.

Þessi lán verða "afgreidd" en ekki greidd upp, a.m.k. ekki af lántakandanum. Margar leiðir eru til þess að losna við skuldirnar: 

  • Ganga til nauðasamninga og fá afskriftir.
  • Prenta peninga upp í skuldirnar og borga þær þannig með rýrnun kaupmáttar.
  • Hreinlega lýsa því yfir að lán verði ekki greidd aftur (eigur opinberra eininga er yfirleitt ekki hægt að hirða upp í skuldir eins og gengur og gerist með almúgann og fyrirtæki).
  • Sníkja af Þjóðverjum og láta þá borga (bráðum hættir það samt að ganga).

Lífeyrissjóðir, Kínverjar og aðrir kaupa skuldabréf tæknilega gjaldþrota ríkja af ýmsum ástæðum og þurfa í raun Spán og önnur gjaldþrota ríki til að "koma peningum í verð" (lán til Spánverja borga þokkalega vexti á pappírunum). Pólitísk pressa er á matsfyrirtækjunum að halda lánaþurfi ríkjum (a.m.k. þeim stóru) á floti og lánshæfi þeirra ofan við ruslflokk.

Kínverjar og aðrir kaupa skuldir í Evrópu til að krækja sér í pólitísk áhrif. Hver veit, kannski munu Kínverjar dag einn geta "samið um" aðgang að auðlindum Norður-Atlantshafsins í gegnum skuldaniðurfellingaviðræður við ESB?

Spánn er jafngjaldþrota núna og árið 2008. Fátt hefur breyst. Að lánshæfiseinkunn Spánar sé á uppleið er til marks um eitthvað allt annað en að spænskir skattgreiðendur geti borði þyngri byrðar. 


mbl.is Lánshæfiseinkunn Spánar og Grikklands hækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálamenn í Matador

Stjórnmálamenn haga sér stundum eins og þeir séu í Matador (eða Monopoly, eftir smekk). Þessi samlíking er alveg ótrúlega viðeigandi: 

  • Þeir eru að leika sér með annarra manna fé, eða fé sem þeir tapa án afleiðinga fyrir sjálfa sig (eigin bankareikning).
  • Þeir fá borgað hvort sem spilið gengur vel eða illa.
  • Þeir fá lífeyri hvort sem spilið gengur vel eða illa.
  • Óttinn við að tapa öllu er í lágmarki því það að tapa öllu hefur lítil persónuleg áhrif á þá. Þeir eru því tilbúnir að leggja meira undir en ella - taka meiri áhættu í von um meiri ágóða svo spilið verði skemmtilegra.
  • Þeir fá tækifæri til að stjórna flottum eignum og ráðskast með þær, innheimta leigu af notkun þeirra , kaupa og selja og ákveða skilmála fyrir aðra. 
  • Þeir eru í miklu stuði á meðan á spilinu stendur en vita að það tekur enda, enda eru þeir bara tímabundnir umsjónarmenn en ekki eigendur í raun, og eru því gjarnan með hugann við annað, t.d. hvaða eign á að ráðskast með næst.

 Að heyra stjórnmálamenn tala um hvað verðið eigi að vera, hvaða framkvæmdir þurfi að fara í og á hvaða skilmálum eigi að gera hitt og þetta, eða sleppa því að gera hitt og þetta, minnir á tal krakka að spila borðspil með gervipeningum.  

Ríkisvaldið á ekki að eiga eina einustu eign, hvort sem um er að ræða byggingu, fyrirtæki eða land. Stjórnmálamenn eru tímabundnir umsjónarmenn sem sitja á löggjafarsamkomu og segja alltof mörgum embættismönnum fyrir verkum. Þeir eiga að sjá um að ríkisvaldið sinni fyrirframákveðnum verkefnum fyrir hönd kjósenda sinna. Þeir eiga ekki að spila borðspil með fyrirtæki.  


mbl.is Vill skoða sölu á hlut í Landsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland: Draumaland svarta markaðarins?

Getur verið að Ísland sé draumaland svarta markaðarins? Lítum framhjá því að oft getur verið erfitt að smygla inn til landsins. Á móti kemur er ávinningurinn af því að takast vel upp mikill.

Íslendingar banna yfirleitt eins mikið og þeir geta. Sé eitthvað bannað í Svíþjóð en ekki Noregi er það bannað á Íslandi. Sé eitthvað bannað í Danmörku en ekki Svíþjóð er það líka bannað á Íslandi. Íslendingar apa upp boðin og bönnin en hika við að leyfa.

Í Svíþjóð má framleiða og selja munntóbak, bæði í lausu en einnig í hentugum litlum pokum. Í Danmörku má selja þetta í lausu en ekki það í pokunum (það er samt gert víða í löglegum verslunum gegn því að kallast tyggitóbak en ekki munntóbak). Í Noregi er hægt að kaupa munntóbak í miklu úrvali í öllum matvöruverslunum. Á Íslandi er hið sænska munntóbak bannað með öllu. Dósin af því er rándýr á hinum íslenska svarta markaði.

Í Danmörku er hægt að kaupa sérstakar rafsígarettur og vökva í þær, með og án nikótíns. Á Íslandi er vökvinn með nikótíni tæknilega bannaður enda nikótín flokkað sem "lyf" og því vafið inn í reglur og rándýr leyfi. Svartur markaður með nikótínvökva fer ört vaxandi á Íslandi.

Í Danmörku geta einstaklingar allt niður í 16 ára aldur keypt bjór í hvaða búð og sjoppu sem er, allan sólarhringinn alla daga ársins. Í Noregi er áfengiskaupaaldurinn aðeins hærri, en bjórinn fæst í öllum matvöruverslunum til kl. 20 á kvöldin. Í Svíþjóð er sérstök ríkisverslun með áfengi. Íslendingar ganga auðvitað jafnlangt og sá sem lengst gengur. Landabruggarar brosa og græða á því. Unglingar drekka jafnvel mengað áfengi.

Dönum datt í hug að setja á sérstakan sykurskatt til að sporna við sykurneyslu Dana og moka fé í ríkissjóð (og um leið styrkja þýska sælgætisframleiðslu). Íslendingar fengu sömu hugmynd.

Í Danmörku er heimilt að leyfa reykingar innandyra á skemmti- og veitingastöðum sé útbúið sérstakt reykrými (eins og IKEA býður upp á í Danmörku) eða á öllu þjónustuflatarmálinu sé það undir 40 fermetrar að stærð (eitthvað sem gerir litlu rónapöbbunum kleift að halda kúnnunum innandyra). Íslendingum datt aldrei neitt slíkt í hug. Þeir bönnuðu bara eins mikið og þeir gátu. Þeir fundu harðasta bannið og hermdu eftir því.

Í Danmörku er ýmislegt bannað en um leið umborið. Eitt dæmi eru hassreykingar. Lögreglan veit vel hvar hasshausar safnast saman og hver er að selja þeim. Lögreglan fer í einstaka herferð til að friða siðapostulana en lætur svo eins og ekkert vafasamt sé í gangi. Á Íslandi er tekið eins hart á minnstu fíkniefnanotkun og hægt er. 

Er eitthvað skrýtið að lögreglan á Íslandi hafi ekki undan þegar kemur að alvöruglæpum? Hið opinbera lengir og lengir í verkefnalista hennar. Lögreglan eyðir örugglega meiri tíma í að eltast við friðsama borgara en glæpamenn. Fangelsin eru fyllt af fólki sem hefur aldrei sett hnefa í andlit neins eða þvingað neinn til neinna viðskipta. Úr fangelsinu "útskrifast" fólk svo með blettótta sakaskrá og góða þjálfun í glæpastarfsemi.

Dettur engum í hug að spyrna við þessari þróun? Er ekki kominn tími til að sparka í fílabeinsturninn sem ríku, valdamiklu og fríhafnarheimsækjandi vínþambararnir sitja í og líta úr og niður á okkur hin? 


Verkfallsstéttirnar í ham

"Verkfallsstéttirnar" sem ég kalla sem svo eru í miklum ham þessa mánuðina. Verkfallssjóðir þeirra eru fullir eftir verkfallshlé á meðan vinstristjórn var við völd en nú skal gengið á þá. 

Verkfallsstéttirnar njóta sérstakrar verndar löggjafans til að leggja niður störf og meina öðrum að fylla þau á meðan. Þær stéttir sem njóta ekki slíkrar verndar horfa sennilega með öfund upp á þessi forréttindi. Sjálfur fengi ég uppsagnarbréf mjög fljótlega ef ég legði niður vinnu. Ég er samt ekki öfundsjúkur út í forréttindi verkfallsstéttanna. Mig langar ekki í forréttindi. Ég vil bara að mér sé ekki meinað að geta samið um mín laun við minn atvinnuveitanda, með misgóðum árangri að vísu en það er önnur saga. 

Hinar "friðsælu stéttir" halda samfélaginu gangandi á meðan verkfallsstéttirnar berja í borð, loka vinnustöðum, kyrrsetja flugvélar, læsa kennslustofum og skrúfa fyrir sturtuhausinn fyrir ofan eldra fólk. Það er nú þrátt fyrir allt ágætt.


mbl.is Seinna fram úr rúmum vegna verkfalls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vítahringur sem þarf að rjúfa

Kennarar láta félag semja fyrir sína hönd og fyrir hönd þeirra allra. Þetta félag getur notað ríkisvaldið til að verja félagsmenn sína fyrir uppsögnum þegar þeir leggja niður vinnu í kjaradeilu. Kennarar leggja reglulega niður vinnu. Þeir safna í verkfallssjóð til að búa sig undir að leggja niður vinnu. Þeir uppskera einhverjar taxtahækkanir en aldrei þannig að þeir verði sáttir mjög lengi í einu. Ósáttur en góður kennari getur ekki samið sig út úr þessum vítahring (nema taka að sér allskyns stöður yfirmanns eða umsjónarmanns yfir einhverju innan vinnustaðar síns).

Er ekki kominn tími til að rjúfa þennan vítahring? Ein leið til að gera það væri að breyta lögum og taka meintan "verkfallsrétt" af kennurum og raunar öllum "stéttum". Auðvitað mega allir leggja niður vinnu en að meina öðrum aðgang að starfinu á sama tíma er þvingun.

Sú goðsögn lifir góðu lífi (fjármögnuð af verkalýðsfélögunum sjálfum, en líka studd af skólakerfinu) að verkalýðsfélög hafi komið á "kjarabótum" sem ná til almennings alls, og hafi á einhvern hátt stuðlað að bætingu lífskjara á Vesturlöndum. Sú goðsögn er ósönn. Verkalýðsfélög koma á kjarabótum fyrir félagsmenn sína á kostnað annarra. Þess vegna óska verkalýðsfélög ekkert sérstaklega eftir ófaglærðum innflytjendum eða skólakrökkum í sínar raðir, því slík fjölgun á félagsmönnum yrði augljóslega til að veikja samningastöðu þeirra ("við viljum meira fyrir okkar félagsmenn"). Hinir "óhreinu" eiga að slást um störfin sem verða eftir þegar verkalýðsfélög, oft með vernd ríkisvaldsins, hafa þvingað laun sinna félagsmanna upp fyrir markaðslaun og þannig valdið atvinnuleysi meðal hinna utan félagsins.

Þau verkalýðsfélög sem hleypa öllum inn í sínar raðir finnast vissulega. Þau beita þeirri aðferð að bjóða upp á sumarhús og gleraugnastyrki og önnur slík "fríðindi" til að hylma yfir þá staðreynd að þau geta ekki hækkað laun meira en gengur og gerist á markaðinum í kringum þau. Þau ná kannski 1% hækkun umfram verðlag eitt árið, en ríkisvaldið stekkur þá til og prentar peninga og rýrir kaupmátt þeirrar hækkunar niður að markaðskjörum aftur. Þess vegna eru langtímalínurit af almennum "launatöxtum" og andhverfu rýrnunar í kaupmætti íslensku krónunnar (verðbólgan) nokkuð svipuð. 

Ég mæli með því að sem flestir segi sig úr sínu verkalýðsfélagi, berjist fyrir afnámi sérstakrar verndunar ríkisvaldsins á verkföllum þeirra og leyfi hverjum og einum að semja fyrir sig, og bara sig. Í leiðinni mætti einkavæða 99% af ríkisrekstrinum svo þeir launasamningar geti átt sér stað á milli tveggja einkaaðila (einkafyrirtækis og einstaklings) og hætt að verða að forsíðufrétt á þriggja til fimm ára fresti.  


mbl.is Verkfall hjá kennurum í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

400 milljónir í súginn á ári

Samkeppniseftirlitið svokallaða kostar íslenska skattgreiðendur um 400 milljónir í ár, eða 50 milljónum meira en í fyrra, eða 75 milljónum meira en árið þar á undan (á gildi verðlags hvers árs að vísu). Hver króna sem fer í rekstur Samkeppniseftirlitsins er sóun á fé. 

Samkeppni var til áður en Samkeppniseftirlitið (og fyrirrennarar þess, allskyns verðlagsráð og þess háttar) var sett á laggirnar. Samkeppnislög svokölluð eru notuð eins og barefli af fyrirtækjum til að berja á keppinautum sínum. Það er atvinnuskapandi fyrir lögmenn en sóun á fé annarra. Samkeppnislög hindra halda aftur af samkeppni á marga vegu, t.d. með því að koma í veg fyrir ýmsar tegundir hagræðingar hjá fyrirtækjum (t.d. sameining þeirra) sem aftur heldur uppi verðlagi og óhagkvæmni á tilteknum markaði og fælir hugsanlega nýja samkeppnisaðila frá honum.

Ég geri mér grein fyrir að það sé erfitt að sjá fyrir sér heiminn án Samkeppniseftirlitsins. Það er af því að bæði tilvist þess og afnám breytir framtíðinni. Það eina sem sést er að Samkeppniseftirlitið er til í dag. Enginn veit hvernig heimurinn liti út án þess.

Vinsælt er að halda að án Samkeppniseftirlitsins muni "samkeppni minnka" því enginn sé til staðar til að skrifa niður verð á bensínlítranum á hinum ýmsu bensínstöðvum og bera saman. Ég segi hins vegar: Samkeppni mun aukast, því minna regluverk greiðir leið nýrra aðila að markaði. Reglufrumskógurinn er dýr og heldur uppi verði og það ver markaðsaðila sem eru nú þegar með stóra "markaðshlutdeild" og stórt teymi lögfræðinga. Einfaldara og minna regluverk laðar að frumkvöðla sem eru e.t.v. ekki þeir sterkustu í lögfræðinni og kunna ekki mjög mikið fyrir sér í bókhaldi, en gætu kannski boðið betri þjónustu á betra verði en risarnir á markaðnum í dag. Hver veit, kannski kæmu fleiri útlendingar til Íslands til að blása til blússandi samkeppni!

Samkeppniseftirlitið er þröskuldur sem heldur mögulegum samkeppnisaðilum úti. Samkeppniseftirlitið einblínir á núverandi markaðsaðstæður og heldur breytingum á þeim í skefjum. Það segir fyrirtækjum að lækka verð ef því finnast það of hátt, hækka verð ef því finnst það of hátt, og breyta verðum ef öll verð eru farin að líkjast hverju öðru. Þetta er óaðlaðandi rekstrarumhverfi fyrir ófædd fyrirtæki sem gætu, en gera ekki, boðið upp á aukna samkeppni (þar sem ég skilgreini "samkeppni" sem auðvelt aðgengi að markaði, án lagahindrana og lágmarks-eitthvað-ákvæða).  

Samkeppniseftirlitið má leggja niður með breytingum á löggjöf, og á morgun þess vegna. Ekkert þyrfti að koma í staðinn. Þessar 400 milljónir sem spöruðust gætu nýst í eitthvað annað, t.d. skattalækkanir á fyrirtæki. 


mbl.is Starfsmennirnir með mökum til Marokkó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausn allra verkfalla: Uppsagnir

Til að leysa öll verkföll til frambúðar þarf bara eitt að gerast: Að leyfa fyrirtækjum á ný að segja upp starfsmönnum sem leggja niður vinnu.

Þannig færi fyrir mér á mínum vinnustað.

Ef laun væru í raun og veru of lág þá kæmi enginn starfsmaður í stað þeirra sem var sagt upp vegna verkfalls, eða bara lélegir starfsmenn sem kosta mikla þjálfun og gera viðskiptavinina fráhverfa fyrirtækinu. Ef laun væru ekki of lág væri hægt að fylla skörð starfsmanna sem fóru í verkfall vegna launa, á gömlu laununum eða jafnvel lægri.

Það sem kemur að miklu leyti í veg fyrir að launafólk og atvinnurekendur geti samið frjálst og óþvingað um laun eru lög sem heimila sumum að fara í verkfall en halda störfunum uppteknum og koma í veg fyrir að þau megi fylla af öðru fólki.

Þetta er þvingun.

Annað dæmi um þvingun er þjófur sem brýst inn í eitthvert húsið um hábjartan dag og sest í sófann í stofunni. Heimilisfólkið biður þjófinn um að fara - hann sé að taka pláss í sófanum en eigi að vera úti. Hann neitar að fara fyrr en ákveðinn hluti af eigum heimilisfólksins sé færður honum. Lögreglan segist ekkert geta gert. Heimilisfólkið hefur engra kosta völ, afhentir þjófnum nokkra af hlutum heimilisins, og þjófurinn fer. Hann var kannski garðyrkjumaður heimilisfólksins og heldur því áfram eftir að hafa hirt úr húsinu. Plássið sem hann skilur eftir sig í sófanum er núna aftur til ráðstöfunar.


mbl.is Ógnar 500 flugferðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seljið söfnin

Spurning: Hvernig er best að varðveita dýrmæt listaverk eða forngripi til langrar framtíðar? 

Svar: Með því að selja þau til einkaaðila.

Sá sem á passar betur upp á hlutina en sá sem sér um. Maður sem kaupir dýrt listaverk gerir það sem hann getur til að passa að það rýrni ekki í verðgildi. Frímerkjasafnarar eru gott dæmi um það. Sá sem fær að blaða í bók frímerkjasafnara finnur augnaráð eigandans brennimerkja sig á meðan á flettingu stendur. Samræður eiga sér varla stað á meðan, enda eigandinn svo hræddur um að sá sem skoðar fari að káfa og rugla röðinni á frímerkjunum.

Engin ástæða er til að gera varðveislu verðmæta að pólitísku þrætuepli. Betra er að koma verðmætum í hendur eigenda - einkaaðila sem hafa persónulegan hag af varðveislu. Hvort þeir bjóði upp á að verðmætin séu til sýnis og skoðuð af ferðamönnum eða er önnur saga. Að hafa hluti til sýnis er oft slæmt með tilliti til varðveislu. Besta loftslagið fyrir gamalt málverk er ekki endilega besta loftslagið fyrir ferðmenn í stuttbuxum.

Ætli einhver stingi upp á því innan ítalska ríkisvaldsins að selja öll verðmæti sem liggja nú undir skemmdum? Eru pólitísk umsvif og yfirráð e.t.v. mikilvægari en varðveislan sem er notuð sem rök fyrir pólitísku umsvifunum og yfirráðunum?  


mbl.is Listaverk í hættu vegna fjárskorts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband