Íslendingar eiga að selja fiskiskipin sín

Íslendingar eiga alltof mörg fiskiskip. Fiskiskip geta veitt miklu meira á hvern áhafnarmeðlim en smábátar. Smábátar eru því atvinnuskapandi miðað við fiskiskipin. Ef Íslendingar seldu öll fiskiskip sín og tækju upp smábátaútgerð í staðinn væri hægt að útrýma atvinnuleysi á Íslandi.

Íslendingar geta líka smíðað bíla og saumað föt úr leðri og fiskiroði. Innflutningur á bílum og fatnaði er sóun á dýrmætum gjaldeyri og ber að torvelda. Íslendingar geta fært sig nær sjálfsþurftarbúskap með því að beita tollum og sköttum og hreinlega boðum og bönnum.

Gallinn við að spara gjaldeyrinn og koma öllum Íslendingum í vinnu við að gera hlutina á frumstæðan en þjóðlegan hátt er samt sá að lífskjör Íslendinga tækju dýfu niður á við. Íslendingar tækju ekki lengur þátt í verkaskiptingu heimsins þar sem hver og einn einstaklingur finnur eitthvað til að sérhæfa sig í að gera á samkeppnishæfan hátt, og skipta svo á þeirri vinnu við aðra sem gera hið sama einhvers staðar annars staðar í heiminum. Íslenskur forritari tæki ekki þátt í verkaskiptingu við fataframleiðanda í Asíu, svo dæmi sé tekið. Báðir sætu í sitthvoru horninu á heimskortinu, ynnu með lélegri forrit en ella og yrðu að eyða meira fé í verri klæði en ella, og draga þar með úr lífsgæðum sínum miðað við það sem áður var. Hvorugur hefði efni á að leggja fé til hliðar og fjárfesta í arðsömum framkvæmdum og endurbótum þar sem meira fjármagn kæmi í stað meiri vinnu og gerði vinnustundina um leið verðmætari. 

En á Íslandi væri nóg af vinnu og innlendri og þjóðlegri framleiðslu. Það finnst mörgum svo mikilvægt. Þess vegna grýta Íslendingar höfnina sína með viðskiptahindrunum og annarri eins gapandi vitleysu. 


mbl.is Neikvætt viðhorf til alþjóðavæðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband